Réttindi og skyldur hjóna. Leiðrétting staðfests endurrits. Lífeyriskrafa. Málshraði. Þagnarskylda. Gagnkvæm framfærsluskylda hjóna.

(Mál nr. 399/1991)

Máli lokið með bréfi, dags. 12. nóvember 1992.

I.

Hinn 14. febrúar 1991 leitaði A til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir því, að lög hefðu verið brotin á sér við meðferð skilnaðarmáls síns og fyrrverandi eiginmanns síns, B. Beindist kvörtun hennar bæði að meðferð borgardómaraembættisins í Reykjavík á málinu og meðferð dómsmálaráðuneytisins á sama máli.

Með bréfi til forseta Alþingis, dags. 16. maí 1991, tilkynnti umboðsmaður Alþingis, Gaukur Jörundsson, að hann teldi ekki rétt, að hann fjallaði frekar um mál þetta, þar sem dóttir hans, Y, fulltrúi yfirborgardómarans í Reykjavík, hefði tekið skilnaðarmál þetta fyrir í nefndu starfi, og snerti sú fyrirtaka málið.

Með bréfi forseta sameinaðs Alþingis, dags. 27. maí 1991, var Þorgeir Örlygsson, prófessor, skipaður sérstakur umboðsmaður Alþingis í máli þessu.

II.

Kvörtun A beindist einkum að eftirfarandi atriðum:

Hvað embætti yfirborgardómara varðar beindist kvörtun hennar að því, að embætti hans hefði staðfest sem rétt tvö endurrit úr hjónaskilnaðarbók Reykjavíkur, sem bæði hefðu verið efnislega röng. Hélt A því fram, að annað þeirra endurrita, sem hún sagði rangt, hefði verið í höndum dómsmálaráðuneytisins, er það úrskurðaði í skilnaðarmáli hennar. Hefði endurrit þetta ásamt öðru valdið henni réttarspjöllum, þ.e. veittur hefði verið lögskilnaður í stað skilnaðar að borði og sæng, en það hefði leitt til þess, að henni hefði ekki verið úrskurðaður lífeyrir úr hendi mannsins.

Hvað dómsmálaráðuneytið varðar taldi skipaður umboðsmaður Alþingis kvörtun A einkum beinast að eftirtöldum atriðum:

Í fyrsta lagi að því, að efnislega rangt en staðfest endurrit úr hjónaskilnaðarbók Reykjavíkur hefði verið í höndum dómsmálaráðuneytisins og lögmanns fyrrverandi eiginmanns hennar undir rekstri skilnaðarmálsins í ráðuneytinu. Hefði hið ranga vottorð verið lagt til grundvallar í málinu og valdið henni réttarspjöllum.

Í öðru lagi að því, að dómsmálaráðuneytið hefði við meðferð skilnaðarmálsins tekið við tilteknum málsgögnum, sem aflað hefði verið á vafasaman hátt. Gögn þessi hefðu varðað hana, en A taldi sig ekki hafa fengið aðgang að þeim.

Í þriðja lagi að því, að dómsmálaráðuneytið hefði við úrskurð í skilnaðarmálinu byggt tiltekna niðurstöðu, sem var A óhagstæð, á drætti málsins. Dráttur þessi hefði hins vegar að verulegu leyti verið sök dómsmálaráðuneytisins, en ekki A.

Í fjórða lagi að því, að fulltrúi í dómsmálaráðuneytinu, sem með skilnaðarmálið fór, hefði talið óþarft, að A legði fram vottorð máli sínu til sönnunar, en úrskurðað á þeirri forsendu, að A hefði ekki sannað mál sitt nægjanlega.

III.

Með bréfi til dómsmálaráðuneytisins, dags. 14. mars 1991, óskaði skipaður umboðsmaður Alþingis eftir því, að sér yrðu látin í té gögn og upplýsingar um framangreint skilnaðarmál. Með bréfi dómsmálaráðuneytisins, dags. 24. apríl 1991, bárust umboðsmanni skýringar ráðuneytisins og gögn málsins.

Hinn 24. september 1991 ritaði skipaður umboðsmaður Alþingis yfirborgardómaranum í Reykjavík bréf í tilefni kvörtunar A. Með vísan til 9. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis óskaði hann m.a. eftir greinargerð yfirborgardómara um eftirfarandi atriði:

"1. Hvernig verður skýrt misræmi það, sem fram kemur í framangreindum endurritum embættis yðar af fyrirtökum umrædds hjónaskilnaðarmáls? Endurrit þessi fylgja í ljósriti.

2. Hvernig er staðið að staðfestingu endurrita við embætti yðar? Óskast í því sambandi upplýst, hvort endurrit séu jafnan samlesin af þeim, er endurritið staðfestir og þeim, er það hefur vélritað.

3. Er ólöglærðum aðilum skilnaðarmála, sem eigi njóta lögmannsaðstoðar, leiðbeint um kröfugerð?

4. Þá óska ég eftir skýringum embættis yðar á því, hverju sæti sá langi dráttur, sem varð á meðferð umrædds hjónaskilnaðarmáls við embætti yðar. Vek ég í því sambandi athygli yðar á því, að er mál þetta var tekið fyrir 30. maí 1988, var því frestað til 11. júlí 1988, en það var hins vegar ekki tekið fyrir að nýju fyrr en 26. október 1989."

Bréfi þessu svaraði yfirborgardómarinn í Reykjavík með bréfi, dags. 9. október 1991, og fylgdu bréfi hans ljósrit úr hjónaskilnaðarbók Reykjavíkur. Bréf yfirborgardómara er svohljóðandi:

"Hefi móttekið bréf yðar dags. 24. september 1991 er varðar kvörtun [A]..., til umboðsmanns Alþingis.

Svör við spurningum yðar fara hér á eftir:

Ad 1. Þegar hjónaskilnaðarmál eru tekin fyrir hér á embættinu er um fyrirtökuna bókað í þar til gerðar bækur, bókun lesin upp og hún síðan undirrituð af aðilum og valdsmanni. Ritari slær síðan endurrit af bókuninni inn á tölvu. Misræmi það sem er í endurritum af fyrirtökum í hjónaskilnaðarmálinu [...] stafar af þeim mistökum að ritari hefur ekki í upphafi skráð setninguna "en til vara sk.a.b.o.s." Þessi mistök hafa síðan verið leiðrétt í endurriti sem staðfest var 1. febrúar 1991.

Ad 2. Staðfesting endurrita fer þannig fram að ritari prentar endurrit úr tölvu, tekur ljósrit af viðkomandi fyrirtöku úr hjónaskilnaðarbók og fær þeim í hendur sem staðfesta skal endurritið. Sá sem staðfestir endurritið les einn saman ljósrit úr hjónaskilnaðarbók og endurrit úr tölvu. Þannig fer ekki fram samlestur þess er endurritið staðfestir og þess er það ritar. Séu endurrit af sömu fyrirtökum gefin út á ný eru þau staðfest án samlesturs.

Ad 3. Leiðbeiningar um kröfugerð til þeirra aðila í hjónaskilnaðarmálum sem ekki hafa ráðið sér lögmann eru yfirleitt gefnar sé eftir þeim leitað eða þyki valdsmanni ástæða til.

Ad 4. Ef annað hjóna kemur og óskar skilnaðar sér embættið um boðun hins ef það hjóna sem mætir óskar eftir því að embættið annist boðun. Eftir að hjón hafa bæði mætt í hjónaskilnaðarmáli má segja að hraðinn á meðferð þess ráðist af vilja annars eða beggja. Iðulega er það svo að hjón koma og óska skilnaðar, málið tekið fyrir og kröfur bókaðar, en síðan heyrist ekki meira frá aðilum. Í þeim tilvikum hefur embættið ekki frumkvæði að því að boða aðila enda ekki nauðsyn að bóka um það að aðilar hafi fallið frá kröfu um skilnað.

Í því tilviki sem hér um ræðir virðast aðilar ekki hafa mætt við fyrirtöku 11. júlí 1988 eða boðað forföll án þess að nýr tími til fyrirtöku væri ákveðinn, en ekki er hægt að sjá hvort heldur hefur verið af bókum embættisins. Næst hefur málið verið tekið fyrir 26. október og af bókum embættisins sést að þá hefur verið pantaður tími til fyrirtöku málsins. Við fyrirtöku þann dag mæta lögmenn f.h. hjónanna, eins og af bókunum sést. Ekki verður því annað séð en að á tímabilinu 11. júlí 1988 til 26. október 1989 hafi aðilar ekki óskað eftir fyrirtöku málsins. Embættið hefur ekki haft frumkvæði að fyrirtöku málsins samkvæmt þeim reglum sem fyrr hefur verið greint frá.

Hjálagt er ljósrit úr hjónaskilnaðarbók embættisins af fyrirtökum í framangreindu hjónaskilnaðarmáli."

Hinn 4. febrúar 1992 ritaði skipaður umboðsmaður Alþingis dómsmálaráðherra bréf í tilefni kvörtunar A og óskaði eftir afstöðu ráðuneytisins, með vísan til 9. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis, til eftirfarandi atriða:

"1. Var niðurstaða dómsmálaráðuneytisins í umræddu skilnaðarmáli, svo sem hún birtist í leyfisbréfi því til lögskilnaðar, sem gefið var út 4. janúar 1991 og bréfi ráðuneytisins til lögmanns [A], dags 8. janúar 1991, að einhverju leyti byggð á því, að ekki hefði verið gerð krafa um skilnað að borði og sæng við fyrstu fyrirtektir skilnaðarmáls þessa hjá embætti yfirborgardómarans í Reykjavík? Ef svo er, óskast upplýst, hvort dómsmálaráðuneytið hafi í framkvæmd mótað eða byggi á einhverri verklagsreglu um það, hvenær slík krafa þurfi í síðasta lagi að koma fram við meðferð skilnaðarmáls hjá valdsmanni?

2. Lítur dómsmálaráðuneytið svo á, að gera þurfi formlega kröfu við fyrirtekt skilnaðarmáls hjá valdsmanni um lífeyri meðan skilnaður að borði og sæng varir, þannig að rétti til lífeyris sé þá fyrirgert, ef slík krafa hefur ekki verið gerð með formlegum hætti? Eða telur ráðuneytið, að lífeyriskrafa geti falist í kröfu um skilnað að borði og sæng, þótt eigi sé lífeyriskrafan gerð með formlegum hætti og bókuð?

3. Hafði dómsmálaráðuneytið undir höndum einhver gögn í umræddu skilnaðarmáli, sem [A] fékk ekki aðgang að? Ef svo er, hver voru þau gögn og af hvaða ástæðum fékk [A] ekki aðgang að gögnunum? Byggði dómsmálaráðuneytið endanlega niðurstöðu sína í skilnaðarmáli þessu að einhverju leyti á slíkum gögnum?

4. Ber að líta svo á, að bréf dómsmálaráðuneytisins, dags. 12. september 1990, til aðila umrædds skilnaðarmáls, hafi falið í sér tilkynningu til málsaðilanna um það, að endanleg ákvörðun hafi verið tekin um veitingu skilnaðar að borði og sæng? Ef svo er, ber þá að líta á bréf ráðuneytisins, dags. 23. nóvember 1990, til [C], hdl., sem tilkynningu um breytingu á fyrri ákvörðun og um endurupptöku málsins?

5. Í leyfisbréfi því til lögskilnaðar, sem gefið var út 4. janúar 1991, milli hjónanna [A] og [B], kemur fram, að lögskilnaður var veittur á grundvelli 35. gr. laga nr. 60/1972. Segir í bréfi dómsmálaráðuneytisins til lögmanns [A], dags. 8. janúar 1991, að sú ákvörðun byggist á því, að samvistarslit hefðu staðið í þrjú ár eða frá 3. janúar 1988.

Í framhaldi af þessu er spurt, hvort það sé álit dómsmálaráðuneytisins, að til þeirra þriggja ára, sem nefnd eru í 35. gr. laga nr. 60/1972, beri, hvernig svo sem á stendur í hverju einstöku máli, að telja þann tíma, sem skilnaðarmál eru til meðferðar hjá valdsmanni og dómsmálaráðuneyti og hvort á slíkum skilningi sé almennt byggt í framkvæmd í dómsmálaráðuneytinu?

6. Var [A] undir rekstri skilnaðarmálsins í dómsmálaráðuneytinu meinað, svo sem hún heldur fram, að leggja fram einhver þau gögn, sem hún taldi máli skipta? Ef svo er, hver voru þau gögn og af hvaða ástæðum var henni meinað að leggja gögnin fram í málinu?"

Framangreindu bréfi svaraði dómsmálaráðuneytið með bréfi, dags. 25. maí 1992. Í bréfi dómsmálaráðuneytisins, segir m.a. svo:

"Svör við spurningum yðar... fara hér á eftir:

1. Sú niðurstaða dómsmálaráðuneytisins, að gefa út leyfisbréf til lögskilnaðar milli ofangreindra aðila, var ekki að neinu leyti byggð á að ekki var gerð krafa um skilnað að borði og sæng við fyrstu fyrirtökur skilnaðarmálsins hjá embætti yfirborgardómarans í Reykjavík. Maðurinn krafðist lögskilnaðar á grundvelli 36. gr. laga nr. 60/1972. Þar sem manninum tókst ekki að sanna að skildögum þeirrar greinar væri fullnægt var lögskilnaður veittur á grundvelli 35. gr. laga nr. 60/1972, þegar samvistarslit höfðu staðið í þrjú ár eða frá því í janúar 1988, en skv. gögnum málsins eru aðilar sammála um að samvistarslit hafi orðið í janúar 1988.

2. Við fyrirtöku skilnaðarmála hjá valdsmanni ætti að bóka sérstaklega um það hvort krafist er lífeyris. Þessa er þó ekki alltaf gætt og getur farið eftir atvikum hverju sinni hvernig litið er á ef ekki er sérstaklega bókað um þetta atriði.

Sé ekki bókað sérstaklega um lífeyriskröfu en bókað að samkomulag sé um skilnaðarskilmála eða þeir tilgreindir sérstaklega myndi, nema sérstaklega stæði á, verða litið svo á að samkomulag væri milli hjóna um að lífeyrisgreiðslur ættu sér ekki stað. Ef við fyrirtöku skilnaðarmáls er einungis bókað um skilnaðarkröfu, en einhverra hluta vegna ekki bókað um skilnaðarskilmála, máli t.d. frestað til nýrrar fyrirtöku, myndi slíkt ekki hafa í för með sér að rétti til lífeyris sé þá fyrirgert, þó krafa um hann sé ekki gerð strax í upphafi.

Ráðuneytið lítur ekki svo á að krafa um skilnað að borði og sæng ein sér, feli jafnframt í sér kröfu um lífeyri.

3. Þann 10. október 1990 var af hálfu lögmanns mannsins lagt fram bréf [D], geðlæknis þar sem fram kemur að hann hafi vísað umræddum hjónum til frekari meðferðar vegna hjónabandserfiðleika til [E], félagsráðgjafa. Jafnframt lagði lögmaðurinn fram bréf félagsráðgjafans, dags. 25. september 1990. Bæði framangreind bréf eru merkt trúnaðarmál en lögmaðurinn fékk heimild bréfritara til að senda þau ráðuneytinu. Þar sem ekki var unnt að nota bréfin, þannig merkt, sem gögn í hjónaskilnaðarmálinu fór ráðuneytið, að ósk lögmanns mannsins, þess á leit við [E] félagsráðgjafa, að kynna mætti konunni bréf hennar, dags. 25. september 1990. Þann 20. nóvember 1990 barst ráðuneytinu bréf félagsráðgjafans, efnislega samhljóða bréfi hennar, dags. 25. september 1990. Eins og bréf ráðuneytisins, dags. 23. nóvember 1990, til lögmanns konunnar ber með sér var ljósrit af bréfi framangreinds félagsráðgjafa sent lögmanni konunnar og honum gefinn kostur á að tjá sig um það. Af framanrituðu svo og af málsskjölum öðrum má ráða að konan hafði aðgang að öllum þeim gögnum er byggt var á í máli þessu.

Sú niðurstaða ráðuneytisins að gefa út leyfi til lögskilnaðar á grundvelli 35. gr. laga nr. 60/1972 var ekki að neinu leyti byggð á þeim gögnum sem hér um ræðir, heldur var með þessu verið að gefa manninum kost á að sanna að þau skilyrði sem 36. gr. laga nr. 60/1972 setur til útgáfu lögskilnaðarleyfis skv. þeirri grein, hafi átt við í máli þessu.

4. Í bréfi dómsmálaráðuneytisins, dags. 12. september 1990, fólst, að þar sem manninum hafi ekki tekist að sýna fram á að skilyrðum 36. gr. laga nr. 60/1972 hefði verið fullnægt hafi ekki verið unnt að fallast á kröfu hans um lögskilnað. Miðað við stöðu málsins á þeim tíma og þeim gögnum sem þá lágu fyrir í málinu tók ráðuneytið þá ákvörðun, sbr. ofangreint bréf, að gefa út leyfi til skilnaðar að borði og sæng og af því tilefni var, með bréfi ráðuneytisins, dags. 18. september 1990, óskað eftir gögnum vegna lífeyriskröfu konunnar. Eins og fyrr er rakið lagði maðurinn fram ný gögn til að freista þess enn frekar að sýna fram á að skildögum 36. gr. laga nr. 60/1972 hefði verið fullnægt og með því móti sanna að skilyrði væru til að fallast á lögskilnaðarkröfu hans. Þar sem ráðuneytið taldi að hin nýju gögn gætu hugsanlega breytt þeirri ákvörðun að gefa út leyfi til skilnaðar að borði og sæng en ekki leyfi til lögskilnaðar, var lögmanni konunnar með bréfi ráðuneytisins, dags. 23. nóvember 1990, kynnt hin nýju gögn og honum veittur kostur á að tjá sig um þau, en ekki ber að skilja bréf ráðuneytisins á þann hátt að manninum hafi tekist að sýna fram á að skilyrði 36. gr. hjl. væru eða hefðu verið fyrir hendi og ráðuneytið hefði af þeim sökum endurupptekið málið.

5. Dómsmálaráðuneytið hefur almennt byggt á þeim skilningi í framkvæmd skilnaðarmála að þau þrjú ár sem nefnd eru í 35. gr. laga nr. 60/1972, beri að telja frá þeim tíma er raunveruleg samvistarslit hafa átt sér stað og til þeirra þriggja ára beri þá að telja þann tíma sem skilnaðarmál eru til meðferðar hjá stjórnvöldum. Ráðuneytið telur framangreindan skilning eðlilegan og sanngjarnan. Ýmis atvik geta orðið til þess að langur tími líði, og aðstæður breytist, frá því að skilnaðarmál er fyrst tekið fyrir hjá valdsmanni þar til endanlega er unnt að ljúka máli, t.d. annað hjóna búsett erlendis og/eða ekki tekst að hafa upp á því og væri því óeðlilegt ef aðilar væru útilokaðir frá því að krefjast lögskilnaðar á grundvelli þessarar greinar einungis vegna þess að málið hafi tekið langan tíma í meðferð frá því fyrst var krafist skilnaðar.

Rétt er að taka fram að í máli því sem hér um ræðir má skýra þann langa tíma sem málið var til meðferðar í ráðuneytinu að nokkru leyti með því að langur tími fór í að reyna að sýna fram á að skilyrði 36. gr. laga nr. 60/1972 væru fyrir hendi. Sök annars hjóna í skilnaði er afar erfitt að meta. Í þessu sambandi skal getið að dómsmálaráðherra hefur beitt sér fyrir breytingum á lögum um stofnun og slit hjúskapar og m.a. útrýmt þeim sakarþætti er 32. gr. og 36. gr. laga nr. 60/1972 höfðu áður að geyma. Frumvarp þetta var samþykkt á Alþingi þann 16. maí sl.

6. Eins og fram kemur í gögnum málsins var konunni og lögmanni hennar ítrekað veittur frestur til að koma á framfæri gögnum og sjónarmiðum vegna málsins. Síðasta bréf ráðuneytisins til konunnar og lögmanns hennar í þessu skyni er dags. 23. nóvember 1990, en þar er frestur til að tjá sig um málið veittur til 3. desember 1990. Í símtali ráðuneytisins við lögmann konunnar þann 5. desember 1990 var sá frestur framlengdur, að hans ósk, til 3. janúar 1991, en greinargerð hans barst ráðuneytinu þann 20. desember 1990. Þann sama dag 1990 mætti konan sjálf í dómsmálaráðuneytið og afhenti greinargerð sína er dagsett er í desember 1990, sbr. minnisblað fulltrúa ráðuneytisins þann dag, og óskaði konan þá ekki eftir að leggja fram frekari gögn. Leyfisbréf til lögskilnaðar var útgefið af ráðuneytinu þann 4. janúar 1991. Konan og lögmaður hennar lögðu fram þau gögn er þau sjálf óskuðu eftir á meðan á málinu stóð og var aldrei af hálfu ráðuneytisins neitað að taka við gögnum er þau vildu að fram kæmu í málinu."

IV.

Í bréfi skipaðs umboðsmanns Alþingis til A, dags. 12. nóvember 1992, gerði hann ítarlega grein fyrir því, hvernig málavextir horfðu við honum samkvæmt gögnum þeim, sem fyrir hann hefðu verið lögð. Í bréfi hans var m.a. getið bréfs landlæknis til A, dags. 31. janúar 1992, en það hljóðar svo:

"Landlæknir hefur nú lokið umfjöllun um erindi yðar frá því í febrúar 1991. Ljósrit af bréfi [D] til [F], hæstaréttarlögmanns og svarbréf [D], dags. 14.03.91 og 27.05.91, fylgja bréfi þessu.

Landlæknir telur að [D] hafi brugðist þeim trúnaði við yður, sem honum ber samkvæmt læknalögum, með því að láta [F] í té staðfestingu í viðtali við yður að yður forspurðri. [D] hefur verið tilkynnt þessi niðurstaða."

V.

Í bréfi skipaðs umboðsmanns Alþingis til A, dags. 12. nóvember 1992, sagði svo um niðurstöðu hans í málinu:

"2.

Af svarbréfi yfirborgardómara má ljóst vera, svo sem þér haldið fram í kvörtun yðar, að þau mistök urðu hjá embætti hans við afgreiðslu endurrita af fyrirtökum skilnaðarmáls yðar og [B], að ritari við embætti hans skráði ekki setninguna "... en til vara skilnaðar að borði og sæng...", er hann sló endurrit af bókuninni inn í tölvu. Gaf endurrit það, er embætti hans sendi dómsmálaráðuneytinu 1. desember 1989 af fyrirtökum skilnaðarmáls yðar og [B] því ekki rétta mynd af kröfum þeim, er þér settuð í upphafi fram í umræddu skilnaðarmáli. Ég tel hins vegar, að yfirborgardómari hafi í bréfi sínu til mín gefið fullnægjandi skýringar á því, í hverju umrædd mistök liggja. Þá sé ég ekki ástæðu til að draga í efa skýringar hans á því, hverju sætt hafi sá langi dráttur, sem varð á meðferð skilnaðarmáls yðar og [B] hjá embætti hans.

Samkvæmt svarbréfi yfirborgardómara fór yfirleitt ekki fram við embætti hans samlestur af hálfu þess, er endurrit staðfesti og þess er það ritaði, og verður ekki séð, að svo hafi verið við staðfestingu endurrita af fyrirtökum skilnaðarmáls yðar. Verður að mínu áliti að telja vöntun á slíkum samlestri til skorts á vönduðum vinnubrögðum í stjórnsýslunni, og hefði samlestur í yðar tilviki getað komið í veg fyrir mistök þau, sem urðu við afgreiðslu endurrita af fyrirtökum skilnaðarmáls yðar. Mun ég skýra valdsmanni þeim, er nú annast fyrirtökur skilnaðarmála á frumstigi, þ.e. sýslumanninum í Reykjavík, þessa skoðun mína og óska jafnframt eftir því, að slíkur samlestur verði eftirleiðis viðhafður.

Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til frekari viðbragða af minni hálfu í tilefni af þeim þætti í kvörtun yðar, sem beinist að embætti yfirborgardómara, en það embætti var lagt niður hinn 1. júlí 1992, sbr. lög nr. 92/1989, um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði, og verkefni þess hvað varðar meðferð skilnaðarmála færð til sýslumannsins í Reykjavík.

3.

Hvað varðar afskipti dómsmálaráðuneytisins af meðferð skilnaðarmáls yðar, haldið þér því fram, að hið efnislega ranga en staðfesta vottorð úr hjónaskilnaðarbók Reykjavíkur, sem að framan er á minnst, hafi verið í höndum dómsmálaráðuneytisins undir rekstri skilnaðarmáls yðar. Haldið þér því fram, að hið ranga vottorð hafi verið lagt til grundvallar niðurstöðu í máli yðar og valdið yður réttarspjöllum.

Það er í sjálfu sér rétt hjá yður, að hið ranga vottorð var í höndum dómsmálaráðuneytisins undir rekstri skilnaðarmáls yðar, þ.m.t. þegar ráðuneytið úrskurðaði í málinu hinn 4. janúar 1991. Ber í því sambandi að hafa í huga, að mistök þau, er urðu við staðfestingu endurritanna, voru ekki leiðrétt fyrr en hinn 1. febrúar 1991. Af hálfu dómsmálaráðuneytisins er því haldið fram, að sú niðurstaða ráðuneytisins að gefa út leyfisbréf til lögskilnaðar hinn 4. janúar 1991 hafi ekki að neinu leyti verið byggð á því, að ekki hafi verið gerð krafa um skilnað að borði og sæng við fyrstu fyrirtekt skilnaðarmáls yðar.

Að mínu áliti er ekki ástæða til þess að draga þessa fullyrðingu dómsmálaráðuneytisins í efa. Fyrst er þess að geta, að krafa um skilnað að borði og sæng kom skýrlega fram við fyrirtekt skilnaðarmáls yðar hjá embætti yfirborgardómara hinn 26. október 1989, er þér mættuð hjá embætti hans ásamt lögmanni yðar, [C], og var ráðuneytinu því fullkunnugt um kröfu yðar til skilnaðar að borði og sæng. Þá sýna afskipti dómsmálaráðuneytisins af máli yðar það, að málið var lengst af í þeim farvegi hjá ráðuneytinu, að gefa bæri út leyfisbréf til skilnaðar og borði og sæng. Bendi ég í því sambandi á bréf dómsmálaráðuneytisins til yðar og fyrrum eiginmanns yðar, sem dagsett er 12. september 1990, en í niðurlagi bréfs þessa segir, að ráðuneytið muni á næstu dögum taka afstöðu til lífeyriskröfu yðar og gefa að því loknu út leyfisbréf til skilnaðar að borði og sæng.

Samkvæmt framansögðu fæ ég hvorki séð, að hið ranga vottorð sem slíkt hafi verið grundvöllur rangrar málsmeðferðar gagnvart yður né heldur hafi það sem slíkt verið grundvöllur ákvarðanatöku í máli yðar. Er því ekki tilefni til athugasemda af minni hálfu af þessu tilefni umfram það, sem greinir í niðurlagi kafla V.2. hér að framan.

4.

Í kvörtun yðar er á því byggt, að dómsmálaráðuneytið hafi við úrskurð í skilnaðarmálinu byggt tiltekna niðurstöðu, sem var yður óhagstæð, á drætti málsins, en dráttur þessi hafi að verulegu leyti verið sök dómsmálaráðuneytisins en ekki yðar sjálfrar.

Dómsmálaráðuneytið móttók gögn í skilnaðarmáli yðar þann 5. desember 1989, en afskiptum ráðuneytisins af málinu lauk, er það gaf út leyfisbréf til lögskilnaðar hinn 4. janúar 1991, og hafði málið þá verið til meðferðar í ráðuneytinu í rúmt eitt ár. Hinn 2. janúar 1990 hófst formleg meðferð málsins í ráðuneytinu, er það ritaði yður og fyrrum eiginmanni yðar bréf vegna lífeyriskröfu yðar. Er gangur málsins í dómsmálaráðuneytinu rakinn lið fyrir lið í kafla IV hér að framan. Af því, sem þar kemur fram má sjá, að málið var til meðferðar í ráðuneytinu nánast í hverjum mánuði allt þetta tímabil.

Á það má fallast með yður, að meðferð skilnaðarmáls yðar hafi dregist mjög í dómsmálaráðuneytinu. Af hálfu dómsmálaráðuneytisins eru á því gefnar þær skýringar, að það stafi að nokkru af miklum önnum í einkamáladeild ráðuneytisins og starfsmannabreytingum þar, sem leitt hafi til þess, að fjórir fulltrúar fóru með málið þann tíma, er það var til afgreiðslu. Sé ég ekki ástæðu til þess að draga í efa þessar skýringar ráðuneytisins, enda bera gögn málsins þess vitni, auk þess sem ég hefi kannað þetta atriði nánar í dómsmálaráðuneytinu. Almennt séð verður að telja, að það geti haft í för með sér óheppilegar afleiðingar fyrir þá einstaklinga, sem eiga mál til úrlausnar hjá stjórnvöldum, þegar mál þeirra dragast vegna mikilla anna og örra mannabreytinga. Þar er hins vegar um að ræða atriði, sem varða almennan aðbúnað stjórnsýslunnar, fremur en vanrækslu einstakra stjórnsýsluhafa.

Þá er til þess að líta varðandi drátt þann, er varð á meðferð máls yðar, að fyrrum eiginmaður yðar byggði lögskilnaðarkröfu sína á ákvæðum 36. gr. laga nr. 60/1972, um stofnun og slit hjúskapar. Af gögnum þeim, er fyrir mig hafa verið lögð, má ráða, að dómsmálaráðuneytið áleit fyrrum eiginmann yðar bera sönnunarbyrði fyrir því, að skilyrðum þeirrar greinar væri fullnægt, þ.e. að samvistarslit hefðu orðið án vilja hans og án fullnægjandi tilefnis af yðar hálfu. Má sjá af gögnum málsins, að verulegur tími fór í sönnunarfærslu um þetta atriði, og virðist dráttur málsins ekki hvað síst hafa stafað af því.

Þegar til þess er litið, sem að framan greinir, er það álit mitt, að ekki sé tilefni til sérstakra athugasemda af minni hálfu vegna þess dráttar, sem varð á meðferð skilnaðarmáls yðar í dómsmálaráðuneytinu.

5.

Þér haldið því fram í kvörtun yðar, að dómsmálaráðuneytið hafi byggt niðurstöðu í skilnaðarmálinu, sem var yður óhagstæð, á drætti þeim, sem samkvæmt framansögðu varð á meðferð málsins í dómsmálaráðuneytinu. Virðist þér með því eiga við þá ákvörðun ráðuneytisins að veita lögskilnaðarleyfi samkvæmt 35. gr. laga nr. 60/1972, þegar samvistarslit höfðu varað í 3 ár.

Í 35. gr. laga nr. 60/1972, sem breytt var með lögum nr. 39/1992, kom fram sú regla, að hefðu hjón slitið samvistir vegna ósamlyndis, gæti hvort þeirra um sig krafist lögskilnaðar, þegar samvistarslit hefðu varað í 3 ár. Dómsmálaráðuneytið hefur í bréfi til mín skýrt mér svo frá, að ráðuneytið hafi almennt byggt á þeim skilningi í framkvæmd skilnaðarmála, að til þeirra þriggja ára, sem nefnd voru í greininni, hafi borið að telja þann tíma, sem skilnaðarmál voru til meðferðar hjá stjórnvöldum, og að upphaf tímans hafi borið að miða við það tímamark, er raunveruleg samvistarslit urðu.

Af lögskýringargögnum verður ráðið, að þessi túlkun dómsmálaráðuneytisins á lagaákvæðinu við framkvæmd skilnaðarmála fær staðist. Í 35. gr. laga nr. 60/1972 hefur löggjafinn mælt fyrir um rétt annars hjóna til lögskilnaðar, þegar samvistarslit hafa varað tíma þann, sem tilgreindur er í ákvæðinu og af þeim ástæðum, sem þar eru tilgreindar. Væri það og að mínu áliti miklum vandkvæðum bundið í framkvæmd, ef draga ætti frá umræddu tímabili þann tíma, sem mál kann að hafa dregist hjá stjórnvöldum, enda geta ástæður slíks dráttar verið af ólíkum toga, svo sem nánar er rakið í bréfi dómsmálaráðuneytisins til mín, dags. 25. maí 1992.

Þegar til þess er litið, sem að framan er rakið, er það álit mitt, að ekki eigi við rök að styðjast framangreint atriði í kvörtun yðar, og verður þetta atriði því ekki tilefni frekari athugasemda af minni hálfu.

6.

Í kvörtun yðar er því haldið fram, að dómsmálaráðuneytið hafi við meðferð skilnaðarmáls yðar tekið við tilteknum málsgögnum, sem aflað hafi verið á vafasaman hátt. Mun hér vera átt við gögn þau, er lögmaður fyrrum eiginmanns yðar aflaði frá [E], félagsráðgjafa, og [D], geðlækni. Gögn þessi hafi varðað yður, en þér ekki fengið aðgang að öðru þeirra, þ.e. bréfi [D].

[...]

Samkvæmt því, sem fram kemur í kvörtun yðar og fylgigögnum hennar, höfðuð þér aðgang að bréfi því, er [E] sendi dómsmálaráðuneytinu og móttekið var þar 20. nóvember 1990, en það er efnislega samhljóða bréfi hennar, dags. 25. september 1990. Var lögmanni yðar sent umrætt bréf og honum gefinn kostur á að tjá sig um það.

Bréf [D], geðlæknis, var eins og bréf [E], merkt sem trúnaðarmál. Af bréfi dómsmálaráðuneytisins til mín, dags. 25. maí 1992, má ráða, að dómsmálaráðuneytið taldi sér ekki fært að nota bréfið þannig merkt sem gagn í hjónaskilnaðarmáli yðar, og endanleg niðurstaða skilnaðarmálsins í dómsmálaráðuneytinu bendir ekki til þess, að nokkuð hafi verið byggt á bréfi þessu.

Svo sem rakið er í kafla IV.... hér að framan, hefur landlæknir sem eftirlitsaðili með læknum tilkynnt [D], að hann hafi með sendingu umrædds bréfs brotið þann trúnað við yður, sem hann ber samkvæmt læknalögum.

Samkvæmt framansögðu er ekki tilefni til þess af minni hálfu að gera athugasemdir við viðtöku dómsmálaráðuneytisins á umræddu bréfi [D], geðlæknis.

7.

Í bréfi dómsmálaráðuneytisins til umboðsmanns Alþingis, dags. 24. apríl 1991, tekur ráðuneytið fram, að yður hafi ekki verið úrskurðaður lífeyrir eftir lögskilnað, þar sem ráðuneytið hafi talið, að hinum þröngu skilyrðum 49. gr. hjúskaparlaga til greiðslu lífeyris eftir lögskilnað, hafi ekki verið fullnægt.

Um framangreint atriði í bréfi dómsmálaráðuneytisins segið þér í bréfi til mín, sem dags. er 24. júní 1991, að þér hafið ekki farið fram á, að yður yrði úrskurðaður lífeyrir eftir lögskilnað. Ítrekið þér, að þér hafið síður en svo borið fram kvörtun af þessu tilefni, og sé hér um uppspuna að ræða af hálfu fulltrúa þess, er ritaði umrætt bréf. Takið þér fram, að þér hafið sótt um skilnað að borði og sæng og lífeyri úr hendi maka, meðan skilnaður að borði og sæng stæði yfir.

Í ljósi þess, sem að framan er rakið, eru ekki tilefni til þess af minni hálfu að taka til umfjöllunar þá ákvörðun dómsmálaráðuneytisins, að úrskurða yður ekki lífeyri eftir lögskilnað.

Þar sem lyktir skilnaðarmáls yðar og [B] urðu þær, að lögskilnaður var veittur en ekki skilnaður að borði og sæng, kom ekki til ákvörðunar um framfærslueyri samkvæmt 49. gr. laga nr. 60/1972. Til þess er hins vegar að líta, að þegar samvistaslit verða vegna ósamkomulags hjóna, gilda eftir sem áður ákvæði 2. gr. laga nr. 20/1923, um réttindi og skyldur hjóna, allt til þess að skilnaður hefur farið fram, sbr. 7. gr. sömu laga. Í þessu felst, að hin gagnkvæma framfærsluskylda milli hjóna helst, þar til skilnaður hefur verið veittur, og er hvoru hjóna þá skylt að inna af hendi framlög til hins í samræmi við efnahag sinn. Samkvæmt 9. gr. sömu laga er það valdsmaður, sem ákveður framlög samkvæmt 7. gr. Ekki verður af gögnum málsins séð, að þér hafið haft uppi við valdsmann slíkar kröfur um framfærslueyri, sem greinir í 2. sbr. 7. gr. laga nr. 20/1923, þrátt fyrir ábendingar dómsmálaráðuneytisins um það efni, sbr. bréf ráðuneytisins til lögmanns yðar, dags. 16. júlí 1990,...

8.

Með hliðsjón af öllu því, sem að framan er rakið, tel ég, að ekki séu tilefni til frekari afskipta af minni hálfu vegna kvörtunar yðar, og er afskiptum mínum af málinu lokið."