Dráttarvextir af vangreiddum virðisaukaskatti. Málshraði.

(Mál nr. 1643/1996)

Við skattskil A vegna rekstraráranna 1991 og 1992 kom fram samkvæmt samanburðarskýrslum, að virðisaukaskattur hafði verið vanreiknaður samkvæmt áður sendum virðisaukaskattsskýrslum. Hinn 9. janúar 1995 og 6. apríl 1995 endurákvarðaði skattstjóri virðisaukaskatt A í samræmi við þær leiðréttingar, sem A hafði gert grein fyrir. Þá bætti skattstjóri álagi og dráttarvöxtum við hinar vangreiddu fjárhæðir. A taldi sig hafa orðið fyrir verulegu fjárhagslegu tjóni vegna óhóflegs dráttar á afgreiðslu málsins af hendi skattstjóra, er leitt hefði til mun hærri dráttarvaxtakröfu ríkisins en ella hefði orðið. Kröfu A um niðurfellingu dráttarvaxta af skattskuldinni fyrir þann tíma, sem málið lá óhreyft hjá skattstjóra, var hafnað af hálfu fjármálaráðuneytisins. Í bréfi, sem umboðsmaður ritaði A, var gerð grein fyrir leiðréttingum, þegar svo stendur á, að fram kemur við ársuppgjör mismunur milli áður sendra virðisaukaskattsskýrslna annars vegar og bókhalds og ársreiknings hins vegar. Umboðsmaður gat þess, að í lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, væri ekki sérstaklega kveðið á um málsmeðferð vegna ágreinings um dráttarvexti vegna síðbúinnar greiðslu skattaðila á virðisaukaskatti og vegna síðbúinnar endurgreiðslu af hálfu ríkissjóðs eða um vexti vegna ofgreiðslu skattaðila á virðisaukaskatti. Svo hefði verið talið, að um þessi atriði færi eftir ákvæðum laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Samkvæmt úrskurðarframkvæmd hefði verið talið, að ágreiningsefni um innheimtu álagðra opinberra gjalda, þ.m.t. vaxta, ættu ekki undir kærumeðferð þá, sem kveðið væri á um í 99. og 100. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. nú ákvæði laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd. Því væri talið, að ekki væri á valdsviði yfirskattanefndar að fjalla um slík ágreiningsefni. Umboðsmaður féllst á, að dregist hefði úr hófi, að skattstjóri afgreiddi málið. Hins vegar bæri að líta til þess, að A hefði verið skylt samkvæmt ákvæðum virðisaukaskattslaga að leiðrétta fyrri virðisaukaskattsskil með leiðréttum skýrslum og standa skil á hinum vangoldna og gjaldfallna virðisaukaskatti, þegar mismunur kom í ljós, hvað sem leið afgreiðslu skattstjóra. Þegar þetta væri virt og það að á samanburðarblaði virðisaukaskatts væru áprentaðar skýrar og áberandi leiðbeiningar í þessa veru, taldi umboðsmaður, að ekki væru efni til að gera athugasemdir við þá ákvörðun fjármálaráðuneytisins að synja A um niðurfellingu dráttarvaxta. Í bréfi mínu til A, dags. 2. febrúar 1996, sagði:

"I. Ég vísa til kvörtunar yðar, dags. 12. desember 1995, þar sem þér teljið, að dregist hafi úr hömlu hjá skattstjóranum í X að afgreiða samanburðarblöð yðar til virðisaukaskatts vegna rekstraráranna 1991 og 1992. Teljið þér, að þér hafið orðið fyrir verulegu fjárhagslegu tjóni vegna óhóflegs dráttar á afgreiðslu málsins af hendi skattstjórans, er leitt hafi til mun hærri dráttarvaxtakröfu ríkisins en ella hefði orðið. Samkvæmt bréfi yðar og gögnum, sem því fylgdu, kom fram mismunur á samanburðarskýrslum yðar til virðisaukaskatts, er þýddi, að þér skulduðuð um 190.000 kr. vegna rekstrarársins 1991 og um 120.000 kr. vegna rekstrarársins 1992. Samkvæmt bréfi skattstjórans í X, dags. 2. maí 1995, sem fylgdi bréfi yðar í ljósriti, barst samanburðarskýrsla virðisaukaskatts (RSK 10.25) og framhaldsblað (RSK 10.26) vegna rekstrarársins 1991 með skattframtali yðar árið 1992, sem skattstjóri móttók 13. maí 1992. Þær breytingar, sem fram komu á framhaldsblaðinu, voru skráðar hjá skattstjóra 9. janúar 1995, eftir því sem upplýst er í þessu bréfi skattstjórans. Samanburðarskýrsla virðisaukaskatts og framhaldsblað vegna rekstrarársins 1992 bárust skattstjóra með skattframtali yðar árið 1993, er skattstjóri móttók 30. apríl 1993. Þær breytingar, sem fram komu á framhaldsblaðinu, voru skráðar hjá skattstjóra 6. apríl 1995. Í bréfi yðar kemur fram, að eftir að fyrrgreindar breytingar höfðu verið skráðar hjá skattstjóra, hafi innheimtumaður ríkissjóðs gert kröfu um greiðslu skuldarinnar með álagi og dráttarvöxtum, samtals um 360.000 kr. vegna ársins 1991 og um 190.000 kr. vegna ársins 1992. Þér vefengið ekki skattskuldina, en sættið yður hins vegar ekki við að greiða dráttarvexti af henni fyrir þann tíma, sem málið lá óafgreitt hjá skattstjóra. Beiðni yðar um það, dags. 18. maí 1995, hafi fjármálaráðuneytið hafnað með bréfi, dags. 3. nóvember 1995. Ljósrit af þessu bréfi fjármálaráðuneytisins fylgdi bréfi yðar og segir svo í bréfi ráðuneytisins: "Ráðuneytið vill í þessu sambandi vísa til samanburðarskýrslu virðisaukaskatts (RSK 10.26), en þar stendur breiðletrað [...] neðst til hægri: Ef fram kemur mismunur í staflið B skal sundurliða þann mismun eftir uppgjörstímabilum með útfyllingu leiðréttingarskýrslu RSK 10.26. Á téðri leiðréttingarskýrslu stendur á sama stað: Skýrslur með jákvæðan mismun (VSK vanreiknaður) skal þegar í stað senda til innheimtumanns ríkissjóðs ásamt greiðslu. Inneignarskýrslur skal senda beint til skattstjóra. Að lokum vill ráðuneytið taka fram að það semur í engum tilvikum um niðurfellingu dráttarvaxta þar sem ekki er heimild til slíkrar niðurfellingar í lögum, einnig mundi slíkt brjóta í bága við jafnræðisreglu stjórnsýslu- og skattaréttar. Ef samið væri um niðurfellingu dráttarvaxta við einn gjaldanda yrði ráðuneytið að semja um slíkt við alla ella væri ekki eins farið með alla gjaldendur. Með vísan til framansagðs verður ráðuneytið því að synja erindi yðar." II. Eftir því sem þér lýsið málavöxtum í kvörtun yðar, kom fram við ársuppgjör vegna rekstraráranna 1991 og 1992 jákvæður mismunur annars vegar milli áður sendra virðisaukaskattsskýrslna og hins vegar bókhalds og ársreiknings, þ.e. virðisaukaskattur hafði verið vanreiknaður samkvæmt skýrslunum. Bar yður því að gera grein fyrir þessum mismun á samanburðarblaði virðisaukaskatts með sundurliðun á einstök virðisaukaskattstímabil, sbr. form fyrir slíkar leiðréttingar (RSK 10.26). Skyldu til að standa skil á samanburðarblöðum virðisaukaskatts, sem mun byggjast á 5. gr. reglugerðar nr. 529/1989, um framtal og skil á virðisaukaskatti, sbr. og IX. kafla laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og 5. mgr. 49. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum, dragið þér út af fyrir sig ekki í efa. Samkvæmt framansögðu kom í ljós, að virðisaukaskattur hafði verið vangreiddur af yðar hálfu fyrir einhver af virðisaukaskattstímabilum rekstraráranna 1991 og 1992, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum, en ekki kemur fram, hvernig sú vangreiðsla skiptist á tímabil. Þessi vangreiðsla var í gjalddaga fallin, sbr. 1. og 2. mgr. 24. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum. Af þessum sökum bætti skattstjóri álagi við hina vangreiddu fjárhæð samkvæmt 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum. Jafnframt reiknuðust dráttarvextir samkvæmt 1. mgr. 28. gr. laga þessara. Þér unið álaginu en ekki dráttarvöxtunum. Ég tel rétt að geta þess, að í lögum nr. 50/1988 er ekki sérstaklega kveðið á um málsmeðferð vegna ágreinings um dráttarvexti vegna síðbúinnar greiðslu skattaðila á virðisaukaskatti og vegna síðbúinnar endurgreiðslu af hálfu ríkissjóðs, sbr. 28. gr. laganna, eða um vexti vegna ofgreiðslu skattaðila á virðisaukaskatti. Hefur verið talið, að um þessi atriði fari eftir ákvæðum laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 5. mgr. 49. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum. Um vexti af vangreiddu og ofgreiddu skattfé er fjallað í 112. gr. laga nr. 75/1981 í XIII. kafla laganna um innheimtu og ábyrgð. Samkvæmt úrskurðarframkvæmd ríkisskattanefndar og síðar yfirskattanefndar hefur verið talið, að ágreiningsefni um innheimtu álagðra opinberra gjalda, þ.m.t. vextir, eigi ekki undir kærumeðferð þá, sem kveðið er á um í 99. og 100. gr. laga nr. 75/1981, sbr. nú ákvæði laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd. Af þessu hefur verið talið leiða, að kærumeðferð eftir 29. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. nú lög nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, eigi ekki við um ákvörðun dráttarvaxta af vangreiddum virðisaukaskatti og því ekki á valdsviði yfirskattanefndar að fjalla um slík ágreiningsefni. Ég skil svo bréf skattstjóra, dags. 2. maí 1995, að hinn 9. janúar 1995 og 6. apríl 1995 hafi virðisaukaskattur yðar fyrir hin umliðnu tímabil verið formlega endurákvarðaður til hækkunar í samræmi við þær leiðréttingar, sem þér höfðuð gert grein fyrir. Ég get fallist á það með yður, að dregist hafi úr hófi, að skattstjóri afgreiddi málið af sinni hálfu. Hins vegar ber að líta til þess, að mínum dómi, að yður var skylt samkvæmt ákvæðum virðisaukaskattslaga að leiðrétta fyrri virðisaukaskattsskil yðar með leiðréttum virðisaukaskattsskýrslum og standa skil á hinum vangoldna og gjaldfallna skatti, þegar umræddur mismunur kom í ljós, hvað sem leið fyrrgreindri afgreiðslu skattstjóra. Þegar þetta er virt og það, að á samanburðarblaði virðisaukaskatts (RSK 10.26) eru áprentaðar skýrar og áberandi leiðbeiningar í þessa veru, tel ég, að ekki séu efni til að gera athugasemd við þá ákvörðun fjármálaráðuneytisins frá 3. nóvember 1995, að synja yður um niðurfellingu eða lækkun dráttarvaxta. Samkvæmt því, sem að framan greinir, er ekki tilefni til þess, að ég fjalli frekar um kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis."