Agaviðurlög. Einangrun. Stjórnsýslukæra.

(Mál nr. 2041/1997)

Í tilefni af kvörtun A vísaði umboðsmaður til ákvæða 25. og 26. gr. laga nr. 48/1988,um fangelsi og fangavist, þess efnis að ákvarðanir um einangrun og agaviðurlög sæti kæru til dómsmálaráðuneytisins. Skal ráðuneytið taka ákvörðun innan tveggja sólarhringa frá því að kæra berst. Umboðsmaður taldi að þótt í erindi A hefði verið vikið að ýmsum atriðum sem snertu samskipti hans við fangelsisyfirvöld og voru óviðkomandi ákvörðun um agaviðurlög, hefði erindið borið með sér að um kæru á slíkri ákvörðun væri að ræða. Hefði dóms- og kirkjumálaráðuneytinu því borið að afgreiða kæru A innan tveggja sólarhringa frá því að hún barst.

I. Hinn 26. febrúar 1997 leitaði til mín A, refsifangi að Litla-Hrauni. Kvartaði hann yfir því, að dóms- og kirkjumálaráðuneytið hefði ekki svarað kæru hans frá 11. febrúar 1997 vegna ákvörðunar forstöðumanns fangelsa á höfuðborgarsvæðinu frá 10. febrúar 1997, um öryggi í fangelsi og um agaviðurlög. II. Ég ritaði dóms- og kirkjumálaráðuneytinu bréf 11. mars 1997 og óskaði þess, sbr. 7. og 9. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis, að ráðuneytið upplýsti, hvort því hefði borist framangreind kæra og, ef svo væri, hvernig afgreiðslu hennar hefði verið háttað. Ennfremur mæltist ég til þess, að ráðuneytið skýrði viðhorf sitt til kvörtunar A. Í svarbréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins segir meðal annars svo: "Af þessu tilefni óskar ráðuneytið að skýra yður frá því að áðurnefnd kæra [A] barst ráðuneytinu fljótt og vel, því hún er stimpluð og innfærð í skjalasafn ráðuneytisins hinn 12. febrúar, þ.e. degi eftir að [A] ritar og afhendir kæruna fangaverði á Litla-Hrauni. Meðfylgjandi er ljósrit af nefndri kæru. Kærunni var samkvæmt verklagsreglum ráðuneytisins deilt út til kirkjumálaskrifstofunnar. Eftir athugun á erindinu ritaði viðkomandi skrifstofustjóri á erindi l.v.m. sem táknar leggist við málið eða með öðrum orðum að leggja skuli málið upp án þess að til frekari meðferðar á málinu komi. Skýring á þessari afgreiðslu er sú að mjög óljóst hafi verið um hvers konar kæru hafi verið að ræða. Þegar betur er að gáð, stendur vissulega kæra efst á blaðinu; síðan kemur ávarpsliður: Til dómsmálaráðuneytis og í næstu línu þar á eftir: Ég kæri ákvörðunarorð [...], forstöðum. en stimpill ráðuneytisins hefur lent að hluta til yfir þessari setningu. Það sem á eftir fer í bréfinu, sem er 1-1/2 þéttrituð síða, er í svipuðum anda og mörg fyrri bréf, sem ráðuneytinu hafa borist frá kæranda, en þar ber kvartanir og kærur vegna ófullnægjandi læknismeðferðar og töku tölvu frá honum hæst, auk ýmissa annarra atriða. Þegar farið er yfir bréfasafn ráðuneytisins frá sl. áramótum, kemur fram að mörg bréf eru bókuð inn frá [A] fram til þess tíma er kæran berst, en þau eru dagsett 10., 13., 15., 17., 20., 23., og 27. janúar og 4. febrúar. Sumum þessara bréfa var svarað en öðrum ekki. Þær verklagsreglur gilda í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu varðandi kærur út af ákvörðunum um agaviðurlög, að afgreiðsla þessara mála hefur algjöran forgang, enda eru ráðuneytinu settar mjög þröngar tímaskorður til afgreiðslu þeirra, eða 2 sólarhringar frá því að kæra barst, sbr. 5. mgr. 26. gr. laga nr. 48/1988 um fangelsi og fanga vist, því ella fellur ákvörðunin úr gildi. Svo rík áhersla er lögð á þessi mál að af þeim nokkrum tugum ákvarðana um agaviðurlög, sem kærðar hafa verið undanfarin 2 ár, þá er aðeins um eitt mál að ræða sem ekki hefur verið lokið innan frestsins, en í því tiltekna máli var fresturinn vísvitandi látinn líða. Ráðuneytið telur kvörtun [A] til yðar réttmæta, þar sem greinilegt er að rangt mat á eðli erindisins hjá ráðuneytinu varð þess valdandi, að erindið fékk ekki efnislega meðferð í samræmi við lög. Erfitt er eftir á að segja til um hvernig úrskurður ráðuneytisins hefði fallið, en af efni ákvörðunar um öryggi í fangelsi og um agaviðurlög, sem [...] forstöðumaður Hegningarhússins í Reykjavík, tók hinn 10. febrúar sl., má ráða, að yfirgnæfandi líkur eru á að ráðuneytið hefði staðfest þá ákvörðun, en hún fól í sér 2 vikna einangrun í öryggisálmu á Litla-Hrauni, síma- heimsókna- og sendingabann sama tíma, dagpeningagreiðslur falli niður sama tíma og að hann fái ekki aðgang að fjölmiðlum. [...]" Athugasemdir A vegna bréfs ráðuneytisins bárust mér með bréfi, dags. 7. apríl 1997. III. Í niðurstöðu álits míns, dags. 16. maí 1997, sagði: "Ákvarðanir um einangrun og um agaviðurlög sæta samkvæmt 4. mgr. 25. gr. og 5. mgr. 26. gr. laga nr. 48/1988, sbr. 1. og 2. gr. laga nr. 31/1991, kæru til dómsmálaráðuneytisins og skal skýra fanga frá því um leið og ákvörðun er birt. Þegar ákvörðun er kærð skulu gögn málsins þegar send ráðuneytinu. Ráðuneytið skal taka ákvörðun innan tveggja sólarhringa frá því að kæra barst, ella fellur ákvörðun úr gildi. Samkvæmt skýringum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins í málinu hefur afgreiðsla mála vegna kæru út af ákvörðunum um agaviðurlög algjöran forgang í ráðuneytinu. Í máli því, sem hér um ræðir, hafi hins vegar verið mjög óljóst, um hvers konar kæru hafi verið að ræða, en eftir nánari athugun telji ráðuneytið mat sitt þar að lútandi rangt og kvörtun A réttmæta. Samkvæmt lögum nr. 48/1988 hvílir sú skylda á dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, að taka ákvörðun um kæru vegna ákvarðana samkvæmt 25. og 26. gr. laganna innan tveggja sólarhringa frá því að kæra berst. Það er skoðun mín, að þrátt fyrir að í erindi A í málinu hafi verið vikið að ýmsum atriðum, sem snerta samskipti hans við fangelsisyfirvöld og eru ákvörðun um agaviðurlög óviðkomandi, hafi erindið borið með sér, að um kæru á slíkri ákvörðun hafi verið að ræða. Með vísan til framangreinds er það niðurstaða mín, að dóms- og kirkjumálaráðuneytinu hafi borið að afgreiða kæru A innan tveggja sólarhringa frá því kæra hans barst ráðuneytinu."