Opinberir starfsmenn. Afnot og umráð prestssetursjarða. Kjör sóknarpresta. Svör ráðuneyta við erindum, sem þeim berast.

(Mál nr. 178/1989 og 297/1990)

Málum lokið með áliti, dags. 12. mars 1992.

A, sem skipaður var sóknarprestur í X-prestakalli frá 1. júlí 1989, kvartaði yfir því, að hann hefði ekki fengið prestssetursjörðina Y afhenta, er hann tók við prestsembættinu, og að úttekt af því tilefni hefði ekki farið fram, þrátt fyrir ábendingar hans um það í bréfum til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins og samtölum við starfsmenn ráðuneytisins. Þá kvartaði A einnig yfir því, að ekki hefðu fengist svör við bréfum, þar sem hann óskaði eftir skýringum ráðuneytisins á því, hvers vegna úttekt hefði ekki farið fram. Í rökstuðningi sínum með kvörtuninni vísaði A m.a. til þess, að sem sóknarprestur í X-prestakalli hefði hann rétt til að fá jörðina afhenta með úttekt. Samkvæmt lögum nr. 35/1970 skyldi prestssetur vera að Y en með lögum nr. 62/1990, er tóku gildi 1. júlí 1990, var ákveðið, að prestssetur í X-prestakalli yrði flutt að H.

Umboðsmaður taldi, að á þeim tíma, er A tók við embætti, hefði nýr sóknarprestur í þeim prestaköllum, þar sem ákveðið væri með lögum, að prestssetur skyldi vera á tiltekinni jörð, almennt átt kröfu á því að fá prestssetursjörðina afhenta, þegar hann tæki við embættinu. Hefði þessi almenna regla gilt um X-prestakall. Fram hafði komið af hálfu ráðuneytisins, að slæmt ástand íbúðarhúss á Y hefði meðal annars verið ástæða þess, að A fékk jörðina ekki afhenta. Í því sambandi tók umboðsmaður fram, að afnot og umráð sóknarprests að prestssetursjörð lytu ekki eingöngu að afnotum af íbúðarhúsnæði heldur einnig að nytjum jarðarinnar að öðru leyti, er kynnu að færa presti tekjur. Væri afnotarétturinn hluti af launakjörum sóknarpresta í þeim embættum, sem prestssetur á bújörð fylgdi að lögum.

Umboðsmaður gerði grein fyrir reglum um íbúðarhúsnæði sóknarpresta á prestssetursjörðum og benti á, að sérstakar reglur giltu um það samkvæmt lögum nr. 27/1968, um íbúðarhúsnæði í eigu ríkisins, þrátt fyrir að gera yrði ráð fyrir, að meginreglur ábúðarlaga giltu um afnot sóknarpresta af prestssetursjörðum. Með hliðsjón af lögum nr. 27/1968 og lagafyrirmælum um prestssetur á ákveðnum stöðum yrði að telja, að ríkið bæri að sjá viðkomandi sóknarpresti fyrir íbúðarhúsnæði og það ætti almennt að vera á prestssetrinu. Væri íbúðarhúsnæði þar ekki íbúðarhæft, bæri ríkinu að leggja hlutaðeigandi presti til annað húsnæði. Yrði sóknarprestur að sæta slíkri ráðstöfun að óhagræði bættu, hömluðu fjárlög viðhaldi íbúðarhúsnæðis á prestssetrinu. Taldi umboðsmaður ákvæði ábúðarlaga um húsaskyldu varðandi íbúðarhús víkja fyrir ákvæðum laga nr. 27/1968.

Það varð því niðurstaða umboðsmanns, að ástand íbúðarhúsnæðis á prestssetursjörð og lagareglur um slíkt húsnæði ættu ekki að standa í vegi fyrir því, að sóknarprestur fengi prestssetursjörð afhenta, er hann tæki við embætti. Það hefði verið á ábyrgð dóms- og kirkjumálaráðuneytisins að sjá um, að prestssetrið væri laust til afnota fyrir hinn nýja sóknarprest, enda hefði það verið gerlegt, eða grípa ella til þess úrræðis, sem ráðuneytið hefði að lögum til að flytja prestssetrið innan prestakallsins sem efni hefðu verið til eins og á stóð. Því hefðu skýringar ráðuneytisins í tilefni kvörtunarinnar ekki verið fullnægjandi og A því að lögum átt rétt til að fá prestssetrið Y til umráða og afnota frá því að A var skipaður sóknarprestur í X-prestakalli og þar til prestssetrið var flutt. Umboðsmaður taldi það eiga vera almenna reglu, að stjórnvald svari skriflega erindi, sem beint væri til þess með bréfi. Í þeim tilvikum þegar stjórnvald veldi þá leið að gera grein fyrir svari sínu munnlega á fundi með hlutaðeigandi, yrði að gera þá kröfu, að stjórnvaldið tryggði, að fyrir lægi með skriflegum hætti, hvað fram hefði farið á þeim fundi. Ráðuneytið hefði átt að svara bréfum A með formlegu svarbréfi, fyrr en raunin varð. Umboðsmaður beindi þeim tilmælum til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, að það athugaði, hvort og þá hvaða fjárhagslegu tjóni A hefði orðið fyrir vegna þess, að hann fékk Y ekki afhenta, þegar hann tók við prestsembættinu og naut ekki afnota af jörðinni, meðan þar var enn prestssetur. Leiddi sú athugun til þess að A hefði orðið fyrir fjártjóni af þessum sökum taldi umboðsmaður, að ráðuneytinu bæri að bæta honum þann skaða.

I.

Tvö álita minna á árinu 1992 vörðuðu rétt sóknarpresta til umráða og afnota prestssetursjarða (mál nr. 178/1989 og 297/1990). Þar sem fjallað er í öllum meginatriðum um sams konar úrlausnarefni í álitum þessum, tel ég nægja að greina frá öðru álitinu í skýrslu minni (mál nr. 297/1990). Ég tel þó rétt að taka fram, að sá var munur á stöðu sóknarprestanna, að annar þeirra var skipaður í embætti sitt, sbr. eftirgreint álit, en hinn var kallaður til þjónustu samkvæmt 7. gr. laga nr. 44/1987, um veitingu prestakalla. Að því er þennan mun snerti tók ég fram, að ég teldi þá tímabindingu, sem fylgir síðarnefndu tilhöguninni, ekki skipta máli varðandi rétt prestsins til jarðarinnar.

II.

A, sóknarprestur í X-prestakalli, leitaði til mín 14. maí 1990 og bar fram kvörtun út af því, að hann hefði ekki fengið prestssetursjörðina Y afhenta, er hann tók við prestsembættinu, og að úttekt af því tilefni hefði ekki farið fram, þrátt fyrir ábendingar hans um það í bréfum til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins og samtölum við starfsmenn ráðuneytisins. Þá kvartaði hann einnig yfir því, að ekki hefðu fengist svör við bréfum, þar sem hann óskaði eftir skýringum ráðuneytisins á því, hvers vegna úttekt hefði ekki farið fram.

Í rökstuðningi sínum með kvörtuninni vísaði A meðal annars til þess, að sem sóknarprestur í X-prestakalli hefði hann átt rétt til að fá prestssetursjörðina afhenta með úttekt.

III.

A var skipaður sóknarprestur í X-prestakalli í Z-prófastsdæmi frá 1. júlí 1989 að telja og var skipunarbréf ráðherra gefið út 4. júlí sama ár.

Í XI. lið í 1. gr. laga nr. 35/1970 um skipun prestakalla og prófastsdæma og um kristnisjóð sagði, að prestssetur í X-prestakalli væri á Y. Frá árinu 1960 hafði jörðin hins vegar ekki verið nýtt sem prestssetur og þegar A kom að prestakallinu, tók dóms- og kirkjumálaráðuneytið á leigu íbúðarhúsnæði fyrir hann að H og var leigusamningurinn uppsegjanlegur af hálfu leigutaka og leigusala með þriggja mánaða fyrirvara.

Í frásögn A kom fram, að hann hefði skömmu eftir að hann tók við embætti 1. júlí 1989 rætt það nokkrum sinnum við prófast, hvort ekki væri til siðs að fram færi formleg úttekt á prestakallinu, er nýr prestur kæmi að því. A ritaði síðan biskupi bréf 2. janúar 1990 og lýsti þar prestssetursmálinu. Í janúarmánuði 1990 ritaði A einnig dóms- og kirkjumálaráðherra og óskaði eftir að fá ráðstöfunarrétt og umsjón Y í sínar hendur. Þessi beiðni var ítrekuð í viðtali við ráðherra um miðjan febrúar 1990. A ritaði ráðherra á ný bréf 19. mars 1990 og ítrekaði beiðni sína. Í bréfi sínu tók A fram, að hann óskaði eftir að fá umsjón prestssetursins í sínar hendur og sagði síðan:

"Af ýmsum ástæðum, sem ég rek ekki hér, tel ég rétt að umsjón staðarins sé án frekari tafa færð á hendi sóknarprests. Þó er viðurkennt að viturlegt geti verið að bíða enn um stund með uppbyggingu prestsseturs á jörðinni, í ljósi þeirra breytinga er lesa má um í nýju stjórnarfrumvarpi kirkjumálaráðherra um skipan prestakalla. Í öllu falli verður ekki við það unað, á grundvelli gildandi laga, að leigusamningur verði endurnýjaður við núverandi leiguliða af núverandi leigusala, sem er kirkjumálaráðuneytið fyrir hönd Kirkjueignasjóðs. Sá samningur rennur út í byrjun júní, eða eftir rúmlega tvo mánuði."

A sendi prófastinum í Z-prófastsdæmi bréf 3. apríl 1990 og ítrekaði beiðni sína um að úttekt færi fram á prestssetursjörðinni Y, miðað við afhendingu eigi síðar en á fardögum 1990. Þá yrði jafnframt tekin afstaða til þess, hvaða bætur hann ætti að hljóta fyrir að fá ekki löglegt prestssetur sitt í hendur strax 1. júlí 1989 til fullra afnota og ráðstöfunar. Í frásögn A sagði, að prófastur hefði komið erindi þessu á framfæri við dóms- og kirkjumálaráðuneytið.

A hafði ekki fengið svör dóms- og kirkjumálaráðuneytisins við framangreindum kröfum, þegar hann bar fram kvörtun sína 14. maí 1990.

IV. Athugun umboðsmanns Alþingis.

Með bréfi, dags. 18. júní 1990, óskaði ég eftir því við dóms-og kirkjumálaráðuneytið, að það léti mér í té gögn þau og upplýsingar, er vörðuðu mál þetta. Sérstaklega óskaði ég eftir upplýsingum um, hvort bréfi A frá 19. mars 1990 hefði verið svarað, og ef svo væri ekki, hvað liði afgreiðslu þess.

Ráðuneytið svaraði beiðni minni með bréfi, dags. 13. júlí 1990, og með því var mér sent afrit af svohljóðandi bréfi, sem ráðuneytið hafði ritað A þann sama dag:

"Vísað er til bréfs yðar dags. 19. mars s.l., þar sem þér óskið eftir að yður verði veittur "umsjónar- og ráðstöfunarréttur" yfir jörðinni [Y].

Til glöggvunar er rétt að rifja upp nokkur atriði, er snerta þetta mál. Með lögum nr. 35/1970 voru [Y-] og [T-prestaköll] í [Z-prófastsdæmi] sameinuð með prestsbústað á [Y]. Þáverandi prestur í [T-prestakalli] og forveri yðar, sr. [N] kaus að sitja áfram á [T] eftir umrædda sameiningu þar til hann lét af embætti. [Y] hefur verið í tímabundinni ábúð í meira en 25 ár. Núverandi ábúandi [Y] [S] hefur haft jörðina á leigu frá árinu 1976. Samkvæmt leigusamningi gerðum það ár, miðast leiga við fardaga og framlengist sjálfkrafa um eitt ár, sé henni ekki sagt upp. Þér voru skipaður sóknarprestur í [X-prestakalli] frá og með 1. júlí 1989 og hefði því fyrst komið til greina að segja upp leigusamningi við [S] miðað við fardaga 1990.

Íbúðarhúsið á [Y] er það lélegt, að það telst ekki boðlegur prestsbústaður. Ekki var talið borga sig að gera við hann til þeirra nota. Af þessum ástæðum gátuð þér ekki búið á jörðinni við óbreyttar aðstæður. Yður stóð til boða að búa á [T] fyrst um sinn, þar sem íbúðarhúsið var í íbúðarhæfu ástandi. Niðurstaðan var hins vegar sú, að tekið var á leigu húsnæðið [V] til nota sem prestsbústaður til bráðabirgða og var sú ráðstöfun gerð í samráði við yður.

Síðastliðið vor voru samþykkt á Alþingi ný lög um skipan prestakalla og prófastsdæma, sbr. lög nr. 62/1990. Samkvæmt hinum nýju lögum skal prestssetur [X-prestakalls] vera á [H] og hefur þegar verið auglýst eftir húsnæði fyrir prestsbústað þar. Með hliðsjón af þessari breytingu, þóttu ekki vera rök til þess, að jörðin yrði tekin út í hendur yðar í vor. Hitt er ljóst, að taka þarf ákvörðun um framtíð [Y] í ljósi hinnar breyttu skipanar og mun það verða gert í samráði við yfirstjórn kirkjunnar.

Að lokum skal tekið fram, að enda þótt bréfi yðar frá 19. mars s.l., hafi ekki verið bréflega svarað fyrr en nú, hefur ráðuneytið gert yður grein fyrir framangreindum atriðum í viðtölum."

Að fengnu þessu svari ráðuneytisins gaf ég A með bréfi, dags. 11. september 1990, kost á að senda mér athugasemdir sínar í tilefni af bréfi ráðuneytisins, áður en ég tæki ákvörðun um framhald málsins af minni hálfu. Athugasemdir A bárust mér í bréfi, dags. 17. september 1990. Kom m.a. fram af hans hálfu, að ráðuneytið hefði þurft að styðja staðhæfingu sína um ástand prestsbústaðar sterkari rökum og yngri skoðunargerð en sú síðasta væri frá 1976. Aldrei hefði reynt á það, hvort hann hefði getað tekið búsetu á jörðinni. Vegna skírskotunar ráðuneytisins til laga nr. 62/1990 benti A á, að þau lög hefðu tekið gildi 1. júlí 1990 og því hefði ekki verið mögulegt fyrir ráðuneytið að fresta úttekt nema byggja þá fyrst á frumvarpsdrögum, síðar frumvarpi og síðast lögum, sem ekki höfðu tekið gildi.

A tók og fram í bréfi sínu, að hann kannaðist við að eitthvað af því, sem greindi í bréfi ráðuneytisins, hefði komið fram á fundum hans með ráðherra og starfsmönnum ráðuneytisins um málið, en ekkert af því hefði verið lagt fram á fundunum með ótvíræðum hætti af hálfu ráðuneytismanna. Útilokað væri því að vísa til þess, eins og um embættisfærslu hefði verið að ræða.

Með bréfi, dags. 28. desember 1990, óskaði ég eftir því í samræmi við 9. gr. laga nr. 13/1987, að dóms- og kirkjumálaráðuneytið skýrði viðhorf sitt til kvörtunar A. Jafnframt óskaði ég eftir því, að ráðuneytið skýrði, hvaða rétt sóknarprestur hefði til prestsseturs, sem jafnframt er bújörð, og til að ráðstafa jarðarnytjum og hlunnindum, svo sem með framleigu til annarra, og hvernig færi um kostnað vegna framkvæmda við íbúðarhúsnæði á prestssetri. Þá óskaði ég sérstaklega eftir upplýsingum um eftirfarandi:

"a) Hvaða lagaheimildir, aðrar en 14. gr. laga nr. 35/1970 um skipun prestakalla og prófastsdæma og um kristnisjóð, hafi á árinu 1989 heimilað að vikið væri frá ákvæðum 1. gr. laga nr. 35/1970 um staðsetningu prestssetra.

b) Hvort teknar hafi verið ákvarðanir samkvæmt 14. gr. laga nr. 35/1970 um flutning á prestssetrinu að [Y] á annan stað í prestakallinu.

c) Hvort [A] hafi, áður en hann hlaut skipun í embætti sóknarprests í framangreindu prestakalli, verið gerð grein fyrir því að hann fengi ekki prestssetursjörðina [Y] til afnota.

d) Hvort þeim sóknarprestum, sem ekki hafa átt þess kost að fá lögákveðnar prestssetursjarðir til afnota, hafi með einhverjum hætti verið bætt tekjutap af þeim sökum, þegar um það hefur verið að ræða."

Ég ítrekaði með bréfum, dags. 19. mars og 22. maí 1991, tilmæli mín um að ráðuneytið skýrði viðhorf sitt til kvörtunarinnar í samræmi við bréf mitt frá 28. desember 1990. Svar dóms- og kirkjumálaráðuneytisins barst mér með svohljóðandi bréfi, dags. 3. september 1991:

"Undir öllum venjulegum kringumstæðum hefur prestur rétt til prestsseturs og til ábúðar á prestssetursjörð. Aðstæður geta þó í undantekningartilvikum verið með þeim hætti, að ekki sé unnt að veita presti umráð prestsseturs og jarðar, þegar hann tekur við embætti. Einkum á þetta sér stað og svo var í því tilviki, sem hér um ræðir, þegar prestssetursjörð hefur ekki verið setin af presti um langan tíma og ekki gefst ráðrúm til að segja upp leigusamningum í tæka tíð og tryggja fjárveitingu til nauðsynlegra endurbóta á prestsbústað. Meðan slíkt ástand varir er reynt að bæta presti það óhagræði, sem af hlýst, m.a. með því að útvega annað íbúðarhúsnæði í staðinn með ekki lakari leigukjörum, en samkvæmt reglugerð um íbúðarhúsnæði í eigu ríkisins nr. 334/1982. Rétt er að taka fram, að lög um íbúðarhúsnæði í eigu ríkisins nr. 27/1968 og áðurnefnd reglugerð, sem sett var á grundvelli þeirra, hafa verið talin gilda um prestsbústaði, hvort sem þeir eru á prestssetursjörð eða ekki. Samkvæmt 7. gr. laganna greiðir ríkissjóður alla skatta og skyldur, svo og viðhaldskostnað af prestsbústöðum. Einnig hefur ráðuneytið talið sér skylt að hlíta ákvæðum 8. gr. laganna, þar sem segir, að bygging og viðhald íbúðarhúsnæðis er lögin taki til, svo og endurbætur á því skuli vera innan ramma fjárlaga. Varðandi byggingu prestsbústaða gilda einnig lög um opinberar framkvæmdir nr. 63/1970. Með vísan til laga nr. 27/1968 og að nokkru leyti laga nr. 63/1970 telur ráðuneytið, að sóknarpresti sem býr á prestssetursjörð sé ekki heimilt að ráðast í nýbyggingu, endurbætur og viðhald á íbúðarhúsnæði á prestssetursjörð, sem kostar verulega fjármuni án leyfis ráðuneytisins.

Um samskipti sóknarprests er situr prestsseturjörð og ráðuneytis, gilda reglur ábúðarlaga að því marki, sem við getur átt. Sóknarprestur hefur ekki rétt til að framleigja jarðarafnot og hlunnindi, nema með samþykki ráðuneytis, sbr. ákvæði 26. gr. ábúðarlaga. Þó hefur verið talið átölulaust, að prestur leigi afnot af slægjum, grasnytjar og þess konar jarðarafnot, án sérstaks leyfis, ef leigutíminn er ekki lengri en eitt ár.

Eins og fram kemur í bréfi ráðuneytisins til sr. [A] dags. 13. júlí 1990 hefur [Y] ekki verið setinn af presti í áraraðir og því eðlilegt að um jörðina væri gerðir samningar um tímabundna ábúð. Í samningi þar að lútandi var hefðbundið ákvæði um heimild til uppsögn samnings miðað við fardaga. Ráðuneytinu barst fyrst vitneskja um val sr. [A] til embættis sóknarprests í [Y-prestakalli] eftir fardaga 1989. Lög nr. 62/1990 voru samþykkt á vorþingi 1990 og með þeim var [Y] aflagður sem prestssetursjörð. Það kom því ekki til þess, að sr. [A] tæki við umráðum jarðarinnar á fardögum 1990.

Eftirfarandi eru svör ráðuneytisins við spurningum yðar a) til d)

a. Ástand íbúðarhússins á [Y] er með þeim hætti, að það er ekki boðlegt sem prestsbústaður. Fyrir lá, að mjög kostnaðarsamt yrði að gera við húsið þannig það væri presti bjóðandi. Reyndar var afstaða ráðuneytisins sú, að hagkvæmara væri að reisa nýjan prestsbústað á staðnum. Eins og áður sagði hefur ráðuneytið talið sér skylt að hlíta 8. gr. laga nr. 27/1968, þess efnis að bygging, viðhald og endurbætur á embættisbústöðum skuli vera innan fjárlaga. Í fjárlögum 1989 var ekki fyrir hendi fjárveiting til þess að gera sóknarpresti mögulegt að búa á staðnum þannig að unnt væri að fullnægja 1. gr. laga nr. 35/1970 að þessu leyti.

b. Ekki var tekin ákvörðun samkvæmt 14. gr. laga nr. 35/1970 um flutning á prestssetrinu frá [Y] á annan stað í prestakallinu. Hins vegar var forvera sr. [A], sr. [N] samkvæmt eigin ósk heimilað að búa áfram á jörðinni [T] eftir setningu laganna og þar til hann lét af prestsskap 1987.

c. Eins og fram kom í bréfi ráðuneytisins til sr. [A] dags. 13. júlí 1990, gerði ráðuneytið honum munnlega grein fyrir afstöðu þess til ástands íbúðarhússins á [Y] og þeim vandkvæðum, sem væru á því að afhenda honum jörðina með eðlilegum hætti. Ráðuneytið telur sennilegt, þótt það geti ekki stutt það gögnum, að um þetta hafi verið rætt áður en hann hlaut skipun í embættið.

d. Í þeim fáu tilvikum, þar sem svo stendur á, að prestur hefur ekki getað flutt á prestssetursjörð þegar hann tekur við embætti, hefur ráðuneytið reynt með einhverjum hætti að bæta viðkomandi presti, það óhagræði, sem hann verður fyrir vegna þess. Geta má þess, að í því tilviki sem hér um ræðir var íbúðarhúsið [V] tekið á leigu og endurleigt sr. [A] án endurgjalds. Við gerð aksturssamnings við hann, var einnig tekið tillit til hærri aksturskostnaður vegna þess að hann bjó ekki á prestsetursjörðinni."

Ég gaf A með bréfi, dags. 5. september 1991, kost á að senda mér þær athugasemdir, sem hann teldi ástæðu til að gera í tilefni af framangreindu bréfi ráðuneytisins. Athugasemdir bárust ekki frá A.

V. Niðurstaða.

Niðurstaða álits míns, dags. 12. mars 1992, var svohljóðandi:

"Eins og áður er fram komið, var A skipaður til að vera sóknarprestur í X-prestakalli frá 1. júlí 1989 að telja. Samkvæmt XI. lið í 1. gr. laga nr. 35/1970, um skipun prestakalla og prófastsdæma og um kristnisjóð, skyldi prestssetur í X-prestakalli vera á Y. Með lögum nr. 62/1990 um skipan prestakalla og prófastsdæma og um starfsmenn þjóðkirkju Íslands, sem tóku gildi 1. júlí 1990, voru gerðar breytingar á skiptingu Z-prófastsdæmis í prestaköll og prestssetur í X-prestakalli flutt frá Y að H.

Í bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins frá 13. júlí 1990 segir, að með lögum nr. 35/1970 hafi Y- og T-prestaköll í Z-prófastsdæmi verið sameinuð og ákveðið að prestssetur skyldi vera á Y. Hinu sameinaða prestakalli var síðan þjónað af þeim presti, sem áður hafði setið í T-prestakalli, og kaus hann að sitja á T þar til hann lét af embætti. Samkvæmt skýringum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins var þrátt fyrir þetta ekki neytt heimildar 14. gr. laga nr. 35/1970 til að flytja prestssetrið á Y á annan stað í prestakallinu. Verður því að miða við, að jörðin Y hafi að lögum verið prestssetur í X-prestakalli hinn 1. júlí 1989, þegar A var skipaður sóknarprestur þar.

Í lögum nr. 46/1907 um laun sóknarpresta segir svo í 4. gr.:

"Þar sem presturinn hefur hingað til haft ákveðið prestssetur heldur hann ábúðarrétti á því framvegis."

Í lögunum eru síðan reglur um, hvernig prestur skuli taka afgjald eftir prestssetrið, lóðargjöld á landi þess og arð af ítökum, sem prestur notar sjálfur. Með lögum nr. 71/1919 um laun embættismanna og síðar lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna urðu breytingar á launakjörum presta, en í þeim lögum hefur ekki sérstaklega verið fjallað um rétt presta til prestssetra og afnot þeirra af þeim.

Ákvæði laga nr. 46/1907 eru ekki skýr um rétt þeirra presta, sem tekið hafa við embætti eftir gildistöku laganna, til prestssetra og umráða yfir þeim.

Í lögum nr. 35/1970 og lögum um sama efni, sem áður giltu, var ákveðið, hvar prestssetur skyldu vera. Að öðru leyti en að framan greinir voru ekki bein ákvæði í lögum um rétt sóknarpresta til prestssetra, þar til ákvæði 8. gr. laga nr. 62/1990 tóku gildi 1. júlí 1990, en þar segir:

"Þar sem prestssetur er samkvæmt lögum þessum er presti skylt að hafa aðsetur og lögheimili, nema biskup heimili annað um stundarsakir, að fenginni umsögn prófasts og viðkomandi sóknarnefnda.

Um réttindi og skyldur presta gagnvart prestssetursjörðum gilda ákvæði ábúðarlaga og annarra laga eftir því sem við getur átt. Leigugjald af prestssetursjörðum skal ákveðið með reglugerð, sem kirkjumálaráðherra setur, að fenginni umsögn biskups.

Farprestar (skv. 9. gr.) njóti sambærilegra húsnæðiskjara og sóknarprestar.

Eigi má ráðstafa prestssetri til langframa nema til þess komi samþykki biskups, að fenginni umsögn viðkomandi prófasts, héraðsfundar og sóknarnefnda í viðkomandi prestakalli, svo og samþykki þess prests er veitingu hefur fyrir viðkomandi brauði.

Ráðherra er heimilt, að fenginni umsögn biskups og hlutaðeigandi prófasts, sóknarnefndar og sóknarprests, að flytja prestssetur til innan prestakalls. Ákvörðun um þetta efni skal birt í B-deild Stjórnartíðinda."

Þrátt fyrir að ekki nyti við sérstakra lagaákvæða, utan 4. gr. laga nr. 46/1907, um rétt sóknarpresta til prestssetra fyrir gildistöku laga nr. 62/1990 hefur í framkvæmd verið litið svo á, að prestssetur fylgdu þeim prestsembættum, þar sem prestssetur hafa verið lögákveðin, og að afnotaréttur af prestssetri væri hluti af kjörum viðkomandi sóknarprests. Rétt er að vitna hér til eftirfarandi orða í álitsgerð nefndar, sem dóms- og kirkjumálaráðherra skipaði 24. október 1980 til að kanna starfskjör presta þjóðkirkjunnar, en álitsgerð nefndarinnar er dagsett 27. október 1986. Á bls. 101 í álitsgerðinni segir:

"Fyrrum fylgdi jarðnæði nær öllum prestaköllum í landinu og ennþá flestum prestaköllum til sveita, í mörgum tilfellum góðjarðir að fornu og nýju. Jarðirnar voru hluti af þeirri heild sem prestar höfðu sér til framfærslu og reksturs embættisins... og þar sem jarðir fylgja prestssetrum enn eru þær hluti af því embætti sem presturinn fær veitingu fyrir, nýtur ábata af og ber fulla ábyrgð á. Hið sama gildir um ítök og hlunnindi er jörðum þessum fylgja."

Ég tel með hliðsjón af því, sem rakið hefur verið hér að framan, að ganga verði út frá því, að á þeim tíma, sem hér skiptir máli, þ.e. 1. júlí 1989, hafi nýr sóknarprestur í þeim prestaköllum, þar sem ákveðið var með lögum að prestssetur skyldi vera á tiltekinni jörð, almennt átt kröfu á því að fá prestssetursjörðina afhenta, þegar hann tók við embættinu. Gilti þessi almenna regla um X-prestakall.

Kemur þá til athugunar, hvort þær ástæður, sem dóms- og kirkjumálaráðuneytið færir fram til stuðnings því að A fékk ekki prestssetursjörðina Y afhenta, þegar hann tók við starfi sóknarprests 1. júlí 1989, hafi heimilað að vikið væri frá þeirri almennu reglu, er greinir hér að framan.

Fram kemur í skýringum ráðuneytisins, að íbúðarhúsið á Y hafi ekki verið boðlegt sem prestsbústaður, þegar A tók við prestakallinu. Af bréfum ráðuneytisins má ráða, að meðal annars hafi ástand íbúðarhússins á Y verið ástæða þess, að ráðuneytið féllst ekki á að afhenda A prestssetursjörðina, þannig að hann fengi venjubundin afnot og ráðstöfunarrétt jarðarinnar.

Umráð og afnot sóknarprests af prestssetursjörð lúta ekki eingöngu að afnotum af íbúðarhúsnæði á jörðinni, heldur á sóknarprestur kost á að nýta jörðina að öðru leyti, þ.m.t. hlunnindi hennar. Slík afnot kunna að færa prestinum tekjur, sem samkvæmt núverandi framkvæmd koma til viðbótar föstum launum sóknarprests. Þessi afnotaréttur af prestssetursjörð er því hluti af launakjörum sóknarpresta í þeim embættum, sem prestssetur á bújörð fylgir að lögum.

Þrátt fyrir að gera verði ráð fyrir því að meginreglum gildandi ábúðarlaga á hverjum tíma sé fylgt um afnot sóknarpresta af prestssetursjörðum og um réttindi og skyldur presta, að því er til jarðarinnar tekur, gilda sérstakar reglur um íbúðarhúsnæði sóknarpresta á prestssetursjörðum, eins og dóms- og kirkjumálaráðuneytið tekur fram í skýringum sínum. Samkvæmt lögum nr. 27/1968 um íbúðarhúsnæði í eigu ríkisins er það meginregla, að ríkið leggi ekki starfsmönnum sínum til íbúðarhúsnæði, nema því aðeins að þeir gegni störfum í þeim landshlutum, þar sem slíkt er nauðsynlegt vegna sérstakra staðhátta. Í lögunum eru síðan nánari reglur um byggingu og viðhald íbúðarhúsnæðis í eign ríkisins og um leigugjald fyrir það. Með hliðsjón af ákvæðum laga, sem mæla svo fyrir, að prestssetur skuli vera á tilteknum stöðum utan þéttbýlis, verður að líta svo á, að löggjafinn hafi ákveðið, að í þeim tilvikum skuli ríkið sjá viðkomandi sóknarpresti fyrir íbúðarhúsnæði og það skuli almennt vera á prestssetrinu.

Sé íbúðarhúsnæði á prestssetursjörð ekki íbúðarhæft, verður að skýra lög nr. 27/1968 á þann veg, að ríkinu beri að leggja hlutaðeigandi sóknarpresti til annað íbúðarhúsnæði með ekki lakari leigukjörum heldur en gilt hefðu um íbúðarhúsnæðið á prestssetrinu, ef það væri nothæft. Samkvæmt ákvæðum 4. og 8. gr. laga nr. 27/1968 verður bygging, viðhald og endurbætur íbúðarhúsnæðis þeirra starfsmanna ríkisins, er lögin taka til, að vera innan ramma fjárlaga. Af því leiðir, að sé íbúðarhúsnæði á prestssetursjörð óíbúðarhæft, eiga hlutaðeigandi stjórnvöld ekki kost á því að bæta úr því, fyrr en fjárveiting er veitt til þess á fjárlögum. Sá sóknarprestur, sem í hlut á, verður því að sæta því að ríkið leggi honum á meðan til íbúðarhúsnæði utan prestssetursins, enda sé honum bætt það óhagræði, sem af því kann að leiða.

Þess var áður getið, að afnot af íbúðarhúsnæði sé aðeins hluti af þeim afnotum og umráðum, sem fylgja prestssetursjörð. Ég tel að skýra verði ákvæði laga nr. 27/1968 á þann veg, að þau gangi framar reglum ábúðarlaga nr. 64/1976 um ástand íbúðarhúss, sem skylt er að láta fylgja jörð skv. 10. og 11. gr. laganna. Það er því niðurstaða mín, að ástand íbúðarhúsnæðis sóknarprests á prestssetursjörð og lagareglur um slíkt íbúðarhúsnæði eigi ekki að standa í vegi fyrir því að sóknarprestur, er fengið hefur veitingu fyrir prestakalli, sem prestssetur fylgir að lögum, fái prestssetursjörðina afhenta til afnota og umráða frá og með þeim tíma, sem hann tekur við embættinu. Vegna sérstöðu prestssetursjarða og lögmælts hlutverks þeirra verður í samræmi við lokaákvæði 1. mgr. 5. gr. ábúðarlaga nr. 64/1976 að gera þá kröfu til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, sem fer með forræði þessara jarða, að á meðan þær eru ekki setnar af sóknarpresti sé þeim og nytjum af þeim aðeins ráðstafað til skamms tíma og sá tími miðist við að jarðirnar séu lausar til afnota fyrir nýjan sóknarprest, þegar hann tekur við embætti.

Í skýringum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins í tilefni af kvörtun A segir, að ráðuneytinu hafi ekki borist vitneskja um val A í embættið fyrr en eftir fardaga 1989. Jörðinni Y hafði þá um árabil verið ráðstafað til ábúðar til árs í senn milli fardaga og framlengdist sú leiga, væri henni ekki sagt upp. Í samræmi við ákvæði ábúðarlaga þurfti að segja upp ábúð fyrir jól, ætti hún að koma til framkvæmda á fardögum að vori. Í bréfi ráðuneytisins kemur einnig fram, að fyrirrennari A lét af prestsskap árið 1987. Í ljósi þessa hefði verið eðlilegt, að ráðuneytið hefði frá og með þeim tíma, er prestakallið losnaði, átt frumkvæði að því að afla upplýsinga um, hver væru áform þar til bærra aðila samkvæmt lögum nr. 44/1987 um veitingu prestakalla um ráðstöfun á prestsembættinu. Var og rétt, að ráðuneytið hefði frá sama tíma haft samráð við þessa aðila um ráðstöfun á prestssetursjörðinni og ráðstöfun hennar miðast við, að hún yrði tiltæk, ef sóknarprestur kæmi í prestakallið. Ber hér einnig að líta til þess, að ráðherra var með 14. gr. laga nr. 35/1970 veitt heimild til að flytja prestssetrið á hentugri stað í prestakallinu. Hefði verið rétt að beita þessu lögmælta úrræði, ef ráðuneytið taldi ekki rétt að gera breytingar á skipan afnota leiguliða af prestssetursjörðinni. Áform um lagabreytingar í þá átt að leggja af prestssetur á Y gáfu ráðuneytinu einnig tilefni til að beita áðurgreindu úrræði 14. gr. laga nr. 35/1970.

Ég hef áður lýst því, að lélegt ástand íbúðarhúsnæðis á prestssetursjörð hafi ekki á þeim tíma, sem hér um ræðir, átt að koma í veg fyrir að sóknarprestur fengi prestssetur afhent, þegar hann tæki við embætti. Það var á ábyrgð dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, sem fór með forræði prestssetra, að sjá um að prestssetrið væri laust til afnota fyrir hinn nýja sóknarprest eða grípa ella til þess úrræðis, sem ráðuneytið hafði að lögum til að flytja prestssetrið innan prestakallsins. Ég tel því að þær skýringar, sem ráðuneytið hefur gefið í tilefni af kvörtun A, séu ekki fullnægjandi og A hafi að lögum átt rétt til að fá prestssetrið Y til umráða og afnota á tímabilinu 1. júlí 1989 til 1. júlí 1990, þegar prestssetrið var flutt.

A kvartar einnig yfir því, að dóms- og kirkjumálaráðuneytið hafi ekki svarað þeim bréfum, sem hann sendi ráðuneytinu um þetta mál. Eins og fram hefur komið, ritaði A ráðherra og ráðuneytinu í janúar og mars 1990, en hann hafði ekki fengið svarbréf vegna þessara bréfa, þegar hann bar fram kvörtun sína 14. maí 1990. Ráðuneytið vísar til þess, að þótt bréfunum hafi ekki verið svarað, þá hafi ráðuneytið greint A frá afstöðu sinni í samtölum, sem hann hefði átt við starfsmenn ráðuneytisins. Ráðuneytið hefur ekki lagt fram neinar skriflegar staðfestingar á því, hvað fór fram í umræddum samtölum. Ég tel að það eigi að vera almenn regla, að stjórnvald svari skriflega erindi, sem beint er til þess með bréfi. Í þeim tilvikum, þegar stjórnvald velur þá leið að gera grein fyrir svari sínu munnlega á fundi með hlutaðeigandi, verður að gera þá kröfu að stjórnvaldið tryggi að fyrir liggi með skriflegum hætti, hvað fram hefur farið á þeim fundi. Ég tel að í því tilviki, sem hér er fjallað um, hefði dóms- og kirkjumálaráðuneytið átt að svara bréfum A með formlegu svarbréfi fyrr en raunin varð.

Í samræmi við það, sem að framan greinir, eru það tilmæli mín, að dóms- og kirkjumálaráðuneytið taki til athugunar, hvort og þá hvaða fjárhagslegu tjóni A hafi orðið fyrir, vegna þess að hann fékk prestssetursjörðina Y ekki afhenta, þegar hann tók við prestsembættinu, og naut ekki afnota af jörðinni meðan hún var enn prestssetur. Leiði sú athugun til þess, að A hafi orðið fyrir fjártjóni af þessum sökum, tel ég að ráðuneytinu beri að bæta honum þann skaða."

VI. Viðbrögð stjórnvalda.

Með bréfum, dags. 1. október 1992, óskaði ég eftir upplýsingum frá dóms- og kirkjumálaráðuneytinu um það, hvort einhverjar ákvarðanir hefðu verið teknar í tilefni af framangreindu áliti mínu. Svar dóms- og kirkjumálaráðuneytisins barst mér með bréfi, dags. 5. nóvember 1992, og hljóðar það svo:

"Vísað er til tveggja bréfa yðar, dags. 1. október sl., þar sem spurst er fyrir um hvort einhverjar ákvarðanir hafi verið teknar í tilefni af áliti yðar um kvartanir sr. [A] og sr. [B].

Af því tilefni skal tekið fram að ráðuneytið fór þess á leit við prestana að þeir sendu skriflega kröfugerð til ráðuneytisins. Að þeim fengnum voru bæði málin send ríkislögmanni til meðferðar, sbr. 2. gr. laga nr. 51/1985 um ríkislögmann. Dráttur varð þó á því að það væri gert vegna mikilla anna undirritaðs.

Þá þykir rétt að taka fram, að dóms- og kirkjumálaráðuneytið mun eftirleiðis haga framkvæmd á því sviði er álit yðar taka til í fullu samræmi við nefnd álit yðar."