Aðbúnaður fanga í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg. Evrópskar fangelsisreglur. Jafnræðisregla. Frumkvæðisathugun.

(Mál nr. 1539/1995)

Umboðsmaður tók til athugunar að eigin frumkvæði aðbúnað fanga í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg, meðal annars með hliðsjón af kvörtun tveggja fanga og skýrslu Evrópunefndar um varnir gegn pyntingum og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu frá 1993. Fyrirspurnir umboðsmanns til Fangelsismálastofnunar ríkisins lutu að óviðunandi birtu í tveimur klefum, litlu loftstreymi inn um glugga á tilteknum klefum, skorti á aðstöðu til líkamsræktar, svo og reglum um stærð sjónvarpstækja og aðgangi fanga að síma. Þeir tveir klefar sem fjallað var um voru teknir úr notkun sem fangaklefar í desember 1995. Þá voru þeir gluggar lagfærðir sem gerðar höfðu verið athugasemdir við vegna lítils loftstreymis. Taldi umboðsmaður því ekki ástæðu til frekari athugasemda vegna þessa. Þá taldi umboðsmaður að komið hefði verið upp lágmarksaðstöðu til líkamsþjálfunar í fangelsinu, sbr. 15. gr. laga nr. 48/1988, um fangelsi og fangavist, og 83. og 84. gr. evrópsku fangelsisreglnanna og taldi því ekki ástæðu til frekari athugasemda um þessa þætti. Umboðsmaður taldi ekki nauðsynlegt að takmarka stærð sjónvarpstækja í klefum og beindi þeim tilmælum til fangelsismálastofnunar að reglur um stærð sjónvarpstækja í klefum fanga væru í samræmi við raunverulega framkvæmd í þessum efnum. Loks vísaði umboðsmaður til 19. gr. laga nr. 48/1988, um rétt fanga á símtölum við aðila utan fangelsis, sbr. 27. gr. reglugerðar nr. 119/1990, sem og til fyrrnefndrar skýrslu, að einungis beri að takmarka tengsl fanga við umheiminn á grundvelli skilgreindra öryggissjónarmiða eða með tilliti til þess sem mögulegt er við ríkjandi aðstæður. Með vísan til þessa sjónarmiðs og jafnræðissjónarmiða beindi umboðsmaður þeim tilmælum til fangelsismálastofnunar að hún beitti sér fyrir því að fangar hegningarhússins nytu sambærilegra kosta í símamálum og fangar í öðrum fangelsum landsins. Loks tók umboðsmaður fram að Hegningarhúsið við Skólavörðustíg væri gömul bygging sem erfitt væri að laga að þeim kröfum sem gerðar væru til fangelsa. Taldi umboðsmaður að stefna ætti að því að hætta svo fljótt sem kostur væri að nota það sem fangelsi.

I. Í tilefni af kvörtun tveggja fanga, er dvöldu í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg þeirra A og B, ákvað ég að taka að eigin frumkvæði til athugunar aðbúnað fanga í hegningarhúsinu, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis. Hinn 22. júní 1995 heimsótti ég hegningarhúsið af þessu tilefni. Í þeirri heimsókn komu fram nokkur atriði, sem sérstaklega vöktu athygli mína, bæði við skoðun á húsakynnum sem og í viðtölum við fanga. II. Í framhaldi af heimsókn minni í Hegningarhúsið við Skólavörðustíg sendi ég bréf til Fangelsismálastofnunar ríkisins, dags. 17. júlí 1995, þar sem ég óskaði þess, með vísan til 7. og 9. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis, að fangelsismálastofnun veitti mér upplýsingar og skýrði viðhorf sitt til eftirfarandi atriða: "1. Í klefum nr. 13 og 14 virðist birta óviðunandi. Er óskað upplýsinga um, hvort tekin hafi verið ákvörðun um að taka þessa klefa úr notkun sem fangaklefa, og ef svo er, hvenær áætlað sé að það komi til framkvæmda. "2. Í nokkrum klefum hegningarhússins, sem snúa inn að fangelsisgarði, er, að sögn fanga, lítið loftstreymi inn um glugga. Gluggarnir í þessum klefum eru með þéttriðnum vírnetum, og ekki mögulegt að stilla þá með tilliti til loftstreymis. Óskað er upplýsinga um, hvort rannsókn hafi farið fram á því, hvort loftstreymi inn í klefana sé nægjanlegt og, ef niðurstaðan er sú að svo sé ekki, hvort einhverjar ákvarðanir hafi verið teknar um lagfæringar á gluggunum. "3. Fram kom í heimsókninni, að ætlunin væri að bæta aðstöðu fanga í hegningarhúsinu til líkamsræktar, svo sem með því að koma upp lyftingatækjum. Óskað er nánari upplýsinga um þær ákvarðanir, sem teknar hafa verið um þetta efni, og um áætlaða framkvæmd þeirra. "4. Í samtölum við fanga kom fram óánægja með reglur, er gilda í hegningarhúsinu um stærð sjónvarpstækja. Kvörtuðu fangar yfir því, að samkvæmt reglum fangelsisins væri eigi heimilt að hafa í fangaklefum algengustu stærðir sjónvarpa, sem væru 18-21", en erfitt væri að útvega sjónvörp af heimilli stærð. Fram kom, að samkvæmt reglum fangelsisins er sett viðmið um 14" stærð á skjá, en í vissum tilvikum væri heimilað að nota stærri sjónvörp, þó eigi yfir ákveðinni stærð. Óskað er upplýsinga um, hvort Fangelsismálastofnun ríkisins telji eigi rétt að breyta þeirri viðmiðun í reglum hegningarhússins um stærð sjónvarpa, er nú gildir, þannig að það verði í samræmi við raunverulega framkvæmd, og hvort einhverjar ákvarðanir hafi verið teknar í því sambandi. "5. Að lokum er óskað upplýsinga um, hvort einhverjar ákvarðanir liggi fyrir um, að aðgangur að síma í hegningarhúsinu verði rýmkaður, t.d. þannig að þeir fái aðgang að kortasíma, eins og fangar hafa afnot af á Litla-Hrauni og á Kvíabryggju." Svar fangelsismálastofnunar barst mér með bréfi, dags. 5. september 1995. Segir þar meðal annars: "Ad.1. Fyrir liggur ákvörðun um að taka klefa nr. 13 og 14 úr notkun sem fangaklefa fljótlega eftir að hið nýja afplánunarfangelsi að Litla-Hrauni verður komið í fulla notkun. Ad.2. Framkvæmdasýslan var fengin til að gera úrbætur í þessu efni. Í framhaldi af því voru göt stækkuð á vírnetum í gluggum þeirra fangaklefa sem athugasemdir komu fram við. Ad.3. Enn hefur ekkert verið aðhafst í þessu máli. Þröngur fjárhagur ræður þar mestu um. Ad.4. Fangelsismálastofnun hefur unnið að því að samræma og setja viðmiðunarreglur og staðla yfir þá muni sem föngum er heimilað að hafa í klefum allra ríkisfangelsanna, þ.m.t. sjónvarpstæki. Í hinu nýja afplánunarfangelsi að Litla-Hrauni er gert ráð fyrir því að stærð sjónvarpstækja í fangaklefum nemi 18"-21". Hins vegar verður stærra sjónvarpstæki í sameiginlegri setustofu hvers fangagangs. Hvað varðar Hegningarhúsið hefur verið reynt að takmarka stærð sjónvarpstækja og fjölda þeirra muna er föngum er heimilað að taka með sér í fangavistina. Eigi er hægt að fullyrða að sú regla sé undantekningarlaust í gildi í Hegningarhúsinu að stærð sjónvarpstækja sé eingöngu 14". Hins vegar hefur verið mælst til þess að fangar hafi á klefum fremur smærri tæki en stærri vegna aðstöðuleysis. Þá ber þess að geta að á fangagangi Hegningarhússins eru 2 sjónvarpstæki af stærri gerð. Ad.5. Engar ákvarðanir hafa verið teknar um að setja upp kortasíma í Hegningarhúsinu eða rýmka almennt símatíma þar umfram það sem kveðið er á um í reglugerðum um þetta efni." Hinn 2. febrúar 1996 barst mér bréf forstöðumanns fangelsa á höfuðborgarsvæðinu. Kemur þar fram, að fangaklefar nr. 13 og 14 hafi verið teknir úr notkun sem fangaklefar og breytt í sjónvarpsherbergi fyrir fanga og aðstöðu til líkamsræktar. Af því tilefni ritaði ég Fangelsismálastofnun ríkisins bréf, þar sem þess var óskað, að veittar yrðu nánari upplýsingar um, hvernig aðstöðu til líkamsræktar væri nú háttað í fangelsinu. Jafnframt óskaðist upplýst, hvort aðstaða í fangelsinu hefði breyst frekar að því er snertir þau atriði, sem fjallað er um í framangreindu bréfi mínu, frá því fangelsismálastofnun svaraði erindi mínu 5. september 1995. Hinn 11. mars 1996 barst mér bréf fangelsismálastofnunar, þar sem fram kemur, að stofnunin telji, að aðstaða til líkamsræktar í Hegningarhúsinu hafi verið færð í viðunandi horf. Bréfi fangelsismálastofnunar fylgdi greinargerð forstöðumanns fangelsa á höfuðborgarsvæðinu, dags. 1. mars 1996. Þar segir meðal annars svo: "Fangaplássum hefur fækkað úr 19 í 16. Klefar nr. 1, 13 og 14 voru teknir úr notkun sem fangaklefar þann 28. desember 1995. Klefarnir voru málaðir og snyrtir, rúm, skápar og annar búnaður fangaklefa var tekinn burt. Klefa númer eitt var síðan breytt í heimsóknarherbergi, þar sem fangar taka á móti heimsóknargestum sem þeir hafa heimild til að fá til sín lögum samkvæmt. Heimsóknarherbergið er útbúið sófa, hægindastól, borði og öðrum búnaði er slíku herbergi sæmir. Klefa nr. 13 var breytt í setustofu sem fangar hafa afnot af meðan klefar eru opnir frá kl. 08:00 á morgnana til kl. 22:00 á kvöldin. Í setustofu var settur hornsófi og borð, ásamt sjónvarpi, sem fangar geta horft á, hafi þeir ekki sjónvarp á klefa. Klefa nr. 14 var breytt í aðstöðu til líkamsræktar. Sett var upp fjölnota tæki til ýmiss konar styrktaræfinga, s.s. lyftinga, fótstigs- og magaæfinga. Síðar er hugsanlegt að bæta við aðstöðuna, t.d. með æfingarimlum á vegg eða öðru sem rými leyfir. Fangar hafa daglega aðgang að líkamsræktartæki samkvæmt ákvörðun yfirmanns á vakt. Þess ber einnig að geta að hjúkrunarfræðingur fangelsa á höfuðborgarsvæðinu fékk það verkefni, í samráði við sjúkraþjálfara er starfar á líkamsræktarstöð, að gera tillögur um æfingar og létta líkamsrækt sem fangar gætu sjálfir stundað, t.d. í útivist eða á fangagangi. Unnið er að úrvinnslu tillagna í því efni. Hvað varðar loftstreymi inn um glugga í fangaklefum á ganginum, þá hefur það aukist. Göt á gluggaristum í opnanlegu fagi klefaglugga voru boruð út og stækkuð. Ennfremur var sett upp rafknúin vifta í glugga baðherbergis fanga á innra - gangi, sem bæði getur dregið inn ferskt útiloft og sogað loft út. Loftstreymi er þ.a.l. meira á gangi og í klefum." III. Í álitinu segir: "Fyrirspurn nr. 1 í bréfi mínu frá 17. júlí 1995 varðar birtu í klefum 13 og 14. Í skýrslu Evrópunefndar um varnir gegn pyntingum og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu (CPT), um heimsókn til Íslands dagana 6.-12. júlí 1993, leggur nefndin til, að tekinn verði til athugunar möguleiki á því að taka þessa tvo klefa úr notkun til vistunar fanga. Í svörum ríkisstjórnar Íslands við framangreindri skýrslu, sem send voru nefndinni með bréfi, dags. 27. september 1994, kemur fram, að dóms- og kirkjumálaráðuneytið hafi tilkynnt Fangelsismálastofnun ríkisins og forstöðumanni Hegningarhússins í Reykjavík, að framangreindum klefum verði lokað um leið og nýtt fangelsi verði tekið í notkun á Litla-Hrauni og jafnframt gefið þau fyrirmæli að klefar nr. 13 og 14 verði eigi notaðir, nema þegar aðrir klefar í fangelsinu væru fullnýttir. Samkvæmt greinargerð forstöðumanns fangelsa á höfuðborgarsvæðinu voru umræddir klefar teknir úr notkun sem fangaklefar 28. desember 1995. Að svo komnu máli tel ég ekki ástæðu til athugasemda vegna þessa þáttar málsins. Í svarbréfi fangelsismálastofnunar frá 5. september 1995 kemur fram, að Framkvæmdasýsla ríkisins hafi látið lagfæra þá glugga hegningarhússins, sem gerðar höfðu verið athugasemdir við vegna lítils loftstreymis. Ég tel því ekki ástæðu til athugasemda vegna fyrirspurnar nr. 2 í bréfi mínu frá 17. júlí 1995. Þriðja fyrirspurn mín varðar aðstöðu fanga til líkamsræktar í fangelsinu. Í 15. gr. laga nr. 48/1988, um fangelsi og fangavist, er meðal annars mælt fyrir um að fanga skuli séð fyrir aðstöðu til líkamsþjálfunar. Þá segir í 83. gr. evrópsku fangelsisreglnanna, að fullt tillit skuli tekið til þess, að mikilvægt sé fyrir líkamlega og andlega heilbrigða fanga, að viðeigandi skipulögð starfsemi fari fram til að tryggt sé, að þeir haldi líkamsstyrk, hreysti og þjálfun. Ber því, sbr. 84. gr. reglnanna, að koma á viðeigandi fyrirkomulagi líkamsræktar og íþróttaiðkunar, sem skipulagt sé innan ramma meðferðar og þjálfunar, og sjá fyrir húsnæði, aðstöðu og tækjum í þessu skyni. Með vísan til þeirra upplýsinga, sem nú liggja fyrir, sbr. umrætt bréf forstöðumanns fangelsa á höfuðborgarsvæðinu, um úrbætur í þessum efnum, tel ég að komið hafi verið upp lágmarksaðstöðu til líkamsþjálfunar í fangelsinu og því ekki ástæðu til frekari athugasemda hvað þennan þátt málsins varðar. Aðrar fyrirspurnir mínar snertu reglur um stærð sjónvarpstækja (4) og aðgang fanga að síma (5). Ekki verður séð að nauðsynlegt sé að takmarka stærð sjónvarpstækja með þeim hætti, sem að framan greinir. Einkum tel ég ekki eðlilegt, að gildandi reglur stangist á við framkvæmd þessara mála. Beini ég þeim tilmælum til fangelsismálastofnunar, að hún beiti sér fyrir því að reglur um stærð sjónvarpstækja verði í samræmi við raunverulega framkvæmd. Samkvæmt 19. gr. laga nr. 48/1988 hefur fangi rétt á símtölum við aðila utan fangelsis, að því marki, sem aðstæður leyfa í fangelsinu. Í 27. gr. reglugerðar nr. 119/1990, um bréfaskipti, símtöl og heimsóknir til afplánunarfanga, er kveðið á um, að fangi hafi rétt á að hringja a.m.k. þrjú símtöl í viku hverri til aðila utan fangelsis, jafnframt því sem hann hafi rétt til að hringt sé til hans þrisvar í viku. Þá segir í 2. mgr. 27. gr., að forstöðumaður geti leyft frekari símtöl og setji að öðru leyti nánari reglur um fyrirkomulag á símtölum fanga. Í framangreindu svarbréfi fangelsismálastofnunar frá 5. september 1995 kemur fram, að engar ákvarðanir hafi verið teknar um að setja upp kortasíma í hegningarhúsinu eða rýmka almennt símatíma þar umfram það, sem kveðið sé á um í reglugerðum um þetta efni. Af gögnum málsins verður ráðið, að fyrirkomulag símamála í Hegningarhúsinu sé í samræmi við fyrirmæli framangreindrar reglugerðar. Hins vegar mun símamálum ekki vera háttað á sama veg í öllum fangelsum landsins, þar sem fangar í a.m.k. tveimur þeirra hafa aðgang að kortasíma. Í framangreindri skýrslu nefndar um varnir gegn pyntingum og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu kemur fram, að á Íslandi virðist framkvæmd reglna um samband fanga við umheiminn veita föngum eðlileg tækifæri til að viðhalda tengslum við fjölskyldur sínar og vini. Þar kemur ennfremur fram, að einungis beri að takmarka slík tengsl á grundvelli skilgreindra öryggissjónarmiða eða með tilliti til þess, sem mögulegt er við ríkjandi aðstæður. Með vísan til framangreinds sjónarmiðs og jafnræðissjónarmiða, eru það tilmæli mín til fangelsismálastofnunar, að hún beiti sér fyrir því, að fangar í umræddu fangelsi njóti sambærilegra kosta í símamálum og fangar í öðrum fangelsum landsins, enda leyfi aðstæður í fangelsinu slíkt fyrirkomulag." IV. Niðurstöður álitsins, frá 2. apríl 1996, voru svohljóðandi: "Ég tek fram, að Hegningarhúsið við Skólavörðustíg er gömul bygging, sem erfitt er að laga að þeim kröfum, sem nú eru gerðar til fangelsa. Tel ég þess vegna að stefna eigi að því að hætta svo fljótt sem kostur er að nota það sem fangelsi. Í svari ríkisstjórnar Íslands við skýrslu Evrópunefndar um varnir gegn pyntingum og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu frá 3. mars 1994 segir, að það verði gert, þegar nýtt fangelsi hafi verið byggt í Reykjavík. Um þau atriði, sem fjallað er sérstaklega um í máli þessu, er niðurstaða mín sú, að ekki sé ástæða til athugasemda vegna fyrstu þriggja þátta fyrirspurnar minnar í bréfi frá 17. júlí 1995. Hins vegar tel ég rétt, að reglur um stærð sjónvarpstækja verði samræmdar raunverulegri framkvæmd í því efni og að fangar í fangelsinu hafi sama rétt varðandi notkun síma og fangar í öðrum fangelsum landsins. Beini ég þeim tilmælum til Fangelsismálastofnunar ríkisins, að stofnunin hlutist til um að gerðar verði viðeigandi breytingar í samræmi við framangreind sjónarmið. Af því tilefni sendi ég álit þetta einnig til dóms- og kirkjumálaráðherra og vænti þess, að mér verði látnar í té upplýsingar um framvindu málsins." V. Með bréfi, dags. 29. ágúst 1996, óskaði ég eftir upplýsingum dóms- og kirkjumálaráðherra um, hvort einhverjar ákvarðanir hefðu verið teknar í framhaldi af framangreindu áliti mínu. Svar dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 11. október 1996, barst mér 14. október sama ár. Þar segir meðal annars: "Eftir móttöku bréfs yðar, herra umboðsmaður Alþingis, dags. 29. ágúst sl., þar sem grennslast var fyrir um hvernig mál hefðu þróast í fangelsum landsins, annars vegar um stöðlun sjónvarpstækja sem fangar mega hafa hjá sér í klefunum og hins vegar um aðgang að síma og heimildir til að nota síma, þ. á m. kortasíma. Ráðuneytið hefur aflað upplýsinga frá fangelsismálastofnun ríkisins hér að lútandi og er yður hér með sent ljósrit af bréfi hennar, dags. 7. þ.m. Eins og málið horfir nú við, hefur ráðuneytið engu við upplýsingar fangelsismálastofnunar ríkisins að bæta." Í umræddu svari fangelsismálastofnunar segir meðal annars: "Varðandi sjónvarpstækin má greina frá því að unnið er að samræmingu reglna um leyfilegan búnað í klefum fanga. Er hugmyndin að tilgreina þar einnig heimila stærð sjónvarpstækja. Verða reglurnar hengdar upp ásamt húsreglum. Ekki hefur enn verið ákveðið að setja upp kortasíma eða sambærilegt fyrirkomulag í Hegningarhúsinu. Rétt þykir að gera nokkra grein fyrir helstu ástæðum þess. Í Hegningarhúsið koma nánast allir dómþolar við upphaf afplánunar. Konur sem afplána refsivistardóma koma þó beint í Kópavogsfangelsið. Þannig þjónar Hegningarhúsið fyrst og fremst hlutverki móttökufangelsis. Þegar dómþolar hafa dvalið þar í nokkra daga er ákveðið hvar afplánun skuli fara fram. Fremur fá dæmi eru um að dómþolar dvelji vikum eða mánuðum saman í Hegningarhúsinu. Er það helst í einstaka tilvikum þar sem dómþolar fara sérstaklega fram á það. Nauðsynlegt er að hafa eftirlit með notkun fanga á síma eins og öðrum þáttum refsivistarinnar. Sjaldan er vitað fyrirfram hvernig hegðun dómþola í refsivist muni verða þrátt fyrir að viss hópur þeirra hafi áður afplánað refsingar. Nauðsynlegt er að hafa a.m.k. nokkra daga til að meta hversu miklar öryggisráðstafanir eru nauðsynlegar. Til þeirra atriða verður að líta jafnframt öðrum við ákvörðun á afplánunarstað. Ekki þykir heldur eðlilegt að fangar fái við upphaf afplánunar ótakmarkaðan aðgang að síma og þær heimildir kunni svo að verða takmarkaðar þegar í annað fangelsi kemur. Það kann að hafa valdið misskilningi ef upplýsingar hafa borist um að fangar á Litla-Hrauni hafi aðgang að kortasíma. Þannig háttar ekki til með alla fanga á Litla-Hrauni. Fangelsinu að Litla-Hrauni er nú skipt í 9 deildir og hafa fangar mismikinn aðgang að síma eftir hegðun í refsivist. Á öryggisdeild fangelsisins er aðgangur að síma takmarkaður við lágmarksréttindi 27. gr. reglugerðar nr. 119/1990 um bréfaskipti, símtöl og heimsóknir til afplánunarfanga. Á almennum deildum er rýmri aðgangur að síma en þó eru ákveðnir símatímar. Á þeim deildum þar sem svonefndir "fyrirmyndarfangar" eru vistaðir er aðgangur að kortasíma allan daginn alla daga vikunnar. Í fangelsinu að Kópavogsbraut 17 og á Kvíabryggju eru einnig kortasímar."