Fjárveitingar. Ráðstöfun fjárveitingar, sem veitt var með fjáraukalögum.

(Mál nr. 368/1990)

Máli lokið með áliti, dags. 18. nóvember 1991.

Sjálfseignarstofnunin A kvartaði yfir því, að félagsmálaráðuneytið og fjármálaráðuneytið hefðu við greiðslu á fjárveitingu, sem A fékk á fjáraukalögum nr. 111/1989 fyrir árið 1989, skert hana og tekið hluta af henni til greiðslu á halla á launalið 1989 í stað eldri rekstrarhalla á liðnum "önnur gjöld" sem fjárveitingin hefði verið veitt til. Upplýst var, að vegna beiðni forsvarsmanna A hafði Alþingi samþykkt 3,5 milljóna króna fjárveitingu á fjáraukalögum ársins 1989 til A. Hafði komið fram í ræðu formanns fjárveitinganefndar Alþingis við flutning tillögunnar á Alþingi, að fjárveitingin væri veitt vegna hallareksturs A. Umboðsmaður tók fram, að í fjáraukalögum fyrir árið 1989 eða umræðum um þau á Alþingi væri ekki að finna afdráttarlausa skýringu á því, hvernig bæri að ráðstafa fjárveitingunni. Af þeim ástæðum og með hliðsjón af því, að félagsmála- eða fjármálaráðuneytið höfðu ekki haft nein afskipti af tillögugerð í þessu efni, sem væri þó hin almenna regla í slíkum tilvikum, taldi umboðsmaður, að það hefði verið eðlilegt og í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti, að félagsmálaráðuneytið hefði haft frumkvæði að því að kanna, hvort fá mætti nánari skýringar hjá fjárveitinganefnd Alþingis, til hvaða útgjalda umrædd fjárveiting væri ætluð. Hefðu og athugasemdir stjórnar A í framhaldi af hinni skertu greiðslu gefið sérstakt tilefni til þess. Umboðsmaður beindi þeim tilmælum til félagsmálaráðuneytisins, að það tæki málið til meðferðar að nýju og aflaði framangreindra upplýsinga. Leiddu þær í ljós, að það hefði verið ætlun fjárveitingavaldsins að þessi fjárveiting gengi óskert til A, til að greiða rekstrarhalla fyrri ára í samræmi við beiðni A, taldi umboðsmaður, að ráðuneytinu hefði ekki verið heimilt að ráðstafa hluta af fjárveitingunni til greiðslna á dvalarkostnaði vistmanna árið 1989 umfram fjárveitingu á fjárlögum þess árs. Umboðsmaður tók fram, að þótt hin almenna regla væri sú varðandi fjárveitingar í fjáraukalögum, að með þeim væri aflað viðbótarheimilda við fjárlög hvers árs, útilokaði það ekki, að Alþingi ákvæði við afgreiðslu fjáraukalaga að veita fé til annars og yrðu stjórnvöld að virða slíkar ákvarðanir.

I. Kvörtun og málavextir.

Stjórn sjálfseignarstofnunarinnar A bar hinn 7. desember 1990 fram kvörtun í tilefni af því, að félagsmálaráðuneytið og fjármálaráðuneytið hefðu við greiðslu á fjárveitingu, sem A fékk á fjáraukalögum nr. 111/1989 fyrir árið 1989, skert hana og tekið hluta af henni til greiðslu á öðrum kostnaði vegna A heldur en fjárveitingin var veitt til. Í kvörtun stjórnar A kom fram, að A væri sjálfseignarstofnun á föstum fjárlögum og starfaði samkvæmt lögum um málefni fatlaðra. Greiðslur ríkissjóðs til A væru með tvennum hætti. Á fjárlögum væri greint á milli fjármagns vegna launagjalda annars vegar og fjármagns vegna annarra gjalda hins vegar. Væri fé þetta skýrlega aðgreint við afgreiðslu af hálfu fjármálaráðuneytisins þannig að greiðsludeild þess innti rekstrarfé (önnur gjöld) mánaðarlega af hendi til A og launaskrifstofa ríkisins launagreiðslur beint til starfsmanna. Hefði ráðuneytið með höndum gerð allra kjarasamninga við starfsmenn A og bæri stofnunin því enga ábyrgð á gerð þeirra né launakostnaði. Af hálfu stjórnar A var í kvörtuninni vikið að því, að í desember 1989 hefði Alþingi ákveðið að beiðni hennar og að fenginni tillögu fjárveitinganefndar þingsins að veita A aukafjárveitingu kr. 3,5 milljónir á fjáraukalögum 1989. Aukafjárveiting þessi hefði verið heimiluð sem lokagreiðsla á halla, er myndast hefði fyrst árið 1983 á rekstrarliðnum "önnur gjöld", þegar A var tekið af daggjöldum og sett á föst fjárlög. Vegna vanáætlunar félagsmálaráðuneytis hefði halli strax myndast á þessum rekstrarlið, sem ekki hefði fengist leiðréttur. Hluti af þessum rekstrarhalla, er numið hefði á árslokaverðlagi 1987 u.þ.b. 10,4 milljónum króna, hefði síðar verið endurgreiddur A. Stjórn A bar sig upp undan því, að henni hefði aðeins borist kr. 762 þúsund af umræddri aukafjárveitingu. Félagsmálaráðuneytið hefði gefið þá skýringu á skerðingu um kr. 2.738 þúsund, að samsvarandi halli á launalið A í árslok 1989 hefði verið leiðréttur með þessu móti. Skýrði stjórn A hallann þannig að hann hefði sprottið af kjarasamningi fjármálaráðuneytisins við ófaglært starfsfólk A hinn 21. júlí 1989, er farið hefði umtalsvert fram úr almennum launahækkunum. Hefði félagsmálaráðuneytinu ítrekað verið bent á þennan launaliðarhalla. Hefði ríkissjóður hinn 19. febrúar 1990 endurgreitt 1.900 þúsund krónur af skerðingu á aukafjárveitingunni.

Stjórn A taldi aðgerð ráðuneytanna ólögmæta í tvennum skilningi. Um það sagði svo í kvörtuninni:

"1. Stjórn [A] álítur að ráðuneytin geti ekki gert kröfu til [A] vegna hækkunar á launalið, sem tilkomin er vegna kjarasamnings, sem ríkissjóður gerir sjálfur við starfsmenn heimilisins, án nokkurra atbeina stjórnar þess og beri ráðuneytunum því að tryggja heimilinu þann kostnaðarauka sem af slíkum samningum leiðir.

2. Stjórn [A] álítur að ráðuneytin geti ekki dregið hækkun á launakostnaði sem hlýst af kjarasamningi frá sérstakri fjárveitingu Alþingis sem veitt er til að jafna halla á rekstrarliðnum "önnur gjöld" og tengist í engu umræddri launakostnaðarhækkun.

Skuld ríkissjóðs við [A] vegna þessa máls nemur kr. 838 þúsund miðað við verðlag þann 29. desember 1989, þ.e. án vaxta og verðbóta.

Óskað er eftir því að kvörtun þessi verði tekin til efnislegrar meðferðar og gefið álit á því, sem stjórn [A] heldur fram, að framanlýst stjórnvaldsathöfn standist ekki lög."

II. Athugun umboðsmanns Alþingis.

Með bréfi, dags. 19. mars 1991, óskaði ég eftir því að félagsmálaráðuneytið skýrði viðhorf sitt til kvörtunar A, sbr. 9. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis, og sérstaklega óskaði ég eftir því að ráðuneytið skýrði, á hvaða lagasjónarmiðum sú ákvörðun væri reist að afhenda A ekki fjárveitinguna í heild. Svar félagsmálaráðuneytisins barst mér með svohljóðandi bréfi, dags. 30. maí 1991:

"Í framhaldi af bréfi yðar 19. mars sl., varðandi kvörtun frá stjórn sjálfseignarstofnunarinnar [A], vill ráðuneytið taka fram eftirfarandi:

[A] er sjálfseignarstofnun. Samkvæmt 33. gr. laga nr. 41/1983 um málefni fatlaðra, skal greiddur eðlilegur dvalarkostnaður fatlaðra í sjálfseignarstofnunum.

Umboðsmaður Alþingis óskar eftir að ráðuneytið láti honum í té:

1) gögn þau er ráðuneytið hefur um mál þetta, og

2) að ráðuneytið skýri, á hvaða lagasjónarmiðum sé reist sú ákvörðun, að afhenda stofnuninni ekki fjárveitinguna í heild.

1. Varðandi þessa aukafjárveitingu, er engin gögn að finna í ráðuneytinu. Fjárveitingin var veitt af fjárveitinganefnd (Alþingi) án samráðs og vitundar ráðuneytisins. Ráðuneytinu var fyrst kunnugt um hana þegar fjáraukalög ársins 1989, lög nr. 111/1989, höfðu verið samþykkt. Fjárveitingarinnar var ekki getið í frumvarpinu og enga sérstaka skýringu er að finna í lögunum um ástæðu hennar. Í framsöguræðu formanns fjárveitinganefndar kemur hins vegar fram, að umrædd fjárveiting sé veitt, "vegna hallareksturs [A]".

2. Í árslok 1989 lá ljóst fyrir að greiðslur ríkissjóðs vegna [A] voru 2.738 þús. kr. umfram fjárheimild fjárlaga. Hin almenna regla varðandi fjárveitingar í fjáraukalögum er sú, að með þeim er aflað viðbótarheimilda við fjárlög hvers árs. Í ljósi þess hafði ráðuneytið samráð við fjármálaráðuneytið um afgreiðslu aukafjárveitingar til [A] þar sem ráðuneytið hafði ekki heimild til að ávísa á ríkissjóð þeirri fjárveitingu í ljósi greiðslustöðu stofnunarinnar. Var því mismuni á 3.500 þús. kr. og 2.738 þús. kr. ávísað á [A] þann 29.12.1989, eða alls 762 þús. kr.

Almennt varðandi þessa kæru:

Sérstaða [A] og annarra sjálfseignarstofnana málefna fatlaðra gagnvart stofnunum ríkisins sem sinna málefnum fatlaðra, er sú að síðarnefndu stofnanirnar eru alfarið í greiðsluþjónustu ríkisféhirðis, en sjálfseignarstofnanirnar einvörðungu með launagreiðslur. Framlög til þeirra vegna annarra rekstrarútgjalda er greidd til þeirra mánaðarlega í samræmi við greiðsluáætlun fjármálaráðuneytisins. Þetta fyrirkomulag hefur haft í för með sér, að sjálfseignarstofnanirnar hafa fengið óskert framlög fjárlaga vegna "annarra gjalda", en fjárheimildir stofnana ríkisins eru hins vegar skoðaðar sem ein heild, án tillits til tegundar gjalda. Þannig þurfa stofnanir ríkisins að sæta því að skerða önnur rekstrarútgjöld fari launagjöld umfram viðmiðun fjárlaga, eða öfugt. Þetta greiðslufyrirkomulag til sjálfseignarstofnanna gerir hins vegar þá kröfu, að þær hagi starfsemi sinni hvað varðar mannaráðningar og vinnumagn í samræmi við fjárheimildir fjárlaga til launa.

Í málflutningi [A] kemur fram sú skoðun, að stofnunin hafi ekki borið ábyrgð á framkvæmd launagreiðslna til starfsmanna stofnunarinnar þar sem hún kom ekki nærri þeim kjarasamningum sem gerðir voru við þá og afgreiðsla launa og útreikningar voru í höndum Launaskrifstofu ríkisins.

Í þessu sambandi má benda á, að stofnunin annaðist sjálf ráðningar starfsmanna og launaafgreiðsla til þeirra byggðist á upplýsingum frá stofnuninni. Framhjá því verður þannig ekki litið, að stofnuninni bar bæði hvað varðar ráðningar og vinnutímafjölda að haga starfseminni í samræmi við fjárheimildir til launa.

Eins og fyrr segir urðu greiðslur ríkissjóðs vegna [A] 2.738 þús. kr. umfram heimild fjárlaga og skýrist sú fjárhæð alfarið með launagreiðslum.

Með bréfi dags. 16.11.1989, var því haldið fram, af hálfu [A], að áhrif kjarasamnings sem gerður var fyrr þetta ár, hafi ekki verið bætt að fullu. Með vísun til bréfsins óskaði ráðuneytið eftir fundi með starfsmönnum launa- og samningasviðs fjármálaráðuneytisins um efni bréfsins. Á þeim fundi kom fram, að launaliður [A] í fjárlögum hefði verið bættur í samræmi við launahækkanir kjarasamningsins og jafnframt, að samningurinn ætti ekki að leiða til magnaukningar yfirvinnu og álags, eins og haldið var fram í bréfi [A]. Í ljósi þessara upplýsinga sá ráðuneytið ekki ástæðu til að gera ráðstafanir varðandi launalið stofnunarinnar.

Á fundi 17. jan. 1990, sem haldinn var að ósk [A], þar sem auk fulltrúa frá [A], sátu starfsmenn frá félagsmálaráðuneytinu og fjármálaráðuneytinu var farið yfir launahækkanir fyrrnefnds kjarasamnings. Niðurstaða fundarins var, að launaliður stofnunarinnar hefði ekki verið bættur að fullu og var það mat aðila að áhrif samningsins hefðu verið vanreiknuð um sem næmi 1.900 þús. kr. Í ljósi þess var ákveðið að bæta þeirri fjárhæð við launalið stofnunarinnar vegna ársins 1989. Með því móti var unnt að greiða [A] þá fjárhæð til viðbótar því sem þegar hafði verið greitt af aukafjárveitingunni.

Hins vegar er ljóst að greiðslur vegna stofnunarinnar umfram mat á eðlilegum launakostnaði hennar námu 838 þús. kr. á þessu ári. Félags- og fjármálaráðuneytið hafa ekki fallist á að stofnunin eigi tilkall til þessarar fjárhæðar þar sem í því fælist viðurkenning á að stofnuninni hefði ekki borið að haga starfsemi hennar með hliðsjón af fjárveitingum í fjárlögum.

Ráðuneytið væntir þess að ofangreint hafi skýrt þau sjónarmið er lágu að baki meðferðar þess á fjárframlagi til [A] á fjáraukalögum 1989.

Beðist er velvirðingar að dregist hefur að svara yður vegna fjárlagaundirbúnings. Ef óskað er eftir frekari upplýsingum er ráðuneytið reiðubúið að láta þær í té."

Ég gaf stjórn A kost á að senda mér athugasemdir sínar vegna framangreinds svars ráðuneytisins og þær bárust mér með bréfi, dags. 28. júní 1991.

III.

Eftir að hafa fengið skýringar ráðuneytisins og athugasemdir stjórnar A, óskaði ég eftir því við stjórnina með bréfi, dags. 27. ágúst 1991, að hún léti mér í té frekari skýringar og gögn um það, með hvaða hætti hún hefði borið fram beiðni sína um fjárveitingu til leiðréttingar á halla á rekstrarliðnum "önnur gjöld" og hvaða rökstuðningur hefði fylgt henni. Jafnframt óskaði ég eftir afritum af þeim bréfum og gögnum, sem kynnu að hafa verið lögð fyrir fjárveitinganefnd Alþingis vegna þessarar beiðni. Sama dag óskaði ég eftir því við fjárlaganefnd Alþingis að nefndin léti mér í té ljósrit af þeim skriflegu gögnum, sem kynnu að hafa verið lögð fyrir fjárveitinganefnd vegna framangreindrar beiðni stjórnar A, svo og upplýsingar um afgreiðslu beiðninnar af hálfu nefndarinnar, þ.m.t. til hvaða útgjalda fjárveitingin ætti að ganga.

Í svarbréfi stjórnar A til mín, dags. 12. september 1991, var gerð grein fyrir eftirrekstri stjórnarinnar varðandi leiðréttingu á rekstrarliðnum "önnur gjöld" allt frá því að halli varð á þeim lið við færslu stofnunarinnar á föst fjárlög 1. janúar 1984. Stjórnin tók fram, að hún hefði aldrei sótt um fjárveitingu til fjárveitinganefndar Alþingis vegna launa eða um aukafjárveitingu vegna þess, að launaliður hafi farið fram úr fjárlögum. Stjórn A greindi frá því, að úthlutun aukafjárveitingar kr. 3,5 milljónir hefði borið að með þeim hætti, að eftir viðtal við einstaka nefndarmenn í fjárveitinganefnd hefði nafngreindum nefndarmanni verið afhent minnisblað um erindið. Fjárveitinganefndin hefði hinn 14. mars 1991 samþykkt fjárveitingu kr. 9 milljónir sem "lokauppgjör til lausnar á fjárhagsvanda [A] sem myndast hefur á árabilinu 1983-1990". Vísaði stjórn A í bréfi sínu til þess, að þessi samþykkt fjárveitinganefndarinnar hefði byggst á skýrslu Ríkisendurskoðunar, þar sem tekin væru af öll tvímæli um, að umrædd aukafjárveiting að upphæð kr. 3,5 milljónir (samtals 12,5 milljónir króna) væri vegna rekstrar en ekki launa. Af þessari fjárhæð hefðu kr. 838 þúsund ekki verið greiddar A, en í greinargerð Ríkisendurskoðunar væri litið svo á að fjárhæðin væri greidd vegna rekstrarvanda. Hann yrði ekki bættur með því að draga kostnað vegna launa frá þeirri upphæð. Kvaðst stjórn A í bréfinu ekki sætta sig við slíka meðferð og lagði áherslu á, að aukafjárveitingin hefði verið veitt vegna rekstrar og því óheimilt að skerða hana vegna launa.

Í minnisblaði því, sem stjórn A vísaði til í bréfi sínu til mín, dags. 12. september 1991, og afhent var einum nefndarmanna í fjárveitinganefnd Alþingis, sagði:

"1 Óuppgerð skuld vegna mistaka Félagsmálaráðuneytis frá 1983 (þegar [A] voru settir inn á fjárlög) eftirstöðvar nú eru 3,0 millj.

1988 fengust 3,0 millj. og 1989 9,0 millj. upp í skuldina. Þessari upphæð er nú velt áfram á fullum dráttarvöxtum. Ítarleg greinargerð var lögð fyrir fjárveitinganefnd 1988.

2 Hitakostnaður hefur ekki enn fengist viðurkenndur (allt frá 1983) þar sem staðurinn hefur eigin hitaveitu. Á árinu þornaði hverinn og nauðsynlegar viðgerðir voru gerðar fyrir 2,0 millj.

Stjórnarmenn gengust í ábyrgð fyrir þessum útgjöldum.

3 Núverandi fjárlagatillögur standast ekki:

Sértekjur eru áætlaðar 2,9 millj.,

geta hæst orðið 2,1 millj.

Laun eru áætluð 42,0 millj. Miðað við kjarasamninga launanefndar ríkisins sem hún gerði við starfsfólk eru laun áætluð 46,4 millj., þ.e. vöntun 4,4 millj.

Annar rekstur er áætlaður 27,0 millj., en verður þrátt fyrir niðurskurð 32,0 millj., þ.e. vöntun 5,0 millj.

Óbreytt fjárveiting 72,1 millj. hefur í för með sér fækkun um 7-9 vistmenn frá 01. jan. 1990."

Í 3. tl. bréfs stjórnar A frá 12. september 1991 er vísað til skýrslu Ríkisendurskoðunar frá 11. júlí 1990, en þar segir m.a.:

"Á árinu 1989 var veitt sérstakt framlag frá ríkissjóði að fjárhæð 12,5 milljónir króna vegna tapreksturs fyrri ára.... Það er álit Ríkisendurskoðunar að með sérstakri fjárveitingu á árinu 1989 að fjárhæð 12,5 milljónir króna hafi ríkissjóður bætt [A] rekstrarhalla áranna 1983 til 1989 að fullu."

Með bréfi fjárlaganefndar Alþingis, dags. 4. október 1991, fékk ég send þau gögn, sem nefndin hafði fengið frá stjórn A í tilefni af beiðni um fjárveitingu á fjáraukalögum fyrir árið 1989. Voru það áðurgreint minnisblað og samantekt forstöðumanns A frá árinu 1988 varðandi sundurliðun rekstrarhalla A 1983-1986. Á það eintak minnisblaðsins, sem fylgdi bréfi fjárlaganefndar, hafði talan "3,5" verið handskrifuð inn á blaðið við 1. tölulið blaðsins.

IV. Niðurstaða.

Niðurstaða álits míns, dags. 18. nóvember 1991, var svohljóðandi:

"Sjálfseignarstofnunin A starfar samkvæmt skipulagsskrá, staðfestri af forseta Íslands og birtri í Stjórnartíðindum sem nr.... Samkvæmt 3. gr. skipulagsskrárinnar er tilgangur A að starfrækja sólarhringsvistun fyrir fatlaða, þar sem veitt er þjálfun og leiðsögn með það að markmiði að gera þeim kleift að lifa eðlilegu lífi og hasla sér völl í samfélaginu þar sem þeim vegnar best. Eignir stofnunarinnar eru vistheimilið A, þ.e. jörðin B ásamt húsum öllum og mannvirkjum, búpeningi, tækjum, innanstokksmunum og öðru því, sem stofnuninni tilheyrir, auk þess sem hún síðar kann að eignast fyrir gjöf eða á annan hátt. Sjálfseignarstofnuninni er stjórnað af fulltrúaráði, sem í eiga sæti 21 maður, er prestastefna tilnefnir, en úr hópi fulltrúaráðsmanna skal kjósa 5 manna framkvæmdastjórn til eins árs í senn. Framkvæmdastjórnin ræður heimilinu forstöðumann.

Starfsemin að A fellur undir lög nr. 41/1983 um málefni fatlaðra. Í 1. mgr. 27. gr. laganna segir, að komi félög á fót stofnunum, sem nánar eru tilgreindar í 7. gr. laganna, sé heimilt að veita til þess fé úr Framkvæmdasjóði fatlaðra. Samkvæmt 33. gr. sömu laga skal ríkið greiða eðlilegan dvalarkostnað fatlaðra í sjálfseignarstofnunum samkvæmt 7. gr. og tekur þetta ákvæði til A.

Sjálfseignarstofnunin A hefur sjálfstæðan fjárhag og á að lögum aðeins kröfu til þess að ríkissjóður greiði eðlilegan dvalarkostnað vistmanna í samræmi við 1. mgr. 33. gr. laga nr. 41/1983. Til viðbótar kann sjálfseignarstofnunin síðan að fá veitt fé úr Framkvæmdasjóði fatlaðra til framkvæmda samkvæmt 1. mgr. 27. gr. laga nr. 41/1983. Þessi lagaákvæði hagga því ekki að Alþingi getur við afgreiðslu fjárlaga ákveðið að veita A sjálfstæð fjárframlög, sem annaðhvort eru ætluð til ákveðinna verkefna eða stjórn stofnunarinnar til frjálsrar ráðstöfunar. Slíkar fjárveitingar eiga því að ganga til sjálfseignarstofnunarinnar óháð þeim lögboðnu greiðslum, sem ríkissjóði ber að inna af hendi til A. Með sama hætti á lagatæknileg framsetning fjárlaga og meðferð fjárgreiðslna til A í greiðslu- og bókhaldskerfi ríkisins ekki að leiða til þess að ákvörðun Alþingis um sjálfstæða fjárveitingu nái ekki fram að ganga.

Í því tilviki, sem kvörtun stjórnar A tekur til, liggur fyrir að Alþingi samþykkti 3,5 milljóna króna fjárveitingu á fjáraukalögum ársins 1989 til A. Við flutning tillögunnar á Alþingi kom fram í ræðu formanns fjárveitinganefndar Alþingis að fjárveitingin væri veitt "vegna hallareksturs vistheimilisins [A]." (Alþt. 1989-90, B-deild, d. 2465).

Í skýringum félagsmálaráðuneytisins til mín kemur fram, að ofangreind fjárveiting var veitt "án samráðs og vitundar ráðuneytisins". Það var síðan ákvörðun félagsmálaráðuneytisins, að höfðu samráði við fjármálaráðuneytið, að láta hluta af ofangreindri fjárveitingu ganga til greiðslna úr ríkissjóði á árinu 1989 vegna launa umfram heimild fjárlaga það ár. Tekur ráðuneytið fram, að það sé hin almenna regla varðandi fjárveitingar í fjáraukalögum að með þeim sé aflað viðbótarheimilda við fjárlög hvers árs.

Samkvæmt þeim gögnum, sem hafa verið lögð fyrir mig í tilefni af þessari kvörtun, er ljóst, að það var stjórn A, sem óskaði sérstaklega eftir umræddri fjárveitingu og færði fram rök fyrir beiðni sinni. Í fjáraukalögum fyrir árið 1989 eða umræðum um þau á Alþingi var ekki að finna afdráttarlausa skýringu á því, hvernig bæri að ráðstafa fjárveitingunni. Af þessum ástæðum og með hliðsjón af því, að félagsmálaráðuneytið eða fjármálaráðuneytið höfðu ekki haft nein afskipti af tillögugerð í þessu efni, en það er hin almenna regla þegar um er að ræða fjárveitingar til greiðslu á lögboðnum rekstrarútgjöldum heimilis af þessu tagi, tel ég, að það hefði verið eðlilegt og í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti, að félagsmálaráðuneytið hefði haft frumkvæði að því að kanna, hvort fá mætti nánari skýringar hjá fjárveitinganefnd Alþingis, til hvaða útgjalda umrædd fjárveiting var ætluð. Sérstök ástæða var fyrir ráðuneytið að gera þetta í tilefni af athugasemdum stjórnar A, sem fram komu í framhaldi af greiðslu ráðuneytisins 29. desember 1989.

Það eru tilmæli mín, að félagsmálaráðuneytið taki þetta mál til meðferðar að nýju og afli framangreindra upplýsinga. Leiði þær í ljós, að það hafi verið ætlun fjárveitingavaldsins að þessi fjárveiting gengi óskert til A til að greiða rekstrarhalla fyrri ára í samræmi við beiðni stjórnar A, eins og áritun á fyrrgreint minnisblað gæti bent til, tel ég, að ráðuneytinu hafi ekki verið heimilt að ráðstafa hluta af fjárveitingunni til greiðslna á dvalarkostnaði vistmanna árið 1989 umfram fjárveitingu á fjárlögum þess árs. Þótt hin almenna regla sé sú varðandi fjárveitingar í fjáraukalögum, að með þeim sé aflað viðbótarheimilda við fjárlög hvers árs, eins og ráðuneytið tekur fram í bréfi sínu, útilokar það ekki að Alþingi ákveði við afgreiðslu fjáraukalaga að veita fé til annars. Slíkar ákvarðanir verða stjórnvöld að virða.

Samkvæmt framansögðu eru það tilmæli mín, að félagsmálaráðuneytið taki ráðstöfun fjárveitinga á fjáraukalögum fyrir árið 1989 til sjálfseignarstofnunarinnar A til athugunar á ný og gæti við nýja ákvörðun sína þeirra sjónarmiða, er gerð hefur verið grein fyrir í áliti þessu."

V. Viðbrögð stjórnvalda.

Í tilefni af áliti mínu í ofangreindu máli barst mér svohljóðandi ljósrit af bréfi félagsmálaráðuneytisins, dags. 18. febrúar 1992, til sjálfseignarstofnunarinnar A:

„Í framhaldi af bréfi ráðuneytisins dags. 25. febrúar sl. vill ráðuneytið upplýsa að því hafa borist hjálögð gögn varðandi [A]. Ekkert í þeim gögnum varpar ljósi á það að fjárveitinganefnd hafi sérstaklega ætlað að víkja frá hinni almennu reglu að fjárveitingar í fjáraukalögum séu viðbótarheimildir við fjárlög hvers árs.

Fjárveitingar til [A] á árinu 1989 voru því samkvæmt fjárlögum 63.842.000 og samkvæmt fjáraukalögum 3.5 millj. Samtals eru þetta með verðbótum 68.614.000 krónur.

Samkvæmt greiðsluyfirliti félagsmálaráðuneytis fyrir desember 1989 höfðu [A] fengið greiddar krónur 67.848.000 og hinn 29/12/89 var mismunur 3.500.000 og 2.738.000 greiddar eða 762.000. Greiðslur til [A] á árinu 1989 voru því í samræmi við fjárlög og fjáraukalög þ.e. 68.614.000 krónur. Hafi fjárveitinganefnd með aukafjárveitingu sinni 1989 ætlað sér að veita fé til ákveðins verkefnis á [A], þ.e. ekki til reksturs, kemur það ekki fram í þeim gögnum sem ráðuneytið hefur undir höndum. Ákvörðun ráðuneytisins um afgreiðslu aukafjárveitingar er því óbreytt. Þær 838.000 krónur sem voru greiðslur úr ríkissjóði umfram eðlilegan launakostnað verða því ekki greiddar [A], þar sem þær jafnast upp á móti þeim greiðslum sem ríkissjóður hafði innt af hendi fyrir [A] umfram heimildir í fjárlögum. Skilningur ráðuneytisins á því að fjáraukalög veiti viðbótarheimildir við fjárlög hvers árs er því ítrekaður.“