Sala ríkisjarðar. Auglýsing á ríkisjörðum. Andmælaréttur. Aðgangur að gögnum máls. Jafnræðisregla.

(Mál nr. 2058/1997)

A kvartaði yfir sölu ríkisjarðarinnar L sem A og B höfðu haft á leigu um nokkurra ára skeið. Kvartaði A yfir því að gengið hefði verið fram hjá leigutökum, þeir hefðu ekki fengið að tala máli sínu áður en ákvörðun var tekin um ráðstöfun jarðarinnar og að skjöl sem snertu ráðstöfun jarðarinnar hefðu ekki verið afhent þeim. Þá kvartaði A yfir því að jörðin hefði hvorki verið auglýst til sölu né leitað eftir tilboðum í hana. Umboðsmaður féllst á skýringar landbúnaðarráðuneytisins að því er laut að því að jörðin L hefði verið leigð A og B frá ári til árs, og samningur síðan framlengdur um eitt ár. Þá kom fram af hálfu ráðuneytisins að leigutökum hefði verið kunnugt um áform ráðuneytisins að selja jörðina til S, bónda í Y og að A hefði gefist kostur á að tjá sig um sölu jarðarinnar. Féllst umboðsmaður á það sjónarmið ráðuneytisins að A hefði ekki átt rétt á að kaupa jörina og að honum hefði gefist viðhlítandi tækifæri til að tjá sig um sölu hennar. Skjöl þau sem A krafðist afhendingar á voru minnispunktar starfsmanns ráðuneytisins til landbúnaðarráðherra og ráðuneytisstjóra. Umboðsmaður taldi að um væri að ræða vinnuskjöl, sem ekki hefði verið skylt að afhenda samkvæmt 3. tölul. 1. mgr. 16. gr. stjórnsýslulaga og 3. tölul. 4. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996. Um þann þátt í kvörtun A sem laut að því, að sala jarðarinnar hefði ekki verið auglýst tók umboðsmaður fram, að hvorki í jarðalögum nr. 65/1976 né í öðrum lögum væri að finna bein fyrirmæli um að auglýsa skyldi fyrirhugaða sölu ríkisjarða. Umboðsmaður rakti ákvæði laga nr. 52/1987, um opinber innkaup, og reglugerðar nr. 651/1994, um ráðstöfun eigna ríkisins, einkum ákvæði 2. gr., um framkvæmd við sölu fasteigna, flugvéla og skipa. Umboðsmaður tók fram, að lagaákvæði sem gefa almenningi kost á að kaupa eignir ríkisins að undangenginni auglýsingu, væru reistar á sjónarmiðum um hagkvæmni ráðstöfunarinnar og jafnræði borgaranna. Þar sem stjórnvöldum bæri að gæta jafnréttis milli borgaranna, bæri almennt að auglýsa ríkisjarðir, sem ætlunin væri að selja, þannig að þeir sem áhuga hefðu á kaupunum fengju sama tækifæri til að gera kauptilboð í fasteignina. Vísaði umboðsmaður til álita sinna í SUA 1996:206, SUA 1989:52 og SUA 1994:346. Umboðsmaður tók fram, að aflað hefði verið lagaheimildar til sölu jarðarinnar L gagngert í því skyni að selja hana eiganda jarðarinnar Y, og lágu þar að baki sjónarmið um nýtingu jarðarinnar og sameiningu jarðanna í eina jörð. Taldi umboðsmaður að sjónarmið landbúnaðarráðuneytisins hefðu verið lögmætur grundvöllur fyrir sölu jarðarinnar. Hin rúma heimild sem veitt var til sölu jarðarinnar með ákvæði í fjárlögum fyrir árið 1996, gat hins vegar ekki breytt þeirri skyldu sem almennt hvílir á stjórnvöldum að gæta jafnræðis við ráðstöfun eigna ríkisins. Niðurstaða umboðsmanns var, að réttara hefði verið að auglýsa fyrirfram sölu jarðarinnar L, en að sá annmarki haggaði þó ekki gildi ráðstöfunarinnar.

I. Hinn 17. mars 1996 leitaði til mín A og kvartaði yfir sölu jarðarinnar L. Telur A, að jörðin hafi hvorki verið auglýst til sölu né hafi verið leitað eftir tilboðum í hana. Gengið hafi verið framhjá leigutökum að jörðinni þrátt fyrir óskir þeirra um að fá hana keypta og þeir ekki fengið að tala máli sínu, áður en tekin var ákvörðun um ráðstöfun jarðarinnar. Þá hafi hann ekki fengið afhent þau skjöl, sem snertu ráðstöfun jarðarinnar. II. Með skriflegum leigusamningi, dags. 22. apríl 1992, leigði landbúnaðarráðuneytið A og B jörðina L. Samkvæmt samningnum skyldi jörðin leigð í eitt ár frá fardögum 1992 að telja og leigan framlengjast ár frá ári, nema annar hvor eða báðir aðilar segðu upp leigunni. Í kvörtun sinni lýsir A því, að við samningsgerðina hafi verið gert ráð fyrir því, að leigusamningurinn yrði ekki til skemmri tíma en 25 ára og hafi þinglýsingargjald og stimpilgjöld verið greidd í samræmi við það. Landbúnaðarráðuneytið sagði leigusamningnum upp með símskeyti 21. desember 1994. A mótmælti uppsögninni með bréfi, dags. 30. desember 1994. Með bréfi, dags. 15. mars 1995, fóru A og B fram á að fá jörðina keypta, þar sem fram hefðu komið upplýsingar um, að eigandi nærliggjandi jarða, S, hefði óskað eftir því að fá hana keypta. Í kvörtun sinni rekur A síðan samskipti sín við starfsmenn ráðuneytisins um málefni jarðarinnar og tilraunir sínar til þess að fá leiðréttingu mála sinna. Með bréfi landbúnaðarráðuneytisins 26. september 1996 tilkynnti ráðuneytið B, að það hefði selt S jörðina L. Tók ráðuneytið fram, að í afsali til S 24. september 1996 væri meðal annars kveðið á um afnot B af íbúðarhúsinu á jörðinni. Í bréfi til A, dags. 27. september 1996, en þar tilkynnir landbúnaðarráðuneytið A um sölu jarðarinnar, segir: "Ráðuneytið tilkynnir yður hér með að nýtt hefur verið heimildarákvæði í lögum nr. 159 31. desember 1995 (fjárlögum, liður [...]) til sölu á jörðinni [L] og var jörðinni afsalað til [S] hinn 24. september s.l., en beiðni [S] um kaup á jörðinni til samnýtingar og sameiningar jörðinni [Y] barst ráðuneytinu 15. desember 1994. Hefur afsalið að geyma ákvæði um skyldu kaupanda til að sameina umræddar jarðir. Jafnframt hefur kaupandi jarðarinnar skuldbundið sig til að heimila [B] áframhaldandi afnot af íbúðarhúsi á jörðinni til endurbóta. Þá hefur kaupandi ennfremur skuldbundið sig til að leigja með nefndu íbúðarhúsi allt að 3.000 m2 lóð og heimila eðlilega umferð um land jarðarinnar. Með nefndri kvöð til handa [B] er ráðuneytið að efna fyrirheit í bréfi til hans dags. 25. mars 1994. Hefur ráðuneytið tilkynnt [B] ákvörðun sína um sölu jarðarinnar og framangreinda kvöð varðandi íbúðarhúsið." Með bréfi, dags. 1. október 1996, andmælti A sölu jarðarinnar L. Vísaði A til þess, að erindi hans og B frá 10. maí 1996 hefði ekki verið svarað. Með símskeyti 2. október 1996 ítrekuðu A og B andmæli sín. Í bréfi, er A ritaði landbúnaðarráðuneytinu 17. október 1996, vísaði hann til fundar, sem hann hafði átt með landbúnaðarráðherra 9. október 1996, og lagði áherslu á, að bréf sitt frá 1. október 1996 bæri að skilja sem ósk um endurupptöku málsins. Þá ítrekaði A fyrri óskir sínar "um afhendingu afrits af öllum fyrirliggjandi gögnum málsins, sbr. 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993". Sérstaklega óskaði A eftir rökstuðningi ráðuneytisins fyrir ráðstöfun jarðarinnar til S. Í svarbréfi landbúnaðarráðuneytisins 5. nóvember 1996 vísar ráðuneytið því á bug, að það hafi ekki gætt jafnræðis með íbúum hreppsins. Síðan segir í bréfi ráðuneytisins: "Það er skoðun ráðuneytisins að ráðstöfun jarðarinnar til [S], [...] og kvöð seljanda um leigu á hluta af jörðinni til [B], [...], sé fyllilega í samræmi við lögmæltan tilgang Jarðalaga nr. 65/1976. Jörðin [L] var með samningi útg. 29. apríl 1992 leigð yður og [B] til slægna og beitar frá ári til árs. Upphafstími leigunnar var í fardögum 1992. Með símskeyti hinn 21. desember 1994 sagði ráðuneytið upp leiguafnotum af jörðinni miðað við fardaga ársins 1995, en heimilaði síðan áframhaldandi afnot af jörðinni um eitt fardagaár, eða til síðustu fardaga. Í nefndum leigusamningi sem gilti um jörðina var sérstaklega lagt bann við framsali leiguréttarins, sbr. lið 6, og því er ekki hægt að líta á það sem hlutverk eða verkefni leigutaka jarðarinnar að ráðstafa nytjum til annarra. Með vísan til þess er ljóst að fullyrðing yðar um brot á jafnræði með sölu jarðarinnar á ekki við í málinu. Þá fær ekki staðist sú fullyrðing yðar sem fram kemur í símskeyti til kaupanda jarðarinnar að fyrrum leigutakar hafi öðlast "ótímabundinn leiguafnot af jörðinni á árinu 1995". Ráðuneytið vísar öllum slíkum sjónarmiðum á bug sem röngum. Með vísan til þess sem að framan greinir hafnar ráðuneytið hér með beiðni yðar um endurupptöku og afturköllun málsins." Með bréfi ráðuneytisins fylgdu ódagsett bréf S frá því í desember 1994, þar sem fram koma óskir S um að fá keypta jörðina L, og afsal, dags. 24. september 1996, þar sem S er seld jörðin. III. 1. Í bréfi, er ég ritaði landbúnaðarráðherra 26. mars 1997, óskaði ég eftir því, að landbúnaðarráðuneytið skýrði viðhorf sitt til kvörtunar A og léti mér í té gögn málsins. Sérstaklega mæltist ég til þess, að fram kæmi í skýringum ráðuneytisins, hver hefðu verið afskipti þess af undirbúningi og sölu jarðarinnar L, þ. á m. hvort jörðin hefði verið auglýst almenningi til sölu eða verið leitað eftir tilboðum í hana. Jafnframt upplýsti ég í bréfi mínu, að ég hefði einnig ritað fjármálaráðherra bréf vegna málsins. Mér bárust skýringar landbúnaðarráðuneytisins með bréfi, dags. 10. apríl 1997. Í þeim sagði meðal annars: "Ráðuneytið fór með málefni jarðarinnar [L] í [X-hreppi] í samræmi við 9. tl. 9. gr. auglýsingar nr. 96/1969 um staðfestingu forseta Íslands á reglugerð um Stjórnarráð Íslands, sbr. einnig 36. gr. jarðalaga nr. 65/1976, með síðari breytingum. Jörðin, sem verið hefur í eyði um margra áratuga skeið, var með samningi útgefnum í ráðuneytinu 29. apríl 1992 leigð þeim [B ...], og [A ...] til nytja frá ári til árs. Leiga jarðarinnar til greindra leigutaka var samþykkt samkvæmt 1. mgr. 6. gr. jarðalaga nr. 65/1976, bæði af hreppsnefnd [X] og Jarðanefnd [viðkomandi sýslu]. Upphaf leigutíma skv. nefndum samningi var í fardögum 1992 og var jörðin eins og áður er fram komið, leigð frá ári til árs og báðum samningsaðilum heimilt að segja upp leigunni fyrir hver jól, miðað við næstu fardaga. Samkvæmt lið 8. 3. í leigusamningnum var hluta jarðarinnar, eða ca. 40 ha landspildu, ráðstafað til nágrannabóndans, [M] með heimild til ræktunar. Þegar jörðin var seld hafði ekki verið gengið frá skriflegum leigusamingi um afnot [M] af umræddri landspildu og skýrir það kvöð um afnot [M] af landinu í afsali fyrir jörðinni. Afmörkun spildunnar liggur fyrir á uppdrætti. [L] er hluti af [Y-torfunni] svonefndu sem skipt var fyrir mörgum árum. Úrskipt land jarðarinnar mun vera um 160 ha og er það að hluta til friðað samkvæmt auglýsingu [...]. Stærð ræktunar á jörðinni er í fasteignamati skráð 16,7 ha, en óverulegan hluta er nú hægt að nýta til slægna, þar sem henni hefur ekki verið viðhaldið sem skyldi. Nýtanlegur húsakostur á jörðinni er enginn. Ljóst er að [L] verður vegna legu sinnar og aðstæðna ekki nýtt til sjálfstæðrar atvinnustarfsemi á sviði landbúnaðar, en verður auðveldlega nýtt frá [Y-bæ]. Með bréfi sem barst ráðuneytinu hinn 15. desember 1994 óskaði [S] bóndi í [Y-bæ], eftir kaupum á jörðinni [L]. Með símskeyti dags. 21. desember 1994 sagði ráðuneytið upp leigusamningi þeim sem í gildi var um jörðina og átti uppsögnin að taka gildi í fardögum 1995, sbr. nánar lið 1 í leigusamningnum. Uppsögn ráðuneytisins var mótmælt í símbréfi frá [A ...], dags. 30. desember 1994, sbr. einnig bréf, dags. 15. mars 1995, einkum með vísan til þess að leigutakar hefðu "staðið við sinn hluta leigusamningsins", sem að sjálfsögðu gat ekki átt við þar sem uppsögn ráðuneytisins byggði ekki á vanefndum leigutaka. Þá hefur áskilnaður leigutaka um forleigu- eða forkaupsrétt ekki þýðingu og styðst hvorki við lög eða samninga. Þegar fyrir lá að sala jarðarinnar myndi dragast heimilaði ráðuneytið leigutökum áframhaldandi nýtingu jarðarinnar um eitt fardagaár eða til loka fardagaársins 1996 og verður ekki fallist á að slík heimild kallaði á endurtekna uppsögn leigumálans. Við sölu jarðarinnar var ekki, að mati ráðuneytisins, í gildi leigusamningur um jörðina, ef frá er talin heimild ráðuneytisins til [nágrannabóndans]. Nauðsynlegt er að leiðrétta nokkur atriði og fullyrðingar sem fram koma í rökstuðningi fyrir kvörtuninni: 1. Látið er að því liggja að leigusamningur um jörðina [L] hafi verið ótímabundinn. Slík fullyrðing fær ekki staðist og nægir í því efni að vísa til samningsins sjálfs, þar sem fram kemur að jörðin er leigð frá ári til árs, eins og áður er fram komið. Þá er því beinlínis ranglega haldið fram að ráðuneytið hafi sjálft gert ráð fyrir 25 ára leigutíma, enda er óheimilt að leigja eyðijarðir til svo langs tíma samkvæmt 2. mgr. 37. gr. laga nr. [65/1976], með síðari breytingum. 2. Kvörtunin ber með sér og staðfestir að leigutökum var kunnugt um það áform ráðuneytisins að selja jörðina til [S], bónda í [Y-bæ]. Með þá vitneskju fær [A] eftir samtal við ráðuneytið hinn 9. maí 1996, tækifæri til að tjá sig um áformaða sölu jarðarinnar. 3. Til fróðleiks er nauðsynlegt að fram komi, og að gefnu tilefni, að sala ráðuneytisins til [S] á [Y] var byggð á kaupréttarákvæði 38. gr. jarðalaga nr. 65/1976, með síðari breytingum. Vandséð er hvernig sala ráðuneytisins á nefndri jörð getur skipt máli í þessu sambandi. 4. Ráðuneytið gaf engar yfirlýsingar um aðild leigutaka að jörðinni [L], eftir hugsanlega sölu jarðarinnar, umfram það sem fram kemur í bréfi til [B], dags. 25. mars 1994, enda var talið réttlætanlegt að tryggja honum sem leigutaka áframhaldandi möguleika á nýtingu íbúðarhússins á jörðinni, eins og farið var fram á, en árétta verður að [B] stóð einn að þeim óskum sem svarað var með nefndu bréfi ráðuneytisins frá 25. mars 1994. 5. Bréf ráðuneytisins frá 5. nóvember 1996 hefur að geyma upplýsingar og skýringar til [A], ásamt því að hafnað er beiðni um endurupptöku málsins. Ráðuneytið leyfir sér að vísa á bug öllum fullyrðingum og rangfærslum í nefndu bréfi. Þá fylgdu engin rök fullyrðingum lögmannsins um rangfærslur ráðuneytisins. 6. Ráðuneytinu bar ekki skylda til þess lögum samkvæmt að "gefa leigutökum kost á að fá jörðina keypta ..." og ekki er á neinn hátt fram hjá þeim gengið. Ljóst er að forkaupsrétti fyrrv. leigutaka er ekki til að dreifa í þessu sambandi, enda verður forkaupsréttur, eins og kunnugt er, að byggjast á lögum eða samningi. Slíku er ekki til að dreifa og hafnar ráðuneytið því algerlega að forkaupsréttur verði byggður á "eðli máls". 7. Vegna fullyrðinga um að ekki hafi verið gætt andmælaréttar í samræmi við 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 vísar ráðuneytið til tölul. 2 hér að framan. 8. Með bréfi ráðuneytisins dags. 5. nóvember 1996 voru [A] send gögn málsins, þ.e. afsal fyrir jörðinni [L] og beiðni [S ...], um kaup á jörðinni. Önnur gögn málsins hafa ekki verið afhent og vísar ráðuneytið í því sambandi til 3. tl. 1. mgr. 16. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 3. tölul. 4. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996. Þau gögn sem ekki hafa verið afhent eru m.a. samantekt vegna málsins til afnota í ráðuneytinu, svo og önnur vinnugögn sem engin skylda ber að afhenda í þessu sambandi og er til þess ætlast að farið sé með þau sem trúnaðarmál. 9. Vegna upplýsinga fyrrv. leigutaka um að leitast hafi verið við að samræma nýtingu jarðarinnar og uppbyggingu í "anda jarðalaganna" með ráðstöfun á nýtingu til bóndans í [...], til heyskapar, verður að benda á að margnefndur leigusamningur heimilaði ekki framleigu jarðarinnar. Stefna ráðuneytisins er að leigja beint og milliliðalaust eignir til þeirra aðila sem þær vilja nýta. Við samningsgerðina lágu fyrir óskir [M] og ráðstafaði ráðuneytið þeim nytjum sjálft, þótt ekki hafi verið formlega frá þeim gengið þegar jörðin var seld. Þannig var það ekki hlutverk fyrrv. leigutaka að framleigja jörðina, eins og þó virðist hafa verið gert. - - - Jörðin [L] var seld [S ...], með afsali dags. 24. september 1996. Kaupverð jarðarinnar var samkomulag kaupanda og seljanda. Undirbúningur og ákvörðun um sölu jarðarinnar var alfarið í höndum ráðuneytisins og var jörðin ekki auglýst eða tilboða leitað í eignina með öðrum hætti. Lagaheimildar til sölunnar var aflað gagngert í því skyni að selja jörðina til eiganda [Y] til að sameina lögbýlin, eins og vikið er að í bókunum hreppsnefndar og jarðanefndar sem hér fylgja í ljósriti. Sú leið að fá nauðsynlega lagaheimild í 6. gr. fjárlaga er nokkuð algeng, þótt um sé að ræða jarðir á forræði ráðuneytisins. Ráðuneytið lítur svo á að ekki hafi verið skylt að lögum að auglýsa jörðina [L]. Það er ennfremur skoðun ráðuneytisins að reglugerð nr. 651/1994 um ráðstöfun eigna ríkisins eigi ekki við í þessu sambandi. Bent er á að sú reglugerð er sett með stoð í lögum nr. 52/1987 um opinber innkaup, en í 5. gr. þeirra laga er innkaupastofnun ríkisins (Ríkiskaupum) falið að ráðstafa eignum ríkisins, sem ekki er lengur þörf fyrir. Ráðuneytið telur að ákvæði þetta geti ekki átt við um jarðir á forræði jarðadeildar ráðuneytisins, enda er ekkert í lögunum sjálfum sem bendir til að þeim sé ætlað að ná yfir ráðstöfun jarðeigna. Sama á við um reglugerðina." 2. Í bréfi, er ég ritaði fjármálaráðherra 26. mars 1997, óskaði ég eftir því, sbr. 7. og 9. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis, að fjármálaráðuneytið skýrði viðhorf sitt til kvörtunar A og léti mér í té gögn málsins. Sérstaklega óskaði ég eftir því, að fram kæmi í skýringum ráðuneytisins, hvort jörðin L hefði verið auglýst til sölu eða hvort leitað hefði verið eftir tilboðum í hana, sbr. 5. gr. laga nr. 52/1987, um opinber innkaup, og 2. gr. reglugerðar nr. 651/1994, um ráðstöfun eigna ríkisins, og ef svo væri ekki, hverjar hefðu verið ástæður þess. Skýringar fjármálaráðuneytisins bárust mér með bréfi ráðuneytisins, dags. 3. apríl 1997. Þar sagði meðal annars: "Til svars erindinu tekur ráðuneytið fram að landbúnaðarráðuneytið sá um sölu jarðarinnar. Ekki er vitað hvort jörðin var auglýst til sölu eða um ástæður, hafi slíkt ekki verið gert. Hjálagt sendist ljósrit afsals 24. september 1996, en fleiri gögn eru ekki til í ráðuneytinu um málið. Áritun ráðuneytisins á skjalið var talin nauðsynleg fyrir kaupanda/afsalshafa, t.d. vegna þinglýsingar, þar sem salan er þar sögð fara fram samkvæmt tiltekinni heimild fjármálaráðherra í fjárlögum 1996 og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs sagður m.a. seljandi/afsalsgjafi." 3. Með bréfi, dags. 16. apríl 1997, gaf ég A kost á senda mér þær athugasemdir, sem hann teldi ástæðu til vegna skýringa landbúnaðarráðuneytisins frá 10. apríl 1997 og skýringa fjármálaráðuneytisins frá 3. apríl 1997. Athugasemdir A bárust mér með bréfi hans, dags. 22. apríl 1997. IV. Niðurstaða álits míns, dags. 30. júlí 1997, var svofelld: "Kvörtun A lýtur að þeirri ákvörðun landbúnaðarráðuneytisins, að selja S jörðina L. Hafi jörðin hvorki verið auglýst til sölu né hafi verið leitað eftir tilboðum í hana. Honum hafi ekki verið gefinn kostur á að kaupa jörðina og ekki hafi verið tekin afstaða til óska hans um kaup hennar. Loks lýtur kvörtun A að því, að hann hafi ekki fengið afhent þau skjöl, sem snertu ráðstöfun jarðarinnar. Ég get fallist á þær skýringar landbúnaðarráðuneytisins, sem áður hafa verið raktar, að A hafi ekki átt rétt til að kaupa jörðina L og að honum hafi gefist viðhlítandi tækifæri til þess að tjá sig um áformaða sölu jarðarinnar til S. Að því er snertir þann lið kvörtunar A, er snýr að afhendingu skjala um ráðstöfun L, er um að ræða minnispunkta starfsmanns ráðuneytisins, dags. 29. maí 1996, til landbúnaðarráðherra og ráðuneytisstjóra, sem geyma samantekt starfsmannsins um staðreyndir og útskýringar á þeim vegna fyrirhugaðrar sölu jarðarinnar. Ég hef kynnt mér efni nefndra minnispunkta og er það niðurstaða mín, að um sé að ræða vinnuskjal, sem landbúnaðarráðuneytinu hafi ekki verið skylt að afhenda, sbr. 3. tölul. 1. mgr. 16. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 3. tölul. 4. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996. Samkvæmt framansögðu gefa framangreind atriði í kvörtun A ekki tilefni til frekari athugunar af minni hálfu, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Ég hef á hinn bóginn ákveðið að taka til nánari athugunar þann þátt kvörtunar A, er lýtur að því, hvort auglýsa hafi átt fyrirfram sölu jarðarinnar L, og þá ákvörðun landbúnaðarráðuneytisins, að selja S nefnda jörð. Samkvæmt 9. tölul. 9. gr. reglugerðar um Stjórnarráð Íslands, sbr. auglýsingu nr. 96/1969, fer landbúnaðarráðuneytið með mál, er snerta ríkisjarðir. Í 36. gr. jarðalaga nr. 65/1976 segir síðan, að jarðadeild landbúnaðarráðuneytisins fari með málefni jarða í ríkiseign, nema annað sé ákveðið í lögum. Í lið [...] í 6. gr. fjárlaga nr. 159/1995, fyrir árið 1996, var fjármálaráðherra veitt heimild til þess "að selja jörðina [L] í [X-hreppi]". Í ákvæðinu eða þeim athugasemdum, er fylgdu frumvarpi því, sem varð að fjárlögum nr. 159/1995, er ekki vikið sérstaklega að tilgangi sölunnar eða að ætlunin hafi verið að selja jörðina ákveðnum aðila. Í afsali í tilefni af sölu L er tekið fram, að það séu "fjármálaráðherra f.h. Ríkissjóðs Íslands og landbúnaðarráðherra f.h. Jarðadeildar", sem afsali S jörðinni L. Í afsalinu segir ennfremur, að sala jarðarinnar sé "... undanþegin ákvæðum 1. mgr. 6. gr. Jarðalaga nr. 65/1976 um samþykki hreppsnefndar... og Jarðanefndar landbúnaðarráðuneytisins ... svo og ákvæðum 1. mgr. 35. gr. sömu laga um forkaupsrétt sveitarstjórnar". Er afsalið undirritað í fjármálaráðuneytinu og landbúnaðarráðuneytinu 24. september 1996. Í skýringum landbúnaðarráðuneytisins í III. kafla 1 hér að framan er það rakið, að ástæður uppsagnar leigusamnings þess, sem A og B gerðu við ráðuneytið 22. apríl 1992 um leigu L, hafi verið áform ráðuneytisins um að selja S jörðina. Hvorki í jarðalögum nr. 65/1976 né í öðrum lögum er að finna bein fyrirmæli um, að auglýsa skuli fyrirhugaða sölu ríkisjarða. Í lokamálslið 5. gr. laga nr 52/1987, um opinber innkaup, er gert ráð fyrir þeirri meginstefnu, að Innkaupastofnun ríkisins ráðstafi eignum ríkisins, sem ekki er lengur þörf fyrir. Í skýringum við ákvæðið í frumvarpi því, sem varð að lögum nr. 52/1987, kemur fram, að ákvæðið sé nýmæli, en að í reynd hafi það verið Innkaupastofnun ríkisins, sem hafi "... séð um sölu ýmissa eigna ríkisins, svo sem bíla, fasteigna o.s.frv." (Alþt. 1986, A-deild, bls. 944). Á grundvelli nefnds lagaákvæðis hefur fjármálaráðherra sett reglugerð nr. 651/1994, um ráðstöfun eigna ríkisins. Samkvæmt 1. gr. reglugerðarinnar er það "innkaupastofnun ríkisins (Ríkiskaup) [sem] annast sölu á eignum ríkisins, sem ekki er lengur þörf fyrir". Um sölu fasteigna, flugvéla og skipa í eigu ríkisins segir í 2. gr. reglugerðarinnar: "Sala fasteigna, flugvéla og skipa í eigu ríkisins fari þannig fram: Ríkiskaup óski tilboða í það sem selja á með opinberri auglýsingu. Í auglýsingunni skal taka fram hvar nánari upplýsingar eru veittar, skilafrest tilboðs ásamt öðrum þeim atriðum er söluna varðar. Lágmarksverð skal ákveðið að höfðu samráði við fjármálaráðuneyti. Ríkiskaup meti tilboð sem berast og geri tillögu til fjármálaráðuneytisins sem ákvarðar hvaða tilboði sé tekið. Tilboðsgjafar eiga rétt á að fá upplýsingar um hvaða tilboði er tekið." Í 6. gr. framangreindrar reglugerðar er síðan mælt fyrir um almenna heimild fjármálaráðherra til þess, að víkja frá fyrirmælum reglugerðarinnar, "liggi gildar ástæður til". Samkvæmt 2. mgr. 9. gr. laga nr. 27/1968, um íbúðarhús í eigu ríkisins, sbr. 3. gr. laga nr. 134/1996, er gert ráð fyrir því, að sala fasteigna í eigu ríkisins fari eftir ákvæðum laga nr. 52/1987, um opinber innkaup, og reglum settum samkvæmt þeim. Í bráðabirgðaákvæði í lögum nr. 27/1968, sbr. 4. gr. laga nr. 134/1996, er síðan mælt fyrir um heimild til handa fjármálaráðherra, að uppfylltum nánar tilgreindum skilyrðum, að selja ríkisstarfsmönnum húsnæði, sem þeir hafa haft á leigu með sérstökum kjörum. Lagaákvæði, sem gefa almenningi kost á að kaupa eignir ríkisins að undangenginni auglýsingu, eru almennt reist á sjónarmiðum um, að tryggja beri hagkvæmni ráðstöfunar og jafnræði þeirra, sem hug hafa á kaupum. Gera verður ráð fyrir því, að ríkisjarðir geti verið eftirsóknarverðar til kaups. Þar sem stjórnvöldum er skylt að gæta jafnréttis milli borgaranna, ber almennt að auglýsa ríkisjarðir, sem ætlunin er að selja, þannig að þeir, sem áhuga hafa, fái sama tækifæri til að gera kauptilboð í hlutaðeigandi fasteign. Hef ég áður lýst sambærilegum sjónarmiðum í áliti mínu 4. janúar 1996 (mál nr. 993/1994, sbr. SUA 1996:206), að því er snertir auglýsingu ríkisjarða, sem lausar eru til ábúðar eða ætlunin er að leigja, og ennfremur í álitum mínum frá 19. desember 1989 (mál nr. 166/1989, sbr. SUA 1989:52) og frá 23. ágúst 1994 (mál nr. 955/1993, sbr. SUA 1994:346). Í skýringum landbúnaðarráðuneytisins frá 10. apríl 1997 er gæðum L lýst og rakinn leigusamningur ráðuneytisins við A og B frá 29. apríl 1992. Er tekið fram, að nýtanlegur húsakostur á jörðinni sé enginn og að ljóst sé, að jörðin verði vegna legu sinnar og aðstæðna ekki nýtt til sjálfstæðrar atvinnustarfsemi á sviði landbúnaðar, en verði auðveldlega nýtt frá jörð S, Y-bæ. Þá eru rakin samskipti ráðuneytisins og A í tilefni af uppsögn leigusamningsins 21. desember 1994 og vísað meðal annars til bréfs S frá 15. mars 1995, en þar fór S fram á að fá jörðina keypta. Samkvæmt skýringum landbúnaðarráðuneytisins var aflað lagaheimildar til sölu jarðarinnar "gagngert í því skyni að selja jörðina til eiganda [Y-bæjar]". Fyrir þeirri ákvörðun hefur landbúnaðarráðuneytið vísað til framangreindra sjónarmiða um nýtingu L og um sameiningu jarðarinnar við jarðir S, sem áður hafi verið ein jörð. Það er skoðun mín, að þau sjónarmið, sem þannig hafa verið færð fram af hálfu landbúnaðarráðuneytisins, hafi verið lögmætur grundvöllur fyrir sölu jarðarinnar til S. Hin rúma heimild, sem veitt var til sölu jarðarinnar L á grundvelli 6. gr. fjárlaga nr. 159/1995, fyrir árið 1996, gat á hinn bóginn ekki breytt þeirri skyldu, sem almennt hvílir á stjórnvöldum, að gæta jafnræðis við ráðstöfun eigna ríkisins. Tel ég, að réttara hefði verið að auglýsa fyrirfram sölu jarðarinnar L, en sá annmarki haggar að mínum dómi ekki við gildi ráðstöfunar jarðarinnar til S. V. Samkvæmt framansögðu er niðurstaða mín sú, að ekki hafi komið fram, að sú ákvörðun landbúnaðarráðuneytisins, að selja S jörðina L, hafi verið reist á ólögmætum sjónarmiðum. Á hinn bóginn hefði verið réttara að auglýsa jörðina til sölu."