Lögræðismál. Nauðungarvistun á sjúkrahúsi.

(Mál nr. 627/1992)

Máli lokið með áliti, dags. 9. nóvember 1992.

Umboðsmaður tók að eigin frumkvæði til athugunar, á hvaða grundvelli A hefði verið vistuð án samþykkis hennar á Landspítalanum frá 6. maí 1992 til 2. júní s.á. Fram kom, að A hafði verið lögð inn á geðdeild spítalans 4. maí og vistuð í tvo sólarhringa á grundvelli 2. gr. laga nr. 39/1964 um meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra. Eftir að vistun á grundvelli fyrrnefndra laga lauk, var A hins vegar vistuð áfram á geðdeildinni án samþykkis hennar til 2. júní, er hún var svipt sjálfræði með úrskurði héraðsdóms. Fram kom, að á þessum tíma hefði ekki verið leitað eftir því, að dóms- og kirkjumálaráðuneytið samþykkti frelsisskerðingu A á tímabilinu 6. maí til 2. júní, en af hálfu C yfirlæknis var á því byggt, að samkvæmt viðteknum venjum væri heimilt að halda alvarlega sjúkum einstaklingi á lokaðri deild með vitund dómara, eftir að nauðungarvistun skv. 2. gr. laga nr. 39/1964 lyki, hefði verið gerð krafa fyrir dómi um að svipta hann sjálfræði, sbr. 2. mgr. 19. gr. lögræðislaga nr. 68/1984. Umboðsmaður tók fram, að dóms- og kirkjumálaráðuneytið hefði eitt heimild skv. 3. mgr. 13. gr. lögræðislaga nr. 68/1984 til þess að samþykkja þá 15 sólarhringa nauðungarvistun, sem um væri fjallað í 2. mgr. 19. gr. laganna. Hann taldi því, að umrædd heimild til þess að halda manni lengur í nauðungarvistun, eftir að gerð hefði verið krafa um, að hann yrði sviptur sjálfræði, gæti einungis átt við, hefði dóms- og kirkjumálaráðuneytið samþykkt vistun manns til meðferðar á sjúkrahúsi í 15 sólarhringa skv. 3. mgr. 13. gr. lögræðislaga. Áleit umboðsmaður því, að ákvæði 1. mgr. 13. gr. lögræðislaga nr. 68/1984 þess efnis, að sjálfráða maður yrði ekki vistaður á sjúkrahúsi gegn vilja sínum, hefðu verið brotin, þar sem ekki hefðu verið fyrir hendi skilyrði laga til þess að halda mætti A í nauðungarvistun á sjúkrahúsi frá 6. maí til 2. júní 1992. Orsökin virtist rangur skilningur á 2. mgr. 19. gr. lögræðislaga. Umboðsmaður beindi þeim tilmælum til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, að það fylgdi eftir þeim ráðstöfunum, sem fram kom, að þegar hefði verið gripið til, svo að þessi mál væru í löglegu horfi.

I.

Hinn 24. júní 1992 greindi E mér frá því, að A hefði verið vistuð á Landspítalanum gegn vilja sínum frá því í byrjun maí, án þess að fyrir lægi úrskurður dóms- og kirkjumálaráðuneytisins skv. 3. mgr. 13. gr. lögræðislaga nr. 68/1984. Hinn 25. júní 1992 óskaði ég upplýsinga dóms- og kirkjumálaráðuneytisins um það, hvort ráðuneytið hefði samþykkt nauðungarvistun A á sjúkrahúsi. Fengust þær upplýsingar, að ekki yrði séð af dagbók ráðuneytisins að slíkt samþykki hefði verið veitt. Hins vegar var mér tjáð, að A hefði verið svipt sjálfræði með úrskurði bæjarþings Reykjavíkur 2. júní 1992.

Í framhaldi af þessum upplýsingum ákvað ég, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis, að taka til athugunar, að eigin frumkvæði, á hvaða grundvelli A hefði verið vistuð á Landspítalanum frá byrjun maí til 2. júní 1992, er hún var svipt sjálfræði með úrskurði.

II.

Hinn 7. júlí 1992 ritaði ég dóms- og kirkjumálaráðuneytinu bréf og óskaði eftir því, sbr. 7. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis, að ráðuneytið léti mér í té þau gögn, er það hefði um málið. Bárust mér gögnin með bréfi, dags. 27. júlí 1992.

Hinn 7. júlí 1992 ritaði ég einnig C, yfirlækni á Landspítalanum, bréf og óskaði eftir því, sbr. 7. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis, að hann upplýsti, hvenær A hefði verið vistuð á geðdeild Landspítalans og hversu lengi hún hefði dvalið þar samfellt fyrir 2. júní 1992 og hvort vistun A á deildinni fyrir þennan tíma hefði verið með eða án samþykkis hennar og ef samþykki hefði verið gefið þá skyldi upplýst með hvaða hætti það hefði verið. Ég óskaði og eftir fyrirliggjandi gögnum varðandi fyrirspurn mína.

Í svarbréfi yfirlæknisins, dags. 16. júlí 1992, kom fram, að um væri að ræða 23 ára gamla konu, sem haldin væri mjög alvarlegri drykkjusýki og fíkn í önnur vímuefni. Hún hefði lagst inn til meðferðar á hérlendar meðferðardeildir fyrir áfengis- og aðra vímuefnasjúklinga um 45 sinnum, þar af 16 sinnum á móttökudeild áfengisskorar geðdeildar Landspítalans frá árinu 1987. A hefði yfirleitt stansað þar mjög stutt og nánast aldrei nægilega lengi til þess að komið yrði við fullnægjandi meðferð, jafnvel þótt henni hefði verið haldið inni í 15 daga gegn vilja hennar með leyfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins (desember 1991 til janúar 1992). Á hinn bóginn hefði A margoft leitað á göngudeild áfengissjúklinga við geðdeild Landspítalans og á bráðaþjónustu geðdeildanna í því skyni að leggjast inn til meðferðar en útskrifað sig fljótlega eftir að meðferð var hafin gegn ráðum lækna. Því ylli væntanlega fíknin og skapgerðartruflanir. Einkenni um miklar lifrarskemmdir og bilanir í lifrarstarfsemi vegna áfengisneyslunnar hefðu komið fram hjá A á síðastliðnum tveimur árum, er stefndu lífi hennar í hættu.

Læknirinn greindi frá því, að 9. apríl 1992 hefði verið haldinn fundur með þeim meðferðaraðilum, sem gerst þekktu aðstæður A og áfengismálafulltrúa Félagsmálastofnunar Reykjavíkur sökum hins alvarlega ástands A og lítils stuðnings af hálfu aðstandenda hennar. Niðurstaða fundarins hefði verið sú, að næst þegar A óskaði eftir innlögn, yrði leitað eftir aðild Félagsmálastofnunar að málinu og að stofnunin legði fram beiðni um sjálfræðissviptingu, en B geðlæknir, sem best þekkti til sjúkleika A ritaði læknisvottorð til stuðnings beiðninni. Hinn 27. apríl 1992 hefði A svo óskað eftir innlögn á deild 33A til meðferðar. Ekki hefði verið laust pláss og hún því sett á biðlista. Degi síðar hefði A mætt á göngudeild fyrir áfengissjúklinga og rætt þar við aðstoðarlækni deildarinnar, sem skráð hefði í sjúkraskrá, að A hefði verið sagt frá fundinum um málefni hennar og hafi henni litist vel á þær ráðagerðir, að hún yrði svipt sjálfræði til lengri tíma og það hafi raunar alltaf verið vilji hennar. Yfirlæknirinn greindi frá því, að ekki hefði verið unnt að sinna beiðni A, fyrr en 4. maí 1992 og þann dag kl. 16:00 hafi hún verið lögð inn á deild 33A frá göngudeild áfengissjúklinga. Hafi hún komið í fylgd sambýlismanns síns og lögreglu. A hafi verið undir áhrifum áfengis og róandi lyfja og því verið ákveðið að halda henni á deildinni til rannsóknar í a.m.k. 48 tíma, sbr. lög nr. 39/1964, um meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra. Fljótlega hafi komið fram svipaður órói hjá A og við fyrri innlagnir. Hinn 6. maí 1992 hafi því verið hafnar aðgerðir til þess að hrinda af stað sjálfræðissviptingarmáli fyrir Borgardómi Reykjavíkur með læknisvottorði útgefnu þann dag af B geðlækni í samræmi við það, sem ákveðið hefði verið. Þá gat C þess, að lifrarpróf hefðu bent til mikillar truflunar á lifrarstarfsemi A.

Í tilefni af bréfi C ritaði ég honum enn á ný bréf, dags. 27. júlí 1992, þar sem ég óskaði þess að hann skýrði viðhorf sitt til málsins og veitti mér neðangreindar upplýsingar:

"1. Er það rétt skilið, að [A] hafi hinn 4. maí 1992 verið vistuð gegn vilja sínum á Landspítalanum, deild 33A, á grundvelli laga nr. 39/1964 um meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra?

2. Óskað er eftir því, að gerð verði grein fyrir því á hvaða lagagrundvelli [A] var vistuð á Landspítalanum frá 6. maí-2. júní 1992.

a. Var leitað eftir samþykki dómsmálaráðuneytisins skv. 2. mgr. 13. gr. lögræðislaga nr. 68/1984 til vistunar [A], þegar vistun hennar hafði staðið yfir í tvo sólarhringa?

b. Veitti [A] samþykki sitt til vistunar eftir 6. maí. Ef svo var, með hvaða hætti var það þá gert?

3. Þá óska ég eftir því, að mér verði látið í té ljósrit af læknisvottorði, sem út var gefið 6. maí 1992 af [B], geðlækni."

Svar yfirlæknisins C barst mér með bréfi, dags. 10. ágúst 1992, en þar segir meðal annars:

"Varðandi lið 1: [A] var vistuð á deild 33-A, geðdeild Landspítalans, hinn 4. maí 1992. Vistunin var samkvæmt ítrekaðri ósk hennar sjálfrar. Hún kom á deildina í vörslu lögreglu og í fylgd sambýlismanns síns. Vistunin var á grundvelli laga nr. 39/1964 um meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra.

Varðandi lið 2: Við komu [A] var ákveðið að beita skyldi heimild 2. gr. laga um meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra nr. 39/1964, er heimilar vistun sjúklings í allt að 48 klst. til læknisrannsóknar.

Þar sem fljótlega varð ljóst að sækja myndi í sama horfið með það hegðunarmynstur [A] að skipta um skoðun og krefjast útskriftar þegar fíknin í vímuefnin tæki að herja á hana að nýju, og þar sem vitað var, vegna niðurstaðna fyrri rannsókna á líkamlegu og andlegu ástandi hennar, að fullnægjandi meðferð myndi útheimta langan dvalartíma á lokaðri deild, var jafnframt ákveðið að nýta þessa 48 klst. til þess að hrinda af stað sjálfræðissviptingarmáli fyrir Borgardómi Reykjavíkur. Það var síðan gert þ. 6. maí s.l., í samvinnu við Félagsmálastofnun Reykjavíkurborgar og lagði deildin til læknisvottorð útgefið þann sama dag af [B], geðlækni (vottorðið fylgir hér með í ljósriti).

Þar sem hafist var handa um sjálfræðissviptingarmálið innan 48 klst. frá innlagningu [A] á deildina, var ekki leitað eftir samþykki dómsmálaráðuneytisins til vistunarinnar, en sjúklingnum haldið á deildinni, samkvæmt viðteknum venjum um að halda megi alvarlega sjúkum einstaklingi á lokaðri deild, með vitund dómara, eftir að sjálfræðissviptingarmál hefur verið hafið og þar til úrskurður liggur fyrir um það hvort hlutaðeigandi verði sviptur sjálfræði, sbr. 19. gr. lögræðislaga frá 1984. [A] veitti ekki samþykki sitt til vistunar á deildinni eftir 6. maí þótt hún léti sér hana að mestu leyti lynda.

Viðhorf mitt til vistunar [A] á móttökudeild áfengissjúklinga við geðdeild Landspítalans gegn vilja hennar hlýtur að mótast af þeirri skoðun minni, að [A] hafi verið haldin alvarlegum geðrænum truflunum þótt hún teldist ekki psychotísk. Þessar geðrænu truflanir, þ.e.a.s. mjög sterk áráttukennd fíkn í vímuefni og mjög verulegar skapgerðartruflanir, hafi hindrað hana í því að verja líf sitt og heilsu á eðlilegan hátt. Ég tel það vera forgangshagsmuni sjúklings að sjúkrastofnanir og þeir, sem við þær starfa, reyni að fremsta megni að vernda þessa hagsmuni sjúklingsins sem best, hvort heldur hinn sjúki gerir sér grein fyrir því sjálfur hverjir þessir hagsmunir eru, eða hefur misst sjónar á þeim vegna andlegrar vanheilsu. Þetta er ekki síst nauðsynlegt þegar í hlut eiga sjúklingar, sem búa við erfiðar félagslegar aðstæður og njóta ekki fulltingis heilbrigðra og ábyrgra aðstandenda."

Með bréfi C fylgdi læknisvottorð, dags. 6. maí 1992, sem B hafði gefið út. Í því segir:

"Ég hef í dag skoðað [A], vegna beiðni um sviptingu sjálfræðis með dómi. Ég hef einnig kynnt mér sögu hennar af gögnum geðdeildar Landspítala.

[...]

[A] hefur misnotað áfengi frá 12 ára aldri. Hún drakk allt að 1-1/2 flösku af sterku áfengi á dag um 17 ára aldur og hefur margsinnis fengið alvarleg fráhvarfseinkenni eins og drykkjuæði og krampa. Áfengisneyslan hefur valdið alvarlegu líkamlegu tjóni. Blóðrannsóknir hafa í mörg ár borið vitni um mikla lifrarskemmd.

[A] hefur misnotað róandi lyf frá 15 ára aldri og róandi lyf og hass frá 16 ára aldri. Hún hefur notað öll efni sem nöfnum tjáir að nefna til að komast í vímu.

[A] kemur nú í 17. skipti inn til afeitrunar á móttökudeild vímuefnaskorar geðdeildar Landspítalans. Hún hefur aldrei dvalist þar nægilega lengi og oftast mjög stutt. Hún hefur 13 sinnum komið til afeitrunar að Vogi og a.m.k. 4 sinnum að Hlaðgerðarkoti. Hún hefur sjaldan afeitrast alveg af áfengi og aldrei af lyfjum. Ekki er vitað um nein neyslulaus tímabil utan stofnana á síðari árum. Hún hefur aldrei verið til samvinnu um framhaldsmeðferð.

Líkamleg skoðun ber órækan vott um lifrarskemmd. Ennfremur er hún undir miklum áhrifum lyfja og með veruleg fráhvarfseinkenni.

[...]

Það er ljóst að [A] er haldin alvarlegri drykkjusýki og ofnotkun fíkniefna. Hún telst einnig vera persónuleika röskuð. Þá hefur drykkjan valdið miklum lifrarskemmdum. Eins og saga hennar ber með sér hefur hún ekki getu til að stöðva neyslu af eigin rammleik og hefur aldrei verið til samvinnu um framhaldsmeðferð.

Ennfremur er ljóst að [A] mun áður en langt líður drekka sig í hel takist ekki að koma við nægilega langri og öflugri meðferð. Ég mæli því eindregið með því að hún verði svipt sjálfræði með dómi."

Í tilefni af bréfi C, dags. 10. ágúst 1992, ritaði ég dóms- og kirkjumálaráðherra bréf, dags. 20. ágúst 1992, þar sem ég gerði honum grein fyrir málavöxtum, svo og fyrrnefndu bréfi C. Þá sagði svo í bréfi mínu:

"Fram kemur í nefndu bréfi [C], að ekki hafi verið leitað eftir samþykki dóms- og kirkjumálaráðuneytisins fyrir frelsisskerðingu [A] á tímabilinu 6. maí til 2. júní, heldur hafi henni verið "haldið á deildinni, samkvæmt viðteknum venjum um að halda megi alvarlega sjúkum einstaklingi á lokaðri deild, með vitund dómara, eftir að sjálfræðissviptingarmál hefur verið hafið og þar til úrskurður liggur fyrir um það hvort hlutaðeigandi verði sviptur sjálfræði, sbr. 19. gr. lögræðislaga frá 1984".

Af ofangreindu tilefni er þess óskað, sbr. 9. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis, að ráðuneyti yðar skýri viðhorf sitt til málsins."

Svar dóms- og kirkjumálaráðuneytisins barst mér með bréfi, dags. 25. september 1992, og hljóðar það svo:

"Ráðuneytinu hefur borist bréf yðar, hr. umboðsmaður, dags. 20. ágúst sl. þar sem þér farið þess á leit að ráðuneytið skýri viðhorf sitt til þess að [A], hafi, að lokinni 2ja sólarhringa frelsisskerðingu á grundvelli 2. gr. laga nr. 39/1964 um meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra, verið vistuð á geðdeild Landspítalans gegn vilja sínum, frá 6. maí til 2. júní sl., án þess að leitað hafi verið samþykkis dómsmálaráðuneytisins, en þann 2. júní sl. var hún með úrskurði borgardóms svipt sjálfræði.

Í bréfi yðar er frá því greint, að í bréfi [C] yfirlæknis, dags. 10. ágúst sl., komi fram að [A] hafi verið "haldið á deildinni, samkvæmt viðteknum venjum um að halda megi alvarlega sjúkum einstaklingi á lokaðri deild, með vitund dómara, eftir að sjálfræðissviptingarmál hefur verið hafið og þar til úrskurður liggur fyrir um það hvort hlutaðeigandi verði sviptur sjálfræði, sbr. 19. gr. lögræðislaga frá 1984".

Samkvæmt 2. mgr. 19. gr. lögræðislaga nr. 68/1984 lýkur vistun þegar yfirlæknir telur hennar ekki lengur þörf, og eigi síðar en 15 sólarhringum frá því hún hófst, nema áður hafi verið gerð krafa fyrir dómi um að hann verði sviptur sjálfræði. Þetta ákvæði hefur aðeins verið talið heimila framlengingu vistunar sjúklings sem samþykkt hefur verið af dómsmálaráðuneytinu á grundvelli 3. mgr. 13. gr. laganna, þannig að hafi verið gerð krafa fyrir dómi um sjálfræðissviptingu, áður en slíkri vistun lýkur, megi hún haldast þar til niðurstaða dómara liggur fyrir í sjálfræðissviptingarmálinu og að sjálfsögðu lengur ef sjúklingur er sviptur sjálfræði.

Ráðuneytið telur umrætt lagaákvæði ekki veita heimild til að framlengja 2ja sólarhringa gæslu á grundvelli 2. gr. laga nr. 39/1964.

Þá tekur ráðuneytið fram að það hefur aldrei verið upplýst um þá "venju" sem [C] yfirlæknir, greinir frá í bréfi sínu og þekkir hana ekki. Starfsmenn ráðuneytisins hafa ítrekað rætt við, og fundað með læknum og hjúkrunarfólki á geðdeildum Landspítalans og Borgarspítalans, þ. á m. á kynningarfundum sem starfsmenn ráðuneytisins hafa haldið með þeim, og hefur aldrei nokkuð komið fram um venju þessa.

Starfsmaður ráðuneytisins hefur, af tilefni bréfs yðar, átt símtöl við [C] yfirlækni og próf. [D], trúnaðarlækni ráðuneytisins, og fylgir hjálagt í ljósriti memo, dags. 21. sept. sl., um þau símtöl.

Ráðuneytið vill að lokum taka fram, að um helgar og á hátíðisdögum, frá kl. 9-18, er jafnan á bakvakt löglærður starfsmaður ráðuneytisins, sem unnt er að ná til ef þörf er vistunar sjúklings á grundvelli 3. mgr. 13. gr. lögræðislaga."Með bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins fylgdi minnisblað, dags. 21. september 1992, og segir þar m.a. svo:

"Í framhaldi af viðræðum mínum við [C] hringdi ég í [D], trúnaðarlækni ráðuneytisins, og gerði honum grein fyrir þeim misskilningi er virðist hafa verið til staðar hjá læknum á deild [C]. Ég óskaði eftir því að [D] kynnti yfirlæknum á geðdeild Landspítalans (þ. á m. á Kleppsspítala) og Borgarspítalans efni III. kafla lögræðislaganna, sérstaklega 19. gr., til að koma í veg fyrir rangtúlkun laganna í framtíðinni."

III.

Í áliti mínu, dags. 9. nóvember 1992, var niðurstaðan svohljóðandi:

1.

"Enginn verður sviptur frelsi sínu með stjórnvaldsákvörðun, nema ákvörðunin eigi sér bæði skýra stoð í lögum og sé í samræmi við lög, enda sé þá gætt þeirrar málsmeðferðar, sem leiðir af lögum og grundvallarreglum stjórnsýsluréttarins.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lögræðislaga nr. 68/1984 verður sjálfráða maður ekki vistaður á sjúkrahúsi gegn vilja sínum. Frá þessari grundvallarreglu eru þó undantekningar í lögum. Samkvæmt 2. gr. laga nr. 39/1964 um meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra, er heimilt að halda ölvuðum manni á sjúkrahúsi "uns af [honum] er runnið, og allt að tveimur sólarhringum til læknisrannsóknar". Þá er einnig heimilt skv. 2. mgr. 13. gr. lögræðislaga nr. 68/1984 að hefta frelsi manns í tvo sólarhringa, ef hann er haldinn alvarlegum geðsjúkdómi eða ofnautn áfengis eða ávana- og fíkniefna. Loks má vista mann gegn vilja sínum til meðferðar á sjúkrahúsi í 15 sólarhringa, að fengnu samþykki dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, séu fyrir hendi sömu ástæður og greindar eru í 2. mgr. 13. gr. lögræðislaga nr. 68/1984 og vistun þyki óhjákvæmileg að mati læknis.

2.

Samkvæmt bréfi C yfirlæknis, dags. 10. ágúst 1992, var A lögð inn á geðdeild Landspítalans 4. maí 1992 og vistuð í tvo sólarhringa á grundvelli 2. gr. laga nr. 39/1964 um meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra. Eftir að vistun á grundvelli fyrrnefndra laga lauk, var A hins vegar vistuð áfram á geðdeildinni án samþykkis hennar til 2. júní, er hún var svipt sjálfræði með úrskurði bæjarþings Reykjavíkur, en krafa um sjálfræðissviptingu A var þingfest 18. maí. Fram kemur í nefndu bréfi C, að ekki hafi verið leitað eftir því, að dóms- og kirkjumálaráðuneytið samþykkti frelsisskerðingu A á tímabilinu 6. maí til 2. júní, heldur hafi henni verið "haldið á deildinni, samkvæmt viðteknum venjum um að halda megi alvarlega sjúkum einstaklingi á lokaðri deild, með vitund dómara, eftir að sjálfræðissviptingarmál hefur verið hafið og þar til úrskurður liggur fyrir um það hvort hlutaðeigandi verði sviptur sjálfræði, sbr. 19. gr. lögræðislaga frá 1984".

Kemur þá til athugunar, hvort heimilt hafi verið að halda A í nauðungarvistun á sjúkrahúsi frá 6. maí, er heimild til nauðungarvistunar skv. 2. gr. laga nr. 39/1964 lauk, til 2. júní, er hún var svipt sjálfræði með úrskurði bæjarþings Reykjavíkur, en samþykkis dóms- og kirkjumálaráðuneytisins skv. 2. mgr. 13. gr. lögræðislaga nr. 68/1984 var ekki aflað, eins og áður segir.

Í bréfi C yfirlæknis, dags. 10. ágúst 1992, er á því byggt, að heimilt sé að vista mann á sjúkrahúsi gegn vilja hans, eftir að nauðungarvistun skv. 2. gr. laga nr. 39/1964 lýkur, hafi málssókn verið hrundið af stað til að svipta hlutaðeigandi mann sjálfræði, sbr. 2. mgr. 19. gr. lögræðislaga nr. 68/1984. Í bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 25. september 1992, kemur hins vegar fram, að ákvæði 2. mgr. 19. gr. lögræðislaga nr. 68/1984 sé "aðeins... talið heimila framlengingu vistunar sjúklings sem samþykkt hefur verið af dómsmálaráðuneytinu á grundvelli 3. mgr. 13. gr. laganna, þannig að hafi verið gerð krafa fyrir dómi um sjálfræðissviptingu, áður en slíkri vistun lýkur, megi hún haldast þar til niðurstaða dómara liggur fyrir í sjálfræðissviptingarmálinu..."

Ákvæði 2. mgr. 19. gr. lögræðislaga nr. 68/1984 hljóðar svo:

"Vistun lýkur þegar yfirlæknir telur hennar ekki lengur þörf, og eigi síðar en 15 sólarhringum frá því hún hófst, nema áður hafi verið gerð krafa fyrir dómi um að hann verði sviptur sjálfræði."

Aðeins dóms- og kirkjumálaráðuneytið hefur heimild skv. 3. mgr. 13. gr. lögræðislaga nr. 68/1984 til þess að samþykkja þá 15 sólarhringa nauðungarvistun, sem um er fjallað í 2. mgr. 19. gr. laganna. Af þeim sökum ber að fallast á það með dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, að heimild 2. mgr. 19. gr. lögræðislaga nr. 68/1984 um að halda manni lengur í nauðungarvistun, eftir að gerð hefur verið krafa um að hann verði sviptur sjálfræði, geti einungis átt við, hafi dóms- og kirkjumálaráðuneytið samþykkt vistun manns til meðferðar á sjúkrahúsi í 15 sólarhringa skv. 3. mgr. 13. gr. lögræðislaga nr. 68/1984.

Af framansögðu athuguðu verður því að telja, að ákvæði 1. mgr. 13. gr. lögræðislaga nr. 68/1984 hafi verið brotin, þar sem ekki voru fyrir hendi skilyrði laga til þess að halda mætti A í nauðungarvistun á sjúkrahúsi frá 6. maí-2. júní 1992.

3.

Samkvæmt því, sem rakið hefur verið hér að framan, er það niðurstaða mín, að ekki hafi verið fyrir hendi skilyrði laga til þess að halda mætti A í nauðungarvistun á sjúkrahúsi frá 6. maí-2. júní 1992. Af gögnum máls má ráða, að orsökin sé rangur skilningur á 2. mgr. 19. gr. lögræðislaga nr. 68/1984.

Samkvæmt 13. og 17. tölulið 3. gr. reglugerðar um Stjórnarráð Íslands, sbr. auglýsingu nr. 96/1969, fer dóms- og kirkjumálaráðuneytið með mál, er varða persónurétt og mannréttindi. Eru það tilmæli mín, að dóms- og kirkjumálaráðuneytið fylgi eftir ráðstöfunum þeim, sem það hefur þegar gert, til að mál þau, sem hér hafa verið til umræðu, séu í löglegu horfi."

VII. Viðbrögð stjórnvalda.

Með bréfi, dags. 18. desember 1992, óskaði ég eftir því að mér yrðu veittar upplýsingar um, hvert framhald þeirra ráðstafana hefði orðið, sem ráðuneytið hefði greint mér frá í bréfi sínu, dags. 25. september 1992, að gripið hefði verið til.

Mér barst svar dóms- og kirkjumálaráðuneytisins með bréfi, dags. 29. desember 1992, og hljóðar það svo:

"Ráðuneytið vill hér með greina yður frá því, að áformað er að löglærðir starfsmenn ráðuneytisins, ásamt trúnaðarlækni þess, haldi fundi nú fljótlega eftir áramót með yfirlæknum sjúkradeilda þar sem einstaklingar eru vistaðir á grundvelli ákvæða lögræðislaga. Á fundum þessum er ætlunin að gera grein fyrir ákvæðum III. kafla laganna og túlkun þeirra. Mun ráðuneytið gera yður nánari grein fyrir fundunum þegar þeir hafa verið haldnir."

Í tilefni af máli þessu barst mér síðan annað bréf frá dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, dags. 26. febrúar 1993, og segir þar meðal annars svo:

"Ráðuneytið vísar til bréfa yðar, dags. 9. nóvember og 18. desember sl., herra umboðsmaður, varðandi álit yðar í máli, er þér tókuð til athugunar að eigin frumkvæði í tilefni af nauðungarvistun sjúklings á sjúkrahúsi, svo og bréfs ráðuneytisins til yðar, dags. 29. desember sl.

Af tilefni álits yðar í málinu nr. 627/1992, héldu [...], prófessor, trúnaðarlæknir ráðuneytisins, og [...], deildarstjóri í ráðuneytinu, tvo kynningar- og fræðslufundi með geðlæknum og öðru hjúkrunarfólki um III. kafla lögræðislaga nr. 68/1984 um nauðungarvistanir sjúklinga á sjúkrastofnunum. Fundurinn með læknum geðdeildar Landspítala Íslands var haldinn á Kleppsspítala þann 13. janúar sl., en fundurinn með læknum á geðdeild Borgarspítalans þann 4. þ.m. Að auki átti ofangreindur starfsmaður ráðuneytisins fund með yfirlækni fjórðungssjúkrahússins á Akureyri þann 19. janúar sl."