Niðurlagning stöðu. Samþykki veitingarvaldshafa á niðurlagningu stöðu. Skylda stjórnvalda til að varðveita gögn um afgreiðslu mála. Sönnunargildi yfirlýsingar fyrrverandi ráðherra.

(Mál nr. 1355/1995)

A kvartaði yfir úrskurði heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins þess efnis að forstjóri Tryggingastofnunar ríkisins hefði staðið löglega að því að leggja niður stöðu hans sem deildarstjóra lána- og innheimtudeildar tryggingastofnunar, vegna sameiningar þeirrar deildar við lífeyrissjóðadeild stofnunarinnar. Umboðsmaður tók fram, að samkvæmt 7. og 10. gr. laga nr. 38/1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, yrði almennt ráðið að sá er veitti starf veitti jafnframt lausn frá því. Samkvæmt 2. mgr. 3. gr. laga nr. 117/1993, um almannatryggingar, skipar ráðherra deildarstjóra og varð því við það að miða að þeir starfsmenn sem ráðherra skipar yrðu einnig leystir frá störfum af ráðherra. Umboðsmaður tók fram að lög nr. 97/1974 um eftirlit með ráðningu starfsmanna og húsnæðismálum ríkisstofnana, gerðu ráð fyrir því að gengið skyldi frá skipun, setningu eða ráðningu skriflega, þ.e. með sérstöku skipunar- eða setningarbréfi, sbr. Hrd. 1986:1657. Yrði að gera ríkar kröfur til þess að ákvarðanir um skipun, setningu eða ráðningu ríkisstarfsmanna væru ótvíræðar að efni og hið sama gilti um starfslok. Ákvörðun í máli þessu laut annars vegar að breytingum á deildaskipan tryggingastofnunar og hins vegar að því að leggja niður stöðu A. Samkvæmt 3. málsl. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 117/1993 var heimild forstjóra tryggingastofnunar til að breyta deildaskipan stofnunarinnar bundin því að samþykki tryggingaráðs og ráðherra lægi fyrir. Fyrirhuguð sameining deilda var rædd á fundi tryggingaráðs í janúar 1994, en fundargerð bar ekki með sér að formleg samþykkt hefði verið gerð. Í bréfi til ráðuneytisins frá 29. apríl 1994 lýsti tryggingaráð því að það hefði áréttað fyrra samþykki sitt um sameiningu deildanna. Umboðsmaður taldi að samþykkis tryggingaráðs yrði að afla fyrirfram, en samþykki lá samkvæmt þessu ekki fyrir er forstjóri Tryggingastofnunar ríkisins ákvað sameiningu. Um samþykki heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra lágu engin gögn fyrir í skjalasafni ráðuneytisins, en forstjóri tryggingastofnunar lagði fram yfirlýsingu fyrrverandi ráðherra, þar sem fram kom að sameining deilda hefði verið rædd og hann hefði ekki gert athugasemdir við sjálfar skipulagsbreytingarnar, en gert þann fyrirvara að náð yrði sátt um starfsmannamál og farsælli niðurstöðu í máli A. Við mat á þýðingu yfirlýsingar ráðherra fyrir málið vísaði umboðsmaður til dóma Hæstaréttar um sönnunargildi og þýðingu slíkra yfirlýsinga fyrrverandi ráðherra (Hrd. 1945:298, Hrd. 1986:1657 og Hrd. 1980:1068). Með hliðsjón af dómum Hæstaréttar, sem og því að engin skrifleg gögn lágu fyrir í ráðuneytinu og að yfirlýsing ráðherra var ekki afdráttarlaus um efnið, taldi umboðsmaður að hvorki yrði á því byggt að samþykki ráðherra til breytinga á deildaskipan Tryggingastofnunar ríkisins hefði legið fyrir, né að ráðherra hefði tekið ákvörðun um að leggja niður stöðu A. Benti umboðsmaður á að þessi meðferð málsins hefði verið í andstöðu við þá grundvallarreglu stjórnsýsluréttar, að stjórnvöldum beri að sjá til þess að jafnan liggi fyrir í gögnum þeirra hvernig mál hafi endanlega verið afgreidd. Umboðsmaður beindi þeim tilmælum til heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins, að það tæki mál A til meðferðar á ný, óskaði hann þess, og leysti úr málinu með hliðsjón af framangreindum sjónarmiðum.

I. Hinn 6. febrúar 1995 leitaði til mín A og kvartaði yfir þeim úrskurði heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins frá 2. desember 1994, að forstjóri Tryggingastofnunar ríkisins hefði staðið að því á löglegan hátt að leggja niður stöðu hans sem deildarstjóra hjá stofnuninni. II. Í kvörtun A kemur fram, að í september 1969 hafi hann tekið við starfi löglærðs fulltrúa í lífeyrisdeild Tryggingastofnunar ríkisins í Reykjavík og gegnt því til 31. janúar 1972, er hann gerðist deildarstjóri í lánadeild stofnunarinnar. Með bréfi heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, dags. 8. desember 1980, var A settur til þess að gegna stöðu deildarstjóra verðbréfa- og innheimtudeildar Tryggingastofnunar ríkisins, auk starfs deildarstjóra lánadeildar, frá og með 1. febrúar 1981 til 1. júní 1981, en þá höfðu deildir þessar verið sameinaðar. Setning A var síðan framlengd til 31. ágúst 1981. Frá þeim tíma gegndi A starfi deildarstjóra í hinni sameinuðu deild, er upp frá því var nefnd lána- og innheimtudeild. Í bréfi, er A ritaði þáverandi forstjóra Tryggingastofnunar ríkisins 28. janúar 1993, gerði hann grein fyrir því, að verkefnum deildarinnar hefði fækkað verulega og væri samdráttur fyrirsjáanlegur. Með bréfi, dags. 28. desember 1993, gerði A forstjóra stofnunarinnar grein fyrir hugmyndum sínum um væntanlegar breytingar á skipulagi lána- og innheimtudeildar. Í greinargerð, dags. 31. janúar 1993 [á að vera 1994], sem forstjóri Tryggingastofnunar ríkisins tók saman, er fjallað um fyrirhugaðar skipulagsbreytingar. Kemur þar fram, að ákveðið hafi verið að sameina lána- og innheimtudeild og lífeyrissjóðadeild undir stjórn deildarstjóra lífeyrissjóðadeildar. Í byrjun árs 1994 bauð forstjóri Tryggingastofnunar ríkisins A að gera samkomulag um breytingar á störfum hans frá 1. mars 1994, er deildirnar yrðu sameinaðar. Var þar gert ráð fyrir, að A léti af starfi deildarstjóra hjá stofnuninni, en myndi starfa áfram sem yfirlögfræðingur hjá sameinaðri lána- og innheimtudeild og lífeyrissjóðadeild og sinna þar innheimtumálum samkvæmt nánara samkomulagi. Þá skyldi A halda að öllu leyti óbreyttum launakjörum sínum. Með bréfi, sem A ritaði forstjóra Tryggingastofnunar ríkisins 2. febrúar 1994, hafnaði hann samkomulagsuppkasti því, er lagt hafði verið fyrir hann, og tók fram, að hann hefði "... ekki í hyggju að "láta af" starfi deildarstjóra hjá Tryggingastofnun ríkisins ... ". Í bréfi forstjóra Tryggingastofnunar ríkisins til A, dags. 22. febrúar 1994, vísaði hann til þess, að fyrirhugaðar skipulagsbreytingar væru nauðsynlegar til að tryggja eðlilega hagræðingu og gera starfsfólki í lána- og innheimtudeild kleift að starfa áfram hjá stofnuninni. Taldi forstjórinn sér heimilt á grundvelli 33. gr. laga nr. 38/1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, að gera umræddar skipulagsbreytingar. Greindi hann A frá því, að hann liti svo á, að A hefði tekið ákvörðun um að hætta hjá stofnuninni. Óskaði hann eftir því, að A léti af störfum frá og með 1. mars 1994. Í bréfi, er A ritaði forstjóra Tryggingastofnunar ríkisins 24. febrúar 1994, tekur hann fram, að hann líti svo á, að staða sín hafi verið lögð niður og að hann hafi hafnað stöðu, sem ekki hafi verið sambærileg þeirri, sem hann áður gegndi og ætti hann því rétt til biðlauna samkvæmt 14. gr. laga nr. 38/1954. Í bréfi, er forstjóri Tryggingastofnunar ríkisins ritaði A 24. febrúar 1994, staðfestir hann móttöku bréfs A sama dag. Síðan segir: "Í framhaldi af þeirri ákvörðun að sameina rekstur lána- og innheimtudeildar og lífeyrissjóðadeildar, og í framhaldi af bréfi dags. 22. febrúar s.l. varðandi starfslok þín, og þrátt fyrir að þú hafir neitað tilfærslu í starfi, þar sem sömu launakjör [og] sambærilegt starfssvið voru í boði, lýsir undirritaður því yfir fyrir hönd Tryggingastofnunar ríkisins, að það er skoðun stofnunarinnar að með þessum aðgerðum hafi starf það sem þú gegnir, starf deildarstjóra lána- og innheimtudeildar, verið lagt niður frá og með 1. mars 1994. Í samræmi við 14. gr. laga nr. 38/1954 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins verða þér því greidd þau föstu laun sem starfi þínu fylgja, í samræmi við þjónustualdur þinn hjá ríkinu, eða í 12 mánuði." Með stjórnsýslukæru, dags. 24. mars 1994, skaut A máli sínu til heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins. Í upphafi kæru sinnar tilgreinir A að efni hennar sé "stjórnsýslukæra vegna meintra brota forstjóra Tryggingastofnunar ríkisins, ..., á l. nr. 117/1993 um almannatryggingar og stjórnsýslulögum nr. 37/1993". Í kæru sinni lýsir A málavöxtum og aðdraganda starfsloka sinna. Síðan segir: "Með vísan til framangreinds er það álit undirritaðs - og því er erindi þetta lagt fram - að forstjóri TR, ..., hafi ekki farið að lögum í máli þessu og skulu nú færð lagarök fyrir þeirri staðhæfingu: 1. Samkvæmt 2. gr. l. um almannatryggingar nr. 117/1993 hefur forstjóri Tryggingastofnunar ríkisins heimild til að stofna nýjar deildir innan TR "að fengnu samþykki tryggingaráðs og ráðherra". Telja verður að fyrir lögjöfnun gildi hið sama um niðurlagningu deildar, enda væri annað óeðlileg og mótsagnakennd niðurstaða. Í greinargerð forstjóra TR fyrir umræddri sameiningu kemur hvergi fram að aflað hafi verið lögmælts samþykkis fyrir niðurlagningu lána- og innheimtudeildar, eða stofnun hinnar nýju sameinuðu deildar. Slíkt er heldur ekki að sjá af fundargerðum tryggingaráðs frá sama tíma. Undirritaður fór fram á það við forstjóra TR að tryggingaráð tæki málið fyrir en þeirri málaleitan var synjað. 2. Í lagalegum skilningi hafa ákvarðanir um skipun, setningu og ráðningu opinberra starfsmanna, svo og lausn þeirra frá störfum og brottvikningu þeirra, verið flokkaðar undir stjórnvaldsákvarðanir, samanber áðurnefnd stjórnsýslulög nr. 37/1993. Í 12. grein þeirra laga er talað um að stjórnvald (í þessu tilviki forstjóri TR) skuli "því aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði sem að er stefnt, verði ekki náð með öðru og vægara móti. Skal þess þá gætt að fara ekki strangar í sakirnar en nauðsyn ber til". Svo sem áður segir krafðist forstjóri TR þess að undirritaður segði af sér deildarstjórn í lána- og innheimtudeild og gerðist þannig undirmaður að nýju, eins og hann var fyrir 20 árum, án þess að bjóða nokkuð í staðinn, nema óbreytt laun, og tók þannig íþyngjandi ákvörðun um réttarstöðu og starfsheiður undirritaðs án þess að færa nokkrar sönnur eða rök fyrir því að slíkt væri nauðsynleg forsenda þess að ... minnstum sparnaði eða hagræðingu yrði náð ... Undirritaður bar því fram áðurnefnda málamiðlunartillögu, sem í engu hefði breytt sparnaðar- og hagræðingartilgangi forstjóra en hann hafnaði röksemdalaust ... Niðurstaða mín er sú, að í máli þessu hafi forstjóri TR, ..., brotið gegn ofangreindu lagaákvæði með þeim afleiðingum að ég missti atvinnu mína eftir "langt og farsælt" starf, svo að notuð séu hans eigin orð ... Því leyfi ég mér að fara fram á það, ... , að kæra mín verði tekin til umfjöllunar af ráðuneytinu og forstjóri Tryggingastofnunar ríkisins, ..., gerður ábyrgur fyrir ofangreindum brotum á lögum nr. 117/1993 um almannatryggingar og stjórnsýslulögum nr. 37/1993... ." Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið felldi úrskurð sinn í málinu 2. desember 1994. Í upphafi úrskurðarins er málavöxtum og kæru A lýst. Í úrskurðinum segir síðan: "Samkvæmt viðbótargögnum dags. 16. september og 18. október 1994 telur [A], að ráðherra en ekki forstjóri Tryggingastofnunar hafi átt að standa að niðurlagningu embættis hans og vísar þar til laga nr. 38/1954 um að sami aðili og fari með veitingarvaldið skuli einnig veita starfsmanni lausn. Tryggingastofnun var gefinn kostur á að tjá sig um efni kærunnar. Í greinargerð Tryggingastofnunar greinir frá aðdraganda sameiningar lána- og innheimtudeildar og lífeyrissjóðadeild[ar] og tekið fram að með sameiningunni hafi verið stefnt að sparnaði sem átti að vega upp á móti þeim kostnaði sem Lífeyrissjóður sjómanna hafði áður greitt til deildarinnar en um áramótin 1993-1994 hætti Tryggingastofnun að annast afgreiðslu fyrir Lífeyrissjóð sjómanna. Tryggingastofnun telur þessa breytingu hafa haft í för með sér samdrátt á verkefnum lána- og innheimtudeildar. Því hafi verið óhjákvæmilegt að taka starfsemi deildarinnar til endurskoðunar með þeirri niðurstöðu sem hér hefur verið lýst. Í umsögn Tryggingastofnunar er því einnig lýst að talið hafi verið eðlilegt að fela deildarstjóra lífeyrissjóðadeildar að verða deildarstjóri sameinaðrar lífeyrissjóðadeildar og lána- og innheimtudeildar. Tryggingastofnun vísar í 2. mgr. 2. gr. laga nr. 117/1993 um almannatryggingar þar sem segir að forstjóra sé heimilt að fengnu samþykki Tryggingaráðs og ráðherra að skipa starfsemi stofnunarinnar í deildir eftir því sem henta þykir. Forstjóri hafi því haft til þess heimild að grípa til umræddra skipulagsbreytinga enda hafi tilskilinna samþykkta verið leitað. [A] hafi verið boðið starf sem með óbreyttum launakjörum en því tilboði hafi [A] hafnað. Staða hans hafi verið lögð niður og honum greidd biðlaun í 12 mánuði. Forstjóri Tryggingastofnunar mótmælir því að hann hafi brotið gegn 12. gr. stjórnsýslulaganna nr. 37/1993. Önnur úrræði hafi verið könnuð áður en ákveðið var að sameina deildirnar. Jafnframt hafi [A] verið boðið áframhaldandi starf með óbreyttum launakjörum og það breytti því engu þeim markmiðum varðandi hagræðingu og sparnað sem að hefði verið stefnt vegna þess að við breytinguna hefði orðið um frekari tilfærslur á öðrum að ræða sem störfuðu í lána- og innheimtudeild. [A] hafi hins vegar hafnað þessu boði og staða hans þá verið lögð niður. Þessi niðurlagning hafi verið gerð með vitund og samþykki ráðherra og Tryggingaráðs. [A] hafi átt rétt á 12 mánaða biðlaunum og sé greiðsla biðlauna hafin. Samkvæmt bréfi Tryggingastofnunar dags. 7. október 1994 lýsir [C] fyrirkomulagi á ráðningum deildarstjóra hjá Tryggingastofnun ríkisins svo: "Þeir deildarstjórar sem sérstaklega eru tilgreindir í lögum um almannatryggingar eru skipaðir af ráðherra, en þeir eru deildarstjórar eftirfarinna deilda: Bókhaldsdeild, endurskoðunardeild, félagsmála- og upplýsingadeild, greiðsludeild (aðalgjaldkeri), lífeyrisdeild, sjúkra- og slysatryggingadeild." Aðrir deildarstjórar hjá Tryggingastofnun ríkisins eru í langflestum tilfellum ráðnir af forstjóra, en þeir eru deildarstjórar eftirtalinna deilda: Afgreiðsludeild 1 og 2, alþjóðadeild, lífeyrissjóðadeild, tölvudeild og umsjónarnefnd eftirlauna. Síðan segir í bréfinu: "Tekið skal fram að deildarstjóri innheimtudeildar var ráðinn af forstjóra." Niðurstaða: Í máli þessu er til umfjöllunar hvort forstjóri Tryggingastofnunar hafi verið til þess bær að leggja niður stöðu [A] og hafi svo verið hvort gætt hafi verið hófsemisreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við framkvæmdina. Í gögnum málsins kemur fram að [A hafi] var settur af ráðherra 1. febrúar 1981-1. júní 1981 með setningarbréfi dags. 8. des. 1980. Setningin var síðan framlengd til 31. ágúst 1981 með bréfi dags. 26. maí 1981. Eftir það og fyrir þennan tíma virðist ekki vera um að ræða neina skriflega samninga um ráðningu [A]. Ljóst er þó að [A] var ekki skipaður af ráðherra og að setning hans rann út 31. ágúst 1981. Ráðning eftir þann tíma virðist því hafa verið í höndum forstjóra Tryggingastofnunar þar sem ekki kom til atbeina ráðherra um áframhaldandi störf [A]. Ráðuneytið telur að þegar litið er til þess hversu ráðningarform [A] er óljóst þá sé óvarlegt að álykta sem svo að til hafi þurft að koma bein aðild ráðherra að starfslokum hans. Í gögnum málsins kemur fram að [A] hafi ekki fallist á þær skipulagsbreytingar sem forstjóri lagði til í greinargerð dags. 31. janúar 1994. Þess í stað lagði hann fram nýja tillögu að skipulagsbreytingum ódagsetta. Forstjóri virðist ekki hafa fjallað efnislega um nýja tillögu [A]. Þess í stað er [A] ritað bréf dags. 22. febrúar þar sem forstjóri túlkar bréf [A] dags. 2. febrúar sem ákvörðun um að hætta störfum. [A] mótmælir þessari túlkun í bréfi dags. 24. febrúar en lætur fram koma að hann líti svo á að búið sé að taka ákvörðun um að starf hans verði lagt niður. Í bréfi forstjóra dags. sama dag er [A] tilkynnt að staða hans verði lögð niður frá 1. mars 1994. Ráðuneytið telur að þessi málsmeðferð hafi ekki verið í samræmi við góða stjórnsýsluhætti án þess þó að talið verði að það leiði til ógildingar ákvörðunarinnar. Hvað varðar það álitaefni hvort gætt hafi verið ákvæða 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þá kemur fram í gögnum málsins að [A] var boðið annað starf innan stofnunarinnar sem var sambærilegt í launum sem hann hafnaði. Honum voru síðan í framhaldi af því boðin 12 mánaða biðlaun. Niðurstaða ráðuneytisins er sú að við stjórnsýslu beri stjórnvöldum að gæta hagræðis og geti í því sambandi lagt niður stöður eða fært starfsmenn til í starfi enda sé við þá framkvæmd farið að lögum nr. 38/1954 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Því úrskurðast: Forstjóra Tryggingastofnunar var heimilt að leggja niður stöðu [A] deildarstjóra hjá Tryggingastofnun ríkisins vegna skipulagsbreytinga. Við þá ákvarðanatöku var ekki að fullu gætt góðra stjórnsýsluhátta án þess þó að talið verði að það leiði til ógildingar ákvörðunarinnar." Í rökstuðningi fyrir kvörtun sinni tekur [A] fram, að hann geti ekki sætt sig við úrskurð ráðuneytisins og séu ástæður þess helstar, að hann sé látinn bera hallann af óreiðu í mannaráðningum Tryggingastofnunar ríkisins. Bendir A á, að hann hafi ítrekað reynt að fá skipun í embættið, en talað fyrir daufum eyrum. Þá ítrekar A þá skoðun sína, að beina aðild ráðherra hafi þurft til niðurlagningar stöðu hans vegna þess langa tíma, sem hann hafi gegnt starfinu án formlegrar skipunar. Í gögnum þeim, sem ráðuneytið hafi byggt úrskurð sinn á, sé ekki að finna formlegt samþykki ráðherrans, heldur virðist eingöngu vera stuðst við umsagnir forstjóra Tryggingastofnunar og formanns tryggingaráðs. Þá gerir A athugasemdir við þau orð skrifstofustjóra Tryggingastofnunar ríkisins, að "deildarstjóri innheimtudeildar [hafi verið] ráðinn af forstjóra". Þá tekur A fram, að hann hafi verið settur til að gegna starfinu, án þess að því hafi verið fylgt eftir með sérstakri skipun. III. Ég ritaði heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra bréf 10. mars 1995, þar sem ég vísaði til úrskurðar ráðuneytisins frá 2. desember 1994. Síðan segir í bréfinu: "Í ofangreindum úrskurði heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins segir: "Ráðuneytið telur að þegar litið er til þess hversu ráðningarform [A] er óljóst þá sé óvarlegt að álykta sem svo að til hafi þurft að koma bein aðild ráðherra að starfslokum hans." Af ofangreindu tilefni er þess óskað, sbr. 7. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis, að heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið veiti upplýsingar um, hvort samþykki heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hafi legið fyrir til niðurlagningar stöðu A 1. mars 1994 og ef svo var, hvenær það samþykki lá fyrir." Í svarbréfi heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins, dags. 29. mars 1995, segir meðal annars: [...] "Vegna spurningar þeirrar sem lögð er fram við ráðuneytið í umræddu bréfi, skal það tekið fram að samþykkis heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra fyrir niðurlagningu stöðu [A] 1. mars 1994 var ekki leitað." Með bréfi heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins 13. júní 1995 bárust mér frekari upplýsingar. Í bréfinu segir: "Ráðuneytið vísar til bréfs síns dags. 29. mars 1995 þar sem svarað er bréfi umboðsmanns vegna kvörtunar [A] til umboðsmanns. [A] kvartar yfir úrskurði heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins frá 2. desember 1994 um að forstjóri Tryggingastofnunar ríkisins hafi á löglegan hátt staðið að því að leggja niður stöðu [A] sem deildarstjóra hjá stofnuninni. Í svarbréfi ráðuneytisins dags. 29. mars 1995 kemur fram að samþykkis heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra fyrir niðurlagningu stöðu [A] hafi ekki verið leitað. Um sök þessa byggði ráðuneytið á því að engin bréf fundust í skjalasafni ráðuneytisins þar að lútandi. Ráðuneytinu hefur nú borist bréf frá forstjóra Tryggingastofnunar ríkisins vegna þessa máls, dags. 1. júní 1995, móttekið 7. júní 1995. Með bréfinu fylgir yfirlýsing fyrrverandi heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, ... dags. 1. júní 1995. Þar staðfestir fyrrverandi ráðherra að er hann hafi gegnt embætti heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hafi [forstjóri Tryggingastofnunar ríkisins] rætt við sig um sameiningu deilda hjá stofnuninni og afleiddar breytingar af þeim sökum á stöðu [A] sem deildarstjóra lána- og innheimtudeildar Tryggingastofnunar ríkisins. Fram kemur að ráðherra gerði ekki athugasemd við sjálfar fyrirhugaðar skipulagsbreytingar og að forstjóri hafi unnið áfram að þeim með sínu samþykki, þó með hliðsjón af ábendingum hans um að forstjóri freistaði þess að ná sátt um málin og ekki síst farsælli niðurstöðu við [A] sem báðir aðilar gætu við unað." Í tilvitnuðu bréfi forstjóra Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 1. júní 1995, er vísað meðal annars til áðurnefnds bréfs heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins frá 29. mars 1995. Síðan segir í bréfi forstjórans: "Af þessu tilefni er nauðsynlegt að fram komi að samþykkis ráðherra var leitað. Forstjóri taldi reyndar óþarft að skiptast á bréfum við ráðherra um þennan gjörning, og ekki kom fram ósk frá ráðherra um að svo væri gert. Í þessu sambandi er þó rétt að minna á bréf forstjóra TR til ráðuneytisins 29.04.94. Í því er greint frá, að þær skipulagsbreytingar sem leiddu til niðurlagningar á stöðu [A], hafi verið kynntar fyrir ráðherra, og að ráðherra hafi samþykkt þær, ... Forstjóri hefur óskað eftir yfirlýsingu ..., fyrrv. heilbrigðisráðherra um að hann hafi sem ráðherra samþykkt þær skipulagsbreytingar, sem leiddu til niðurlagningar á stöðu [A]. Var sú yfirlýsing auðfengin og fylgir hún, dags. 01.06.95, bréfi þessu ... Eins og fram kemur í yfirlýsingu [fyrrverandi heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra], lagði hann áherslu á að þess væri freistað að ná sátt um þetta mál og farsælli niðurstöðu, sem báðir aðilar gætu unað við. Því er lýst í áðurtilvitnuðu bréfi mínu frá 29.04.94 að allar hugsanlegar leiðir væru kannaðar áður en ákveðið var að sameina lána- og innheimtudeild við lífeyrissjóðadeild. Þegar ákvörðun um sameiningu deildanna lá fyrir, og [þar] með niðurlagning á stöðu [A] sem deildarstjóra, var reynt að ná samkomulagi við hann um áframhaldandi störf hjá stofnuninni. [A] var boðið starf áfram hjá Tryggingastofnun og sinna þar sambærilegum verkefnum og þeim sem hann hafði áður gegnt, en þó ekki sem deildarstjóri. Jafnframt var honum boðið að hann héldi óbreyttum launakjörum. Í þessu sambandi var [A] boðið að skrifa undir meðfylgjandi samkomulag við Tryggingastofnun um áframhaldandi starf. [A] hafnaði hins vegar þessu boði um áframhaldandi starf með þeim rökum, að hann hefði "ekki í hyggju að láta af starfi deildarstjóra hjá Tryggingastofnun ríkisins" ... Því var niðurlagning á stöðu hans óhjákvæmileg. Það er því alveg ljóst, að samþykki ráðherra lá fyrir áður en staða [A] var lögð niður, og að öllu leyti var unnið að máli þessu skv. tilmælum ráðherra. Jafnframt er rétt að minna á það hér, að samþykkis tryggingaráðs var einnig aflað. Þá voru skipulagsbreytingar þessar kynntar fyrir stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins áður en staða [A] var lögð niður, en verkefni lána- og innheimtudeildar voru aðallega að sinna störfum fyrir þann sjóð eftir að Lífeyrissjóður sjómanna fór út úr Tryggingastofnun. Mál þetta var því rækilega skoðað og kynnt áður en gripið var til nokkurra aðgerða, og samþykkis var aflað frá þeim aðilum sem nauðsynlegt var að fá samþykki frá." Tilvitnuð yfirlýsing fyrrverandi heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra frá 1. júní 1995 er svohljóðandi: "Það staðfestist hér með, skv. beiðni þar um, að á þeim tíma er ég gegndi ráðherraembætti í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, ræddi ..., forstjóri Tryggingastofnunar ríkisins við mig um sameiningu deilda hjá stofnuninni og afleiddar breytingar af þeim sökum á stöðu [A] sem deildarstjóra lána- og innheimtudeildar Tryggingastofnunar ríkisins. Mér var jafnframt sagt, að ákveðinnar óánægju gætti með þessi mál meðal starfsmanna, þ.á.m. [A]. Lagði ég áherslu á það við forstjóra, að hann freistaði þess að ná sátt um þessi mál og ekki síst farsælli niðurstöðu við [A], sem báðir aðilar gætu við unað. Ég gerði hins vegar ekki athugasemdir við sjálfar fyrirhugaðar skipulagsbreytingar og forstjóri vann að þeim áfram með mínu samþykki, þó með hliðsjón af ofangreindum ábendingum mínum varðandi starfsmannamálin." IV. Hinn 22. júní 1995 ritaði ég heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra bréf. Vísaði ég þar til bréfs ráðuneytisins frá 13. júní 1995, bréfs forstjóra Tryggingastofnunar ríkisins frá 1. júní 1995 og yfirlýsingar fyrrverandi heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra sama dag um það, að leitað hafi verið samþykkis vegna niðurlagningar á stöðu [A] sem deildarstjóra innheimtu- og lánadeildar Tryggingastofnunar ríkisins. Af þessu tilefni óskaði ég eftir því, sbr. 7. og 9. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis, að ráðuneytið léti mér í té skýringar á því, að upplýsingar þessar um framangreinda ákvörðun fyrrverandi heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, voru eigi skráðar og tiltækar í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, er það svaraði bréfi mínu frá 10. mars 1995, sbr. bréf ráðuneytisins, dags. 29. mars 1995. Með bréfi, dags. 11. júlí 1995, gaf ég A kost á að senda mér athugasemdir sínar í tilefni af bréfi heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins frá 13. júní 1995, yfirlýsingu fyrrverandi heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, dags. 1. júní 1995, og bréfi forstjóra Tryggingastofnunar ríkisins, dags. sama dag. Athugasemdir A bárust mér með bréfi hans, dags. 16. júlí 1995. Með bréfi heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins, dags. 31. júlí 1995, bárust mér svör ráðuneytisins við bréfi mínu frá 22. júní 1995. Í bréfi ráðuneytisins segir: "Ráðuneytið vísar til bréfs dags. 22. júní 1995 þar sem vísað er til fyrri bréfaskipta vegna kvörtunar [A], lögfræðings. Í tilefni af bréfi ráðuneytisins, dags. 13. júní 1995 um málið, óskar umboðsmaður eftir skýringum á því af hverju ákvörðun heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra vegna málsins var ekki skráð og tiltæk í ráðuneytinu er það svaraði bréfi umboðsmanns frá 10. mars 1995 með bréfi dags. 29. mars 1995. Vegna þessa máls vill ráðuneytið koma eftirfarandi skýringum á framfæri: Í skjalasafni ráðuneytisins eru engin bréfaskipti um samþykki ráðherra fyrir niðurlagningu stöðu [A]. Engar skráðar upplýsingar eru í skjalasafni ráðuneytisins um þær viðræður sem vísað er til í yfirlýsingu fv. ráðherra dags. 1. júní 1995. Sama gildir um fjölmarga fundi sem forstöðumenn stofnana eiga með ráðherra. Í umræddri yfirlýsingu segir að forstjóri Tryggingastofnunar ríkisins hafi rætt við ráðherra um sameiningu deilda og afleiðingar þeirra breytinga, m.a. á stöðu [A]. Í umræddri yfirlýsingu kemur ekkert fram um að ráðherra hafi samþykkt formlega endanlega niðurstöðu málsins heldur eingöngu að ráðherra hafi ekki gert athugasemdir við "sjálfar fyrirhugaðar skipulagsbreytingar" og að forstjóri hafi unnið áfram að þeim með hans samþykki, þó með ákveðnum ábendingum varðandi afleiðingar fyrir einstaka starfsmenn. Yfirlýsing fv. heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra dags. 1. júní 1995, sem skrifuð er samkvæmt beiðni, breytir ekki því sem fullyrt er í bréfi ráðuneytisins dags. 29. mars 1995 um að formlegs samþykkis heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra fyrir niðurlagningu stöðu [A] 1. mars 1994 var ekki leitað." Með bréfi 4. desember 1995 gaf ég A kost á að senda mér athugasemdir sínar við framangreint bréf ráðuneytisins. Bárust mér athugasemdir A með bréfi hans 12. desember 1995. V. Kvörtun sú, er A hefur borið fram, lýtur að starfslokum hans sem deildarstjóra lána- og innheimtudeildar Tryggingastofnunar ríkisins. Telur A, að forstjóri stofnunarinnar hafi ekki staðið með lögmæltum hætti að því að leggja niður stöðu hans. Eins og fram kemur í II. og III. kafla, voru lána- og innheimtudeild og lífeyrissjóðadeild stofnunarinnar sameinaðar 1. mars 1994 samkvæmt ákvörðun forstjóra Tryggingastofnunar ríkisins, sem hann tók samkvæmt gögnum málsins síðari hluta janúarmánaðar 1994. Með bréfi, dags. 2. febrúar 1994, hafnaði A því starfi, sem honum var boðið af því tilefni. Af bréfi forstjóra Tryggingastofnunar ríkisins frá 22. febrúar 1994 og bréfi A, dags. 24. febrúar 1994, verður ráðið, að ágreiningur hafi verið um breytingar á störfum og stöðu A. Á hinn bóginn verður ekki annað ráðið af bréfi forstjóra Tryggingastofnunar ríkisins frá 24. febrúar 1994 en að hann hafi talið, að staða A hefði verið lögð niður frá 1. mars 1994. Í kvörtun sinni heldur A því fram, að forstjóri Tryggingastofnunar ríkisins hafi ekki haft heimild heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra til þess að leggja niður stöðu hans og að ekki hafi verið leitað eftir samþykki heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra fyrir sameiningu lána- og innheimtudeildar og lífeyrissjóðadeildar, eins og áskilið sé í 3. málsl. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 117/1993, um almannatryggingar. 1. A hóf störf hjá Tryggingastofnun ríkisins haustið 1969. Með bréfi heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra 8. desember 1980 var hann settur til þess að gegna, auk starfs deildarstjóra lánadeildar, störfum deildarstjóra verðbréfa- og innheimtudeildar frá 1. febrúar 1981 til 1. júní 1981. Með bréfi heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins 26. maí 1981 var setning A framlengd til 31. ágúst 1981. Í máli sínu hefur A bent á, að ætlunin hafi verið að skipa hann í stöðu deildarstjóra hjá Tryggingastofnun ríkisins, en af því hafi ekki orðið. Með bréfi forstjóra Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 24. febrúar 1994, var A tilkynnt, að staða hans hjá stofnuninni hefði verið lögð niður frá og með 1. mars 1994. Í niðurlagi úrskurðar heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins 2. desember 1994 segir, að forstjóra Tryggingastofnunar ríkisins hafi verið heimilt að leggja niður stöðu A hjá stofnuninni vegna skipulagsbreytinga. Er í úrskurðinum vísað til þess, að A hafi ekki verið skipaður af ráðherra í stöðuna eða við hann gerður skriflegur ráðningarsamningur og hafi ráðning A eftir 31. ágúst 1981 verið í höndum forstjóra Tryggingastofnunar ríkisins. Sé óvarlegt "að álykta sem svo að til hafi þurft að koma bein aðild ráðherra að starfslokum hans". Um það, hver skipi, setji eða ráði í starf eru almenn fyrirmæli í 2. gr. laga nr. 38/1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Í ákvæðinu segir: "Það fer eftir ákvæðum laga um hverja starfsgrein, hver veita skuli, setja í eða ráða í stöður. Nú er eigi um það mælt í lögum og skal þá svo meta sem sá ráðherra, er starfinn lýtur, geri þá ráðstöfun, en geti þó veitt forstjóra viðkomandi starfsgreinar heimild til að gera það, ef ráðstafa skal hinum vandaminni og ábyrgðarminni stöðum í grein hans." Í athugasemdum við 2. gr. frumvarps þess, er varð að lögum nr. 38/1954, segir meðal annars svo: "Hér ræðir um veitingarvald opinberra starfa. Í stjórnarskrá og einstökum lögum er oft ákveðið, hver veita skuli stöðu, t.d. forseti Íslands, ríkisstjórn, einstakir ráðherrar eða forstjórar stofnana. Í 2. gr. er ákveðið, að þar sem engin fyrirmæli slík eru til um starf skuli sá ráðherra veita það, er starfið lýtur. Þó hefur hann heimild til að fela forstjóra að veita störf, er minni ábyrgð fylgir og vandi; er þá m.a. átt við sum afgreiðslustörf, skrifarastörf o.fl." (Alþt. 1953, A-deild, bls. 418.) Af 7. og 10. gr. laga nr. 38/1954 verður almennt ráðið, að sá, er veiti starf, veiti jafnframt lausn frá því. Samkvæmt 2. mgr. 3. gr. laga nr. 117/1993 skipar ráðherra deildarstjóra, en samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laganna er það forstjóri, sem ræður alla starfsmenn stofnunarinnar, sem ekki eru skipaðir af ráðherra. Samkvæmt því, sem hér hefur verið rakið, verður við það að miða, að þeir starfsmenn, sem ráðherra er ætlað að skipa skv. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 117/1993, verði einnig leystir frá störfum af ráðherra. Í 1. mgr. 3. gr. laga nr. 97/1974, sbr. 4. gr. laga nr. 7/1990, er gert ráð fyrir því, að þegar starfsmaður er ráðinn í þjónustu ríkisins, skuli það gert með skriflegum gerningi og tekið fram, hvort um skipun, setningu eða ráðningu sé að ræða. Verður að skilja þetta svo, að gefa skuli út sérstakt skipunar- eða setningarbréf eða gera sérstakan ráðningarsamning, sbr. dóm Hæstaréttar frá 10. desember 1986, Hrd. 1986:1657. Ákvörðun um skipun, setningu eða ráðningu ríkisstarfsmanns telst til þeirra ákvarðana, sem ríkar kröfur eru gerðar um, að séu ótvíræðar að efni til. Gildir slíkt einnig um starfslok ríkisstarfsmanna. Skiptir miklu að ótvírætt sé, hver hafi tekið slíka stjórnvaldsákvörðun, hvert efni hennar sé og hvenær efni hennar er breytt eða það fellt niður. Ekki hafa verið lögð fram gögn um það, hvernig staðið hafi verið að ráðningu A eftir 31. ágúst 1981. Er ekki annað komið fram en að A hafi áfram gegnt umræddri deildarstjórastöðu, án þess að til hafi komið sérstök ákvörðun ráðherra eða bein afskipti forstjóra Tryggingastofnunar ríkisins. Eins og áður er fram komið, lúta þær ákvarðanir, sem deilt er um í máli þessu, annars vegar að breytingum á deildaskipan Tryggingastofnunar, en þær snerta innra skipulag stofnunarinnar, og hins vegar að því að leggja stöðu A niður. Um það verður fjallað hér á eftir. 2. Í I. kafla laga nr. 117/1993, um almannatryggingar, er fjallað um skipulag og stjórn Tryggingastofnunar ríkisins. Samkvæmt 1. gr. laganna teljast almannatryggingar samkvæmt lögunum: Lífeyristryggingar, slysatryggingar og sjúkratryggingar. Þá segir í 2. mgr. 2. gr. laganna: "Hver grein trygginganna, sbr. 1. gr., er sjálfstæð deild í Tryggingastofnuninni og hefur þar sérstakan fjárhag. Engin deildanna ber ábyrgð á skuldbindingum annarrar. Að öðru leyti er forstjóra heimilt, að fengnu samþykki tryggingaráðs og ráðherra, að skipa starfsemi stofnunarinnar í deildir eftir því sem henta þykir." Lokamálsliður 2. mgr. 2. gr. laga nr. 117/1993 kom til með 1. gr. laga nr. 83/1967. Í skýringum við ákvæði þess frumvarps, er varð að lögum nr. 83/1967, segir, að í 2. mgr. sé bætt almennri heimild til að skipa starfsemi stofnunarinnar í deildir eftir því sem henta þykir, sbr. Alþt. 1967, A-deild, bls. 335. Þegar litið er til fyrirmæla 3. ml. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 117/1993, er ljóst, að heimild forstjóra til þess að breyta deildaskipan Tryggingastofnunar ríkisins verður ekki beitt, nema að fengnu samþykki tryggingaráðs og ráðherra. Með bréfum, er heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið ritaði forstjóra Tryggingastofnunar ríkisins og tryggingaráði 8. apríl 1994 í tilefni af stjórnsýslukæru A, óskaði ráðuneytið eftir ítarlegri greinargerð um mál það, sem kæran væri sprottin af. Í svarbréfi forstjóra Tryggingastofnunar ríkisins 29. apríl 1994 segir meðal annars: "Í bréfi [A] til ráðuneytisins er því haldið fram, að undirritaður hafi brotið gegn 2. gr. laga nr. 117/1993 um almannatryggingar. Í lagagreininni eru tilteknar nokkrar deildir sem eru lögskipaðar. "Að öðru leyti er forstjóra heimilt, að fengnu samþykki tryggingaráðs og ráðherra, að skipa starfsemi stofnunarinnar í deildir eftir því sem henta þykir", svo vitnað sé orðrétt í 2. mgr. greinarinnar. Samkvæmt þessu hafði undirritaður sem forstjóri heimild til að gera þá skipulagsbreytingu sem um ræðir, enda var tilskilinna samþykkta leitað. Málið var rætt á fundi tryggingaráðs 14. janúar s.l., og þá var rætt við ráðherra um fyrirhugaðar skipulagsbreytingar. Báðir þessir aðilar lýstu sig samþykka því að gripið væri til kynntra ráðstafana." Í bréfi sínu til tryggingaráðs óskaði ráðuneytið upplýsinga um afskipti tryggingaráðs af málinu. Í svarbréfi tryggingaráðs 29. apríl 1994 segir um framangreint atriði: "Á tryggingaráðsfundi föstudaginn 14. janúar 1994 ræddi forstjóri ítarlega um skipulagsmál stofnunarinnar og þær breytingar þar að lútandi sem hann taldi nauðsynlegar þ.á.m. samlagningu tveggja deilda í eina sem hér um ræðir. Allir tryggingaráðsmenn tjáðu sig um þessar hugmyndir, báru fram fyrirspurnir og lýstu samþykki sínu við þeim fyrirætlunum. Engin formleg samþykkt var gerð þar að lútandi og í fundargerð af þeim fundi segir einungis: "Forstjóri ræddi um skipulagsmál stofnunarinnar". Af umræðum þessum gat forstjóri hins vegar ekki haft annan skilning en þann, að hann hefði fengið samþykki Tryggingaráðs fyrir fyrirætlan sinni. Í tilefni af fátæklegri fundargerð frá 14. janúar s.l. varðandi þennan lið hefur Tryggingaráð á fundi sínum í dag áréttað fyrra samþykki sitt um samlagningu lífeyrissjóðadeildar og lána- og innheimtudeildar, þannig að ekki verði um villst þegar leitað verður í bókum Tryggingaráðs varðandi það mál." Samkvæmt framansögðu var fyrirhuguð sameining deilda rædd á fundi tryggingaráðs 14. janúar 1994, en fundargerð ber ekki annað með sér en að forstjóri hafi rætt um skipulagsmál stofnunarinnar. Í ofangreindu bréfi tryggingráðs frá 14. apríl 1994 er upplýst, að tryggingaráðsmenn hafi lýst samþykki sínu við þessum fyrirætlunum, en engin formleg samþykkt hafi verið gerð þar að lútandi. Það verður því ekki séð, að tryggingaráð hafi samþykkt umrædda breytingu fyrr en 29. apríl 1994. Voru því þeir annmarkar á þessari málsmeðferð, að samþykki tryggingaráðs við breyttri deildaskiptingu lá ekki fyrir, áður en forstjóri Tryggingastofnunar ríkisins ákvað hana og hún hafði gengið í gildi. Skýra verður 2. mgr. 2. gr. laga nr. 117/1993 svo, að samþykkis tryggingaráðs verði að afla fyrirfram. 3. Ljóst er, að ákvörðun forstjóra Tryggingastofnunar ríkisins um að breyta deildaskipan stofnunarinnar tengist þeirri ákvörðun hans, að leggja stöðu A niður. Í fyrra tilvikinu þarf, eins og áður er rakið, samþykki ráðherra og tryggingaráðs. Þegar litið er til fyrirmæla 2. mgr. 3. gr. laga nr. 117/1993 og ákvæða 7. og 10. gr. laga nr. 38/1954, þurfti í síðara tilvikinu atbeina þess stjórnvalds, er fór með vald til að veita stöðuna. Er því rétt, eins og mál þetta er vaxið, að fjalla um það í einu lagi, hvort nauðsynlegar ákvarðanir heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hafi legið fyrir. Af hálfu forstjóra Tryggingastofnunar ríkisins er því haldið fram, að samþykki fyrrverandi heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra til nefndra skipulagsbreytinga hafi legið fyrir. Þessu til staðfestingar hefur forstjóri stofnunarinnar lagt fram yfirlýsingu fyrrverandi heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, dags. 1. júní 1995, sem rakin er í III. kafla hér að framan. Í yfirlýsingu ráðherrans kemur fram, að forstjóri Tryggingastofnunar ríkisins hafi rætt við hann um "... sameiningu deilda hjá stofnuninni og afleiddar breytingar af þeim sökum á stöðu [A] sem deildarstjóra ..." og að hann hafi ekki gert "... athugasemdir við sjálfar fyrirhugaðar skipulagsbreytingar ..." og hefði forstjóri unnið að þeim áfram með hans samþykki, en með þeim fyrirvara, að náð yrði sátt um starfsmannamál og ekki "... síst farsælli niðurstöðu fyrir [A]". Af yfirlýsingu þessari verður ekki séð, að sérstaklega sé greint á milli þess, að annars vegar var um að ræða stjórnvaldsákvörðun, er snerti starfslok [A], og hins vegar ákvörðun, er snerti breytingar á innra skipulagi Tryggingastofnunar ríkisins. Af bréfum heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins frá 29. mars 1995, 13. júní 1995 og 31. júlí 1995, sem rakin eru í III. og IV. kafla hér að framan, kemur fram, að í skjalasafni ráðuneytisins finnast ekki gögn um samþykki heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra fyrir niðurlagningu stöðu [A] 1. mars 1994 eða um viðræður forstjóra Tryggingastofnunar ríkisins og þáverandi ráðherra um breytingar á deildaskipan stofnunarinnar. Verður þá að taka til athugunar, hvaða þýðingu slík yfirlýsing fyrrverandi ráðherra hafi að lögum, eins og hér háttar til. Í því sambandi er rétt að líta til afstöðu dómstóla til slíkra yfirlýsinga fyrrverandi ráðherra. Í dómi Hæstaréttar 22. júní 1945, Hrd. 1945:298, vottaði fyrrverandi félagsmálaráðherra, að rétt hefði verið skýrt frá óformlegu samkomulagi um að Sjúkrasamlag Reykjavíkur þyrfti ekki að greiða svonefnt fæðingarstofugjald við Landspítalann. Í dómnum segir að: "Yfirlýsing fyrrverandi félagsmálaráðherra, sem til er vitnað í hinum áfrýjaða dómi, getur engu ráðið um úrslit þessa máls". Í dómi Hæstaréttar 10. desember 1986, Hrd. 1986:1657, reyndi á það, hvort þáverandi menntamálaráðherra hefði verið búinn að endursetja kennara í starf, áður en ráðherrann lét af störfum. Vísað var til þess, að þáverandi menntamálaráðherra hefði staðfest, að hann hefði verið búinn að setja kennarann í stöðuna og tilkynnt honum það. Í dómi meirihluta Hæstaréttar segir, að ósannað sé, að ráðherrann hafi verið búinn að rita á umsóknina, að hann samþykkti að setja hann kennara, er ráðherra sagði honum, að ætlun sín væri að endursetja hann í starfið. Í dómi Hæstaréttar frá 9. maí 1980, H. 1980:1068, reyndi á túlkun samnings, sem gerður var um ráðningu verkfræðings hjá Hollustuvernd ríkisins, þar á meðal hvort þar væri um að ræða skipun í nefnt starf. Vísaði verkfræðingurinn þar til yfirlýsingar fyrrverandi heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra um það, að skipa hefði átt hann í umrætt starf og hefði það síðan átt að vera hlutverk viðeigandi embættismanna að ganga formlega frá skipuninni. Í dómi héraðsdóms er tekið fram, að þrátt fyrir skýrslu verkfræðingsins og vottorð þáverandi heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra yrði að telja ósannað, að verkfræðingurinn hefði hlotið skipun í stöðuna. Varð því að leggja til grundvallar þann skriflega ráðningarsamning, sem gerður hafði verið um lögskipti aðilanna. Í dómi Hæstaréttar er vísað til þess, að með skírskotun til forsendna hins áfrýjaða dóms yrði að leggja samninginn til grundvallar um starfskjör hans. Í bréfi heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins frá 31. júlí 1995 segir, að engar skráðar upplýsingar séu í skjalasafni ráðuneytisins um þær viðræður, sem vísað er til í yfirlýsingu fyrrverandi heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, og "... að formlegs samþykkis heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra fyrir niðurlagningu stöðu A 1. mars 1994 [hafi ekki verið] leitað". Þá er þess ennfremur að gæta, að umrædd yfirlýsing ráðherra er engan veginn afdráttarlaus um það efni, sem hér skiptir máli. Samkvæmt því og með hliðsjón af framangreindum hæstaréttardómum verður ekki á því byggt, að þáverandi heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hafi tekið ákvörðun um að leggja niður stöðu A. Gildir hið sama raunar einnig um það, hvort legið hafi fyrir samþykki ráðherra til breytinga á deildaskipan Tryggingastofnunar ríkisins. Var þessi meðferð málsins í andstöðu við þá grundvallarreglu stjórnsýsluréttarins, að stjórnvöldum beri að sjá til þess, að jafnan liggi fyrir í gögnum þeirra, hvernig mál hafi endanlega verið afgreidd. Samkvæmt því, sem hér hefur verið rakið, get ég ekki fallist á það, sem fram kemur í úrskurði heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins 2. desember 1994, að forstjóra stofnunarinnar hafi verið heimilt að leggja niður stöðu A frá 1. mars 1994, þar sem þá lá ekki fyrir ákvörðun ráðherra um slíkt. VI. Niðurstöðu álits míns, dags. 8. janúar 1996, dró ég saman með svofelldum hætti: "Samkvæmt framansögðu er niðurstaða mín sú, að ekki hafi legið fyrir ákvörðun heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra um að staða deildarstjóra lána- og innheimtudeildar stofnunarinnar væri lögð niður. Þá var einnig sá annmarki á meðferð þessa máls, að ekki lá fyrir samþykki heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og tryggingaráðs samkvæmt 3. málsl. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 117/1993, um almannatryggingar, er forstjóri Tryggingastofnunar ríkisins beitti heimild sinni samkvæmt nefndum lagaákvæðum til breytinga á deildaskipan Tryggingastofnunar ríkisins. Það eru tilmæli mín, að heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið taki mál A til meðferðar á ný, komi fram ósk um það frá A, og leysi úr málinu með hliðsjón af þeim sjónarmiðum, sem gerð hefur verið grein fyrir hér að framan." VII. Hinn 24. maí 1996 ritaði ég heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra bréf og óskaði eftir upplýsingum um, hvort einhverjar ákvarðanir hefðu verið teknar í framhaldi af framangreindu áliti mínu, en A hafði tjáð mér, að hann hefði leitað til ráðuneytisins á ný. Í svari heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins, dags. 7. júní 1996, segir meðal annars: "[A] fékk biðlaun frá Tryggingastofnun ríkisins í 12 mánuði frá 1. mars 1994. Í framhaldi af því gerði heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið verksamning við [A] um samningu frumvarps og greinargerðar um réttindi og skyldur heilbrigðisstétta. Gert var ráð fyrir að verkið tæki sjö mánuði. Samningurinn var síðan framlengdur um 6 mánuði eða t.o.m. 31. mars 1996 og hefur [A] nú skilað verkinu. Fyrir þetta fékk [A] kr. 227.000 á mánuði, fyrrgreint tímabil, auk virðisaukaskatts. Í framhaldi af áliti yðar hinn 8. janúar sl. hafa ráðherra og ráðuneytisstjóri átt nokkur viðtöl við [A]. Í þeim viðtölum hefur komið fram að [A] óskaði fyrst og fremst eftir að fá vinnu. Í samræmi við það hefur ráðuneytisstjóri lagt áherslu á að reyna að útvega [A] vinnu og hefur í því skyni átt viðtöl við ýmsa forstöðumenn. Hann ræddi m.a. við [...] vegna þess verkefnis sem [A] hefur nú verið ráðinn í til ársloka 1996. Ekki hefur hins vegar enn tekist að útvega [A] fast starf. Á fundi ráðuneytisins með [A] hinn 20. maí sl. ítrekaði hann að hann legði megináherslu á að fá fast starf. Hann væri hins vegar búinn að ráða sig í verkefni hjá [...] til ársloka 1996 og gæti því ekki ráðið sig í annað starf fyrr en að loknu því tímabili. Samkomulag varð um eftirfarandi: Ráðuneytið mun leitast við að útvega [A] starf fyrir lok ársins 1996. Hafi hann ekki fengið starf fyrir þann tíma mun ráðuneytið beita sér fyrir því að hann fái hæfilegar bætur." Með bréfum til heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, dags. 7. janúar 1997 og 4. júlí 1997, óskaði ég eftir upplýsingum um, hvaða ráðstafanir hefðu verið gerðar í framhaldi af áliti mínu, með vísan til framangreindra bréfaskipta. Svar heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins hafði ekki borist þegar skýrslan fór til prentunar.