Sveitarstjórnarlög. Atkvæðagreiðsla. Ákvörðunarvald sveitarstjórna.

(Mál nr. 1524/1995)

A kvartaði yfir því, að félagsmálaráðuneytið hefði staðfest gildi samþykktar bæjarstjórnar Keflavíkur, Njarðvíkur og Hafna, um reglur um atkvæðagreiðslu um nýtt nafn bæjarfélagsins. Samkvæmt reglunum skyldu íbúar velja milli tveggja nafna fyrir bæjarfélagið. A taldi reglurnar takmarka valfrelsi íbúanna og ekki samrýmast auglýsingu félagsmálaráðuneytisins nr. 100/1994, um staðfestingu félagsmálaráðuneytisins á sameiningu Keflavíkurbæjar, Njarðvíkurbæjar og Hafnahrepps, þar sem segir að skoðanakönnun skuli fara fram um nafn hins nýja sveitarfélags og nafnið ákveðið á grundvelli hennar. Í bréfi umboðsmanns til A kemur fram að sveitarstjórnir eigi ákvörðunarvald um nafn á nýtt sveitarfélag. Ákveði sveitarstjórn að láta fara fram atkvæðagreiðslu samkvæmt 5. mgr. 54. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 8/1986, sé hún bundin af niðurstöðu hennar. Ákvörðun um slíka atkvæðagreiðslu takmarki hins vegar ekki ákvörðunarvald sveitarstjórna til að setja reglur um framkvæmd hennar. Taldi umboðsmaður því umrætt ákvæði reglna bæjarstjórnar Keflavíkur, Njarðvíkur og Hafna ekki brjóta gegn ákvæði auglýsingar félagsmálaráðuneytisins nr. 100/1994.

I. Í bréfi mínu til A, dags. 4. júní 1996, sagði: "Ég vísa til erindis yðar frá 14. ágúst 1995, þar sem þér kvartið yfir úrskurði félagsmálaráðuneytisins frá 28. júní 1995, er staðfesti gildi samþykktar bæjarstjórnar Keflavíkur, Njarðvíkur og Hafna frá 9. mars 1995 um "reglur um atkvæðagreiðslu á nýju nafni á bæjarfélagið". II. Forsaga máls þessa er í stuttu máli sú, að hinn 27. júní 1994 kvað félagsmálaráðuneytið upp úrskurð í máli vegna kæru yðar á framkvæmd atkvæðagreiðslu, sem fram fór 16. apríl 1994, um nafn á sveitarfélag það, sem varð til við sameiningu Keflavíkurkaupstaðar, Njarðvíkurkaupstaðar og Hafnahrepps. Niðurstaða félagsmálaráðuneytisins var sú, að slíkir annmarkar hefðu verið á undirbúningi og framkvæmd skoðanakönnunarinnar, að ógilda bæri hana. Jafnframt bæri bæjarstjórn hins nýja sveitarfélags að láta fara fram atkvæðagreiðslu að nýju. Þá taldi ráðuneytið, að sú atkvæðagreiðsla gæti ekki farið fram á grundvelli óbreyttra reglna, en þær reglur, sem gilt höfðu um atkvæðagreiðsluna 16. apríl 1994, hefðu verið óskýrar. Í bréfi, sem ráðuneytið ritaði bæjarstjórn Keflavíkur, Njarðvíkur og Hafna sama dag, var lagt fyrir bæjarstjórnina að láta skoðanakönnunina fara fram að nýju og setja um þá atkvæðagreiðslu skýrar reglur, sem auglýstar yrðu á þann hátt, sem tíðkast um opinberar tilkynningar í sveitarfélaginu. Á fundi 7. mars 1995 samþykkti bæjarstjórnin, "að fella úr gildi allar reglur sem giltu um framkvæmd nafnakosninganna sem fram fóru þann 16. apríl 1994 í Keflavík-Njarðvík-Höfnum". Á framhaldsfundi 9. mars 1995 samþykkti bæjarstjórnin síðan svohljóðandi reglur fyrir nýja atkvæðagreiðslu: "Á bæjarstjórnarfundi Keflavíkur-Njarðvíkur-Hafna, fimmtudaginn 9. mars 1995, var samþykkt að efna til almennrar atkvæðagreiðslu, skv. 5. mgr. 54. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986, um nýtt nafn fyrir bæjarfélagið, sbr. fyrirmæli í auglýsingu nr. 100/1994 2. mgr. 109 gr. sveitarstjórnarlaga og úrskurð félagsmálaráðuneytisins, dags. 27. júní 1994, þar sem lagt er fyrir að ný atkvæðagreiðsla fari fram um nafn á bæjarfélagið. Atkvæðagreiðslan fari fram laugardaginn 8. apríl 1995, samhliða kosningum til Alþingis sem fara fram sama dag. Kjörstaðir í bæjarfélaginu verða þeir sömu og við kosningar til Alþingis og stendur kjörfundur yfir sama tíma og við þær kosningar. [...] 6. Valið skal milli tveggja eftirtalinna nafna á kjörseðli: Reykjanesbær og Suðurnesbær. Einungis má greiða öðru nafninu atkvæði. 7. Atkvæði er greitt með því að kjósandi markar með ritblýi kross á atkvæðaseðilinn fyrir framan það nafn er hann vill greiða atkvæði sitt. 8. Atkvæði skal metið ógilt ef ekki verður séð með vissu hvoru nafninu kjósandi greiðir atkvæði sitt ef merkt er við bæði nöfnin, ef áletrun er á atkvæðaseðli fram yfir það sem segir í reglum þessum eða annarleg merki sem ætla má að séu sett á atkvæðaseðilinn af ásettu ráði til að gera hann auðkennilegan og ef atkvæðaseðill er annar en hefur verið afhentur af kjörstjórn. 9. Úrslit atkvæðagreiðslunnar er bindandi um val á nafni. Það nafn er fleiri atkvæði hlýtur skal valið sem nafn á bæjarfélagið. 10. Kjörstjórn sem valin var á fundi bæjarstjórnar þann 21. febrúar 1995 vegna atkvæðagreiðslu þessarar annast framkvæmd atkvæðagreiðslunnar, talningu atkvæða og úrskurðar um gild og ógild atkvæði á grundvelli þessara reglna er gilda um atkvæðagreiðsluna. [...]" Atkvæðagreiðsla fór fram í samræmi við framangreindar reglur þann 8. apríl 1995. Samkvæmt skýrslu yfirkjörstjórnar voru á kjörskrá 7.032 og greiddu 5.232 atkvæði. Niðurstaða kosninganna varð sú að Reykjanesbær hlaut 832 atkvæði og Suðurnesbær 682 atkvæði. Ógild atkvæði voru 3.385 og auðir seðlar 333. Í úrskurði, dags. 28. júní 1995, fjallaði félagsmálaráðuneytið um "athugasemd og eða eftir atvikum kæru" yðar frá 23. mars 1995, vegna þeirrar tilhögunar, sem bæjarstjórn Keflavíkur, Njarðvíkur og Hafna samþykkti að viðhafa varðandi framangreinda atkvæðagreiðslu á fundi sínum 9. mars 1995. Um málsástæður yðar segir meðal annars svo í úrskurðinum: "Kærandi gerir í fyrsta lagi athugasemdir við val bæjarstjórnarinnar á þeim nöfnum, sem greiða átti atkvæði um. Fram hafi komið gagnrýni á nöfnin af hálfu forystumanna annarra sveitarfélaga á Suðurnesjum, formanni örnefnanefndar og fleiri aðilum. Síðan segir svo í kærunni: "... Mér sýnist það nafnaval ótækt að taka upp nöfn sem fáir eru sáttir við og þjóna þar að auki sem nöfn á heilum landsvæðum og geta því hæglega valdið ruglingi og misskilningi." Kærandi rekur í kærunni að fram hafi farið atkvæðagreiðsla um nafn á sveitarfélagið hinn 16. apríl 1994, sem síðan var úrskurðuð ógild af félagsmálaráðuneytinu. Niðurstaða þeirrar atkvæðagreiðslu hafi hins vegar verið sú að meirihluti þeirra sem greiddu atkvæði völdu nafnið Keflavík. Bæjarstjórnin hafi jafnframt falið Félagsvísindadeild Háskóla Íslands að framkvæma skoðanakönnun varðandi nafngiftina og hafi 60% valið nafnið Keflavík. Að auki hafi Víkurfréttir birt hinn 23. mars s.l. nýja skoðanakönnun um nafnaval og þar hafi Keflavík fengið 53%. Með vísan til framangreinds sé ljóst að bæjarstjórnin hafi gengið á móti vilja meginþorra bæjarbúa. Að lokum tekur kærandi fram að hann telji þá ákvörðun bæjarstjórnarinnar, að láta fara fram atkvæðagreiðslu um nafn á sveitarfélagið, ekki samræmast fyrirmælum í auglýsingu nr. 100/1994, en í þeirri auglýsingu segir m.a. svo: "Skoðanakönnun skal fara fram um nafn hins nýja sveitarfélags og skal nafnið ákveðið á grundvelli hennar." Með vísan til framangreinds fer kærandi fram á það við ráðuneytið að það ógildi samþykkt bæjarstjórnar Keflavíkur, Njarðvíkur og Hafna frá 9. mars 1995 "um að gefa kjósendum í sveitarfélaginu einungis kost á að velja um nöfnin Suðurnesbær og Reykjanesbær"." Um rök sveitarstjórnar, sem byggist á álitsgerð B, héraðsdómslögmanns, segir meðal annars svo í úrskurðinum: "Ég tel að enginn annar aðili en bæjarstjórn hafi vald til að ákveða hvaða nöfn eru í boði þegar efnt er til almennrar atkvæðagreiðslu um val á nafni, sbr. 2. mgr. 109. gr. laga nr. 8/1986 og 2. mgr. 2. tl. 1. gr. laga nr. 75/1993 um breytingar á lögum nr. 8/1986, sbr. 5. mgr. 54. gr. laga nr. 8/1986, auk þess sem félagsmálaráðuneytið fól bæjarstjórn þetta verkefni. Eftir að félagsmálaráðuneytið ógilti atkvæðagreiðsluna, sem fór fram 16. apríl 1994, var enginn annar aðili bær til að ákveða tilhögun nýrrar atkvæðagreiðslu um nafnið en réttkjörin bæjarstjórn Keflavíkur-Njarðvíkur og Hafna, en að auki skoraði ráðuneytið á bæjarstjórn að ganga frá málinu. Þrátt fyrir víðtækt eftirlitshlutverk félagsmálaráðuneytisins með því að sveitarstjórnir fari að lögum og úrskurðarvald ráðuneytisins um ýmis vafaatriði sem upp kunna að koma við framkvæmd sveitarstjórnarmálefna, er það ekki á valdi ráðuneytisins að ógilda ákvarðanir bæjarstjórnar í máli þessu, þ.e. þær er byggjast á huglægu og frjálsu mati bæjarstjórnar. Valkostirnir þ.e. nöfnin Suðurnesbær og Reykjanesbær hljóta að byggjast á huglægu og frjálsu mati og snerta ekki formhlið atkvæðagreiðslunnar. Úrskurður ráðuneytisins um ógildingu fyrri atkvæðagreiðslunnar byggðust á rangri framkvæmd og tilhögun hennar. Íhlutunarvald félagsmálaráðuneytisins er einnig takmarkað af 76. gr. stjórnarskrárinnar en megininntak þeirrar greinar kveður á um rétt sveitarfélaga til að ráða málefnum sínum. [...]." Í niðurstöðu ráðuneytisins í málinu segir meðal annars svo: "... Bæjarstjórn varð við þessu og samþykkti reglur fyrir atkvæðagreiðsluna á fundi sínum hinn 9. mars 1995. Telja verður þær reglur vera skýrar, enda er ekki um þær deilt efnislega í máli þessu, nema hvað varðar 6. tölulið þeirra, þ.e. um þau nöfn sem greiða átti atkvæði um. Í úrskurði ráðuneytisins frá 27. júní 1994 er ítarlega fjallað um þau lagaákvæði, sem slík atkvæðagreiðsla á stoð í og segir þar m.a. svo: "Skoðanakönnunin hinn 16. apríl 1994 var því ekki kosning í skilningi III. kafla sveitarstjórnarlaga, heldur almenn atkvæðagreiðsla í skilningi 54. gr. sveitarstjórnarlaga ..." Með vísan til þessa, annarra röksemda í úrskurðinum og þess að bæjarstjórn Keflavíkur, Njarðvíkur og Hafna varð við áskorun ráðuneytisins frá 27. júní 1994, telur ráðuneytið ljóst að sú ákvörðun bæjarstjórnar Keflavíkur, Njarðvíkur og Hafna, að láta fara fram atkvæðagreiðslu um nafn á sveitarfélagið samræmist fyrirmælum í auglýsingu um staðfestingu félagsmálaráðuneytisins á sameiningu Keflavíkurbæjar, Njarðvíkurbæjar og Hafnahrepps nr. 100/1994 svo og sveitarstjórnarlögum nr. 8/1986. Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986 skiptist byggðin í landinu í staðbundin sveitarfélög sem stýra sjálf málefnum sínum á eigin ábyrgð. Ákvæði þetta var sett á grundvelli 76. gr. stjórnarskrárinnar, en þar segir: "Rétti sveitarfélaganna til að ráða sjálf málefnum sínum með umsjón stjórnarinnar skal skipa með lögum." Sveitarstjórn fer með stjórn sveitarfélags samkvæmt sveitarstjórnarlögum og öðrum lögum, sbr. ákvæði 2. mgr. 7. gr. sveitarstjórnarlaga. Í sveitarstjórnarlögum eða öðrum lögum er hins vegar hvergi að finna fyrirmæli um að sveitarstjórn sé lagalega skylt að fara ætíð að vilja meirihluta íbúa viðkomandi sveitarfélags við afgreiðslu mála, sbr. þó 5. mgr. 54. gr. sveitarstjórnarlaga, en þar segir að niðurstaða almennrar atkvæðagreiðslu í sveitarfélagi sé bindandi fyrir sveitarstjórn ef sveitarstjórnin hefur fyrirfram ákveðið að svo skuli vera. Við sameiningu sveitarfélaga er það hlutverk viðkomandi sveitarstjórna að ákveða m.a. nafn hins sameinaða sveitarfélags, sbr. 2. mgr. 109. gr. sveitarstjórnarlaga. Í lagagreininni er þeim sveitarstjórnum, sem hlut eiga að máli, því veitt ákvörðunarvald um nafn hins sameinaða sveitarfélags. Í því tilfelli sem hér um ræðir ákváðu sveitarstjórnir Keflavíkurkaupstaðar, Njarðvíkurkaupstaðar og Hafnahrepps ekki nafn fyrir hið nýja sveitarfélag um leið og önnur atriði varðandi sameininguna voru samþykkt, heldur ákváðu sveitarstjórnirnar að skoðanakönnun skyldi fara fram um nafn hins nýja sveitarfélags og að nafnið skyldi ákveðið á grundvelli hennar, sbr. auglýsingu nr. 100/1994. Í 1. mgr. 4. gr. sveitarstjórnarlaga segir að ekki megi breyta nafni sveitarfélags nema með staðfestingu félagsmálaráðuneytisins. Um nafngiftir sveitarfélaga er að öðru leyti ekki að finna ákvæði í sveitarstjórnarlögum. Þau fyrirmæli laganna að ekki megi breyta nafni sveitarfélags nema með staðfestingu ráðuneytisins gefa vísbendingu um að ráðuneytið geti haft ákveðið íhlutunarvald, sbr. ennfremur ákvæði 1. mgr. 118. gr. sveitarstjórnarlaga um eftirlitshlutverk ráðuneytisins með sveitarstjórnum. Í því ákvæði segir orðrétt: "Ráðuneytið skal hafa eftirlit með því að sveitarstjórnir gegni skyldum sínum skv. lögum þessum og öðrum löglegum fyrirmælum." Í lögunum er hins vegar ekki að finna leiðbeiningu um hversu víðtækt íhlutunarvald ráðuneytisins er, t.d. um á hvaða grundvelli ráðuneytið getur neitað um staðfestingu á nafni og slíkt er heldur ekki að finna í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að sveitarstjórnarlögum nr. 8/1986. Ljóst er þó að íhlutunarvaldið hlýtur að takmarkast að nokkru leyti af sjálfstjórnarrétti sveitarfélaga, sbr. 1. mgr. 1. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 76. gr. stjórnarskrárinnar. Á fundi bæjarstjórnar Keflavíkur, Njarðvíkur og Hafna þann 18. apríl 1995, var samþykkt að fresta ákvörðun um nafn fyrir hið nýja sveitarfélag uns ráðuneytið hefði kveðið upp úrskurði í kærumáli þessu. Þar sem ráðuneytinu hefur enn ekki borist til staðfestingar nafn fyrir sveitarfélag það, sem til varð við sameiningu Keflavíkurkaupstaðar, Njarðvíkurkaupstaðar og Hafnahrepps, telur það ekki efni til að fjalla efnislega um þær tillögur að nafni, sem fram hafa komið. Þegar nafnið berst til staðfestingar mun ráðuneytið hins vegar taka til athugunar hvort ástæða er til að gera athugasemdir af þess hálfu við ákvörðun bæjarstjórnar. Að lokum skal tekið fram að ráðuneytið telur að ekki hafi verið sýnt fram á nein atriði varðandi formhlið fundar bæjarstjórnar Keflavíkur, Njarðvíkur og Hafna, sem fram fór 7. og 9. mars 1995, sem sjálfkrafa geta valdið ógildi þeirra ákvarðana sem á honum voru teknar. Með vísan til alls framangreinds er það niðurstaða ráðuneytisins að samþykkt bæjarstjórnar Keflavíkur, Njarðvíkur og Hafna frá 9. mars 1995 um "reglur um atkvæðagreiðslu á nýju nafni á bæjarfélagið" sé gild." Í kvörtun yðar til mín kemur fram, að þér teljið niðurstöðu ráðuneytisins ekki í samræmi við auglýsingu nr. 100/1994, um sameiningu Keflavíkur, Njarðvíkur og Hafna, sem þér teljið kveða á um, að "skoðanir íbúanna eigi að koma fram og það eigi að fara eftir þeim". Teljið þér skilning bæjarstjórnar og ráðuneytisins of þröngan miðað við orðalag auglýsingarinnar. Þá teljið þér samband milli reglna þeirra, sem samþykktar voru af sveitarstjórnunum þremur frá 29. mars 1994, og framangreindrar auglýsingar nr. 100/1994, og óeðlilegt að fram fari atkvæðagreiðsla um nafn sveitarfélagsins, sem byggi á öðrum reglum en þeim, sem lágu fyrir við staðfestingu félagsmálaráðuneytisins á sameiningu þeirra sveitarfélaga, sem hér um ræðir. III. Ég ritaði félagsmálaráðherra bréf 22. ágúst 1995, þar sem ég óskaði þess, með vísan til 7. og 9. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis, að ráðuneyti hans léti mér í té gögn málsins og skýrði viðhorf sitt til kvörtunar yðar. Svarbréf félagsmálaráðuneytisins, ásamt gögnum málsins, barst mér með bréfi, dags. 6. september 1995. Í bréfinu vísar ráðuneytið til umræddrar auglýsingar, þar sem segir, að skoðanakönnun skuli fara fram um nafn hins nýja sveitarfélags og skuli nafnið ákveðið á grundvelli hennar. Síðan segir í bréfinu: "Sveitarstjórnir sveitarfélaganna þriggja ákváðu að láta fara fram hugmyndasamkeppni um nafn á hið nýja sveitarfélag. Í framhaldi af þeirri hugmyndasamkeppni ákváðu sveitarstjórnirnar að láta fara fram almenna atkvæðagreiðslu í sveitarfélögunum um nafn á hið nýja sveitarfélag. Ráðuneytið bendir á í úrskurðum sínum að atkvæðagreiðslur þær, sem fram fóru 18. apríl 1994 og 8. apríl 1995, hafi verið almennar atkvæðagreiðslur í skilningi 5. mgr. 54. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986, en þar er að finna opna heimild fyrir sveitarstjórnir til að láta fara fram almenna atkvæðagreiðslu "til þess að kanna vilja kosningabærra íbúa um tiltekið málefni". Ráðuneytið telur að sú leið, sem farin var við val á nafni fyrir hið nýja sveitarfélag, hafi ekki brotið í bága við fyrirmæli í auglýsingu nr. 100/1994. Með framangreindum hætti var kannaður vilji íbúa hinna þriggja fyrrverandi sveitarfélaga um nafn á hið nýja sveitarfélag. Samhljóða ákvæði og tilvitnað ákvæði í auglýsingu nr. 100/1994 er að finna í fleiri auglýsingum um staðfestingu félagsmálaráðuneytisins á sameiningu sveitarfélaga, þ.e. þegar viðkomandi sveitarstjórnir hafa ekki fyrirfram tekið ákvörðun um nafn fyrir hið sameinaða sveitarfélag. Ráðuneytið hefur aldrei litið svo á að slíkt ákvæði feli í sér að viðkomandi sveitarstjórnir séu skuldbundnar til að velja það nafn sem flest atkvæði hlýtur í skoðanakönnun/atkvæðagreiðslu, nema slíkt hafi verið ákveðið fyrirfram af hálfu sveitarstjórnanna og tilkynnt sérstaklega, sbr. m.a. 5. mgr. i.f. 54. gr. sveitarstjórnarlaga. Jafnframt er rétt að benda á ákvæði 2. mgr. 109. gr. sveitarstjórnarlaga, en þar segir svo m.a. orðrétt: "Hafi sameiningin hlotið samþykki skulu sveitarstjórnir þær, sem hlut eiga að máli, taka ákvarðanir um fjárhagsmálefni sveitarfélaganna, fjölda fulltrúa í nýrri sveitarstjórn, nafn hins sameinaða sveitarfélags og önnur atriði." Að öðru leyti vísar ráðuneytið til úrskurða ráðuneytisins frá 27. júní 1994 og 28. júní 1995, en þar er rakinn nokkuð ítarlega aðdragandi málsins svo og röksemdir ráðuneytisins fyrir niðurstöðum þess." Með bréfi 11. september 1995 gaf ég yður kost á að koma að þeim athugasemdum í málinu, sem þér telduð ástæðu til að gera í tilefni framangreinds bréfs ráðuneytisins. Athugasemdir yðar bárust með bréfum, dags. 25. og 28. september 1995. Þar segir meðal annars svo: "Félagsmálaráðuneytið staðfesti sameiningu sveitarfélaganna þann 25. febrúar 1994 samanber auglýsingu nr. 100/1994, sem áður er vitnað í. Þessi auglýsing er birt í beinu framhaldi af samþykkt sveitarstjórnanna þriggja um reglur, sem ákveða hvernig velja skyldi nafn á sveitarfélagið. [...] Það er athyglisvert hvað reglur þessar eru lýðræðislegar og er þar enga fyrirvara að finna um hvaða nafn megi velja ef mönnum fellur ekki við neitt af þessum fimm nöfnum sem valin höfðu verið sérstaklega til að krossa við. Ég tel að með samþykkt þessari og auglýsingu nr. 100/1994 hafi fráfarandi sveitarstjórnir framselt rétt sinn til kjósenda um að velja nafn á sveitarfélagið og tel ég að 54. gr. sveitarstjórnarlaga breyti þar engu um ... Þessu til stuðnings vil ég benda á 112. gr. sveitarstjórnarlaga, þar segir m.a. um auglýsingu á sameiningu sveitarfélaga: "Þar skal greint frá nafni hins nýja sveitarfélags." Þessi grein kveður svo á um að ákvörðun um nafn skuli liggja fyrir þegar sameining er auglýst. Í tilfelli því sem hér um ræðir varð það ekki gert, en hinsvegar var auglýst með hvaða hætti ákvörðun um nafn skyldi tekin. Þess vegna tel ég að fylgja beri auglýsingu nr. 100/1994 nákvæmlega og þeim ákvörðunum sem fráfarandi sveitarstjórnir höfðu áður ákveðið." IV. 1. Samkvæmt framansögðu lýtur erindi yðar til félagsmálaráðuneytisins frá 23. mars 1995 annars vegar að efnislegri umfjöllun um þær tillögur að nafni, sem um ræðir í máli þessu, og hins vegar að formhlið atkvæðagreiðslu þeirrar, sem fram fór um nafn hins sameinaða sveitarfélags hinn 8. apríl 1995. Í kvörtun yðar til mín óskið þér umsagnar minnar vegna úrskurðar félagsmálaráðuneytisins frá 28. júní 1995 og málsins í heild. Samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis, og 2. tölul. 1. mgr. 5. gr. reglna nr. 82/1988, um störf og starfshætti umboðsmanns Alþingis, verður ekki kvartað til umboðsmanns, fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í máli. Með vísan til þess, að í úrskurði félagsmálaráðuneytisins felst ekki efnisleg umfjöllun um þær tillögur, sem fram höfðu komið um nafn fyrir hið nýja sveitarfélag, mun umfjöllun mín í málinu takmarkast við þann hluta kvörtunar yðar, sem lýtur að þeim reglum, sem samþykktar voru um atkvæðagreiðsluna á fundi bæjarstjórnar hins nýja sveitarfélags 9. mars 1995, enda hefur mér ekki borist kvörtun vegna þeirrar úrlausnar, sem felst í auglýsingu félagsmálaráðuneytisins nr. 524, 26. september 1995, um nafn á sveitarfélagi því, sem til varð við sameiningu Keflavíkurkaupstaðar, Njarðvíkurkaupstaðar og Hafnahrepps. 2. Samkvæmt 2. mgr. 109. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986 skulu sveitarstjórnir þær, sem hlut eiga að sameiningu, taka ákvarðanir um ýmis atriði varðandi málefni sveitarfélaganna, þ. á m. um nafn hins sameinaða sveitarfélags. Eins og fram hefur komið í máli þessu, var nafn á sveitarfélag það, sem hér um ræðir, ekki valið um leið og gengið var frá öðrum atriðum varðandi sameininguna. Þess í stað var ákveðið, að nafn þess skyldi ráðast af niðurstöðu skoðanakönnunar, sem efnt skyldi til í þeim tilgangi. Félagsmálaráðuneytið staðfesti sameininguna, sbr. auglýsingu nr. 100, 25. febrúar 1994. Í henni var þó ekki greint frá nafni hins sameinaða sveitarfélags, eins og 112. gr. laganna gerir ráð fyrir. Í lokamálsgrein auglýsingarinnar segir hins vegar, að skoðanakönnun skuli fara fram um nafn hins nýja sveitarfélags og skuli nafnið ákveðið á grundvelli hennar. Þá muni nafn hins nýja sveitarfélags verða auglýst sérstaklega. Kvörtun yðar beinist einkum að 6. tölul. reglna frá 9. mars 1995, "um atkvæðagreiðslu á nýju nafni á bæjarfélagið", þ.e. að valið skuli milli tveggja nafna, Reykjanesbær og Suðurnesbær. Teljið þér, að með slíkri takmörkun á kostum geti atkvæðagreiðslan ekki talist skoðanakönnun, þar sem leitað sé eftir skoðunum íbúa sveitarfélaganna um nafn á bæjarfélagið, og því ekki í samræmi við auglýsingu félagsmálaráðuneytisins nr. 100/1994. Óumdeilt er í málinu, að sveitarstjórnir eiga ákvörðunarvald um nafn á nýtt sveitarfélag. Samkvæmt 5. mgr. 54. gr. sveitarstjórnarlaga er sveitarstjórn heimilt að efna til almennrar atkvæðagreiðslu í sveitarfélagi til þess að kanna vilja kosningabærra íbúa um tiltekið málefni. Niðurstaða slíkrar atkvæðagreiðslu er ekki bindandi um afgreiðslu málsins fyrir sveitarstjórn, nema hún hafi fyrirfram ákveðið að svo skuli vera. Í máli þessu liggur fyrir ákvörðun um að nafn á hið nýja bæjarfélag skuli ákveðið á grundvelli skoðanakönnunar. Ég tel því ljóst, að fráfarandi sveitarstjórnir hafi ákveðið að niðurstaða könnunarinnar skuli vera bindandi um afgreiðslu málsins í skilningi 5. mgr. 54. gr. sveitarstjórnarlaga. Samkvæmt kvörtun yðar teljið þér, að fullkomið framsal á ákvörðunarvaldi, um nafn á bæjarfélaginu til kjósenda, felist í samþykkt fráfarandi sveitarstjórna og auglýsingu nr. 100/1994, þannig að bæjarstjórnin hafi ekki eingöngu verið bundin af niðurstöðu könnunarinnar samkvæmt framansögðu, heldur hafi henni jafnframt verið óheimilt að setja reglur um framkvæmd hennar, sem takmarki valfrelsi kjósenda. Að athuguðu máli tel ég atkvæðagreiðslu á grundvelli 54. gr. sveitarstjórnarlaga ekki takmarka ákvörðunarvald sveitarstjórna í víðtækari mæli en þar greinir, þ.e. hvað niðurstöðu atkvæðagreiðslu varðar. Það er því skoðun mín, að ákvörðun um slíka atkvæðagreiðslu takmarki ekki ákvörðunarvald sveitarstjórna til að setja reglur um framkvæmd hennar, þ. á m. hvort og þá hvaða kostir skuli vera í boði. Tel ég því 6. tölul. reglna bæjarstjórnar Keflavíkur-Njarðvíkur og Hafna frá 9. mars 1995 ekki brjóta gegn lokamálsgrein auglýsingar nr. 100/1994. Eins og fyrr greinir, gerið þér þá athugasemd, með vísan til 112. gr. sveitarstjórnarlaga, að fylgja beri auglýsingu nr. 100/1994 nákvæmlega, þar sem í henni komi fram þær reglur, sem félagsmálaráðuneytið hafi gengið út frá að giltu um skoðanakönnun um nafn fyrir hið nýja sveitarfélag, þegar það staðfesti sameininguna. Í ákvæðinu kemur ekki fram, hvort framkvæmd nafngjafar þurfi að uppfylla ákveðin skilyrði til þess að öðlast staðfestingu ráðuneytisins. Þá kemur ekki annað fram í athugasemdum með frumvarpi því, sem varð að lögum nr. 8/1986, en að ákvæðið fjalli um ýmis framkvæmdaatriði í sambandi við stækkun sveitarfélaga með sameiningu þeirra (Alþt. 1984, A-deild, bls. 2509). Ákvæðið tryggir því, að nafn nýs sveitarfélags liggi fyrir við stofnun þess, eða a.m.k. skömmu síðar, auk þess sem auglýsing samkvæmt því hefur upplýsingalegt gildi. Með vísan til framangreinds verður ekki ráðið að bein tengsl séu á milli reglna um framkvæmd skoðanakönnunar og staðfestingar ráðuneytisins samkvæmt 112. gr. sveitarstjórnarlaga. Þá er ég sammála þeirri niðurstöðu ráðuneytisins, að ekki hafi verið sýnt fram á nein atriði varðandi formhlið fundar umræddrar bæjarstjórnar 7. og 9. mars 1995, sem sjálfkrafa geti valdið ógildi þeirra ákvarðana, sem á honum voru teknar. Með vísan til framangreinds, tel ég ekki ástæðu til athugasemda vegna úrskurðar félagsmálaráðuneytisins frá 28. júní 1995, þar sem samþykkt bæjarstjórnar Keflavíkur, Njarðvíkur og Hafna frá 9. mars 1995 um "reglur um atkvæðagreiðslu á nýju nafni á bæjarfélagið" var talin gild."