Réttur til atvinnuleysisbóta við atvinnuleit í EES-ríki. Lögtaka reglugerða EBE. Lögmætisregla. Stjórnsýslukæra. Form og efni úrskurðar. Rökstuðningur.

(Mál nr. 1724/1996)

A kvartaði yfir úrskurði Atvinnuleysistryggingasjóðs og því að ekki hefði verið fallist á ósk hennar um undanþágu frá reglugerð um niðurfellingu réttar til atvinnuleysisbóta. A hafði flutt til Danmerkur í september 1995 og fengið vottorð auðkennt E 303/0 IS, um að hún ætti rétt til atvinnuleysisbóta frá þeim tíma er hún skráði sig hjá vinnumiðlun í því landi sem hún leitaði atvinnu í, þó mest 66 daga, eða til 4. desember 1995, samkvæmt 69. gr. reglugerðar 1408/71/EBE. Á upplýsingablaði kom fram að ef A sneri heim fyrir tilgreindan lokadag nyti hún áfram atvinnuleysisbóta hér á landi, en kæmi hún aftur eftir 4. desember gæti hún misst allan rétt til bóta, nema óvenjulegar aðstæður hefðu valdið seinkuninni. A sneri til baka 16. janúar 1996 og óskaði eftir undanþágu frá greindum reglum, með vísan til fjárhagsörðugleika sem hefðu gert henni ókleift að snúa heim fyrr. Stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs hafnaði umleitan A, með vísan til þess að EES-reglur kvæðu á um missi bótaréttar eftir að þriggja mánaða heimildinni lyki. Umboðsmaður rakti þær breytingar sem gerðar voru á lagaákvæðum á sviði heilbrigðis- og tryggingamála vegna aðildar að EES-samningnum. Í 2. mgr. 1. mgr. 16. gr. laga nr. 93/1993, um atvinnuleysistryggingar, var tekið upp ákvæði um rétt þeirra sem leita sér atvinnu í EES-landi til atvinnuleysisbóta hér á landi. Þá sagði í 41. gr. b. laga nr. 93/1993, sem breytt var með 13. gr. laga nr. 45/1995, að heimilt væri að birta sem reglugerðir reglur Evrópusambandsins um atvinnuleysisbætur, enda ættu ákvæði þeirra stoð í lögunum. Í skýringum við ákvæðið var tekið fram, að þá hefði ekki verið fullnægt áskilnaði 7. gr. EES-samningsins um að gerð, sem samsvarar reglugerð EBE skyldi tekin upp í landsrétt, að því er snerti reglur um atvinnuleysisbætur, þar sem 66. gr. laga nr. 117/1993, um almannatryggingar, sem heimilaði ráðherra að birta sem reglugerðir reglur EBE, átti ekki við um atvinnuleysisbætur. Er stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs felldi úrskurð sinn í máli A í febrúar 1996 höfðu lög nr. 45/1995 tekið gildi. Hins vegar höfðu ekki verið gerðar ráðstafanir til að taka upp í íslensk lög þau ákvæði reglugerða 1408/71/EBE og 547/22/EBE, er snertu atvinnuleysistryggingar. Var það ekki gert fyrr en með setningu reglugerðar nr. 524/1996, um greiðslu atvinnuleysisbóta, sem birtist í Stjórnartíðindum 10. október 1996. Var það því niðurstaða umboðsmanns, að er atvik málsins áttu sér stað, hefðu ekki verið fyrir hendi réttarheimildir að íslenskum lögum sem veittu stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs heimild til að skerða réttindi A með þeim hætti sem gert var. Umboðsmaður ítrekaði niðurstöðu álita sinna í SUA 1995:49 og SUA 1995:55 um að stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs væru fengnar heimildir til að skera úr um rétt einstakra bótaþega til atvinnuleysisbóta og að við meðferð slíkra mála bæri að gæta ákvæða stjórnsýslulaga nr. 37/1993, m.a. ákvæða 31. gr. um form og efni úrskurða í kærumáli. Var það niðurstaða umboðsmanns að ekki hefði verið gerð nægilega skýr grein fyrir kröfum A, né ágreiningsefninu að öðru leyti í úrskurðinum, sbr. 1. og 3. mgr. 31. gr. stjórnsýslulaga. Þá hefði almenn tilvísun til EES-reglna í niðurlagi úrskurðarins ekki falið í sér fullnægjandi rökstuðning skv. 22. gr. og 31. gr. stjórnsýslulaga, og skort hefði á að rökstudd afstaða væri tekin til þeirrar kröfu A að undanþáguákvæða 69. gr. reglugerðar 1408/71/EBE yrði gætt við afgreiðslu umsóknar hennar. Beindi umboðsmaður þeim tilmælum til stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs að hún beitti sér fyrir því að mál A yrði tekið til meðferðar á ný, óskaði A þess.

I. Hinn 7. mars 1996 leitaði til mín A og kvartaði yfir því, að stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs hefði í úrskurði sínum 19. febrúar 1996 ekki tekið tillit til óskar hennar um "undanþágu frá reglugerð um niðurfellingu réttar um atvinnuleysisbætur eftir flutning til EES-lands". II. Í tilefni af því, að A ætlaði að flytja til Danmerkur í september 1995, gaf Atvinnuleysistryggingasjóður út vottorð, dags. 30. ágúst 1995. Ber vottorðið yfirskriftina: "Vottorð um áframhaldandi rétt til atvinnuleysisbóta", en þar er ennfremur vísað til reglugerðar ráðs Evrópubandalaganna (EBE) nr. 1408/71, um beitingu almannatryggingareglna gagnvart launþegum og fjölskyldum þeirra, sem flytjast milli aðildarríkja, og reglugerðar (EBE) nr. 547/72, sem kveður á um framkvæmd reglugerðar (EBE) nr. 1408/71. Er vottorðið auðkennt sem vottorð E 303/0 IS. Í því kemur fram, að samkvæmt 69. gr. reglugerðar 1408/71 eigi A rétt til atvinnuleysisbóta frá þeim tíma, er hún skráir sig hjá vinnumiðlun í því landi, þar sem hún er í atvinnuleit. Tekið er fram, að A megi fá bætur frá 5. september 1995, "að því tilskildu að... hún hafi skráð sig sem atvinnuleitanda í síðasta lagi fyrir 11. 09. 95 hjá vinnumiðlun". Þá segir, að A hafi "...ekki rétt til bóta lengur en í 66 daga, skv. 69. gr. reglugerðar 1408/71, að því tilskildu að tímabilið standi ekki lengur en til..." 4. desember 1995. Á sérstöku upplýsingablaði, auðkennt E303/5, "...fyrir atvinnuleysingja, sem hafa í hyggju að fara til annars aðildarríkis í atvinnuleit" er eftirfarandi tekið fram: "Ef þér snúið aftur til landsins þar sem þér höfðuð síðast starf fyrir tilgreindan lokadag í lið 4 á eyðublaði E 303, þá njótið þér áfram atvinnuleysisbóta í samræmi við löggjöf þess lands.... Ef þér hins vegar snúið aftur eftir tilgreindan lokadag í lið 4 á eyðublaðinu E303 [4. desember 1995], þá getið þér misst allan rétt til atvinnuleysisbóta. Ef óvenjulegar kringumstæður valda því að þér getið ekki snúið aftur í tæka tíð, þá getur stofnunin sem veitti yður eyðublað E303 ákveðið að greiða yður bætur þegar þér komið aftur." Í gögnum málsins kemur fram, að A hafi, eftir að hún hafði leitað til sendiráðs Íslands í Kaupmannahöfn, fengið greiddar atvinnuleysisbætur í samræmi við efni áðurnefnds vottorðs. A flutti aftur til Íslands 16. janúar 1996. Í ódagsettu bréfi til stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs lagði A fram beiðni um "undanþágu frá reglugerð um niðurfellingu réttar um atvinnuleysisbætur eftir flutning til EES lands". Um ástæður fyrir seinkun heimkomunnar segir í beiðninni: "Samkvæmt reglum hefði ég átt að vera komin heim fyrir 4. des. 95 en vegna fjárhagsörðugleika sem urðu vegna seinkunar og of lítils námsláns eiginmanns, sem rétt dugði fyrir einn en ekki fjölskyldu, komst ég ekki heim með börnin fyrr en 16. janúar 96, og þá eingöngu vegna hjálpar foreldra minna. Eiginmaður minn er enn við nám erlendis og verð ég því að vera fyrirvinna fyrir fjölskylduna. [...] Eins og vitað er, er mjög erfitt að fá vinnu í dag og þess vegna fer ég þess á leit við ykkur að ég fái atvinnuleysisbætur greiddar á meðan ég leita mér að vinnu, svo að ég og börnin þurfum ekki að lifa á öðrum." Með bréfi, dags. 19. febrúar 1996, greindi stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs frá úrskurði sínum. Í bréfinu segir meðal annars: "Stjórnin hafnar beiðni [A] þar sem kveðið er á í EES reglunum um missi bótaréttar ef komið er til baka eftir [að] þriggja mánaða heimildinni lýkur." III. Hinn 15. mars 1996 ritaði ég stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs bréf og óskaði eftir því með tilvísun til 7. og 9. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis, að stjórnin skýrði viðhorf sitt til kvörtunar A og léti mér í té gögn málsins. Sérstaklega óskaði ég eftir því, að fram kæmu skýringar og upplýsingar um eftirtalin atriði: "1) Til hvaða reglna væri vísað í niðurstöðu stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs frá 19. febrúar 1996, en þar segir að "... í EES reglunum..." sé kveðið á um "... missi bótaréttar ef komið er til baka eftir [að] þriggja mánaða heimildinni lýkur." 2) Með hvaða hætti hafi verið tekin afstaða til framangreindrar óskar [A] um undanþágu. 3) Hvort rökstuðningur úrskurðar Atvinnuleysistryggingasjóðs frá 19. febrúar 1996 hafi verið í samræmi við 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993." Skýringar stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs bárust mér með bréfi, dags. 20. mars 1996. Í bréfinu segir meðal annars: "Stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs hefur tekið fyrir á fundi sínum bréf yðar vegna kvörtunar [A]. Stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs telur að ofangreindur aðili eigi ekki rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta á grundvelli laga nr. 93/1993 um atvinnuleysistryggingar þar sem hún kom ekki til baka til Íslands innan þess frests sem henni var gefinn í vottorði E 303 til atvinnuleitar erlendis. Skv. rgl. ráðsins EBE 1408/71 gr. 69. 2. heldur atvinnuleitandi aðeins bótarétti í því landi sem farið er frá ef hann kemur til baka innan tilskilins tíma. Í bréfi yðar er óskað skýringa vegna eftirtalinna atriða: 1) Í niðurstöðu stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs er vísað til reglna í tilskipun ráðsins (EBE) nr. 1408/71 um beitingu almannatryggingareglna gagnvart launþegum, sjálfstætt starfandi einstaklingum og fjölskyldum þeirra sem flytjast milli aðildarríkja og reglugerð ráðsins (EBE) nr. 574/72 sem kveður á um framkvæmd hennar. Þær eru tilgreindar [á] upplýsingablaði með vottorði E 303 sem [A] fékk afhent fyrir atvinnuleit. 2) Með bréfi dags. 19. febrúar sl. var [A] tilkynntur úrskurður stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs um að hafnað sé beiðni hennar um undanþágu frá ofangreindum reglum varðandi þá sem farið hafa í þriggja mánaða atvinnuleit. Undanþáguheimild í rgl. 1408/71, gr. 69. 2. i.f., hefur ekki verið beitt hingað til og á aðeins við ef óviðráðanlegar ástæður valda því að bótaþegi getur ekki komið heim innan vottorðstímans, s.s verkföll. Við úrskurðinn voru upplýsingar sem lágu fyrir frá [A] teknar til umfjöllunar en þær ástæður sem hún tilgreindi voru ekki fullnægjandi fyrir veitingu undanþágu. 3) Rökstuðningur úrskurðar í bréfi sjóðsins dags. 19. febrúar sl. er í samræmi við birtingu úrskurða almennt frá stjórn sjóðsins og er þar m.a. gætt ákvæða 31. gr. laga 37/1993. Þar er m.a. byggt á upplýsingum sem koma fram í gögnum málsins frá bótaþega. Bent er á að heimild til útgáfu vottorðs E 303 er eingöngu fyrir þá sem ætla í atvinnuleit innan EES svæðisins en ekki þá sem flytja af öðrum ástæðum s.s vegna fjölskylduaðstæðna...." Með bréfi, dags. 9. apríl 1996, gaf ég A kost á því að koma á framfæri athugasemdum við svör stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs. Í athugasemdum A, sem bárust mér með bréfi hennar 22. apríl 1996, segir meðal annars: "Ég tel þá enn ekki hafa farið eftir undanþáguheimildinni í rgl. 1408/71, gr. 69. 2. i.f., því að ef fjárhagsörðugleikar sem valda því að ég gat ekki með nokkru móti komist heim, sé ekki óviðráðanleg ástæða, sem ég tel mjög alvarlega. Að reglugerðinni hafi ekki verið hingað til beitt, tel ég sýna að ekki sé farið að lögum. Það að þeir séu að vísa til þess að ég hafi flutt erlendis vegna fjölskylduaðstæðna er ekki rétt, ég fór til að leita mér að atvinnu. Ástæða þess að ég fór erlendis til atvinnuleitar var vegna náms eiginmanns erlendis." IV. Í bréfi, sem ég ritaði stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs 1. október 1996, vísaði ég til þess, að í skýringum stjórnar sjóðsins frá 20. mars 1996 væri vísað til "...reglna í tilskipun ráðsins (EBE) nr. 1408/71 um beitingu almannatryggingareglna gagnvart launþegum, sjálfstætt starfandi einstaklingum og fjölskyldum þeirra, sem flytjast milli aðildarríkja og reglugerð ráðsins (EBE) nr. 574/72, sem kveður á um framkvæmd hennar". Hefðu reglugerðir þessar verið tilgreindar á vottorði E 303, sem A hefði fengið afhent fyrir atvinnuleit í Danmörku. Með tilvísun til 9. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis, óskaði ég eftir því, að stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs skýrði, með hvaða hætti framangreindar reglugerðir hefðu verið birtar, sbr. 41. gr. b laga nr. 93/1993, um atvinnuleysistryggingar. Umbeðnar skýringar bárust mér með bréfi stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs 7. mars 1997. Segir þar meðal annars: "Vísað er til erindis yðar, dags. 1. október s.l. og síðari ítrekana, vegna máls [A], þar sem þér óskið eftir að stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs skýri, með hvaða hætti reglugerð ráðsins nr. 1408/71, um beitingu almannatryggingareglna gagnvart launþegum, sjálfstætt starfandi einstaklingum og fjölskyldum þeirra sem flytjast milli aðildarríkja, sbr. og framkvæmdareglugerð ráðsins nr. 547/72, hafi verið birt, sbr. 41. gr. b laga nr. 93/1993. Reglugerðir þessar munu ekki hafa verið "birtar" hér á landi, þ.e. þeir hlutar þeirra sem snúa að atvinnuleysistryggingum, fyrr en með reglugerð um greiðslu atvinnuleysisbóta nr. 524/1996, sem tók gildi 28. september 1996. Fram að þeim tíma voru framangreindar reglugerðir eina réttarheimildin á þessu sviði sem stuðst var við." V. Forsendur og niðurstaða álits míns frá 24. júní 1997, voru svohljóðandi: "1. Með a-lið 30. gr. laga nr. 116/1993, um breytingar á lagaákvæðum á sviði heilbrigðis- og tryggingamála vegna aðildar að samningi um Evrópskt efnahagssvæði, var aukið við 2. tölulið 1. mgr. 16. gr. laga nr. 93/1993, um atvinnuleysistryggingar. Eftir breytinguna geta þeir, sem dvelja hér á landi "eða eru í atvinnuleit í EES-landi", einnig átt rétt til atvinnuleysisbóta að uppfylltum öðrum skilyrðum laganna. Með b-lið 30. gr. fyrrnefndra laga var ennfremur aukið við nýrri lagagrein, sem varð 41. gr. a laga nr. 93/1993. Fjallar ákvæðið um, hvaða aðili það skuli vera, sem greiði atvinnuleysisbætur þess, sem hingað kemur í atvinnuleit. Í almennum athugasemdum, er fylgdu frumvarpi því, sem varð að lögum nr. 116/1993, segir, að ástæða þess að verið sé að breyta ákvæðum laga nr. 96/1990, um atvinnuleysistryggingar, sé "...vegna ákvæða í III. hluta EES-samningsins, sbr. VI. viðauka hans um félagslegt öryggi (Alþt. 1993, A-deild, bls. 737). Í skýringum við 14. gr. þess frumvarps, sem síðar varð 30. gr. laga nr. 116/1993, er þetta tekið fram um framangreindar breytingar: "Nauðsynlegt er að gera nokkrar breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar vegna EES-samningsins. Lögin gera nú ráð fyrir að greiðsla atvinnuleysistryggingabóta sé bundin við dvöl hér á landi. Þessu þarf að breyta því reglur EB, sem verða reglur EES-svæðisins, gera ráð fyrir að fari atvinnulaus einstaklingur í atvinnuleit innan svæðisins beri landinu, þar sem hann á rétt á atvinnuleysisbótum, að greiða honum áfram bætur þann tíma sem honum er atvinnuleitin heimil, eða þrjá mánuði. Sömuleiðis verður að heimila Atvinnuleysistryggingasjóði að hafa milligöngu um greiðslu atvinnuleysistryggingabóta til þeirra sem með þessum hætti komu hingað til lands í atvinnuleit því reglur EB gera ráð fyrir að stofnun í dvalarlandinu geti annast greiðslu bótanna á kostnað þar til bærrar stofnunar í landinu sem viðkomandi kom frá." (Alþt. 1993, A-deild, bls. 741.) Í 41. gr. b. laga nr. 93/1993, um atvinnuleysistryggingar, sbr. 13. gr. laga nr. 45/1995, um breyting á lögum um atvinnuleysistryggingar, segir: "Heimilt er að birta sem reglugerðir reglur Evrópusambandsins um atvinnuleysisbætur, enda eigi ákvæði þeirra stoð í lögum þessum." Í skýringum við ákvæðið sagði svo í frumvarpi því, sem varð að lögum nr. 45/1995: "Reglur Evrópusambandsins um atvinnuleysisbætur eru í 6. kafla reglugerðar (EBE) nr. 1408/71, með síðari breytingum, um beitingu almannatryggingareglna gagnvart launþegum, sjálfstætt starfandi einstaklingum og fjölskyldum þeirra sem flytjast á milli aðildarríkja, sbr. 1. tölul. VI. viðauka við EES-samninginn, og í 6. kafla reglugerðar (EBE) nr. 574/72, með síðari breytingum, um framkvæmd reglugerðar nr. 1408/71. Samkvæmt 66. gr. laga um almannatryggingar, nr. 117/1993, er ráðherra heimilt að birta sem reglugerðir reglur Evrópubandalagsins um almannatryggingar, enda eigi ákvæði þeirra stoð í þeim lögum. Af fyrirvaranum um að ákvæðin skuli eiga stoð í almannatryggingalögum leiðir að heimildin nær ekki til reglna Evrópusambandsins um atvinnuleysisbætur. Ákvæðum 7. gr. EES-samningsins um að gerð, sem samsvarar reglugerð EBE, skuli sem slík tekin upp í landsrétt samningsaðila hefur því ekki verið fullnægt hvað reglur um atvinnuleysisbætur áhrærir. Ákvæði 13. gr. er ætlað að bæta úr því og er í ákvæðinu notað hliðstætt orðalag og í áðurgreindri 66. gr. almannatryggingalaga." (Alþt. 1994, A-deild, bls. 3929.) Með úrskurði stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs 19. febrúar 1996 var ósk A um atvinnuleysisbætur synjað. Er þar vísað til þess, að samkvæmt "EES reglum" missi A rétt til atvinnuleysisbóta, þar sem hún hafi snúið aftur "til baka eftir [að] þriggja mánaða heimildinni lýkur". Í skýringum stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs frá 20. mars s.l. er vísað til þess, að A hafi ekki átt rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta, þar sem hún hafi ekki komið "til baka til Íslands innan þess frests sem henni var gefinn í vottorði E 303 til atvinnuleitar erlendis". Tekið er fram, að samkvæmt reglugerð "ráðsins EBE 1408/71 gr. 69.2. [haldi] atvinnuleitandi aðeins bótarétti í því landi sem farið er frá ef hann kemur til baka innan tilskilins tíma". Í c-lið 1. mgr. og 2. mgr. 69. gr. nefndrar reglugerðar segir: "Fari maður sem er atvinnulaus með öllu og uppfyllir skilyrði aðildarríkis fyrir bótum, samkvæmt löggjöf, til eins eða fleiri aðildarríkja í leit að atvinnu heldur hann bótaréttindum sínum með eftirfarandi skilyrðum og takmörkunum: [...] c) réttur til bóta helst að hámarki í þrjá mánuði frá þeim degi sem hlutaðeigandi hætti að vera skráður hjá vinnumiðlun þess ríkis sem hann fór frá að því tilskildu að bótatímabilið fari ekki fram yfir lengd þess bótatímabils sem hann átti rétt á samkvæmt löggjöf þess ríkis. [...] Fari viðkomandi til baka til hins lögbæra ríkis áður en bótatímabilið sem tilgreint er í c-lið 1. mgr. er liðið, skal hann halda bótaréttindum sínum áfram samkvæmt löggjöf þess ríkis; þó fellur réttur hans til bóta með öllu niður í hinu lögbæra ríki ef hann snýr ekki til baka áður en fyrrgreint tímabil rennur út. Í undantekningartilvikum getur þar til bær stofnun eða vinnumiðlun veitt lengri frest." 2. Með lögum nr. 2/1993, um Evrópska efnahagssvæðið, var samningur um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samningurinn), sem undirritaður var í Óportó 2. maí 1992, fullgiltur af Íslands hálfu. Hefur samningurinn lagagildi hér á landi, eins og nánar er kveðið á um í 2. gr. laganna. Er meginmál samningsins birt sem fylgiskjal með lögunum. Gerðar voru breytingar á samningnum í Brussel 17. mars 1993, sem veitt var lagagildi hér á landi með lögum nr. 66/1993. Loks hefur ákvæðum laga nr. 2/1993 verið breytt með lögum nr. 91/1994. Ekki er ástæða til þess að rekja breytingar þessar hér. EES-samningurinn öðlaðist gildi hér á landi 1. janúar 1994, sbr. auglýsingu í C-deild Stjórnartíðinda nr. 31/1993, um samning um Evrópska efnahagssvæðið og bókun um breytingu á samningnum. Er samningurinn þar birtur ásamt bókunum, viðaukum, yfirlýsingum, svo og öðrum samþykktum. Í viðaukunum eru þær "gerðir" Evrópubandalagsins tilgreindar, sem skyldu verða hluti EES-samningsins. Um réttaráhrif "gerðanna" í EES-samningnum segir svo í greinargerð þeirri, er fylgdi frumvarpi því, sem varð að lögum nr. 2/1993: "Réttaráhrif gerðanna í EES-samningnum fara eftir því hvernig til þeirra er vísað í viðaukunum, en þar er greint á milli bindandi gerða og óskuldbindandi. Bindandi gerðir eru tilgreindar sem "gerðir sem vísað er til", en óskuldbindandi gerðir sem "gerðir sem samningsaðilar skulu taka mið af" eða "tilhlýðilegt tillit til". M.ö.o. getur reglugerð verið bindandi innan EB, en óskuldbindandi innan EES. EES-samningurinn tilgreinir hvort gerð er bindandi fyrir samningsaðila, en ekki form hennar. En í flestum tilfellum eru skuldbindandi gerðir reglugerðir eða tilskipanir, en óskuldbindandi gerðir tilmæli, leiðbeiningar, ályktanir, bréf eða þess háttar. Þótt gerð sé óskuldbindandi ber samt sem áður að taka tillit til hennar. Í 7. gr. samningsins segir með hvaða hætti reglugerðir og tilskipanir, sem vísað er til í viðaukunum, skulu teknar upp í landsrétt. Íslenskum stjórnvöldum ber samkvæmt samningnum að lögfesta (bindandi) reglugerðir óbreyttar, sem lög eða stjórnvaldsreglur. Í flestum tilvikum yrði það gert með stjórnvaldsreglum, en það fer eftir því hvers eðlis reglurnar eru, hvort þær eru á sviði lagasetningar eða stjórnvaldsreglna samkvæmt almennum íslenskum stjórnarfarshefðum. Viðkomandi ráðuneyti gerir tillögu um hvor leiðin sé farin." (Alþt. 1991, A-deild, bls. 5750.) Í VI. viðauka EES-samningsins, sem fjallar um félagslegt öryggi, eru reglugerð ráðsins EBE nr. 1408/71 og reglugerð ráðsins EBE nr. 574/72 meðal þeirra "gerða", "... sem vísað er til" og EFTA-ríkjunum bar því að lögfesta sem "lög eða stjórnvaldsreglur". Í 7. gr. EES-samningsins er mælt fyrir um, með hvaða hætti aðildarríkjum er ætlað að lögleiða EES-reglur, sem leiða af samningnum. Þar segir: "Gerðir sem vísað er til eða er að finna í viðaukum við samning þennan, eða ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar, binda samningsaðila og eru þær eða verða teknar upp í landsrétt sem hér segir: a) gerð sem samsvarar reglugerð EBE skal sem slík tekin upp í landsrétt samningsaðila; b) gerð sem samsvarar tilskipun EBE skal veita yfirvöldum samningsaðila val um form og aðferð við framkvæmdina." Í athugasemdum við 7. gr. samningsins, sem fylgdu frumvarpi því, er varð að lögum nr. 2/1993, segir: "EES-samningurinn er bindandi að þjóðarétti fyrir samningsaðilana. Þær gerðir sem vísað er til í viðaukunum eru einnig bindandi að þjóðarétti. Innan EB hafa reglugerðir bein réttaráhrif sem felur í sér að einstaklingar geta sótt rétt sinn samkvæmt ákvæðum EB-reglna fyrir dómstólum í aðildarríkjunum á sama hátt og á grundvelli landslaga. Aðildarríkin hafa framselt löggjafarvald frá þjóðþingum sínum til stofnana EB sem gerir þeim kleift að setja reglur sem hafa lagagildi án þess að til komi sérstakt samþykki þjóðþinganna. Hið sama gildir ekki innan EFTA. Til þess að einstaklingar í EFTA-ríkjunum geti byggt rétt sinn á ákvæðum samningsins, þar á meðal þeim gerðum sem vísað er til í viðaukum hans, verða ákvæðin að vera hluti af landsrétti aðildarríkjanna. Hið sama gildir um ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar. Þessi grein kveður nánar á um með hvaða hætti EES-reglugerðir og EES-tilskipanir verða teknar upp í landsrétt. Í réttarkerfi EB er gerður greinarmunur á reglugerð (regulation, forordning, Verordnung), sem hefur lagagildi í aðildarríkjunum og tilskipun (directive, direktiv, Richtlinie), þar sem sett eru ákveðin markmið en aðildarríkjum er gefinn viss tími til lagasetningar í samræmi við þau á viðeigandi hátt. Tiltölulega lítill hluti gerða þeirra sem vísað er til í EES-samningnum er reglugerðir en þær ber skv. 7. gr. að taka upp orðrétt í landsrétt samningsaðila. Mun meira svigrúm er til þess að meta hvernig hægt sé að standa við þær samningsskuldbindingar sem upp eru teknar vegna tilskipana. Samningsaðilar hafa það í sinni hendi í hvaða formi efni tilskipananna er gert hluti af landsrétti." (Alþt. 1991, A-deild, bls. 5764-6.) Samkvæmt framansögðu gerir 7. gr. EES-samningsins greinarmun á EB-reglugerðum annars vegar og EB-tilskipunum hins vegar. Er í því efni tekið mið af 189. gr. Rómarsamningsins. Er í 7. gr. annars vegar gert ráð fyrir því, að EFTA-ríkin taki óbreyttar upp í löggjöf sína þær "gerðir", sem vísað er til í viðaukum við EES-samninginn og svara til EB-reglugerða. Getur slíkt komið til með setningu almennra laga eða stjórnvaldsfyrirmæla. Um EB-tilskipanir gildir það hins vegar, að þær þarf ekki að lögfesta sem slíkar. Aftur á móti verða aðildarríkin að tryggja að efni þeirra sé tekið með einhverjum hætti í landslög. Ekki er tilefni til þess að fjalla nánar um framangreind atriði í áliti þessu. 3. Þegar stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs felldi úrskurð sinn í málinu 19. febrúar 1996, höfðu lög nr. 45/1995 tekið gildi, en eins og áður segir, var með 13. gr. þeirra veitt heimild til þess að birta, sem almenn stjórnsýslufyrirmæli, reglur Evrópusambandsins um atvinnuleysisbætur. Ekki höfðu að öðru leyti verið gerðar ráðstafanir til þess að taka upp í íslensk lög þau ákvæði reglugerða (EBE) 1408/71 og (EBE) 547/22, er snerta atvinnuleysistryggingar, fyrr en með reglugerð nr. 524/1996, um greiðslu atvinnuleysisbóta, sem birtist í Stjórnartíðindum 10. október 1996. Með samþykkt EES-samningsins og lögtöku hans hér á landi fólst þjóðréttarleg skuldbinding til þess að taka upp í íslenska löggjöf nefndar EB-reglugerðir. Reglugerðir þær, sem hér um ræðir, veita launþegum, sem flytjast milli landa, innan Evrópska efnahagssvæðisins, meðal annars rétt til þess að flytja með sér þau réttindi, sem þeir hafa áunnið sér, á meðan á atvinnuleit stendur. Snúi hlutaðeigandi til baka að liðnum tilgreindum fresti 2. mgr. 69. gr. reglugerðar (EBE) 1408/71, fellur réttur hans til atvinnuleysisbóta "...með öllu niður í hinu lögbæra ríki" og hann verður að ávinna sér þann rétt á ný, sbr. 16. gr. laga nr. 93/1993, um atvinnuleysistryggingar, er fjallar um skilyrði þess að öðlast atvinnuleysisbætur hér á landi. Í úrskurði stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs frá 19. febrúar 1996 er vísað til EES-reglna. Þar sem umræddar reglugerðir höfðu ekki verið lögfestar hér á landi, er atvik þessa máls áttu sér stað, voru ekki að íslenskum lögum fyrir hendi réttarheimildir, sem veittu stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs heimild til þess að skerða réttindi A með þeim hætti, sem hér um ræðir. 4. Í áliti mínu 4. apríl 1997 (mál nr. 1850/1996) vísaði ég til álita minna frá 15. ágúst 1995 (mál nr. 960/1993, sbr. SUA 1995:49), og frá 1. september 1995 (mál nr. 1425/1995, sbr. SUA 1995:55), þar sem niðurstaða mín var meðal annars sú, að stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs væru fengnar heimildir að lögum til þess að skera úr um rétt einstakra bótaþega til atvinnuleysisbóta og að við meðferð slíkra mála bæri að gæta ákvæða stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Bar stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs því að gæta ákvæða 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um form og efni úrskurða í kærumáli, er stjórnin kvað upp úrskurð sinn í máli A 19. febrúar 1996. Í úrskurði stjórnar sjóðsins er málavöxtum lýst í stuttu máli. Þar er hins vegar hvorki gerð grein fyrir kröfum A, sbr. 1. tölul. 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, né skýr grein gerð fyrir ágreiningsefninu að öðru leyti, sbr. 3. tölul. 31. gr. Í niðurlagi úrskurðarins er aðeins vísað til "EES-reglna" fyrir þeirri niðurstöðu, að hafna umsókn A um atvinnuleysisbætur. Eins og mál þetta lá fyrir, var það ekki fullnægjandi rökstuðningur samkvæmt 22. gr., sbr. 4. tölul. 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, án þess að tilgreina nánar, hvaða reglur væri nánar átt við. Þá skorti á, að tekin væri rökstudd afstaða til þeirrar kröfu A, að við afgreiðslu umsóknar hennar um atvinnuleysisbætur yrði gætt undanþáguákvæða 3. mgr. 69. gr. reglugerðar (EBE) 1408/71. VI. Samkvæmt framansögðu er niðurstaða mín sú, að ekki hafi verið uppfyllt skilyrði til þess að beita reglugerð (EBE) nr. 1408/71, til að skerða rétt A til atvinnuleysisbóta. Þá fullnægði úrskurður stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs frá 19. febrúar 1996 ekki fyrirmælum 31. og 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um form og efni úrskurða í kærumálum. Eru það því tilmæli mín, að stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs beiti sér fyrir því, að mál A verði tekið til meðferðar á ný, komi fram ósk um það frá henni." VII. Með bréfi til stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs, dags. 21. nóvember 1997, óskaði ég eftir upplýsingum um, hvort úrskurðað hefði verið í máli A að nýju en hún hafði tilkynnt mér að hún hefði, í framhaldi af áliti mínu, leitað til stjórnar sjóðsins að nýju með bréfi, dags. 1. júlí 1997. Vinnumálastofnun svaraði bréfi mínu með bréfi, dags. 12. desember 1997, þar sem fram kom, að stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs hefði ítrekað fjallað um málið en ekki komist að niðurstöðu. Væri hins vegar gert ráð fyrir að niðurstaða fengist á næsta fundi stjórnarinnar 12. janúar 1998. Með bréfi, dags. 27. janúar 1998, ítrekaði ég fyrrgreind tilmæli mín í bréfi, dags. 21. nóvember 1997. Í svari Vinnumálastofnunar, dags. 10. mars 1998, kom fram, að stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs hefði ákveðið í lok febrúar 1998, að verða við kröfu A í málinu, þ.e. að henni yrðu greiddar atvinnuleysisbætur á grundvelli núgildandi dagpeningaskrár Atvinnuleysistryggingasjóðs, án vaxta, fyrir þá daga sem hún skráði sig hjá vinnumiðlun eftir heimkomu til Íslands í lok janúar 1996.