Endurveiting ökuréttar. Jafnræðisregla. Starfssvið umboðsmanns Alþingis.

(Mál nr. 1896/1996)

A kvartaði yfir synjun dóms- og kirkjumálaráðuneytisins á beiðni hans um heimild til að öðlast ökurétt að nýju. A hafði hinn 16. febrúar 1994 gengist undir sátt fyrir lögreglustjóra, m.a. um sviptingu ökuleyfis í 1 ár frá þeim degi að telja. Þá var A sviptur ökuleyfi í 3 ár frá 16. febrúar 1995 með héraðsdómi frá 9. júní 1994. Synjun dóms- og kirkjumálaráðuneytisins byggðist á því að skilyrði 106. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, væru ekki uppfyllt, en samkvæmt því ákvæði mætti ekki breyta ákvörðunum um tímabundnar ökuréttarsviptingar nema þegar svipting skyldi vara lengur en 3 ár og þá fyrst er 3 ár væru liðin af sviptingartímanum. A byggði kvörtun sína hins vegar á því, að hinn 16. febrúar 1997 myndi hann hafa verið sviptur ökuleyfi í samtals 3 ár og að ekki væri skilyrði skv. 106. gr. umferðarlaga, að lengd sviptingarinnar væri tilkomin vegna eins dóms. Umboðsmaður benti á, að A hefði með dómi verið sviptur rétti til þess að öðlast ökuleyfi í 3 ár frá 16. febrúar 1995 að telja. Þar sem starfssvið umboðsmanns tæki ekki til dómstóla eða starfa þeirra, væru ekki fyrir hendi skilyrði til þess að hann fjallaði um ákvörðun dómsins um upphafstíma og tímalengd sviptingarinnar. Umboðsmaður tók fram, að hann skildi ákvæði 106. gr. umferðarlaga svo, að hefði svipting ökuréttar verið ákveðin í meira en þrjú ár, væri heimilt að veita ökurétt að nýju, þegar svipting samkvæmt þeirri ákvörðun hefði staðið í þrjú ár. Það var því skoðun hans, að ekki yrði litið svo á, að tímalengd fyrri ákvörðunar um tímabundna sviptingu ökuréttar A yrði lögð við þriggja ára sviptingu samkvæmt nefndum dómi. Taldi umboðsmaður því að synjun dóms- og kirkjumálaráðuneytisins hefði verið lögmæt. Með vísan til þessa, og skýringa dóms- og kirkjumálaráðuneytisins að öðru leyti, taldi umboðsmaður ekki ástæðu til frekari athugasemda af hans hálfu vegna málsins. Í bréfi mínu til A, dags. 16. maí 1997, sagði:

"I. Ég vísa til kvörtunar yðar, sem þér báruð fram með bréfi, dags. 9. september 1996. Beinist kvörtun yðar að synjun dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 27. ágúst 1996, á beiðni yðar um heimild til að öðlast ökurétt að nýju. Samkvæmt kvörtuninni og gögnum málsins gengust þér hinn 16. febrúar 1994 undir sátt fyrir lögreglustjóra vegna brots gegn 1. mgr., sbr. 3. mgr. 45. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, meðal annars sviptingu ökuleyfis frá þeim degi að telja. Samkvæmt héraðsdómi frá 9. júní 1994 voruð þér sviptir rétti til að öðlast ökuleyfi í 3 ár frá 16. febrúar 1995 að telja fyrir brot gegn sömu ákvæðum, auk 1. mgr. 48. gr. laga nr. 50/1987. Með bréfi, dags. 10. júlí 1996, fóruð þér þess á leit við dóms- og kirkjumálaráðherra, að hann veitti yður ökurétt að nýju 16. febrúar 1997. Dóms- og kirkjumálaráðuneytið svaraði erindi yðar með svohljóðandi bréfi, dags. 27. ágúst 1996: "Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu hefur borist beiðni yðar um heimild til að öðlast ökurétt að nýju, sem þér voruð sviptir í þrjú ár frá 15. febrúar 1995. Samkvæmt 106. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 er eigi heimilt að breyta ákvörðunum um tímabundnar ökuréttarsviptingar nema í þeim tilvikum er svipting á að vara lengri tíma en 3 ár og þá fyrst er 3 ár eru liðin af sviptingartímanum. Þar sem skilyrði 106. gr. umferðarlaga eru ekki fyrir hendi að þessu leyti í málinu verður að synja beiðni yðar að svo stöddu." Samkvæmt kvörtuninni fallist þér ekki á túlkun dóms- og kirkjumálaráðuneytisins á 106. gr. laga nr. 50/1987. Í kvörtuninni segir meðal annars svo: "Þann 15. febrúar 1997 hef ég verið án ökuréttinda í 3 ár samfellt, en þá er 1 ár í það að ég fái ökuréttindin aftur, m.ö.o. sviptingin varir í 4 ár. Eina skilyrðið sem sett er fram í 1. mgr. 106. gr. umfl. er að aðili hafi verið án ökuréttinda í 3 ár samfellt (5 ár ef ævilöng svipting). Ekki verður séð að það sé skilyrði að lengd sviptingarinnar sé til komin vegna eins dóms. Orðalag greinagerðar styður einnig það sjónarmið að tímalengdin ein, þ.e. sviptingartíminn, eigi að ráða. Ef 106. gr. umfl. er túlkuð á þann hátt sem dómsmálaráðuneytið gerir, getur það leitt til þess að tveir aðilar geta fengið andstæðar niðurstöður, að því er varðar endurveitingu, fyrir brot sem lögin telja jafn alvarleg og leiða því til sömu viðurlaga. Mismunandi málshraði getur leitt til þess að aðilar eigi ekki sömu möguleika á endurveitingu ökuréttinda, en það hlýtur að brjóta gegn almennum eðlis- og skynsemisrökum. Þetta sést best á því að hefði ég verið uppvís að seinna brotinu áður en hinu fyrra hefði verið lokið, ætti ég rétt á endurveitingu þar sem einn dómur hefði gengið í málinu." II. Ég ritaði dóms- og kirkjumálaráðherra bréf 17. september 1996, þar sem þess var óskað, sbr. 7. og 9. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis, að ráðuneytið léti mér í té gögn málsins og skýrði viðhorf sitt til kvörtunar yðar. Í svarbréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 24. september 1996, segir meðal annars svo: "Ekki er kveðið á um það berum orðum í umferðarlögum, né greinargerðum með þeim hvernig afmarka skuli tímamörk þau sem um getur í 106. gr. umferðarlaga. Í greinargerð með 107. gr. (sem varð 106. gr.) frumvarps til umferðarlaga nr. 50/1987 segir þannig aðeins að gert sé ráð fyrir því að áfram verði heimilt að endurveita ökuréttindi þegar svipting hefur staðið í þrjú ár. Þessu ákvæði var breytt, þó ekki efnislega, með l. 44/1993. Í athugasemdum með því lagafrumvarpi eru nokkru fyllri skýringar á efni ákvæða um sviptingu og endurveitingu. Þar segir m.a.: "Miðað er við að ákvörðun um sviptingu ökuréttar verði tekin í hvert sinn þegar viðurlög eru ákveðin, þ.e. að svipting verði áréttuð ef hún hefur áður verið ákveðin, enda skiptir það máli við beitingu heimildar um endurveitingu ökuréttar skv. 106. gr. laganna. Ráðuneytið telur ofangreind ummæli benda ótvírætt til að tímamörk skv. 106. gr. skuli miðast við tiltekna ákvörðun um sviptingu ökuréttar. Mat ráðuneytisins er því að 106. gr. eigi einvörðungu við þegar ákveðið er að ökuréttarsvipting standi lengur en þrjú ár. Í máli [A] er umrædd ákvörðun tekin af héraðsdómara við Héraðsdóm [...] sbr. endurrit af dómi dags. 9. júní 1994 sem fylgir hjálagt. Það var ákvörðun dómarans að sviptingin skyldi vara í þrjú ár. Af þeim sökum taldi ráðuneytið að ekki gæti reynt á ákvæði 106. gr. Þótt niðurstaða ráðuneytisins sé ef til vill ekki einhlít með tilliti til jafnræðissjónarmiða má benda á að gagnstæð niðurstaða byggð á beinni textaskýringu getur einnig í ýmsum tilvikum orkað mjög tvímælis. Sem dæmi má nefna að aðili sem dæmdur er á ný til sviptingar ökuréttar viku eftir endurveitingu hans hefur samkvæmt slíkri lögskýringu ekki sömu heimild og maður sem dæmdur er að nýju örstuttu áður en fyrri svipting getur fyrst komið til endurskoðunar. Annað tilvik sem skýring af þessum toga gæfi færi á, væri að maður sem sviptur hefur verið ökurétti í þrjú ár þegar svipting er tildæmd á nýjan leik, geti þegar í stað óskað eftir endurveitingu, enda þótt eftir stæði nær allt tímabil hinnar síðari sviptingar. Í ljósi þessa vill ráðuneytið árétta að 106. gr. er undantekning frá þeirri meginreglu að menn taki að fullu út þau viðurlög sem þeim eru gerð fyrir brot á umferðarlögum. Undantekningin veitir mönnum því ekki skýlausan rétt til endurveitingar ökuréttar, heldur er þvert á móti byggt á því að sérstakar ástæður verði alltaf að mæla með því að heimildin sé veitt, sbr. 2. mgr. 106. gr. umferðarlaganna. Þessi sjónarmið þykja því ennfremur styrkja þann kost að umrædd undantekning sé ávallt skýrð þröngri skýringu." Í athugasemdum yðar, dags. 14. október 1996, ítrekið þér sjónarmið yðar í málinu og bendið á, að þrátt fyrir að um tvær ákvarðanir um sviptingu ökuréttar hafi verið að ræða, hafi sviptingin í raun orðið ein heild. Teljið þér að eðlilegra hefði verið að svipta yður ökurétti frá dómsuppkvaðningu seinni dóms. Þá segir í athugasemdum yðar, að samkvæmt seinni dóminum sé um að ræða sviptingu ökuréttar, en ekki sviptingu á rétti til að öðlast ökurétt að nýju. Með bréfi til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 4. nóvember 1996, óskaði ég eftir því, að ráðuneytið sendi mér þær athugasemdir, sem það teldi ástæðu til að gera í tilefni bréfs yðar. Ennfremur var þess óskað, að ráðuneytið skýrði frekar þau ummæli í bréfi, dags. 24. september 1996, að niðurstaða ráðuneytisins sé ef til vill ekki einhlít með tilliti til jafnræðissjónarmiða. Í svarbréfi ráðuneytisins, dags. 28. febrúar 1997, segir meðal annars svo: "Í upphaflegri beiðni sinni um endurveitingu, sem barst ráðuneytinu þann 23. ágúst 1996, byggði [A] m.a. á því, að það bryti gegn jafnræði aðila, ef möguleiki á endurveitingu ökuréttar réðist af málshraða opinberra mála. Var þarna bent á velþekkt atriði úr refsiréttarlegri umfjöllun sem lýtur að þeirri aðstöðu þegar viðurlög við broti (refsing eða refsikennd viðurlög) eru miðuð við tímamark dómsuppkvaðningar eða viðurlagaákvörðunar, fremur en tímamark brotsins sjálfs. Með hinum tilvitnuðu ummælum í bréfi sínu var ráðuneytið að taka undir, að þessi sjónarmið gætu átt rétt á sér, með því að alkunna er að málshraði er misjafn í opinberum málum. Það breytir þó ekki því mati ráðuneytisins, að svo sem mál [A] bar að dómstólum verði hann að sæta því að vera án ökuréttar a.m.k. fram til 16. febrúar 1998, þegar ákvörðun dómara hefur verið fullnustuð að þessu leyti. Í því sambandi vekur ráðuneytið athygli á, að fyrir dómi féllst [A] á að hlíta umræddri viðurlagaákvörðun, sbr. bókun í þingbók Héraðsdóms [...] frá 9. júní 1994, sem undirrituð var, bæði af [A] sjálfum sem og lögmanni hans [...]." III. Með héraðsdómi frá 9. júní 1994 voruð þér "[sviptir] rétti til að öðlast ökuleyfi í 3 ár frá 16.02.1995 að telja, sbr. 101. og 102. gr. umferðarlaga sbr. lög nr. 44/1993". Ég bendi yður á, að samkvæmt 2. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis, og 4. tölulið 3. gr. reglna nr. 82/1988, um störf og starfshætti umboðsmanns Alþingis, tekur starfssvið umboðsmanns ekki til dómstóla eða starfa þeirra. Eru því ekki fyrir hendi skilyrði til þess að ég fjalli um ákvörðun dómsins um upphafstíma og tímalengd sviptingar. Samkvæmt kvörtuninni teljið þér sviptingu ökuréttar í 12 mánuði frá 16. febrúar 1994, og í 3 ár frá 16. febrúar 1995 eina heild, þ.e. sviptingu í 4 ár, og skilyrði 106. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 til endurveitingar ökuréttar því fullnægt. Ákvæði 106. gr. laga nr. 50/1987, sbr. 30. gr. laga nr. 44/1993 hljóðar svo: "Nú hefur maður verið sviptur ökurétti um lengri tíma en þrjú ár, og getur þá dómsmálaráðherra þegar svipting hefur staðið í þrjú ár, heimilað að honum skuli veittur ökuréttur að nýju. Hafi maður verið sviptur ökurétti ævilangt má þó eigi veita ökurétt að nýju fyrr en svipting hefur staðið í fimm ár. Endurveitingu skal því aðeins heimila að sérstakar ástæður mæli með því, en áður skal leitað umsagnar viðkomandi lögreglustjóra." Í greinargerð með frumvarpi því, sem varð að umferðarlögum nr. 50/1987, segir meðal annars um 107. gr., sem síðar varð að 106. gr. laganna, að gert sé ráð fyrir því, að áfram verði heimilt að endurveita ökuréttindi, þegar svipting hefur staðið í þrjú ár. Ekki verði heimilt að veita ökuréttindi fyrr en eftir fimm ár, þegar svipting hafi verið ákveðin ævilöng. (Alþt. 1986, A-deild, bls. 924.) Ég skil ákvæði 106 gr. svo, að hafi svipting ökuréttar verið ákveðin í meira en þrjú ár, sé heimilt að veita ökurétt að nýju, þegar svipting samkvæmt þeirri ákvörðun hefur staðið í þrjú ár. Það er því skoðun mín, að ekki verði litið svo á, að tímalengd fyrri ákvörðunar um tímabundna sviptingu ökuréttar yðar verði lögð við þriggja ára sviptingu samkvæmt nefndum héraðsdómi. Ég tel því, að synjun dóms- og kirkjumálaráðuneytisins í máli þessu hafi verið lögmæt. Með vísan til framangreinds og til skýringa dóms- og kirkjumálaráðuneytisins að öðru leyti, tel ég ekki tilefni til frekari athugasemda af minni hálfu vegna máls þessa."