Sjúklingatrygging. Örorkubætur. Skýrleiki laga. Breytt stjórnsýsluframkvæmd.

(Mál nr. 1710/1996)

A kvartaði yfir úrskurði tryggingaráðs þar sem beiðni hennar um endurskoðun örorkumats var hafnað. Í málinu reyndi á skýringu d-liðar 2. mgr. 43. gr. laga nr. 117/1993 um almannatryggingar, þar sem segir að saman megi fara örorkulífeyrir/slysalífeyrir og bætur samkvæmt svonefndri sjúklingatryggingu, skv. f-lið 1. mgr. 24. gr. laganna. A hafði fengið greiddan örorkulífeyri á grundvelli 12. gr. laganna og örorkubætur samkvæmt f-lið 1. mgr. 24. gr. laganna vegna afleiðinga læknisaðgerðar. Síðar breytti tryggingaráð túlkun sinni á ákvæði 43. gr. laganna á þá leið, að aðeins í þeim tilvikum að "bótagrundvöllur ætti sér ekki sömu rætur" gætu örorkulífeyrir og bætur samkvæmt sjúklingatryggingu farið saman. Í skýringum tryggingaráðs til umboðsmanns kom fram að hér væri fylgt leiðbeiningum heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins um túlkun greinarinnar. Væri markmið ákvæðisins að tryggja, að einstaklingur sem nyti örorkubóta og yrði fyrir tjóni sem sjúklingatrygging bætti, fengi bætur vegna þess tjóns. Hins vegar væri tilgangur ákvæðisins ekki sá að greiða tvenns konar örorkubætur vegna sama atburðar. Í úrskurði tryggingaráðs var tekið fram að tjón A hefði verið tvíbætt, en endurgreiðslu yrði ekki krafist. Umboðsmaður rakti þau ákvæði almannatryggingalaga sem mál þetta laut að og benti á, að ákvæði d-liðar 2. mgr. 43. gr. laganna væri óskýrt og ómarkvisst. Þrátt fyrir óskýrt orðalag taldi umboðsmaður ákvæðið gefa til kynna að menn gætu samtímis átt rétt til örorkulífeyris samkvæmt 12. gr. laganna og til örorkubóta eða örorkulífeyris samkvæmt f-lið 24. gr. og væri ákvæðið túlkað þannig af yfirvöldum tryggingamála með þeim fyrirvara að ekki væri um sama atburð að ræða. Umboðsmaður tók fram, að sú takmörkun kæmi hvergi fram í lögskýringargögnum og ótvíræð lagarök hefðu ekki verið færð fram til stuðnings henni. Skýring sú sem fylgt hefði verið í upphafi hefði hins vegar samrýmst orðalagi ákvæðisins og lögskýringargögnum. Niðurstaða umboðsmanns var að það hefði ekki verið á valdi yfirvalda tryggingamála að hverfa frá upphaflegri framkvæmd nema samkvæmt lagaheimild. Beindi umboðsmaður þeim tilmælum til tryggingaráðs að taka til meðferðar á ný kröfu A um endurskoðun örorkumats, færi hún fram á það. Þá ítrekaði umboðsmaður nauðsyn þess að ákvæði um sjúklingatryggingar yrðu skýrari í endurskoðuðum lögum um almannatryggingar.

I. Hinn 27. febrúar 1996 leitaði til mín A. Kvartaði hún yfir úrskurði tryggingaráðs frá 22. september 1995, þar sem beiðni hennar um endurskoðun örorkumats frá 9. febrúar 1995 var hafnað. II. Í úrskurði tryggingaráðs er atvikum máls þessa lýst svo: "Málavextir eru þeir, að [A] gekkst undir brjóstaminnkunaraðgerð á Landspítalanum þann 22. ágúst 1991. Í kjölfar aðgerðar fékk hún útbreitt drep í hægra brjóst, aðallega svæðið í kringum og utan við geirvörtuna. Því þurfti að framkvæma lagfæringarskurðaðgerð u.þ.b. mánuði seinna. Þá hefur [A] farið í fjölda lýtaaðgerða á brjóstum síðan. [A] hefur notið örorkulífeyris frá 1. júlí 1993 í framhaldi aðgerðanna. Þá var hún metin til 10% varanlegrar örorku svo sem áður segir 9. febrúar 1995. Við það mat unir [A] ekki...." Með bréfi, dags. 11. júní 1995, kærði lögmaður A örorkumatið frá 9. febrúar 1995 til tryggingaráðs. Í úrskurði tryggingaráðs kemur fram, að greinargerð sjúkra- og slysatryggingadeildar, dags. 28. júlí 1995, hafi verið send hlutaðeigandi, en engar athugasemdir hafi borist. Síðan segir í úrskurðinum: "[A] nýtur frá 1. júlí 1993 örorkulífeyris skv. 12. gr. laga nr. 117/1993 ásamt tengdum bótum í kjölfar brjóstaminnkunaraðgerðar. Þá var [A] metin 10% varanleg örorka skv. f-lið 1. mgr. 24. gr. laga nr. 117/1993 (áður 67/1971) þann 9. febrúar 1995. Þær bætur hafa þegar verið greiddar. Í d-lið 2. mgr. 43. gr. laga nr. 117/1993 segir að saman megi fara örorkulífeyrir/slysalífeyrir og bætur skv. f-lið 1. mgr. 24. gr. Sambærilegt ákvæði var ekki að finna í eldri lögum, þ.e. bætur þessar fóru ekki saman. Lögin eru túlkuð þannig að aðeins í þeim tilvikum geti farið saman lífeyrisgreiðslur og bætur skv. f-lið að bótagrundvöllur eigi sér ekki sömu rætur. Samkvæmt framansögðu á [A] ekki rétt til bóta skv. f-lið 1. mgr. 24. gr. laga nr. 117/1993 sbr. d-lið 2. mgr. 43. gr. s.l. þar sem bótagrundvöllur er rakinn til sama tilviks, þ.e. læknisaðgerðar 22. ágúst 1991. Hefur tjón [A] því verið tvíbætt. Ekki hafa verið lögð fram nein gögn sem benda til þess að endurmeta skuli örorku. Tryggingaráð mun ekki setja fram kröfu um endurgreiðslu. [...] Því úrskurðast ÚRSKURÐARORÐ: Beiðni [A], um endurskoðað örorkumat frá 9. febrúar 1995 er hafnað." Í greinargerð, sem fylgdi kvörtun A til mín, kemur fram, að tryggingaráð hafi ritað lögfræðingi hennar bréf 15. september 1995, þar sem frestur til að koma að viðbótargögnum eða athugasemdum hafi verið tiltekinn 20. september 1995, ef ekki bærist ósk um rýmri frest. Næsti fundur tryggingaráðs yrði haldinn föstudaginn 22. september 1995. Bréfið hafi hins vegar ekki borist lögfræðingi hennar fyrr en fimmtudaginn 25. september 1995 og þegar haft hafi verið samband símleiðis, hafi tryggingaráð verið búið að úrskurða í málinu. Þá kemur fram í greinargerð A, að hún geti ekki unað túlkun tryggingaráðs á d-lið 2. mgr. 43. gr. laga nr. 117/1993, um almannatryggingar. Hún hafi fengið eingreiðslu vegna 10% örorku, en engar breytingar eða viðbætur hafi orðið á lögunum að þessu leyti síðan 1993. Tryggingastofnun hafi greitt sjúklingum eingreiðslur, þó að bótagrundvöllur ætti sér sömu rætur, en um haustið 1995 hafi lögin fyrst verið túlkuð á þann veg, að bótagrundvöllur mætti ekki eiga sér sömu rætur. Sjúklingatryggingu hafi verið komið á til að veita sjúklingum betri rétt til fébóta fyrir heilsutjón en þeir höfðu áður. Teljist túlkun tryggingaráðs á lögunum rétt, hafi Tryggingastofnun ríkisins tvíbætt tjón sjúklinga í að minnsta kosti tvö ár og betri réttur til fébóta vegna heilsutjóns sé þá að engu orðinn. Loks telur A gögn máls hennar hafa verið rangtúlkuð í meðferð Tryggingastofnunar ríkisins og tryggingaráðs. III. Ég ritaði tryggingaráði bréf 12. mars 1995 og óskaði eftir því, sbr. 7. og 9. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis, að tryggingaráð skýrði viðhorf sitt til kvörtunar A og léti mér í té gögn málsins. Sérstaklega óskaði ég upplýst, með hvaða hætti tryggingaráð tilkynnti A um frest til að koma að viðbótargögnum eða athugasemdum í málinu. Umbeðin gögn bárust mér með bréfi, dags. 10. apríl 1996. Samkvæmt bréfinu taldi tryggingaráð, að það hefði, a.m.k. að svo stöddu, engu við úrskurð sinn að bæta. Um tilkynningu um frest til að koma að viðbótargögnum eða athugasemdum segir í bréfi tryggingaráðs, að bréf þar að lútandi hafi verið sent þeim lögmanni, sem borið hafi fram kæru. Ég ritaði tryggingaráði á ný 8. júlí 1996 og óskaði að ráðið upplýsti, hvort sú niðurstaða tryggingaráðs, að hafna beiðni A um endurskoðun örorkumats, byggðist á túlkun ráðsins á d-lið 2. mgr. 43. gr. laga nr. 117/1993 og, ef svo væri, var þess óskað, að tryggingaráð gerði frekari grein fyrir túlkun sinni, meðal annars með hliðsjón af því, að A hefði þegar fengið bætur greiddar á þeim grundvelli, að umræddar bætur gætu farið saman. Jafnframt var þess óskað, að tryggingaráð skýrði viðhorf sitt til þeirra athugasemda A, er varða túlkun þeirra gagna, sem fyrir lágu í málinu. Í svarbréfi tryggingaráðs, dags. 12. ágúst 1996, er staðfest, að niðurstaða í málinu byggist á túlkun ráðsins á d-lið 2. mgr. 43. gr. laga nr. 117/1993. Síðan segir í bréfinu: "Ákvæði þetta kom inn í almannatryggingalög með lögum nr. 117/1993. Fyrir þann tíma áttu örorkulífeyrisþegar sem urðu fyrir heilsutjóni engan rétt til bóta skv. sjúklingatryggingu. Hvorki í lögum nr. 117/1993 né greinargerð með þeim er nánari skýring hvernig túlka beri umrætt ákvæði. Því var það að slysatryggingadeild ritaði heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu bréf þann 6. apríl 1995 [...] varðandi túlkun þess. Í svarbréfi ráðuneytisins dags. 23. ágúst 1995 segir m.a: "Með þeirri breytingu sem gerð var á almannatryggingalögum um að saman gætu farið örorkubætur/slysabætur og bætur skv. f-lið 1. mgr. 24. gr., þ.e. bætur skv. sjúklingatryggingu, átti að tryggja að einstaklingur sem nyti örorkubóta en yrði fyrir tjóni sem sjúklingatrygging bætir, fengi bætur vegna þess tjóns." Tryggingaráð er sammála þeirri túlkun ráðuneytisins að þeir sem eru öryrkjar fyrir, er hinn bótaskyldi atburður á sér stað, skuli vera jafnsettir öðrum, að því er bótarétt skv. sjúklingatryggingu varðar. Tilgangur ákvæðisins sé hins vegar ekki sá að greiða tvenns konar örorkubætur vegna sama atburðar þ.e. að ekki skuli greiða bæði almennan örorkulífeyri og bætur skv. sjúklingatryggingu. Hins vegar voru nokkur mál afgreidd þannig af læknadeild og slysatryggingadeild, að fólk fékk bæði almennan örorkulífeyri og bætur skv. sjúklingatryggingu vegna sama atburðar, sbr. bréf [...], dags. 30. ágúst 1995 [...]. Þeirra á meðal var mál [A]." Loks segir í bréfi tryggingaráðs, að því miður sé ekki ljóst, hvað átt sé við með þeirri ósk, að tryggingaráð skýri viðhorf sitt til þeirra athugasemda A, er varði túlkun gagna málsins. Bréfi tryggingaráðs fylgdu tilvitnuð bréf Tryggingastofnunar ríkisins til heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins, dags. 6. apríl 1995, og svarbréf ráðuneytisins, dags. 23. ágúst 1995. Bréf tryggingastofnunar hljóðar svo: "Í 43. gr. 2. mgr. d. lið almannatryggingalaga segir að saman geti farið örorkubætur/slysalífeyrir og bætur skv. f. lið 1. mgr. 24. gr. þ.e. bætur skv. sjúklingatryggingu. Það hefur valdið nokkrum vafa hvernig túlka beri þetta ákvæði. Slysatryggingadeild TR telur að ákvæðið beri að skýra svo að þeir sem fengu greiddan lífeyri áður en til kom það atvik sem bæta skal skv. sjúklingatryggingu skuli fá bætur skv. sjúklingatryggingu samhliða lífeyrisgreiðslum. Einnig að þessar bætur geti farið saman þegar orsök bótagreiðslna er af ólíkum toga. T.d. 50% almennur lífeyrir vegna meins í handlegg og 20% eingreiðsla úr sjúklingatryggingu vegna sýkingar eftir aðgerð á fæti. Hins vegar að þeir sem fara í einhvers konar læknismeðferð en hljóta ekki bata og eru settir á almenna örorku í kjölfarið, geti ekki jafnframt fengið eingreiðslu skv. sjúklingatryggingu vegna sömu vanheilsu. Það er mat slysatryggingadeildar að ekki eigi að greiða bæði bætur vegna almennrar örorku (eða slysaörorku) og bætur skv. sjúklingatryggingu út af sama tilefni. Þar sem ekki verður ráðið af ákvæðinu sjálfu hver tilgangur og vilji löggjafans var óskar slysatryggingadeild eftir túlkun ráðuneytisins á [43.] gr. 2. mgr. d. lið ATL." Svarbréf heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins, dags. 23. ágúst 1995, hljóðar svo: "Vegna erindisins vill ráðuneytið taka fram eftirfarandi: Með þeirri breytingu sem gerð var á almannatryggingalögum um að saman gætu farið örorkubætur/slysabætur og bætur skv. f-lið 1. mgr. 24. gr. þ.e. bætur skv. sjúklingatryggingu, áttu að tryggja að einstaklingur sem nyti örorkubóta en yrði fyrir tjóni sem sjúklingatrygging bætir, fengi bætur vegna þess tjóns. Í bréfi Tryggingastofnunar segir: "Hins vegar að þeir sem fara í einhvers konar læknismeðferð en hljóta ekki bata og eru settir á almenna örorku í kjölfarið, geta ekki jafnframt fengið eingreiðslu skv. sjúklingatryggingu vegna sömu vanheilsu." Vegna þessa vill ráðuneytið benda á að í þessu sambandi skiptir máli hver er ástæða læknismeðferðarinnar. Ef mistök eða önnur þau tilvik sem sjúklingatryggingin nær til er ástæða læknismeðferðarinnar, telur ráðuneytið að fyrst eigi að athuga hvort hlutaðeigandi eigi bætur skv. sjúklingatryggingu. Sé svo, ber að greiða viðkomandi bætur skv. þeirri tryggingu, eingreiðslu eða varanlega örorkugreiðslu. [...]" Bréfi tryggingaráðs fylgdi jafnframt bréf Tryggingastofnunar ríkisins frá 30. ágúst 1995. Þar er gerð grein fyrir ákvörðunum Tryggingastofnunar ríkisins vegna mála, þar sem örorka samkvæmt 12. gr. og bótaréttur samkvæmt f-lið 24. gr. laga nr. 117/1993 stafa af sama atburði. Þar segir: "Þann 7. apríl s.l. var haldinn fundur með fulltrúum frá slysatryggingadeild og læknadeild um sjúklingatryggingu. Á þeim fundi voru kynntir nýir starfshættir varðandi afgreiðslu á málum úr sjúklingatryggingu, þess efnis að ekki verði greidd eingreiðsla úr sjúklingatryggingaákvæði ATL þegar jafnframt er búið að úrskurða almenna örorku til handa sjúklingi út af sama atburði. Jafnframt var ákveðið að greiða eingreiðslu í þremur málum vegna sjúklingatryggingar þar sem jafnframt hafði verið búið að úrskurða almenna örorku vegna sama atburðar. Var sú ákvörðun tekin að höfðu samráði við forstjóra þar sem búið var að upplýsa fólkið um hversu mikla örorku það væri úrskurðað vegna sjúklingatryggingar og höfðu upphæðir í krónum talið jafnframt verið nefndar við fólkið í því sambandi. Í kjölfar þessarar atburðarásar voru teknir upp nýir og breyttir starfshættir sem áttu að tryggja það að slíkir atburðir gætu ekki hent sig aftur. Nýju verklagsreglurnar eru einkum fólgnar í því að strax í byrjun er gengið úr skugga um það hvort sjúklingur hafi almenna örorku og ef svo er, þá athugað út af hverju hún stafi og þá jafnframt kannað hvort hún stafi út af sama atburði og meint kæra vegna sjúklingatryggingaákvæðis gefur til kynna. Ef svo er getur ekki orðið um eingreiðslu að ræða heldur á almenna örorkan að brúa þetta bil. Þetta breytir engu varðandi þá sem hafa almenna örorku sem stafar út af öðru en meintur tryggingaatburður gefur til kynna sbr. ákvæði í 2. mgr. d. liðar 43. gr. ATL. [...] Öryrkjar geta því átt rétt á eingreiðslu úr sjúklingatryggingaákvæði svo lengi sem örorkan stafar ekki út af sama atburði og kæra vegna sjúklingatryggingar." IV. Niðurstaða álits míns frá 19. febrúar 1997, var svohljóðandi: "Kvörtun A beinist að túlkun Tryggingastofnunar ríkisins og tryggingaráðs á d-lið 2. mgr. 43. gr. laga nr. 117/1993, um almannatryggingar, og synjun tryggingaráðs um endurskoðun örorkumats frá 9. febrúar 1995, þar sem örorka hennar var metin 10% af tryggingayfirlækni. Samkvæmt 2. mgr. 43. gr. laga nr. 117/1993 getur enginn samtímis notið nema einnar tegundar greiddra bóta samkvæmt lögunum. Saman mega þó fara örorkulífeyrir/slysalífeyrir og bætur samkvæmt f-lið 1. mgr. 24. gr. laganna, sbr. d-lið 2. mgr. 43. gr. laga nr. 117/1993. Framangreinda heimild var ekki að finna í eldri lögum um almannatryggingar. Í lögskýringargögnum er ekki vikið að túlkun ákvæðisins með tilliti til þess álitaefnis, sem hér um ræðir, þ.e. þegar orsök bótagreiðslna stafar af sama tilviki. Eins og rakið hefur verið hér að framan, leitaði Tryggingastofnun ríkisins til heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins um túlkun ákvæðisins, þegar svo háttar. Í svari ráðuneytisins frá 23. ágúst 1995 segir, að bætur samkvæmt f-lið 1. mgr. 24. gr. laga nr. 117/1993, þ.e. slysatryggingabætur til sjúklinga, hafi átt að tryggja að einstaklingur, sem nyti örorkubóta en yrði fyrir tjóni, sem sjúklingatrygging bætti, fengi bætur vegna þess tjóns. Um þá túlkun Tryggingastofnunar ríkisins, að almennur örorkulífeyrir verði ekki greiddur samhliða sjúklingatryggingu vegna sömu vanheilsu segir í bréfi ráðuneytisins: "Vegna þessa vill ráðuneytið benda á að í þessu sambandi skiptir máli hver er ástæða læknismeðferðarinnar. Ef mistök eða önnur þau tilvik sem sjúklingatryggingin nær til er ástæða læknismeðferðarinnar, telur ráðuneytið að fyrst eigi að athuga hvort hlutaðeigandi eigi bætur skv. sjúklingatryggingu. Sé svo, ber að greiða viðkomandi bætur skv. þeirri tryggingu, eingreiðslu eða varanlega örorkugreiðslu." Í bréfi tryggingaráðs til mín frá 12. ágúst 1996 túlkar tryggingaráð fyrri hluta svars ráðuneytisins svo, að þeir, sem eru öryrkjar fyrir, skuli vera jafnsettir öðrum, að því er bótarétt skv. sjúklingatryggingu varðar. Í bréfi tryggingaráðs er hins vegar ekki vikið að síðari hluta svars ráðuneytisins, sem rakið er hér að framan, heldur vísað til þess, að tilgangur ákvæðisins sé ekki sá að greiða tvenns konar örorkubætur, almennar örorkubætur og bætur skv. sjúklingatryggingu vegna sama atburðar. Fram er komið í máli þessu, að Tryggingastofnun ríkisins hefur greitt A bæði örorkulífeyri á grundvelli 12. gr. laga nr. 117/1993 og örorkubætur skv. f-lið 24. gr. og 29. gr. sömu laga. Síðarnefndar bætur voru greiddar í eitt skipti fyrir öll, en lífeyrisgreiðslurnar eru viðvarandi og munu standa svo lengi sem örorka nær því stigi, sem áskilið er í 12. gr. Jafnframt liggur fyrir, að endurkrafa verður ekki gerð á hendur A, þrátt fyrir þá niðurstöðu tryggingaráðs í úrskurði þess frá 22. september 1995, að hún hafi ekki átt rétt til hvorra tveggja þessara bóta. Þar sem síðastgreind niðurstaða tryggingaráðs um rétt A til bóta kann að girða fyrir, að yfirvöld tryggingamála taki beiðni hennar um endurskoðun örorkumats til meðferðar að efni til, tel ég ástæðu til að fjalla nánar um það álitamál, sem samkvæmt framansögðu hefur risið um skýringu á d-lið 43. gr. laga nr. 117/1993. Slysatryggðir skv. f-lið 1. mgr. 24. gr. laga nr. 117/1993 eru sjúklingar, sem eru til meðferðar á sjúkrastofnunum, sem starfa samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu, og heilsutjónið eða örorkan er vegna læknisaðgerða eða mistaka starfsfólks, sem starfar á þessum stofnunum. Ekki er deilt um bótaskyldu samkvæmt ákvæðinu í máli þessu, heldur hvort slíkar bætur verði greiddar samhliða örorkulífeyri lífeyristrygginga, sbr. 12. gr. laga nr. 117/1993. Niðurstaða um það ræðst af skýringu á 43. gr. sömu laga. Ákvæði 2. mgr. 43. gr. laga nr. 117/1993 geyma þá meginreglu, að enginn geti samtímis notið nema einnar tegundar bóta samkvæmt lögunum. Undantekning er þó gerð í sama lagaákvæði um tilteknar bætur, sbr. a-e-liði 2. mgr. 43. gr. Hér skiptir máli d-liður, en samkvæmt þeim lið mega fara saman "örorkulífeyrir/slysalífeyrir og bætur skv. f-lið 24. gr." Með örorkulífeyri í d-lið 43. gr. hlýtur að vera átt við örorkulífeyri skv. 12. gr. laga nr. 117/1993, sem fellur undir lífeyristryggingar í II. kafla þeirra laga. Með slysalífeyri í d-lið 43. gr. getur naumast verið átt við annað en örorkubætur eða örorkulífeyri skv. 29. gr. laga nr. 117/1993, en þær bætur teljast til slysatrygginga skv. III. kafla laganna og er mælt fyrir um rétt til þeirra meðal annars í 24. gr., þar á meðal í f-lið 24. gr., sem reynir á í máli þessu og er grundvöllur örorkubóta eða örorkulífeyris slysatrygginga, sbr. nánar 29. gr. laganna. Eftir orðum d-liðar 2. mgr. 43. gr. er þannig tekið fram, að sömu bætur geti farið saman og er d-liður að þessu leyti óskýr. Þar við bætist, að skírskotun d-liðar 2. mgr. 43. gr. til bóta skv. f-lið 1. mgr. 24. gr. er ómarkviss, þar sem síðargreint lagaákvæði geymir ekki fyrirmæli um það, hvaða bætur skuli greiddar, heldur aðeins um það, hverjir eigi rétt til bóta og í hvaða tilvikum. Þótt d-liður 2. mgr. 43. gr. laga nr. 117/1993 sé óskýr að því leyti sem að framan greinir, gefur orðalagið til kynna, að menn geti átt samtímis rétt til örorkulífeyris skv. 12. gr. laganna og til örorkubóta eða örorkulífeyris skv. f-lið 24. gr., sbr. 29. gr. laganna. Er út af fyrir sig á það fallist af yfirvöldum tryggingamála með þeim fyrirvara, sem fyrr greinir, að bætur sé að rekja til mismunandi atvika. Sú takmörkun kemur hvergi fram í lögskýringargögnum og ekki hefur verið vísað til neinna lagaraka, sem styðji þá takmörkun með ótvíræðum hætti. Er þar þess að gæta, að grundvöllur bóta, sem f-liður 1. mgr. 24. gr. nær til, er ekki sá sami og grundvöllur örorkulífeyris skv. 12. gr. og að bótaréttur skv. III. kafla laga nr. 117/1993 um slysatryggingar er yfirleitt víðtækari. Var það og svo, að fyrstu tvö árin, sem fyrirmæli d-liðar 2. mgr. 43. gr. laga nr. 117/1993 giltu, var engri takmörkun af því tagi, sem hér hefur verið fjallað um, beitt við greiðslu bóta. Sú skýring á umræddu ákvæði, sem þannig var fylgt í upphafi, samrýmdist orðalagi og öðrum skýringargögnum. Tel ég, að ekki hafi verið á valdi yfirvalda tryggingamála að hverfa frá upphaflegri framkvæmd við greiðslu nefndra bóta, nema fengin væri til þess heimild í lögum. Með hliðsjón af framangreindu og þar sem ekki verður séð, að tryggingaráð hafi tekið viðhlítandi afstöðu til kröfu A um endurskoðun örorkumatsins frá 9. febrúar 1995, eru það tilmæli mín, ef beiðni kemur fram um það frá A, að tryggingaráð taki mál hennar til meðferðar á ný að því leyti. Þá tel ég mál þetta gefa tilefni til ítrekunar þeirra tilmæla minna til heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra í tveimur málum, sem ég lauk með bréfum, dags. 22. mars 1996 (mál nr. 1541/1995 og 1596/1995), að ákvæði um sjúklingatryggingar verði skýrari í endurskoðuðum lögum um almannatryggingar." V. Hinn 27. febrúar 1998 ritaði ég heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra bréf og tók þar fram, að mér hefði borist vitneskja um að A hefði leitað til tryggingaráðs á ný, þar sem hún hafði kvartað til mín að nýju yfir hinum nýja úrskurði. Því máli væri ekki lokið. Hins vegar óskaði ég eftir upplýsingum um, hvort einhverjar ákvarðanir hefðu verið teknar í framhaldi af þeim tilmælum mínum til heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins, að ákvæði sjúklingatryggingar yrðu skýrari í endurskoðuðum lögum um almannatryggingar. Í svari heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins, dags. 12. maí 1998, segir meðal annars: "[...] vill ráðuneytið upplýsa umboðsmann Alþingis um það að á vegum ráðuneytisins hefur undanfarið verið unnið að smíði frumvarps til nýrra heildarlaga um sjúklingatryggingu. Frumvarpið er nú nánast fullbúið og hefur verið sent í kostnaðarmat til fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytis. Frumvarpinu er ætlað að leysa af hólmi núgildandi ákvæði í f-lið 1. mgr. 24. gr. laga nr. 117/1993, um almannatryggingar, með síðari breytingum, og kveður á um mun ítarlegri reglur sem eru í megindráttum sambærilegar lagareglum sem gilda á öðrum Norðurlöndum um þetta efni. Ráðuneytið mun senda umboðsmanni Alþingis frumvarpið þegar það er fullbúið ásamt kostnaðarmati en ráðgert er að kynna það fyrir ríkisstjórn innan skamms og leggja það fram til afgreiðslu á 123. löggjafarþingi."