Makaskiptasamningur. Forkaupsréttur ábúanda. Málsmeðferðarreglur.

(Mál nr. 1825/1996)

A, ábúandi jarðarinnar V, kvartaði yfir því að lögbundinn forkaupsréttur hans hefði ekki verið virtur við gerð makaskiptasamnings milli jarðadeildar landbúnaðarráðuneytisins og H um 45,3 ha spildu úr jörðinni V. Umboðsmaður tók fram að ákvæði 2. mgr. 30. gr. jarðalaga nr. 65/1976, með síðari breytingum, yrði að skýra svo, að ábúandi jarðar ætti forkaupsrétt við ráðstöfun sveitarfélags á ábúðarjörð og skipti ekki máli, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna, hvort aðilaskipti yrðu við kaup eða skipti. Þá taldi umboðsmaður, að samkvæmt almennum reglum um forkaupsrétt yrði slíkur forkaupsréttur virkur við sölu á hluta jarðarinnar. Því hefði A átt forkaupsrétt að þeirri spildu sem seld var, enda áttu ákvæði 2. tl. 1. mgr. 35. gr. jarðalaga ekki við í málinu. Þá tók umboðsmaður fram, að sérstök fyrirmæli væru um það í 32. gr. jarðalaga, hvernig bjóða ætti forkaupsrétt samkvæmt 30. gr. laganna. Við makaskipti skyldi seljandi tilgreina skriflega hversu hátt framboðin réttindi væru metin til peningaverðs og gæti forkaupsréttarhafi þá keypt réttindin á því verði eða á matsverði samkvæmt 34. gr. laganna. A var ekki boðinn forkaupsréttur með þeim hætti sem mælt er fyrir um í 32. gr. jarðalaga og var fyrst tilkynnt um makaskiptasamninginn eftir undirritun hans. Þar sem frestur til að höfða dómsmál til ógildingar sölunni samkvæmt 33. gr. jarðalaga var að öllum líkindum liðinn, beindi umboðsmaður þeim tilmælum til landbúnaðarráðuneytisins að beita sér fyrir því að mál A yrði tekið til umfjöllunar að nýju með það í huga að hlutur A yrði réttur.

I. Með erindi, dags. 19. júní 1996, hefur A borið fram kvörtun á hendur H og jarðadeild landbúnaðarráðuneytisins. Telur A, að við makaskiptasamning milli H og jarðadeildar landbúnaðarráðuneytisins frá 5. apríl 1995 hafi ekki verið virtur lögbundinn forkaupsréttur hans sem ábúanda, sbr. 2. mgr. 30. gr. jarðalaga nr. 65/1976, en með samningi þessum seldi H jarðadeildinni 43,5 ha spildu úr ábýlisjörð A, V. II. Forsendur og niðurstöður álits míns, frá 16. maí 1997, eru svohljóðandi: "1. Atvik máls þessa eru þau, að A hefur um áratugi verið ábúandi jarðarinnar V og hefur þar lífstíðarábúð, en sú jörð er í eigu H. Hinn 5. apríl 1995 gerðu landbúnaðarráðherra f.h. jarðadeildar landbúnaðarráðuneytisins og H með sér samning um skipti á landi úr óskiptu landi R annars vegar og spildu úr landi V hins vegar. Fólst það í 1. gr. samningsins, að jarðadeild landbúnaðarráðuneytisins seldi H 78,5 ha spildu úr óskiptu landi R, og samkvæmt 4. gr. samningsins seldi bæjarsjóður H jarðadeildinni 43,5 ha spildu úr jörðinni V. Afhendingartími beggja spildnanna er samkvæmt samningnum eigi síðar en 1. júní 1996. Makaskiptaafsal er dagsett 30. apríl 1996. Í 6. gr. samningsins er tekið fram, að hann sé undanþeginn ákvæðum 6. og 35. gr. jarðalaga nr. 65/1976, með síðari breytingum, um samþykki hreppsnefndar og jarðanefndar ... og um forkaupsrétt. Í 7. gr. samningsins kemur fram, að hann sé af hálfu jarðadeildar landbúnaðarráðuneytisins gerður með fyrirvara um samþykki Alþingis vegna nauðsynlegrar lagaheimildar til sölu umræddrar spildu úr landi R og einnig til að kaupa umrædda 43,5 ha spildu úr landi V, en þá spildu áformi kaupandi hennar að leggja við jörðina Z, þegar lífstíðarábúð A ljúki. 2. Með bréfi til mín, dags. 19. júní 1996, kvartar A yfir áðurgreindum makaskiptasamningi. Telur hann, að við gerð samningsins hafi ákvæði 10., 11. og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verið brotin gagnvart sér. Í bréfi sínu vitnar A fyrst til þess, að með lögum nr. 42/1942 hafi ríkisstjórn Íslands verið veitt heimild til þess að taka eignarnámi jörðina V, en síðan hafi ríkisstjórnin selt landið H með afsali 12. maí 1967. Við þá sölu hafi lögbundinn forkaupsréttur sinn sem ábúanda verið brotinn, en því máli hafi ekki verið fylgt eftir af sinni hálfu vegna ókunnugleika. Þá segir í bréfi A: "... En nú, áratugum seinna, þegar aftur á að vega í sama knérunn og gerður er makaskiptasamningur, sem eru kaup í skilningi samninga- og kröfuréttarins, þá vill undirritaður spyrna við fæti og krefjast forkaupsréttar og nú með vísun til ákvæða 2. mgr. 30. gr. jarðalaganna, enda tekur tilvísun 6. gr. makaskiptasamningsins varðandi 35. gr. jarðalaganna ekki til umrædds lögbýlis, þar sem ríkissjóður er ekki að selja landið heldur [H]. Þar sem umræddur makaskiptasamningur er gerður þann 5. apríl á sl. ári, en ekki kynntur undirrituðum (og þá munnlega) fyrr en 22. júní sama ár, og þá undir mótmælum ábúanda, þykir mér einsýnt að rofinn hafi verið á mér réttur skv. tilvísuðum ákvæðum stjórnsýslulaga.... ... svo og á 30. og 32. gr. jarðalaganna, þar sem viðkomandi hefir aldrei skriflega verið boðinn forkaupsréttur að landspildunni." 3. Með bréfi til H, dags. 28. júlí 1995, kvartaði K, hæstaréttarlögmaður, f.h. A yfir því, hvernig staðið var að gerð umrædds makaskiptasamnings og lagði tilteknar spurningar fyrir forsvarsmenn bæjarins um efni samningsins. Því bréfi svaraði bæjarstjóri H f.h. bæjarstjórnar með bréfi, dags. 30. ágúst 1995. Þar segir meðal annars: "Tekið skal fram að fundur var haldinn með ábúendum jarðanna [Þ] og [V] og forseta bæjarstjórnar og bæjarstjóra [H] hinn 22. júní sl., þar sem ábúendum var gerð grein fyrir þessum makaskiptum. Jafnframt að makaskiptin, sem slík, myndu ekki hafa áhrif á réttindi þeirra og skyldur, sem ábúenda enda standa lög ekki til þess. Skal það ítrekað með bréfi þessu, að ákvæði ábúðarsamninga aðila gilda óbreytt, burtséð frá þessum makaskiptum, og á það að sjálfsögðu einnig við 7. gr. ábúðarsamnings um [V]. Af hálfu [H] og jarðaeignadeildar landbúnaðarráðuneytisins var að öllu leyti staðið eðlilega að þessum makaskiptum, sem gerð voru í kjölfar ábúðarloka eiganda jarðarinnar [Z]. Skýrt var tekið fram af hálfu beggja aðila, að réttindi og skyldur ábúenda jarðanna [V] og [Z] myndu haldast óbreyttar. Öðrum rétthöfum er ekki til að dreifa." Hinn 6. júní 1996 ritaði A H bréf varðandi umræddan makaskiptasamning. Ítrekar hann þar það sjónarmið sitt, að við gerð samningsins hafi ekki verið gætt lögbundins forkaupsréttar síns sem ábúanda, og segir síðan: "Sökum þessara annmarka er þess hér með óskað að [H] rifti makaskiptasamningnum og bjóði mér til kaups umræddan skika úr [V], ella áskil ég mér rétt til að leita álits Umboðsmanns Alþingis skv. 2. gr. laga nr. 13/1987 á málsmeðferð og efni samkomulagsins og/eða málshöfðun fyrir héraðsdómi til ógildingar á samningnum." Bréfi þessu svaraði H með bréfi, dags. 9. júlí 1996. Kemur þar meðal annars fram, að bæjarstjórn H geti ekki fallist á, að meðferð máls varðandi umræddan makaskiptasamning hafi á einhvern hátt brotið í bága við 10., 11. og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Makaskiptasamningi og afsali vegna umræddra makaskipta milli landbúnaðarráðuneytisins og H hafi verið þinglýst og engin efnisleg rök séu fyrir því að rifta umræddum samningi á grundvelli athugasemda A. Með bréfi til félagsmálaráðherra, dags. 20. júní 1996, kvaðst A með skírskotun til 119. gr. laga nr. 8/1986 "kæra makaskiptasamning [H] og jarðadeildar Landbúnaðarráðuneytisins frá 5. apríl 1995 ... Ég ítreka þá kröfu, sem gerð er á hendur seljendum, þ.e.a.s. [H], að makaskiptasamningurinn verði ógiltur og mér boðinn forkaupsréttur að spildu þeirri úr [V], sem samningur tilgreinir". Þessu bréfi svaraði félagsmálaráðuneytið með bréfi, dags. 4. júlí 1996. Þar segir svo: "Vísað er til erindis yðar til félagsmálaráðuneytisins, dags. 20. júní 1996, varðandi makaskiptasamning [H] og jarðadeildar landbúnaðarráðuneytisins frá 5. apríl 1995. Makaskiptasamningurinn varðar m.a. landspildu úr jörðinni [V]. Í gögnum málsins kemur m.a. fram að þér krefjist þess að makaskiptasamningurinn verði felldur úr gildi og yður boðinn forkaupsréttur skv. 2. mgr. 30. gr. jarðalaga nr. 65/1976. Jafnframt teljið þér að [H] hafi brotið 10., 11. og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við meðferð málsins. Fyrra atriðið varðar hugsanlegan forkaupsrétt yðar að jörðinni og þ.a.l. túlkun á jarðalögum nr. 65/1976. Skv. 2. gr. þeirra laga hefur landbúnaðarráðherra yfirstjórn þeirra mála sem lögin taka til og því er það ekki í valdi félagsmálaráðherra að kveða upp úrskurð um hvort brotin hafi verið ákvæði 30. gr. jarðalaga gagnvart yður. Hvað varðar meint brot á stjórnsýslulögum við meðferð málsins hjá [H] skal eftirfarandi tekið fram: Í 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um almennan kærufrest til æðra stjórnvalds og hljóðar ákvæðið svo: "Kæra skal borin fram innan þriggja mánaðar frá því að aðila máls var tilkynnt um stjórnvaldsákvörðun, nema lög mæli á annan veg." Jafnframt segir í 1. mgr. 28. gr. laganna að hafi kæra borist að liðnum kærufresti skuli vísa henni frá, nema annars vegar að afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða hins vegar að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. Síðan segir svo orðrétt í 2. mgr.: "Kæru skal þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila." Erindi yðar er dagsett 20. júní 1996, þ.e. u.þ.b. einu ári eftir að yður var kynnt málið af hálfu [H], sem var samkvæmt gögnum málsins 22. júní 1995. Erindi barst ráðuneytinu um svipað leyti. Erindið barst því að liðnum hinum þriggja mánaða kærufresti sem tilgreindur er í 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga og á mörkum þess að meira en ár sé liðið frá því að ákvörðunin var tilkynnt yður, sbr. 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga. Að auki vill ráðuneytið taka fram að það telur að ekki hafi komið fram svo sérstakar ástæður, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, að þær réttlæti að málið verði tekið til úrskurðar í ráðuneytinu svo löngu eftir lok kærufrests. Með vísan til framangreinds er erindi yðar vísað frá félagsmálaráðuneytinu." Hinn 31. júlí 1996 ritaði A félagsmálaráðuneytinu bréf, og hinn sama dag ritaði hann einnig bréf til H. Er þar um að ræða svar A við framangreindu bréfi félagsmálaráðuneytisins frá 4. júlí 1996 og svar við bréfi H frá 9. júlí 1996. Félagsmálaráðuneytið svaraði fyrrgreindu bréfi A frá 31. júlí 1996 með bréfi, dags. 6. september 1996, og því bréfi svaraði A með bréfi, dags. 14. október 1996. Þykir ekki ástæða til að rekja efni bréfa þessara hér. 4. Hinn 8. júlí 1996 ritaði ég A bréf og vakti athygli hans á ákvæðum 33. gr. jarðalaga nr. 65/1976. Benti ég A á, að kvörtun til umboðsmanns Alþingis ryfi ekki þann frest, sem þar um ræðir. Jafnframt greindi ég honum frá því, að ég tæki, að svo komnu máli, ekki afstöðu til þess, við hvaða tímamark skyldi miða hinn lögmælta frest eða hvort hann væri e.t.v. þegar liðinn. Á grundvelli þess, sem áður greindi um málshöfðunarfrestinn, væri það hans að taka afstöðu til framhalds málsins. Hins vegar hefði ég ákveðið að afla gagna og skýringa um mál hans hjá landbúnaðarráðuneytinu. Í framhaldi af þessu ritaði ég hinn sama dag, þ.e. 8. júlí 1996, landbúnaðarráðherra bréf, þar sem ég óskaði eftir því, að landbúnaðarráðuneytið skýrði viðhorf sitt til þess, hvort A hefði átt forkaupsrétt að umræddri landspildu og hvort gætt hafi verið réttra málsmeðferðarreglna með tilliti til slíks réttar. Með bréfi, dags. 11. september 1996, svaraði landbúnaðarráðuneytið fyrirspurn minni. Þar segir: "Vísað er til bréfs yðar dags. 8. júlí s.l. þar sem óskað er eftir að ráðuneytið skýri viðhorf sitt til þess hvort [A], ábúandi á jörðinni [V] hafi átt forkaupsrétt að landspildu úr jörðinni [V] sem ríkið eignaðist með makaskiptasamningi milli [H] og landbúnaðarráðherra frá 5. apríl 1995, sbr. einnig makaskiptaafsal sömu aðila dags. 30. apríl 1996, og hvort gætt hafi verið réttra málsmeðferðarreglna með tilliti til slíks réttar. Í ofangreindum samningum er vísað til ákvæðis í 6. gr. Jarðalaga nr. 65/1976, með síðari breytingum, varðandi samþykki hreppsnefndar [...] og Jarðanefndar [...]. Í 3. tl. 3. gr. 6. gr. nefndra Jarðalaga kemur fram að ekki þurfi að afla samþykkis skv. 1. mgr. "þegar ríkissjóður eða ríkisstofnanir kaupa eða selja". Þá er jafnframt vísað til 35. gr. laganna varðandi forkaupsrétt [hreppsins], en gert er ráð fyrir því í 2. tl. 1. mgr. 35. gr. að forkaupsréttur skv. jarðalögunum komi ekki til framkvæmda "þegar ríkissjóður ráðstafar fasteignaréttindum". Tilvísun til 35. gr. laganna á þannig við um þá 78,5 ha landspildu sem ríkið lét af hendi í umræddum makaskiptum. Kvörtun [A] varðar ráðstöfun [H] á 43,5 ha landspildu úr jörðinni [V] samkvæmt áðurgreindum samningi. Lögbundinn forkaupsréttur ábúenda samkvæmt 2. mgr. 30. gr. jarðalaga nr. 65/1976, með síðari breytingum, getur orðið virkur að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Um er að ræða forkaupsrétt sem gengur framar rétti sveitarstjórnar, í þeim tilvikum að sá réttur verði virkur, enda er um að ræða undantekningu frá aðalreglu 1. mgr. 30. gr. laganna. Þar sem um er að ræða makaskipti á tveimur landspildum, í því máli sem hér um ræðir, lítur ráðuneytið svo á, að ábúandinn á jörðinni [V] eigi ekki lögvarða kröfu á að neyta forkaupsréttar að landspildu þeirri sem ríkissjóður eignaðist með afsalsgerningnum frá 30. apríl s.l., þegar af þeirri ástæðu að honum er ókleift að inna af hendi það endurgjald sem kveðið er á um í samningum. Af framangreindu leiðir það mat ráðuneytisins að tilvitnaðar málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi ekki verið brotnar. Tekið skal fram að lagaheimild fyrir umræddum makaskiptum er að finna í 6. gr. laga nr. 159 31. desember 1995 (fjárlög fyrir árið 1996), liður 3.50." Með bréfi, dags. 17. september 1996, gaf ég A kost á að gera athugasemdir við framangreint bréf landbúnaðarráðuneytisins, og gerði hann það með bréfi, dags. 16. október 1996. Þar segir meðal annars svo: "Með vísun til bréfs yðar frá 17. f.m. ásamt tilsendu ljósriti af erindi landbúnaðarráðuneytisins frá 17. f.m., [...], varðandi meint lögbrot stjórnvalda gagnvart mér við gerð makaskiptasamnings í millum [H] og landbúnaðarráðherra frá 5. apríl, 1995, skal yður tjáð eftirfarandi: 1. Endurtekin eru þau lagarök, sem tilgreind eru í bréfi mínu til yðar frá 19. júní s.l., varðandi meint lögbrot [H] við gerð makaskiptasamningsins. 2. Ljóst er af orðanna hljóðan, í 3. mgr. bréfs landbúnaðarráðuneytisins, að réttur undirritaðs hefir verið fyrir borð borinn í máli þessu, en þó kastar fyrst tólfunum í niðurlagi málsgreinarinnar, sem segir svo "...lítur ráðuneytið svo á að ábúandinn á jörðinni [V] eigi ekki lögvarða kröfu á að neyta forkaupsréttar að landspildu þeirri sem ríkissjóður eignaðist með afsalsgerningum frá 30. apríl s.l., þegar af þeirri ástæðu að honum er ókleift að inna af hendi það endurgjald sem kveðið er á um í samningum". Aldrei á langri æfi hefi ég heyrt þvílíka lögskýringu, sem jaðrar við að hægt sé að umorða þannig: "ólöglegur samningur helgast af eftirtekjunni." Eða er bréfritara ráðuneytisins ljós ábyrgð orða sinna, m.a. varðandi samanburðarverð nærliggjandi eigna, ef til dómkvatts mats kæmi? 3. Mér eru ljósari nú en áður, aðvörunarorð forseta lýðveldisins, fyrr í þessum mánuði, til löggjafarsamkomunnar um tilhneigingu framkvæmdarvaldsins að seilast í vald umfram heimildir og er áminnst lögskýring skólabókardæmi um eitt slíkt tilvik. Ekki er að efa að embætti yðar hefir fjölmörg önnur tilvik af álíka toga. 4. Allir eiga rétt á leiðréttingu orða sinna og því þætti mér skynsamlegt, sem ólöglærðum bónda, að Umboðsmaður Alþingis hlutaðist til um við bréfritara ráðuneytisins að hann fengi tækifæri til afstöðubreytingar, því mér finnst niðurlægjandi, fyrir hönd viðkomandi, að sjá e.t.v. þessa lögskýringu fyrir dómi." Ljósrit framangreinds bréfs A frá 16. október 1996 sendi ég landbúnaðarráðuneytinu til upplýsingar með bréfi, dags. 4. nóvember 1996. Þá ritaði ég A bréf 10. janúar 1997. Segir þar, að áður en ég ljúki máli því, sem kvörtun hans lúti að, telji ég rétt, að hann upplýsi nánar, með hvaða hætti hann hefði fengið vitneskju um áðurgreindan makaskiptasamning milli landbúnaðarráðherra og H frá 5. apríl 1995. Vitnaði ég til þess í bréfinu, að í bréfi A til mín frá 19. júní 1996 segði, að samningurinn hefði verið kynntur A munnlega 22. júní 1995. Óskaði ég meðal annars eftir upplýsingum A um það, hvenær og með hvaða hætti honum hefði borist vitneskja um, að bæjarstjórn H hefði staðfest samninginn. Fyrirspurn minni svaraði A með bréfi, dags. 22. janúar 1997. Þar segir meðal annars: "Með skírskotun til bréfs yðar frá 10. þ.m. varðandi umkvartanir mínar, gagnvart [bæjarfélaginu H] og ráðuneytum í Reykjavík, skal upplýst að ég undirritaður var kvaddur, með símtali frá bæjarskrifstofunum í [H], til fundar við bæjaryfirvöld þann 22. júní, 1995. Fór sú símkvaðning fram tveimur dögum fyrir fundinn, en á fundinum, var mér - öldungnum - gerð munnleg grein fyrir þegargerðum og undirrituðum Makaskiptasamningi í millum bæjarins og landbúnaðarráðuneytisins. Til fundarins var einnig kvaddur með sama hætti og á sama tíma nágranni minn, [...], sbr. [...] sjálfskýrða, ódagsetta, yfirlýsingu hans. Ítrekað skal að ekki var haft fyrir því að kynna okkur skriflega hina meintu ólöglegu fyrirliggjandi gjörð, heldur töldu bæjaryfirvöld nægja að gera okkur báðum, samtímis, munnlega, grein fyrir efni samningsins." Í ódagsettu bréfi umrædds nágranna A, sem mér barst 27. janúar 1997, segir svo: "Ég undirritaður, get staðfest að ummæli [A] [V] um Makaskiftasamning [bæjarfélagsins H] og Landbúnaðarráðuneytisins var munnlega kynntur okkur á bæjarskrifstofu [H] af [...] 22. júní 1995." Með bréfi, dags. 26. mars 1997, gaf ég bæjarstjórn H kost á að koma að þeim skýringum og upplýsingum, sem hún óskaði. Svar lögmanns H barst mér 12. maí 1997. Þar segir meðal annars svo: "Af hálfu umbj. míns er tekið undir þau sjónarmið sem fram koma í bréfi Landbúnaðarráðuneytisins vegna málsins dags. 11. september 1996 varðandi meintan forkaupsrétt [A]. Þá má geta þess að umbj. minn gerði samninga þá sem til umræðu eru algerlega í samráði og undir handleiðslu Landbúnaðarráðuneytisins." III. Niðurstaða. Ég lít svo á, að kvörtun A í máli þessu sé tvíþætt. Í fyrsta lagi telur hann, að við gerð umrædds makaskiptasamnings frá 5. apríl 1995 milli bæjarfélagsins H og landbúnaðarráðuneytisins hafi lögboðinn forkaupsréttur hans sem ábúanda jarðarinnar V samkvæmt 2. mgr. 30. gr. jarðalaga nr. 65/1976 ekki verið virtur. Í öðru lagi telur hann, að réttra málsmeðferðarreglna með tilliti til slíks réttar hafi ekki verið gætt við undirbúning og framkvæmd samningsgerðar þeirrar, er lyktaði með umræddum makaskiptasamningi. Þess er áður getið, að í 6. gr. makaskiptasamningsins frá 5. apríl 1995 segir, að hann sé undanþeginn ákvæðum 6. og 35. gr. jarðalaga nr. 65/1976, með síðari breytingum, um samþykki hreppsnefndar og jarðanefndar ... og um forkaupsrétt ... Þar sem jarðadeild landbúnaðarráðuneytisins átti aðild að makaskiptasamningnum sem seljandi spildu úr óskiptu landi R og sem kaupandi spildu úr landi V af bæjarfélaginu H þurfti samkvæmt 2. tl. 4. mgr. 6. gr. jarðalaga ekki að afla slíks samþykkis jarðanefndar til umræddra aðilaskipta, sem um ræðir í 1. mgr. 6. gr. jarðalaga. Í IV. kafla jarðalaga nr. 65/1976, með síðari breytingum, er mælt fyrir um forkaupsrétt, þegar aðilaskipti verða að fasteignum og fasteignaréttindum, sem jarðalögin taka til. Í 1. mgr. 30. gr. jarðalaga kemur fram sú meginregla, að eigi að selja fasteignaréttindi, sem lögin taka til, eigi sveitarstjórn þess sveitarfélags, þar sem eignin er, forkaupsrétt, nema um ráðstöfun ættaróðals sé að ræða. Í 2. mgr. 30. gr. segir, að hafi leiguliði setið jörð í 10 ár eða lengur, þá eigi hann forkaupsrétt á undan sveitarstjórn, enda taki hann jörðina til ábúðar og fullra nytja. Ég tel, að skýra beri tilvitnað ákvæði 2. mgr. 30. gr. jarðalaga svo, að sé sveitarfélag eigandi jarðar, sem aðilaskipti verða að, þá eigi ábúandi jarðarinnar, ef honum er til að dreifa, að öðrum skilyrðum fullnægðum, forkaupsrétt við slíka ráðstöfun sveitarfélagsins. Í samræmi við almennar reglur um forkaupsrétt tel ég, að slíkur forkaupsréttur ábúanda verði virkur, þótt einungis sé seldur hluti jarðar og nái rétturinn þá til þess hluta. Með hliðsjón af efni og orðalagi 1. mgr. 6. gr. jarðalaga tel ég engu skipta í þessu sambandi, hvort heldur aðilaskipti verða við kaup eða skipti. Samkvæmt þessu og þar sem A hefur verið ábúandi V frá því bæjarfélagið H eignaðist jörðina árið 1967, átti hann samkvæmt 2. mgr. 30. gr. jarðalaga forkaupsrétt að þeirri 43,5 ha spildu úr landi V, sem bæjarfélagið H seldi jarðadeild landbúnaðarráðuneytisins með umræddum makaskiptasamningi frá 5. apríl 1995, enda eiga hér ekki við ákvæði 2. tl. 1. mgr. 35. gr. jarðalaga. Í 32. gr. jarðalaga eru sérstök fyrirmæli um það, hvernig standa skuli að því að bjóða forkaupsrétt samkvæmt 30. gr. laganna. Skal það gert skriflega, þar sem söluverð og aðrir skilmálar eru tilgreindir á tæmandi hátt. Ef um makaskipti á fasteignaréttindum er að ræða, skal seljandi tilgreina, hversu hátt hann metur hin framboðnu réttindi til peningaverðs, og hefur forkaupsréttarhafi þá rétt til þess að kaupa þau því verði eða á matsverði samkvæmt 34. gr. laganna. Eins og áður er frá greint, var umræddur makaskiptasamningur undirritaður 5. apríl 1995, og samkvæmt gögnum málsins var samningurinn fyrst kynntur A á fundi, sem forseti bæjarstjórnar H og bæjarstjóri efndu til með ábúendum jarðanna Þ og V hinn 22. júní 1995. Er ekki fram komið, að A hafi þá eða síðar verið boðinn forkaupsréttur með þeim hætti, sem mælt er fyrir um í 32. gr. jarðalaga. Samkvæmt framangreindu er það álit mitt, að borið hafi að bjóða A forkaupsrétt að spildu þeirri úr landi V, sem bæjarfélagið H ráðstafaði til jarðadeildar landbúnaðarráðuneytisins með makaskiptasamningnum frá 5. apríl 1995, með þeim hætti, sem lögboðið er í 32. gr. jarðalaga. Þar sem það var ekki gert og með því að frestur til að höfða dómsmál til ógildingar sölunni samkvæmt 33. gr. jarðalaga er væntanlega liðinn, beini ég þeim tilmælum til landbúnaðarráðuneytisins, að það beiti sér fyrir því, að um mál A verði fjallað á nýjan leik með það í huga, að réttur verði hlutur A í samræmi við þau sjónarmið, sem hér hafa verið rakin."