Barnsfaðernismál. Gjafsókn. Málflutningsþóknun. Lögskýring.

(Mál nr. 1881/1996)

A kvartaði yfir því fyrir hönd umbjóðanda síns B, að dóms- og kirkjumálaráðuneytið hefði synjað greiðslu málskostnaðar samkvæmt gjafsóknarleyfi vegna barnsfaðernismáls B á hendur C, búsettum í Bandaríkjunum. Í úrskurði ráðuneytisins var byggt á þeirri túlkun 2. mgr. 127. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, að skylda til greiðslu lögmannsþóknunar yrði fyrst virk þegar þóknunin hefði verið ákveðin með dómi. Umboðsmaður tók fram að gjafsóknarleyfi í málinu hefði ekki verið bundið við tiltekna þætti málskostnaðar eða ákveðna fjárhæð, svo sem heimilt væri. Væri lögmannsþóknun vegna undirbúnings málsins því ekki undanskilin. Athugunarefni væri því, hvort greiðsla þóknunar fyrir lögmannsstörf yrði fortakslaust bundin því skilyrði að hún hefði verið ákveðin með dómi. Umboðsmaður vísaði til 2. mgr. 45. gr. barnalaga, nr. 20/1992, þar sem mælt er fyrir um að sóknaraðili faðernismáls skuli hafa gjafsókn, og til þess, að samkvæmt 127. gr. einkamálalaga skuldbindi gjafsóknarleyfi ríkið til að greiða þann málskostnað sem gjafsóknarhafi hefur af máli. Taldi umboðsmaður það ekki standast að skýra ákvæði 2. mgr. 127. gr. laganna svo þröngt að þau bönnuðu greiðslu málflutningsþóknunar, þótt mál hefði ekki verið lagt fyrir dóm, einkum í faðernismálum. Tók umboðsmaður fram, að samkvæmt eldri barnalögum hefði verið unnt að fá úrlausn dómara um kostnað sóknaraðila af málarekstri, þ. á m. lögmannsþóknun, óháð því hvernig málinu lyki. Eftir setningu nýrra barnalaga og fyrirmæla þeirra að faðernismál skyldu fara eftir almennum reglum einkamálaréttarfars væri ekki eins greið leið að fá slíka úrlausn dómstóla. Ekkert benti hins vegar til þess að lagabreytingin hefði átt að þrengja kosti sóknaraðila faðernismáls. Niðurstaða umboðsmanns var, að ef réttmætar ástæður leiddu til þess að fallið væri frá málssókn áður en dæmt hefði verið í faðernismáli, gæti ríkið ekki hafnað greiðslu lögmannsþóknunar á þeim forsendum að hún hefði ekki verið ákveðin af dómara. Kæmi það í slíkum tilvikum í hlut dóms- og kirkjumálaráðuneytisins að ákveða lögmannsþóknun, en þá ákvörðun mætti síðan bera undir dómstóla í samræmi við almennar reglur.

I. Hinn 29. ágúst 1996 leitaði til mín A, lögfræðingur, og kvartaði fyrir hönd B yfir synjun dóms- og kirkjumálaráðuneytisins um að greiða málskostnað vegna barnsfaðernismáls B á hendur manni að nafni C. Samkvæmt kvörtuninni og gögnum málsins var B hinn 4. júlí 1994 veitt leyfi til gjafsóknar í máli, er hún hugðist höfða á hendur C, búsettum í Bandaríkjunum, til viðurkenningar á faðerni sonar síns, D. Í leyfinu er vísað til 2. mgr. 45. gr. barnalaga nr. 20/1992 og 2. mgr. 126. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Á grundvelli leyfisins var hafist handa um undirbúning málshöfðunar. Samkvæmt kvörtuninni hefur hins vegar ekki tekist að birta C stefnu í málinu og atvikum þannig háttað, að telja verði tilgangslaust að halda málinu áfram. Var þess því farið á leit við dóms- og kirkjumálaráðuneytið 17. apríl 1996, að áfallinn kostnaður í málinu yrði greiddur. Með bréfi, dags 17. maí 1996, samþykkti ráðuneytið að greiða útlagðan kostnað. Um þóknun vegna vinnu við málið segir hins vegar í bréfi ráðuneytisins, að það telji rétt að hafna beiðni um greiðslu hennar, þar sem dómur hafi ekki gengið um hana, sbr. 2. mgr. 127. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Ráðuneytið ítrekaði þá afstöðu sína, að ekki væri lagaheimild til þess að fallast á beiðnina, í bréfi, dags. 13. ágúst 1996. Um afstöðu ráðuneytisins segir í kvörtuninni: "Ég tel ofangreinda afgreiðslu ráðuneytisins óréttmæta og fæ ekki séð á hvaða forsendu hægt er að samþykkja greiðslu á útlögðum kostnaði, en hafna greiðslu á lögmannsþóknun. Það hlýtur að vera hagur ríkissjóðs að máli þessu ljúki, en sé ekki haldið til streitu með tilheyrandi kostnaði. Það er ljóst að ef ég fæ þóknun mína ekki greidda úr ríkissjóði þá verð ég að innheimta hana hjá umbjóðanda mínum sem fór upphaflega í málið á þeirri forsendu að hún fengi gjafsóknarleyfi. Það er óeðlilegt að hún þurfi að bera hallann af því að ekki tekst að fá dóm í málinu, en staðið hefur verið eðlilega að málarekstrinum í alla staði." II. Ég ritaði dóms- og kirkjumálaráðherra bréf 24. september 1996, sem ítrekað var með bréfum 20. nóvember 1996 og 9. janúar 1997, þar sem þess var óskað, sbr. 7. og 9. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis, að ráðuneytið léti mér í té gögn málsins og skýrði viðhorf sitt til kvörtunarinnar. Sérstaklega var þess óskað, að ráðuneytið skýrði afstöðu sína til þess, hvort litið yrði svo á, að í leyfi til gjafsóknar felist skuldbinding af hálfu ríkisins til að greiða þann kostnað, þar á meðal lögmannsþóknun, sem leyfishafi hafi haft af undirbúningi máls, þótt svo hátti sem í máli þessu, að erfitt eða ógerlegt reynist að ná fram dómi. Svar ráðuneytisins barst mér með bréfi, dags. 21. janúar 1997. Þar segir meðal annars svo: "Af þessu tilefni vill ráðuneytið taka fram að það telur meginreglu 127. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála vera þá, að ríkið sé skuldbundið til greiðslu alls kostnaðar sem gjafsóknarhafi sannanlega hefur sjálfur af málarekstri sínum. Ráðuneytið er ennfremur þeirrar skoðunar, að greiðsluskylda ríkisins stofnist um leið og slíkur kostnaður fellur á gjafsóknarhafa. Hefur ráðuneytið í þessu skyni mótað vinnureglur, sem kveða á um að greiða skuli úr ríkissjóði allan útlagðan kostnað við gjafsóknarmál, allt frá því að málið er undirbúið og þar til dómur eða úrskurður gengur eða sátt er gerð. Þessi meginregla er hins vegar ekki fortakslaus, eins og reyndar kemur fram í upphafsorðum 1. mgr. 127. gr. einkamálalaganna. Ein af þeim undantekningum sem gera verður lýtur sérstaklega að skyldu til greiðslu þóknunar fyrir lögmann gjafsóknarhafa, sbr. 2. mgr. 127. gr. Hefur ráðuneytið skýrt það undantekningarákvæði þannig, að skylda til greiðslu lögmannsþóknunar verði fyrst virk þegar dómur eða úrskurður gengur í gjafsóknarmáli. Styðst sú túlkun m.a. við ummæli í greinargerð með lögunum. Þótt fallast megi á það með lögmanninum, að sóknaraðila í væntanlegu dómsmáli sé ekki alltaf bagalaust að birta stefnu í Lögbirtingablaði, sbr. a-lið 1. mgr. 89. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, telur ráðuneytið engin efni til annars en að skýra umrædd ákvæði einkamálalaga skv. orðanna hljóðan. Ennfremur telur ráðuneytið að alls ekki sé útséð um, að gjafsóknarhafa muni reynast "ógerlegt" að ná fram úrskurði dómara um greiðslu gjafsóknarkostnaðar." III. Niðurstaða álits míns, dags. 12. júní 1997, var svohljóðandi: "Ágreiningur í máli þessu lýtur að því, hvort gjafsóknarleyfi skuldbindi ríkið til þess að greiða lögmannsþóknun, sem ekki hefur verið ákveðin með dómi vegna þess að gjafsóknarhafa hefur, vegna sérstakra aðstæðna, ekki tekist að ná fram dómi. 1. og 2. mgr. 127. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, hljóða svo: "1. Að því leyti sem hér er ekki mælt á annan veg skuldbindur gjafsókn ríkið til að greiða þann málskostnað sem gjafsóknarhafi hefur sjálfur af máli. Gjafsókn má þó takmarka þannig að hún nái aðeins til tiltekinna þátta málskostnaðar eða geti hæst numið tiltekinni fjárhæð. 2. Ef þóknun umboðsmanns gjafsóknarhafa fyrir flutning máls er ekki undanskilin gjafsókn skal hún ákveðin í dómi. Takist sátt í máli ákveður dómari þóknunina í úrskurði." Í athugasemdum um 127. gr., í frumvarpi því, sem varð að lögum nr. 91/1991, segir: "Í upphafsorðum 1. mgr. 127. gr. kemur fram það megineinkenni gjafsóknar, að hún skuldbindi ríkið til að greiða þann málskostnað, sem gjafsóknarhafi hefur sjálfur af máli, að því leyti sem sú skuldbinding er ekki takmörkuð í gjafsóknarbréfi eða af öðrum fyrirmælum 127. gr. Almenn heimild til að takmarka gjafsókn við veitingu hennar kemur fram í síðari málslið 1. mgr. 127. gr., þar sem segir að binda megi hana við tiltekna þætti málskostnaðar eða tiltekna hámarksfjárhæð. Sambærilegar heimildir til að ákveða takmarkaða gjafsókn koma ekki fram í núgildandi lögum, en með þeim ætti að vera meiri sveigjanleiki til að styrkja aðila fjárhagslega þótt hann verði ekki talinn fullnægja skilyrðum til að fá kostnað sinn greiddan að öllu leyti. Megintakmörkunina á umfangi gjafsóknar vegna annarra ákvæða 127. gr. er að finna í 2. mgr. greinarinnar, sem felur í sér [að] ríkið verði ekki skuldbundið vegna hennar til að greiða þá þóknun, sem málflytjandi gjafsóknarhafa kann að áskilja sér, heldur aðeins þá fjárhæð málflutningslauna sem dómari ákveður handa honum. [...]." (Alþt. 1991-1992, A-deild, bls. 1113-1114.) Samkvæmt framanrituðu felur gjafsóknarleyfi í sér skuldbindingu til greiðslu alls kostnaðar gjafsóknarhafa af málarekstri. Gjafsókn í máli þessu er ekki takmörkuð við tiltekna þætti málskostnaðar eða ákveðna fjárhæð. Er því ljóst, að lögmannsþóknun vegna undirbúnings málsins er þar ekki undanskilin. Ráðuneytið telur hins vegar, með vísan til ummæla í greinargerð, að skylda til greiðslu lögmannsþóknunar verði fyrst virk, þegar dómur eða úrskurður gengur í gjafsóknarmáli. Samkvæmt tilvitnuðum athugasemdum í greinargerð vegna 2. mgr. 127. gr. verður ríkið ekki skuldbundið til að greiða þá þóknun, sem málflytjandi gjafsóknarhafa kann að áskilja sér, heldur aðeins þá fjárhæð, sem dómari ákveður handa honum. Samkvæmt framansögðu kemur hér til úrlausnar, hvort greiðsla þóknunar fyrir lögmannsstörf í máli því, sem kvörtunin lýtur að, verði fortakslaust bundin því skilyrði, að hún hafi verið ákveðin með dómi. Í 2. mgr. 45. gr. barnalaga nr. 20/1992 er svo fyrir mælt, að sóknaraðili faðernismáls skuli hafa gjafsókn í héraði og fyrir Hæstarétti. Rétt er, að um slíka gjafsókn fari í meginatriðum að ákvæðum II. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, eftir því sem við getur átt, en hafa ber í huga, að fyrirmæli 2. mgr. 45. gr. barnalaga eru fortakslaus um það, að veita skuli sóknaraðila faðernismáls gjafsókn. Svo sem fram kemur í greinargerð með 127. gr. frumvarps til laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, er það megineinkenni gjafsóknar, að hún skuldbindur ríkið til að greiða þann málskostnað, sem gjafsóknarhafi hefur sjálfur af máli, að því leyti sem sú skuldbinding er ekki takmörkuð í gjafsóknarbréfi eða af öðrum fyrirmælum 127. gr. Einnig segir í greinargerðinni, að ríkið verði ekki skuldbundið til að greiða þá þóknun, sem málflytjandi gjafsóknarhafa kann að áskilja sér, heldur aðeins þá fjárhæð málflutningslauna, sem dómari ákveði honum. (Alþt. 1991-1992, A-deild, bls. 1113.) Álit mitt er, að ekki standist að skýra ákvæði 2. mgr. 127. gr. laga nr. 91/1991 svo þröngt, að þau banni fortakslaust greiðslu málflutningsþóknunar, þótt mál hafi ekki verið lagt fyrir dóm. A.m.k. tel ég ljóst, að slíkri reglu verði ekki beitt í faðernismálum, þar sem 2. mgr. 45. gr. barnalaga má telja á því viðhorfi byggða, að sóknaraðili faðernismáls eigi ekki að bera kostnað af ráðstöfunum til að ná fram niðurstöðu um faðerni. Hafa ber í huga, að samkvæmt 1. mgr. 45. gr. eldri barnalaga nr. 9/1981 taldist barnsfaðernismál höfðað, þegar dómari hafði veitt viðtöku ósk frá réttum aðilum um, að málið sætti rannsókn og dómsmeðferð. Samkvæmt 3. mgr. sömu greinar skyldi sóknaraðili hafa gjafsókn í héraði og fyrir Hæstarétti. Réttarstaðan var hér sú, að unnt var að fá úrlausn dómara um kostnað sóknaraðila af málarekstri, þar á meðal um lögmannsþóknun, óháð því, hvernig máli lyki. Slík greið leið að því að fá slíka úrlausn dómara liggur ekki í augum uppi, eftir að ákveðið var í núgildandi barnalögum nr. 20/1992, að um höfðun faðernismáls skyldi fara eftir almennum reglum einkamálaréttarfars, sbr. athugasemdir við 45. gr. í frumv. til barnalaga (Alþt. 1991-1992, A-deild, bls. 1176). Ekkert bendir hins vegar til þess, að þessi lagabreyting hafi átt að þrengja kosti sóknaraðila faðernismáls um að fá greidda lögmannsþóknun sem hluta gjafsóknarkostnaðar. Það er því skoðun mín, að hafi réttmætar ástæður leitt til þess, svo sem virðist vera í máli þessu, að fallið hafi verið frá málssókn, áður en faðernismál hefur verið lagt fyrir dóm, geti ríkið ekki hafnað greiðslu lögmannsþóknunar vegna þess að hún hafi ekki verið ákveðin af dómara. Í slíkum tilvikum kæmi það í hlut dóms- og kirkjumálaráðuneytisins að ákveða lögmannsþóknun, en þá ákvörðun mætti síðan bera undir dómstóla í samræmi við almennar reglur. Vegna þess, sem fram kemur í svörum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins um birtingu stefnu í Lögbirtingablaði, er rétt að vekja athygli á ákvæði 90. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, þar sem mælt er fyrir um, að um birtingu stefnu skuli fara eftir reglum þess ríkis, þar sem stefndi, sem hefur óþekkt heimilisfang, er búsettur í. Verður því ekki séð, að unnt hefði verið að birta stefnu í þessu máli með fullnægjandi hætti í Lögbirtingablaði á grundvelli heimildar a-liðar 89. gr. laga nr. 91/1991. Ennfremur er vakin athygli á ákvæði 3. mgr. 46. gr. barnalaga nr. 20/1992, en samkvæmt því gilda ákvæði laga um meðferð einkamála ekki um útivist í slíkum málum sem hér um ræðir. Eru það því tilmæli mín til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, komi fram beiðni um það frá B, að það taki mál hennar til meðferðar á ný og leysi úr því í samræmi við framangreind sjónarmið." IV. Með bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 8. janúar 1998, barst mér afrit af bréfi ráðuneytisins til A, dags. 7. janúar 1998. Í bréfinu segir meðal annars: "Ráðuneytinu hefur borist erindi yðar, dags. 28. júlí 1997, þar sem þér farið þess á leit að ráðuneytið taki á ný til meðferðar mál [B], er varðar gjafsóknarleyfi hennar frá 4. júlí 1994, og leysi úr því til samræmis við þau sjónarmið sem fram koma í áliti umboðsmanns Alþingis [...]. [...] Á grundvelli þessa álits mun dóms- og kirkjumálaráðuneytið því ákvarða hæfilega lögmannsþóknun. Lögmannsþóknun ákveðst kr. 40.000,- að meðtöldum virðisaukaskatti, og greiðist úr ríkissjóði samkvæmt gjafsóknarleyfi dómsmálaráðuneytisins, dags. 4. júlí 1994."