Félagslegar íbúðir. Ákvörðun um söluverð. Dráttur á meðferð máls. Meinbugir á stjórnsýsluframkvæmd. Valdframsal.

(Mál nr. 1261/1994)

A kvartaði yfir drætti á meðferð erindis sem hún sendi húsnæðisnefnd Hafnarfjarðar í september 1994. Erindi A laut að uppgjöri vegna sölu á íbúð A og B. Í byrjun árs 1996 var málið óafgreitt og hafði hvorki komist á samkomulag milli A og B og húsnæðisnefndar um efni málsins, né um skipun sáttanefndar að tillögu húsnæðisnefndar. Umboðsmaður tók fram að húsnæðisnefndum væru falin ákveðin verkefni samkvæmt lögum nr. 97/1993, um Húsnæðisstofnun ríkisins, sem giltu um mál þetta. Væri húsnæðisnefndum meðal annars ætlað að skera úr um rétt og skyldu eigenda félagslegra eignaríbúða. Við meðferð slíkra mála bæri að gæta ákvæða stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þ. á m. 9. gr., um að ákvarðanir í einstökum málum skyldu teknar svo fljótt sem unnt væri, og tilkynna skyldi aðilum um fyrirsjáanlegar tafir á meðferð mála. Umboðsmaður taldi ekki ástæðu til að gagnrýna þær viðræður sem farið höfðu fram milli aðila. Væri fyrirsjáanlegt að slíkar viðræður myndu ekki bera árangur yrði húsnæðisnefnd hins vegar að leita eftir afstöðu aðila og taka málið til úrskurðar. Tók umboðsmaður fram að húsnæðisnefnd færi með forræði mála sem undir hana heyra og væri óheimilt að framselja það vald til annarra. Frambærilegar skýringar á töfum málsins höfðu ekki komið fram af hálfu húsnæðisnefndar. Taldi umboðsmaður að starfshættir húsnæðisnefndar hefðu ekki verið í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti og slíkir ágallar væru á meðferð málsins að um væri að ræða meinbugi á starfsháttum húsnæðisnefndar Hafnarfjarðar í skilningi 11. gr. reglna nr. 82/1988, um störf og starfshætti umboðsmanns Alþingis. Var álitið því sent Alþingi, félagsmálaráðuneytinu, húsnæðismálastjórn og bæjarstjórn Hafnarfjarðar.

I. Hinn 31. október 1994 leitaði A til mín og kvartaði yfir því, að hún hefði ekki fengið svör við erindi, er hún sendi húsnæðisnefnd Hafnarfjarðar 27. september 1994. Í kvörtun A kemur fram, að 17. apríl 1994 hafi hún kært til húsnæðismálastjórnar ákvörðun húsnæðisnefndar Hafnarfjarðar á söluverði íbúðar hennar og B og uppgjör vegna sölu á íbúð þeirra að X-götu. Húsnæðismálastjórn tilkynnti A og B með bréfi 21. september 1994, að ekki væri unnt að taka erindi þeirra til meðferðar sem stjórnsýslukæru. Tók húsnæðismálastjórn fram, að erindi þessu bæri að beina í heild sinni til húsnæðisnefndar Hafnarfjarðar. Úrskurð nefndarinnar mætti síðan kæra til Húsnæðisstofnunar ríkisins, enda félli ágreiningsefnið undir úrskurðarvald stofnunarinnar. Með bréfi, dags. 27. september 1994, lagði A erindi sitt fyrir húsnæðisnefnd Hafnarfjarðar. II. Með bréfi, dags. 3. nóvember 1994, óskaði ég eftir því, að húsnæðisnefnd Hafnarfjarðar léti mér í té upplýsingar um, hvað liði afgreiðslu erindis A frá 27. september 1994. Óskir mínar um umbeðnar upplýsingar ítrekaði ég með bréfum, dags. 24. janúar 1995 og 24. mars 1995. Í bréfi húsnæðisnefndar Hafnarfjarðar 4. apríl 1995 var mér tilkynnt, "... að fyrirhugað [væri] að halda fyrsta fund með [A] þriðjudaginn 18. apríl [...] og [væri] stefnt að því að ljúka þessu ágreiningsmáli í beinu framhaldi af þeim fundi". Ég ritaði húsnæðisnefnd Hafnarfjarðar á ný bréf 29. maí 1995 og ítrekaði fyrri tilmæli mín um upplýsingar um hvað liði afgreiðslu á erindi A. Jafnframt vísaði ég til bréfs nefndarinnar frá 4. apríl 1995, þar sem boðuð hefðu verið væntanleg lok málsins. Þá ritaði ég húsnæðisnefnd Hafnarfjarðar á ný bréf 9. ágúst 1995 og ég ítrekaði fyrri tilmæli mín um að mér yrðu látnar í té upplýsingar um, hvað liði afgreiðslu húsnæðisnefndar Hafnarfjarðar á málinu. Í bréfi, er húsnæðisnefnd Hafnarfjarðar ritaði mér 14. ágúst 1995, segir: "Með tilvísun í bréf yðar frá 9. ágúst s.l. er hér með upplýst að samningafundir hafa verið haldnir með umræddri [A] og lögmanni hennar [...], lokaniðurstaða er hins vegar ekki fengin. Fyrirhugaður lokafundur hefur því miður dregist." Frekari upplýsingar um gang málsins bárust mér síðan með bréfi húsnæðisnefndar Hafnarfjarðar, dags. 8. nóvember 1995, en þar segir: "Haldinn var fundur í ágreiningsmáli [A] og [B] við húsnæðisnefnd Hafnarfjarðar þann 6. nóvember 1995. Á þeim fundi kom í ljós að mikið ber í milli aðila og ennfremur kom fram í málflutningi [A] og [B] að þau treysta engan veginn húsnæðisnefnd Hafnarfjarðar eða Húsnæðisstofnun ríkisins. Með þær staðreyndir í huga varð að ráði að leggja til við þau að skipuð verði sáttanefnd. Sendi hjálagt bréf sem þeim var sent um tillögu húsnæðisnefndar Hafnarfjarðar." Í tilvitnuðu bréfi húsnæðisnefndar Hafnarfjarðar frá 7. nóvember 1995 segir: "Á fundi húsnæðisnefndar Hafnarfjarðar 7. nóvember 1995 var samþykkt að leggja til við ykkur að skipuð verði sáttanefnd til að leysa úr ágreiningsmáli ykkar og nefndarinnar. Sáttanefnd þessi verði skipuð einum manni frá hvorum málsaðila og oddamaður verði skipaður af dómstjóra héraðsdóms Reykjaness." Ég ritaði húsnæðisnefnd Hafnarfjarðar bréf 17. nóvember 1995. Gerði ég þar grein fyrir efni kvörtunar A, er lyti að því, að erindi hennar frá 27. september 1994 hefði ekki verið svarað og rakti áðurgreind bréfaskipti. Óskaði ég eftir því, sbr. 9. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis, að húsnæðisnefnd Hafnarfjarðar skýrði þann drátt, sem orðið hefði á því að nefndin tæki afstöðu til erindis A. Jafnframt skýrði ég nefndinni frá því, að ég hefði með bréfum, dags. 17. nóvember 1995, vakið athygli félagsmálaráðherra og húsnæðismálastjórnar á málinu. Í bréfi húsnæðisnefndar Hafnarfjarðar, dags. 18. desember 1995, segir: "Í framhaldi af bréfi yðar sendu 8. nóvember er hjálagt skeyti til [A] þar sem henni er gefinn lokafrestur til að svara erindi húsnæðisnefndar Hafnarfjarðar um sáttanefnd. Í framhaldi af skeyti þessu tilnefndi hún [Z] hrl. sem fulltrúa sinn sem hafði hann samband við [...] bæjarlögmann og komu þeir sér saman um að hittast 12. desember s.l. Því miður þurfti að fresta fundinum vegna veikinda [Z], en fyrirhugað er að halda fund lögmanna þann 20. desember n.k. Umboðsmaður verður upplýstur um gang mála jafnóðum og eitthvað gerist." Í bréfi, er lögmaður A ritaði mér 18. janúar 1996, kemur fram, að hann hafi hafnað boði húsnæðisnefndar Hafnarfjarðar um þriggja manna sáttanefnd. Þá kvaðst lögmaðurinn hafa lagt fram kröfur sínar á fundi með bæjarlögmanni Hafnafjarðarbæjar 20. desember 1995, sem hefði verið svarað með bréfi, dags. 5. janúar 1996. Síðan segir í bréfi lögmannsins: "Svo sem fram kemur ber mjög langt á milli mín og bæjarlögmannsins, en ég vinn nú að nýju svari til hans. Ég fæ ekki betur séð en að það stefni í að ég muni þurfa að stefna Húsnæðisnefnd Hafnarfjarðar fyrir dóm fyrir hönd umbjóðenda minna." Með bréfi húsnæðisnefndar Hafnarfjarðar 6. febrúar 1996 var mér tilkynnt, að ekki hefði náðst samkomulag í máli A og B og að lögmaður þeirra hygðist "... höfða mál á hendur húsnæðisnefnd Hafnarfjarðar". Ég ritaði A og B bréf 12. febrúar 1996. Vísaði ég til bréfs lögmanns þeirra frá 18. janúar 1996 og bréfs húsnæðisnefndar Hafnarfjarðar frá 6. febrúar 1996 og óskaði eftir því, að mér yrði gerð grein fyrir því, hvort þau hefðu í hyggju að höfða dómsmál á hendur Hafnarfjarðarbæ. Í svarbréfi lögmanns A og B 20. mars 1996 sagði, að hann teldi ráðlegt með tilliti til hagsmuna A og B, að reyna ennfrekar að ná samkomulagi í málinu, áður en ákvörðun um málsókn yrði tekin. Með bréfi lögmannsins fylgdi bréf hans til húsnæðisnefndarinnar sama dag. III. Í álitinu segir svo um meðferð húsnæðisnefndar Hafnafjarðar á erindi A: "Kvörtun sú, er A hefur borið fram, lýtur að þeim drætti, sem orðið hefur á að húsnæðisnefnd Hafnarfjarðar svaraði erindi hennar frá 27. september 1994. Í máli þessu kemur ekki til athugunar sá ágreiningur, sem er um efni málsins. Á þeim tíma, sem hér um ræðir, voru í gildi lög nr. 97/1993, um Húsnæðisstofnun ríkisins. Hefur þeim lögum verið breytt nokkuð, einkum með lögum nr. 58/1995, er öðluðust gildi 13. mars 1995. Hér á eftir vísa ég til ákvæða laga nr. 97/1993, eins og þau hljóðuðu fyrir nefnda lagabreytingu. Samkvæmt 40. gr. laga nr. 97/1993, um Húsnæðisstofnun ríkisins, fara húsnæðisnefndir í sveitarfélögum "... með stjórn og samræmingu félagslegs húsnæðis í sveitarfélaginu í umboði sveitarstjórnar og almennar upplýsingar og ráðgjöf varðandi húsnæðismál". Þá úthlutar húsnæðisnefnd öllum félagslegum íbúðum á vegum sveitarfélaga, sbr. 67. gr. laga nr. 97/1993. Í 1. mgr. 86. gr. laganna kemur fram, að sveitarfélag eða annar framkvæmdaaðili skuli annast útreikning á söluverði félagslegra íbúða, þegar reynir á kaupskyldu eða forkaupsrétt. Gert er ráð fyrir því, að Húsnæðismálastofnun ríkisins staðfesti útreikninginn og verði ágreiningur milli aðila um verðlagningu íbúðar, skuli vísa honum til húsnæðismálastjórnar. Samkvæmt framansögðu er ljóst, að húsnæðisnefndum eru falin ákveðin verkefni samkvæmt lögum nr. 97/1993. Er húsnæðisnefndum meðal annars ætlað að skera úr um rétt eða skyldu eigenda félagslegra eignaríbúða og ber við meðferð slíkra mála að gæta ákvæða stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Samkvæmt 9. gr. þeirra laga skulu ákvarðanir í einstökum málum teknar svo fljótt sem unnt er og þegar fyrirsjáanlegt er, að afgreiðsla máls muni tefjast, ber að skýra aðila máls frá því. Mál það, sem hér um ræðir, hefur verið til meðferðar hjá húsnæðisnefnd Hafnarfjarðar frá 27. september 1994. Hafa mér ekki borist upplýsingar um, að þeirri meðferð sé lokið. Þegar litið er yfir gang málsins, er ljóst að viðræður hafa átt sér stað milli aðila um lausn þess. Ég tel ekki ástæðu til þess að gagnrýna slíkar viðræður, enda sé fyrir hendi lögmætur grundvöllur og ástæða til þess að ætla, að þær geti borið árangur. Sé fyrirsjáanlegt, að slíkar viðræður muni ekki bera árangur, verður á hinn bóginn, að gera þá kröfu, að húsnæðisnefnd gangi úr skugga um það, hvort hlutaðeigandi hafi hug á að fylgja erindi sínu eftir og, ef svo er, að taka það þá til úrlausnar. Í þessu sambandi ber að leggja áherslu á, að það er húsnæðisnefnd, sem fer með forræði þeirra mála, sem undir hana heyra. Verður ekki séð, að lög nr. 97/1993 heimili húsnæðisnefndum að framselja þetta vald til annarra aðila. Af hálfu húsnæðisnefndar Hafnarfjarðar hafa ekki komið fram frambærilegar skýringar á þeim drætti, sem orðið hefur á því, að húsnæðisnefnd Hafnarfjarðar afgreiddi erindi A frá 27. september 1994. Þegar það er virt og það, sem rakið hefur verið, er það niðurstaða mín, að starfshættir húsnæðisnefndar Hafnarfjarðar í máli A hafi ekki verið í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti." IV. Niðurstaða álits míns, dags. 21. júní 1996, er svohljóðandi: "Samkvæmt framansögðu er niðurstaða mín sú, að meðferð húsnæðisnefndar Hafnarfjarðar á erindi A frá 27. september 1994 og sá dráttur, er orðið hefur á afgreiðslu málsins, brjóti í bága við vandaða stjórnsýsluhætti. Líta verður svo á, að slíkir ágallar hafi verið á meðferð málsins, að um sé ræða meinbugi á starfsháttum húsnæðisnefndar Hafnarfjarðar í skilningi 11. gr. reglna nr. 82/1988, um störf og starfshætti umboðsmanns Alþingis. Er álit þetta því sent Alþingi, félagsmálaráðuneytinu, húsnæðismálastjórn og bæjarstjórn Hafnarfjarðar. Að endingu beini ég þeim tilmælum til húsnæðisnefndar Hafnarfjarðar, að nefndin hagi framvegis meðferð þeirra mála, sem henni eru fengin til úrlausnar, í samræmi við þau sjónarmið, sem ég hef gert grein fyrir í áliti þessu." V. Með bréfi til Húsnæðisnefndar Hafnarfjarðar, dags. 29. ágúst 1996, óskaði ég eftir upplýsingum um, hvort einhverjar ákvarðanir hefðu verið teknar í tilefni af fyrrgreindu áliti mínu. Í svari Hafnarfjarðarbæjar, dags. 17. október 1996, kom fram að fyrrnefndu máli hefði lokið með samkomulagi aðila dagsettu 10. október 1996.