Uppsögn starfsmanns. Skilyrði uppsagnar. Málefnaleg sjónarmið. Meintar misfellur í starfi.

(Mál nr. 1147/1994)

A kvartaði yfir uppsögn úr starfi yfirsjúkraþjálfara við endurhæfingardeild Landspítala. A hafði verið ráðin ótímabundið í fullt starf með ráðningarsamningi í september 1987. Í ráðningarsamningi kom fram að gagnkvæmur uppsagnarfrestur væri þrír mánuðir. A var því ríkisstarfsmaður í skilningi 1. gr. laga nr. 38/1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, sem giltu um réttarsamband hennar og spítalans. Með bréfi framkvæmdastjóra sjúkraþjálfunar og starfsmannastjóra Ríkisspítala, dags. 18. febrúar 1993, var A sagt upp störfum með þriggja mánaða uppsagnarfresti. Umboðsmaður tók fram að áður en ríkisstarfsmanni væri veitt lausn frá störfum yrði að taka afstöðu til þess á hvaða lagagrundvelli það yrði gert. Taka yrði til athugunar hvort þær ástæður og sjónarmið sem að baki ákvörðuninni byggju heimiluðu uppsögn. Ákvörðun stjórnvalds um uppsögn ríkisstarfsmanns yrði ávallt að byggjast á málefnalegum sjónarmiðum, eins og aðrar stjórnvaldsákvarðanir, og væri t.d. almennt óheimilt að byggja slíka ákvörðun á sjónarmiðum sem upp eru talin í 2. mgr. 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Hins vegar væri heimilt að segja starfsmanni upp vegna breytinga á störfum, starfsháttum eða skipulagi hjá hinu opinbera, eða þegar þörf væri á að fá starfsmann með aðra þekkingu eða reynslu en viðkomandi starfsmaður hefði. Sérstaklega þyrfti að taka til athugunar, hvenær heimilt væri að beita uppsögn og hvenær skylt væri að fara með mál samkvæmt 7.-11. gr. laga nr. 38/1954, þegar ríkisstarfsmanni væri veitt lausn úr starfi um stundarsakir eða að fullu vegna meintra misfellna í starfi. Umboðsmaður tók fram að markmið 7.-11. gr. laga nr. 38/1954 væri að veita ríkisstarfsmönnum ákveðið réttaröryggi, með vandaðri málsmeðferð, sem meðal annars fælist í tryggilegri rannsókn á hinum meintu misfellum og rétti starfsmanns til að tala máli sínu áður en rökstudd og skrifleg ákvörðun væri tekin um lausn hans. Þá þyrftu efnisskilyrði 7. gr. laganna að vera uppfyllt og væri þar öðrum þræði byggt á sömu viðhorfum og í 12. gr. stjórnsýslulaga, þar sem gert væri ráð fyrir áminningu til starfsmanns áður en honum væri veitt lausn frá störfum um stundarsakir. Umboðsmaður tók fram, að þegar ástæður þess að stjórnvald óskaði eftir að veita starfsmanni lausn frá störfum væru meintar misfellur í starfi, gæti stjórnvald ekki ákveðið að segja starfsmanninum upp með uppsagnarfresti, svo losna mætti við starfsmann á brotalítinn hátt og komast hjá lögboðinni málsmeðferð. Þá tók umboðsmaður fram að almennt gæti tilvísun til samstarfsörðugleika sem ástæðu uppsagnar ríkisstarfsmanns ekki verið fullnægjandi ástæða ein og sér. Yrði þar að greina á milli þess hvort um væri að ræða skort á vilja til samstarfs, sem væri skýrt brot á starfsskyldum samkvæmt 2. mgr. 7. gr. laga nr. 38/1954, eða hvort hlutaðeiganda skorti hæfni eða getu til samstarfs við aðra, án þess að hægt væri að heimfæra slíkt sem brot á starfsskyldum. Slík atvik gætu hins vegar verið lögmætur grundvöllur uppsagnar, að gættum ákvæðum stjórnsýslulaga, enda styddist uppsögn við heimild í samningi eða lögum. Í máli A var skýrlega á því byggt að hún hefði þráfaldlega óhlýðnast lögmætum fyrirmælum yfirboðara sinna um langt skeið og ekki látið sér segjast þrátt fyrir aðfinnslur. Slíkar misfellur gátu ekki verið lögmæt ástæða uppsagnar, heldur var skylt að fylgja ákvæðum 7.-11. gr. laga nr. 38/1954. Þar sem það var ekki gert var brotinn réttur á A og var ákvörðun um uppsögn A af þessum sökum haldin verulegum annmarka. Beindi umboðsmaður þeim tilmælum til heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins að taka mál A til meðferðar á ný, óskaði hún þess, og taka þá til sérstakrar athugunar hvernig hlutur hennar yrði réttur.

I. Hinn 26. júní 1994 bar A fram kvörtun yfir uppsögn sinni úr starfi yfirsjúkraþjálfara við endurhæfingardeild Landspítalans. A telur uppsögnina ólögmæta, enda hafi hvorki verið rétt að henni staðið né hún byggð á málefnalegum sjónarmiðum. II. Með bréfi, dags. 19. júní 1993, kærði A uppsögnina til heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins. Hinn 6. september 1993 ritaði ráðuneytið A bréf og tilkynnti henni að það myndi ekki hafast frekar að í málinu, þar sem það sæi ekki annmarka á framkvæmd uppsagnarinnar. Með bréfi, dags. 11. ágúst 1993, fór A fram á það við stjórnarnefnd Ríkisspítala að henni yrði veittur aðgangur að öllum gögnum um uppsögnina. Henni voru send umbeðin gögn 9. september 1993. III. Hinn 11. júlí 1994 ritaði ég heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra bréf og óskaði eftir því, með vísan til 7. og 9. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis, að ráðuneyti hans léti mér í té gögn málsins, skýrði viðhorf sitt til kvörtunarinnar og gerði grein fyrir þeim röksemdum og sjónarmiðum, sem ákvörðun ráðuneytisins byggðist á. Svör heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins bárust mér með bréfi, dags. 15. september 1994. Þar segir meðal annars svo: "Landspítalinn sér sjálfur um ráðningar og uppsagnir flestra starfsmanna sinna þ.m.t. [A]. Hún var samkvæmt upplýsingum Landspítala ráðin með gagnkvæmum 3ja mánaða uppsagnarfresti. Það er mat ráðuneytisins að hér sé um að ræða einkaréttarlegan gerning sem hvor aðili um sig getur sagt upp samkvæmt ákvæðum hans. Ráðuneytið sendir til fróðleiks endurrit úr dómabók Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu [Ö] gegn ríkissjóði frá 22. apríl 1994. Ráðuneytið bendir á að samkvæmt dómi þessum þarf í raun ekki að koma til áminningar þegar um gagnkvæman ráðningarsamning er að ræða þegar um samstarfserfiðleika er að ræða svo sem í þessu máli ... " Með bréfi ráðuneytisins fylgdi umsögn Ríkisspítala um kvörtun A, dags. 31. ágúst 1994, ásamt fylgiskjölum. Hinn 22. september 1994 veitti ég A færi á að gera athugasemdir við fyrrnefnt bréf heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins ásamt fylgiskjölum þess. Athugasemdir hennar bárust mér með bréfi, dags. 18. október 1994. Hinn 24. nóvember 1994 ritaði ég heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra á ný bréf og óskaði eftir því, að ráðuneytið gerði grein fyrir því, hvert væri starfssvið starfsmannastjóra Ríkisspítalanna, hvaða vald hann hefði fengið framselt til ráðningar og uppsagnar starfsmanna, í hverju þeir samstarfserfiðleikar hefðu verið fólgnir, sem ráða mætti af bréfi Ríkisspítalanna til heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins að hefðu verið ástæða uppsagnarinnar, og hvaða úrræði hefðu verið reynd til að leysa þá. Ennfremur hvort litið hefði verið svo á, að A ætti aðallega sök á þessum samstarfserfiðleikum og, ef svo væri, á hverju sú skoðun hefði verið byggð. Einnig óskaði ég eftir upplýsingum um það, hvort einnig hefðu legið aðrar ástæður til grundvallar uppsögninni en samstarfsörðugleikar, en í gögnum málsins kæmi fram, að A hefði verið veitt áminning, að því er virtist vegna þess að hún hefði ekki hlýtt löglegum fyrirskipunum. Í þessu sambandi var einnig óskað upplýsinga um það, hvort ódagsett greinargerð framkvæmdastjóra sjúkraþjálfunar, sem barst Ríkisspítulunum 12. febrúar 1993 og víkur að ýmsu, sem þótti áfátt í störfum A, geymdi tæmandi talningu á ástæðum uppsagnarinnar. Loks var óskað upplýsinga um það, hvort A hefði fengið tækifæri til þess að tjá sig um meinta samstarfsörðugleika eða meint brot í opinberu starfi, áður en ákvörðun var tekin um uppsögn hennar, og óskað eftir því, að ráðuneytið skýrði viðhorf sitt til bréfs A til mín, dags. 18. október 1994. Svör ráðuneytisins, ásamt svari Ríkisspítala við fyrirspurn ráðuneytisins, bárust mér með bréfi, dags. 23. mars 1995. Í bréfi ráðuneytisins segir, að ráðuneytið telji greinargerð Ríkisspítala svara fyrirspurnum umboðsmanns og það hafi því engu þar við að bæta. Í greinargerð Ríkisspítala segir meðal annars svo: " 3. Ástæður fyrir uppsögn [A] voru eins og áður hefur komið fram miklir og langvinnir samstarfserfiðleikar, sem ekki tókst að bæta úr þrátt fyrir margháttaðar tilraunir. [...] [...] Rétt er að geta þess að ekki er efast um faglega hæfni [A] né að hún hafi unnið gott starf á barnadeild. Hins vegar var, eins og fram kemur hér að framan, um að ræða langvinna og alvarlega samstarfserfiðleika á endurhæfingadeild, sem útilokað virtist að leysa þrátt fyrir margar tilraunir, nema með þeim hætti að [A] hætti störfum á deildinni. Því varð ekki komist hjá því að segja [A] upp störfum." Í lok tilvísaðs bréfs Y, dags. 13. febrúar 1993, segir: "Ég mun ekki fara út í fleiri atriði varðandi samskipti mín og [A], en ég lýsi yfir fullum stuðningi við þá ákvörðun stjórnenda spítalans að segja henni upp störfum. Ég tel að hún hafi verið ber að vanrækslu í starfi í mörg ár og orðið tímabært að á því sé tekið." Hinn 4. apríl 1995 gaf ég [A] færi á að gera athugasemdir við bréf heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins ásamt fylgiskjölum þess. Athugasemdir hennar bárust mér með bréfi, dags. 15. júní 1995. Þar andmælir A því að bréf þau, sem vísað er til í greinargerð Ríkisspítala, sýni fram á, að umrædda samstarfsörðugleika hafi aðallega mátt rekja til hennar. Bréfritarar séu þeir, "sem einkum hafa staðið í misklíðum við mig og sýnt mér persónulega andúð". A dregur í efa, að Y hafi hætt störfum á Landspítalanum vegna samstarfsörðugleika við hana og telur ásakanir um vanrækslu órökstuddar. IV. Í áliti mínu segir svo um kvörtun A: "1. A kvartar yfir uppsögn sinni úr starfi yfirsjúkraþjálfara við endurhæfingardeild Landspítalans. Telur hún, að ekki hafi verið rétt staðið að uppsögn sinni og að hún hafi ekki verið byggð á málefnalegum sjónarmiðum. Atvik þessa máls gerðust öll í gildistíð laga nr. 38/1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. A var ráðin ótímabundið í fullt starf með ráðningarsamningi, dags. 9. september 1987, sem verkefnisstjóri. Samkvæmt samningnum skyldi hún taka laun samkvæmt kjarasamningi fjármálaráðuneytisins við BHM. Í stöðluðum texta ráðningarsamningsins segir meðal annars svo: "Gagnkvæmur uppsagnarfrestur samkvæmt samningi þessum skal vera þrír mánuðir, nema tekið sé fram að ráðningu ljúki sjálfkrafa. Þó skal gagnkvæmur uppsagnarfrestur vera einn mánuður á fyrstu þrem mánuðum í starfi, svo og ef samningur þessi gerir ráð fyrir að launþeginn sé sjóðfélagi í öðrum lífeyrissjóði en lífeyrissjóðum ríkisstarfsmanna. Ákvæði samnings þessa um uppsagnarfrest gilda þó ekki um þá starfsmenn ríkisins sem hófu störf fyrir 1. jan. 1975, án þess að samið hafi verið um sérstakan uppsagnarfrest, og starfað hafa hjá ríkinu samfellt síðan. Um réttindi og skyldur starfsmanna fer eftir lögum og reglum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins ... Sama gildir um mat á því hvort starfsmaðurinn telst hafa vanefnt samninginn." Samkvæmt 1. gr. laga nr. 38/1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, tóku lögin til hvers manns, sem var skipaður, settur eða ráðinn í þjónustu ríkisins með föstum launum, meðan hann gegndi starfanum, enda yrði starf hans talið aðalstarf. Með tilliti til efnis ráðningarsamnings A svo og stöðu hennar tel ég vafalaust, að A hafi verið ríkisstarfsmaður í skilningi 1. gr. fyrrnefndra laga og kemur hvergi fram í gögnum málsins, að það hafi verið dregið í efa af hálfu Ríkisspítala eða heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins. Um réttindi og skyldur A fór því samkvæmt lögum nr. 38/1954, sem geymdu reglur opinbers réttar eðlis. Af þeim sökum höfðu þau verið talin ófrávíkjanleg um þau atriði, sem þar var til fullnaðar ráðið til lykta, sbr. t.d. dóm Hæstaréttar frá 14. mars 1983 (Hrd. 1983:574). Með bréfi framkvæmdastjóra sjúkraþjálfunar og starfsmannastjóra Ríkisspítala til A, dags. 18. febrúar 1993, var henni sagt upp störfum með þriggja mánaða uppsagnarfresti. Uppsögnin var staðfest af heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu í úrskurði, dags. 6. september 1993. 2. Áður en ríkisstarfsmanni er veitt lausn frá störfum, verður að taka afstöðu til þess, á hvaða lagagrundvelli það verði gert. Komi uppsögn til greina, verður að taka til athugunar, hvort þær ástæður og sjónarmið, er búa að baki ákvörðun um lausn ríkisstarfsmanns frá störfum, heimili uppsögn. Hér kom sérstaklega til athugunar, hvenær heimilt var að beita uppsögn og hvenær skylt var að fara með mál skv. 7.-11. gr. laga nr. 38/1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Ákvörðun stjórnvalds um uppsögn ríkisstarfsmanns verður ávallt að byggjast á málefnalegum sjónarmiðum, eins og aðrar stjórnvaldsákvarðanir. Þannig er t.d. almennt óheimilt að byggja slíka ákvörðun á sjónarmiðum, sem upp eru talin í 2. mgr. 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Aftur á móti er t.d. heimilt að segja upp starfsmanni í tilefni af breytingum á störfum, starfsháttum eða skipulagi hjá hinu opinbera, þegar þörf verður á að fá starfsmann, sem hefur aðra þekkingu eða reynslu en sá hefur, er stöðu gegnir, enda styðjist uppsögnin við heimild í samningi eða lögum. Heimild stjórnvalda til þess að segja upp ríkisstarfsmönnum voru einnig sett ákveðin takmörk af ákvæðum laga. Í 7.-11. gr. laga nr. 38/1954 voru ákvæði, sem fjölluðu um skilyrði þess, að ríkisstarfsmanni yrði veitt lausn úr starfi um stundarsakir eða að fullu vegna meintra misfellna í starfi. Ákvæði 7.-11. gr. tóku til allra ríkisstarfsmanna, hvort sem þeir voru skipaðir, settir eða ráðnir. Í 2. málsgr. 7. gr. laga nr. 38/1954 voru tilgreindar þær ástæður, sem réttlættu að veita starfsmanni lausn um stundarsakir, á meðan mál var rannsakað, svo upplýst yrði, hvort rétt væri að veita honum lausn að fullu eða láta hann aftur taka við starfi sínu, sbr. 1. mgr. 8. gr. laganna. 2. mgr. 7. gr. laganna hljóðaði svo: "Rétt er að veita starfsmanni lausn um stundarsakir, ef hann hefur sýnt í starfi sínu óstundvísi eða aðra vanrækslu, óhlýðni við löglegt boð eða bann yfirmanns síns, vankunnáttu eða óvandvirkni í starfi sínu, hefur verið ölvaður að starfi eða framkoma hans eða athafnir í því eða utan þess þykir að öðru leyti ósæmileg, óhæfileg eða ósamrýmanleg því starfi. Þó skal veita starfsmanni áminningu og gefa honum kost á að bæta ráð sitt, áður en honum er veitt lausn um stundarsakir samkvæmt þessari málsgrein." Í athugasemdum við 7.-11. gr. frumvarps þess, er varð að lögum nr. 38/1954, segir meðal annars svo: "Hin sérstaka réttarstaða opinberra starfsmanna ... leiðir til þess, að stjórnvald verður að fara varlega í því að leysa mann frá starfi án vilja hans. Með tilliti til þessa eru sett ákvæði 7.-9. gr. um lausn um stundarsakir. Meginsjónarmiðið er það, að þyki stjórnvaldi einhverju svo áfátt um starfsmann, að rök liggi til frávikningar, skuli að jafnaði farin sú leið að veita lausn um stundarsakir og láta síðan fram fara rannsókn samkv. 8. gr. á því, hvort sakir séu svo vaxnar, að veita skuli fullnaðarlausn. Ástæður til lausnar um stundarsakir eru greindar í 2. málsgr. 7. gr. Ætlazt er til, að starfsmanni sé áður veitt áminning og honum gerður kostur á að bæta ráð sitt. Þó getur verið rík ástæða til lausnar án áminningar, ef svo er ástatt sem segir í 3. málsgr. 7. gr." (Alþt. 1953, A-deild, bls. 421.) Ljóst er, að markmið 7.-11. gr. laga nr. 38/1954 var að veita ríkisstarfsmönnum ákveðið réttaröryggi, með því að þeim varð almennt ekki vikið úr starfi vegna meintra misfellna í því, nema fylgt hefði verið vandaðri málsmeðferð samkvæmt þeim lögum og einnig stjórnsýslulögum nr. 37/1993, sem fólst meðal annars í tryggilegri rannsókn á hinum meintu misfellum í starfi og rétti starfsmanns til þess að tala máli sínu, áður en rökstudd og skrifleg ákvörðun væri tekin um lausn starfsmanns. Þá varð ríkisstarfsmanni ekki vikið úr starfi vegna meintra misfellna í starfi nema efnisskilyrði 7. gr. laganna væri uppfyllt. Í því sambandi er rétt að minna á ákvæði lokamálsliðar 2. mgr. 7. gr., sem öðrum þræði var byggt á sömu viðhorfum og 12. gr. stjórnsýslulaga. Þar kemur fram, að fyrst skyldi almennt veita starfsmanni áminningu og gefa honum kost á að bæta ráð sitt, áður en honum væri veitt lausn frá störfum um stundarsakir til rannsóknar á því, hvort málsatvik væru með þeim hætti, að rétt væri að veita honum lausn að fullu, sbr. 1. mgr. 8. gr. laganna. Í 3. mgr. 11. gr. laganna ræddi um réttarstöðu þess ríkisstarfsmanns, sem sætt hafði óréttmætum stöðumissi, en þá fór um bætur til aðila eftir úrskurði dómstóla, nema aðilar hefðu komið sér saman um annað. Það réttaröryggi og þá réttarvernd, sem löggjafinn hafði sérstaklega búið ríkisstarfsmönnum með ófrávíkjanlegum ákvæðum 7.-11. gr. laga nr. 38/1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, gat stjórnvald ekki afnumið með ákvörðunum sínum, enda verður lögum ekki breytt á annan hátt en með lögum. Þegar ástæður þess, að stjórnvald óskaði að veita starfsmanni lausn frá störfum, voru meintar misfellur í starfi, gat stjórnvald því ekki ákveðið að segja starfsmanninum upp með uppsagnarfresti, svo losna mætti við starfsmann á brotalítinn hátt og komast hjá lögboðinni en jafnframt fyrirhafnarmeiri málsmeðferð, þar sem aðila var búið aukið réttaröryggi. Af þessum sökum er ljóst, að þegar ástæða þess, að stjórnvald óskaði að veita starfsmanni lausn frá störfum, var óhlýðni starfsmanns við lögleg boð eða bönn yfirmanns, eða ástæðan var sú, að starfsmaður hafði sýnt óstundvísi eða aðra vanrækslu í starfi sínu, þá var óheimilt að segja honum upp starfi af þeirri ástæðu, heldur bar að fara með málið skv. 7.-11. gr. laga nr. 38/1954. 3. Eins og áður segir, ritaði ég heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra bréf hinn 24. nóvember 1994 og óskaði þess, með vísan til 7. og 9. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis, að ráðuneytið skýrði viðhorf sitt til ýmissa atriða þ.m.t. þess, í hverju hefðu verið fólgnir samstarfserfiðleikar þeir, sem ráða mætti af bréfi Ríkisspítalanna til heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins, dags. 31. ágúst 1994, að hefðu verið ástæða uppsagnar A, hvaða úrræði hefðu verið reynd til að leysa þá og hvort og þá af hverju litið hefði verið svo á, að A ætti aðallega sök á þessum samstarfserfiðleikum. Einnig hvort legið hefðu aðrar ástæður til grundvallar uppsögninni en meintir samstarfsörðugleikar og hvort líta bæri svo á, að greinargerð framkvæmdastjóra sjúkraþjálfunar, er barst Ríkisspítulunum hinn 12. febrúar 1993, geymdi tæmandi talningu á ástæðum uppsagnarinnar. Svör heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins bárust mér með bréfi, dags. 23. mars 1995. Með því fylgdi bréf forstjóra Ríkisspítalanna, en ráðuneytið taldi það svara fyrirspurn minni og hafði engu við það að bæta. Af skýringum, sem fram koma í því bréfi, virðist ljóst, að uppsögnin hafi verið byggð á meintum misfellum í starfi A. Í greinargerð framkvæmdastjóra sjúkraþjálfunar, sem barst Ríkisspítulum 12. febrúar 1993 og forstjóri Ríkisspítala segir fjalla um allar helstu ástæður uppsagnar A, kemur meðal annars fram, að A hafi óhlýðnast lögmætum fyrirmælum framkvæmdastjóra sjúkraþjálfunar. Í greinargerðinni segir meðal annars svo: "Samstarf hennar við núverandi framkvæmdastjóra er ekkert betra en það var við fyrirrennara hans og í stuttu máli sagt, neitar [A] alveg að viðurkenna yfirmenn sína og þeirra valdsvið. Verður nú gerð grein fyrir nokkrum málum þessu til stuðnings. [...] Á þeim tíma, sem heimilt var að ráða sjúkraþjálfara til afleysinga á sumrin var það viðtekin venja að ráða einn sjúkraþjálfara til afleysinga á barnaeiningu. Ástæður þess voru þær, að [A] gat aldrei gert grein fyrir hvenær hún eða hennar starfsmenn færu í orlof. Fyrrverandi framkvæmdastjóri fór fram á að breyta þessari hefð svo hægt væri að nýta starfskrafta afleysingarmannsins á öðrum einingum, sem fengu afleysara í 3-4 vikur á sumri. [A] var ekki til viðræðu um slíkt. [...] Framkvæmdastjóri hefur farið fram á að [A] hlíti eftirfarandi reglum - Láti vita hvenær hún og undirmenn hennar fara í orlof. - Láti vita hvenær hún og undirmenn hennar fara á námskeið. - Að hún og undirmenn hennar skrái sig ekki í vinnu á þeim tíma sem þeir eru á námskeiðum. - Láti vita hve mikilli kennslu hún sinnir við Háskóla Íslands og hvenær. - Láti vita af eigin veikindum. - Láti vita hvenær undirmenn hennar fara í fæðingarorlof og hve lengi þeir eru í fæðingarorlofi. - Að hún skipuleggi ekki einhliða breytingar á sameiginlegu húsnæði Endurhæfingardeildar. Öllum ætti að vera ljóst að ekki er um ofstjórnun að ræða af hálfu framkvæmdastjóra. [A] hefur ekki ljáð máls á að fara eftir ofangreindum reglum og virðist telja að vegið sé að faglegu sjálfstæði hennar [...]" Það er ljóst af gögnum málsins og þeim skýringum, sem mér hafa borist frá stjórnvöldum, að á því er skýrlega byggt, að A hafi þráfaldlega óhlýðnast lögmætum fyrirmælum yfirboðara sinna um langt skeið og ekki látið segjast þrátt fyrir aðfinnslur þeirra. A hefur andmælt því að þessar aðfinnslur séu réttmætar. Þá hefur hún jafnframt dregið í efa, að framkvæmdastjóri sjúkraþjálfunar hafi verið bær til þess að gefa henni ákveðnar fyrirskipanir. Samkvæmt starfslýsingu framkvæmdastjóra, dags. 23. júlí 1987, er ljóst, að framkvæmdastjóri var án nokkurs vafa bær til þess að gefa A a.m.k. hluta þessara fyrirskipana. Eins og mál þetta hefur verið lagt fyrir mig, er ekki þörf á því að ég taki frekari afstöðu til þessa álitaefnis. Í greinargerð framkvæmdastjóra sjúkraþjálfunar virðist jafnframt gefið í skyn, að A hafi gerst brotleg við starfsskyldur sínar. Um þessi atriði segir svo í fyrrgreindri greinargerð: "[...] [A] skyldi sinna útköllum á Vökudeild. Jafnframt samdi framkvæmdastjóri stjórnunarsviðs við hana, um fastar greiðslur fyrir þá þjónustu og var henni gert ljóst, að hún fengi ekki greitt fyrir yfirvinnu að öðru leyti. [A] hélt áfram að skrifa öll útköll sem yfirvinnu og fékk greitt fyrir. Framkvæmdastjóri sjúkraþjálfunar hafði nokkru fyrr neitað að staðfesta vinnuskýrslur hjá [A] vegna mikillar yfirvinnu sem hún skráði, langt umfram það sem gerðist hjá öðrum. [...] [Yfirlæknir endurhæfingardeildar] staðfesti þá skýrslur hennar, enda mun honum hafa verið ókunnugt um tilhögun mála. Þegar núverandi framkvæmdastjóri kom til starfa, gerði hann [yfirlækninum] grein fyrir málavöxtum og var greiðslum fyrir yfirvinnu umfram fastar greiðslur hætt. Jafnframt var henni gert að stimpla sig inn og út í útköllum eins og aðrir, en það var verulegur misbrestur á, að þeir tímar sem voru skráðir unnir, kæmu fram á stimpilklukku. Var þetta gert m.a. til að hafa yfirsýn yfir fjölda útkalla á Vökudeild. Síðan þessi háttur var tekinn upp, þ.e. stimplun á útköllum, hefur skráðum útköllum á Vökudeild fækkað verulega." 4. Í framangreindum skýringum er á því byggt, að ástæður uppsagnar A hafi verið "samstarfsörðugleikar" "við yfirmenn" og "ýmsa starfsmenn". Almennt getur slík tilvísun til samstarfsörðugleika, sem ástæða uppsagnar ríkisstarfsmanns, ekki verið fullnægjandi ein og sér. Kemur þar einkum tvennt til. Annars vegar geta samstarfsörðugleikar tekið til þess, þegar um er að ræða skort á vilja til samstarfs, er getur komið fram í því að hlutaðeigandi neitar að hlýða lögmætum fyrirmælum eða sinna nauðsynlegu samstarfi. Var þá um að ræða brot á starfsskyldum samkvæmt skýrum ákvæðum 2. mgr. 7. gr. laga nr. 38/1954. Hins vegar geta samstarfsörðugleikar vísað til þess, að hlutaðeiganda skorti hæfni eða getu til samstarfs við aðra, einkum hliðsetta starfsmenn, án þess að hægt sé að heimfæra slíkt sem brot á starfsskyldum skv. 2. mgr. 7. gr. fyrrnefndra laga. Ef slík atvik voru fyrir hendi, gátu þau verið lögmætur grundvöllur uppsagnar samkvæmt lögum nr. 38/1954, að gættum ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993, enda styddist uppsögn við heimild í samningi eða lögum. Ekki verður annað séð en að þeir samstarfsörðugleikar, sem tilgreindir hafa verið sem ástæður uppsagnar A, hafi verið þráfaldleg óhlýðni hennar við lögleg boð yfirmanna, eins og áður segir. Slíkar misfellur í starfi gátu samkvæmt framansögðu ekki verið lögmæt ástæða uppsagnar, heldur var skylt, eins og áður segir, að fylgja ákvæðum 7.-11. gr. laga nr. 38/1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, við meðferð málsins. Í skýringum heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins er vísað til dóms Héraðsdóms Reykjavíkur frá 22. apríl 1994 í máli nr. E-8521/1993: [Ö] gegn ríkissjóði. Í dómnum var því hafnað, að 11. gr. laga nr. 38/1954 ætti við, þegar starfsmanni var sagt upp störfum. Dómurinn hefur ekki fordæmisgildi í máli þessu, þegar af þeirri ástæðu, að í því máli, sem þar var dæmt, var hvorki höfð uppi sú málsástæða né byggt á því, að um slíkar misfellur í opinberu starfi hefði verið að ræða, sem féllu undir ákvæði 2. mgr. 7. gr. laga nr. 38/1954. Í máli þessu er ekki ástæða til þess að taka afstöðu til þeirra meintu misfellna í starfi, sem A voru gefnar að sök, eða hvaða þýðingu þær gátu haft, ef réttar reyndust og með málið hefði verið farið skv. 7.-11. gr. laga nr. 38/1954. Þar sem upplýst er, að þau sjónarmið og ástæður, sem fyrst og fremst lágu til grundvallar þeirri ákvörðun, að veita A lausn úr starfi, var ítrekuð "óhlýðni við löglegt boð eða bann yfirmanns", sem féllu skýrlega undir ákvæði 2. mgr. 7. gr. laga nr. 38/1954, og með málið var ekki farið skv. ákvæðum 7.-11. gr. laganna, var brotinn réttur á A. Að mínum dómi verður að telja, eins og mál þetta er vaxið, að ákvörðun starfsmannastjóra Ríkisspítalanna og framkvæmdastjóra sjúkraþjálfunar frá 18. febrúar 1993 hafi verið haldin verulegum annmarka, enda taldist það almennt verulegur annmarki, þegar lausn starfsmanns byggðist á meintum ávirðingum ríkisstarfsmanns og ekki var farið með málið samkvæmt ófrávíkjanlegum ákvæðum 7.-11. gr. laga nr. 38/1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, sbr. álit mín frá 31. ágúst 1990 (SUA 1990:172, SUA 1992:326 og SUA 1994:416) og 15. febrúar 1996 í máli nr. 1296/1994 svo og dóm Hæstaréttar frá 11. maí 1995 (Hrd. 1995:1347)." V. Niðurstaða álits míns, dags. 12. júlí 1996, var svohljóðandi: "Niðurstaða. Eins og nánar greinir hér að framan, er það niðurstaða mín, að ákvörðun starfsmannastjóra Ríkisspítala og framkvæmdastjóra sjúkraþjálfunar frá 18. febrúar 1993 um starfslok A hafi verið haldin verulegum annmarka, þar sem ákvörðunin var byggð á meintum misfellum hennar í starfi og með málið var ekki farið samkvæmt ófrávíkjanlegum ákvæðum 7. - 11. gr. laga nr. 38/1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Það eru tilmæli mín til heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins, að það taki mál A til meðferðar á ný, komi fram ósk um það frá henni, og taki þá til sérstakrar athugunar, hvernig hlutur hennar verði réttur." VI. Með bréfi, dags. 17. febrúar 1997, óskaði ég eftir upplýsingum heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra um, hvort A hefði leitað til ráðuneytisins á ný og þá hvort einhverjar ákvarðanir hefðu verið teknar í framhaldi af því. Svar heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins barst mér 27. maí 1997. Þar segir: "Lögmaður [A] ritaði ráðuneytinu bréf hinn 20. nóvember sl. Þar sagði m.a. "Er hér með óskað eftir viðræðum við ráðuneytið um með hvaða hætti það er reiðubúið að bæta umbj. mínum það misrétti sem hún hefur verið beitt, svo leysa megi mál þetta með farsællegum hætti." Ráðuneytið hefur vísað máli [A] til meðferðar Ríkislögmanns."