Afturköllun. Breyting stjórnvaldsákvörðunar. Birting.

(Mál nr. 1852/1996)

A, B, C og D kvörtuðu yfir því, að einkunn fyrir lokaverkefni þeirra við Háskólann á Akureyri hefði verið breytt. Í fyrsta lagi kvörtuðu þeir yfir því, að einkunninni hefði verið breytt til samræmis við aðrar einkunnir fyrir lokaverkefni, stuttu eftir að hún var birt þeim á skrifstofu háskóladeildarinnar. Í reglugerð nr. 405/1990, fyrir Háskólann á Akureyri, var gert ráð fyrir því, að lokaverkefni væru metin af kennara og prófdómara. Af þessu taldi umboðsmaður leiða, að ákvörðun um einkunnagjöf hafi verið tekin, er kennari og prófdómari hafi metið tiltekið verkefni. Ákvörðun um einkunn fjórmenninganna hafði því verið tekin þegar fyrir lá niðurstaða kennara og prófdómara um verkefni þeirra. Umboðsmaður tók fram, að einkunnagjöf, a.m.k. þegar um er að ræða einkunnir sem reiknast til lokaprófs, væri stjórnvaldsákvörðun. Samkvæmt 2. ml. 1. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga var ákvörðun um einkunnagjöfina bindandi, eftir að hún hafði verið birt nemendunum. Umboðsmaður vísaði til þess, að það er almennt á verksviði þess stjórnvalds sem ákvörðun tekur, að birta hana. Þó að settar séu til hagræðingar reglur, sem víkja frá þessari meginreglu, leiði það almennt ekki til þess að birting samkvæmt meginreglunni sé án réttaráhrifa. Hann taldi því að ákvæði reglugerðar nr. 405/1990, um að einkunnaskráning Háskólans sæi um birtingu einkunna, högguðu ekki réttaráhrifum birtingarinnar á skrifstofu deildarinnar. Eftir að ákvörðun um einkunnagjöfina hafði verið birt var óheimilt að breyta einkunninni á grundvelli 1. mgr. 23. gr. stjórnsýslulaga. Það var því niðurstaða umboðsmanns, að það hefði verið ólögmætt að breyta einkunnum A, B, C og D úr því horfi sem kennari og prófdómari höfðu ákveðið. Í öðru lagi kvörtuðu A, B, C og D yfir því, að hálfu ári eftir að einkunn fyrir verkefnið var fyrst gefin, ákváðu kennari og prófdómari að afturkalla fyrri einkunn þeirra og gefa þeim aðra einkunn í hennar stað. Umboðsmaður taldi, að ekki yrði ráðið af gögnum málsins að afturköllunarheimild hefði verið fyrir hendi. Það eitt, að komið hefði í ljós innbyrðis ósamræmi við einkunnagjöf heimilaði ekki afturköllun birtrar einkunnar. Þar sem afturköllunin yrði hvorki byggð á 25. gr. stjórnsýslulaga né óskráðum meginreglum stjórnsýsluréttar um afturköllun, hefði hún verið ólögmæt. Þeim tilmælum var beint til Háskólans á Akureyri, að óskuðu þeir eftir því gæfi skólinn út ný prófskírteini til handa A, B, C og D, þar sem fram kæmi hin upphaflega einkunn þeirra fyrir lokaverkefnið, enda hefði henni ekki verið breytt með lögmætum hætti.

I. Hinn 22. júlí 1996 leituðu til mín A, B, C og D, og kvörtuðu yfir því, að einkunn fyrir lokaverkefni þeirra við Háskólann á Akureyri hefði verið breytt. II. Málsatvik eru þau, að vorið 1994 unnu þeir A, B, C og D lokaverkefni við rekstrardeild Háskólans á Akureyri. Þeir skiluðu skýrslu um verkefnið og vörðu hana fyrir leiðbeinanda og prófdómara hinn 20. maí 1994. Samkvæmt kvörtun fjórmenninganna var þeim síðan birt einkunn fyrir verkefnið í afgreiðslu rekstrardeildar Háskólans á Akureyri við Glerárgötu og var vegið meðaltal einkunna leiðbeinanda og prófdómara 9. Í kvörtun þeirra segir, að nokkrum dögum eftir að einkunnin var birt hafi þeim verið tilkynnt með óformlegum hætti, að "einkunnin hefði verið kærð af "umsjónarmanni lokaverkefna"... og fyrirhugað væri að skipa nýjan prófdómara". Niðurstaða þess prófdómara var að einkunn þeirra fyrir verkefnið skyldi vera 8. Á yfirliti yfir einkunnir fyrir lokaverkefni umrætt vor, sem dagsett er "30.5.1994-9.6.1994", má sjá að einkunn þeirra fyrir lokaverkefnið hefur verið breytt úr 9 í 8. Hinn 22. júní 1994 rituðu þeir A, B, C og D deildarstjóra rekstrardeildar Háskólans á Akureyri bréf og fóru fram á það, að "áður birt einkunn 9" yrði látin standa, enda hefði hún verið gefin og birt með eðlilegum hætti. Sömuleiðis fóru þeir fram, á að "sú einkunn sem síðar var birt 8" yrði ógilt. Loks óskuðu þeir eftir því að fá afhent nýtt einkunnablað, sambærilegt því, sem afhent var við útskrift þeirra, þar sem fram kæmi einkunnin 9 fyrir lokaverkefni. Þar sem engin svör bárust við bréfi þessu, rituðu þeir deildarfundi rekstrardeildar bréf hinn 9. ágúst 1994 og óskuðu eftir leiðréttingu á einkunninni. Í svari forstöðumanns rekstrardeildar við bréfi þessu, dags. 9. desember 1994, segir meðal annars svo: "Málið hefur verið kannað en rætt var við [...] þáverandi forstöðumann [rekstrardeildar], [Z] umsjónarmann lokaverkefna, [...] handleiðara, [...] prófdómara, [X] sem las öll verkefnin yfir sem "málfarsráðunautur" og [Y] sem fengin var, af forstöðumanni, til að fara yfir verkefnið áður en einkunn sú, sem athugasemd er gerð við var birt. Almennt gildir að þegar gefin er einkunn skal meðaltal einkunnar prófdómara og handleiðara gilda séu þeir ekki sammála um fyrirgjöf. Þegar gefnar eru einkunnir í lokaverkefnum þar sem margir koma að einkunnagjöf skal þess gætt að samræmi sé á milli einkunna fyrir mismunandi lokaverkefni. Þegar handleiðari og prófdómari gáfu fyrir umrætt verkefni, sem varið var á undan öðrum, fengu þeir meðaltalið 86% sem gefur einkunnina 9 en þá hafði samræming ekki átt sér stað. Þessi "bráðabirgðaeinkunn" var birt nemendum hér í Glerárgötu og var þar um mistök að ræða þar sem þetta var gert áður en skrifstofu Háskólans voru afhentar einkunnir. Í 16. gr. reglugerðar fyrir Háskólann á Akureyri segir "Skrifstofa háskólans sér um færslu einkunna og varðveislu þeirra. Hún sér um að birta nemendum einkunnir." Er mjög miður að þetta skyldi tekið þannig að um eðlilega birtingu hafi verið að ræða og einkunn hafi verið endanleg. Þegar kom að því að skoða samræmi einkunna þegar úrslit allra lokaverkefna lágu fyrir var málsmeðferð ábótavant að því leyti að handleiðari og prófdómari viðkomandi verkefnis hefðu átt að fá það til umfjöllunar. Út af fyrir sig er ekkert athugavert við að fá álit fleiri aðila á mismunandi verkefnum en hins vegar er það hlutverk handleiðara og prófdómara að gefa fyrir verkefnið út frá þeim almennu reglum sem gilda. Því vísaði ég þessu verkefni aftur til þeirra nú í haust og höfðu þeir m.a. önnur verkefni til hliðsjónar við fyrirgjöf sína. Sameiginleg niðurstaða þeirra sem að þessu máli komu er sú eftir að tekið hefur verið meðaltal af mati fyrir mismunandi efnisþætti að verkefnið fái einkunnina 8. Einkunnaskráningu háskólans verður ritað bréf þar sem fram kemur að áður innfærð einkunn þ.e. 8 (átta) skuli standa þar sem verkefnið var metið upp á 84%. Er beðist velvirðingar á þeim mistökum sem gerð voru og á því að málsmeðferð var ábótavant. Einnig er beðist afsökunar á þeim óþægindum og leiðindum sem þetta kann að hafa valdið viðkomandi nemendum og öðrum þeim sem að þessu hafa komið." Hinn 8. mars 1995 rituðu A, B, C og D rektor Háskólans á Akureyri bréf, þar sem þeir ítrekuðu ósk sína um, að þeim yrði afhent nýtt prófskírteini þar sem kæmi fram, að einkunn þeirra fyrir lokaverkefni væri 9. Í bréfi þeirra sagði meðal annars svo: "Samkvæmt því sem við höfum komist næst kærði umsjónarmaður lokaverkefna, [Z] þá einkunn sem við fengum fyrir okkar lokaverkefni, af þeirri ástæðu að honum þótti hún of há. Í framhaldi af því skipaði þáverandi forstöðumaður rekstrardeildar [...], [Y] prófdómara. [Y] felldi síðan þann úrskurð að einkunn fyrir verkefnið ætti að vera 8. En upphaflega einkunnin var 9, og var það vegið meðaltal einkunna [...] prófdómara og [...] leiðbeinanda okkar. Við vorum ekki sáttir við þessa niðurstöðu og því gekk [D] á fund, þáverandi rektors [...]. Hann sagðist ekki treysta sér til að hnekkja þessum úrskurði, en hvatti til þess að við myndum útskrifast og taka við prófskírteinum, og síðan væri seinna hægt að leiðrétta einkunnina ef ástæða þætti til. [...] Við þessa málsmeðferð alla og rökin fyrir breytingu á einkunninni getum við ekki með nokkru móti sætt okkur við, og verða hér á eftir tilgreindar helstu athugasemdir okkar við málsmeðferðina: 1. Einkunnin var birt með sama hætti og aðrar einkunnir, þ.e. með því að einkunnablaði var komið fyrir í möppu í afgreiðslu rekstrardeildar í Glerárgötu, og stóð þar óbreytt í tvo eða þrjá daga. Það að einkunnin hafi verið "bráðabirgðaeinkunn" teljum við ekki geta átt við, enda hafa einkunnir í fjölda annarra námskeiða verið birtar með sama hætti án þess að það hafi verið "bráðabirgðaeinkunnir", og ekki var tiltekinn neinn fyrirvari sem gaf það til kynna að um "bráðabirgðaeinkunn" væri að ræða. Einkunnin var fundin með því að finna vegið meðaltal einkunna leiðbeinanda og prófdómara. Eftir nákvæma skoðun á reglugerð, lögum og prófareglum fyrir Háskólann á Akureyri finnum við ekkert sem veitir öðrum heimild til að hlutast til um einkunnir í námskeiðum. Samræming á einkunnum ætti því ekki að geta átt sér stað nema með samþykki þeirra sem gefa einkunnir. [...] Í samtölum okkar við þáverandi forstöðumann rekstrardeildar, [...] kom fram að hann byggði þá ákvörðun sína að skipa annan prófdómara, á ákvæði í reglugerð um Háskólann á Akureyri, þar sem segir á þá leið að kennari eða meirihluti nemenda í námskeiði geti krafist þess að einkunn verði endurskoðuð. Samkvæmt hans skilningi var [Z] þá kennari, vegna þess að hann hafði verið skipaður "umsjónarmaður lokaverkefna". Með því að beita þessum rökum, sem við reyndar föllumst alls ekki á, þá er þar með búið að viðurkenna að einkunnin hafi verið lokaeinkunn, en ekki "bráðabirgðaeinkunn". [...]" Hinn 20. september 1995 ritaði rektor Háskólans á Akureyri D svohljóðandi bréf: "Vísað er í bréf þín og annarra, dags. 8. mars sl. og 18. september um leiðréttingu á einkunn í lokaverkefni í rekstrardeild. Að athuguðu máli er ekki talin ástæða til að breyta umræddri einkunn. Í því sambandi vísa ég í bréf forstöðumanns rekstrardeildar til þín, dags. 9. desember sl., þar sem málsatvik eru rækilega útskýrð. Beðist er velvirðingar á síðbúnu svari mínu." A, B, C og D rituðu háskólanefnd Háskólans á Akureyri bréf hinn 31. maí 1996. Þar ítrekuðu þeir fyrri óskir sínar um að einkunnin 9 yrði látin standa. Með bréfi, dags. 11. júní 1996, tilkynnti rektor fjórmenningunum að eftirfarandi bókun hefði verið samþykkt á fundi háskólanefndar: "Háskólanefnd telur ekki innan síns verksviðs að fjalla um erindi þetta þar sem einkunnin 8 fyrir lokaverkefni var undirrituð af viðkomandi kennara og prófdómara. Hins vegar telur háskólanefnd að vinnubrögð við birtingu einkunna þurfi að endurskoða til að fyrirbyggja misskilning eða mistök af svipuðum toga og fjallað er um í umræddu bréfi." III. Hinn 29. ágúst 1996 ritaði ég háskólanefnd Háskólans á Akureyri bréf og óskaði þess, með vísan til 7. og 9. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis, að háskólanefnd léti mér í té gögn málsins og skýrði viðhorf sitt til kvörtunarinnar. Sérstaklega óskaði ég þess, að nefndin upplýsti, hver hefði átt frumkvæði að því að taka einkunnagjöf fyrir umrætt lokaverkefni til endurskoðunar og á hvaða lagagrundvelli sú endurskoðun hefði farið fram. Þá óskaði ég eftir því að nefndin upplýsti, hvert vægi einkunn kennara annars vegar og einkunn prófdómara hins vegar hefði haft við hina breyttu einkunnagjöf. Háskólanefnd fól rektor og forstöðumanni rekstrardeildar að svara erindi mínu. Í bréfi rektors, dags. 30. október 1996, segir meðal annars: "Viðhorf háskólans byggist einkum á eftirfarandi atriðum í gögnum málsins. Í fyrsta lagi á reglugerð fyrir Háskólann á Akureyri frá 1. október 1990, en ljóst er að starfsemi háskólans á þeim tíma sem hér er um rætt byggir á henni. Í 40. gr. hennar segir; "Skrifstofa háskólans sér um færslu einkunna og varðveislu þeirra. Hún sér um að birta nemendum einkunnir", og í 36. gr. segir "... Við lokaverkefni skal ætíð vera prófdómari... Önnur skrifleg próf dæma hlutaðeigandi kennarar einir ... Menntamálaráðuneytið skipar prófdómara ...". Í öðru lagi á einkunnaskilum rekstrardeildar til skrifstofu háskólans, dags. 30. 05. 1994 og 9. 06. 1994, sem undirrituð eru m.a. af [Z] umsjónarmanni lokaverkefna í rekstrardeild. Þar kemur ótvírætt fram að einkunn [A] o.fl. sé 8,0. Þetta skjal rekstrardeildar eru einu upplýsingar sem skrifstofu háskólans barst um einkunnir [A] o.fl. um lokaverkefni þeirra fyrir útgáfu prófskírteina og var því fært á þau. Í þriðja lagi er svo skjal dagsett 24.11.1994 og undirritað af viðkomandi leiðbeinanda og prófdómara, er staðfestir einkunnina 8,4 (og því 8) fyrir umrætt lokaverkefni. Viðhorf Háskólans á Akureyri til umkvörtunarinnar er því í meginatriðum eftirfarandi: Fyrir mistök höfðu [A] o.fl. aðgang að vinnugögnum kennara og prófdómara þar sem fram kom að einkunn [A] o.fl. fyrir lokaverkefni væri 8,6 (og því 9). Þar sem hér var aðeins um vinnugögn að ræða sem flokkast ekki undir löglega birtar einkunnir telur háskólinn ekki efni til að fjalla um "... hver hafi átt frumkvæði að því að taka einkunnagjöf fyrir umrætt lokaverkefni til endurskoðunar...", eins og m.a. er gert í bréfi umboðsmanns Alþingis. Því getur háskólinn ekki tekið undir með að um sé að ræða "... breytta einkunnagjöf". Álit háskólans er að ekki sé um "endurskoðaða" einkunnagjöf að ræða, því sú einkunn er kemur fram á skjali [...] frá 09.06.1994 og áréttuð er á skjali [...] frá 24.11.1994 er sú eina einkunn fyrir viðkomandi lokaverkefni sem undirrituð er af til þess bærum aðilum í rekstrardeild og varðveitt í skjalasafni skrifstofu háskólans. Því hefur háskólinn talið óeðlilegt að hlutast til um endurskoðun á einkunn fyrir umrætt lokaverkefni. Þar með er skilningur háskólans að enginn hafi átt frumkvæði að breyttri einkunnagjöf, því alls ekkert bendir til að skrifstofa háskólans (einkunnaskráning) hafi hlutast til um breytingu á, eða breytt, einkunn gefinni af réttum aðilum. Í öðru lagi telur háskólinn rétt að taka fram, að í framhaldi af umræddu máli hefur verið ítrekað við deildir háskólans að birting einkunna sé einungis [í] höndum skrifstofu háskólans (einkunnaskráningar) og því verði að gæta ýtrustu nákvæmni í meðferð vinnugagna er miða að einkunnagjöf. Meginástæða þessa er, eins og lesa má út úr gögnum málsins, sá misskilningur að vinnugögn kennara á meðan þeir eru að vinna að prófdæmingu, sé eitthvað til að byggja á. Það, ásamt því að litið er framhjá því að það er einungis skrifstofa háskólans (einkunnaskráning) sem birtir einkunnir, getur valdið erfiðleikum. [...] Prófdómari viðkomandi lokaverkefnis er búsettur í Reykjavík og rétt er að nefna að á tímabilinu voru þrír forstöðumenn í rekstrardeild [...]. Einnig kom nýr rektor [...] til starfs 1.9.1994 [...]. Ofantalið getur verið hluti skýringar á töfum á afgreiðslu á sumri 1994 og á þessu máli öllu." Með bréfi, dags. 7. nóvember 1996, gaf ég A, B, C og D kost á að gera athugasemdir við bréf háskólans. Athugasemdir þeirra bárust mér með bréfi, dags. 19. nóvember 1996. Í bréfinu segir meðal annars svo: "Við höfum ekkert við embættisfærslu einkunnaskráningar háskólans á Akureyri að athuga og höfum ekki haft, heldur eins og kom fram í kvörtun okkar að einkunnaskráning hafi fengið senda einkunn frá rekstrardeild, sem þar hafði verið breytt með óréttmætum hætti, eftir að prófdómari og kennari höfðu gefið lokaeinkunn 9. Tekið var fram fyrir hendurnar á kennara, án samþykkis hans, og án þess að fyrir því væri heimild í lögum, reglugerð eða prófareglum Háskólans á Akureyri. Háskólinn hefur ekki borið á móti því að [leiðbeinandinn] hafi gefið okkur einkunnina 9, sem hafði 60% vægi á móti 40% vægi einkunnar [...] prófdómara, sem gaf einkunnina 8. Vegið meðaltal varð 8,6 sem hækkaði upp í 9. Þetta staðfestir [fyrrum forstöðumaður rekstrardeildar] í bréfi til okkar dags. 9. des. 1994. Það er það sem á eftir kemur og [forstöðumaðurinn] kaus að kalla "samræmingu", en rektor minnist ekki á, sem við getum ekki sætt okkur við. Fullyrðing rektors um að við höfum fyrir mistök haft aðgang að vinnugögnum kennara og prófdómara þar sem einkunnin 9 kom fram er einfaldlega röng. Deildarstjóri hafði boðað að einkunnir fyrir lokaverkefni í rekstrardeild yrðu birtar á ákveðnum tíma, og það var gert. Ekki bara okkar einkunn heldur allra í námskeiðinu Lok 0105, þannig að við og allir aðrir gætum skoðað einkunnirnar. Þetta voru engin vinnugögn, heldur höfðu einkunnirnar verið færðar á þar til gert blað sem síðan var sent einkunnaskráningu háskólans þann 9. júní, eftir að skrifað hafði verið ofan í okkar einkunn og hún lækkuð úr 9 í 8 [...]. Okkar einkunn ásamt einkunnum allra hinna voru í samræmi við einkunnagjöf kennara og prófdómara. Þess má reyndar geta að deildarstjóri, [...], hafði ítrekað talað um að einkunnirnar yrðu samræmdar á sameiginlegum fundi allra kennara og prófdómara, sem í sjálfu sér er ekki athugavert ef samþykki viðkomandi kennara og prófdómara hefði legið fyrir, en það fórst fyrir af einhverjum ástæðum. Þess vegna greip hann til þess óyndisúrræðis, sem er ástæða alls þessa málareksturs, að gangast fyrir breytingu á einkunninni án þess að fyrir lægi nauðsynlegt samþykki kennara okkar. Einkunnirnar bar rekstrardeild síðan að senda óbreyttar til einkunnaskráningar Háskólans á Akureyri, hefði reyndar átt að vera búin að því, en gerði það ekki [...]." Hinn 3. júní 1997 ritaði ég menntamálaráðherra bréf og óskaði þess að upplýst yrði, hvort ráðuneytið teldi það samrýmast lögum nr. 51/1992, um Háskólann á Akureyri, og reglugerð nr. 405/1990, fyrir Háskólann á Akureyri, að einkunn þeirri, sem kennari og prófdómari höfðu gefið fyrir nefnt lokaverkefni var breytt, án þess að þeir hefðu haft að því frumkvæði. Í bréfi menntamálaráðuneytisins, sem barst mér 27. júní 1997, er tekið fram, að ráðuneytið taki ekki afstöðu til kvörtunarinnar. Í bréfinu segir meðal annars svo: "Í reglugerð nr. 380/1994, sbr. rgj. 366/1995 um Háskólann á Akureyri, áður reglugerð nr. 405/1990 er fjallað um prófgreinar, próftíma, fullnaðarpróf, einkunnir, prófdómara og annað er að prófum lýtur sbr. 16. gr. laga nr. 51/1992 um Háskólann á Akureyri. Í 16. gr. reglugerðar nr. 380/1994, áður 2. mgr. 33.gr. rgj. nr. 405/1990 segir að háskólakennarar standi fyrir prófum, sem felur það í sér að námsmat er í höndum viðkomandi kennara nema annað sé tekið fram sbr. 2., 7. 8. og 9. mgr 16. gr. rgj. 380/1994 en sambærileg ákvæði var að finna í áðurgildandi reglugerð nr. 405/1990, sjá 1. mgr. 33. gr. og 36. gr. þeirrar reglugerðar. Sérstök ákvæði eru um námsmat í lokaverkefni, sbr. 6. mgr. 16. gr. rgj. 380/1990 áður 1. mgr. 36. gr. rgj. nr. 405/1990, þar sem kveðið er á um að við mat á lokaverkefni skuli ætíð vera prófdómari. Námsmat á lokaverkefnum er þannig bæði í höndum prófdómara og viðkomandi kennara og ekki annarra aðila. Ákvæði framangreindra reglugerða um að skrifstofa skólans sjái um færslu einkunna og annist birtingu þeirra fela ekki í sér heimild til handa skrifstofunni til þess að breyta niðurstöðum námsmatsins. Með vísan til framanritaðs er því svar ráðuneytisins við fyrirspurn yðar á þá leið að óheimilt sé að breyta einkunn sem kennari og prófdómari hafa gefið fyrir lokaverkefni án þess að þeir hafi haft að því frumkvæði." Í tilefni af bréfi ráðuneytisins ítrekaði rektor Háskólans á Akureyri með bréfi til mín, dags. 18. ágúst 1997, það sjónarmið háskólans, að skrifstofa hans hefði "ekki hlutast til um breytingu á, eða breytt, einkunn gefinni af þar til bærum aðilum í rekstrardeild." IV. 1. Í forsendum og niðurstöðu álits míns, dags. 28. ágúst 1997, segir svo: "Í IV. kafla laga nr. 51/1992, um Háskólann á Akureyri, er fjallað um nemendur, kennslu og próf. Í 16. gr. laganna er svohljóðandi ákvæði: "Í reglugerð háskólans skal setja ákvæði um prófgreinar, próftíma, fullnaðarpróf, einkunnir, prófdómara og annað er að prófum lýtur." Í 33.-40. gr. reglugerðar nr. 405/1990, fyrir Háskólann á Akureyri, sem var í gildi, er atvik máls þessa áttu sér stað, er fjallað um próf. Í 2. mgr. 33. gr. segir, að háskólakennarar standi fyrir prófum, en hver deild ráði tilhögun prófa hjá sér að svo miklu leyti sem ekki séu sett bindandi ákvæði um það í lögum eða reglugerð. Ákvæði um prófdómara er að finna í 36. gr., sem er svohljóðandi: "Við munnlegt og verklegt próf skal vera prófdómari. Við mat á lokaverkefni skal ætíð vera prófdómari, hvort sem það er munnlegt eða skriflegt. Önnur skrifleg próf dæma hlutaðeigandi kennarar einir. Niðurstöður prófa skulu liggja fyrir eigi síðar en 3 vikum eftir prófdag. Nemandi á rétt til að fá útskýringar á mati skriflegrar úrlausnar sinnar ef hann æskir þess innan 10 daga frá birtingu einkunnar. Vilji nemandi sem ekki hefur staðist próf þá eigi una mati kennarans getur hann snúið sér til viðkomandi forstöðumanns deildar. Skal þá prófdómari skipaður í hverju tilviki sé ekki um lokaverkefni að ræða. Einnig getur kennari eða meiri hluti nemenda í viðkomandi námskeiði, telji þeir til þess sérstaka ástæðu, óskað skipunar prófdómara í einstöku prófi. ..." Loks eru í 40. gr. reglugerðarinnar ákvæði þess efnis, að skrifstofa háskólans sjái um færslu einkunna og varðveislu þeirra. Hún sjái og um að birta nemendum einkunnir. 2. Einkunnagjöf, a.m.k. þegar um er að ræða einkunnir, sem reiknast til lokaprófs, er stjórnvaldsákvörðun, sbr. 2. tl. 2. mgr. 21. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en í þeirri málsgrein eru stjórnvöld undanþegin þeirri skyldu að rökstyðja skriflega þær stjórnvaldsákvarðanir, sem þar eru taldar. Af þeim ákvæðum, sem rakin voru undir lið 1, er ljóst, að gert var ráð fyrir því í reglugerð nr. 405/1990, að lokaverkefni væru metin af kennara og prófdómara, og að sérstakir prófdómarar yrðu því ekki skipaðir, þegar um væri að ræða lokaverkefni. Af þessu leiðir, að ákvörðun um einkunnagjöf hefur verið tekin, þegar kennari og prófdómari hafa metið tiltekið verkefni. Ákvörðun um einkunn þeirra A, B, C og D, hafði því verið tekin, þegar fyrir lá niðurstaða kennara og prófdómara um verkefni þeirra. Eins og áður segir, sést glögglega á yfirlitsblaði yfir einkunnir fyrir lokaverkefni, að einkunn þeirra A, B, C og D var upphaflega 9, en skrifað hefur verið ofan í töluna og henni breytt í 8. Í bréfi rektors Háskólans á Akureyri til mín, dags. 30. október 1996, kemur fram sú skoðun Háskólans, að ekki hafi verið um að ræða breytta einkunnagjöf, vegna þess að einkunnin 9 hafi ekki verið löglega birt. Í bréfi forstöðumanns rekstrardeildar til fjórmenninganna, dags. 9. desember 1994, kemur hins vegar fram, að kennari og prófdómari hafi metið verkefnið til einkunnarinnar 9, "en þá hafði samræming ekki átt sér stað". Í raun hafi því einkunnin 9 aðeins verið bráðabirgðaeinkunn, sem hafi verið birt nemendunum fyrir mistök. Af bréfi forstöðumanns rekstrardeildar, dags. 9. desember 1994, er ljóst, að einkunn sú, sem kennari og prófdómari gáfu nemendunum fyrir verkefnið í maí 1994, var birt þeim á skrifstofu rekstrardeildar. Samkvæmt 2. málsl. 1. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga var ákvörðun um einkunnagjöfina bindandi, eftir að hún hafði verið birt nemendunum. Það er almennt á verksviði þess stjórnvalds, er ákvörðun tekur, að birta hana. Þó að settar séu til hagræðingar réttarreglur, er víkja frá þessari meginreglu, leiðir það almennt ekki til þess, að birting samkvæmt meginreglunni sé án réttarárhifa. Fyrirmæli 2. mgr. 40. gr. reglugerðar nr. 405/1990, fyrir Háskólann á Akureyri, um birtingu einkunna, hagga því ekki réttaráhrifum birtingarinnar. Þar sem ákvörðun um einkunnagjöf er stjórnvaldsákvörðun, eins og áður segir, fer um breytingar og afturköllun á einkunnum eftir stjórnsýslulögum. Í 23. gr. stjórnsýslulaga segir svo: "Stjórnvald getur breytt ákvörðun sinni þar til hún hefur verið tilkynnt aðila máls. Eftir að aðila hefur verið tilkynnt um ákvörðun er stjórnvaldi heimilt að leiðrétta bersýnilegar villur í henni, enda tilkynni stjórnvaldið aðila um leiðréttinguna án tafar og láti þeim sem fengið hefur endurrit af ákvörðuninni nýtt endurrit í té." Stjórnvald getur því breytt ákvörðun sinni skv. 1. mgr. 23. gr., þar til hún hefur verið birt aðila máls. Eftir að einkunn þeirra A, B, C og D hafði verið birt, var óheimilt að breyta henni á grundvelli 1. mgr. 23. gr. Samkvæmt því, sem að framan hefur verið rakið, er það skoðun mín, að breytingin í maí eða júní 1994, þegar einkunnum A, B, C og D var breytt úr því horfi, sem kennari og prófdómari höfðu ákveðið, hafi verið ólögmæt. 3. Hinn 24. nóvember 1994 tóku kennari og prófdómari ákvörðun um að afturkalla fyrri einkunn A, B, C og D og breyta henni úr 9 í 8. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að afturköllunarheimild hafi verið fyrir hendi. Í því sambandi bendi ég sérstaklega á, að það eitt, að komið hafi í ljós innbyrðis ósamræmi við einkunnagjöf, heimilar ekki afturköllun einkunnar, sem birt hefur verið nemanda. Sú ákvörðun kennara og prófdómara frá 24. nóvember 1994, að afturkalla ákvörðun sína og breyta einkunnum þeirra A, B, C og D, varð þannig hvorki byggð á ákvæðum 25. gr. stjórnsýslulaga né óskráðum meginreglum stjórnsýsluréttarins um afturköllun. Slík breyting einkunnarinnar var af þessari ástæðu ólögmæt. V. Niðurstaða. Eins og að framan greinir, er það niðurstaða mín, að breyting sú á einkunn þeirra A, B, C og D fyrir lokaverkefni, sem gerð var til samræmingar við aðrar einkunnir fyrir lokaverkefni í maí eða júní 1994, hafi að lögum verið óheimil. Ennfremur tel ég, að ákvörðun kennara og prófdómara frá 24. nóvember 1994, um að afturkalla og breyta ákvörðun sinni um einkunnagjöf, hafi ekki verið samræmi við lög. Niðurstaða mín er því sú, að einkunninni 9, sem kennari og prófdómari gáfu upphaflega fyrir lokaverkefni A, B, C og D, hafi ekki verið breytt með lögmætum hætti. Það eru því tilmæli mín til Háskólans á Akureyri, að komi fram beiðni um það frá A, B, C og D, verði gefin út ný prófskírteini þeim til handa, þar sem fram komi einkunnin 9 fyrir lokaverkefni." VI. Í framhaldi af fyrrgreindu áliti mínu barst mér bréf rektors Háskólans á Akureyri, dags. 28. september 1997. Þar segir meðal annars: "Í samræmi við álit umboðsmanns hefur verið gefið út nýtt prófskírteini, þar sem kemur fram einkunnin 9 fyrir lokaverkefni, til ofangreindra fjórmenninga."