I.
A kvartaði yfir því að samfélagsþjónustunefnd hefði synjað umsókn hans um að mega afplána vararefsingu, þ.e. 20 daga varðhald með ólaunaðri samfélagsþjónustu samkvæmt lögum nr. 55/1994, um samfélagsþjónustu. Jafnframt kvartaði hann yfir því, að hafa verið færður til afplánunar vararefsingar í lögreglustöðina í Reykjavík, án þess að hafa fengið tilkynningu um að slík afplánun stæði til, og yfir því, að hafa ekki fengið viðtal við starfsfólk fullnustudeildar lögreglunnar í Reykjavík til þess að ræða greiðslufyrirkomulag sektargreiðslu.
Í tilefni bréfs míns, dags. 13. október 1995, bárust mér gögn málsins frá lögreglustjóranum í Reykjavík, ásamt upplýsingum um vinnureglur fullnustudeildar um tilkynningar um afplánun og greiðslur sekta með afborgunum. Í bréfi mínu til A, dags. 4. júní 1996, tjáði ég honum þá skoðun mína, að af gögnum málsins yrði ráðið, að framkvæmd afplánunar vararefsingar í máli hans hefði verið í fullu samræmi við vinnureglur fullnustudeildar. Jafnframt að ég teldi vinnureglurnar ekki gefa tilefni til athugasemda af minni hálfu og því væri ekki ástæða til frekari afskipta minna vegna þessa þáttar kvörtunar A.
II.
Að því er snertir synjun samfélagsþjónustunefndar í málinu sagði svo í bréfi mínu til A:
"Ég ritaði samfélagsþjónustunefnd bréf 13. október 1996, og óskaði þess, sbr. 7. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis, að nefndin léti mér í té gögn málsins. Umbeðin gögn bárust mér með bréfi, dags. 20. október 1995. Samkvæmt gögnum málsins voruð þér dæmdir til að greiða 80.000 kr. fésekt með 20 daga vararefsingu.
Synjun samfélagsþjónustunefndar, sbr. bókun nefndarinnar frá 24. ágúst 1995, á umsókn yðar um samfélagsþjónustu hljóðar svo:
"Þar sem tildæmd refsing í máli þessu er fésekt, fellur umsóknin ekki undir 1. gr. laga um samfélagsþjónustu nr. 55/1994. Eigi er því unnt að verða við erindinu."
Í kvörtun yðar kemur fram, að þér teljið ekki rétt, að eingöngu sé um sektardóm að ræða, "einnig [sé] um varðhaldsdóm að ræða, sé sekt eigi greidd, sem [sé] nánast ógerlegt miðað við aðstæður og mánaðarlífeyri dómþola". Þá segir í kvörtuninni:
"Jafnvel þó almannaheillaþjónustunni sé ekki ætlað að koma í stað sekta, geta aðstæður hjá dómþolum verið slíkar að sektir leiddu einar sér til varðhaldsafplánunar, þó það síðastnefnda væri ekki tekið fram í dómsorði. Þegar slíkar aðstæður liggja fyrir væri nefnd fangelsismálastofnunar, með höfnun beiðna um afplánun með almannaheillaþjónustu í stað sekta, að dæma viðkomandi til varðhalds..."
Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 55/1994, um samfélagsþjónustu, segir, að hafi maður verið dæmdur í allt að þriggja mánaða óskilorðsbundna refsivist, og almannahagsmunir mæli ekki gegn því, sé heimilt að fullnusta dóminn þannig að í stað refsivistar komi ólaunuð samfélagsþjónusta minnst 40 klukkustundir og mest 120 klukkustundir.
Ágreiningsefnið í máli þessu varðar, samkvæmt framansögðu, hvort heimild til að afplána dóm með samfélagsþjónustu sé bundin við dóm um óskilorðsbundna refsivist, eða, eins og þér haldið fram, að afplána megi vararefsingu fésekta með þessum hætti.
Af orðalagi 1. mgr. 1. gr. laga nr. 55/1994 má annars vegar ráða að dómur um óskilorðsbundna refsivist sé skilyrði þess að unnt sé að afplána dóm með samfélagsþjónustu. Á hinn bóginn er hugsanlegt að afplána megi alla dóma, sem kveða á um vægari viðurlög en þriggja mánaða óskilorðsbundna refsivist með þessum hætti, sbr. orðalagið "allt að", þ. á m. vararefsingu fésekta. Mismunandi greiðslugeta dómþola veldur því að fésektir koma mjög misjafnt við dómþola og gæti síðari skýringarkosturinn hér að framan verið lausn á því vandamáli.
Þar sem samfélagsþjónusta hefur verið tekin upp, hefur henni verið beitt með ýmsum hætti, þar á meðal sem vararefsingu fésektadóma. Af athugun minni á lögskýringagögnum tel ég hins vegar ljóst, að fyrri skýringin hér að framan hafi legið til grundvallar við lögfestingu þessa úrræðis á Alþingi. Þar kemur fram að samfélagsþjónusta sé ein þeirra viðurlagategunda, sem beita megi við framkvæmd þeirrar stefnu, að draga úr notkun óskilorðsbundinnar refsivistar eins og mögulegt sé (Alþt. 1991, A-deild, bls. 794). Jafnframt kemur skýrlega fram, að forsenda samfélagsþjónustu, í þeirri mynd sem lagt var til að lögð yrði til grundvallar í tilraun þessari með samfélagsþjónustu hér á landi, sé sú, að hún komi einungis til greina þar sem ella yrði dæmd óskilorðsbundin refsivist (Alþt. 1991, A-deild, bls. 798, 799 og 800, og Alþt. 1993, B-deild, bls. 5045).
Samkvæmt framansögðu er það skoðun mín að afgreiðsla samfélagsþjónustunefndar á umsókn yðar hafi verið í samræmi við tilgang laga nr. 55/1994, um samfélagsþjónustu."