Álagning opinberra gjalda. Bifreiðahlunnindi. Skattmat ríkisskattstjóra. Úrskurður yfirskattanefndar.

(Mál nr. 1934/1996)

A kvartaði yfir ýmsum atriðum er vörðuðu skattlagningu vegna afnota hans af bifreið í eigu vinnuveitanda hans. Umboðsmaður einskorðaði umfjöllun sína við úrskurð yfirskattanefndar þar sem nefndin komst að þeirri niðurstöðu, að telja bæri að A hefði haft bifreiðina til fullra umráða í skilningi skattmatsreglna ríkisskattstjóra. Leiddi sú niðurstaða til þess að afnotin voru talin honum til tekna með hliðsjón af aldri og verði viðkomandi bifreiðar en ekki sem ákveðin fjárhæð á hvern ekinn km eins og gert er ef um takmörkuð afnot hefur verið að ræða. Í bréfi sínu til A vísaði umboðsmaður til þess, að í 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, væri mælt fyrir um skattskyldu endurgjalds fyrir hvers konar vinnu, starf eða þjónustu, sem innt væri af hendi fyrir annan aðila. Samkvæmt greininni teldust ekki aðeins beinar fjárgreiðslur til skattskyldra tekna sem laun fyrir vinnu, heldur einnig hvers konar fríðindi og hlunnindi sem launamenn nytu í starfi, þ.m.t. endurgjaldslaus afnot launamanns af bifreið í eigu atvinnurekanda, þ.e. bifreiðahlunnindi. Í 116. gr. laga nr. 75/1981 væri gert ráð fyrir því að ríkisskattstjóri gæfi árlega út reglur um mat á hlunnindum og öðrum tekjum og frádrætti, sem meta þyrfti til verðs samkvæmt lögunum. Umboðsmaður rakti, að ríkisskattstjóri hefði árlega sett reglur um mat á bifreiðahlunnindum í staðgreiðslu. Giltu samkvæmt þeim ólíkar reglur eftir því hvort launamaður hefði bifreið í eigu vinnuveitanda síns til fullra umráða eða hvort um takmörkuð afnot væri að ræða. Teldist launþegi hafa bifreiðina til fullra umráða tækju reglurnar ekki mið af því hvernig raunverulegri notkun í eigin þágu væri háttað, en ef afnotin teldust takmörkuð væri mat á hlunnindunum miðað við þau. Umboðsmaður rakti, að í úrskurði yfirskattanefndar kæmi fram að nefndin byggði á því að A hefði ekki sýnt fram á að honum hefðu verið settar takmarkanir varðandi afnot af bifreiðinni utan vinnutíma. Hann vísaði til þess, að væri hlunnindum yfirleitt til að dreifa yrði að telja að takmörkuð afnot væru fremur undantekning. Taldi hann því ekki ástæðu til athugasemda við það, að þess væri krafist að A sýndi ótvírætt fram á það, að honum væru settar takmarkanir varðandi afnot bifreiðarinnar utan vinnutíma. Þar sem ekki yrði séð, að annað en staðhæfingar A hefðu komið fram í þessa átt, væri ekki efni til þess að gera athugasemdir við úrskurð yfirskattanefndar í málinu. Í bréfi sínu til A greindi umboðsmaður ennfremur frá því, að athugun á kvörtuninni hefði vakið athygli hans á því, hvernig lagagrundvelli skattmatsreglna um bifreiðahlunnindi væri háttað. Slíkar reglur væri að finna í skattmati í staðgreiðslu. Ríkisskattstjóri gæfi út almenn skattmöt árlega á grundvelli 116. gr. laga nr. 75/1981. Allt að einu hefði í þeim mötum ekki verið að finna neinar reglur um mat á bifreiðahlunnindum til tekna. Hefði reglur um mat bifreiðahlunninda ekki verið að finna í almennum skattmötum síðan í skattmati fyrir tekjuárið 1987 að tekjuárinu 1994 einu undanskildu. Umboðsmaður áréttaði að skv. 1. tölul. 5. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, teldust bifreiðahlunnindi til staðgreiðsluskyldra launa. Því væri þörf á mati bifreiðahlunninda vegna staðgreiðslu. Hins vegar yrði tæpast séð, að slíkar reglur gætu þjónað öðru en staðgreiðsluframkvæmd. Þó að reglum um skattmat bifreiðahlunninda, sem settar hefðu verið í skattmati í staðgreiðslu, hefði jafnframt verið beitt sem almennum reglum um mat á bifreiðahlunnindum til skatts, yrði naumast talið að ríkisskattstjóri væri þar með leystur undan þeirri skýlausu lagaskyldu að setja reglur um þetta efni með almennum skattmötum. Umboðsmaður tók fram, að hann teldi ástæðu til að athuga nánar, hvort efni væru til að grundvöllur skattmatsreglna um bifreiðahlunnindi yrði betur tryggður. Myndi hann taka slíkt mál upp að eigin frumkvæði ef tilefni yrði til. Í bréfi mínu til A, dags. 3. janúar 1997, sagði:

"I. Hinn 26. október 1996 báruð þér fram kvörtun við mig út af því annars vegar, hvernig hagað væri skattlagningu á yður vegna afnota yðar af bifreið í eigu vinnuveitanda yðar, X ehf., og hins vegar að X ehf. væri með engu móti kleift að eiga og reka bifreið, án þess að það leiddi til skattlagningar hjá starfsmanni fyrirtækisins. Með bréfi, dags. 12. nóvember 1996, tjáði ég yður, að ég myndi ekki fjalla frekar um kvörtunina að því leyti sem hún varðaði X ehf., enda kæmi ekki fram, að kvartað væri yfir neinum tilteknum ákvörðunum, sem beinst hefðu gegn fyrirtækinu. Í því sambandi tók ég fram, að það væri ekki hlutverk umboðsmanns Alþingis að láta í té almennar álitsgerðir, heldur fjalla um kvartanir út af því, að stjórnvöld hefðu ekki í ákveðnum tilvikum farið að lögum eða ekki fylgt vönduðum stjórnsýsluháttum í störfum sínum. Kvörtun yðar beinist bæði að skattstjóranum í Reykjanesumdæmi og yfirskattanefnd. Í fyrrgreindu bréfi mínu frá 12. nóvember 1996 tók ég fram, að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis, væri ekki unnt að kvarta til umboðsmanns fyrr en æðra stjórnvald hefði fellt úrskurð sinn í málinu. Með vísan til þess og lögmælts kæruréttar á ákvörðunum skattstjóra tók ég fram, að ég myndi ekki fjalla um þann þátt kvörtunarinnar, sem beindist að skattstjóranum í Reykjanesumdæmi. Að því leyti sem kvörtunin beinist að yfirskattanefnd tók ég fram í bréfi mínu, að samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga nr. 13/1987, skyldi bera kvörtun fram við umboðsmann innan árs frá því, að stjórnsýslugerningur sá, sem um ræddi, hefði verið til lykta leiddur. Af þessum sökum myndi ég einskorða umfjöllun mína við úrskurð yfirskattanefndar nr. 264/1996 í máli yðar, er kveðinn var upp 13. mars 1996. II. Í fyrrgreindu bréfi mínu, dags. 12. nóvember 1996, fór ég fram á, að þér skýrðuð nánar en fram kom í kvörtun yðar, hvaða atriði það væru í úrskurði yfirskattanefndar nr. 264/1996, sem þér telduð ástæðu til að gera athugasemdir við. Með svarbréfi yðar, dags. 17. nóvember 1996, fylgdu ljósrit af bréfi skattstjóra, dags. 9. mars 1993, til yðar, þar sem boðuð er endurákvörðun opinberra gjalda yðar gjaldárin 1991 og 1992 vegna skattlagningar bifreiðahlunninda, svarbréfi X hf., dags. 20. mars 1993, við bréfi skattstjóra, og bréfi skattstjóra til yðar, dags. 31. mars 1993. Í bréfi yðar, dags. 17. nóvember 1996, gerið þér svofellda grein fyrir ágreiningi yðar við skattyfirvöld: "Í þessum samskiptum, sem og allar götur fyrr og síðar, stendur ágreiningurinn um það, hvort undirritaður hafi haft bifreið félagsins til fullra umráða eða hún staðið honum til takmarkaðra afnota, sbr. orðalag í skattmati ríkisskattstjóra. Undirritaður hefur í reynd haft bifreiðina til takmarkaðra afnota og krafist þess að skattlagning verði í samræmi við ekna kílómetra í eigin þágu. Það skal tekið fram að undirritaður hefur ávallt átt sína einkabifreið og heimilisföst börn, þau sem bílpróf hafa, sömuleiðis, þannig að ég hef ekki haft not fyrir téða bifreið félagsins í eigin þágu, nema til að auka mér þá leti að ganga þennan 1,5 km spotta í og úr vinnu. Á þetta hafa skattyfirvöld hins vegar ekki viljað fallast, heldur telja að um full yfirráð sé að ræða og því beri að skattleggja mig í samræmi við það." Þér gerið í bréfi yðar grein fyrir viðleitni yðar til að fá skýr fyrirmæli skattyfirvalda um það, hvernig þér eigið að umgangast og nota bifreið X hf., þannig að ótvírætt sé, að skattyfirvöld viðurkenni, að um takmörkuð afnot sé að ræða. Þeirri málaleitan hafi skattstjóri vísað á bug með bréfi sínu, dags. 31. mars 1993. Teljið þér, að skattyfirvöldum beri að gera skilmerkilega grein fyrir þessu. Fram hafi komið á síðari stigum málsins, að skattyfirvöld líti svo á, að raunverulegar umgengnisreglur skipti engu máli í þessu sambandi í ljósi stöðu yðar og eignaraðildar að félaginu. Skattleggja beri yður í samræmi við reglur um ótakmörkuð afnot á þeirri forsendu einni, að félagið eigi bifreið, þér séuð framkvæmdastjóri og eigið tiltekinn hlut í félaginu. Þannig verði ekki annað ráðið en að af þessari afstöðu skattyfirvalda leiði, að þér verðið að greiða að fullu skatt af bifreiðahlunnindum, enda þótt um enga notkun væri að ræða af yðar hálfu af bifreiðinni. Þar með sé X ehf. heldur ekki unnt að eiga og reka bifreið nema það leiði til skattlagningar hjá framkvæmdastjóranum. Af þessum sökum teljið þér þann þátt kvörtunarinnar réttmætan, sem varðar X ehf., m.a. vegna þess að félagið njóti ekki jafnræðis gagnvart öðrum hlutafélögum. Að því er varðar nánari skýringar á athugasemdum við úrskurð yfirskattanefndar nr. 264/1996 takið þér fram, að það sé "í hnotskurn það, að nefndin úrskurðar að afnot mín af téðri bifreið hafi verið ótakmörkuð, sem þýðir fulla skattlagningu, óháða afnotum, jafnvel þó engin hefðu verið í reynd, en ekki takmörkuð eins og reyndin var, sem þýðir skattlagningu í samræmi við afnotin". Dragið þér í efa, að úrskurður yfirskattanefndar hafi ótvíræða lagastoð, en teljist svo vera, sé augljóslega um brotalöm að ræða, sem lagfæra beri. III. Samkvæmt því, sem fram kemur í gögnum málsins, þ. á m. úrskurði yfirskattanefndar nr. 264/1996 vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárin 1991 og 1992 færðuð þér engin bifreiðahlunnindi til tekna í skattframtali árið 1991, en í skattframtali árið 1992 færðuð þér 50.040 kr. til tekna sem skattskyld bifreiðahlunnindi. Með bréfi, dags. 11. janúar 1993, skoraði skattstjóri á yður, að gera grein fyrir afnotum yðar af bifreið í eigu vinnuveitanda ásamt upplýsingum um bifreiðina og hvernig fjárhæð bifreiðahlunninda hefði verið reiknuð út. Í svarbréfi yðar, dags. 23. janúar 1993, kom fram, að bifreiðin hefði verið af gerðinni [...], sem aðeins hefði verið notuð í þágu atvinnurekanda árin 1990 og 1991. Á árinu 1991 hefðuð þér notað bifreiðina til aksturs milli heimilis og vinnustaðar, 1,5 km. Akstur yðar í eigin þágu hefði verið reiknaður 1.800 km. Í framhaldi af bréfi sínu, dags. 9. mars 1993, endurákvarðaði skattstjóri áður álögð opinber gjöld yðar gjaldárin 1991 og 1992 með bréfi, dags. 8. júní 1993, vegna tekjufærslu bifreiðahlunninda að fjárhæð 367.050 kr. í skattframtali árið 1991 og hækkunar á tekjufærðri fjárhæð bifreiðahlunninda um 317.010 kr. í skattframtali árið 1992. Skattstjóri byggði ákvörðun sína á því, að þér hefðuð haft full umráð umræddrar bifreiðar og bæri yður því að greiða 15% hlunnindamat af kostnaðarverði bifreiðarinnar á árunum 1990 og 1991. Samkvæmt bifreiðahlunnindamiða, er fylgt hefði skattframtali árið 1991, væri kostnaðarverð bifreiðarinnar 2.447.000 kr. Vísaði skattstjóri til skattmatsreglna ríkisskattstjóra um mat á bifreiðahlunnindum. Taldi skattstjóri, að þegar litið væri til stöðu yðar sem framkvæmdastjóra og eiganda að hlutafé, mætti ganga út frá því, að þér væruð í raun einráður um notkun bifreiðarinnar og gætuð því notað hana til einkaaksturs að vild. Þá vísaði skattstjóri til þess, að samkvæmt úrskurði yfirskattanefndar nr. 389/1992 í máli yðar vegna gjaldáranna 1989 og 1990 hefði verið talið, að þér hefðuð haft full afnot af bifreið X hf. á árunum 1988 og 1989. Með kæruúrskurði, dags. 3. febrúar 1994, staðfesti skattstjóri endurákvörðun sína frá 8. júní 1993. Kæruúrskurði skattstjóra skutuð þér til yfirskattanefndar með kæru, dags. 23. febrúar 1994, og kröfðust niðurfellingar á endurálagningu skattstjóra. Gerðuð þér grein fyrir notkun bifreiðarinnar í starfi yðar hjá X hf. Þér gátuð þess, að bifreiðin hefði oft verið geymd við heimili yðar, þegar hún hefði ekki verið í notkun fyrir fyrirtækið. Ástæður fyrir því hefðu verið ýmsar, einkum þó að þér færuð oftar en ekki beint frá heimili til þeirra staða, sem unnið væri á hverju sinni. Einnig hefði verið talið öruggara að geyma bifreiðina við heimilið í stað þess að skilja hana eftir á óvörðu athafnasvæði fyrirtækisins. Af yðar hálfu var talið, að þessi skipan mála fæli ekki í sér endurgjaldslaus afnot yðar af bifreiðinni, þannig að teldist til launa eða hlunninda í skilningi 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda. Skattmatsreglur ríkisskattstjóra ættu því ekki við um yður, þar sem engum endurgjaldslausum afnotum hefði verið til að dreifa. Staða hjá félaginu og eignaraðild að því dygði ekki til skattlagningar heldur þyrfti skýra og ótvíræða lagaheimild. Með úrskurði nr. 264, 13. mars 1996 hafnaði yfirskattanefnd kröfum yðar. Forsendur nefndarinnar eru svohljóðandi: "Í máli þessu liggja fyrir bifreiðahlunnindamiðar (RSK 2.035) frá vinnuveitanda kæranda, [X] hf., þar sem gerð er grein fyrir afnotum kæranda af bifreið fyrirtækisins, [...]. Á bifreiðahlunnindamiða 1991 kemur fram að á árinu 1990 hafi bifreiðin verið geymd við heimili hans að næturlagi og um helgar vegna ástæðna sem áður hafi verið tíundaðar í bréfi til skattstjóra, dags. 31. október 1990. Á bifreiðahlunnindamiða 1992 kemur fram að á árinu 1991 hafi framkvæmdastjóri notað bifreiðina til aksturs til og frá heimili sínu virka daga, þannig að hún sé geymd næturlangt þar frá mánudegi til föstudags. Síðara árið færði kærandi bifreiðahlunnindi til tekna í skattframtali sínu með 50.040 kr. vegna takmarkaðra afnota af bifreið þessari. Þrátt fyrir það sem fram kemur í kæru til yfirskattanefndar verður því að líta svo á að óumdeilt sé að kærandi hafi haft bifreið vinnuveitanda síns til umráða utan vinnutíma á árunum 1990 og 1991. Ágreiningur stendur hins vegar um það hvort kærandi hafi haft bifreiðina til fullra umráða eða hún staðið honum til takmarkaðra afnota, sbr. orðalag í skattmati ríkisskattstjóra í staðgreiðslu á árunum 1990 og 1991 sem birt voru í 7. tbl. Lögbirtingablaðsins 17. janúar 1990 og 9. tbl. 18. janúar 1991. Matsreglur þessar eiga lagastoð í 116. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Skilja verður skattmat ríkisskattstjóra þannig að bifreiðaafnot skuli metin til tekna eftir reglum um takmörkuð afnot ef eingöngu er um að ræða akstur milli heimilis og vinnustaðar, svo og önnur tilfallandi afnot, enda sé slíkur akstur í þágu launamanns en til fullra umráða ef afnotin eru ekki bundin við framangreint. Með bréfi, dags. 11. janúar 1993, skoraði skattstjóri á kæranda að gera grein fyrir því hvort honum hefðu verið sett einhver takmörk varðandi afnot bifreiðarinnar og í hverju þau hefðu þá verið fólgin. Af hálfu kæranda þykir ekki hafa verið sýnt fram á að honum hafi verið settar takmarkanir varðandi afnot af bifreiðinni utan vinnutíma. Þegar þetta er virt, svo og að ekki verður ráðið að málsatvik og afnot kæranda af bifreið vinnuveitanda séu með öðrum hætti en byggt var á í úrskurði yfirskattanefndar nr. 389/1992, er varðaði sama ágreiningsefni í skattskilum kæranda gjaldárin 1989 og 1990, þykir bera að telja kæranda hafa haft umrædda bifreið til fullra umráða í skilningi skattmatsreglna ríkisskattstjóra. Samkvæmt þeirri niðurstöðu ber að meta afnot bifreiðarinnar til tekna hjá kæranda með hliðsjón af aldri og verði bifreiðarinnar. Að þessu virtu og þar sem ekki er ágreiningur um fjárhæð bifreiðahlunnindanna, sem leiðir af framangreindum reglum, er kröfu kæranda hafnað." IV. Þar sem þér áréttið í bréfi yðar, dags. 17. nóvember 1996, réttmæti þess þáttar í kvörtun yðar, sem lýtur að X ehf., ítreka ég það, sem fram kemur í bréfi mínu til yðar, dags. 12. nóvember 1996, um það atriði. Í samræmi við það, sem fram kemur í því bréfi að öðru leyti, mun ég afmarka athugun mína við úrskurð yfirskattanefndar nr. 264/1996 í máli yðar. Í 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, er mælt fyrir um skattskyldu endurgjalds fyrir hvers konar vinnu, starf eða þjónustu, sem innt er af hendi fyrir annan aðila. Eru í greininni nefnd í dæmaskyni ýmiss konar laun svo og "fatnaður, fæði, húsnæði, risnufé, verkfærapeningar, ökutækjastyrkir, flutningspeningar og aðrar hliðstæðar starfstengdar greiðslur, fríðindi og hlunnindi, svo og framlög og gjafir sem sýnilega eru gefnar sem kaupauki". Samkvæmt þessu teljast ekki einungis beinar fjárgreiðslur til skattskyldra tekna sem laun fyrir vinnu, heldur einnig hvers konar fríðindi og hlunnindi, sem launamenn njóta í starfi. Undir skattskyld hlunnindi launamanna samkvæmt ákvæði þessu falla endurgjaldslaus afnot launamanns af bifreið í eigu atvinnurekanda, svonefnd bifreiðahlunnindi. Af eðli hlunninda leiðir að meta verður þau til verðs. Er gert ráð fyrir því í 116. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, að ríkisskattstjóri hafi slíkt mat með höndum. Þar segir: "Ríkisskattstjóri skal árlega gefa út reglur um mat á hlunnindum, sbr. 7. gr., og öðrum tekjum og frádrætti sem meta þarf til verðs samkvæmt lögum þessum." Ríkisskattstjóri hefur árlega sett reglur um mat á bifreiðahlunnindum í staðgreiðslu. Þær reglur er að finna í skattmötum í staðgreiðslu. Eins og vísað er til í úrskurði yfirskattanefndar nr. 264/1996 í máli yðar, var beitt um mat bifreiðahlunninda umrædd gjaldár, þ.e. gjaldárin 1991 og 1992, reglum í skattmötum í staðgreiðslu á árinu 1990 og 1991, er birt voru í 7. tölublaði Lögbirtingablaðsins 17. janúar 1990 og 9. tölublaði Lögbirtingablaðsins 18. janúar 1991. Í liðum 1.4. og 1.5. í skattmati í staðgreiðslu fyrra árið er fjallað um mat bifreiðahlunninda og um sama efni er fjallað í 2. lið skattmats í staðgreiðslu síðara árið. Reglur þessar eru hliðstæðar að breyttu breytanda. Ólíkar reglur gilda, þ. á m. um mat á bifreiðahlunnindum, eftir því hvort launamaður hefur bifreið í eigu vinnuveitanda síns til fullra umráða eða hvort um takmörkuð afnot launamanns af bifreið í eigu vinnuveitanda er að ræða. Í fyrra tilvikinu skulu endurgjaldslaus afnot af bifreið vinnuveitanda metin launamanni til tekna, miðað við heilt ár, með hliðsjón af aldri og verði viðkomandi bifreiðar, þ.e. hlunnindin reiknast eftir aldri bifreiðar 15% eða 20% af kostnaðarverði hennar, eins og það er skilgreint í reglunum. Sé um takmörkuð afnot að ræða, eru hlunnindin metin sem ákveðin fjárhæð pr. ekinn km. Þess er að geta, að framangreindar reglur um mat bifreiðahlunninda til skatts voru teknar upp frá og með tekjuárinu 1989, sbr. skattmat í staðgreiðslu á árinu 1989, sem birtist í 5. tölublaði Lögbirtingablaðsins 18. janúar 1989. Áður voru bifreiðahlunnindi reiknuð sem ákveðin fjárhæð pr. kílómetra samkvæmt metnum akstri í eigin þágu, sbr. skattmat í staðgreiðslu á árinu 1988, er birtist í 3. tölublaði Lögbirtingablaðsins 13. janúar 1988, og almennt skattmat tekjuárið 1987 (framtalsárið 1988), dags. 5. janúar 1988. Í lið 2.7. í skattmati í staðgreiðslu á árinu 1991 er fjallað um hlunnindamat vegna takmarkaðra afnota launamanns. Þessi liður er svohljóðandi: "Hafi launamaður bifreið frá launagreiðanda sínum sem honum er heimilt að nota utan vinnutíma að einhverju leyti skal meta slík takmörkuð afnot til hlunninda með hliðsjón af því að hve miklu leyti þau eru í beina þágu launamannsins sjálfs. Séu slík afnot fyrst og fremst vegna þarfa launagreiðanda hans skal eigi meta þau sem hlunnindi hjá launamanni. Takmörkuð afnot eru eingöngu: a. Akstur milli heimilis og vinnustaðar. b. Tilfallandi og einstök afnot. Reikna skal launamanni hlunnindi vegna aksturs milli heimilis og vinnustaðar á bifreið launagreiðanda að svo miklu leyti sem slíkur akstur telst honum til hagsbóta. Við mat á því hvort svo sé skal einkum höfð hliðsjón af því hvort umræddur akstur ræðst fyrst og fremst af þörfum launamanns sjálfs á því að komast í og úr vinnu. Þar getur þurft að líta á ýmis atriði svo sem vegalengd milli heimilis og vinnustaðar launamanns samgöngur þar á milli og vinnutíma. Teljist akstur milli heimilis og vinnustaðar launamanns aðallega ráðast af þörfum hans telst aksturinn honum til hagsbóta og skal þá meta honum til hlunninda á kr. 16 pr. ekinn km. Eigi skal telja launamanni akstur á bifreið launagreiðanda hans milli heimilis og vinnustaðar til hagsbóta ef líta má á aksturinn sem kvöð er fylgi starfi launamannsins. Tilfallandi og einstök afnot skal meta launamanni til hlunninda á kr. 16 pr. ekinn km." Í skattmati í staðgreiðslu á árinu 1990 voru samsvarandi reglur um takmörkuð afnot launamanns af bifreið í eigu vinnuveitanda, sbr. liði 1.5.1., 1.5.2. og 1.5.3. í skattmatinu. Eins og fram hefur komið af yðar hálfu, sbr. kvörtun yðar frá 26. október 1996 og bréf yðar, dags. 17. nóvember 1996, hefur ágreiningur yðar við skattyfirvöld staðið um það, hvort þér hafið umrædda bifreið til fullra umráða, þannig að meta beri hlunnindi yðar vegna afnota af bifreiðinni til verðs í samræmi við það með hliðsjón af aldri og verði bifreiðarinnar samkvæmt skattmatsreglum ríkisskattstjóra, eða hvort afnotin beri að telja takmörkuð, svo sem þér haldið fram, vegna aksturs milli heimilis og vinnustaðar, þannig að meta beri afnot yðar samkvæmt kílómetragjaldi, miðað við ekna kílómetra í eigin þágu. Sá grundvallarmunur er á reglum skattmatanna um mat á bifreiðahlunnindum til verðs, eftir því hvort bifreið telst vera til fullra umráða eða afnotin teljast takmörkuð, að í fyrra tilvikinu taka reglurnar ekkert mið af því, hvernig raunverulegri notkun í eigin þágu er háttað, þ.e. hvort hún er mikil eða lítil, en í síðara tilvikinu er mat á hlunnindunum til verðs miðað við afnotin. Eins og reglunum er farið í fyrra tilvikinu, er hugsanlegt, að þær leiði til þess, í einstökum tilfellum, að ónotaðir möguleikar til hagnýtingar hlunninda séu skattlagðir. Áður en núgildandi skattmatsreglur voru teknar upp frá og með tekjuárinu 1989, var mat á bifreiðahlunnindum til verðs eingöngu byggt á ætluðum afnotum launamanns af bifreið vinnuveitanda. Í forsendum úrskurðar yfirskattanefndar nr. 264/1996 eru rakin þau gögn, sem nefndin byggði niðurstöðu sína á, þ.e. bifreiðahlunnindamiðar, sem X hf. gaf út. Er þar að finna upplýsingar um viðkomandi bifreið, afnot yðar af henni og vörslur hennar um nætur. Vísaði yfirskattanefnd til þess, að með bréfi, dags. 11. janúar 1993, hefði skattstjóri skorað á yður að gera grein fyrir því, hvort yður hefðu verið sett einhver takmörk varðandi afnot bifreiðarinnar og í hverju þau hefðu þá verið fólgin. Taldi yfirskattanefnd, að þér hefðuð ekki sýnt fram á, að yður hefðu verið settar takmarkanir varðandi afnot af bifreiðinni utan vinnutíma. Byggði yfirskattanefnd synjun sína fyrst og fremst á þessu. Vegna þess, sem fram kemur í kvörtun yðar um þýðingu stöðu yðar hjá X hf. og eignaraðildar í því félagi, vek ég athygli á því, að ekki verður séð af úrskurði yfirskattanefndar nr. 264/1996, að byggt hafi verið á þeim atriðum, enda staðfesti nefndin ekki forsendur skattstjóra. Ágreiningslaust var, að þér höfðuð afnot af umræddri bifreið X hf. í eigin þágu. Þar sem atvikum var svo háttað og eins og reglum í skattmötum um ákvörðun bifreiðahlunninda er farið, þar sem telja verður, að takmörkuð afnot séu fremur undantekning, sé hlunnindum yfirleitt til að dreifa, get ég ekki gert athugasemdir við það, þótt þess væri krafist af yður, að þér sýnduð ótvírætt fram á, að yður væru settar takmarkanir varðandi afnot bifreiðarinnar utan vinnutíma. Ég fæ ekki séð af gögnum málsins, að annað en staðhæfingar yðar hafi komið fram í þessa átt. Samkvæmt þessu tel ég ekki efni til að gera athugasemdir við úrskurð yfirskattanefndar nr. 264/1996 í máli yðar. Ég tek fram, að ég tel úrskurðinn uppfylla nægilega þær kröfur, sem gerðar eru til forms og efnis úrskurða í kærumálum, sbr. 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Samkvæmt framansögðu er ekki tilefni til frekari umfjöllunar um kvörtun yðar að því er varðar úrskurð yfirskattanefndar nr. 264/1996, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis. V. Athugun á kvörtun yðar hefur vakið athygli mína á því, hvernig lagagrundvelli fyrrgreindra skattmatsregla um bifreiðahlunnindi er háttað. Eins og fram kemur í IV. kafla hér að framan, er reglur um skattmat bifreiðahlunninda að finna í skattmati í staðgreiðslu. Í máli því, sem hér er til umfjöllunar, er um að ræða reglur um skattmat í staðgreiðslu á árunum 1990 og 1991, sbr. auglýsingar ríkisskattstjóra um reglur þessar, sem fyrr er getið, og birtar voru í Lögbirtingablaði. Í inngangi reglnanna er vísað til þess, að samkvæmt 5. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, teljist fríðindi og hlunnindi, svo sem fatnaður, fæði, húsnæði og afnot bifreiða til launa, sem reikna skuli staðgreiðslu af. Samkvæmt 116. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, skuli ríkisskattstjóri meta hlunnindi til verðs. Ríkisskattstjóri hefur gefið út almenn skattmöt árlega á grundvelli 116. gr. laga nr. 75/1981, sem mælir fyrir um að embættið skuli árlega gefa út reglur um mat á hlunnindum, sbr. 7. gr. laganna, og öðrum tekjum og frádrætti, sem meta þarf til verðs samkvæmt þeim lögum. Allt að einu hefur í þeim mötum ekki verið að finna neinar reglur um mat á bifreiðahlunnindum til tekna, sbr. að því er snertir þau ár, sem hér um ræðir, auglýsingu ríkisskattstjóra um skattmat tekjuárið 1990 (framtalsárið 1991), er birtist í 9. tölublaði Lögbirtingablaðsins 18. janúar 1991, og auglýsingu ríkisskattstjóra um skattmat tekjuárið 1991 (framtalsárið 1992), er birtist í 8. tölublaði Lögbirtingablaðsins 17. janúar 1992. Raunar hefur reglur um mat bifreiðahlunninda ekki verið að finna í almennum skattmötum síðan í skattmati fyrir tekjuárið 1987 (framtalsárið 1988), útgefið 5. janúar 1988, eða frá því að staðgreiðsla opinberra gjalda var tekin upp frá og með 1. janúar 1988 og fyrsta skattmat í staðgreiðslu var gefið út, sbr. skattmat í staðgreiðslu á árinu 1988, sem birtist í 3. tölublaði Lögbirtingablaðsins 13. janúar 1988. Sú undantekning er þó frá þessu, að samkvæmt auglýsingu ríkisskattstjóra nr. 4/1995 um skattmat tekjuárið 1994 (framtalsárið 1995), er birt var í B-deild Stjórnartíðinda sem auglýsing nr. 2, 3. janúar 1995, er í lið 2.2.1. tekið fram, að bifreiðahlunnindi skuli meta til tekna í samræmi við þær reglur um staðgreiðslu, sem settar eru fram í 2. kafla í skattmati í staðgreiðslu 1994, sbr. auglýsingu ríkisskattstjóra nr. 3/1994. Í auglýsingu ríkisskattstjóra nr. 4/1996 um skattmat tekjuárið 1995 (framtalsárið 1996), er birt var í B-deild Stjórnartíðinda sem auglýsing nr. 26, 4. janúar 1996, bregður hins vegar svo við, að mats á bifreiðahlunnindum er að engu getið og reglurnar að því leyti til komnar í gamla farið. Samkvæmt 1. tölul. 5. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, teljast bifreiðahlunnindi til staðgreiðsluskyldra launa, enda er þeim ekki skipað utan staðgreiðslu samkvæmt reglugerð nr. 591/1987, um laun, greiðslur og hlunnindi utan staðgreiðslu, með síðari breytingum, sbr. 8. gr. laganna. Þörf er því á mati bifreiðahlunninda vegna staðgreiðslu opinberra gjalda. Hins vegar verður tæpast séð, að slíkar reglur geti þjónað öðru en staðgreiðsluframkvæmd samkvæmt lögum um það efni. Enda þótt reglum um skattmat bifreiðahlunninda, sem settar hafa verið í skattmati í staðgreiðslu, hafi jafnframt verið beitt sem almennum reglum um mat á bifreiðahlunnindum til skatts, verður að mínum dómi naumast talið, að ríkisskattstjóri sé þar með leystur undan þeirri skýlausu lagaskyldu samkvæmt 116. gr. laga nr. 75/1981, að setja reglur um þetta efni með almennum skattmötum. Vandamál af þeim toga, sem hér um ræðir, hefur komið upp við umfjöllun mína um skattameðferð dagpeninga, sbr. álit mitt frá 15. febrúar 1996 í málinu nr. 1435/1995 [SUA 1996:512]. Ég tel ástæðu til athuga nánar, hvort efni séu til, að grundvöllur skattmatsreglna um bifreiðahlunnindi verði betur tryggður. Ef tilefni verður til, mun ég taka slíkt mál upp að eigin frumkvæði, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis."