Gjafsókn. Synjun gjafsóknar í dómsmáli.

(Mál nr. 331/1990)

Máli lokið með áliti, dags. 22. mars 1991.

A kvartaði yfir því, að dómsmálaráðherra hefði synjað beiðni hans um gjafsókn í dómsmáli, sem hann hugðist höfða gegn honum og fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs til heimtu bóta fyrir einangrun vegna agabrots er A sætti umfram dæmda refsingu. Var beiðni A reist á því, að hann væri eignalaus og hefði sjaldan tekjur. Umboðsmaður taldi, að ekki hefði annað komið fram en að heimilt hefði verið að veita A gjafsókn samkvæmt XI. kafla laga nr. 85/1936 um meðferð einkamála í héraði. Í dómsmáli því, er A höfðaði, væri fjallað um réttmæti þess, að fangavist varð lengri en ákveðin var í dómi vegna viðurlaga við agabrotum, ákveðnum samkvæmt 26. gr. laga nr. 48/1988 um fangelsi og fangavist. Vísaði umboðsmaður til álits síns, dags. 21. september 1990, í málinu nr. 170/1989, sbr. bls. 95-106 í ársskýrslu fyrir árið 1990, þar sem fram kæmi sú skoðun hans, að ákvörðun fangelsisyfirvalda um einangrun fanga skv. 26. gr. laga nr. 48/1988 samrýmdist ekki 1. mgr. 5. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, a.m.k. ekki ef slík ákvörðun lengdi í raun dæmdan refsitíma. Þá benti umboðsmaður á, að á það reyndi í málinu, hvort dómstólar beittu 26. gr. laga nr. 48/1988 þrengjandi lögskýringu með hliðsjón af 5. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu. Hann vísaði til réttar til skaðabóta samkvæmt þessari grein sáttmálans og tók fram, að til þess að ná þeim rétti þyrftu þeir fyrst að leita réttar síns í heimalandinu, sbr. 26. gr. Mannréttindasáttmálans, eftir atvikum fyrir dómstólum, ef ekki yrði samkomulag um bætur við stjórnvöld þess ríkis, sem í hlut ætti. Taldi umboðsmaður með hliðsjón af kvörtun A og sérstaklega með tilliti til þeirra skuldbindinga, sem íslenska ríkið hefði gengist undir með aðild sinni að Mannréttindasáttmála Evrópu, að rík ástæða væri til þess fyrir íslensk stjórnvöld að greiða fyrir umræddri málssókn. Mæltist umboðsmaður því til þess, að dómsmálaráðuneytið endurskoðaði þá ákvörðun sína, að hafna beiðni A um gjafsókn.

I. Kvörtun og málavextir.

Hinn 11. september 1990 bar B, hæstaréttarlögmaður, fram kvörtun fyrir hönd A út af því, að dómsmálaráðuneytið hefði synjað beiðni hans um gjafsókn. Málavextir voru þeir, að hinn 16. maí 1990 fór lögmaður A þess á leit við dómsmálaráðherra að A yrði veitt gjafsókn í máli, sem hann hugðist höfða gegn honum og fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs til heimtu bóta fyrir refsivist, er A taldi sig hafa sætt umfram dæmda refsingu. Í beiðninni kom fram, að ástæða hennar væri sú, að A væri eignalaus og hefði sjaldan tekjur. Í svarbréfi dómsmálaráðuneytisins, dags. 3. september 1990, sagði, að ráðuneytið teldi að athuguðu máli ekki unnt að verða við beiðninni. Í stefnu, sem lögð var fram á bæjarþingi Reykjavíkur 29. maí 1990, er því lýst, að hinn 1. september 1988 hafi A byrjað afplánun 280 daga eftirstöðva refsingar, þar sem hann hefði rofið skilorð reynslulausnar. Hinn 4. júní 1989, á meðan á afplánun stóð, hafi hann skv. 26. gr. laga nr. 48/1988 um fangelsi og fangavist verið úrskurðaður í 10 daga einangrun vegna agabrots, frá 4. júní til 14. júní 1989. Afplánun refsingarinnar lauk A 18. júní 1988. Taldi A, að þannig hefðu verið brotin á honum lög, þar sem honum hefði verið gert að afplána lengri fangavist en dómur kvað á um.

II. Athugun umboðsmanns Alþingis.

Hinn 3. október 1990 fór ég þess á leit, að dómsmálaráðuneytið léti mér í té gögn málsins, sbr. 7. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis. Þau bárust mér með bréfi ráðuneytisins 9. sama mánaðar. Í framhaldi af því ritaði ég dómsmálaráðherra bréf 18. s.m. og óskaði eftir því, að dómsmálaráðuneytið skýrði viðhorf sitt til kvörtunar A, sbr. 9. gr. laga nr. 13/1987. Í skýringum dómsmálaráðuneytisins, sem bárust mér með bréfi þess, dags. 12. desember 1990, sagði svo:

"Meginákvæðin um heimild til veitingar gjafsóknar eru í XI. kafla laga um meðferð einkamála í héraði nr. 85/1936. Samkvæmt 172. gr. eml. er heimilt að veita tilteknum lögpersónum og einstökum mönnum, að uppfylltum nánari skilyrðum, gjafsókn.

Fátítt er að gjafsókn sé veitt á grundvelli 1. mgr. 172. gr. eml., en þó eru þess dæmi að t.d. hreppsfélög hafi fengið gjafsókn á þeim grundvelli. Mun algengara er að gjafsókn sé veitt á grundvelli 2. tl. 1. mgr. 172. gr. eml., þ.e. að efnalitlir einstaklingar njóti gjafsóknar.

Samkvæmt 3. málslið 171. gr. eml. skal athuga málstað umsækjanda eftir föngum áður en gjafsókn er veitt. Hvað þetta atriði varðar er ekki við neinar skráðar reglur að styðjast um það hvernig skuli meta málstað umsækjanda, en í ráðuneytinu hafa skapast um það ákveðnar verklagsreglur. Óhætt er að segja að efnalitlir einstaklingar, sem reka mál til heimtu skaðabóta vegna líkamstjóns eða missis framfæranda, séu í meirihluta þeirra er gjafsóknar njóta. Rétt er þó að taka fram að eigi er einhlítt að öll skaðabótamál, njóti gjafsóknar. Það að skaðabótamál, vegna líkamstjóns eða missis framfæranda, eru í meirihluta þeirra mála er gjafsóknar njóta, vísar til þess að við mat á umsókn um gjafsókn er megintillit tekið til þess hvort mál varðar framfærslu einstaklings og fjölskyldu hans eftir atvikum.

Önnur mál, sem gjafsóknar njóta, eru af margvíslegum toga og skera sig engin mál úr með sama hætti og skaðabótamál gera. Er þá litið til þess hvort málsókn er nauðsynleg til að niðurstaða fáist. Þá er og tekið tillit til þess hvort ætla megi að niðurstaða máls hafi almenna þýðingu.

Auk almennra faglegra sjónarmiða verður að taka tillit til þeirrar fjárhæðar sem á ári hverju er veitt til að greiða gjafsóknarkostnað í fjárlögum.

Ákvæði laga um veitingu gjafsóknar eru heimildarákvæði og umsóknir því háðar mati ráðuneytis á aðstæðum umsækjanda og málsatvikum.

Hér að framan hefur verið lýst almennum sjónarmiðum varðandi mat á umsókn um gjafsókn.

Hvað umrædda kvörtun varðar var það mat ráðuneytisins að þrátt fyrir bágan efnahag umsækjanda væru ekki þau atvik fyrir hendi að veita ætti gjafsókn."

Með bréfi, dags. 19. desember 1990, gaf ég lögmanni A kost á að koma á framfæri athugasemdum í tilefni af skýringum dómsmálaráðuneytisins. Athugasemdir lögmannsins bárust mér með bréfi hans, dags. 7. janúar 1991.

III. Niðurstaða.

Niðurstaða álits míns, dags. 22. mars 1991, var svohljóðandi:

"Eigi er annað komið fram í máli þessu en að heimilt hafi verið að veita A gjafsókn samkvæmt XI. kafla laga nr. 85/1936 um meðferð einkamála í héraði. Í málinu er fjallað um réttmæti þess, að fangavist varð lengri en ákveðin var í dómi vegna viðurlaga við agabrotum, ákveðnum samkvæmt 26. gr. laga nr. 48/1988 um fangelsi og fangavist. Ég hef í áliti frá 21. september 1990 (sjá mál nr. 170/1989, ársskýrsla fyrir árið 1990, bls. 97) látið í ljós þá skoðun, að ákvörðun fangelsisyfirvalda um einangrun fanga samkvæmt fyrirmælum 26. gr. laga nr. 48/1988 samrýmist ekki 1. mgr. 5. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, að minnsta kosti ekki ef slík ákvörðun lengir í raun refsitíma þann, sem ákveðinn hefur verið í dómi. Þessum reglum 26. gr. laga nr. 48/1988 var síðan breytt með lögum, samþykktum af Alþingi 7. mars 1991.

Í umræddu máli A reynir á það, hvort dómstólar beiti 26. gr. laga nr. 48/1988 þrengjandi lögskýringu með hliðsjón af 5. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu. Því til viðbótar er hér rétt að benda á, að í 5. mgr. 5. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu er svo fyrir mælt, að sérhver sá, sem réttur hefur verið brotinn á skv. 5. gr., skuli eiga rétt á skaðabótum. Til þess að menn geti náð þeim rétti, þurfa þeir fyrst að leita réttar síns í heimalandinu, sbr. 26. gr. mannréttindasáttmálans, eftir atvikum fyrir dómstólum, ef ekki verður samkomulag um bætur við stjórnvöld þess ríkis, sem í hlut á, en það er auðvitað æskilegast.

Með hliðsjón af ofangreindum atvikum og sérstaklega með tilliti til þeirra skuldbindinga, sem íslenska ríkið hefur gengist undir með aðild sinni að Mannréttindasáttmála Evrópu, er það álit mitt að rík ástæða sé til þess fyrir íslensk stjórnvöld að greiða fyrir umræddri málssókn.

Ég leyfi mér samkvæmt framansögðu að mælast til þess að dómsmálaráðuneytið endurskoði ákvörðun sína frá 3. september 1990 um að hafna beiðni um gjafsókn í ofangreindu máli."

IV. Viðbrögð stjórnvalda.

Á bæjarþingi Reykjavíkur, 14. maí 1991, var kveðinn upp dómur í máli A gegn dómsmálaráðherra og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs. Í dómnum kemur fram, að A hafi fengið gjafsóknarleyfi með bréfi dómsmálaráðuneytisins, dagsettu 27. mars 1991.