Skilyrði þess að bótalaust tímabil falli niður. Skylda stjórnvalds til að leysa úr máli. Kæruheimild.

(Mál nr. 1246/1994)

A kvartaði yfir ákvörðun stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs, sem hafnaði kröfu um að 16 vikna bótalaust tímabil, sem hófst 1. júní 1993, yrði fellt niður frá 1. júlí 1993. Byggði A á því að honum hefði ekki staðið til boða að sækja endurmenntunar- og starfsþjálfunarnámskeið eða átaksverkefni í samræmi við ný lög um atvinnuleysistryggingar, nr. 93/1993, og reglugerð nr. 247/1993, sem tóku gildi 1. júlí 1993, og skyldi bótalaus biðtími því falla niður samkvæmt 11. gr. reglugerðarinnar. A bar kröfu sína upp við úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta hjá Sambandi íslenskra bankamanna. Úthlutunarnefndin framsendi erindið til stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs til að fá skorið úr um bótarétt A. Umboðsmaður tók fram að samkvæmt 25. gr. laga nr. 93/1993 hefði úthlutunarnefnd á hendi úthlutun bótafjár og samkvæmt 27. gr. laganna skyldi úthlutunarnefnd úrskurða um umsóknir til samþykktar eða synjunar. Lögin gerðu ekki ráð fyrir öðru en að úrskurðarvald úthlutunarnefnda tæki einnig til þess að ákveða hvort skilyrði væru uppfyllt til greiðslu bóta á 16 vikna biðtímanum. Þegar stjórnvaldi væri fengið opinbert vald til þess að skera úr um rétt eða skyldu manna gæti það ekki komið sér hjá að taka ákvörðun í máli með því að framsenda það til æðra stjórnvalds, nema samkvæmt skýrri lagaheimild. Taldi umboðsmaður að ákvæði laga nr. 93/1993 yrðu ekki skilin svo að úthlutunarnefnd gæti með þessum hætti látið hjá líða að taka ákvörðun um umsókn um bætur. Úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta hjá Sambandi íslenskra bankamanna bar því að úrskurða um umsókn A, og stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs bar að endursenda málið til úrskurðar nefndarinnar í stað þess að taka málið til efnislegrar ákvörðunar. Beindi umboðsmaður þeim tilmælum til stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs að hún beitti sér fyrir því að mál A yrði tekið til meðferðar á ný. Við þá meðferð bæri að kanna og leysa úr því hvaða kostir A hefðu staðið til boða samkvæmt 22. gr. laga nr. 93/1993, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og að gefa yrði A færi á að skýra sjónarmið sín um þau atriði sem til athugunar væru, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga.

I. Hinn 19. október 1994 leitaði til mín A, og kvartaði yfir þeirri ákvörðun stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs, að hafna því, að bótalaust tímabil, sem hófst hjá A 1. júní 1993 og lauk 27. september 1993, yrði fellt niður frá 1. júlí 1993. Taldi A, að sér hefði ekki staðið til boða að taka þátt í námskeiðum eða átaksverkefnum sveitarfélaga. II. A greinir svo frá í kvörtun sinni, að 1. júní 1993 hafi hann verið búinn að vera atvinnulaus í eitt ár og hafi þá tekið við 16 vikna bótalaust tímabil. Í maílok 1993 hafi verið samþykktar breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar, þar sem atvinnulausum væri gefinn kostur á að halda atvinnuleysisbótum á bótalausa tímabilinu, og í kjölfarið hafi verið gefin út reglugerð 28. júní 1993, sem tekið hefði gildi 1. júlí sama ár. A lýsir því, að vorið 1993 hafi hann lagt sig fram um að fylgjast með umræðum um málefni atvinnulausra og því, sem atvinnulausum væri boðið upp á. Fram kom að A reyndi að fá upplýsingar um námskeið eða átaksverkefni bæði hjá sveitarfélagi hans og stéttarfélagi. Þegar hann taldi sýnt, að hann kæmist hvorki á námskeið né í átaksverkefni hafi hann í júní 1993 flutt heimilisfang sitt norður á G. Hann hafi svo leitað fyrir sér á ný í ágúst með sama árangri og síðan aftur í september. III. Með bréfi 16. september 1993 óskaði A eftir því við úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta hjá Sambandi íslenskra bankamanna, að honum yrðu greiddar atvinnuleysisbætur á bótalausa tímabilinu, frá 1. júlí 1993, þar sem hann hefði ekki átt kost á þátttöku í átaksverkefnum eða endurmenntunar- og starfsþjálfunarnámskeiðum. Með bréfi 28. september 1993 óskaði úthlutunarnefndin eftir því, að stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs felldi úrskurð sinn í málinu. Í bréfi nefndarinnar segir: "Þann 24. september s.l. var tekin fyrir umsókn frá [A] um bætur frá 1. júlí þar sem hann hafi ekki átt kost á námskeiðum á bótalausu tímabili sem hófst hjá honum 1. júní 1993. Hann flutti lögheimili sitt frá Reykjavík að [G] þann 11. júní s.l. og tjáði mér undirrituðum að hann væri að flytja það aftur í bæinn. Þennan sama hátt hafði hann s.l. sumar. [A] átti ekki kost á að sækja námskeið á [G], en þar sem hann flutti lögheimili sitt tímabundið treysti úrskurðarnefndin sér ekki til að úrskurða honum bætur þennan bótalausa tíma nema stjórn sjóðsins staðfesti að hann eigi rétt á bótum. Við í nefndinni förum fram á að stjórn sjóðsins úrskurði í þessu máli og sendi okkur úrskurðinn." Úrskurður stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs frá 4. október 1993 barst A með bréfi úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta hjá Sambandi íslenskra bankamanna, dags. 20. október 1993. Í úrskurðinum segir: "Stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs fjallaði á fundi sínum í dag um bréf úthlutunarnefndarinnar og bókaði eftirfarandi: "Lagt fram bréf frá úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta hjá Sambandi íslenskra bankamanna, dags. 28. september 1993 vegna [A]. Þar kemur fram að umsækjandi hafi flutt lögheimili sitt frá Reykjavík að [G] þann 11. júní s.l. og svo aftur til Reykjavíkur nú, sama hátt hafði hann haft s.l. sumar. Hann óskar nú eftir að bótalausa tímabilið sem hófst þann 1. júní s.l. verði fellt niður frá 1. júlí þar sem honum hafi ekki staðið til boða að taka þátt í námskeiðum eða átaksverkefnum sveitarfélaga. Stjórnin hafnar að bótalausa tímabilið verði fellt niður þar sem umsækjandi hefði getað sótt námskeið sem haldin voru í Reykjavík áður en bótalausa tímabilið hófst og svo nú í sumar. Samþykkt að ef hann tekur þátt í námskeiðum fyrir atvinnulausa geti hann frá þeim degi sem námskeið hefst losnað við það sem eftir er af bótalausa tímabilinu." Í dagpeningavottorði útgefnu af vinnumiðluninni í Seltjarnarnesbæ 1. júní 1993 segir, að A hafi fyrst verið skráður atvinnulaus 1. júní 1992. IV. Hinn 21. október 1994 óskaði ég eftir því, sbr. 7. og 9. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis, að stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs léti mér í té gögn málsins og skýrði viðhorf sitt til kvörtunar A. Í skýringum stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs 27. október 1994 segir: "Eins og fram kemur í bókun stjórnarinnar á fundi þann 4. október 1993 þá flytur umsækjandi frá því svæði sem auðveldast er að sækja námskeið ætluð fyrir atvinnulausa á svæði sem ekki eru haldin námskeið vegna fámennis. Í 11. gr. reglugerðar nr. 247/1993 segir: "Nú hefur atvinnulaus sannanlega ekki átt kost á þátttöku í námskeiði og skal biðtími þá engu að síður falla niður." Gera verður ráð fyrir að greinin eigi við um þá sem hafa fasta búsetu allt árið í fámennum byggðalögum eða þar sem atvinnuleysi er það lítið að ekki sé talið svara kostnaði að halda námskeið, en ekki að menn geti flutt frá þeim stöðum þar sem námskeið eru í boði allt árið og mikið um átaksverkefni, til staðar sem hvorki bjóða upp á átaksverkefni eða námskeið." Með bréfi, dags. 31. október 1994, gaf ég A kost á að senda mér athugasemdir sínar. Athugasemdir A bárust mér með bréfi hans, dags. 9. nóvember 1994. Hinn 24. nóvember 1994 ritaði ég stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs á ný bréf. Vísaði ég til þess, að í kvörtun A væri því haldið fram, að hann hefði ekki átt kost á að sækja endurmenntunar- og starfsþjálfunarnámskeið eða taka þátt í átaksverkefnum í a.m.k. 8 vikur og hefði því ekki verið heimilt að taka hann af bótum, sbr. 5. mgr. 22. gr. laga nr. 93/1993, um atvinnuleysistryggingar, sbr. 11. gr. reglugerðar nr. 247/1993, um greiðslu atvinnuleysisbóta. Með tilvísun til 7. og 9. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis, óskaði ég eftir því, að Atvinnuleysistryggingasjóður gerði grein fyrir afstöðu sinni til eftirfarandi atriða: "1. Hvaða tilboð [A] hafi fengið um endurmenntunar- og starfsþjálfunarnámskeið eða átaksverkefni frá stjórnvöldum, sem hann hafi ekki sinnt og látið var varða bótamissi skv. 5. mgr. 22. gr. laga nr. 93/1993. "2. Upplýsingar óskast um þau endurmenntunar- og starfsþjálfunarnámskeið, sem boðið var upp á mánuðina júní, júlí og ágúst árið 1993 í samræmi við ákvæði 5. mgr. 22. gr. laga nr. 93/1993. "3. Þá óskast upplýst, með hvaða hætti atvinnulausum var tilkynnt um þessi námskeið og tilboð um að sækja þau. Ennfremur óskast upplýst, hvernig staðreynt var að atvinnulausir sinntu ekki umræddum tilboðum. "4. Loks óskast upplýst, hvort atvinnulausum mönnum hafi almennt verið leiðbeint um afleiðingar þess, ef þeir færu ekki á umrædd námskeið. "5. Þá óskast upplýst, hvort bornar séu brigður á þá frásögn [A] í kvörtun hans, að honum hafi hvorki boðist átaksvinna né tækifæri til að komast á endurmenntunar- og starfsþjálfunarnámskeið." Með bréfi stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs 4. apríl 1995 bárust mér gögn frá vinnumiðlun Seltjarnarness um skráningu A á atvinnuleysisskrá, ásamt yfirliti yfir greiðslur atvinnuleysisbóta til hans tímabilið 1. júní 1992 til 1. júní 1993. Í bréfi stjórnar sjóðsins frá 4. apríl 1995 sagði: "Frá 1. júlí 1993 veitti stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs, Menningar- og fræðslusambandi alþýðu mánaðarlegan styrk til námskeiðahalds fyrir atvinnulausa, svo að frá þeim tíma buðust námskeið í Reykjavík fyrir atvinnulausa." Með bréfi 10. apríl 1995 staðfesti ég móttöku mína á ofangreindu bréfi stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs og ítrekaði fyrri óskir mínar um að stjórn sjóðsins léti mér í té þær upplýsingar, sem ég hafði óskað eftir í bréfi mínu 24. nóvember 1994. Í svarbréfi stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs 25. apríl 1995 segir: "Máli [A], ... , var skotið til stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs skv. 29. gr. laga nr. 93/1993 um atvinnuleysistryggingar, í október 1993. Úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta hjá Sambandi íslenskra bankamanna treysti sér ekki til að taka afstöðu í málinu. Stjórn sjóðsins leit svo á að [A] hefði getað sótt námskeið á vegum t.d. Menningar- og fræðslusambands alþýðu sem kostuð voru að mestu [leyti] af sjóðnum, og þannig getað losnað við 16 vikna bótalausa tímabilið frá og með 1. júlí 1993 þegar reglugerð nr. 247/1993 tók gildi. [A] notfærði sér ekki möguleika þá sem fyrir hendi voru til að taka þátt í námskeiðum til að stytta 16 vikna biðtímann en flytur þess í stað lögheimili sitt norður í [F-sýslu] í júní s.á. og dvelur þar sumarlangt en flytur síðan lögheimili til baka í september s.á. Stjórn sjóðsins leit svo á að [A] hefði ekki getað losnað við þátttöku í námskeiðum eða átaksverkefnum hér á "höfuðborgarsvæðinu" með því að flytja lögheimili sitt að [G] í [F-sýslu] og að sá flutningur hefði beinlínis verið framkvæmdur til að losna við skyldur námskeiða og átaksverkefna í sambandi við 16 vikna biðtímann. ..." Hinn 4. maí 1995 gaf ég A kost á að senda mér athugasemdir sínar í tilefni af ofangreindu bréfi stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs. Mér bárust athugasemdir A með bréfi hans, dags. 29. maí 1995. V. Í forsendum álits míns segir: "Samkvæmt 3. mgr. 22. gr. laga nr. 93/1993, um atvinnuleysistryggingar, sbr. 11. gr. laga nr. 127/1993, um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1994, greiðast atvinnuleysisbætur fyrir alla daga nema laugardaga og sunnudaga á hverju bótatímabili, sem skal vera 260 dagar. Í 5. mgr. 22. gr. laga nr. 93/1993 segir síðan: "Gefa skal atvinnulausum kost á að sækja endurmenntunar- og starfsþjálfunarnámskeið eða taka þátt í átaksverkefnum í a.m.k. 8 vikur á hverju bótatímabili. Sinni hinn atvinnulausi ekki slíkum tilboðum fellur hann af bótum að loknu hverju bótatímabili í 16 vikur. Þátttaka í námskeiðum eða átaksverkefnum í skemmri tíma en 8 vikur skerðir biðtímann að loknu hverju bótatímabili hlutfallslega." Ákvæði þetta var sett með 10. gr. laga nr. 54/1993, en þau lög breyttu ákvæðum laga nr. 96/1990, um atvinnuleysistryggingar. Lög nr. 96/1990 voru síðan endurútgefin sem lög nr. 93/1993. Í almennum athugasemdum við frumvarp það, er varð að lögum nr. 54/1993, segir, að "atvinnulausir [geti] komist undan 16 vikna biðtímanum milli bótatímabila með því að sækja og ljúka námskeiðum, sem sérstaklega eru ætluð atvinnulausum,..." (Alþt. 1992, A-deild, bls. 5134). Í skýringum við 10. gr. frumvarpsins, er varð að 10. gr. laga nr. 54/1993, segir: "Meginreglunni um brottfall atvinnuleysisbóta í 16 vikur að bótatímabili loknu er haldið. Gefa skal hinum atvinnulausa á hinn bóginn kost á að komast hjá þessu 16 vikna tekjulausa tímabili ef hann þiggur tilboð um þátttöku í námskeiðum eða átaksverkefnum í samtals 8 vikur á hverju bótatímabili." (Alþt. 1992, A-deild, bls. 5136.) Er frumvarpið var lagt fram, spruttu meðal annars af því umræður um efni og væntanlega framkvæmd 10. gr. frumvarpsins. Í máli heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, er mælti fyrir frumvarpinu, kom fram: "Þá spurði hv. þm. um umræddar 16 vikur og um endurmenntunarnámskeið í því sambandi og spurðu fleiri hv. þm. um þau. Ég vil gjarnan í því sambandi benda þeim á að lesa síðustu mgr. 10. gr. frv. en þar segir orðrétt, með leyfi forseta: "Gefa skal atvinnulausum kost á að sækja endurmenntunar- og starfsþjálfunarnámskeið eða taka þátt í átaksverkefnum í a.m.k. 8 vikur á hverju bótatímabili." Þarna er löggjafinn að undirgangast þá skyldu að gefa skuli atvinnulausum kost á slíkum námskeiðum og ekki bara þeir tveir aðilar sem eru nefndir voru til sögunnar sem það gera, það er einnig rekið endurmenntunarnámskeið á vegum félmrn. og ég er í þann mund að skipa nefnd til þess að athuga hvernig Atvinnuleysistryggingasjóður gæti betur stutt að endurmenntunarnámskeiðum en hann gerir nú. Það liggur hins vegar alveg fyrir að geti framkvæmdarvaldið ekki uppfyllt þessa skilmála greinarinnar, þ.e. gefið atvinnulausum kost á annað hvort endurmenntunar- og starfsþjálfunarnámskeiði eða átaksverkefni í einhverri atvinnustöð, munu þá náttúrlega þeir hinir sömu ekki missa 16 vikurnar úr atvinnubótagreiðslum á næsta ári. Það segir sig sjálft að ef á viðkomandi atvinnustöð eða atvinnusvæði er enginn kostur gefinn á slíku átaksverkefni eða starfsmenntunarnámskeiði er ekki hægt að svipta viðkomandi bótum vegna þess að hann hafi ekki sótt námskeiðið. Hins vegar ef kostur er gefinn á slíkum námskeiðum og átaksverkefnum og sá sem er á atvinnuleysisskrá lætur hjá líða að sækja slík námskeið eða átaksverkefni þrátt fyrir hvatningu til þess hefur hann með ákvörðun sinni afsalað sér möguleikanum að fá greiðslur atvinnuleysisbóta fyrstu 16 vikur á nýju ári." (Alþt. 1992, B-deild, dálk. 9118.) Lög nr. 54/1993 voru birt í Stjórnartíðindum 27. maí 1993 og samkvæmt 17. gr. laganna skyldu þau öðlast gildi 1. júlí 1993. Í II. kafla reglugerðar nr. 247/1993, um greiðslu atvinnuleysisbóta, eru ákvæði um skerðingu biðtíma milli atvinnuleysistímabila. Tekið er fram í 1. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar, að hinn atvinnulausi falli af bótum í 16 vikur að loknu hverju bótatímabili, "nema hann hafi sótt og lokið endurmenntunar- og starfsþjálfunarnámskeiðum eða tekið þátt í átaksverkefnum sveitarfélaga, ..., í samtals a.m.k. 8 vikur á bótatímabilinu". Þá er í 5. gr. reglugerðarinnar nánar skýrt, hvaða námskeið geti skert biðtíma milli atvinnuleysistímabila. Tekið er fram í 1. mgr. 11. gr. reglugerðar nr. 247/1993, að hafi atvinnulaus sannanlega ekki átt kost á þátttöku í námskeiði skuli "... biðtími þá engu að síður falla niður". Loks segir í 13. gr. reglugerðar nr. 247/1993: "Atvinnulausir sem eru á 16 vikna biðtíma milli bótatímabila við gildistöku reglugerðar þessarar geta stytt þann biðtíma sem eftir er hafi þeir tekið þátt í námskeiðum sem uppfylla skilyrði 5. gr. eða tekið þátt í átaksverkefnum, sbr. 4. gr., á tímabilinu 1. júlí 1992 - 30. júní 1993. Við útreikning á styttingu biðtíma skal fylgja ákvæðum reglugerðar þessarar. Þó getur biðtími aldrei styst lengur en frá og með 1. júlí 1993." Reglugerðin var síðan birt í Stjórnartíðindum 30. júní 1993 og samkvæmt 16. gr. hennar skyldi hún öðlast gildi 1. júlí 1993. VI. Í skýringum stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs frá 25. apríl 1995, sem raktar eru í IV. kafla, kemur fram, að mál A hafi borist stjórn sjóðsins skv. 29. gr. laga nr. 93/1993. Af bréfi úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta hjá Sambandi íslenskra bankamanna frá 28. september 1993, sem rakið er í III. kafla, kemur fram, að úthlutunarnefndin hafi ekki treyst sér til að úrskurða A "bætur þennan bótalausa tíma nema stjórn sjóðsins staðfesti að hann eigi ekki rétt á bótum ...". Í VI. kafla laga nr. 93/1993 er að finna ákvæði um úthlutunarnefndir og greiðslu atvinnuleysisbóta. Samkvæmt 1. mgr. 25. gr. laga nr. 93/1993 er það úthlutunarnefnd, sem hefur á hendi úthlutun bótafjár fyrir hvert félag eða félagasamband. Þá segir í 2. mgr. 27. gr. laga nr. 93/1993: "Úthlutunarnefnd úrskurðar um umsóknir til samþykktar eða synjunar. Hún úrskurðar hvaða hundraðshluta hámarksbóta skal greiða umsækjanda. Allar ákvarðanir varðandi bótarétt skal færa í gerðabók, svo og úrskurði um ágreiningsatriði. Nefndarmenn skulu undirrita gerðabók." Í 29. gr. laga nr. 93/1993 er síðan fjallað um málskotsrétt til stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs og tekið fram, að úrskurðir stjórnar sjóðsins um bætur séu endanlegir, sbr. 3. mgr. ákvæðisins. Í 1. og 2. mgr. 29. gr. laganna, sbr. 10. gr. laga nr. 45/1995, segir: "Verði ágreiningur með nefndarmönnum í úthlutunarnefnd, sbr. 2. mgr. 27. gr., getur sá nefndarmaður, sem eigi vill una úrskurði meirihluta, skotið ágreiningi til stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs. Á sama hátt getur úthlutunarnefnd og vinnumálaskrifstofa félagsmálaráðuneytisins eða umboðsmenn hennar skotið til sjóðsstjórnar ágreiningi skv. 1. mgr. 28. gr., sem eigi hefur náðst samkomulag um. Þá getur umsækjandi um bætur, sem eigi vill una ákvörðun úthlutunarnefndar eða vinnumálaskrifstofu félagsmálaráðuneytisins, skotið máli sínu til sjóðsstjórnar. Sá sem áfrýja vill máli til sjóðsstjórnar, skal senda henni greinargerð ásamt öllum sömu gögnum, sem lögð höfðu verið fyrir úthlutunarnefnd eða eftir atvikum vinnumálaskrifstofu félagsmálaráðuneytisins, er þessir aðilar kváðu upp úrskurð sinn. Berist ný gögn, skal málið tekið upp að nýju og úrskurðað, áður en stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs tekur það til afgreiðslu." Ákvæði samhljóða tilvitnuðum ákvæðum 2. mgr. 27. gr. og 1. og 2. mgr. 29. gr. laga nr. 93/1993 voru áður í lögum nr. 64/1981, um atvinnuleysistryggingar. Í skýringum við ákvæðin segir í frumvarpi því, er varð að lögum nr. 64/1981, að þau fjalli um störf úthlutunarnefnda og um "meðferð ágreinings varðandi úrskurð bóta", en að öðru leyti er í frumvarpinu vísað til 14. og 21. gr. laga nr. 57/1973, um atvinnuleysistryggingar. (Alþt. 1980, A-deild, bls. 1940). Í 2. ml. 1. mgr. 14. gr. laga nr. 57/1973 segir, að ef ekki náist "... einróma samkomulag varðandi úrskurði um bótagreiðslur, [geti] hver einstakur nefndarmaður áfrýjað til stjórnar atvinnuleysistryggingasjóðs, sem fellir endanlegan úrskurð um málið". Lög nr. 57/1973 felldu úr gildi lög nr. 29/1956, um atvinnuleysistryggingar. Geymdu síðastgreind lög samhljóða ákvæði og hér hafa verið rakin. Samkvæmt framansögðu er úthlutunarnefndum að lögum falið að skera úr um rétt einstakra bótaþega til atvinnuleysisbóta. Lög nr. 93/1993 gera ekki ráð fyrir öðru en að úrskurðarvald úthlutunarnefnda taki einnig til þess að ákveða, hvort skilyrði séu uppfyllt til greiðslu bóta á 16 vikna biðtímanum milli bótatímabila. Er í þessu sambandi gert ráð fyrir því í 2. mgr. 27. gr. laga nr. 93/1993, að allar ákvarðanir um bótarétt, svo og úrskurðir um ágreiningsatriði, séu færðar í gerðabók, sem nefndarmenn undirriti. Samanburður á ákvæði þessu og 1. mgr. 29. gr. laganna annars vegar og hins vegar á 1. og 2. mgr. 29. gr. laganna leiðir til þeirrar niðurstöðu, að unnt sé að skjóta máli til stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs með þrennum hætti. Í fyrsta lagi getur nefndarmaður, sem ekki vill una ákvörðun meirihluta, skotið henni til úrskurðar sjóðsstjórnar. Í öðru lagi getur úthlutunarnefnd eða nú vinnumálaskrifstofa félagsmálaráðuneytisins skotið ágreiningi út af gerð bótaskrár skv. 1. mgr. 28. gr. laganna til stjórnar sjóðsins. Loks getur umsækjandi um bætur, sem eigi vill una ákvörðun úthlutunarnefndar, skotið máli sínu til stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs. Í lögum má finna dæmi þess, að stjórnvaldi, sem bært er að lögum til að taka ákvörðun, sé fengin heimild til þess að láta hjá líða að leysa úr máli og framsenda það í þess stað til æðra stjórnvalds til úrlausnar. Framangreind ákvæði 27. og 29. gr. laga nr. 93/1993 verða að mínum dómi ekki skilin svo, að úthlutunarnefnd geti látið hjá líða að taka ákvörðun um umsókn um atvinnuleysisbætur, en í þess stað framsent hana til stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs til úrlausnar. Gera verður ráð fyrir því, að þegar stjórnvaldi er fengið opinbert vald til þess að skera úr um rétt eða skyldu manna, geti það ekki komið sér hjá að taka ákvörðun í máli með því að senda það til úrlausnar æðra stjórnvalds, nema fyrir hendi sé skýr lagaheimild. Samkvæmt því, sem hér hefur verið rakið, bar úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta hjá Sambandi íslenskra bankamanna að úrskurða umsókn A til synjunar eða samþykktar í stað þess að framsenda málið til úrlausnar stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs. Það hefði síðan farið eftir atvikum, hvort einstakir nefndarmenn sæju ástæðu til að kæra úrskurðinn til stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs eða aðrir þeir sem rétt höfðu til slíks málskots. Af þessari niðurstöðu leiðir ennfremur, að stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs bar að endursenda málið til úrskurðar úthlutunarnefndar hjá Sambandi íslenskra bankamanna, í stað þess að taka málið til efnislegrar ákvörðunar. Er það og í samræmi við lokamálslið 2. mgr. 29. gr. laga nr. 93/1993." VII. Niðurstaða álits míns og tilmæli til stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs, frá 23. febrúar 1996, er svohljóðandi: "Samkvæmt því, sem hér hefur verið rakið, er það niðurstaða mín, að úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta hjá Sambandi íslenskra bankamanna hafi borið að úrskurða um umsókn A um atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 1. júlí til 27. september 1993, til synjunar eða samþykktar, og að ekki hafi verið fyrir hendi heimild til þess að senda umsókn A til ákvörðunar stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs. Í samræmi við það, sem að framan greinir, eru það tilmæli mín til stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs, að stjórnin beiti sér fyrir því, að sú úthlutunarnefnd, sem í hlut á, taki umrætt mál A til meðferðar og leysi úr kröfu hans, um atvinnuleysisbætur á tímabilinu 1. júlí 1993 til 27. september 1993. Við þá úrlausn ber að kanna og leysa úr því, sbr. nú 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, hvaða kostir A hafi staðið til boða samkvæmt 5. mgr. 22. gr. laga nr. 93/1993, um atvinnuleysistryggingar, sbr. II. og III. kafla reglugerðar nr. 243/1993, um greiðslu atvinnuleysisbóta. Þar verði, eftir atvikum, jafnframt tekin afstaða til þess, hvort aðstæður A hafi verið með þeim hætti á þeim tíma, sem hér skiptir máli, að ekki hafi verið unnt að ætlast til þess, að hann tæki einhverjum þeim kosti, sem í boði var, enda verði A gefið tækifæri til að skýra sjónarmið sín um það atriði, sbr. nú 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993." VIII. Með bréfum, dags. 29. ágúst 1996 og 17. febrúar 1997, óskaði ég eftir upplýsingum stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs um, hvort einhverjar ákvarðanir hefðu verið teknar í tilefni af fyrrgreindu áliti mínu. Svar stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs barst mér 20. febrúar 1997. Þar kom fram að úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta fyrir Samband íslenskra bankamanna hefði úrskurðað um rétt A til atvinnuleysisbóta með vísan til álits míns og að fenginni umsögn Atvinnuleysistryggingasjóðs. Samkvæmt upplýsingum frá starfsmanni framangreindrar úthlutunarnefndar hefði A fengið kröfu sína greidda 1. apríl 1996.