Ráðning í stöðu forstjóra Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma. Sérstakt hæfi.

(Mál nr. 1508/1995)

A kvartaði yfir ákvörðun stjórnar Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma um ráðningu B í stöðu forstjóra Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma. Umboðsmaður ákvað að takmarka umfjöllun sína við tvo þætti í kvörtun A, í fyrsta lagi að prófastarnir X og Y og stjórnarmennirnir E og F hefðu verið vanhæfir til þess að taka þátt í meðferð málsins, og í öðru lagi að biskup Íslands hefði stöðu sinnar vegna verið vanhæfur til að hafa afskipti af málinu. Umboðsmaður rakti ákvæði í lögum um kirkjugarða og tók fram, að lagt hefði verið til grundvallar að starfsemi kirkjugarða teldist til starfsemi hins opinbera. Starfsemi kirkjugarða væri lögmælt, þeim væri sem stofnunum komið á fót með lögum og reknir fyrir fjármuni sem aflað væri með sköttum, þ.e. kirkjugarðsgjaldi, og teldust þeir til stjórnsýslu ríkisins. Þar sem ákvarðanir um ráðningu í starf við stjórnsýslu ríkisins teldust stjórnvaldsákvarðanir (sjá mál nr. 1320/1994) giltu hæfisreglur II. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um ráðningu í stöðu forstjóra kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma. A taldi að prófasturinn Y hefði verið vanhæfur til meðferðar málsins vegna þess að hann hefði starfað með föður B sem og með B sjálfum. Umboðsmaður tók fram að ganga yrði út frá þeirri meginreglu að starfsmaður yrði almennt ekki vanhæfur samkvæmt 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga, þótt hann hefði kynnst aðila máls í starfi sínu, nema náin vinátta hefði skapast á slíkum grundvelli. Því síður gæti það valdið vanhæfi þótt viðkomandi hefði átt samstarf við föður eins af aðilum málsins. Y hefði því ekki verið vanhæfur til meðferðar málsins af þessum sökum. Það leiddi heldur ekki til vanhæfis Y að hann hafði sömu menntun og B. Loks taldi umboðsmaður ekki sýnt, að um svo verulega fjárhagslega hagsmuni væri að ræða, þótt Y gæti þurft að taka sæti í stjórn Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma sem varamaður X, föður B, sem vegna ráðningar B gæti orðið vanhæfur til meðferðar einstakra mála, að þetta leiddi til vanhæfis Y. Umboðsmaður féllst heldur ekki á það að F, stjórnarmaður, hefði verið vanhæfur til meðferðar málsins þótt hann væri skyldur B að þriðja lið, hvorki samkvæmt 2. tölul. né 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga. Þá leiddi það ekki til vanhæfis hans að hann hefði átt samstarf við X, föður B, á fundum stjórnar Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæmis. Sömuleiðis taldi umboðsmaður, að það leiddi ekki til vænhæfis E, stjórnarmanns, þótt hann væri formaður sóknarnefndar þeirrar sóknar sem faðir B væri prestur í. Tók umboðsmaður fram, að ljóst væri af ákvæðum V. kafla laga nr. 25/1985, um kirkjusóknir o.fl., að formaður sóknarnefndar teldist ekki eiginlegur undirmaður sóknarprests í skilningi 5. tölul. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga. Umboðsmaður féllst hins vegar á það að X, prófastur, hefði verið vanhæfur til undirbúnings og meðferðar málsins, skv. 2. tölul. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga, þar sem einn af umsækjendunum var sonur hans. Bar stjórn og framkvæmdastjórn Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma að sjá til þess að X viki sæti við undirbúning og meðferð málsins. Taldi umboðsmaður að X hefði borið að víkja af fundi er málefni sem snertu ráðningu í stöðu forstjóra Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma bar á góma, þótt markmiðið hefði aðeins verið að kynna stöðu málsins. Samkvæmt gögnum málsins virtist X aðeins hafa verið viðstaddur á einum fundi þegar málefni þetta bar á góma. Þegar litið var til þess að umfjöllun á þeim fundi virtist aðallega hafa verið að kynna stöðu málsins og engar ákvarðanir teknar um efni eða meðferð þess, taldi umboðsmaður ekki ástæðu til að ætla að annmarkinn hefði haft áhrif á úrlausn málsins og taldi því að annmarki þessi haggaði ekki gildi ákvörðunar um ráðningu forstjóra. Umboðsmaður taldi ástæðu til að gagnrýna að ekki var farið eftir ákvæðum 4. og 5. gr. stjórnsýslulaga við meðferð málsins og skorið úr um hæfi nefndarmanns. Þess í stað var fjallað um málið án þátttöku X á "óformlegum fundum" sem ekki voru færðir til bókar. Þá var þess ekki gætt að X viki af þeim fundi sem hann sat, þar sem fjallað var um málið. Taldi umboðsmaður þessa málsmeðferð til þess fallna að valda tortryggni um að þær ákvarðanir, sem teknar voru um meðferð og úrlausn málsins, hefðu verið byggðar á málefnalegum sjónarmiðum. Um það atriði í kvörtun A sem laut að vanhæfi biskups Íslands, vegna þess hlutverks hans að vera verndari kirkju og presta, taldi umboðsmaður að þótt biskups Íslands færi bæði með yfirstjórn þjóðkirkjunnar og yfirstjórn kirkjugarða þjóðkirkjunnar, leiddi það ekki til vanhæfis til meðferðar málsins á kærustigi, enda væri ekki sýnt að þessi verkefni biskups hefðu verið ósamrýmanleg. Þá lá ekkert fyrir um það í málinu að biskup Íslands hefði sjálfur haft hagsmuna að gæta af úrlausn málsins, eða hefði áður komið að því með þeim hætti að leiddi til vanhæfis hans til að leggja úrskurð á það.

I. Hinn 19. júlí 1995 bar C, hæstaréttarlögmaður, fram kvörtun f.h. A, yfir ákvörðun stjórnar Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma um ráðningu í stöðu forstjóra Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma og fleiri þáttum henni tengdri. Með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis, ákvað ég að fjalla um eftirtalda þætti kvörtunar A. Í fyrsta lagi kvörtun A yfir því, að prófastarnir X og Y, svo og stjórnarmennirnir E og F hafi tekið þátt í meðferð málsins, en því er haldið fram, að þeir hafi verið vanhæfir til meðferðar þess. Í öðru lagi kvörtun hans yfir því, að biskup Íslands hafi stöðu sinnar vegna verið vanhæfur til þess að hafa afskipti af málinu. II. Með bréfi, dags. 20. febrúar 1995, kærði C, hæstaréttarlögmaður, ákvörðun stjórnar Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma um að ráða B í stöðu forstjóra Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins. Með bréfi, dags. 23. mars 1995, kom M, hæstaréttarlögmaður, sjónarmiðum stjórnar Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma á framfæri við dóms- og kirkjumálaráðuneytið. Á grundvelli 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 framsendi dóms- og kirkjumálaráðuneytið kæruna til biskups með bréfi, dags. 31. mars 1995, með vísan til 8. gr. laga nr. 36/1993, um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu, en þar kemur meðal annars fram, að hver kirkjugarður þjóðkirkjunnar sé sjálfseignarstofnun með sérstöku fjárhaldi undir yfirstjórn prófasts (í Reykjavík prófasta) og biskups. Í ódagsettu áliti biskups Íslands, sem barst A hinn 3. maí 1995, var ekki fallist á að ógilda bæri málsmeðferð og atkvæðagreiðslu vegna ráðningar nýs forstjóra hjá Kirkjugörðum Reykjavíkurprófastsdæma. Í kvörtun A er ekki fundið að formi á úrlausn biskups Íslands í málinu, sbr. 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Af þeim sökum tel ég ekki tilefni til þess að fjalla sérstaklega um þennan þátt málsins, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis. Hinn 5. maí 1995 kærði C, hæstaréttarlögmaður, niðurstöðu biskups í málinu til dóms- og kirkjumálaráðherra. Í úrskurði dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 28. júní 1995, var ekki fallist á, að ráðning af hálfu stjórnar Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma í stöðu forstjóra Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma eða undirbúningur þeirrar ákvörðunar hefðu verið haldin slíkum annmarka að leiða ætti til ógildingar. Staðfesti því dóms- og kirkjumálaráðuneytið niðurstöðu biskups Íslands í málinu. III. Hinn 9. ágúst 1995 ritaði ég dóms- og kirkjumálaráðherra bréf og óskaði þess, með vísan til 7. og 9. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis, að ráðuneyti hans léti mér í té gögn málsins og skýrði viðhorf sitt til kvörtunar A. Ég óskaði þess sérstaklega, að mér yrðu veittar upplýsingar um, á hvaða fundi framkvæmdastjórnar Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma hefði verið tekin ákvörðun um að velja 5 umsækjendur úr 13 manna hópi umsækjenda um stöðu forstjóra Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma og láta kjósa milli þeirra á fundi stjórnar Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma. Þá óskaði ég ennfremur eftir að upplýst yrði, hvaða fundi framkvæmdastjórnar Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma X hefði setið, þar sem ráðningu í stöðu forstjóra Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma hefði borið á góma. Svör dóms- og kirkjumálaráðuneytisins bárust mér með bréfi, dags. 26. september 1995. Með bréfinu fylgdi bréf biskupsstofu, dags. 8. september 1995, þar sem fram kom, að biskupsembættið liti svo á, að með áliti sínu, dags. 3. maí 1995, hefði það komið á framfæri sjónarmiðum sínum og hefði ekkert frekar fram að færa í málinu. Einnig fylgdi bréfi ráðuneytisins bréf N, hæstaréttarlögmanns, dags. 22. september 1995, þar sem hann kemur á framfæri sjónarmiðum stjórnar Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma. Í fyrrnefndu bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins segir, að ráðuneytið telji ekkert nýtt komið fram í málinu, sem gefi tilefni til breytts viðhorfs til kvörtunar A. IV. Samkvæmt þeim skýringum, sem lögmenn stjórnar Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma hafa veitt, svo og þeim fundargerðum og öðrum gögnum, sem lögð hafa verið fram, eru í stuttu máli þessi: Hinn 17. maí 1994 var aðalfundur Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma haldinn. Gerði R, forstjóri Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma, fundarmönnum grein fyrir væntanlegum starfslokum sínum. Á fundinum var meðal annars samþykkt að fela framkvæmdastjórn að vinna að undirbúningi að ráðningu nýs forstjóra. Hinn 4. október 1994 hélt framkvæmdastjórn fund. Á fundinn komu allir þrír aðalmenn í framkvæmdastjórn, þ.e. F, G og E, svo og tveir varamenn. Þá sat X fundinn svo og rekstrarstjóri og löggiltur endurskoðandi Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma. Í fundargerð er svohljóðandi bókun um þetta mál: "3. Rætt um hvernig standa skuli að ráðningu forstjóra, sem tæki við þegar núverandi forstjóri lætur af störfum. Fleira ekki tekið fyrir á fundinum, fundi slitið." Hinn 7. október 1994 hittust aðalmenn framkvæmdastjórnar á óformlegum fundi á Hótel Loftleiðum, skv. bréfi lögmanns Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma, dags. 23. mars 1995, og minnispunktum G, dags. 20. september 1995. Á þessum óformlega fundi var rætt um, hvernig staðið skyldi að undirbúningi ráðningarinnar. Var ákveðið að fá ráðningarstofu til þess að annast um auglýsingu í hið nýja starf og meta þær umsóknir, sem bærust. Var í þessu skyni leitað til S. Hinn 16. október 1994 birtist auglýsing í Morgunblaðinu um að starfið væri laust til umsóknar. Í auglýsingunni sagði meðal annars svo: "Leitað er að einstaklingi, sem hefur menntun og þekkingu til að takast á við þetta starf. Algjört skilyrði að viðkomandi hafi víðtæka stjórnunarreynslu. Góð tungumálakunnátta er nauðsynleg, enska og eitt norðurlandamál [...]. Umsóknarfrestur er til 28. okt. nk." Með bréfi, dags. 24. október 1994, sótti B um stöðu forstjóra Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma. Hinn 5. nóvember 1994 var haldinn óformlegur fundur í Safnaðarheimili Grensáskirkju, sbr. bréf lögmanna Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma, dags. 23. mars 1995 og 22. september 1995, svo og minnispunkta G, dags. 20. september 1995. Þar kynnti stjórnarformaður 33 umsóknir, sem borist höfðu, svo og tillögur og athugasemdir S. Niðurstaða fundarins var sú, að S var falið að boða 13 af umsækjendunum í viðtal. Hinn 15. nóvember 1994 var haldinn formlegur fundur í framkvæmdastjórn. Á fundinum voru allir aðalmenn og varamenn framkvæmdastjórnar, prófastarnir báðir svo og forstjóri og rekstrarstjóri. Í fundargerð er eftirfarandi bókað um mál þetta: "2. Formaður upplýsti, að 33 umsóknir hefðu borist um starf forstjóra. Fjallað yrði um umsóknirnar næstu daga." Hinn 16.-17. nóvember 1994 fóru fram viðtöl við fyrrnefnda 13 umsækjendur. Aðalmenn framkvæmdastjórnar önnuðust einir þau viðtöl skv. bréfi lögmanns Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma, dags. 23. mars 1995. Hinn 22. nóvember 1994 hélt framkvæmdastjórn enn á ný óformlegan fund. Á þennan fund komu einnig varamenn framkvæmdastjórnar svo og S. Ákveðið var að fela S að hafa samband við 5 af þeim 13 umsækjendum, sem kallaðir hefðu verið í viðtal. Samkvæmt skýrslu S, dags. 23. mars 1995, hafði hann samband við tilgreinda umsækjendur og tjáði þeim, að nöfn þeirra yrðu lögð fyrir stjórn Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma og greidd atkvæði um þá alla í fyrstu umferð. Fengi enginn hreinan meirihluta yrði kosið aftur á milli þeirra, er flest atkvæði hefðu fengið. Hinn 29. nóvember 1994 var haldinn formlegur fundur í framkvæmdastjórn. Fundinn sóttu allir aðalmenn, nema E. Þá sátu fundinn allir varamenn framkvæmdastjórnar, báðir prófastar, forstjóri svo og rekstrarstjóri. Í bréfi lögmanns Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma, dags. 23. mars 1995, er tekið fram, að ekkert hafi verið fjallað um ráðningu forstjóra á þessum fundi. Í fundargerð er bókað: "2. Rætt um undirbúning að stjórnarfundi sem boðaður hefur verið kl 20 í kvöld. Dagskrá fundarins hefur verið send út með fundarboði. Fleira gerðist ekki á fundinum, fundi slitið." Klukkan 20 sama dag var síðan haldinn fundur stjórnar Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma. Á fundinum féllu atkvæði svo, að B hlaut 11 atkvæði en A 10 atkvæði. V. Í álitinu fjallaði ég fyrst um réttarreglur um sérstakt hæfi og síðan um hæfi einstakra stjórnarmanna og biskups Íslands. Þá fjallaði ég að lokum um stöðu og starfshætti framkvæmdastjórnarinnar í málinu. Í álitinu segir: "1. Réttarreglur um sérstakt hæfi. Kemur þá fyrst til athugunar hvaða hæfisreglur gildi um þá, sem undirbjuggu og tóku ákvörðun um ráðningu forstjóra Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma. Af hálfu biskups og dóms- og kirkjumálaráðuneytisins er á því byggt, að II. kafli stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem fjallar um sérstakt hæfi, hafi þar átt við. Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. taka stjórnsýslulögin til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga. Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 36/1993, um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu, er hver kirkjugarður þjóðkirkjunnar sjálfseignarstofnun, með sérstöku fjárhaldi, í umsjón og ábyrgð safnaðar undir yfirstjórn prófasts og biskups. Lög nr. 36/1993 eru að stofni til frá árinu 1932, en þá voru sett lög nr. 64/1932, um kirkjugarða. Fram kemur í greinargerð með frumvarpi því, er varð að lögum nr. 64/1932, að frumvarpið sé nær samhljóða frumvarpi, sem lagt var fyrir vetrarþing þar á undan, og er vísað til athugasemda, er því frumvarpi fylgdu (Alþt. 1932, A-deild, bls. 282). Í greinargerð með frumvarpi því, sem lagt var fyrir Alþingi árið 1931, segir, að kirkjugarðarnir teljist ekki einvörðungu málefni kirkjunnar, heldur teljist þeir jafnframt til heilbrigðis- og menningarmála hvers byggðarlags og hafi allir menn, utan þjóðkirkjunnar sem innan, sama rétt og skyldur, að því er taki til kirkjugarðanna. Ákveðið var að fela ekki sveitarstjórnum umsjón kirkjugarða, þar sem talið var, að sveitarfélögin hefðu ærinn starfa fyrir. Var talið rétt að fela sóknarnefndum umsjón kirkjugarða, en þó þannig að fjárhagur og reikningshald kirkjugarðanna yrði sérstakt með tilliti til þess, að starfsemi kirkjugarðanna snerti réttindi og skyldur allra, hvort sem þeir væru innan eða utan þjóðkirkjunnar (Alþt. 1931, A-deild, bls. 284). Samkvæmt framansögðu er ljóst, að lagt hefur verið til grundvallar að starfsemi kirkjugarða teldist til starfsemi hins opinbera. Þegar litið er til þess, að starfsemi kirkjugarðanna er lögmælt og þeim er sem stofnunum komið á fót með lögum og eru reknir fyrir fjármuni, sem aflað er með sköttum, þ.e. kirkjugarðsgjaldi, sbr. IX. kafla laga nr. 36/1993, teljast þeir til stjórnsýslu ríkisins. Þar sem ákvarðanir um ráðningu í starf við stjórnsýslu ríkisins teljast stjórnvaldsákvarðanir, sbr. álit mitt frá 2. febrúar 1996 í máli nr. 1320/1994, féll sú ákvörðun stjórnar Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma, að ráða í starf forstjóra Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma, undir stjórnsýslulögin, sbr. 1. og 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Af þessum sökum giltu hæfisreglur II. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við ráðningu í stöðu forstjóra kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma. Af 2. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ráðið, að sérhver tengsl starfsmanns við stjórnsýslumál eða aðila þess, valdi ekki sjálfkrafa vanhæfi starfsmanns til meðferðar máls. Starfsmaður verður almennt ekki talinn vanhæfur til meðferðar máls, nema hann hafi sjálfur nokkurra hagsmuna að gæta eða tengist sjálfur málinu eða aðilum þess með slíkum hætti, að almennt verði talin hætta á, að ómálefnaleg sjónarmið hafi áhrif á úrlausn málsins. Samkvæmt 4. gr. stjórnsýslulaga eiga ákvæði II. kafla laganna um sérstakt hæfi við þá starfsmenn, sem taka þátt í undirbúningi, meðferð eða úrlausn máls. Þeir, sem komu að undirbúningi, meðferð og úrlausn þess, hvaða umsækjandi skyldi ráðinn forstjóri Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma, máttu því ekki vera tengdir neinum umsækjendanna á þann hátt, er um getur í 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga. 2. Hæfi Y. A kvartar meðal annars yfir því, að Y, prófastur, hafi verið vanhæfur til meðferðar málsins, annars vegar vegna þess að hann hafi starfað með föður B, og hins vegar þar sem hann hafi starfað með B, þegar sá síðarnefndi var prestur [hjá ...]. Þá er því einnig haldið fram, að Y sé vanhæfur, þar sem hann hafi sömu menntun og B, þ.e. sé prestlærður. Loks telur A, að Y hafi verið vanhæfur til meðferðar málsins, þar sem hann hafi fjárhagslegra hagsmuna að gæta af úrlausn málsins. Í úrskurði dóms- og kirkjumálaráðuneytisins frá 28. júní 1995 var það niðurstaða ráðuneytisins, að Y hefði ekki verið vanhæfur til meðferðar málsins á grundvelli þessara ástæðna. Eins og ég hef áður vikið að í áliti mínu frá 15. mars 1996, í máli nr. 1310/1994, tel ég, að ganga verði út frá þeirri meginreglu, að starfsmaður verði almennt ekki vanhæfur til meðferðar máls skv. 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga, enda þótt hann hafi kynnst aðila máls í starfi sínu. Það sama gildir þótt starfsmaður hafi unnið að einstökum verkefnum með aðila máls eða starfað með honum í aðalstarfi sínu. Hafi samstarfið verið afar náið og umfangsmikið og staðið í langan tíma kann öðru máli að gegna. Þetta á sérstaklega við, hafi samskipti einnig átt sér stað í töluverðum mæli utan starfs. Hafi á slíkum grundvelli skapast náin vinátta, veldur það vanhæfi til meðferðar máls. Ljóst er af ummælum í lögskýringargögnum, að almennt þarf töluvert til svo hægt sé að leggja til grundvallar, að um "nána vináttu" sé að ræða. Í athugasemdum í greinargerð við 3. gr. frumvarps þess, er varð að stjórnsýslulögum nr. 37/1993, segir meðal annars svo: "Mjög náin vinátta [...] við aðila máls getur valdið vanhæfi skv. 6. tölul. Svo að vinátta valdi vanhæfi nægir ekki að aðeins sé um að ræða kunningsskap eða fyrir hendi séu þær aðstæður, t.d. á fámennum stöðum, að "allir þekki alla", heldur verður vináttan að vera náin." (Alþt. 1992, A-deild, bls. 3288.) Samkvæmt framansögðu er ljóst, að það veldur almennt ekki vanhæfi starfsmanns, þótt hann þekki aðila máls, sé kunningi hans eða hafi unnið með honum. Almennt verður starfsmaður ekki vanhæfur í slíkum tilvikum, nema ótvíræðar upplýsingar liggi fyrir um, að náin vinátta hafi tekist með þeim. Af framansögðu er ljóst, að við meðferð mála, þar sem ráða á mann í starf, verður almennt að leggja þá meginreglu til grundvallar, að starfsmaður verði ekki vanhæfur til meðferðar máls skv. 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga, þótt á meðal umsækjenda sé samstarfsmaður hans eða undirmaður, nema ótvíræðar upplýsingar liggi fyrir um, að náin vinátta hafi tekist með þeim. Af þeim gögnum, sem fyrir mig hafa verið lögð, verður ekki ráðið, að samstarf Y við einn af umsækjendunum, B, á vettvangi kirkjunnar og samband þeirra að öðru leyti hafi verið þess eðlis, að það hafi valdið vanhæfi Y til meðferðar málsins. Þá skal tekið fram, að því er hvorki haldið fram í kvörtun A né verður það ráðið af gögnum málsins, að Y sé náinn vinur B. Að öðru leyti skal áréttað, að ekki verður séð af gögnum málsins, að störfum Y og B hafi verið svo háttað innan kirkjunnar, að B hafi verið yfirmaður Y í skilningi 5. tölul. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga, er ákvörðun var tekin um ráðningu B í stöðu forstjóra Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma. Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða mín, að Y hafi ekki verið vanhæfur til meðferðar málsins á framangreindum grundvelli, sbr. 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga. Eins og hér að framan getur, veldur það almennt ekki vanhæfi, þótt starfsmaður hafi átt samstarf við aðila máls. Því síður veldur það því vanhæfi, þótt hann hafi átt samstarf við föður eins af aðilum málsins. Að framansögðu athuguðu og með tilliti til þeirra gagna, sem fyrir mig hafa verið lögð, verður heldur ekki talið, að Y hafi verið vanhæfur á grundvelli 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga, þótt hann innan kirkjunnar hafi átt samstarf við föður eins af umsækjendunum. Þótt Y hafi sömu menntun og einn umsækjendanna um stöðu forstjóra Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma og hafi unnið á sama sviði og hann, veldur það ekki út af fyrir sig vanhæfi Y til meðferðar málsins, enda verður ekki séð, eins og mál þetta er vaxið, að þessar aðstæður feli í sér slíkan hagsmunaárekstur, sem hæfisreglum stjórnsýslulaga er ætlað að fyrirbyggja. Loks telur A, að Y hafi verið vanhæfur til meðferðar málsins, þar sem hann hafi haft fjárhagslegra hagsmuna að gæta af úrlausn þess. A bendir á, að ráðning B í stöðu forstjóra Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma leiði til þess, að faðir hans, X, geti orðið vanhæfur til meðferðar mála í stjórninni, er varði B sérstaklega. Í slíkum tilvikum sitji Y stjórnarfundi og hljóti þóknun fyrir. Samkvæmt 9. gr. laga nr. 36/1993, um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu, situr prófastur fundi kirkjugarðsstjórnar og hefur atkvæðisrétt, þegar tala fundarmanna er jöfn. Prófastar Reykjavíkurprófastsdæma sitja fundi til skiptis sitt árið hvor og eru varamenn hvor fyrir annan. Þótt X sitji sem prófastur fundi stjórnar Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma annað hvert ár og geti þá orðið vanhæfur til meðferðar einstakra mála á framangreindum grundvelli, þannig að Y þurfi sem varamaður hans að taka sæti í stjórninni, liggur ekki fyrir, að þar sé um að ræða svo verulega fjárhagslega hagsmuni, sem Y gæti fyrirsjánlega vænst, að þetta tilvik eigi undir 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga. Með vísan til 2. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga er ég sammála dóms- og kirkjumálaráðuneytinu um, að vægi og eðli þeirra hagsmuna Y, að fá greidd laun fyrir fundarsetu í forföllum X, sé ekki með þeim hætti, að fyrirliggjandi aðstæður hafi almennt verið til þess fallnar að draga úr trú á óhlutdrægni hans til meðferðar málsins. Að mínum dómi var Y því heldur ekki vanhæfur af þessari ástæðu. Að framansögðu athuguðu tel ég ekki tilefni til þess að gera athugasemd við niðurstöðu dóms- og kirkjumálaráðuneytisins að því er snertir hæfi Y, prófasts. 3. Hæfi F. Í kvörtun A er því haldið fram, að F, sem sæti á í stjórn Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma, hafi verið vanhæfur til meðferðar málsins, þar sem hann sé skyldur einum af umsækjendunum. Samkvæmt gögnum málsins er F skyldur B að þriðja lið. Í úrskurði dóms- og kirkjumálaráðuneytisins frá 28. júní 1995 var það niðurstaða ráðuneytisins, að F teldist hvorki hafa verið vanhæfur til meðferðar umrædds máls, á grundvelli 2. tölul. eða 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Samkvæmt 2. tölul. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er starfsmaður vanhæfur til meðferðar máls, ef hann er skyldur aðila málsins að öðrum lið til hliðar. Í athugasemdum í greinargerð við 3. gr. frumvarps þess, er varð að stjórnsýslulögum, segir meðal annars svo: "Ef starfsmaður er tengdur eða skyldur aðila með þeim hætti, sem segir í 2. tölul. ber honum að víkja sæti. Fjarlægari skyldleiki og mægðir við aðila en upp eru talin í 2. tölul. valda almennt ekki vanhæfi komi þar ekkert annað til." (Alþt. 1992, A-deild, bls. 3286.) Samkvæmt 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er starfsmaður vanhæfur til meðferðar máls, ef að öðru leyti eru fyrir hendi þær aðstæður, sem með réttu eru fallnar til þess að draga óhlutdrægni hans í efa. Í athugasemdum í greinargerð við 3. gr. frumvarps þess, er varð að stjórnsýslulögum, segir meðal annars svo: "Þar sem tæknilega er ómögulegt að tilgreina tæmandi allar vanhæfisástæður með hlutlægum hæfisreglum er þörf á þeirri matskenndu hæfisreglu sem fram kemur í 6. tölul. Segja má að reglan í 6. tölul. sé grunnreglan um sérstakt hæfi, en aðrar reglur 1.-5. tölul. nánari útfærsla á henni. Af þessum sökum er gagnályktun frá ákvæðum 1.-5. tölul. ekki tæk þar sem ávallt þarf að skoða hvort tilvik fellur undir 6. tölul. áður en hægt er að slá því föstu að starfsmaður sé hæfur." (Alþt. 1992, A-deild, bls. 3288.) Þar sem F er ekki skyldur B svo náið sem að öðrum lið til hliðar, á 2. tölul. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga ekki við. Eins og fram kemur í þeim lögskýringargögnum, sem rakin eru hér að framan, er gagnályktun almennt ekki tæk frá 1.-5. tölul. 1. mgr. 3. gr. laganna, þar sem almennt ber að kanna sjálfstætt, hvort tilvik geti fallið undir 6. tölul., áður en hægt er að slá því föstu, að starfsmaður sé ekki vanhæfur. Undantekning er þó gerð um tilvik, sem falla undir 2. tölul 1. mgr. 3. gr. laganna. Eins og skýrlega kemur fram í lögskýringargögnum, leiðir fjarlægari skyldleiki og mægðir við aðila en upp eru talin í 2. tölul. almennt ekki til vanhæfis, nema einhverjar aðrar ástæður komi þar einnig til. Samkvæmt framansögðu var F ekki vanhæfur við ráðningu forstjóra Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma vegna skyldleika við B. Þar sem ekki verður ráðið af gögnum málsins að fyrir hafi legið aðrar ástæður, er vanhæfi hans gátu valdið, er ekki tilefni til þess að gera athugasemd við niðurstöðu dóms- og kirkjumálaráðuneytisins í úrskurði þess frá 28. júní 1995, að því er þennan lið varðar. Í kvörtun A er einnig vikið að því, að X, faðir B, sé skyldur F að öðrum lið til hliðar. Í 2. tölul. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga er fjallað um, hvenær starfsmaður verður vanhæfur vegna vensla við aðila máls. Þar sem X sótti ekki um stöðu forstjóra Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma, var hann ekki aðili málsins. Af þeim sökum tekur 2. tölul. 1. mgr. 3. gr. ekki til X. Þá er loks vikið að því, að X sitji fundi stjórnar Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma, sbr. niðurlag 1. mgr. 9. gr. laga nr. 36/1993, og eigi því samstarf við F. Af þessum sökum hafi F verið vanhæfur á grundvelli 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga til meðferðar málsins. Eins og nánar er vikið að hér að framan í V. kafla 2, tel ég, að ganga verði út frá þeirri meginreglu, að það valdi almennt ekki vanhæfi starfsmanns til meðferðar máls, þótt hann hafi starfað með aðila málsins. Þeim mun síður verður það talið valda vanhæfi starfsmanns, þótt umsækjandi um nefnda stöðu sé sonur manns, sem starfsmaður hefur starfað með. 4. Hæfi E. Í kvörtun A er því ennfremur haldið fram, að E, sem sæti á í stjórn Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma, hafi verið vanhæfur til meðferðar málsins um ráðningu forstjóra Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma, þar sem hann sé formaður sóknarnefndar Z-sóknar, en faðir eins umsækjandans, B, sé prestur í Z-sókn. Í úrskurði dóms- og kirkjumálaráðuneytisins frá 28. júní 1995 var það niðurstaða ráðuneytisins, að E hefði ekki haft neinna einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn málsins, er valdið gætu vanhæfi hans við meðferð þess. Samkvæmt 13. gr. laga nr. 25/1985, um kirkjusóknir, safnaðarfundi, sóknarnefndir, héraðsfundi o.fl., skal vera sóknarnefnd í hverri kirkjusókn. Sóknarnefnd er kosin á aðalsafnaðarfundi og sóknarmönnum er almennt skylt að taka við kjöri í sóknarnefnd, eigi lögákveðnar undantekningar laganna ekki við, sbr. 15. og 16. laganna. Að því leyti sem aðalsafnaðarfundur hefur ekki skipt störfum með nefndarmönnum sóknarnefndar, gerir sóknarnefnd það sjálf, sbr. 16. gr. laganna. Með lögum nr. 25/1985 er sóknarnefnd meðal annars falið að vera í fyrirsvari fyrir sóknina gagnvart stjórnvöldum og einstökum mönnum. Hún ber ábyrgð á fjárreiðum sóknar og annast vörslu og ávöxtun á lausafé. Þá sér hún um að viðunandi húsnæði og búnaður sé til guðsþjónustuhalds og annars safnaðarstarfs og hefur umsjón með kirkju og safnaðarheimili safnaðarins, sbr. 19. og 20. gr. laganna. Þá ræður sóknarnefnd starfsmenn kirkjusókna, sbr. 25. gr. laganna. Í lögum nr. 25/1985 er víða mælt fyrir um samstarf sóknarnefndar við sóknarprest, eða á því byggt að um slíkt samstarf sé að ræða. Þannig ber sóknarnefnd t.d. að styðja kirkjulegt starf í sókninni ásamt sóknarpresti og vera sóknarpresti til stuðnings í hvívetna og stuðla að eflingu kristinnar trúar og siðgæðis meðal sóknarmanna, sbr. 13. og 21. gr. laganna. Þá skal sóknarnefnd ásamt sóknarpresti hafa forystu um kirkjubyggingu, endurbyggingu kirkju eða stækkun hennar og byggingu safnaðarheimilis, eftir því sem aðalsafnaðarfundur mælir fyrir um, sbr. 20. gr. laganna. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 44/1987, um veitingu prestakalla, skal biskup auglýsa prestakall, þegar það losnar, nema 3/4 sóknarnefndarmanna og varamanna þeirra ákveði að kalla til tiltekinn prest, sbr. 1., 2. mgr. 2. gr. og 7. gr. laganna. Af ákvæðum V. kafla laga nr. 25/1985, um kirkjusóknir, safnaðarfundi, sóknarnefndir, héraðsfundi o.fl., er ljóst, að formaður sóknarnefndar telst ekki eiginlegur undirmaður sóknarprests í skilningi 5. tölul. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þótt lög nr. 25/1985 mæli fyrir um víðtækt samstarf og samvinnu sóknarnefnda við sóknarprest. Af þessum sökum á 5. tölul. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga ekki við. Eins og nánar er vikið að hér að framan í V. kafla 2, tel ég, að ganga verði út frá þeirri meginreglu, að það valdi almennt ekki vanhæfi starfsmanns til meðferðar máls, þótt hann hafi starfað með aðila málsins. Þeim mun síður verður það talið valda vanhæfi starfsmanns, þótt umsækjandi um nefnda stöðu sé sonur manns, sem starfsmaður hefur starfað með. E var því heldur ekki vanhæfur af þessari ástæðu til meðferðar málsins. Að framansögðu athuguðu, tel ég því heldur ekki tilefni til þess að gera athugasemd við niðurstöðu dóms- og kirkjumálaráðuneytisins að því er þennan þátt kvörtunarinnar snertir. 5. Hæfi X. Þá er því borið við, að X, prófastur, hafi verið vanhæfur til meðferðar málsins og hafi af þeim sökum verið óheimilt að hafa afskipti af málinu. Einn af umsækjendum um stöðu forstjóra Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma var sonur X. Var X því vanhæfur til undirbúnings og meðferðar málsins skv. 2. tölul. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga. Þar sem hér var um matskennda stjórnvaldsákvörðun að ræða, er snerti mikilsverða hagsmuni umsækjenda, verður að telja, að undantekningar 2. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga hafi ekki átt við. Bar stjórn svo og framkvæmdastjórn Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma því að sjá til þess, að X viki sæti við undirbúning og meðferð málsins frá því að ljóst var, að B ætlaði að sækja um stöðuna, sbr. 2. mgr. 4. gr. stjórnsýslulaga. Í gögnum málsins liggja ekki fyrir upplýsingar um, hvort og þá hvenær B hafi lýst því yfir, að hann væri staðráðinn í því að sækja um umrædda stöðu. Eftir að umsókn um stöðuna barst frá B, er aftur á móti ekki vafa undirorpið að faðir hans, X, var vanhæfur til meðferðar málsins. Umsóknarfrestur um stöðuna rann út 28. október 1994. Eins og nánar er rakið í IV. kafla hér að framan, var málið tekið til frekari umræðu á óformlegum fundi framkvæmdastjórnar hinn 5. nóvember 1994. Samkvæmt gögnum málsins sat X ekki þennan fund. Á þessum fundi var tekin ákvörðun um að boða 13 af 33 umsækjendum í viðtal, sem aðalmenn framkvæmdastjórnar önnuðust. X var því ekki heldur viðstaddur viðtöl við umsækjendur. Hinn 15. nóvember 1994 var haldinn formlegur fundur í framkvæmdastjórn. Á fundinum voru allir aðalmenn og varamenn framkvæmdastjórnar, prófastarnir báðir svo og forstjóri og rekstrarstjóri. Í fundargerð er eftirfarandi bókað um mál þetta: "2. Formaður upplýsti, að 33 umsóknir hefðu borist um starf forstjóra. Fjallað yrði um umsóknirnar næstu daga." Í bréfi lögmanns stjórnar Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma, dags. 23. mars 1995, er því haldið fram, að engin efnisleg meðferð hafi farið fram á þessum fundi og engar ákvarðanir hafi heldur verið teknar. Á fundinum hafi einungis verið veittar upplýsingar. Af þessum sökum sé ljóst, að X hafi ekki tekið þátt í meðferð málsins. Í bréfi lögmanns stjórnar Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma, dags. 23. mars 1995, er jafnframt á það bent, að X eigi ekki sæti í framkvæmdastjórn kirkjugarðanna. Aftur á móti sitji hann fundi framkvæmdastjórnar án tillögu- og atkvæðisréttar. Af 1. mgr. 4. gr. stjórnsýslulaga er ljóst, að hæfisreglur stjórnsýslulaga taka ekki einungis til þeirra, sem fara með ákvörðunarvald eða atkvæðisrétt, heldur einnig til þeirra, sem undirbúa mál og taka á annan hátt þátt í meðferð þess. Taka hæfisreglur stjórnsýslulaga því ótvírætt einnig til þeirra, sem sitja fundi stjórnsýslunefnda án tillögu- og atkvæðisréttar. Tel ég því ótvírætt, að hæfisreglur stjórnsýslulaga hafi tekið til X, er hann sat fundi framkvæmdastjórnar. Eins og hér að framan greinir, var X vanhæfur til meðferðar málsins. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. skal nefndarmaður, sem vanhæfur er til meðferðar máls, yfirgefa fundarsal við afgreiðslu þess. Bar X því að víkja af fundi, er mál þetta var tekið til umræðu. Eins og fram kemur í athugasemdum við 4. gr. frumvarps þess, er varð að stjórnsýslulögum nr. 37/1993, er ákvæðið byggt á því sjónarmiði, að með nærveru sinni geti vanhæfur nefndarmaður haft áhrif á afgreiðslu málsins, en almennt megi búast við því, að umræður nefndarmanna um málið verði mjög þvingaðar í návist manns, sem hefur hagsmuni af úrlausn þess (Alþt. 1992, A-deild, bls. 3290). Jafnframt fellur þessi regla vel að markmiði hæfisreglnanna, sem er ekki eingöngu að koma í veg fyrir að ómálefnaleg sjónarmið hafi áhrif á efni stjórnvaldsákvarðana, heldur einnig að stuðla að því, að almenningur og þeir, sem hlut eiga að máli, geti treyst því að stjórnvöld leysi úr málum á hlutlægan hátt (Alþt. 1992, A-deild, bls. 3285). Að framansögðu athuguðu tel ég því, að X hafi borið að víkja af fundi, er málefni, sem snertu ráðningu í stöðu forstjóra Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma, bar á góma. Í því sambandi skipti ekki máli, þótt markmiðið hafi aðallega verið að kynna stöðu málsins, enda átti ákvæði 2. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga við, eins og áður segir. Eins og nánar er rakið í IV. kafla hér að framan, var tekin sú ákvörðun á óformlegum fundi framkvæmdastjórnar hinn 22. nóvember 1994 að leggja nöfn fimm tilgreindra umsækjenda fyrir stjórn Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma og greiða atkvæði um þá. Þennan fund sat X ekki. Hinn 29. nóvember 1994 var haldinn formlegur fundur í framkvæmdastjórn. Þennan fund sat X. Í fundargerð er bókað: "2. Rætt um undirbúning að stjórnarfundi sem boðaður hefur verið kl 20 í kvöld. Dagskrá fundarins hefur verið send út með fundarboði. Fleira gerðist ekki á fundinum, fundi slitið." Í bréfi lögmanns Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma, dags. 23. mars 1995, er tekið fram, að ekkert hafi verið fjallað eða bókað um ráðningu forstjóra á þessum fundi. Í gögnum málsins liggja ekki fyrir upplýsingar, er ganga í aðra átt. Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða mín, að X hafi verið vanhæfur til meðferðar málsins á grundvelli 2. tölul. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga. Bar honum því að víkja af fundi framkvæmdastjórnar hinn 15. nóvember 1994, þegar málefni, er snertu ráðningu í stöðu forstjóra Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma, bar á góma. Þegar litið er til þess, að umfjöllun um málið á þessum fundi virðist aðallega hafa verið til þess að kynna stöðu málsins og ekki verður séð, að neinar ákvarðanir hafi verið teknar um efni eða meðferð þess, er ekki ástæða til að ætla, að þessi annmarki hafi haft áhrif á úrlausn málsins. Af þeim sökum tel ég, að þessi annmarki haggi ekki við gildi ákvörðunar stjórnar Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma um ráðningu forstjóra. 6. Hæfi biskups Íslands Loks telur A, að biskup Íslands hafi verið vanhæfur til meðferðar málsins, þar sem hann sé verndari kirkju og presta og haldi því eðlilega uppi vörnum fyrir prófastana í málinu. Eins og rakið er í V. kafla 1, markaði löggjafinn þá stefnu með setningu laga nr. 64/1932, að fela ekki sveitarstjórnum umsjón kirkjugarða, þar sem talið var, að sveitarfélögin hefðu ærinn starfa fyrir. Var talið rétt að fela sóknarnefndum umsjón kirkjugarða. Í 1. mgr. 8. gr. laga nr. 36/1993, um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu, er lögfest, að kirkjugarðar þjóðkirkjunnar séu undir yfirstjórn biskups. Af þessu ákvæði svo og 26. gr. stjórnsýslulaga leiðir, að málskotsheimild er til biskups Íslands. Ekkert liggur fyrir í málinu um, að biskup Íslands hafi sjálfur haft hagsmuna að gæta af úrlausn málsins eða hafi áður komið að því með þeim hætti, að það hafi gert hann vanhæfan til þess að leggja úrskurð á það. Þótt biskup Íslands fari samkvæmt framansögðu með yfirstjórn kirkjugarða þjóðkirkjunnar og einnig með yfirstjórn þjóðkirkjunnar, sbr. 36. gr. laga nr. 62/1990, um skipan prestakalla og prófastsdæma og um starfsmenn þjóðkirkju Íslands, gat það að mínum dómi ekki valdið vanhæfi hans til meðferðar umrædds máls, enda liggur ekki fyrir að þessi verkefni biskups hafi verið ósamrýmanleg í málinu. 7. Staða og starfshættir framkvæmdastjórnar. Ég tel sérstaka ástæðu til þess að víkja nokkrum orðum að stöðu og starfsháttum framkvæmdastjórnar. Samkvæmt reglum nr. 241/1995, fyrir Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma, er stjórninni heimilt að fela sérstakri framkvæmdastjórn að annast þau verkefni, sem tilgreind eru í reglunum. Um skipan framkvæmdastjórnar fer skv. 8. gr. reglnanna og í 9. gr. þeirra er fjallað um helstu verkefni framkvæmdastjórnar. Þegar ráðning fór fram í stöðu forstjóra Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma, höfðu reglur nr. 241/1995 ekki verið settar á grundvelli 51. gr. laga nr. 36/1993, um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu, og ekki var heldur til að dreifa öðrum gildum stjórnvaldsfyrirmælum, er snertu stöðu og starfssvið framkvæmdastjórnar. Ég tel þó ekki efni til að gagnrýna kirkjugarðsstjórn fyrir að hafa falið framkvæmdastjórn að undirbúa umrætt mál fyrir fund kirkjugarðsstjórnar við þessar aðstæður, þar sem kirkjugarðsstjórn var heimilt samkvæmt óskráðum meginreglum stjórnsýsluréttar, að fela undirnefnd að undirbúa mál fyrir næsta fund kirkjugarðsstjórnar. Ég tel ekki ástæðu til að víkja frekar að stöðu og störfum framkvæmdastjórnar á umræddum tíma. Að því er snertir starfshætti og málsmeðferð framkvæmdastjórnar, þá liggur ekki fyrir í gögnum málsins að hún hafi tekið formlega afstöðu til hæfis til meðferðar málsins skv. 4. mgr. 5. gr. stjórnsýslulaga. Samkvæmt þeim gögnum og skýringum, sem veittar hafa verið af hálfu stjórnar Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma, er ljóst, að framkvæmdastjórn fjallaði um málið á nokkrum "óformlegum fundum", þar sem X var ekki viðstaddur. Eins og fram kemur í IV. kafla hér að framan, virðist mega ráða, að á þessum fundum hafi flestar ákvarðanir verið teknar um meðferð málsins. Ekki var haldin fundargerð um þessa fundi, en það er aftur á móti gert um reglulega fundi framkvæmdastjórnar. Um fyrrnefnda fundi og þær ákvarðanir, sem teknar voru á þeim, nýtur því ekki við upplýsinga úr öðrum gögnum en minnispunktum framkvæmdastjórnarmanna og bréfum lögmanna stjórnar Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma. Þegar vafi leikur á hæfi nefndarmanns eða annars þess, sem rétt á til fundarsetu, ber hlutaðeigandi að vekja athygli formanns án tafar á þeim ástæðum, er kunna að valda vanhæfi hans, sbr. 3. mgr. 5. gr. stjórnsýslulaga. Ber formanni nefndar síðan að taka málið til meðferðar á fundi, þar sem skera ber úr um hæfi nefndarmanns, að honum fjarstöddum, sbr. 2. mgr. 4. gr. og 4. mgr. 5. gr. stjórnsýslulaga. Formanni nefndar ber einnig að taka mál til meðferðar, berist ábending frá öðrum eða þegar hann veit sjálfur að vafi kann að leika á hæfi nefndarmanns. Telji meirihluti nefndar nefndarmann vanhæfan, tekur hann ekki frekari þátt í meðferð málsins og víkur af fundum nefndarinnar, þegar um málið er fjallað, sbr. 2. mgr. 4. gr. stjórnsýslulaga. Í athugasemd í greinargerð við 4. gr. frumvarps þess, er varð að stjórnsýslulögum, segir að færa beri til bókar, að nefndarmaður hafi vikið af fundi, niðurstöðu nefndarinnar um hæfi nefndarmannsins, svo og hver taki sæti í nefndinni, til að tryggja sönnun fyrir því að hæfisreglunum hafi verið fylgt (Alþt. 1992, A-deild, bls. 3290). Að því búnu ber að taka málið til frekari meðferðar og úrlausnar, eftir atvikum þegar kallaður hefur verið til varamaður þess, er vék sæti. Ég tel ástæðu til að gagnrýna, að ekki skuli hafa verið farið eftir framangreindum ákvæðum 4. og 5. gr. stjórnsýslulaga við meðferð málsins, heldur þess í stað fjallað um málið án þátttöku X á "óformlegum fundum", sem ekki voru færðir til bókar. Þá var þess ekki gætt, að X viki af fundi framkvæmdastjórnar hinn 15. nóvember 1995, er málið bar á góma, eins og áður segir. Þessi málsmeðferð, sem var andstæð ákvæðum 4. og 5. gr. stjórnsýslulaga, var til þess fallin að valda tortryggni um, að þær ákvarðanir, sem teknar voru um meðferð og úrlausn málsins, hefðu verið byggðar á málefnalegum sjónarmiðum. Ég tel sérstaka ástæðu til að árétta, að almennt er ekki nægjanlegt að komið sé í veg fyrir að vanhæfur maður taki þátt í meðferð máls, heldur verður jafnframt að viðhafa þá málsmeðferð, að almennt liggi ljóst fyrir, að farið hafi verið að lögum." VI. Niðurstaða álits míns, dags. 12. júní 1996, var svohljóðandi: "Niðurstaða. Það er niðurstaða mín, í tilefni af þeirri kvörtun, sem hér að framan hefur verið fjallað um, að Y, F og E hafi ekki verið vanhæfir til meðferðar máls um ráðningu í stöðu forstjóra Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma. Þá er það niðurstaða mín, að biskup Íslands hafi heldur ekki verið vanhæfur til meðferðar málsins, er því var skotið til úrskurðar hans skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 36/1993, um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu. Það er aftur á móti niðurstaða mín, að X hafi verið vanhæfur til meðferðar málsins í framkvæmdastjórn og stjórn Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma skv. 2. tölul. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga, þar sem einn af umsækjendum um stöðu forstjóra var sonur hans. Aftur á móti liggur ekki fyrir í gögnum málsins að X hafi tekið þátt í meðferð og úrlausn málsins, ef frá er talinn fundur framkvæmdastjórnar hinn 15. nóvember 1994. Þar sem X var vanhæfur til meðferðar málsins, bar honum að víkja af þessum fundi framkvæmdastjórnar, þegar málefni, er snertu ráðningu í stöðu forstjóra Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma, bar á góma. Þegar litið er til þess, að umfjöllun um málið á þessum fundi virðist aðallega hafa verið til þess að kynna stöðu málsins, og ekki verður séð, að neinar ákvarðanir hafi verið teknar um efni eða meðferð málsins, er ekki ástæða til að ætla að þessi annmarki hafi haft áhrif á úrlausn þess. Af þeim sökum tel ég, að þessi annmarki haggi ekki við gildi ákvörðunar stjórnar Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma um ráðningu á forstjóra. Loks tel ég ástæðu til að gagnrýna, að framkvæmdastjórn fylgdi ekki ákvæðum 4. og 5. gr. stjórnsýslulaga við meðferð málsins. Í þess stað fjallaði hún um málið án þátttöku X á "óformlegum fundum", sem ekki voru færðir til bókar. Þessi málsmeðferð var til þess fallin að valda tortryggni um, að þær ákvarðanir, sem teknar voru um meðferð og úrlausn málsins, hefðu verið byggðar á málefnalegum sjónarmiðum. Ég tel sérstaka ástæðu til að árétta, að almennt er ekki nægjanlegt að komið sé í veg fyrir að vanhæfur maður taki þátt í meðferð máls, heldur verður jafnframt að viðhafa þá málsmeðferð að almennt liggi ljóst fyrir, að farið hafi verið að lögum."