Landbúnaður. Rétthæð búfjármarka.

(Mál nr. 356/1990)

A, búsettur í T-sýslu, kvartaði yfir þeim úrskurði markanefndar, að B, búsettur í S-sýslu, skyldi halda fjármarkinu X. Samkvæmt fyrirmælum laga nr. 6/1986 um afréttamálefni, fjallskil o.fl. og reglugerð nr. 579/1989 um búfjármörk, markaskrár og takmörkun á sammerkingum búfjár er markanefnd m.a. falið það hlutverk að leysa úr ágreiningi um, hver skuli halda marki vegna reglna um bann við sammerkingu milli fjallskilaumdæma. Markanefnd taldi í úrskurði sínum, að fjármarkið X hefði verið lengur erfðamark í S-sýslu og væri því rétthærra og skyldi B því halda markinu. Eftir að umboðsmaður hafði gert grein fyrir lagareglum um aðlilaskipti að búfjármörkum og rétthæð þeirra, tók hann fram, að þegar um óleyfilegar sammerkingar væri að ræða gæti skipt sköpum fyrir rétthæð marks, hvort eigandinn væri kominn að markinu fyrir arf, gjöf eða kaup. Væri erfðamark þar rétthæst. Ekki yrði sett fram almenn regla um það, hversu afdráttarlausrar sönnunar yrði krafist um það, hvort um erfðamark væri að ræða, en ekki væru rök til að fara þar mjög strangt í sakir, sérstaklega um löngu liðin aðilaskipti, þar sem búast mætti við því, að mörk hefðu verið látin ganga frá manni til manns með mjög óformlegum hætti. Tók umboðsmaður fram, að það fengi samt sem áður ekki staðist, að mark yrði talið erfðamark fyrir það eitt, að réttur til marks hefði samkvæmt upplýsingum markavarðar, byggðum á markaskrám og kunnugleika hans á tengslum og skyldleika manna, flust milli tengdra manna eða skyldra, svo sem markanefnd hefði gert. Yrði með hliðsjón af þeim skarpa skilsmun, sem lög gerðu á mörkum eftir því, hvernig mark væri til komið, og úrslitaþýðingu þess, að mark væri erfðamark, ekki hjá því komist að markavörður og þó sérstaklega markanefnd kannaði rækilega heimildir þeirra manna, sem í hlut ættu, að marki. Gæta yrði þess sérstaklega, að á þeim tíma, sem aðilaskipti hefðu orðið, hefðu legið fyrir þau skilyrði, sem lög settu varðandi erfðir, svo sem andlát fyrri eiganda, lögerfðatengsl og erfðagerningar, þegar lögerfðum sleppti. Um heimild B að markinu tók umboðsmaður fram, að ekki hefðu legið fyrir aðrar upplýsingar en að það hefði gengið til hans frá föðurbróður konu hans. Hefði brýna nauðsyn borið til, að markanefnd kannaði nánar með hvaða hætti þessi eigendaskipti að markinu hefðu orðið. Þá taldi umboðsmaðurinn, að markanefnd hefði borið, áður en hún kvað upp úrskurð sinn, að gefa markaverði í S-sýslu og B kost á að skýra það nánar, hvað þeir ættu við með því, að markið hefði verið "ættar- og erfðamark" í S-sýslu. Niðurstaða umboðsmanns varð sú, að til grundvallar úrskurði markanefndar hefði þurft að liggja rækilegri rannsókn eignarheimilda. Beindi umboðsmaður þeim tilmælum sínum til markanefndar, að nefndin tæki málið upp til meðferðar og úrskurðar á ný.

I. Kvörtun og málavextir.

Hinn 13. nóvember 1990 leitaði til mín A, búsettur í T-sýslu, og kvartaði yfir þeim úrskurði markanefndar frá 23. júlí 1990, að B, sem búsettur var í S-sýslu, skyldi halda fjármarkinu "[X]". Umræddur úrskurður markanefndar er svohljóðandi:

"Með bréfi dags. 10. október 1989 hefur markavörður [S-sýslu], skotið til úrskurðar markanefndar skv. heimild í 4. mgr. 68. gr. afréttalaga nr. 6 21. mars 1986 ákvörðun um eignarrétt á fjármarkinu: [X], vegna sammerkingar við [T-sýslu].

Í kærubréfinu er því haldið fram, að framangreint fjármark sé "erfðamark" í [S-sýslu], en 1878-1896 er [C], skráður fyrir fjármarkinu, þá [D] 1896-1910, 1910-1951 [E], 1951-1965 [F] og síðan núverandi eigandi fjármarksins í sýslunni, [B] 1965-1988. Í kærubréfinu er rakinn skyldleiki og tengsl markeigendanna í [S-sýslu].

Með bréfi markanefndar dags. 6. apríl 1990 til markavarðar [T-sýslu] var óskað eftir upplýsingum um feril og notkun marksins þar í sýslu. Í svarbréfi markavarðar [...], kemur fram að markið er fyrst skráð þar í sýslu árið 1886, þá á nafn [G]. Árið 1896 er [H], skráður fyrir fjármarkinu og síðan [I] 1905-1954, en kona hans var systir [H]. Árið 1966 og 1971 er sonur [I], [J], skráður fyrir fjármarkinu, og síðan núverandi eigandi þess [A], 1982.

Með bréfi markanefndar, dags. 8. júní 1990, voru markeigendum í sýslunum send þau gögn sem nefndinni höfðu borist vegna málsins og þeim gefinn kostur á að lýsa skriflega viðhorfum sínum til málsins. Í svarbréfi [B], markeiganda í [S-sýslu], dags. 26. júní 1990, eru staðfestar upplýsingar markavarðar um skyldleika og tengsl markeigenda í [S-sýslu], jafnframt upplýst að hið umdeilda fjármark sé annað aðalmark markeigenda sem eingöngu hafi fjárbú er telji um 300 kindur. Í svarbréfi [A] markeigenda í [T-sýslu], dags. 16. júní 1990, eru staðfestar upplýsingar markavarðar um að fjármarkið sé erfðamark í sýslunni sem hafi verið notað sem aðalmark á bænum [M] af þremur ættliðum í beinan karllegg. Sé markið notað á 2/3 af öllum lömbum búsins sem séu um 200. Önnur fjármörk markeigandans eru: 1) [Y] og 2) [Z].

Í lögum um afréttamálefni, fjallskil og fleira nr. 6 21. mars 1986, 68. gr., er sú skylda lögð á markaverði samliggjandi fjallskilaumdæma að vinna saman að útrýmingu óleyfilegra sammerkinga sem fyrirfinnast og fyrirbyggja að nýjar sammerkingar myndist við upptöku nýrra marka eða flutning marka milli fjallskilaumdæma eftir nánari reglum sem greinin setur og nánar er kveðið á um í reglugerð nr. 579/1989 um mörk, markaskrár og takmörkun á sammerkingum búfjár.

Samkvæmt 3. mgr. 68. gr. framangreindra afréttalaga, sbr. 1. mgr. 11. gr. rg. nr. 579 24. nóvember 1989 telst það vera sammerking þegar tveir eða fleiri markeigendur eiga sama mark. Í 11. gr. rg. nr. 579/1989 (11.3.6.) kemur fram að markeigandi í [S-sýslu] norðan [...línu] má ekki eiga sammerkt við markeiganda í [T-sýslu].

Samkvæmt a-lið 4. mgr. 68. gr. afréttalaga gengur erfðamark fyrir gjafamarki, gjafamark fyrir kaupamarki og kaupamark fyrir gerðarmarki, tilkynni tveir eða fleiri fjáreigendur á svæði þar sem sammerkingar eru ekki leyfilegar, sama mark til skráningar í markaskrá viðkomandi svæðis eða tilkynnt er um eigendaskipti að marki. Sama gildir um óleyfilegar sammerkingar sem þegar eru fyrir hendi. Sé um sama flokk marks að ræða sem ágreiningur er um á sá réttinn sem á eldra markið, þ.e. það mark sem lengur hefur verið samfellt í markaskrá umdæmisins.

Samkvæmt þeim gögnum sem fyrir liggja er ljóst að fjármarkið: [X], er erfðamark bæði í [S-sýslu] og [T-sýslu]. Af gögnum málsins verður ekki ráðið hvernig [C], sem skráður er fyrir fjármarkinu í markaskrá [S-sýslu], árin 1878-1896 öðlaðist rétt yfir markinu. Því þykir ekki sýnt fram á að umdeilt fjármark sé erfðamark í [S-sýslu] fyrr en árið 1896 og síðar, þegar fjármarkið er skráð á [D]. Á sama hátt verður heldur ekki ráðið hvernig [H], markeigandi í [T-sýslu], sem skráður er fyrir fjármarkinu 1896 öðlaðist rétt yfir fjármarkinu. Því þykir ekki sýnt fram á að umdeilt fjármark sé erfðamark í [T-sýslu] fyrr en árið 1905 og síðar þegar fjármarkið er skráð á [I], en [I] er afi núverandi eigenda.

Skv. framanskráðu og ákvæðum a-liðar 4. mgr. 68. gr. afréttalaga nr. 6 21. mars 1986 verður að telja að fjármarkið: [X], sé rétthærra í [S-sýslu] sem erfðamark frá árinu 1896.

Því úrskurðast:

[A], [S-sýslu], skal halda fjármarkinu: [X]."

Í kvörtun sinni taldi A, að það fengi vart staðist, að fjármarkið gæti erfst með þeim hætti, sem markanefnd tilgreindi í úrskurði sínum. Að öðru leyti vísar A í kvörtun sinni til bréfs, sem hann ritaði markanefnd 15. ágúst 1990 í tilefni af ofangreindum úrskurði. Í bréfi þessu vefengdi A, að um erfðamark væri að ræða í S-sýslu, þrátt fyrir ættartengsl, enda teldist það óvenjuleg erfð, ef B hefði erft föðurbróður eiginkonu sinnar árið 1965.

Markanefnd svaraði bréfi A með bréfi, dags. 8. október 1990. Í bréfi sínu tók nefndin fram, að af gögnum markavarða hefði ekki annað mátt ráða en að fjármarkið væri erfðamark í báðum sýslum, en eldra sem slíkt í S-sýslu og því rétthærra þar samkvæmt a-lið 4. mgr. 68. gr. afréttalaga nr. 6/1986. Taldi nefndin sig ekki hafa heimild til þess að endurskoða úrskurð sinn á grundvelli bréfs A, enda sæi hún heldur ekki rök til þess, þrátt fyrir þau sjónarmið, sem A tilgreindi um feril marksins í S-sýslu.

II. Athugun umboðsmanns Alþingis.

Með bréfi, dags. 28. desember 1990, óskaði ég eftir því, að markanefnd skýrði viðhorf sitt til kvörtunar A og léti mér í té þau gögn, sem umræddur úrskurður væri reistur á, sbr. 7. og 9. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis. Sérstaklega óskaði ég eftir því að fram kæmi, við hvaða gögn hefði verið stuðst um aðilaskipti að þeim fjármörkum, sem fjallað var um í úrskurðinum, svo sem hvort þau hefðu átt sér stað fyrir erfð (lögerfð eða bréferfð), gjöf eða kaup.

Í svarbréfi markanefndar, dags. 18. janúar 1991, kom eftirfarandi m.a. fram:

"Þar sem framangreind kvörtun fylgdi ekki bréfi yðar, er markanefnd ókunnugt um með hvaða rökum hún er fram sett, en samkvæmt þeim gögnum, sem úrskurður nefndarinnar frá 23. júlí 1990 var reistur á og fylgja bréfi þessu, vísaði markavörður [S-sýslu], [...], í samráði við markeiganda, ágreiningi um eignarrétt á fjármarkinu: [X], til nefndarinnar með bréfi, dags. 10. október 1989, vegna sammerkingar við [T-sýslu]. Vísast um slíkt málskot til ákvæða 69. gr. afréttalaga nr. 6/1986 og 11. gr. reglugerðar nr. 579/1989 um mörk, markaskrár og takmörkun á sammerkingum búfjár. Í kærubréfinu er rakinn aldur fjármarksins og ferill þess í [S-sýslu] frá 1878 og fjármarkið talið svonefnt erfðamark í sýslunni frá "fyrstu tíð".

Bréf markavarðar [S-sýslu] var tekið fyrir hjá markanefnd í byrjun apríl 1990 og samkvæmt venju var fyrst leitað til markavarðar [T-sýslu] um upplýsingar, sbr. bréf nefndarinnar til [markavarðar], dags. 6. apríl 1990. Er svarbréf hans, dags. 20. apríl s.á., að finna í gögnum málsins með upplýsingum um aldur og feril fjármarksins í [T-sýslu].

Með bréfi markanefndar frá 8. júní 1990 voru eigendum fjármarksins í báðum sýslum send þau gögn sem nefndinni höfðu borist og þeim gefinn kostur á að lýsa skriflega viðhorfum sínum til málsins. Markanefnd hefur í störfum sínum ævinlega viðhaft slíka reglu, sbr. ákvæði 11. gr. rg. nr. 579/1989 (11.5) varðandi störf markavarða. Í svarbréfum markeigenda eru staðfestar áður framkomnar upplýsingar markavarða og jafnframt upplýst um notkun fjármarksins hjá þeim og önnur fjármörk þeirra.

Með lögum nr. 33/1985 um breytingu á lögum nr. 42/1969 um afréttamálefni, fjallskil o.fl., sbr. nú lög nr. 6/1986 og reglugerð nr. 224 28. apríl 1987, um mörk, markaskrár og takmörkun á sammerkingum búfjár, sbr. nú rg. 579/1989, var mælt fyrir um útgáfu markaskráa í sýslum landsins á árinu 1988 og útrýmingu óleyfilegra sammerkinga á vegum markavarða fyrir útgáfuna. Snemma var ljóst að hér var um mjög mikið starf að ræða, sem reyndist bæði tímafrekt og vandasamt. Á grundvelli heimildar í b-lið 4. mgr. 68. gr. og 69. gr. afréttalaga nr. 6/1986, sbr. einnig rg. 224/1987, 10. og 11. gr., fékk markanefnd ríflega 100 mál til meðferðar á árinu 1988, bæði frá markavörðum og í fáum tilvikum frá einstökum markeigendum, sem ekki vildu una niðurstöðu markavarða um eignarrétt fjármarka. Hafði nefndin aðeins fáa mánuði til að úrskurða um ágreiningsmál þessi með tilliti til lögbundins útgáfuárs markaskráa.

Hvað varðar aldursgreiningu og tegund fjármarka hefur markanefnd í störfum sínum stuðst við upplýsingar markavarða, sem sendar voru markeigendum til skoðunar. Slíkt var einnig gert í máli því sem hér er til umfjöllunar, eins og áður sagði. Markanefnd hefur því í störfum sínum byggt á upplýsingum markavarða, þ.e. aldursgreiningu og upplýsingum um feril viðkomandi fjármarks, svo og upplýsingum markeigenda sjálfra og ekki talið ástæða til að leita sérstaklega staðfestingar á framkomnum upplýsingum, nema sérstakt tilefni væri til þess.

Hvað varðar úrskurð nefndarinnar frá 23. júlí 1990, þá lágu fyrir upplýsingar frá markaverði [S-sýslu] um feril marksins þar í sýslu milli tengdra aðila sömu ættar, allt frá árinu 1878, en þá var markið fyrst skráð í [S-sýslu] svo kunnugt sé. Á sama hátt lágu fyrir upplýsingar markavarðar [T-sýslu] um aldur og feril marksins þar í sýslu frá 1896, en markið var fyrst skráð í [T-sýslu] 1886 svo vitað sé, en þá hjá ótengdum aðila. A.m.k. liggja ekki fyrir upplýsingar í gögnum málsins um það, hvernig [H], öðlaðist rétt yfir fjármarkinu, en hann er skráður fyrir því 1896. Það var því samdóma álit nefndarinnar að fjármarkið væri rétthærra í [S-sýslu] og taldi nefndin sér ekki fært að breyta þeirri niðurstöðu sinni á grundvelli beiðni [A] í bréfi til nefndarinnar frá 15. ágúst 1990."

Hinn 22. janúar 1991 gaf ég A kost á að koma á framfæri athugasemdum sínum í tilefni af upplýsingum og skýringum markanefndar. Athugasemdir A bárust mér með bréfi hans, dags. 24. mars 1991.

III. Niðurstaða.

Í niðurstöðu álits míns, dags. 30. október 1991, sagði svo:

"Markanefnd starfar samkvæmt 69. gr. laga um afréttamálefni, fjallskil o.fl., nú lög nr. 6/1986, og er heimilt að skjóta til nefndarinnar ákvörðunum markavarðar eða fundar markavarða um skráningu á marki, um synjun um skráningu marks og um niðurfellingu marks vegna sammerkinga. Landbúnaðarráðherra skipar þrjá menn í markanefnd til átta ára í senn. Markanefnd er í lögum fengið vald til að úrskurða um rétt manna til marks í tilefni af málskoti. Fer nefndin þar með opinbert vald og verður í störfum sínum að fylgja skráðum og óskráðum reglum um málsmeðferð og ákvarðanir stjórnvalda.

Sá úrskurður markanefndar, sem kvörtunin fjallar um, lýtur að ágreiningi um, hvor þeirra tveggja einstaklinga, sem í hlut eiga, skuli halda marki vegna reglna um bann við sammerkingum milli fjallskilaumdæma, sbr. 68. gr. laga nr. 6/1986 og reglugerð nr. 579/1989 um búfjármörk, markaskrár og takmörkun á sammerkingum búfjár, áður reglugerð nr. 224/1987. Í a-lið 4. mgr. 68. gr. laga nr. 6/1986, segir að ef tveir eða fleiri fjáreigendur á svæði, þar sem sammerkingar eru ekki leyfilegar, tilkynni sama mark til skráningar í markaskrá eða tilkynnt sé um eigendaskipti að marki, skuli erfðamark ganga fyrir gjafamarki, gjafamark fyrir kaupamarki og kaupamark fyrir gerðarmarki. Sé um sama flokk marks að ræða, skal sá eiga réttinn, sem á eldra markið, þ.e. það mark, sem lengur hefur verið samfellt í markaskrá umdæmisins. Þá er tekið fram, að sama gildi um óleyfilegar sammerkingar, sem þegar eru fyrir hendi.

Í 65. gr. laga nr. 6/1986 er að finna nánari reglur um aðilaskipti að mörkum og upptöku nýrra marka, en þar segir m.a.:

"Mörk ganga að erfðum. Gefa má mark og selja. Taka má upp nýtt mark, gerðarmark."

Í ofangreindum ákvæðum um rétthæð marka vegna óleyfilegra sammerkinga er fylgt að stofni til sömu reglum og gilt hafa í íslenskum rétti allt frá gildistíma Grágásar. Það hefur því lengi verið viðurkennt hér á landi, að búfjármörk séu eignarréttindi, sem aðilaskipti geti orðið að fyrir framsal. Fyrir rétthæð marks getur það skipt sköpum, hvort eigandinn er kominn að markinu fyrir arf, gjöf eða kaup.

Í úrskurði þeim, sem kvörtun A fjallar um, byggði markanefnd á upplýsingum markavarða um, hverjir hefðu verið skráðir eigendur umrædds marks í [S-sýslu] og [T-sýslu] og tengsl þeirra, sem átt höfðu mörkin. Í bréfi markavarðar [S-sýslu] frá 10. október 1989 sagði um skráningu eignarhalds á markinu þar í sýslu:

"1878-1896 [C]. 1896-1910. [D]... Hún var mágkona [C] systir [K] konu hans. 1910-1951 [E]. [E] var bróðurdóttir [D]. 1951-1965 [F]. Hann er sonur [E]. 1965-1988 [B]. Hann er eiginmaður [L] en [L] er bróðurdóttir [F].

Markið er ættar- og erfðamark í [S-sýslu] frá fyrstu tíð."

Efni bréfs markavarðar T-sýslu frá 20. apríl 1990 varðandi skráningu á eigendum marksins þar í sýslu og skyldleika þeirra og tengsl er tekið upp í úrskurð markanefndar, sem birtur er í I. kafla hér að framan.

Þegar um óleyfilegar sammerkingar er að ræða, skiptir meginmáli við úrlausn um forgangsrétt, með hvaða hætti mark hefur gengið til eigenda, eins og áður er lýst. Erfðamark er þar rétthæst og hefur því úrslitaþýðingu, hvort um erfðamark sé að ræða. Ekki verður sett fram almenn regla um það, hversu afdráttarlausrar sönnunar verður krafist í þessum efnum, en ekki eru rök til að fara þar mjög strangt í sakir, sérstaklega um löngu liðin aðilaskipti, þar sem búast má við því að mörk hafi verið látin ganga frá manni til manns með mjög óformlegum hætti. Það fær samt sem áður ekki staðist, að mark verði talið erfðamark fyrir það eitt, að réttur til marks hefur samkvæmt upplýsingum markavarðar, byggðum á markaskrám og kunnugleika hans á tengslum og skyldleika manna, flust milli tengdra manna eða skyldra, svo sem markanefnd gerði í máli því, sem hér er til meðferðar. Með hliðsjón af þeim skarpa skilsmun, sem lög gera samkvæmt framansögðu á mörkum eftir því, hvernig mark er til komið, og úrslitaþýðingu þess að mark er erfðamark, verður ekki hjá því komist að markavörður og þó sérstaklega markanefnd kanni rækilega heimildir þeirra manna, sem í hlut eiga, að marki. Verður þar að gæta þess sérstaklega, að á þeim tíma, er aðilaskipti eiga að hafa orðið, hafi legið fyrir þau skilyrði, sem lög setja varðandi erfðir, svo sem andlát fyrri eiganda, lögerfðatengsl og erfðagerninga, þegar lögerfðum sleppir.

Um heimild B að marki sínu lágu ekki aðrar upplýsingar fyrir markanefnd, að því er séð verður, en að það hafi gengið til hans frá föðurbróður konu hans, F. Bar brýna nauðsyn til þess að markanefnd kannaði nánar, með hvaða hætti þessi eigandaskipti að markinu höfðu orðið. Ekki er heldur nákvæmlega rétt hermt í úrskurði markanefndar frá 23. júlí 1990, að markavörður S-sýslu hafi í kærubréfi sínu frá 10. október 1989 haldið því fram, að hið umdeilda fjármark væri "erfðamark" í S-sýslu. Í bréfi markavarðarins sagði, að markið væri "ættar- og erfðamark í [S-sýslu] frá fyrstu tíð". Þetta áréttaði B í bréfi sínu til markanefndar 27. júní 1990. Hefði verið réttara, að markanefnd hefði gefið markaverði og B kost á að skýra nánar, áður en nefndin kvað upp úrskurð sinn, hvað þeir ættu við með ummælum sínum um "ættar- og erfðamark".

Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða mín, að til grundvallar umræddum úrskurði markanefndar frá 23. júlí 1990 hefði þurft að liggja rækilegri rannsókn eignarheimilda. Eru það tilmæli mín, að markanefnd taki málið upp til meðferðar og úrskurðar á ný."

IV. Viðbrögð stjórnvalda.

Hinn 23. mars 1992 barst mér svohljóðandi bréf frá markanefnd vegna ofangreinds máls:

„Markanefnd sendir yður hér með afrit af úrskurði nefndarinnar frá 12. mars s.l., varðandi eignarrétt að fjármarkinu [X], en samkvæmt honum hefur Markanefnd breytt fyrri niðurstöðu frá 23. júlí 1990 vegna nýrra upplýsinga og gagna sem nefndinni bárust, sbr. álit yðar frá 30. október 1991.“

Niðurstaða úrskurðar markanefndar, dags. 12. mars 1992, hljóðar svo:

„Samkvæmt því sem að framan er rakið lítur Markanefnd svo á að fjármarkið: [X] sé erfðamark í [T-sýslu] a.m.k. frá árinu 1966. Að vísu er margt óljóst um áhrif þeirra aðilaskipta á árinu 1980 sem lýst er í bréfi [A], er hann kaupir jörðina [...] með bústofni af foreldrum sínum. Engum sérstökum gögnum hefur t.d. verið framvísað til stuðnings fullyrðingum markeigandans í [T-sýslu] í bréfi 14. desember 1991 um „fyrirframgreiddan arf“.

Hvað varðar flokk fjármarksins í [S-sýslu] er ljóst samkvæmt þeim nýju upplýsingum sem Markanefnd hafa borist frá fyrri eiganda þess í [S-sýslu], [F] að fjármarkið verður að teljast gjafamark þar í sýslu frá árinu 1965 þegar [F] gefur bróðurdóttur sinni [L] fjármarkið. Þrátt fyrir að [L] hafi ekki verið sjálf skráð fyrir fjármarkinu í markaskrá [S-sýslu] verður að miða við að fjármarkið sé gjafamark í [S-sýslu], eign [B], og því réttlægra skv. 4. mgr. 68. gr. afréttarlaga nr. 6/1986.

Samkvæmt því sem að framan er rakið er það mat Markanefndar að með vísan til nýrra upplýsinga um rétthæð fjármarksins í [S-sýslu] sem bárust Markanefnd í desembermánuði 1991 séu næg rök til endurupptöku málsins af hálfu Markanefndar.

ÞVÍ ÚRSKURÐAST:

[A], skal halda fjármarkinu: [X].