Umgengnisréttur. Andmælaréttur. Aðgangur að gögnum í barnaverndarmálum. Sérstakt hæfi barnaverndarráðsmanna og starfsmanna ráðsins. Sérstakt hæfi starfsmanns barnaverndarnefndar. Stjórnsýslukæra.

(Mál nr. 1360/1995)

A kvartaði yfir úrskurði barnaverndarráðs, þar sem honum var synjað um aðgang að skýrslu sálfræðings um dóttur hans B. Skýrslan var unnin vegna umgengnisréttarmáls og var synjun barnaverndarráðs byggð á því, að í skýrslunni kæmu fram atriði sem væru telpunni viðkvæm og fara yrði með af varúð. B hefði verið heitið trúnaði varðandi þau atriði sem fram kæmu í skýrslunni og þætti ekki rétt, samkvæmt 4. mgr. 46. gr., sbr. 4. mgr. 49. gr. laga nr. 58/1992, um vernd barna og ungmenna, að afhenda A skýrsluna. Umboðsmaður tók fram að ákvæði barnaverndarlaga og stjórnsýslulaga væru ekki samhljóða um aðgang að gögnum og takmörkun málsaðila að tilteknum gögnum. 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 veiti þannig víðtækari rétt til aðgangs að gögnum en felst samkvæmt orðanna hljóðan í 1. málsl. 46. gr. barnaverndarlaga, sbr. SUA 1995:136. Það leiðir af 2. mgr. 2. gr. stjórnsýslulaga að barnaverndarlög víkja fyrir ákvæðum stjórnsýslulaga að svo miklu leyti sem þau mæla fyrir um lakari réttarstöðu málsaðila, en að því leyti sem ákvæði barnaverndarlaga geyma strangari málsmeðferðarreglur, sem tryggja betur réttarstöðu málsaðila, ganga þau framar stjórnsýslulögum. Umboðsmaður taldi því að synjun um aðgang að skýrslu þeirri sem um var deilt yrði ekki byggð á loforði um trúnað eingöngu. Ættu barnaverndaryfirvöld ekki að heita viðmælendum trúnaði um annað en það sem rúmaðist innan 15.-17. gr. stjórnsýslulaga. Heimild til synjunar á afhendingu gagna væri að auki bundin því skilyrði að afhending skaðaði hagsmuni barnsins, sbr. 4. mgr. 46. gr. barnaverndarlaga, og taldi umboðsmaður þetta sjónarmið byggja á sömu lagaviðhorfum og 17. gr. stjórnsýslulaga. Taldi umboðsmaður það ekki verða ráðið af gögnum málsins, að það hefði verið mat barnaverndaryfirvalda að aðgangur A að skýrslunni væri beinlínis skaðlegur hagsmunum barnsins. Hefði barnaverndaryfirvöldum því borið að taka beina afstöðu til þess hvort efni skýrslunnar væri þess eðlis að réttlætti takmörkun upplýsingaréttar samkvæmt 17. gr. stjórnsýslulaga og 4. mgr. 46. gr. barnaverndarlaga. Eftir nána athugun á gögnum málsins, meðal annars bréfi sálfræðings, sem A fékk aðgang að og lýsti efni skýrslunnar nægilega, taldi umboðsmaður að framangreindur annmarki leiddi þó ekki til ógildingar ákvörðunarinnar. Barnaverndarráð óskaði eftir skriflegum rökstuðningi fyrir kröfu A um afhendingu skýrslunnar. Umboðsmaður taldi hins vegar að ekki hefði verið þörf frekari rökstuðnings en fram kom í símskeyti A til ráðsins, þar sem hann lýsti því að synjun um afhendingu skýrslunnar takmarkaði andmælarétt hans í málinu. A kvartaði einnig yfir ákvörðun barnaverndarráðs þar sem hafnað var kröfu hans um að þeir ráðsmenn, sem áður hefðu tekið þátt í meðferð ágreiningsmáls A vegna dóttur hans, vikju sæti við meðferð umgengnismálsins. Umboðsmaður vísaði til þess að lagareglur um vanhæfi héraðsdómara til að fara með einkamál gildi um vanhæfi þeirra sem sitja í barnaverndarráði og starfsfólks ráðsins. Almennt gætu ráðsmenn eða starfsmenn barnaverndarráðs ekki talist vanhæfir við meðferð og úrlausn barnaverndarmáls þótt þeir hefðu áður fjallað um málefni hlutaðeigandi barns. Þá taldi umboðsmaður ekki fram komið af gögnum málsins að sérstök atvik væru til þess fallin að draga óhlutdrægni ráðsmanna í efa, sbr. g-lið 5. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Loks tók umboðsmaður fram að samkvæmt barnaverndarlögum giltu sérstakar reglur um hæfi nefndarmanna og starfsfólks barnaverndarnefnda og taldi umboðsmaður að hæfisreglur barnaverndarlaga giltu um tiltekinn starfsmann Félagsmálastofnunar Reykjavíkur við vinnu að málum sem falla undir barnaverndarlög, sem og við sérfræðiaðstoð og meðferð mála á grundvelli 7. gr. barnaverndarlaga, en ekki hæfisreglur sveitarstjórnarlaga, nr. 8/1986.

I. Hinn 9. febrúar 1995 leitaði til mín A og kvartaði yfir úrskurði barnaverndarráðs frá 1. febrúar 1995, þar sem honum var synjað um aðgang að skýrslu sálfræðings um dóttur hans, B, dags. 8. júní 1994. Þá kvartaði A einnig yfir úrlausn barnaverndarráðs frá 4. janúar 1995, þar sem því var hafnað, að þeir ráðsmenn og starfsmenn barnaverndarráðs, sem áður hefðu tekið þátt í meðferð ágreiningsmáls hans vegna dóttur hans, vikju sæti við meðferð máls þess, sem til meðferðar var hjá barnaverndarráði um umgengni A og dóttur hans, en því máli lauk með úrskurði barnaverndarráðs 29. mars 1995. Loks kvartaði A yfir úrlausn félagsmálaráðuneytisins í tilefni af símskeyti hans til ráðuneytisins, dags. 20. október 1994, þar sem hann gerði athugasemdir við málsmeðferð barnaverndarnefndar Reykjavíkur í umræddu umgengnisréttarmáli. II. Málavextir eru þeir, að með bréfi, dags. 11. ágúst 1994, óskaði A eftir því, að barnaverndarnefnd Reykjavíkur sæi til þess, að umgengnisréttur hans við dóttur hans, B, yrði virtur og að barnið fengi að umgangast systkini sín með eðlilegum hætti. Barnaverndarnefnd tók málið til meðferðar og kvað hinn 4. október 1994 upp úrskurð þess efnis, að B skyldi ekki umgangast föður sinn. Meðal gagna málsins fyrir barnaverndarnefnd Reykjavíkur var skýrsla sálfræðings, dagsett 8. júní 1994, vegna sálfræðiathugunar á B. Í fyrrgreindum úrskurði barnaverndarnefndar Reykjavíkur kemur fram, að beiðni A um aðgang að skýrslunni sé hafnað, og segir svo um það atriði í úrskurðinum: "Í bréfi [sálfræðingsins], dags. 16. ágúst 1994, eru rakin þau atriði úr skýrslu hennar, dags. 8. júní sama ár, sem þýðingu hafa við úrlausn máls þessa. Barnaverndarnefnd fellst ekki á þá ósk föður að fá afrit þessarar skýrslu, enda ber nefndinni að gæta trúnaðar gagnvart barninu og óþarft að upplýsa föður um atriði, sem enga þýðingu hafa við afgreiðslu málsins." A skaut framangreindum úrskurði barnaverndarnefndar Reykjavíkur til barnaverndarráðs með símskeyti, dags. 20. október 1994. Þar gerði hann þá kröfu, að umgengnisréttur hans og dóttur hans yrði virtur og að hún fengi að umgangast systkini sín með eðlilegum hætti. Jafnframt gerði hann kröfu um að fá öll gögn í málinu, en hann taldi, að með synjun sinni um að afhenda honum nefnda sálfræðiskýrslu hefði barnverndarnefnd Reykjavíkur takmarkað andmælarétt hans. Með bréfi barnaverndarráðs til A, dags. 21. desember 1994, var óskað skriflegs rökstuðnings fyrir kröfu hans um aðgang að umræddri skýrslu. A svaraði ráðinu með símskeyti, dags. 3. janúar 1995, þar sem hann krefst þess, að þeir ráðsmenn og starfsmenn barnaverndarráðs, sem áður hefðu tekið þátt í meðferð ágreiningsmáls hans vegna dóttur hans, vikju sæti, þar sem hann teldi þá vanhæfa til meðferðar málsins vegna fyrri afskipta af því. Hann kvaðst mundu senda umbeðna greinargerð, þegar nýir ráðsmenn hefðu verið skipaðir. Barnaverndarráð hafnaði þessari kröfu A á fundi sínum 4. janúar 1995 með bókun, þar sem meðal annars kemur fram eftirfarandi: "Með skeyti sem barst 3. janúar sl. krefst [A] þess að ráðsmenn og starfsmenn ráðsins sem áður hafa tekið þátt í meðferð þessa ágreiningsmáls víki sæti í málinu. Ástæða þessarar kröfu sé sú að hann hafi á annan áratug reynt að fá umgengnisrétt við dóttur sína. Telur hann augljóst að þeir aðilar sem áður hafa komið að málinu væru vanhæfir til meðferðar þess þar sem þeir geti ekki talist óhlutdrægir og óvilhallir úrskurðaraðilar. Barnaverndarráði þykir ekki ástæða til að ráðsmenn eða starfsmenn ráðsins víki sæti í málinu þótt Barnaverndarráð hafi áður haft mál sömu aðila til meðferðar og kveðið upp úrskurði í þeim málum." Með skeyti 13. janúar 1995 ítrekaði A fyrri kröfu sína um að ráðsmenn og starfsmenn barnaverndarráðs vikju sæti við meðferð málsins, þar sem ákvörðun ráðsins þar að lútandi hefði verið órökstudd. Í bréfi barnaverndarráðs, dagsettu 17. janúar 1995, kemur fram, að ráðið telur ákvörðun sína rökstudda og var A á ný veittur frestur til að koma að skriflegum rökstuðningi fyrir kröfu sinni um afhendingu umræddrar skýrslu. Hinn 1. febrúar 1995 kvað barnaverndarráð upp úrskurð um aðgang A að sálfræðiskýrslunni og segir þar meðal annars svo: "Barnaverndarráð óskaði álits [...], sálfræðings, á þeirri ákvörðun Barnaverndarnefndar Reykjavíkur, að heimila [A] ekki aðgang að skýrslu hennar um [B]. Í bréfi sálfræðingsins, dagsettu 11. janúar 1995, kemur fram að sálfræðingurinn sé fyllilega sammála Barnaverndarnefnd Reykjavíkur hvað þetta varðar, þar sem hún telji mikilvægt að bregðast ekki trúnaði telpunnar. Í umræddri skýrslu komi fram atriði sem hljóti að vera telpunni viðkvæm og fara verði með af trúnaði og fullri virðingu. Hún geti því ekki fallist á að [A] fái aðgang að skýrslunni. [Sálfræðingurinn] minnir í bréfi sínu á það að [A] hafi áður gert opinber gögn í þessu máli og þannig rofið trúnað við barnið og telji hún að í því felist enn frekari rök fyrir því að heimila honum ekki aðgang að skýrslunni. Barnaverndarráð telur með vísan til þess sem hér hefur verið rakið að [B] hafi verið heitið trúnaði varðandi þau atriði sem fram koma í umræddri skýrslu [..], sálfræðings, merkt skjal nr. 3.5. Barnaverndarráði þykir ekki rétt, samkvæmt 4. mgr. 46. gr. sbr. 4. mgr. 49. gr. laga um vernd barna og ungmenna nr. 58/1992, að afhenda [A] umrædda sálfræðiskýrslu. ÚRSKURÐARORÐ [A] fær ekki aðgang að skýrslu [...], sálfræðings, um [B], dagsettri 8. júní 1994, merktri skjal nr. 3.5." Með símskeyti til félagsmálaráðuneytisins, dags. 20. október 1994, gerði A athugasemd við málsmeðferð og hæfi einstakra aðila, sem komu að meðferð umgengnisréttarmálsins fyrir barnaverndarnefnd Reykjavíkur. Félagsmálaráðuneytið svaraði erindi A með bréfi, dags. 22. nóvember 1994. Segir þar meðal annars svo: "Um hæfi sveitarstjórnarmanna og annarra þeirra sem starfa við stjórnsýslu sveitarfélaga fer samkvæmt 45. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986, sbr. 2. mgr. 2. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. 45. gr. sveitarstjórnarlaga hefur að geyma vægari hæfisskilyrði en mælt er fyrir um í II. kafla stjórnsýslulaga. Samkvæmt 45. gr. ber sveitarstjórnarmanni að víkja sæti við meðferð og afgreiðslu máls þegar það varðar hann eða nána venslamenn hans svo sérstaklega að almennt megi ætla að viljaafstaða hans mótist að einhverju leyti þar af. Rétt er að benda á að skv. meginreglu 2. mgr. 5. gr. stjórnsýslulaga er það yfirmaður stofnunar sem ákveður hvort starfsmanni hennar ber að víkja sæti. Einnig er rétt að benda á að skv. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga verður ákvörðun um hæfi manns ekki kærð til æðra stjórnvalds fyrr en mál hefur verið til lykta leitt. Samkvæmt 1. mgr. 45. gr. laga um vernd barna og ungmenna, nr. 58/1992, ber barnaverndarnefnd að ráða umgengnismáli, skv. 3.-5. mgr. 33. gr. sömu laga til lykta með úrskurði. Slíkum úrskurði er skv. 1. mgr. 49. gr. laganna unnt að skjóta til barnaverndarráðs. Með vísan til þess er það barnaverndarráð sem kæra má ákvörðun um hæfi í umgengnismáli til en ekki þó fyrr en mál hefur verið til lykta leitt með úrskurði." III. Ég ritaði barnaverndarráði bréf 24. mars 1995 og óskaði þess með vísan til 7. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis, að ráðið léti mér í té gögn málsins. Gögnin bárust mér með bréfi barnaverndarráðs, dags. 30. mars 1995. Ég ritaði barnaverndarráði bréf á ný 9. maí 1995 og óskaði þess með vísan til 7. og 9. gr. laga nr. 13/1987, að ráðið skýrði nánar þau rök, er lægju að baki niðurstöðu ráðsins frá 1. febrúar 1995, meðal annars með tilliti til 15.-17. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá óskaði ég þess að barnaverndarráð skýrði, hvort það hefði tekið til sérstakrar athugunar við afgreiðslu á kröfu A um að fá aðgang að skýrslu [...], sálfræðings, hvort rétt væri, að A fengi að kynna sér skýrsluna, án þess að fá hana afhenta, eða að kynna A efni eða niðurstöðu skýrslunnar, án þess að hann fengi að sjá hana. Svar ráðsins barst mér með bréfi, dags. 15. júní 1995. Kemur þar meðal annars eftirfarandi fram: "Í gögnum ofangreinds máls, m.a. úrskurði Barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá 4. október 1994, og fylgiskjölum með honum, merktum í skjalaskrá Barnaverndarráðs nr. 3.2. og 3.5., kemur fram að stúlkan [B] hafi verið í viðtölum hjá [...], sálfræðingi. Tilgangur viðtalanna var að vinna með kvíða sem fram kom hjá stúlkunni eftir flutning frá [Z] og ótta við lífföður, [A], og ennfremur að gera á henni sálfræðilega athugun. Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið og gagna málsins leit Barnaverndarráð svo á að skýrsla [sálfræðingsins] byggðist á upplýsingum sem hún hafði aflað í trúnaðarsamtölum við stúlkuna og væri því ekki rétt, með vísan til 4. mgr. 46. gr. sbr. 4. mgr. 49. gr. laga um vernd barna og ungmenna nr. 58/1992, að afhenda [A] umrædda sálfræðiskýrslu. Er þessi niðurstaða í fullu samræmi við 15.-17. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en þær lagagreinar verður að skýra með tilliti til 4. mgr. 46. gr. og 4. mgr. 49. gr. laga um vernd barna og ungmenna, sbr. 2. mgr. 2. gr. stjórnsýslulaga. Í málinu gerði [A] þá kröfu að fá afhent öll gögn í því. Engin krafa kom fram um það af hans hálfu um að honum væru kynnt gögnin án þess að hann fengi þau afhent. Barnaverndarráð óskaði ítrekað eftir skriflegum rökstuðningi [A] fyrir þeirri kröfu að fá aðgang að umræddri skýrslu. [...] [A] skilaði engum rökstuðningi í því efni. Honum var ennfremur ítrekað gefinn kostur á að koma skriflegum athugasemdum á framfæri varðandi málið í heild, og honum var ítrekað gefinn kostur á að tjá sig munnlega við ráðið. Eins og fram kemur í gögnum málsins var hann lítt til samvinnu um meðferð þess. Honum var gefinn kostur á að koma á fund ráðsins, sem hann hafnaði. Hann hafnaði því einnig að koma til viðtals við starfsmann Barnaverndarráðs á skrifstofu þess. Með vísan til þessa kom ekki til þess að Barnaverndarráð tæki afstöðu til þess hvort rétt væri að [A] fengi að kynna sér skýrslu [...], sálfræðings. [...]" Með bréfi, dags. 19. júní 1995, gaf ég A kost á því að gera athugasemdir við framangreint bréf barnaverndarráðs. Hinn 30. júní 1995 lét A uppi munnlegar athugasemdir sínar á skrifstofu minni. Ég ritaði barnaverndarnefnd Reykjavíkur bréf 6. júní 1996 og óskaði, með vísan til 7. gr. laga nr. 13/1987, upplýsinga um tilurð umræddrar skýrslu frá 8. júní 1994, þ.e. hvort barnaverndarnefnd hefði átt frumkvæði að gerð hennar í tilefni umfjöllunar barnaverndarnefndar á umgengnisréttarmáli A, eða hvort um væri að ræða afrit sálfræðiskýrslu, sem unnin hefði verið óháð umfjöllun barnaverndarnefndar, og þá af hvaða tilefni. Í svarbréfi barnaverndarnefndar Reykjavíkur, dags. 9. júlí 1996, segir meðal annars svo: "Að frumkvæði starfsmanna fósturmálasviðs Félagsmálastofnunar Reykjavíkurborgar leituðu fósturforeldrar [B] til Barna- og unglingageðdeildar Landspítalans vegna mikillar vanlíðunar stúlkunnar. Hún fór þá í viðtöl til [...] sálfræðings er hitti hana í nokkur skipti vorið 1994. Tilgangur viðtalanna var að vinna með kvíða, sem fram kom hjá [B] eftir flutning frá [Z] og hræðslu við lífföður. Einnig var ætlunin að gera á henni sálfræðilega athugun og veita fósturforeldrum ráðgjöf. Vegna kröfu [A] um umgengni við dóttur sína fóru starfsmenn fósturmálasviðs fram á það við [...] sálfræðing að hún veitti upplýsingar um líðan stúlkunnar á grundvelli viðtala við hana. Með bréfi dags. 8. júní 1994 veitti sálfræðingurinn umbeðnar upplýsingar. Um er að ræða stutta greinargerð þar sem gerð er grein fyrir helstu niðurstöðum prófa er lögð höfðu verið fyrir stúlkuna í fyrrgreindum tilgangi og ályktanir dregnar af þeim um stuðning fyrir hana og fósturforeldra í kjölfarið." Ég ritaði félagsmálaráðherra bréf 12. september 1995, sem ítrekað var 21. nóvember s.á. Vísaði ég þar til þess, að í bréfi félagsmálaráðuneytisins til A frá 22. nóvember 1994 segði meðal annars, að því er snerti meint vanhæfi barnaverndarnefndar Reykjavíkur í máli A fyrir nefndinni, að um það atriði færi eftir 45. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986, sbr. 2. mgr. 2. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Með vísan til þess, að í 42. gr. laga nr. 58/1992, um vernd barna og ungmenna, segir, að um vanhæfi nefndarmanna til meðferðar einstakra mála gildi lagareglur um vanhæfi héraðsdómara til að fara með einkamál eftir því sem við geti átt, óskaði ég þess, sbr. 9. gr. laga nr. 13/1987, að félagsmálaráðuneytið skýrði afstöðu sína til þessa þáttar í kvörtun A. Í svarbréfi ráðuneytisins, dags. 13. desember 1995, er tekið fram, að kvörtun A hafi beinst að nafngreindum starfsmanni félagsmálastofnunar Reykjavíkurborgar og svar ráðuneytisins hafi tekið mið af því. Hinn 20. mars 1996 bárust mér athugasemdir A við framangreint bréf ráðuneytisins. Þar segir meðal annars svo: "Ráðuneytinu er auðvitað fullkunnugt um að ágreiningurinn í þessu máli snýst um meðferð og úrlausn barnaverndaryfirvalda í umgengnisréttarmáli sem var til meðferðar hjá Barnaverndarnefnd Reykjavíkur og beindist m.a. að vanhæfi [...], sem gegndi því embætti að vera framkvæmdastjóri Fjölskyldudeildar og starfsmaður og framkvæmdastjóri barnaverndarnefndarinnar þegar mál mitt var til meðferðar hjá nefndinni. [...] sat alla fundi nefndarinnar og hafði yfirumsjón með rannsókn og undirbúningi málsins og hafði þar með áhrif á niðurstöðuna. Ég var ekki að sækja um aðstoð hjá Fjölskyldudeild heldur krafðist ég úrskurðar hjá nefndinni og síðar barnaverndarráði. Ákvæðið um vanhæfi í barnaverndarlögum gerir ráð fyrir að strangar reglur um vanhæfi dómara eigi að gilda um nefndarmenn og starfsmenn þeirra enda verið að úrskurða í viðkvæmu einkamáli. Er sérkennilegt að ráðuneytið skuli halda til streitu þessu ólögmæta sjónarmiði sínu þrátt fyrir ótvírætt orðalag lagagreinarinnar í 42. gr. [laga] nr. 58/1992." IV. Í álitinu fjallaði ég fyrst um aðgang aðila að gögnum í barnaverndarmálum, í öðru lagi um sérstakt hæfi ráðsmanna og starfsmanna barnaverndarráðs og í þriðja lagi um meint vanhæfi framkvæmdastjóra barnaverndarnefndar. Í álitinu segir: "1. A kvartar yfir úrskurði barnaverndarráðs frá 1. febrúar 1995, þar sem synjað var um aðgang hans að skýrslu [...], sálfræðings, um dóttur A, B, dags. 8. júní 1994. Fjallað er um aðgang aðila að gögnum í barnaverndarmálum í 4. mgr. 46. gr., sbr. 49. gr. laga nr. 58/1992, um vernd barna og ungmenna. Skulu barnaverndaryfirvöld láta aðilum í té öll skrifleg gögn, sem byggt er á við úrlausn máls. Með rökstuddum úrskurði er unnt að ákveða að tiltekin gögn skuli ekki afhent, ef það skaðar hagsmuni barnsins eða heitið hefur verið trúnaði. Á sama hátt verður ákveðið að aðilar geti kynnt sér gögn, án þess að þau verði afhent. Í greinargerð með frumvarpi því, sem varð að lögum nr. 58/1992, segir meðal annars svo: "Hér er um að ræða veigamikinn þátt í því að bæta réttarstöðu og öryggi aðila í barnaverndarmálum. Á síðustu missirum hefur mikið verið rætt um aðgang aðila að gögnum við meðferð mála fyrir stjórnvöldum, sérstaklega í barnaverndarmálum. Réttur aðila til að tjá sig er lítils virði ef hann veit ekki á hvaða forsendum málarekstur byggist. Hér er því lagt til að meginreglan verði sú að foreldrar fái í hendur afrit allra skriflegra gagna sem nefnd byggir á við úrlausn málsins. [...] Ýmis gögn í barnaverndarmálum eru þess eðlis að óheppilegt getur talist vegna hagsmuna barnsins að aðilar fái þau í hendur eða lesi þau. Barnaverndarnefnd verður einnig að meta hvort foreldrar séu færir um að hafa slík gögn undir höndum og gæta trúnaðar gagnvart óviðkomandi aðila, vegna barnsins, svo sem vegna drykkjuskapar, geðveiki eða greindarskorts foreldra. Því er gert ráð fyrir að barnaverndarnefnd geti í slíkum tilvikum ýmist úrskurðað að aðilar fái aðeins að kynna sér gögn án þess að fá þau afhent eða aðilar skuli ekki hafa aðgang að tilteknum gögnum. Slík gögn geta t.d. verið skýrslur sérfræðinga, er byggjast á upplýsingum er þeir hafa aflað í trúnaðarsamtölum við börn, eða gögn með upplýsingum sem ætla má að reynst gætu hættulegar aðila sjálfum eða öðrum." (Alþt. 1990, A-deild, bls. 671.) Samkvæmt 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 gilda lögin um stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga, þegar stjórnvöld taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna. Lögin gilda því um meðferð mála, þegar barnaverndaryfirvöld taka ákvarðanir um rétt foreldra í slíku máli, sem hér um ræðir. Samkvæmt 15. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt til þess að kynna sér skjöl og önnur gögn, er mál hans varða, og takmarka lagaákvæði um þagnarskyldu ekki skyldu stjórnvalda til þess að veita aðgang að gögnum. Þá er í 16. og 17. gr. laganna fjallað um heimildir stjórnvalds til þess að undanþiggja eða takmarka aðgang málsaðila að tilteknum gögnum, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, þ. á m. að um mikilvæg einkamálefni sé að ræða, sbr. 17. gr. laganna. Ákvæði barnaverndarlaga og stjórnsýslulaga eru samkvæmt framangreindu ekki alveg samhljóða að þessu leyti. Ákvæði 15. gr. stjórnsýslulaga veitir víðtækari rétt til aðgangs að gögnum en felst samkvæmt orðanna hljóðan í ákvæði 1. málsl. 46. gr. barnaverndarlaga, sbr. og álit mitt frá 22. ágúst 1995 í máli nr. 1383/1995. Í skýringum barnaverndarráðs frá 15. júní 1995 og upplýsingum barnaverndarnefndar frá 9. júlí 1996 segir, að skýrslan, þar sem gerð sé grein fyrir tilgangi og niðurstöðum viðtala sálfræðings við B, sé unnin að beiðni barnaverndaryfirvalda í því skyni að afla upplýsinga vegna framkominnar kröfu A um umgengni við dóttur sína. Af skýringum barnaverndarráðs frá 15. júní 1995 og 9. júlí 1996 er ljóst, að umrædd skýrsla var tekin saman að beiðni barnaverndaryfirvalda í upplýsingaskyni vegna umgengnisréttarmálsins. Þá er rétt að benda á, að synjun um afhendingu hennar byggist á úrskurði barnaverndaryfirvalda, sem hafa talið hana til gagna málsins. Er því ljóst að umrædd skýrsla heyrir til gagna málsins samkvæmt barnaverndarlögum og stjórnsýslulögum og lýtur framangreindri meginreglu um afhendingu gagna, nema lög kveði á um annað. Gögn, sem heitið hefur verið trúnaði um, eru undanþegin aðgangi aðila samkvæmt 4. mgr. 46. gr. laga nr. 58/1992, sbr. hins vegar 2. mgr. 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Eins og ég gerði grein fyrir í áliti mínu frá 22. ágúst 1995 (mál nr. 1383/1995) leiðir af 2. mgr. 2. gr. stjórnsýslulaga, að lög nr. 58/1992 víkja fyrir ákvæðum laga nr. 37/1993, að svo miklu leyti sem þau mæla fyrir um lakari réttarstöðu málsaðila en stjórnsýslulögin gera ráð fyrir. Að því leyti sem ákvæði barnaverndarlaga hafa aftur á móti að geyma strangari málsmeðferðarreglur, sem tryggja betur réttarstöðu málsaðila, ganga þau framar stjórnsýslulögum. Þannig verður synjun um aðgang að skýrslu þeirri, sem hér um ræðir, ekki byggð á loforði um trúnað. Eiga barnaverndaryfirvöld samkvæmt framansögðu ekki að heita viðmælendum trúnaði um annað en það, sem rúmast innan tilvitnaðra ákvæða stjórnsýslulaga. Auk framangreinds, er það skilyrði heimildar til synjunar um afhendingu gagna samkvæmt barnaverndarlögum, að afhending þeirra skaði hagsmuni barnsins. Þetta sjónarmið tel ég á hinn bóginn byggja á sömu lagaviðhorfum og heimild 17. gr. stjórnsýslulaga til takmörkunar á upplýsingarétti. Gögn, sem varða viðkvæm einkamál, verða því undanþegin á grundvelli 4. mgr. 46. gr. barnaverndarlaga, ef aðgangur að þeim getur reynst barni eða sambandi barns og foreldris skaðlegur. Í bréfi frá 11. janúar 1995 lýsir sálfræðingurinn stuðningi við þá afstöðu barnaverndarnefndar, að synja beiðni um afhendingu umræddrar skýrslu. Í henni komi fram atriði, "sem [hljóti] að vera telpunni viðkvæm og [verði] að fara með af trúnaði og fullri virðingu". Barnaverndaryfirvöld vísa til afstöðu sálfræðingsins og er ég sammála því að fara verði með málið af varkárni og virðingu fyrir barninu. Hins vegar tel ég, að hvorki verði ráðið af framangreindri umfjöllun né öðrum gögnum málsins, að það hafi verið mat barnaverndaryfirvalda að aðgangur A að skýrslunni væri beinlínis skaðlegur hagsmunum barnsins. Er það því skoðun mín, að ekki sé fyllilega ljóst í málinu, að þessu skilyrði 4. mgr. 46. gr. barnaverndarlaga hafi verið fullnægt. Ég tel því að barnaverndaryfirvöldum hafi borið að taka beina afstöðu til þess, hvort efni skýrslunnar væri þess eðlis, að réttlætt gæti takmörkun upplýsingaréttar samkvæmt 17. gr. stjórnsýslulaga og 4. mgr. 46. gr. barnaverndarlaga. Þegar það er aftur á móti haft í huga, að A fékk aðgang að öðrum gögnum málsins, þ.ám. bréfi sálfræðingsins, dags. 16. ágúst 1994, sem ég tel, eftir nána athugun, lýsa efni umræddrar skýrslu nægilega, hvað varðar upplýsingar, er snerta umgengnisréttarmálið, er það skoðun mín, að framangreindur annmarki leiði hins vegar ekki til ógildingar þeirrar ákvörðunar, er hér um ræðir. Eins og fram hefur komið hér að framan, er barnaverndaryfirvöldum heimilt að ákveða, að aðilar geti kynnt sér gögn, án þess að þau verði afhent. Samkvæmt skýringum barnaverndarráðs, hvað meðferð málsins hjá ráðinu varðar, kemur fram, að A hafi ekki þegið boð um að koma á fund ráðsins og því ekki komið til þess að ráðið tæki afstöðu til þess, hvort rétt væri að hann fengi að kynna sér umrædda skýrslu. Með vísan til framangreinds tel ég ekki ástæðu til frekari athugasemda vegna þessa þáttar málsins. Í málinu kemur ennfremur fram, að barnaverndarráð hafi óskað eftir skriflegum rökstuðningi fyrir kröfu A um afhendingu skýrslunnar. Með vísan til þess, að það er forsenda andmælaréttar að aðilar fái að kynna sér þau gögn, sem liggja til grundvallar í máli þeirra, er það skoðun mín, að ekki hafi verið þörf frekari rökstuðnings en fram kemur í símskeyti A frá 20. október 1994, þar sem hann lýsir þeirri skoðun sinni, að synjun um afhendingu skýrslunnar takmarki andmælarétt sinn í málinu. 2. A kvartar yfir þeirri ákvörðun barnaverndarráðs frá 4. janúar 1995, að hafna kröfu hans um, að þeir ráðsmenn og starfsmenn ráðsins, sem áður hefðu tekið þátt í meðferð ágreiningsmáls A vegna dóttur hans, vikju sæti við meðferð máls þess, sem til meðferðar var hjá barnaverndarráði um umgengni A og B, er lauk með úrskurði barnaverndarráðs 29. mars 1995. Í símskeyti A til ráðsins frá 3. janúar 1995 greinir hann þær ástæður fyrir þessari kröfu sinni, að hann hafi á annan áratug reynt árangurslaust að fá umgengnisrétt við dóttur sína, meðal annars með því að stefna barnaverndarráði fyrir dómstóla. Telji hann augljóst, að þeir aðilar, sem áður hafi komið að máli hans, séu vanhæfir til meðferðar málsins, þar sem þeir geti ekki talist óhlutdrægir og óvilhallir úrskurðaraðilar, enda hafi þeir beitt sér gegn rétti hans. Samkvæmt 42. gr., sbr. 4. mgr. 49. gr. laga nr. 58/1992, gilda lagareglur um vanhæfi héraðsdómara til að fara með einkamál, sbr. 5. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, eftir því sem við getur átt um vanhæfi þeirra, er sitja í barnaverndarráði, og starfsfólks barnaverndarráðs. Ég lít svo á, að almennt geti þeir einstaklingar, er sæti eiga í barnaverndarráði, eða starfsmenn ráðsins, eigi talist vanhæfir til að koma að meðferð og úrlausn barnaverndarmáls, enda þótt það hafi áður fjallað um málefni hlutaðeigandi barns. Slík niðurstaða verður aðeins byggð á sérstökum atvikum, sem eru til þess fallin að óhlutdrægni verði dregin í efa, sbr. g-lið 5. gr. laga nr. 91/1991. Hefur athugun mín á gögnum málsins ekki leitt slík atvik í ljós. 3. Loks kvartar A yfir úrlausn félagsmálaráðuneytisins frá 22. nóvember 1994 í tilefni athugasemda hans um vanhæfi framkvæmdastjóra barnaverndarnefndar. Í framangreindu bréfi félagsmálaráðuneytisins er vísað til 45. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986, sbr. 2. mgr. 2. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, um hæfi sveitarstjórnarmanna og annarra þeirra, sem starfa við stjórnsýslu sveitarfélaga. Í skýringum ráðuneytisins frá 13. desember 1995 kemur fram, að kvörtun A hafi beinst að nafngreindum starfsmanni Félagsmálastofnunar Reykjavíkurborgar og hafi umrætt svarbréf ráðuneytisins tekið mið af því. A telur hins vegar vanhæfisreglur samkvæmt lögum nr. 58/1992, um vernd barna og ungmenna, gilda um umræddan starfsmann, sem hann telur starfsmann barnaverndarnefndar. Samkvæmt 6. gr. barnaverndarlaga skulu barnaverndarnefndir starfa á vegum sveitarfélaga. Barnaverndarnefndir skulu, samkvæmt 7. gr. sömu laga, ráða sérhæft starfslið, sem þeim er heimilt að fela könnun og meðferð einstakra mála eða málaflokka. Samkvæmt barnaverndarlögum gilda, eins og áður hefur verið vikið að, sérstakar reglur um hæfi nefndarmanna og starfsfólks barnaverndarnefnda. Með vísan til þess, sem að framan hefur verið rakið, tel ég ljóst, að hæfisreglur barnaverndarlaga gildi um umræddan starfsmann Félagsmálastofnunar Reykjavíkur, þegar hann vinnur að málum, er falla undir lög nr. 58/1992, svo og þegar barnaverndarnefnd hefur ráðið hann til sérfræðiaðstoðar og falið meðferð máls á grundvelli 7. gr. laganna. Kvörtun A gagnvart félagsmálaráðuneytinu beinist ennfremur að úrlausn þess um kæruheimild til ráðuneytisins. Með vísan til 26. gr. stjórnsýslulaga, kæruheimildar 49. gr. barnaverndarlaga til barnaverndarráðs og þess, að barnaverndarráð hafði ekki fjallað um álitaefni það, sem hér um ræðir, geri ég ekki frekari athugasemdir við úrlausn félagsmálaráðuneytisins í umræddu bréfi frá 22. nóvember 1994. Með hliðsjón af framangreindu og kærufresti samkvæmt 49. gr. barnaverndarlaga tel ég ekki ástæðu til að fjalla frekar um þennan þátt málsins." V. Niðurstaða álits míns, dags. 26. ágúst 1996, var svohljóðandi: "Samkvæmt framanrituðu er það niðurstaða mín, að aðgangur að gögnum barnaverndarmáls verði ekki takmarkaður í ríkari mæli en leiðir af 17. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Tel ég því, að barnaverndaryfirvöldum hafi ekki verið heimilt að hafna beiðni A um aðgang að skýrslu þeirri, sem hér um ræðir, eingöngu á grundvelli loforðs um trúnað. Jafnframt er það niðurstaða mín, að nefndinni hafi borið að taka afstöðu til þess, hvort afhending skýrslunnar skaðaði hagsmuni barnsins í málinu, áður en hún tók þá afstöðu að synja um aðgang að skýrslunni. Hvað varðar þá kröfu A, að barnaverndarráð víki sæti í málinu, er það skoðun mín, að vanhæfisástæður samkvæmt 42. gr. barnaverndarlaga nr. 58/1992, sbr. 5. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, hafi ekki verið til staðar í málinu. Loks tel ég, að starfsmaður sá, sem A taldi vanhæfan til meðferðar málsins fyrir barnaverndarnefnd Reykjavíkur, hafi unnið að málinu sem starfsmaður barnaverndarnefndar og að hæfisreglur barnaverndarlaga hafi því gilt um þau störf hans. Að öðru leyti tel ég ekki ástæðu til athugasemda við úrlausn félagsmálaráðuneytisins í málinu."