Atvinnuréttindi. Mat á námi við erlendan skóla. Jafnræðisreglur. Málsmeðferð stjórnvalda. EES-samningurinn. Lagaskil.

(Mál nr. 1832/1996)

A, sem lokið hefur námi í snyrtifræði við erlendan skóla, kvartaði yfir þeirri ákvörðun menntamálaráðuneytisins, að synja umsókn hennar um leyfi til að gangast undir sveinspróf í snyrtifræði. Umboðsmaður vísaði til þess, að snyrtifræði er löggilt iðngrein skv. reglugerð nr. 560/1995, um löggiltar iðngreinar, námssamninga, sveinspróf og meistararéttindi, og rakti ákvæði reglugerðarinnar um heimildir menntamálaráðuneytisins til þess að veita mönnum iðnréttindi eða leyfi til að þreyta sveinspróf á grundvelli náms þeirra við erlenda skóla. Ákvæði þessi eru samhljóða ákvæðum eldri reglugerðar um sama efni, nr. 102/1990. Í gildistíð reglugerðar nr. 102/1990 fengu þrír einstaklingar, sem lokið höfðu sama námi og A, leyfi til þess að þreyta sveinspróf í snyrtifræði án frekara náms. Umboðsmaður taldi ekki verða séð, að mismunandi afgreiðsla á málum einstaklinganna þriggja annars vegar og A hins vegar hefði byggst á breyttum ákvæðum laga eða reglugerðar, eða breyttu mati ráðuneytisins á skilyrðum samkvæmt þessum réttarheimildum á þeim tíma, er A lagði fram umsókn sína. Í skýringum menntamálaráðuneytisins var um þetta atriði vísað til þess, að þegar A lagði fram umsókn sína hefði EES-samningurinn verið genginn í gildi, sbr. lög nr. 2/1993, og að þau lög fælu í sér skuldbindingar um viðurkenningu erlendra iðnréttinda út frá almennum reglum, sem settar væru innan svæðisins um einstakar iðngreinar. Umboðsmaður taldi ekki hafa komið fram í málinu, að ákvæði samningsins fælu í sér þrengri rétt umsækjenda, þannig að gildandi reglur hefðu verið rýmri en EES-reglur heimiluðu, né hvaða rök byggju að baki þeirri afstöðu ráðuneytisins að ekki mætti beita rýmri ákvæðum íslenskra laga og reglna. Hann taldi því ekki verða séð af skýringum menntamálaráðuneytisins að niðurstaða þess í máli A hefði verið byggð á EES-samningnum eða öðrum skuldbindingum á grundvelli hans og tók því ekki afstöðu til málsins á þeim grundvelli. Umsókn A frá 26. október 1995 var afgreidd á grundvelli reglna nr. 364/1996, um veitingu réttinda í snyrtifræði, sem samþykktar voru 20. júní 1996, þó að umsóknin hefði borist ráðuneytinu í gildistíð eldri reglugerðar. Umboðsmaður taldi ljóst að nýjar reglur um veitingu réttinda eins og þeirra sem hér um ræddi, yrðu ekki lagðar til grundvallar við afgreiðslu eldri umsókna. Menntamálaráðuneytinu hefði því ekki verið heimilt að byggja synjun sína í málinu á umræddum reglum, heldur hefði því borið að afgreiða umsókn A á grundvelli þeirra laga og reglna, sem í gildi voru er hún barst ráðuneytinu og eftir atvikum í samræmi við fyrri úrlausnir í sambærilegum málum. Umboðsmaður beindi þeim tilmælum til menntamálaráðuneytisins, að mál A yrði tekið til endurskoðunar, ef ósk kæmi um það frá henni, og meðferð þess þá hagað í samræmi við þau sjónarmið sem fram kæmu í álitinu. Í tilefni af þeim upplýsingum menntamálaráðuneytisins, að engar umsóknir um sveinspróf í snyrtifræði hefðu verið afgreiddar frá ársbyrjun 1993 og þar til reglur nr. 364/1996 tóku gildi í júlí 1996, vegna óvissu um áhrif EES-samningsins og skorts á reglum um veitingu réttinda, tók umboðsmaður fram, að samkvæmt 1. mgr. 75. gr. stjórnarskrárinnar er öllum frjálst að stunda þá atvinnu, sem þeir kjósa. Þessu frelsi megi þó setja skorður með lögum, krefjist almannahagsmunir þess. Þegar það sé gert sé það hlutverk stjórnvalda að sjá um framkvæmd laga og stjórnvaldsfyrirmæla, sem í gildi séu á hverjum tíma. Borgararnir eigi rétt á því að stjórnvöld leysi úr málum þeirra svo fljótt sem unnt sé á grundvelli þeirra laga og stjórnvaldsfyrirmæla sem í gildi eru þegar þeir bera fram erindi sín. Umboðsmaður taldi, að ákvörðun stjórnvalds um að láta afgreiðslu mála bíða nýrra reglna, jafnvel svo árum skipti, samrýmdist ekki þessum sjónarmiðum. Hann áréttaði jafnframt, að við úrlausn mála væri það frumskylda stjórnvalda samkvæmt íslenskum stjórnlögum að starfa á grundvelli þeirra réttarheimilda, sem í gildi væru hverju sinni, og sjá um framkvæmd þeirra, enda væru allir jafnir fyrir lögunum. Umboðsmaður taldi líka ástæðu til að árétta, að skv. 30. gr. EES-samningsins væri það skylda ríkisins að auðvelda launþegum að hefja og stunda starfsemi, með því að gera nauðsynlegar ráðstafanir varðandi gagnkvæma viðurkenningu á prófskírteinum og vottorðum um formlega menntun. Gert væri ráð fyrir því, að ríki gætu haft rýmri reglur en EES-löggjöf gerði ráð fyrir. Þær skuldbindingar hvíldu ennfremur á íslenska ríkinu að slík mál fengju skjóta afgreiðslu. Það var því niðurstaða umboðsmanns að frá ársbyrjun 1993 fram að gildistöku reglna nr. 364/1996 hefði ekki verið staðið rétt að afgreiðslu menntamálaráðuneytisins á umsóknum um sveinspróf í snyrtifræði frá umsækjendum með erlend réttindi.

I. Hinn 27. júní 1996 leitaði til mín A og kvartaði yfir niðurstöðu menntamálaráðuneytisins í bréfi, dags. 24. júní 1996, vegna umsóknar hennar um iðnréttindi í snyrtifræði, dags. 26. október 1995. A lauk prófi frá X-skóla í Kaupmannahöfn á árinu 1989. Samkvæmt framangreindu bréfi menntamálaráðuneytisins var það mat ráðuneytisins, að fenginni umsögn réttindaveitinganefndar í snyrtifræði, að áður en hægt yrði að heimila A að þreyta sveinspróf í snyrtifræði, þyrfti hún að ljúka tilteknum áföngum fagnáms í snyrtifræði í framhaldsskóla. Eftir að hún hefði lokið því námi, yrði henni heimilað að gangast undir sveinspróf í snyrtifræði. Stæðist hún prófið, yrði gefið út sveinsbréf, sem veitti henni rétt til að starfa í iðngreininni, en ekki rétt til inngöngu í meistaraskóla. Samkvæmt kvörtun A voru umræddir áfangar fagnáms í snyrtifræði hluti af námi hennar við framangreindan skóla í Kaupmannahöfn. Þá kemur fram í kvörtuninni, að tveimur samnemendum hennar hafi verið heimilað að taka sveinspróf og að samkvæmt upplýsingum Iðnfræðsluráðs, sem hún hafi leitað áður en hún fór utan, teldist nám við skólann fullgilt á Íslandi. Kvörtunin beinist ennfremur að því, hversu seint ráðuneytið afgreiddi umsókn hennar og því, sem segir í bréfi ráðuneytisins, að standist hún sveinspróf, veiti það ekki rétt til náms í meistaraskóla. Telur hún niðurstöðu menntamálaráðuneytisins brot á samningi um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög nr. 2/1993. II. Ég ritaði menntamálaráðherra bréf 13. ágúst 1996, þar sem þess var óskað, sbr. 7. og 9. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis, að ráðuneyti hans léti mér í té gögn málsins og skýrði viðhorf sitt til kvörtunar A. Sérstaklega var þess óskað, að ráðuneytið léti í té upplýsingar um eftirtalin atriði: "1. Á hvaða lagagrundvelli hafi verið byggð sú ákvörðun ráðuneytisins, að synja [A] um að þreyta sveinspróf í snyrtifræði. 2. Hvort og þá á grundvelli hvaða sjónarmiða ráðuneytið hafi veitt einstaklingum, er lokið höfðu námi frá [X-skólanum] í Kaupmannahöfn, leyfi til að þreyta sveinspróf í snyrtifræði. 3. Hvers vegna afgreiðsla umsóknar [A] hafi tekið lengri tíma en mælt er fyrir um í 2. mgr. 12. gr. tilskipunar 92/51/EBE, sbr. lög nr. 83/1993, um viðurkenningu á menntun og prófskírteinum, og hvort [A] hafi, í samræmi við 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, verið gerð grein fyrir því, að málið myndi dragast í svo langan tíma." Í svarbréfi ráðuneytisins, dags. 5. nóvember 1996, segir meðal annars svo: "1. Í 22. gr. þágildandi laga nr. 57/1988 um framhaldsskóla er kveðið á um að fræðsla skuli veitt í löggiltum iðngreinum samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð. Meðferð málsins lýtur að túlkun á 5. gr. reglugerðar 560/1995 um löggiltar iðngreinar, námssamninga, sveinspróf og meistararéttindi með áorðnum breytingum, en þar er kveðið á um að ráðuneytið geti viðurkennt iðnmenntun sem aflað er erlendis, enda séu kröfur til námsins sambærilegar við þær sem gerðar eru til viðkomandi starfsréttinda hér á landi. Afgreiðsla ráðuneytisins á umsókn [A] byggist á samanburði milli íslenskrar námskrár í snyrtifræði, sbr. aðalnámskrá framhaldsskóla frá 1990 og námskrár [X-skóla], þar sem [A] stundaði nám. Nám í snyrtifræði við hinn danska skóla tekur eitt ár, en nám samkvæmt íslenskri námskrá tekur 3 ár. Í danska skólanum er engin starfsþjálfun, en hér á landi er gerð krafa um 10 mánaða starfsþjálfun á stofu undir leiðsögn meistara að námi loknu. Auk þess eru ýmsar námsgreinar ekki kenndar í [X-skóla], sem kenndar eru í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti og talið óhjákvæmilegt að nemar í snyrtifræði fái fræðslu í. Um mat á umsóknum einstaklinga sem stundað hafa nám í snyrtifræði erlendis vísast ennfremur til reglna um veitingu réttinda í snyrtifræði nr. 364/1996. Þar kemur fram að meta skuli nám sem stundað er erlendis samkvæmt gildandi námskrá í snyrtifræði. 2. Hvað varðar fyrri afgreiðslur ráðuneytisins á umsóknum einstaklinga, sem lokið höfðu námi frá [X-skóla] í Kaupmannahöfn um starfsréttindi, þá hafa umsóknir þriggja einstaklinga um sveinspróf í snyrtifræði aftur til vors 1991 leitt til heimildar til að þreyta sveinspróf - ein heimild var veitt vorið 1992 og tvær vorið 1991 - en umsóknir fóru jafnan til umsagnar hjá réttindaveitinganefnd í snyrtifræði. Ef fallist hefur verið á umsóknir einstaklinga um að þreyta sveinspróf hafa umsækjendur einnig getað sýnt fram á 10 mánaða starfsþjálfun. 3. Með gildistöku EES-samningsins var talin nauðsyn á að ganga markvissar til starfa í þessum efnum vegna tilskipana ESB á þessu sviði sbr. tilskipun 75/368/EBE. Reyndist nauðsynlegt að setja reglur um veitingu réttinda í snyrtifræði til þess að unnt yrði að vinna samræmt og skipulega að mati á námi sem stundað er erlendis. Vinna við undirbúning að setningu slíkra reglna hófst 1995 og lauk með staðfestingu þeirra svo sem að ofan segir. Frá ársbyrjun 1993 voru ekki afgreiddar neinar umsóknir um sveinspróf í snyrtifræði frá umsækjendum með erlend réttindi og söfnuðust því fyrir á annan tug umsókna í greininni af þeim sökum. Það sem tafði málið var rannsókn á þýðingu EES-samningsins fyrir íslenskt menntakerfi, auk þess sem reglur um veitingu réttinda vantaði. [A] fékk bréf í febrúar 1996 þar sem henni var tilkynnt um að verið væri að vinna í hennar máli og hún upplýst um hvenær hún gæti búist við svari." Í athugasemdum A, dags. 9. desember 1996, ítrekar hún sjónarmið sín í málinu, þ. á m. að starfsþjálfun hafi verið hluti af námi hennar við skólann í Kaupmannahöfn. Jafnframt að hún hafi sömu starfsþjálfun og áðurgreindir nemendur, sem fengu leyfi til að taka sveinspróf í snyrtifræði. Í bréfi mínu til menntamálaráðherra, dags. 13. desember 1996, sem ítrekað var 20. febrúar 1997, var þess óskað, að menntamálaráðuneytið sendi mér þær athugasemdir, sem það teldi ástæðu til að gera í tilefni af bréfi A. Sérstaklega var þess óskað, sbr. 7. og 9. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis, að ráðuneytið gerði nánar grein fyrir því, í hverju umsókn A hafi verið frábrugðin umsóknum þeirra, sem luku námi frá X-skóla í Kaupmannahöfn á sama tíma og hún og fengu leyfi til að taka sveinspróf í snyrtifræði. Jafnframt var þess óskað, að ráðuneytið léti mér í té umsögn réttindaveitinganefndar í snyrtifræði vegna umsóknar A. Í svarbréfi menntamálaráðuneytsins, dags. 28. febrúar 1997, segir meðal annars svo: "Samkvæmt upplýsingum réttindaveitinganefndar var umsókn [A] eða nám hennar við [X-skóla] í engu frábrugðið námi þeirra sem lokið höfðu námi frá þeim skóla og fengið hafa heimild réttindaveitinganefndar til að þreyta sveinspróf hér á landi sumarið 1991 og 1992, en alls er um þrjá einstaklinga að ræða. Umsókn [A] barst hins vegar fjórum árum síðar. Þá hafði Ísland gerst aðili að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið sbr. lög nr. 2/1993 um evrópska efnahagssvæðið og þar með höfðu íslensk stjórnvöld tekið á sig skuldbindingar um viðurkenningu erlendra iðnréttinda út frá almennum reglum sem settar eru um einstakar iðngreinar innan efnahagssvæðisins. Þessar almennu reglur voru þó taldar of almennar til dæmis í snyrtifræði til þess að unnt væri að meta nám þeirra sem stundað hafa snyrtifræði erlendis, sbr. "Tilskipun ráðsins frá 16. júní 1975 um ráðstafanir til að auðvelda að staðfesturéttar og réttar til að veita þjónustu sé neytt að því er varðar ýmsa starfsemi (úr ISIC deildum 1 til 85) og einkum bráðabirgðaráðstafanir með tilliti til þessarar starfsemi", sbr. 46. tl. D viðauka VII sbr. 2. gr. sbr. 119. gr. laga nr. 2/1993. [...] Í þessu ljósi var talin brýn þörf á skýrari og nákvæmari reglum sem ættu við um fólk sem hefði verið tiltölulega stutt í námi í útlöndum svo að hægt væri að meta með samanburði, við hliðstætt nám á Íslandi. Umsókn [A] barst ráðuneytinu 25. október 1995 eða nokkru eftir að hliðstæðar umsóknir höfðu verið afgreiddar frá ráðuneytinu og jafnframt eftir að Ísland hafði tekið á sig skuldbindingar samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið sem gerð hefur verið grein fyir hér að framan." Í bréfi mínu til menntamálaráðuneytisins, dags. 16. maí 1997, óskaði ég eftir öllum fyrirliggjandi gögnum málsins. Jafnframt var þess óskað, að ráðuneytið sendi mér námskrá í snyrtifræði, sem vísað er til í bréfum ráðuneytisins, auk námskrár umrædds skóla í Kaupmannahöfn. Þá var þess óskað, að ráðuneytið gerði nánari grein fyrir mati á starfsþjálfun samkvæmt reglugerð nr. 560/1995, um löggiltar iðngreinar, námssamninga, sveinspróf og meistararéttindi, og hvernig slíku mati hefði verið háttað í máli A, einkum með tilliti til þess, sem fram komi í athugasemdum hennar, að starfsþjálfun hafi verið hluti af námi hennar við X-skóla. Umbeðin gögn bárust mér með bréfi ráðuneytisins, dags. 25. júní 1997. Að því er snertir námskrá skólans í Kaupmannahöfn segir í bréfinu, að hún hafi ekki verið lögð fram með umsóknum. Á útskriftarskírteinum umsækjanda komi hins vegar fram þær námsgreinar, sem lesnar hafi verið í skólanum, og hafi þær verið bornar saman við námsgreinarnar í íslensku námskránni. Þá segir meðal annars svo í bréfi ráðuneytisins: "Nemar er hefja nám í snyrtifræði við Fjölbrautaskólann í Breiðholti geta fyrst hafið starfsþjálfun sína eftir að þeir hafa lokið annarri önn í skólanum og lokið námi í eftirtöldum áföngum: [...] Þá geta þeir farið að vinna sér inn tíma er dragast frá 10 mánaða starfsþjálfun. Meginhluti starfsþjálfunarinnar fer þó fram eftir að nemi hefur útskrifast frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti. Á það skal bent að námið í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti er 5 annir + 10 mánaða starfsþjálfun. Verkleg þjálfun í skóla dregst ekki frá starfsþjálfun. Sama gildir því um mat á starfsþjálfun við erlenda skóla þ.e. að verkleg þjálfun á skólatíma dregst ekki frá starfsþjálfuninni. Hún þarf að fara fram á starfandi snyrtistofu undir leiðsögn meistara í greininni. Í 5. gr. reglugerðar nr. 560/1995 um löggiltar iðngreinar, námssamninga, sveinspróf og meistararéttindi segir: "Menntamálaráðuneytið getur viðurkennt iðnmenntun sem aflað er erlendis gegn framvísun prófvottorðs og veitt starfsleyfi hér á landi án þess að viðkomandi gangi undir sveinspróf, enda séu kröfur til námsins sambærilegar við þær sem gerðar eru til viðkomandi starfsréttinda hér á landi." Þessi orð eru túlkuð svo að ef í ljós kemur við samanburð á erlendu námi og íslensku, að námskrá í hinum erlenda skóla er fyllilega sambærileg við íslenska námskrá og að náminu lýkur með sveinsprófi, getur ráðuneytið viðurkennt iðnréttindin án málalenginga og gefið út sveinsbréf umsækjanda til handa. Ef hins vegar kemur í ljós, að hin erlenda námskrá er ekki sambærileg við íslenska námskrá í faginu og benda má á að það vanti ákveðin fög eða ákveðinn þátt í náminu, svo sem starfsþjálfun, telur ráðuneytið eðlilegt að neminn ljúki því námi áður en hann þreytir sveinsprófið. Sveinsprófið er sú eldskírn er veitir iðnréttindin. Ef hana vantar telst neminn ekki hafa lokið námi til iðnréttinda. Í fyrrgreindri reglugerð segir ennfremur: "Einnig er heimilt að leyfa einstaklingi með starfsmenntapróf erlendis frá að sanna kunnáttu sína með sveinsprófi ef erfitt reynist að fá fram nægilega örugg gögn." Á þetta hefur ekki reynt í máli [A] þar eð fyrir liggur hvaða námsgreinar hún tók í [X-skólanum]. Fram kemur í athugasemdum [A] að starfsþjálfun hafi verið hluti af námi hennar. Réttindaveitinganefndin lítur svo á að þar sé um að ræða hliðstæðu við verklegt nám sem einnig er í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti, en dregst ekki frá 10 mánaða starfsþjálfunartíma." III. 1. Í forsendum og niðurstöðu álits míns, dags. 17. október 1997, sagði svo: "Eins og fram hefur komið hér að framan, barst menntamálaráðuneytinu umsókn A um iðnréttindi í snyrtifræði 26. október 1995. Snyrtifræði er löggilt iðngrein samkvæmt 2. gr. reglugerðar nr. 560/1995, um löggiltar iðngreinar, námssamninga, sveinspróf og meistararéttindi, sbr. 22. gr. laga nr. 57/1988, um framhaldsskóla. Samkvæmt 5. gr. framangreindrar reglugerðar getur menntamálaráðuneytið viðurkennt iðnmenntun, sem aflað er erlendis, gegn framvísun prófvottorðs og veitt starfsleyfi hér á landi, án þess að viðkomandi gangist undir sveinspróf, enda séu kröfur til námsins sambærilegar við þær, sem gerðar eru til viðkomandi starfsréttinda hér á landi. Einnig er heimilt að leyfa einstaklingi með starfsmenntapróf erlendis frá að sanna kunnáttu sína með sveinsprófi, ef erfitt reynist að fá fram nægilega örugg gögn. Fjallað er um sveinspróf í 5. kafla reglugerðarinnar. Samkvæmt 29. gr. er heimilt að taka hvern þann til sveinsprófs, sem lokið hefur burtfararprófi frá iðnfræðsluskóla og verknámssamningi hjá meistara eða starfsþjálfunarsamningi á vegum iðnfræðsluskóla. Í máli þessu liggur fyrir burtfararskírteini A frá X-skóla í Kaupmannahöfn, dagsett í ágúst 1989. Af niðurstöðu menntamálaráðuneytisins frá 24. júní 1996 verður ráðið, að framangreint nám A teljist ekki sambærilegt fagnámi í snyrtifræði samkvæmt aðalnámskrá framhaldsskóla frá 1990, sbr. 5. gr. reglugerðar nr. 560/1995. Jafnframt, að ráðuneytið líti svo á, að skírteini hennar fullnægi ekki kröfum um burtfararpróf og starfsþjálfun, sem veiti réttindi til að taka sveinspróf samkvæmt 29. gr. reglugerðarinnar. Í máli þessu er upplýst, að þrír einstaklingar, sem lokið hafa sama námi og A, fengu leyfi ráðuneytisins til að þreyta sveinspróf í snyrtifræði á árunum 1991 og 1992. Ennfremur, að nám A hafi í engu verið frábrugðið námi þessara einstaklinga. Framangreind leyfi voru veitt í gildistíð reglugerðar nr. 102/1990, um löggiltar iðngreinar, námssamninga, sveinspróf og meistararéttindi. Ákvæði hennar, að því er snertir sambærileika náms og skilyrði til að mega taka sveinspróf, eru samhljóða framangreindum ákvæðum reglugerðar nr. 560/1995. Með vísan til framangreinds og skýringa menntamálaráðuneytisins í málinu verður ekki séð, að mismunandi afgreiðsla þessara umsókna hafi verið byggð á breyttum ákvæðum laga eða reglugerðar eða breyttu mati ráðuneytisins á skilyrðum samkvæmt þeim á þeim tíma, er umsókn A lá fyrir. Af hálfu menntamálaráðuneytisins hefur hins vegar verið frá því greint, að umsókn A hafi borist eftir gildistöku laga nr. 2/1993, um Evrópska efnahagssvæðið, sem feli í sér skuldbindingar um viðurkenningu erlendra iðnréttinda út frá almennum reglum, sem settar séu um einstakar iðngreinar innan efnahagsvæðisins. Jafnframt kemur fram, að umsóknir um sveinspróf í snyrtifræði frá umsækjendum með erlend réttindi hafi ekki verið afgreiddar frá árinu 1993, vegna rannsóknar á þýðingu samningsins fyrir íslenskt menntakerfi og skorts á reglum um veitingu slíkra réttinda. Í 30. gr. laga nr. 2/1993, um Evrópska efnahagssvæðið, segir svo: "Til að auðvelda launþegum og sjálfstætt starfandi einstaklingum að hefja og stunda starfsemi skulu samningsaðilar í samræmi við VII. viðauka gera nauðsynlegar ráðstafanir varðandi gagnkvæma viðurkenningu á prófskírteinum, vottorðum og öðrum vitnisburði um formlega menntun og hæfi, svo og samræmingu ákvæða í lögum og stjórnsýslufyrirmælum samningsaðila varðandi rétt launþega og sjálfstætt starfandi einstaklinga til að hefja og stunda starfsemi." Eins og fyrr greinir, vísar menntamálaráðuneytið til framangreindra skuldbindinga af Íslands hálfu, að því er snertir skýringar á þeirri töf, sem varð á afgreiðslu erindis A, og á því, hvers vegna hún var frábrugðin fyrri afgreiðslum ráðuneytisins á sambærilegum umsóknum. Á hinn bóginn hefur ekki komið fram í málinu, að þessar skuldbindingar feli í sér þrengri rétt umsækjenda, þ.e. að gildandi reglur hafi verið rýmri en EES-reglur heimiluðu, né hvaða rök ráðuneytisins hafi legið að baki þeirri afstöðu þess, að ekki mætti beita rýmri ákvæðum íslenskra laga og reglna, ef svo bæri undir. Reglur nr. 364/1996, um veitingu réttinda í snyrtifræði, voru settar af menntamálaráðherra 20. júní 1996 samkvæmt 1. gr. reglugerðar nr. 111/1996 um breytingu á reglugerð nr. 560/1995, sbr. 22. gr., sbr. 40. gr. laga nr. 57/1988, um framhaldsskóla. Þar segir, að menntamálaráðherra skuli setja reglur um sérstaka tilhögun náms, starfsþjálfunar og réttindaveitingar í löggiltri iðngrein, ef fyrir hendi eru aðstæður, sem valda því að ekki reynist unnt að fullnægja ákvæðum námskrár um nám og starfsþjálfunartíma. Samkvæmt fundargerð réttindaveitinganefndar í snyrtifræði, dags. 18. júní 1996, var umsókn A frá 26. október 1995 afgreidd á grundvelli þessara reglna, með fyrirvara um samþykki ráðherra, þrátt fyrir að umsókn A hefði borist ráðuneytinu hinn 26. október 1995 í gildistíð reglugerðar nr. 102/1990, um löggiltar iðngreinar, námssamninga, sveinspróf og meistararéttindi. Ég tel ljóst, að nýjar reglur um veitingu slíkra réttinda, sem hér um ræðir, verði ekki lagðar til grundvallar við afgreiðslu eldri umsókna. Tel ég því, að menntamálaráðuneytinu hafi ekki verið heimilt að byggja synjun sína í máli þessu á umræddum reglum. Af skýringum menntamálaráðuneytisins verður ekki séð, að niðurstaða þess hafi verið byggð á EES-samningnum eða öðrum skuldbindingum á grundvelli hans. Tek ég því ekki afstöðu til málsins á þessum grundvelli. Með vísan til framangreinds er það skoðun mín, að menntamálaráðuneytinu hafi borið að afgreiða umsókn A á grundvelli þeirra laga og reglna, sem í gildi voru á þeim tíma, sem hún barst ráðuneytinu, og eftir atvikum í samræmi við fyrri úrlausnir ráðuneytisins, vegna sambærilegra umsókna. 2. Samkvæmt bréfi menntamálaráðuneytisins, dags. 5. nóvember 1996, voru engar umsóknir um sveinspróf í snyrtifræði frá umsækjendum með erlend réttindi afgreiddar frá ársbyrjun 1993, þar til reglur nr. 364/1996, um veitingu réttinda í snyrtifræði, tóku gildi, en þær voru birtar í Stjórnartíðindum, sem útgefin voru hinn 10. júlí 1996. Samkvæmt framansögðu voru því umsóknir um sveinspróf í snyrtifræði frá umsækjendum með erlend réttindi ekki afgreiddar í u.þ.b. þrjú og hálft ár. Þær skýringar, sem fram hafa komið af hálfu ráðuneytisins á þessum drætti, eru þær, að nauðsynlegt hafi verið að setja nákvæmari reglur í tilefni af lögfestingu EES-samningsins. Af framangreindu tilefni tek ég fram, að skv. 1. mgr. 75. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 13. gr. laga nr. 97/1995, er öllum frjálst að stunda þá atvinnu, sem þeir kjósa. Þessu frelsi má þó setja skorður með lögum, enda krefjist almannahagsmunir þess. Þegar atvinnufrelsi hafa verið settar skorður með lögum, er það hlutverk stjórnvalda að sjá um framkvæmd laga og stjórnvaldsfyrirmæla, sem birt hafa verið í samræmi við 27. gr. stjórnarskrárinnar og í gildi eru á hverjum tíma. Borgararnir eiga rétt á því, að stjórnvöld leysi úr málum þeirra svo fljótt sem unnt er á grundvelli þeirra laga og stjórnvaldsfyrirmæla, sem í gildi eru, þegar þeir bera fram erindi sín við stjórnvöld, sbr. 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga. Það samræmdist því ekki þessum sjónarmiðum að ákveða að bíða með afgreiðslu þessara mála svo árum skipti, þar til settar hefðu verið nýjar reglur. Skal hér áréttað, að við úrlausn mála er það frumskylda stjórnvalda samkvæmt íslenskum stjórnlögum, að starfa á grundvelli þeirra réttarheimilda, sem í gildi eru á hverjum tíma, og sjá um framkvæmd þeirra, enda eru allir jafnir fyrir lögum, sbr. 65. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 2. gr. laga nr. 97/1995. Að því er snertir þær skýringar, að umræddar tafir hafi orsakast af lögfestingu EES-samningsins, þá tel ég ástæðu til að árétta, að skv. 30. gr. EES-samningsins var það skylda íslenska ríkisins samkvæmt samningnum að auðvelda launþegum að hefja og stunda starfsemi með því að gera nauðsynlegar ráðstafanir varðandi gagnkvæma viðurkenningu á prófskírteinum og vottorðum um formlega menntun. Í því sambandi er rétt að taka fram, að gert er ráð fyrir því, að ríki geti haft rýmri reglur en EES-löggjöf geri ráð fyrir. Í öðru lagi hvíla þær skuldbindingar á íslenska ríkinu, að slík mál hljóti skjóta afgreiðslu. Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða mín, að ekki hafi verið staðið rétt að afgreiðslu menntamálaráðuneytisins á umsóknum um sveinspróf í snyrtifræði frá umsækjendum með erlend réttindi frá ársbyrjun 1993 til júlímánaðar 1996." IV. Niðurstöðu álits míns dró ég saman með svofelldum hætti: "Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða mín, að ekki hafi verið staðið rétt að afgreiðslu menntamálaráðuneytisins á umsóknum um sveinspróf í snyrtifræði frá umsækjendum með erlend réttindi frá ársbyrjun 1993 til júlímánaðar 1996. Þá er það niðurstaða mín í tilefni af þeirri kvörtun, sem fjallað hefur verið um hér að framan, að menntamálaráðuneytinu hafi borið að afgreiða umsókn A á grundvelli þeirra réttarheimilda, er í gildi voru á þeim tíma, sem hún barst ráðuneytinu. Það eru tilmæli mín til menntamálaráðuneytisins, að það taki mál A til endurskoðunar, ef ósk kemur um það frá henni, og hagi þá meðferð þess í samræmi við framangreind sjónarmið." V. Í framhaldi af fyrrgreindu áliti mínu barst mér bréf menntamálaráðuneytisins, dags. 5. janúar 1998. Þar segir meðal annars: "Meðfylgjandi er afrit bréfs sem menntamálaráðuneytið hefur ritað [A], þar sem henni er tilkynnt að ráðuneytið hafi endurskoðað fyrri afgreiðslu sína á beiðni hennar um mat á námi í snyrtifræði [...]. Ráðuneytið hefur kannað forsendur umsókna frá 8 aðilum um mat á námi í snyrtifræði við erlenda skóla sem afgreiddar voru á sama tíma og [A]. Í ljós hefur komið að mál þriggja einstaklinga eru hliðstæð máli [A] og hefur því verið ákveðið að gefa þeim kost á endurskoðun á fyrri afgreiðslu ráðuneytisins á umsóknum þeirra." Í fyrrnefndu bréfi menntamálaráðuneytisins til A, dags. 1. desember 1997, segir meðal annars: "Í ljósi þess að þér hafið ekki lokið almennum greinum framhaldsskólanáms, samanber námskrá í snyrtifræði, takmarkast heimildin við verklegt próf er veitir yður rétt til starfa í iðninni en ekki rétt til inngöngu í meistaraskóla. Sveinspróf í greininni verður næst haldið í janúar eða febrúar 1998. Þér getið sótt um próftöku nú þegar og fylgir umsóknareyðublað hjálagt."