Umsókn um sérfræðiviðurkenningu. Dráttur á málsmeðferð.

(Mál nr. 1232/1994)

A kvartaði yfir afgreiðslu menntamálaráðuneytisins á umsókn hans um sérfræðiviðurkenningu í taugasálfræði, annað hvort sem aðalgrein eða sem undirgrein aðalgreinar. Menntamálaráðuneytið vísaði umsókn A til umsagnar nefndar um sérfræðileyfi sálfræðinga, sem taldi rétt að bíða eftir niðurstöðum starfshóps sem skipaður hafði verið til að meta hvernig fara skyldi með sérfræðileyfi í taugasálfræði. Menntamálaráðuneytið afgreiddi umsóknina í samræmi við umsögn nefndarinnar og synjaði um leyfisveitinguna að svo stöddu. Samkvæmt 4. gr. reglugerðar nr. 158/1990, um sérfræðileyfi sálfræðinga, er unnt að sækja um sérfræðiviðurkenningu í klínískri sálfræði, fötlunarsálfræði, uppeldissálfræði og félags- og skipulagssálfræði. Samkvæmt 10. gr. reglugerðarinnar má veita sérfræðileyfi á öðrum sviðum ef kröfum um sérmenntun er fullnægt að mati sérfræðinefndar. Þar sem um heimildarákvæði er að ræða í 10. gr. og taugasálfræði ekki talin upp í 4. gr., taldi umboðsmaður ekki ástæðu til að gera athugasemd við þá afstöðu menntamálaráðuneytisins að synja um veitingu sérfræðileyfis í taugasálfræði að svo stöddu. Í málinu kom fram, að menntamálaráðuneytið og sérfræðinefnd skildu umsókn A svo, að einungis væri sótt um sérfræðiviðurkenningu í taugasálfræði sem aðalgrein. Umboðsmaður taldi að umsókn A hefði verið nægjanlega skýr um það að sótt var valkvætt um sérfræðiviðurkenningu í taugasálfræði sem aðalgrein eða undirgrein aðalgreinar. Hefði því menntamálaráðuneytinu borið að taka til efnisúrlausnar hvort skilyrði væru til þess að veita A sérfræðiviðurkenningu í taugasálfræði sem undirgrein aðalgreinar hans, fötlunarsálfræði. Umsókn A var dagsett 5. júlí 1994. Meðal annars vegna fyrrnefndra mistaka við meðferð málsins hlaut hann umrædda sérfræðiviðurkenningu ekki fyrr en 4. mars 1996. Beindi umboðsmaður þeim tilmælum til menntamálaráðueytisins að málsmeðferð við leyfisveitingar sem þessarar yrði endurskoðuð með það að markmiði að komið yrði í veg fyrir sambærileg mistök í framtíðinni.

I. Hinn 5. október 1994 bar A fram kvörtun yfir afgreiðslu menntamálaráðuneytisins á umsókn hans um sérfræðiviðurkenningu í taugasálfræði, annað hvort sem aðalgrein eða sem undirgrein aðalgreinar. Fram kom, að menntamálaráðuneytið hefði ekki afgreitt umsókn hans, þar sem það hefði talið rétt að bíða eftir niðurstöðum starfshóps, sem settur hafði verið á laggirnar til að meta, hvernig fara skyldi með umsóknir um leyfi sálfræðinga til að mega kalla sig sérfræðinga í taugasálfræði. II. Hinn 6. október 1994 ritaði ég menntamálaráðherra bréf og óskaði eftir því, með vísan til 7. og 9. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis, að ráðuneyti hans skýrði viðhorf sitt til kvörtunarinnar og léti mér í té tiltæk gögn, sem málið snertu. Mér bárust svör ráðuneytisins með bréfi, dags. 22. desember 1994, og segir þar meðal annars svo: "[A] kvartar yfir niðurstöðu sem fram kemur í bréfi menntamálaráðuneytisins, dags. 21. september 1994. Þar er [A] tilkynnt að ráðuneytið geti að svo stöddu ekki tekið afstöðu til umsóknar hans um sérfræðileyfi í taugasálfræði, en telji rétt að bíða eftir niðurstöðum ráðgjafanefndar um sérfræðileyfi í taugasálfræði. Samkvæmt lögum nr. 40/1976 um sálfræðinga og 13. gr. reglugerðar um sérfræðileyfi sálfræðinga nr. 158/1990 veitir menntamálaráðuneyti sérfræðileyfi í sálfræði að fenginni umsögn þriggja manna nefndar sem ráðherra skipar. Í 4. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um að sálfræðingur geti sótt um sérfræðiviðurkenningu á einu af fjórum eftirtöldum sérsviðum: a) klínískri sálfræði, b) fötlunarsálfræði, c) uppeldissálfræði og d) félags- og skipulagssálfræði. Til þess að veita [A] sérfræðiviðurkenningu í taugasálfræði þarf að breyta reglugerð nr. 158/1990 eða skilgreina nýja undirgrein einhverra þeirra fjögurra sérsviða sem kveðið er á um í 4. gr. reglugerðarinnar. Að tilstuðlan nefndar um sérfræðileyfi sálfræðinga, í samvinnu við Sálfræðingafélag Íslands og með stuðningi menntamálaráðuneytis, var í júlí s.l. sett á fót ráðgjafanefnd um sérfræðileyfi í taugasálfræði. Nefnd þessari er ætlað að kanna hvernig best megi meðhöndla umsóknir um leyfi sálfræðinga til þess að mega kalla sig sérfræðinga í taugasálfræði og á hún að skila niðurstöðu fyrir næstkomandi áramót. Nefnd um sérfræðileyfi sálfræðinga, hefur ekki viljað taka afstöðu til erindis [A] fyrr en að fengnu áliti ofannefndrar ráðgjafanefndar, sbr. meðf. bréf [...] þáverandi formanns nefndar um sérfræðileyfi dags. 11. ágúst 1994. Hefur ráðuneytið ekki séð sér fært að svara umsókn [A] um sérfræðileyfi fyrr en að fenginni umsögn nefndarinnar." Hinn 29. mars 1995 ritaði ég menntamálaráðherra á ný bréf. Í bréfinu sagði svo: "Í bréfi menntamálaráðuneytisins frá 22. desember 1994 kemur fram, að ráðuneytið sjái sér eigi fært að svara umsókn [A] um sérfræðileyfi, fyrr en að fenginni umsögn nefndar um sérfræðileyfi sálfræðinga. Sú nefnd vilji hins vegar eigi taka afstöðu til umsóknarinnar fyrr en að fyrir liggi álit ráðgjafanefndar um sérfræðileyfi í taugasálfræði, en sú nefnd hafi átt að skila niðurstöðu um síðustu áramót. Af ofangreindu tilefni er þess óskað, sbr. 7. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis, að menntamálamálaráðuneytið láti mér í té upplýsingar um, hvenær vænta megi þess, að ráðuneytið taki umsókn [A], um sérfræðileyfi í taugasálfræði, til afgreiðslu." Með bréfi, dags. 5. október 1995, gerði menntamálaráðuneytið mér grein fyrir því, að það hefði lagt umsókn A um sérfræðileyfi í taugasálfræði á ný fyrir sérfræðinefnd skv. 2. mgr. 13. gr. reglugerðar nr. 158/1990 og óskað eftir umsögn hennar um málið innan þriggja vikna. Með bréfi, dags. 10. nóvember 1995, svaraði nefndin erindi menntamálaráðuneytisins. Í bréfinu segir meðal annars svo: "Með svari nefndarinnar frá 11. ág. 1994 vegna umsóknar [A] um að kalla sig sérfræðing í taugasálfræði er umsóknin endursend. Vísað er í þá ákvörðun nefndarinnar að gera engar breytingar á skipan sérfræðileyfa, hvorki í aðal- né undirgreinum, nema að vel ígrunduðu máli. Varðandi afstöðu til taugasálfræði sérstaklega er talið ráðlegt að bíða eftir niðurstöðum starfshóps um hvaða sess taugasálfræði beri að skipa. Staðan í málinu er óbreytt. Nefnd um taugasálfræði hefur enn ekki skilað niðurstöðu. Forsendur fyrri ákvörðunar eru því óbreyttar og núverandi nefnd um sérfræðileyfi sálfræðinga afgreiðir á þessu stigi (27.10. 1995) ekki umsókn [A]. Honum er hins vegar bent á að hann geti sótt um sérfræðileyfi í taugasálfræði sem undirgrein fötlunarsálfræði þar sem hann hafi nú þegar fengið viðurkenningu sem sérfræðingur á sviði fötlunarsálfræði. Kjósi [A] að senda inn slíka umsókn verði hún tekin til skoðunar. Vonandi fara tillögur um skipan taugasálfræði að líta dagsins ljós. Svo kann hins vegar að fara að þær tillögur kalli á aðrar almennar breytingar. Allt kann þetta að taka nokkurn tíma. Nefndin hefur fulla samúð með þeirri óþreyju sem umsækjandi finnur fyrir. Við teljum okkur hins vegar knúna til þess að vanda vinnu okkar svo hún verði faginu til framdráttar og til lengri tíma litið ekki eilíft bitbein sálfræðinga." Með bréfi, dags. 7. desember 1995, gerði menntamálaráðuneytið A grein fyrir niðurstöðu málsins. Þar segir meðal annars svo: "Með vísun til svars nefndarinnar, þ.e. að nefndin taki ekki afstöðu til umsóknar yðar, fyrr en niðurstöður ofangreinds starfshóps liggi fyrir, telur ráðuneytið ekki forsendur til að verða við umsókn yðar um sérfræðileyfi í taugasálfræði. Eins og sérfræðinefndin bendir á í ofangreindu bréfi sínu, dags. 10. f.m., getið þér sótt um sérfræðileyfi í taugasálfræði sem undirgrein fötlunarsálfræði þar eð þér hafið þegar hlotið sérfræðileyfi í þeirri grein sálfræði. Ef þér kjósið að senda inn slíka umsókn, verður mál yðar að sjálfsögðu skoðað að nýju. Umsóknargögn endursendast hér með." Hinn 8. janúar 1996 ritaði ég menntamálaráðherra á ný bréf og sagði þar meðal annars svo: "Í bréfi menntamálaráðuneytisins til [A], dags. 7. desember 1995, kemur fram, að ekki sé hægt að verða við erindi hans að svo stöddu um að fá sérfræðileyfi í taugasálfræði. Í bréfi ráðuneytisins segir síðan, að ekkert sé því hins vegar til fyrirstöðu að [A] sæki um sérfræðileyfi í taugasálfræði sem undirgrein fötlunarsálfræði, þar sem hann hafi þegar hlotið sérfræðileyfi í þeirri grein sálfræði. Framangreint bréf ráðuneytisins er svar við umsókn, sem [A] lagði fram með bréfi, dags. 5. júlí 1995. Þar segir meðal annars að sótt sé um "sérfræðiviðurkenningar í: Taugasálfræði. Annað hvort sem aðalgrein eða sem undirgrein aðalgreinar." Af framangreindu tilefni er þess óskað, með vísan til 7. og 9. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis, að ráðuneyti yðar útskýri hvers vegna ekki var fjallað efnislega um þann þátt umsóknar [A], er laut að umsókn hans um sérfræðiviðurkenningu í taugasálfræði sem undirgrein." Mér bárust svör menntamálaráðuneytisins með bréfi, dags. 6. mars 1996, og segir þar meðal annars svo: "Af því tilefni vill ráðuneytið taka fram að undirstrikuð yfirskrift umsóknar [A] var á þá leið að litið var svo á að verið væri að sækja um sérfræðileyfi í taugasálfræði og var óskað eftir umsögn nefndar um sérfræðileyfi sálfræðinga um það efni. Ekkert í umsókn hans bar annað með sér utan neðanmálsgreinar þar sem stóð án undirstrikunar: Óskað er sérfræðiviðurkenningar í: Taugasálfræði. Annað hvort sem aðalgrein eða sem undirgrein aðalgreinar. Umsögn sérfræðinefndar, dags. 10. nóvember s.l., sýnir einnig að nefndin hefur lagt sama skilning á umsókn hans. Með bréfi, dags. 15. desember s.l., ítrekaði [A] umsókn sína um sérfræðileyfi í taugasálfræði sem undirgrein fötlunarsálfræði. Umsóknin var send sérfræðinefndinni til umsagnar með bréfi dags. 19. desember s.l. Að fenginni umsögn nefndar um sérfræðileyfi sálfræðinga, dags. 27. f.m., þar sem mælt er með að honum verði veitt sérfræðileyfi í taugasálfræði sem undirgrein fötlunarsálfræði, hefur ráðuneytið gefið út leyfisbréf honum til handa til að kalla sig sérfræðing í taugasálfræði sem undirgrein fötlunarsálfræði og starfa sem slíkur hér á landi." III. Í forsendum og niðurstöðu álits míns, dags. 3. maí 1996, segir: "Eins og rakið er í II. kafla hér að framan, sótti A um sérfræðiviðurkenningu í taugasálfræði, annaðhvort sem aðalgrein eða sem undirgrein aðalgreinar. Í 1. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 158/1990, um sérfræðileyfi sálfræðinga, er fjallað um fjögur sérsvið, sem unnt er að sækja um. Þar er um að ræða klíníska sálfræði, fötlunarsálfræði, uppeldissálfræði og félags- og skipulagssálfræði. Í 1. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 158/1990 kemur síðan fram, að veita megi sérfræðileyfi á öðrum sviðum en þeim, sem talin eru í 4. og 5. gr., ef fullnægt sé kröfum um sérmenntun að mati sérfræðinefndar. Ljóst er, að taugasálfræði er ekki meðal þeirra fjögurra greina, sem upp eru taldar í 4. gr. reglugerðar nr. 158/1990. Þar sem 1. mgr. 10. gr. reglugerðarinnar felur aðeins í sér heimild en ekki skyldu, er ekki ástæða til að gera athugasemd við þá afstöðu menntamálaráðuneytisins að synja um veitingu sérfræðileyfis í taugasálfræði að svo stöddu, enda ekki upplýst um að aðrir hafi fengið slík sérfræðileyfi. Eins og áður segir, var í umsókn A sótt um sérfræðiviðurkenningu í taugasálfræði, annað hvort sem aðalgrein eða sem undirgrein aðalgreinar. Umsókn A ber fyrirsögnina "umsókn um sérfræðileyfi í taugasálfræði". Neðst á fyrstu síðu umsóknarinnar segir síðan feitletrað: "Óskað er sérfræðiviðurkenningar í:" á eftir því kemur síðan í óbreyttu letri "Taugasálfræði. Annað hvort sem aðalgrein eða sem undirgrein aðalgreinar." Að mínum dómi var umsókn A nægjanlega skýr um það, að sótt var valkvætt um sérfræðiviðurkenningu í taugasálfræði annað hvort sem aðalgrein eða sem undirgrein aðalgreinar. Í tilefni af umsókn A frá 5. júlí 1994 bar menntamálaráðuneytinu því jafnframt að taka til efnisúrlausnar, hvort skilyrði væru til þess að veita A sérfræðiviðurkenningu í taugasálfræði sem undirgrein aðalgreinar. Það var aftur á móti ekki gert fyrr en A ítrekaði umsókn sína um sérfræðiviðurkenningu í taugasálfræði sem undirgrein aðalgreinar með bréfi, dags. 15. desember 1995. Af skýringum menntamálaráðuneytisins virðist mega ráða, að bæði hjá ráðuneytinu og sérfræðinefnd skv. 2. mgr. 13. gr. reglugerðar nr. 158/1990 hafi ríkt sá misskilningur, að umsókn A snerti eingöngu sérfræðiviðurkenningu í taugasálfræði sem aðalgrein. Eins og áður er getið, sótti A einnig um sérfræðiviðurkenningu í taugasálfræði sem undirgrein aðalgreinar hinn 5. júlí 1994. Meðal annars vegna fyrrnefndra mistaka við meðferð málsins hlaut hann umrædda sérfræðiviðurkenningu ekki fyrr en 4. mars 1996. Það eru tilmæli mín til menntamálaráðuneytisins, að málsmeðferð þess við slíkar leyfisveitingar verði endurskoðuð með það að markmiði, að komið verði í veg fyrir að sambærileg mistök geti átt sér stað." IV. Í framhaldi af fyrrgreindu áliti mínu óskaði ég með bréfi, dags. 29. ágúst 1996, eftir upplýsingum menntamálaráðherra um, hvort einhverjar ákvarðanir hefðu verið teknar í framhaldi af áliti mínu. Í svari menntamálaráðuneytisins, dags. 4. september 1996, kom fram, að með samþykkt laga nr. 54/1996, um breytingu á lögum um sálfræðinga nr. 40/1976, sbr. lög nr. 68/1988, hafi umfjöllun þeirra málefna er varða sálfræðinga og framangreind lög taki til, flust til heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins. Hafi álit mitt frá 6. maí 1996 því verið sent heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu. Með bréfum, dags. 9. maí og 4. júlí 1997, óskaði ég eftir upplýsingum heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins um, hvort einhverjar ákvarðanir hefðu verið teknar í framhaldi af áliti mínu. Í svari heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins, dags. 10. júlí 1997, segir meðal annars: "... vill ráðuneytið taka fram að umrædd málsmeðferð fór fram hjá menntamálaráðuneytinu. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið mun í meðferð mála hjá því ráðuneyti kappkosta að slík mistök sem áttu sér stað í ráðuneyti menntamála endurtaki sig ekki í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu."