Almannatryggingar. Ákvörðun uppbótar á örorkulífeyri aftur í tímann.

(Mál nr. 496/1991)

A kvartaði yfir því, að tryggingaráð hefði með úrskurði sínum 13. september 1991 synjað beiðni hennar um að hækkun uppbótar á örorkulífeyri í 80% af lífeyrinum, sem henni var ákveðin í ársbyrjun 1990, sbr. 3. mgr. 19. gr. laga nr. 67/1971 um almannatryggingar, yrði látin gilda og greidd tvö ár aftur í tímann, sbr. 2. mgr. 56. gr. laga þessara. Ennfremur taldi A ranga þá ákvörðun lífeyrisdeildar Tryggingastofnunar ríkisins frá 1. september 1988 að úrskurða henni 60% uppbót, þar sem henni hafi borið hærri uppbót (80%) vegna veikinda sinna og annarra aðstæðna. Í áliti sínu fjallaði umboðsmaður um meðferð umsókna á grundvelli 3. mgr. 19. gr. laga nr. 67/1971 og almenn skilyrði uppbótar samkvæmt ákvæðinu. Í þessu sambandi reifaði umboðsmaður málsmeðferð í Tryggingastofnun og tryggingaráði svo og hlutverk þess og valdsvið. Tók umboðsmaður fram, að ráðið hefði heimild til þess að meta öll atriði varðandi rétt til greiðslna úr almannatryggingum, sem starfsmenn Tryggingastofnunar ríkisins legðu mat á eða tækju ákvörðun um í störfum sínum. Sú skylda hvíldi á ráðinu að stuðla að því, að mál væru nægilega upplýst, áður en ákvörðun væri tekin og að bótakrefjanda væri gefinn kostur á að koma á framfæri sjónarmiðum sínum og viðbótarupplýsingum. Þá væri tryggingaráði skylt að kveða upp formlega úrskurði, þar sem fram kæmu sjónarmið aðila og á hvaða forsendum úrskurðir væru reistir. Umboðsmaður rakti fyrirmæli laga og reglna um mat á uppbótarþörf og þær ástæður, sem leitt gætu til uppbótar. Í niðurstöðu sinni taldi umboðsmaður að meðferð umsóknar og undirbúningi ákvörðunar Tryggingastofnunar um uppbótarhækkun frá 1. september 1988 og mati á aðstæðum A hefði þannig verið háttað, að samrýmdist fyrirmælum og meginsjónarmiðum laga og reglugerðar. Væri því ekki tilefni til að ætla annað en uppbót til A hefði verið ákvörðuð með sama hætti og til annarra bótaþega, sem svipað væri ástatt um. Varðandi afturvirkni uppbótarhækkunar 1. janúar 1990 tók umboðsmaður fram, að forsendur synjunar lífeyrisdeildar Tryggingastofnunar ríkisins og úrskurðar tryggingaráðs frá 13. september 1991 um greiðslu uppbótar aftur í tímann eins og þær væru settar fram í úrskurðinum væru um sumt ekki fyllilega ljósar. Þá lægi ekki fyrir hvaða sérstök rök byggju að baki ákvörðunum um að úrskurða aftur í tímann í undantekningartilvikum uppbætur skv. 3. mgr. 19. gr. laga nr. 67/1971. Miða yrði hins vegar við það, að uppbót af umræddu tagi væri aldrei úrskurðuð afturvirkt umfram 2-3 mánuði svo sem tryggingaráð hafði upplýst.

I.

Hinn 23. september 1991 bar A fram kvörtun við mig út af úrskurði tryggingaráðs frá 13. september 1991, þar sem synjað var beiðni hennar um hækkun uppbótar á örorkulífeyri.

Samkvæmt gögnum málsins hófust samskipti A og Tryggingastofnunar ríkisins á árinu 1981. A var upphaflega metin 65% öryrki 2. desember 1981. Við endurmat 20. janúar 1982 var örorka hennar metin 75%. Hafði A frá 1. nóvember 1981 notið örorkulífeyris frá Tryggingastofnun ríkisins samkvæmt 12. gr. laga nr. 67/1971 um almannatryggingar. Hinn 1. október 1982 fékk A úrskurð um 25% uppbót á örorkulífeyrinn skv. 3. mgr. 19. gr. laga nr. 67/1971 vegna lyfjakostnaðar. Hinn 1. september 1988 var uppbót til A hækkuð í 60% vegna mikils sjúkrakostnaðar og húsaleigu. Frá 1. janúar 1990 hefur A fengið greidda 80% uppbót á örorkulífeyrinn.

Hinn 7. júní 1991 óskaði A eftir því við lífeyrisdeild tryggingastofnunarinnar, að sér yrði greidd hæsta uppbót á örorkulífeyri tvö ár aftur í tímann frá 1. janúar 1990, þ.e. fyrir tímabilið frá 1. janúar 1988 til 1. janúar 1990. Með bréfi lífeyrisdeildarinnar, dags. 13. júní 1991, var beiðni A synjað. Skaut A málinu til tryggingaráðs með bréfi, dags. 19. júní 1991. Hinn 13. september 1991 kvað tryggingaráð upp úrskurð í málinu:

"Ár 1991, föstudaginn 13. september var kveðinn upp af tryggingaráði í málinu nr. 17/1991 svohljóðandi

ÚRSKURÐUR:

Þann 20. júní s.l. kvartaði [A]... til tryggingaráðs yfir synjun lífeyrisdeildar Tryggingastofnunar ríkisins á hækkun uppbótar á örorkulífeyri tvö ár aftur í tímann frá 1. janúar 1990, en þá var uppbót hjá henni hækkuð úr 60% í 80%.

Málavextir eru þeir að allt frá árunum 1980-81 hefur [A] átt við mikil veikindi að stríða. Hún hefur farið í fjöldann allan af kviðarholsaðgerðum ásamt minni aðgerðum og því verið óvinnufær. Vegna þessa hefur hún fengið örorkulífeyri frá janúar 1982 ásamt tekjutryggingu. Frá 1. október 1982 fékk [A]... 25% uppbót á lífeyri vegna lyfjakostnaðar, sbr. vottorð [X] læknis dags. 22.10.82. Þann 1. september 1988 var uppbótin hækkuð í 60%, sbr. vottorð [Y] læknis dags. 30.09.88. Þá var auk sjúkrakostnaðar tekið mið af félagslegum aðstæðum konunnar, en hún er einstæð með þrjú börn. Hinn 1. janúar 1990 var uppbótin hækkuð í 80% eða hámark vegna félagslegra ástæðna og sjúkrakostnaðar,

Greinargerð lífeyrisdeildar er dags. 17. júlí 1991. Hún hefur verið send [A] og hefur tryggingaráð móttekið athugasemdir við greinargerðina.

Í 3. mgr. 19. gr. l. um almannatryggingar nr. 67/1971 segir: Heimilt er að greiða frekari uppbót á elli- og örorkulífeyri, ef sýnt þykir að lífeyrisþegi geti ekki komist af án þess.

Í 5. mgr. sömu greinar segir:

Við ákvörðun um hækkanir bóta samkvæmt 1.-4. mgr. hér að framan skulu umsóknir rökstuddar t.d. með skattaframtölum og skýrum upplýsingum um hagi bótaþega,...

Í 2. mgr. 13. gr. reglugerðar nr. 351/1977 um tekjutryggingu, heimilisuppbót og heimildarhækkanir samkvæmt 19. gr. laga um almannatryggingar segir:

Ennfremur er heimilt að greiða uppbót vegna mikils kostnaðar, þó að umsækjandi dvelji í heimahúsum, t.d. vegna heimilishjálpar eða hjúkrunar á heimili, vegna annars óvenjulegs sjúkrakostnaðar, sem sjúkratryggingar greiða ekki, svo og vegna mikillar húsaleigu, eftir nánari fyrirmælum tryggingaráðs.

Tryggingaráð samþykkti á fundi 18. nóvember 1987 skv. tillögu lífeyrisdeildar og að fengnu samþykki heilbr.- og tryggingamálaráðuneytis reglur um hvernig uppbót skuli ákvarðast. Þar segir m.a.:

a) Lífeyrisþegi, sem býr einn og er alfarið á eigin vegum:

Hámark uppbótar 40% af grunnlífeyri einstaklings. Ef lífeyrisþeginn fær ekki greidda sérstaka heimilisuppbót, má uppbótin nema allt að 80% af grunnlífeyri einstaklings.

Heimilt er að úrskurða uppbót til örorkulífeyrisþega, sem hefur óskerta tekjutryggingu ef sýnt er að hann kemst ekki af án þess. Af gögnum máls er ljóst að [A] hefur átt og á rétt á uppbót. Henni var því úrskurðuð uppbót 1982 vegna lyfjakostnaðar. Uppbótin var endurskoðuð þegar nýjar upplýsingar bárust árið 1988 m.a. um félagslegar aðstæður og áframhaldandi sjúkrasögu og var uppbótin hækkuð í 60%. Ekki var talið unnt að fara hærra, hér væri um hámark að ræða með hliðsjón af öðrum greiðslum til [A]. Sjúkrasagan hefur haldið áfram, en engin gögn sýna fram á aukinn kostnað, - sjúkrakostnað umfram þann sem fyrir var, er uppbót var ákvörðuð og hækkuð árið 1988. Félagslegar aðstæður voru svipaðar 1988 og 1990. Engu að síður var uppbótin hækkuð í 80% í janúar 1990. Rökin fyrir hækkun þá voru, að ferming væri framundan þ.e.a.s. auka útgjöld. Þessi hækkun stendur enn. Verður að teljast að við þessa ákvarðanatöku og það að láta hækkunina standa áfram hafi verið gengið eins langt og hægt var. Má því jafnframt vera ljóst, að þar sem fermingin var forsenda hækkunar þ.e. tímabundin aukaútgjöld, þá er enginn grundvöllur til hækkunar á uppbót aftur í tímann.

Því úrskurðast

ÚRSKURÐARORÐ:

Synja ber [A]... um hækkun á uppbót á örorkulífeyri aftur í tímann frá 1. janúar 1990."

II.

Í áliti mínu, dags. 11. ágúst 1992, sagði síðan svo um meðferð umsókna um uppbætur og skilyrði fyrir þeim almennt:

"Telja verður, að kvörtun A sé tvíþætt. Í fyrsta lagi telur hún ranga þá ákvörðun lífeyrisdeildar Tryggingastofnunar frá 1. september 1988, að úrskurða henni 60% uppbót, þar sem henni hafi með réttu borið hærri uppbót (80%) vegna veikinda sinna og annarra aðstæðna. Í öðru lagi kvartar hún yfir þeirri ákvörðun tryggingaráðs, að synja henni um greiðslu hámarksuppbótar, sem ákveðin var, frá 1. janúar 1988 að telja.

Áður en fjallað verður um kvörtun A, þykir rétt að fara nokkrum orðum um meðferð umsókna á grundvelli 3. mgr. 19. gr. laga nr. 67/1971 og almenn skilyrði uppbótar skv. ákvæðinu.

a) Almennt um meðferð mála samkvæmt 3. mgr. 19. gr.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 67/1971, sbr. lög nr. 87/1989, annast Tryggingastofnun ríkisins lífeyristryggingar, slysatryggingar og sjúkratryggingar. Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. er hver grein trygginga sjálfstæð deild í Tryggingastofnuninni og hefur þar sérstakan fjárhag. Í 10. gr. laga nr. 67/1971, sbr. lög nr. 59/1978, segir, að lífeyristryggingar taki til ellilífeyris, örorkulífeyris, makabóta, barnalífeyris, mæðralauna, ekkjubóta og ekkjulífeyris. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 67/1971 annast deildarstjórar venjulega afgreiðslu mála, hver fyrir sína deild. Þar segir ennfremur, að hvers konar nýbreytni frá venju skuli bera undir forstjóra stofnunarinnar.

Í VI. kafla laga nr. 67/1971 er að finna sameiginleg ákvæði. Í 55. og 56. gr. er fjallað um meðferð umsókna. Í 1. mgr. 55. gr. segir, að umsóknir um bætur skuli ritaðar á eyðublöð, er Tryggingastofnun lætur gera. Þá segir í 2. mgr., að umsækjendum sé skylt að svara öllum spurningum og gefa allar upplýsingar, sem nauðsynlegar eru til þess að unnt sé að úrskurða bætur eða endurskoða bótarétt. Þá segir í 4. mgr., að starfsfólk Tryggingastofnunar og umboðsmenn hennar skuli kynna sér til hlítar aðstæður umsækjenda og bótaþega og gera þeim grein fyrir ýtrasta rétti þeirra samkvæmt almannatryggingalögum, reglugerðum og starfsreglum stofnunarinnar. Í 56. gr. segir, að allar umsóknir skuli úrskurða svo fljótt sem kostur er á, og skuli bætur reiknaðar frá þeim degi, sem umsækjandi hefur uppfyllt skilyrði til bótanna. Í 2. mgr. segir, að bætur, aðrar en slysalífeyrir og sjúkradagpeningar, skuli aldrei úrskurðaðar lengra aftur í tímann en 2 ár. Í 3. mgr. 56. gr. segir síðan, að grundvöll bótaréttar megi endurskoða hvenær sem er og samræma bætur þeim breytingum, sem orðið hafa.

Samkvæmt því, sem fram er komið, er það deildarstjóri lífeyrisdeildar Tryggingastofnunar ríkisins, sem annast afgreiðslu beiðna um uppbót á örorkulífeyri samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 67/1971. Ber við meðferð umsókna um slíka uppbót að fara að fyrirmælum 55. og 56. gr. laga nr. 67/1971.

Í 1. mgr. 6. gr. er fjallað um hlutverk tryggingaráðs. Þar segir, að tryggingaráð skuli hafa eftirlit með fjárhag, rekstri og starfsemi Tryggingastofnunar ríkisins og gæta þess, að hún starfi í samræmi við lög og reglugerðir á hverjum tíma. Í 1. mgr. 7. gr. segir síðan, að rísi ágreiningur um grundvöll, skilyrði eða upphæð bóta, leggi tryggingaráð úrskurð á málið. Þá segir í 2. mgr., að komi ágreiningur til úrskurðar, sem sé að einhverju eða öllu leyti háður læknisfræðilegu, lögfræðilegu eða félagsfræðilegu mati, sé tryggingaráði heimilt að kveðja sér til ráðuneytis einn til þrjá menn, sem hafi sérþekkingu á hlutaðeigandi sviði (sbr. lög nr. 75/1989). Samkvæmt þessari grein hefur tryggingaráð heimild til að endurmeta öll atriði varðandi rétt til greiðslna úr almannatryggingum, sem starfsmenn Tryggingastofnunar ríkisins leggja mat á eða taka ákvörðun um í störfum sínum, án tillits til þess hvort mat starfsmanns varðar einungis skýringu á fyrirmælum almannatryggingalaga eða hvort mat eða ákvörðun snýr að öðrum atriðum, svo sem læknisfræðilegu mati á skilyrðum bóta og lífeyrisréttar. Á ráðinu hvílir sú skylda að stuðla að því, að mál séu nægilega upplýst, áður en ákvörðun er tekin, og að bótakrefjanda sé gefinn kostur á að koma á framfæri sjónarmiðum sínum og viðbótarupplýsingum. Þá ber tryggingaráði að kveða upp formlega úrskurði, þar sem fram koma sjónarmið aðila og á hvaða forsendum hann er byggður.

b) Almennt um skilyrði uppbótar skv. 3. mgr. 19. gr.

Í 3. mgr. 19. gr. segir: "Heimilt er að greiða frekari uppbót á elli- og örorkulífeyri, ef sýnt þykir, að lífeyrisþegi geti ekki komist af án þess", sbr. lög nr. 96/1971. Í ákvæðinu er nánar fjallað um skilyrði uppbótar og meðferð umsókna. Segir í 5. mgr. 19. gr., sbr. 1. gr. laga nr. 36/1980 og 3. gr. laga nr. 69/1977, að við ákvörðun um hækkanir bóta samkvæmt 1.-4. mgr. 19. gr. skuli umsóknir rökstuddar, t.d. með skattframtölum og skýrum upplýsingum um hag bótaþega, eftir því sem spurningar á eyðublöðum fyrir umsóknir um uppbætur veiti tilefni til. Þá segir, að hliðsjón skuli höfð af því, hvort eignum bótaþega hefur verið ráðstafað með þeim hætti, að það valdi synjun hækkunar. Samkvæmt 6. mgr. 19. gr. setur ráðherra að fengnum tillögum tryggingaráðs reglugerð um framkvæmd lífeyrishækkana samkvæmt 19. gr., þar á meðal nánari skilyrði fyrir rétti til heimilisuppbótar og uppbóta skv. 3. og 4. mgr. 19. gr. Gert er ráð fyrir að þeim fjárhæðum skuli breyta árlega með reglugerðum."

III.

Þá fjallaði ég um reglur um uppbætur þessar og mat á uppbótarþörf og vinnulag í þeim efnum:

"A fékk fyrst uppbót á árinu 1982, en þá var í gildi reglugerð nr. 351/1977, sbr. reglugerð nr. 394/1980. Þessi reglugerð var einnig í gildi, þegar ákvörðun var tekin um að hækka uppbótina til A á árinu 1988. Í 13. gr. reglugerðarinnar er mælt frekar fyrir um skilyrði til hækkunar bóta skv. 3. mgr. 19. gr. laga nr. 67/1971, en 13. gr. hljóðar svo:

"Heimilt er að greiða frekari uppbót (heimildaruppbót) á elli- og örorkulífeyri en að framan er greint, ef sýnt þykir, að lífeyrisþegi geti ekki komist af án þess. Á þetta t.d. við um kostnað vegna vistunar á elliheimili.

Ennfremur er heimilt að greiða uppbót vegna mikils kostnaðar, þó að umsækjendur dvelji í heimahúsum, t.d. vegna heimilishjálpar eða hjúkrunar á heimili, vegna annars óvenjulegs sjúkrakostnaðar, sem sjúkratryggingar greiða ekki, svo og vegna mikillar húsaleigu, eftir nánari fyrirmælum tryggingaráðs.

Við úrskurð bóta samkvæmt þessari grein skal m.a. hafa hliðsjón af því, hvort bótaþegi nýtur heimilisuppbótar samkvæmt 9.-10. gr. og taka sama tillit til þess og annarra tekna við ákvörðun greiðsluupphæðar."

Á fundi tryggingaráðs 18. nóvember 1987 samþykkti ráðið nánari reglur um greiðslu uppbótar á elli- og örorkulífeyri. Þar segir m.a.:

"Tekið skal fram að hér er um að ræða hámark í öllum hópum lífeyrisþega.

a) Lífeyrisþegi, sem býr einn og er alfarið á eigin vegum. Hámark uppbótar 40% af grunnlífeyri einstaklings.

Ef lífeyrisþeginn fær ekki greidda sérstaka heimilisuppbót, má uppbótin nema allt að 80% af grunnlífeyri einstaklings. Lífeyrisþeginn hefur heimilisuppbót eins og áður.

b) Lífeyrisþegi, sem er einhleypur, en er í samvistum við aðra, 140%.

c) Lífeyrisþegar, sem eru í hjúskap eða óvígðri sambúð, 100%."

Í 3. mgr. 19. gr., sbr. og 4.-5. mgr. og 13. gr. reglugerðar nr. 351/1977, er lífeyrisdeildinni og eftir atvikum tryggingaráði fengið svigrúm til mats á þörf fyrir uppbót. Rökin að baki heimildinni í 3. mgr. 19. gr. eru þau að tryggja beri þeim viðbótarlífeyri, sem lakasta hafa framfærsluna. Meginviðmiðunin samkvæmt 3. mgr. 19. gr. er, að lífeyrisþegi komist ekki af án uppbótar. Í 5. mgr. er byggt á því að þörfin sé metin eftir skattframtölum og skýrum upplýsingum um efnahag, þ.m.t. eignastöðu. Þá er í 2. mgr. 13. gr. reglugerðarinnar gert ráð fyrir því, að greidd sé uppbót vegna sérstaks kostnaðar, sem lífeyrisþegi hefur vegna örorku sinnar, t.d. vegna heimilishjálpar, hjúkrunar og annars óvenjulegs sjúkrakostnaðar. Með hinu síðastnefnda er m.a. átt við lyfjakostnað. Leggja ber áherslu á, að örorkulífeyrisþegi á aldrei sjálfkrafa rétt til uppbótar skv. 3. mgr. 19. gr., heldur verður að sannreyna í hverju einstöku tilfelli þörf viðkomandi fyrir slíka uppbót og hversu há hún á að vera. Þá verður að leitast við að tryggja að jafnræðis sé gætt milli einstakra bótaþega, þannig að uppbót sé ákvörðuð með sama hætti í sambærilegum tilfellum.

Í bréfi deildarstjóra lífeyrisdeildar Tryggingastofnunar frá 7. janúar 1992 er gerð almenn grein fyrir því, hvaða gögn liggi til grundvallar mati á því, hvort og þá að hvaða marki heimild 3. mgr. 19. gr. laga nr. 67/1971 skuli notuð. Þar segir:

"Þá liggja frammi húsaleigukvittanir, upplýsingar um kostnað vegna læknishjálpar og útgjöld vegna lyfjakaupa. Ennfremur upplýsingar um ómegð, skuldir og ýmisleg önnur gögn, sem geta skýrt félagslega stöðu bótaþegans og afkomu heimilis hans. Ævinlega eru skattframtöl skoðuð og byggt er á tekjuyfirlýsingum."

Þau atriði, sem rakin eru í bréfi deildarstjórans, eru í samræmi við framangreind ákvæði almannatryggingalaga og reglugerðar."

IV.

Sérlega fjallaði ég um kvörtunarefni A og uppbætur, sem ákveðnar höfðu verið í hennar tilviki. Varð niðurstaða mín þessi:

"a) Uppbót ákveðin 1982.

Hinn 1. október 1982 var A ákvörðuð 25% uppbót á örorkulífeyri skv. 3. mgr. 19. gr. laga nr. 67/1971 vegna lyfjakostnaðar. Ákvörðun um uppbót var m.a. byggð á umsókn hennar frá 25. október 1982 og læknisvottorði [X], dags. 22. október 1982, þar sem staðfest er, að hún hafi haft talsverð útgjöld vegna lyfjakaupa. Ákvörðun lífeyrisdeildar frá 1. október var ekki skotið til tryggingaráðs. Ekki er kvartað sérstaklega yfir þessari ákvörðun lífeyrisdeildarinnar og er því ekki tilefni til athugasemda af minni hálfu vegna hennar.

b) Uppbót ákveðin 1988.

Hinn 1. september 1988 var uppbót A hækkuð samkvæmt 3. mgr. 19. gr. laga nr. 67/1971 í 60% og var hækkunin látin gilda frá 1. janúar 1988. Ástæða hækkunarinnar var sögð vera mikill sjúkrakostnaður. Ákvörðunin var byggð á umsókn, dags. 5. október 1988. Í bréfi Tryggingastofnunar ríkisins frá 7. janúar 1992 kemur fram, að við ákvörðunina hafi verið beitt reglugerð nr. 351/1977, einkum 13. gr. hennar.

Síðan segir í bréfinu:

"Hinn 6. október 1988 var uppbót [A]... hækkuð frá 1. september 1988 í 60% vegna mikils sjúkrakostnaðar. Var þar stuðst við eldri læknisvottorð [X] dags. 22.10. 1982 en þá fékk hún 25% uppbót og læknisvottorð [Y], dags. 30. september 1988, þar sem sjúkralega [A]... er rakin og ráða mátti af henni að útgjöld færu vaxandi vegna veikinda.

Þá hafði [Y] læknir rætt sérstaklega um erfiðleika A og veikindi við [Z], deildarstjóra, eins og fram kemur í læknabréfinu."

Í tilvitnuðu bréfi deildarstjóra lífeyrisdeildarinnar frá 7. janúar 1992 er lýst undirbúningi og þeim sjónarmiðum, sem ákvörðun lífeyrisdeildarinnar um hækkun uppbótar í 60% frá 1. september 1988 er reist á. Ákvörðunin var tekin á grundvelli skattframtala, læknisvottorða, viðtala við A og mats á félagslegum aðstæðum hennar. Ég tel, eins og meðferð umsóknar og undirbúningi þessarar ákvörðunar er lýst í bréfi deildarstjóra lífeyrisdeildar og mati á aðstæðum A var háttað, að þannig hafi verið staðið að umræddri ákvörðun, að samræmist þeim fyrirmælum og meginsjónarmiðum, sem 3., 5. og 6. mgr. 19. gr. og 55. og 56. gr. laga nr. 67/1971 og 13. gr. reglugerðar nr. 351/1977 kveða á um. Er ekki tilefni til að ætla annað en að uppbót til A hafi verið ákvörðuð með sama hætti og til annarra bótaþega, sem svipað er ástatt um. Ég tel því ekki ástæðu til athugasemda við þá niðurstöðu lífeyrisdeildar, að miða uppbót til hennar við 60%.

c) Úrskurður tryggingaráðs 13. september 1991.

Samkvæmt umsókn A, dags. 1. febrúar 1990, var uppbót til hennar hækkuð úr 60% í 80% vegna "félagslegra ástæðna". Í umsókninni var einnig tilgreint að ferming væri framundan. Þótt tímabundin kostnaður vegna fermingar hefði verið tilgreindur sem ástæða hækkunarinnar, var ákveðið að láta hana standa áfram, þannig að A nýtur nú hámarksuppbótar á örorkulífeyri til frambúðar. Hinn 7. júní 1991 fór A þess á leit, að ákvörðun um hámarksuppbót til hennar yrði afturvirk þannig að hún tæki einnig til tímabilsins 1. janúar 1988 til 1. janúar 1990. Með bréfi lífeyrisdeildarinnar, dags. 13. júní 1991, var beiðni A um afturvirka hækkun synjað og var synjunin staðfest með úrskurði tryggingaráðs frá 13. september 1991.

Í bréfi deildarstjóra lífeyrisdeildar frá 13. júní 1991 er meðal annars tekið fram, að það sé misskilningur að heimildarbætur séu greiddar tvö ár aftur í tímann, eins og gert sé með skilyrðislausar bætur. Í greinargerð lífeyrisdeildar frá 17. júlí 1991 er dregið nokkuð úr þessu og sagt, að fátítt sé að heimildarbætur séu úrskurðaðar aftur í tímann. Í bréfi tryggingaráðs, dags. 13. janúar 1992, segir, að uppbót sé aldrei úrskurðuð afturvirkt umfram 2-3 mánuði, þar sem uppbót skuli aðeins úrskurða, ef bótaþegi kemst ekki af án hennar til framfærslu. Í úrskurði tryggingaráðs er hins vegar byggt á því meðal annars, að með hækkuninni frá 1. janúar 1990 í 80% hafi verið gengið eins langt og hægt var, en auk þess hafi ekki verið ástæða til hækkunar aftur í tímann, þar sem ástæða hækkunarinnar í 80% hefði m.a. verið tímabundin útgjöld vegna fermingar. Úrskurðurinn er tekinn upp í heild hér að framan.

Eins og fram kemur hér að framan, tel ég að ákvörðunin um hækkun uppbótar í 60% frá 1. september 1988 hafi verið reist á sjónarmiðum, sem séu í samræmi við ákvæði 3., 5. og 6. mgr. 19. gr. og 55. og 56. gr. laga nr. 67/1971 og 13. gr. reglugerðar nr. 351/1977. Forsendur synjunar lífeyrisdeildarinnar og úrskurðar tryggingaráðs um greiðslu uppbótar aftur í tímann, eins og þær eru settar fram í úrskurðinum, eru um sumt ekki fyllilega ljósar. Einkum er óljóst, með hvaða hætti og á hvaða forsendum sú ákvörðun var tekin að láta 80% uppbót standa til frambúðar, þar sem ekki er vísað til gagna, sem benda til þess að aðstæður A hafi versnað frá því að ákvörðunin um 60% uppbót var tekin á árinu 1988. Á þessu er heldur ekki að finna afdráttarlausa skýringu í öðrum gögnum málsins. Þá liggur ekki fyrir skýring á því, hvaða sérstöku rök hafa legið til grundvallar, þegar bætur samkvæmt 3. mgr. 19. gr. laga nr. 67/1971 hafa í undantekningartilvikum verið úrskurðaðar aftur í tímann. Miða ber hins vegar við það, sem kemur fram í fyrrgreindu bréfi tryggingaráðs frá 13. janúar 1992, að uppbót af umræddu tagi sé aldrei úrskurðuð afturvirkt umfram 2-3 mánuði. Var A úrskurðuð nefnd 80% uppbót frá 1. janúar 1990 samkvæmt umsókn hennar frá 1. febrúar 1990.

Niðurstaða mín er sú, að ekki hafi komið fram að brotinn hafi verið réttur á A með úrskurði tryggingaráðs frá 13. september 1991."

Gaf kvörtun A ekki tilefni til annarra athugasemda en að framan greinir.