Lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins. Viðmiðun við útreikning lífeyris. Starfssvið umboðsmanns Alþingis.

(Mál nr. 1897/1996)

A kvartaði yfir þeirri ákvörðun fjármálaráðuneytisins að skipta launum hans og síðar eftirmanns hans í starfi forstjóra ríkisstofnunar í "mánaðarlaun" og "fasta" eða "ómælda yfirvinnu". A taldi þetta skerða lífeyrisréttindi sín, því lífeyrisgreiðslur hans samkvæmt svokallaðri eftirmannsreglu tækju aðeins mið af mánaðarlaunum eftirmanns hans. A krafðist þess að lífeyrisgreiðslur til hans miðuðust við heildarlaun eftirmanns hans og benti á, að á þeim tíma er hann greiddi iðgjöld í Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins hefði launum hans ekki verið skipt með þessum hætti og hefði hann því greitt iðgjald af heildarlaunum sínum. Í álitinu rakti umboðsmaður reglur um viðmiðun við útreikning lífeyris og þær breytingar sem á þeim hefðu orðið, síðast með lögum nr. 141/1996. Hann vísaði til þess, að eftir gildistöku laga nr. 141/1996 ættu sjóðfélagar, sem hafið höfðu töku lífeyris fyrir gildistöku þeirra, val um hvort þeir tækju lífeyri samkvæmt óbreyttri eftirmannsreglu eða eftir nýrri meðaltalsreglu. Með því að kvörtun A sneri að ákvörðun þeirrar viðmiðunar, sem báðir þessir kostir byggjast á, taldi umboðsmaður að A ætti lögvarða hagsmuni af því að leyst yrði úr þessum hluta málsins. Eftirmaður A tók í fyrstu laun samkvæmt samningi Stéttarfélags verkfræðinga, síðar samkvæmt ákvörðun ráðherra og frá gildistöku laga nr. 120/1992 hefur kjaranefnd ákvarðað laun hans og önnur starfskjör. Umboðsmaður rakti ákvæði laga nr. 120/1992 um ákvörðun launa og upplýsingar í lögskýringargögnum um markmið þeirra, þar sem fram kom m.a. að Kjaradómur og kjaranefnd skyldu skipta heildarlaunum í laun fyrir dagvinnu og önnur laun til þess að ekki myndaðist misræmi milli lífeyrisréttinda þeirra, sem falla undir valdsvið Kjaradóms og kjaranefndar annars vegar og annarra starfsmanna hins vegar. Umboðsmaður benti á að þau lífeyrisréttindi, sem um ræddi, hefðu þá sérstöðu, þrátt fyrir að vera bæði endurgjald fyrir vinnu og tilkomin vegna framlaga sjóðfélaga, að viðmiðun lífeyrisins hefði verið lögbundin. Að lögum væri á hinn bóginn ekki samhengi á milli iðgjaldagreiðslna til sjóðsins annars vegar og þeirra skuldbindinga sem honum væri ætlað að standa undir hins vegar. Fyrirkomulag og heiti launa, sem eftirmanni A hefðu verið greidd til viðbótar svonefndum föstum launum fyrir dagvinnu, hefði verið mismunandi. Í reglum, sem kjaranefnd hefði sett og í launaákvörðunum hennar fyrir eftirmann A, væru mánaðarlegar greiðslur fyrir alla yfirvinnu og álag, sem starfinu fylgdu, felldar saman í eina greiðslu. Það væri því ekki ljóst hvort einhver hluti væri greiddur fyrir hvort þessara tilefna um sig, né hversu stór hluti álagsgreiðslunnar félli undir föst kjör fyrir dagvinnu. Sá hluti greiðslunnar, sem tilheyrði föstum kjörum fyrir dagvinnu, myndaði því ekki stofn til útreiknings lífeyris A. Umboðsmaður taldi ljóst, að væru laun eftirmanns greidd fyrir annað en dagvinnu, t.d. yfirvinnu í skilningi 2. mgr. 17. gr. laga nr. 70/1996, gæti lífeyrisþegi ekki krafist þess að lífeyririnn miðaðist við þann hluta launa eftirmannsins. Á hinn bóginn benti umboðsmaður á að lífeyrisréttindi voru bæði endurgjald fyrir vinnu og tilkomin vegna fjárframlaga sjóðfélaga. Það væri almennt viðurkennt, að slík réttindi teldust eign í stjórnskipulegri merkingu og nytu verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar og annarra ákvæða, sem við kunni að eiga. Þá byggi menn oft afkomu sína á slíkum réttindum. Umboðsmaður taldi þessa aðstöðu, og fyrrgreinda stjórnarskrárvernd réttindanna, setja því skorður að löggjafinn, og þau stjórnvöld sem fara með launaákvarðanir á hverjum tíma, geti raskað lögmæltri viðmiðun ellilífeyris með því einu að nefna laun annað en föst laun fyrir dagvinnu, þó að í reynd sé verið að greiða fyrir vinnu unna í dagvinnu. Sú skylda hafi hvílt á stjórnvöldum að gæta þess við töku launaákvarðana og túlkun þeirra lagaheimilda sem slíkar ákvarðanir byggjast á, að föst laun eftirmanns A fyrir dagvinnu hafi verið svo skýrt afmörkuð að ellilífeyririnn yrði miðaður við þau. Það var niðurstaða umboðsmanns, að á grundvelli þeirra gagna sem fyrir lægju, gæti hann ekki leyst úr því hvort eftirmaður A hefði að einhverju leyti notið launagreiðslna fyrir dagvinnu umfram þær greiðslur sem á hverjum tíma voru skilgreindar sem föst laun fyrir dagvinnu. Í því skyni þyrfti að taka skýrslur af þeim, sem staðið hefðu að launaákvörðununum og afla annarra sönnunargagna. Væri því eðlilegra að dómstólar leystu úr þessum ágreiningi. Með hliðsjón af því, að úrlausn dómstóla um ágreininginn gæti haft almennt gildi fyrir þá, sem svipað væri ástatt um, lýsti umboðsmaður sig reiðubúinn til að taka til athugunar hvort ekki væri rétt að leggja til að A yrði veitt gjafsókn í slíku máli, ef hann kysi að leggja málið fyrir dómstóla.

I. Hinn 11. september 1996 leitaði A til mín og kvartaði yfir þeirri ákvörðun fjármálaráðuneytis, að skipta launum hans og síðar eftirmanns hans, sem forstjóra ríkisstofnunarinnar X, í "mánaðarlaun" og "fasta" eða "ómælda yfirvinnu". Telur hann þessa ákvörðun skerða réttindi þau, sem hann hafi áunnið sér samkvæmt lögum nr. 101/1943, sbr. lög nr. 29/1963, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Jafnframt kvartar hann yfir þeirri ákvörðun fjármálaráðuneytisins, að synja honum um greiðslu kostnaðar af lögmannsaðstoð, sem hann hafi aflað sér við rekstur málsins. II. Samkvæmt gögnum málsins eru atvik þess í stuttu máli þau, að þegar A hóf töku eftirlauna samkvæmt svokallaðri eftirmannsreglu úr Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins hinn 1. apríl 1985, varð hann þess áskynja, að lífeyrisgreiðslur til hans tóku aðeins mið af mánaðarlaunum eftirmanns hans, en ekki jafnframt af launagreiðslum fyrir svokallaða "fasta" eða "ómælda yfirvinnu". Laun forstjóra ríkisstofnunarinnar X höfðu þá til skamms tíma verið saman sett með þeim hætti. Telur A, að með þessu séu skert þau réttindi, sem hann hafi áunnið sér með greiðslu iðgjalda af launum sínum til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins um þrjátíu ára skeið frá árinu 1946 til ársins 1976, þar af frá árinu 1965 af launum forstjóra X. A greinir svo frá, að lengst af starfsævi hans og allan þann tíma, sem hann greiddi iðgjöld til sjóðsins, hafi laun hans ekki verið sett saman eða þeim skipt með framangreindum hætti. Sem forstöðumaður stofnunar hafi hann ekki tekið laun fyrir vinnu umfram dagvinnu eða önnur störf, sem stöðunni fylgdu. Nokkru eftir að iðgjaldagreiðslum hans lauk í samræmi við þágildandi 30 ára reglu, sbr. 4. mgr. 10. gr. laga nr. 29/1963, hafi launagreiðandi hans, fjármálaráðuneytið, hins vegar tekið um það einhliða ákvörðun árið 1978, að nefna hluta af föstum launum hans "ómælda yfirvinnu", án þess að tilkynna honum um það með öðrum hætti en fram hafi komið á launaseðli. Hélst svo þar til hann lét af embætti árið 1985. Samkvæmt skýringum A hóf hann tilraunir til að fá breytt þeim grundvelli, sem hlutfall lífeyrisgreiðslna hans var miðað við, um leið og hann varð þess var, hver sú viðmiðun væri. Leitaði hann í því skyni eftir aðstoð lögmanns árið 1991. Greinir A svo frá, að þeim viðskiptum hafi lokið eftir fund í fjármálaráðuneytinu á þann hátt, að föstum launakjörum forstjóra X hafi hinn 1. apríl 1992 verið breytt þannig, að hin "fasta" eða "ómælda yfirvinna" hafi verið felld inn í mánaðarlaun hans og þau hækkuð. Tóku lífeyrisgreiðslur til A tilsvarandi breytingum frá sama tíma. Samkvæmt gögnum málsins var forstjóranum þó jafnframt ákveðin föst yfirvinna en þeim stundum fækkað um liðlega helming eða í 19,8 stundir. Með 9. gr. laga nr. 120/1992, um Kjaradóm og kjaranefnd, var ákvörðun launa forstjóra X færð til kjaranefndar. Telur A, að áunnin lífeyrisréttindi sín hafi enn verið skert, þegar kjaranefnd ákvað hinn 28. desember 1995, að auk fastra mánaðarlauna skyldi greiða eftirmanni hans "30 klukkustundir á mánuði fyrir alla yfirvinnu og álag er starfinu fylgir". Eftir að A bar fram kvörtun sína, tók kjaranefnd nýja ákvörðun um laun forstjóra X og fleiri embættismanna hinn 16. júní 1997. Í inngangi að þeirri ákvörðun segir, að "felldar [séu] niður greiðslur fyrir fasta yfirvinnu en þess í stað [séu] greiddar einingar fyrir alla yfirvinnu og álag sem starfinu fylgir, sbr. X. kafla". Í VII. kafla þessarar ákvörðunar eru eftirmanni A ákveðnar 29 slíkar einingar jafnframt mánaðarlaunum, en í nefndum X. kafla hvert einingaverðið sé og að þær skuli "greiðast alla mánuði ársins, einnig í sumarleyfi". Þá telur A, að reikna beri sér lífeyri af föstum yfirvinnugreiðslum til eftirmanns síns á tímabilinu frá 1985 til 1992, áður en þær voru felldar inn í mánaðarlaun hans. Loks hefur hann leitað eftir að fjármálaráðuneytið greiði honum kostnað vegna lögmannsaðstoðar, enda hafi sú leiðrétting, sem fram fékkst árið 1992, haft almennt gildi fyrir aðra lífeyrisþega, sem svipað var ástatt um. Í þessu skyni ritaði A fjármálaráðherra bréf hinn 26. apríl 1996 og aftur hinn 28. júlí s.á. Með bréfi, dags. 4. september 1996, svaraði fjármálaráðherra framangreindum bréfum A með svofelldum hætti: "Í erindinu óskið þér eftir afstöðu ráðuneytisins til þess hvort eftirlaun yðar hafi verið rétt ákvörðuð af stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Í erindinu kemur fram að þér teljið yður ekki hafa notið að fullu áunninna réttinda og að þér hafið verið sviptur lífeyrisréttindum af ómældri yfirvinnu í sjö ár því það samkomulag sem þér fáið greidd eftirlaun eftir var miðað við 1. apríl 1992. Teljið þér að eftirlaun yðar hafi verið ranglega skert frá 1985 til 1992. Í 6. mgr. 12. gr. laga nr. 29/1963, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins kemur fram að upphæð ellilífeyris er hundraðshluti af þeim föstu launum fyrir dagvinnu, persónuuppbót og orlofsuppbót samkvæmt kjarasamningum, sem á hverjum tíma fylgja stöðu þeirri fyrir fullt starf er sjóðfélaginn gegndi síðast. Þessu ákvæði hefur verið breytt tvisvar frá því lögin voru sett, þ.e. með lögum nr. 47/1984, 3. gr. og 3. gr. laga nr. 7/1990. Breyting sú sem gerð var árið 1990 fólst í því að tryggja að ellilífeyrisþegar fái hlutdeild í orlofsuppbót. Með breytingunni árið 1984 var farið að miða lífeyri við meðalhlutfall af fullu starfi þann tíma sem hlutaðeigandi starfsmaður hefur gegnt starfi hjá ríkinu eða öðrum launagreiðanda sem aðild á að sjóðnum. Fyrir þessa breytingu gátu starfsmenn sem óskuðu eftir því að minnka við sig störf þegar líður á starfsævina átt á hættu að glata hluta af lífeyrisréttindum sínum. Orðalagi 6. mgr. 12. gr. var vissulega breytt þannig að í stað þess að tala um hundraðshluta af "launum þeim" var farið að tala um hundraðshluta af "þeim föstu launum fyrir dagvinnu ... er á hverjum tíma fylgja stöðu þeirri fyrir fullt starf er sjóðfélaginn gegndi síðast". Í þessu fólst hins vegar engin efnisbreyting, bæði fyrir og eftir þessa breytingu hefur lífeyrir úr Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins miðast við dagvinnulaun og iðgjöld hafa ávallt verið greidd af dagvinnulaunum eingöngu. Þess má geta að í almennum athugasemdum við frumvarp það sem varð að lögum nr. 29/1963, kemur fram að lífeyrir miðast við embættislaun og að tekjur vegna aukavinnu hafi ekki áhrif á lífeyri úr lífeyrissjóðunum enda væri nær ógerlegt að innheimta iðgjald af þeim. Er því um misskilning að ræða hjá yður ef þér teljið að fyrir 1984 hafi ellilífeyrir tekið mið af öllum launum eftirmanns. Eins og að framan er getið miðast upphæð ellilífeyris úr Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins við dagvinnulaun eftirmanns. Breytist skilgreining á dagvinnulaunum hefur það áhrif á eftirlaunin en lífeyrissjóðurinn hefur ekki upplýsingar um hvernig dagvinnulaunin eru ákvörðuð. Þann 1. apríl 1992 tók gildi breyting á launakjörum eftirmanns yðar, [...], sem leiddi til hækkunar og breytingar á dagvinnulaunum hans. Þessi breyting hafði áhrif á eftirlaun yðar í samræmi við 6. mgr. 12. gr. laganna um lífeyrissjóðinn en með því var hins vegar ekki verið að ákvarða yður eftirlaun fyrir ómælda yfirvinnu enda slíkt ekki í samræmi við framangreint lagaákvæði. Fjármálaráðuneytið telur ekkert það sem fram kemur í máli yðar sem bendir til þess að stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins hafi tekið ranga ákvörðun þegar eftirlaun yðar voru ákvörðuð." III. Með bréfi, dags. 1. október 1996, kynnti ég fjármálaráðherra efni kvörtunar A og óskaði eftir að ráðuneyti hans skýrði viðhorf sitt til hennar. Jafnframt að það léti mér í té þau gögn, er málið snertu. Með bréfi, dags. sama dag, greindi ég stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins frá kvörtuninni og fór þess á leit, með vísan til 7. og 9. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis, að hún upplýsti, hvort lífeyrisgreiðslur til A væru í samræmi við ákvörðun stjórnar lífeyrissjóðsins. Ef svo væri, var þess jafnframt óskað, að stjórnin skýrði viðhorf sitt til kvörtunarinnar og léti mér í té þau gögn, er málið snertu. Hinn 15. janúar 1997 barst mér svar lífeyrissjóðsins. Þar segir meðal annars: "[A] hefur fengið lífeyrisgreiðslur frá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins frá 1. apríl 1985. Greiðslur til hans frá sjóðnum hafa allt frá því þær hófust verið reiknaðar 73,16% af föstum launum forstjóra [X] fyrir dagvinnu. Lífeyrisgreiðslur til [A] hafa því verið í samræmi við ákvörðun stjórnar lífeyrissjóðsins. Þegar lífeyrisgreiðslur hófust í apríl 1985 voru þær reiknaðar eftir launaflokki 126 samkvæmt samningi Stéttarfélags verkfræðinga, og við upphaf lífeyristöku fékk [A] kr. 29.718 í lífeyri frá sjóðnum á mánuði. Frá þeim tíma breyttust lífeyrisgreiðslur síðan í samræmi við breytingar á föstum launum forstjóra [X] fyrir dagvinnu, eins og launin voru samkvæmt samningi Stéttarfélags verkfræðinga, þar til í apríl 1992. Frá 1. apríl 1992 var starfi forstjórans raðað í launaflokk 165 samkvæmt samningi nr. 501 í launakerfi ríkisins, en undir þessu samningsnúmeri voru þeir sem fengu laun samkvæmt ákvörðun Kjaradóms, og þeir sem fengu laun samkvæmt ákvörðun ráðherra og miðuð voru við sömu launaflokka. Lífeyrisgreiðslum til [A] var breytt til samræmis við þetta frá sama tíma. Í dag fær [A] lífeyri sem reiknaður er eftir launaflokki [...] samkvæmt ákvörðun kjaranefndar um laun forstjóra [X] og fjárhæð lífeyris á mánuði er nú kr. 154.222. [...]" Í niðurlagi svarbréfs lífeyrissjóðsins er vísað til bréfs sjóðsins til mín, dags. 26. febrúar 1991, auk annarra fyrri bréfa, þar sem fram komi, að stjórn sjóðsins telji, að starfssvið umboðsmanns Alþingis taki ekki til málefna lífeyrissjóðsins. Samkvæmt því, sem þar komi fram, telji stjórn sjóðsins ekki ástæðu til að skýra sjónarmið sín í þessu máli frekar en að framan greinir, en lætur þó fylgja bréfi sínu gögn um bréfaskipti sjóðsins við A og lögmann hans á árabilinu 1989 til 1992. Hinn 21. júlí 1997 bárust mér svör fjármálaráðuneytis í bréfi þess, dags. 8. s.m. Þar segir meðal annars: "Á árinu 1978 var forstöðumönnum ríkisstofnana ákvörðuð föst yfirvinna í stað tímamældrar. Þessar greiðslur komu til viðbótar dagvinnulaunum og ekki voru greidd iðgjöld af þeim enda ekki í samræmi við lögin um lífeyrissjóðinn að gera það. [A] hætti störfum og fór á eftirlaun þann 1. apríl 1985. Eins og venja er sendi starfsmannaskrifstofa Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins tilkynningu um starfslokin og laun eftirmanns. Allar breytingar á launum eftirmanns hafa verið tilkynntar jafnóðum. Eftirmaður [A] tók laun samkvæmt samningi stéttarfélags verkfræðinga en fór síðan á ráðherraröðun og tók þá laun samkvæmt samningi nr. 501 í launakerfinu en tekur nú laun samkvæmt ákvörðun kjaranefndar, sbr. lög nr. 120/1992, [um Kjaradóm og kjaranefnd]. Eftirlaun [A] miðast við laun eftirmannsins, sbr. 6. mgr. 12. gr. laga nr. 29/1963 (nú 2. mgr. 24. gr. laga nr. 1/1997). Í bréfi lífeyrissjóðsins til yðar frá 8. janúar s.l. er gerð grein fyrir eftirlaunum [A] og vísast til þess sem þar kemur fram. Með bréfi dags. 4. september 1996 svaraði ráðuneytið bréfum [A] frá 26. apríl og 28. júlí 1996. Ráðuneytið skildi erindi hans svo að hann teldi að eftirlaun sín hefðu verið ranglega ákvörðuð og að ákvörðunin hefði jafnvel farið í bága við eignarréttarákvæði stjórnarskrár. Skilja mátti bréf hans svo og þau skjöl sem þeim fylgdu, sbr. tilvísun í 23. gr. laga nr. 29/1963 og G-lið í skjali frá 6. maí 1990, að [A] teldi að á einhverju tímamarki hefði iðgjaldastofninn verið breiðari og eftirlaunarétturinn meiri. Í bréfi ráðuneytisins er því gerð ítarleg grein fyrir viðeigandi ákvæðum laga nr. 29/1963, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins (nú lög nr. 1/1997). Jafnframt er rakið hvers vegna eftirlaunin breyttust þann 1. apríl 1992 þegar eftirmaður [A] hætti að taka laun samkvæmt kjarasamningi og fór að taka laun samkvæmt ákvörðun ráðherra. Þannig er skýrt í bréfinu að eftirlaunin breyttust vegna breytinga á launum eftirmanns en ekki vegna breyttra reglna um greiðslu lífeyris. Ákvörðun eftirlauna heyrir undir stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og því hlýtur í svarbréfi ráðuneytisins að vera fjallað um hvort þær ákvarðanir sem voru teknar í máli [A] hafi verið réttar. Ráðuneytið telur sig því hafa svarað bréfum [A] með fullnægjandi hætti enda hafa lagaákvæði um ákvörðun eftirlauna hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins verið skýrð fyrir [A] áður bæði munnlega og skriflega. Ákvörðun ráðuneytisins frá 26. mars 1996 að neita að greiða honum útlagðan lögfræðikostnað byggðist á því að ekki hafi verið gerð mistök í máli [A] hvorki þegar eftirlaunin voru ákvörðuð né síðar þegar breytingar hafa orðið á launum eftirmanns. Launakjör eftirmanns [A] voru rétt ákvörðuð fyrst samkvæmt kjarasamningi, síðan samkvæmt ákvörðun ráðherra og loks samkvæmt ákvörðun kjaranefndar. Þegar þau breyttust var lífeyrissjóðnum tilkynnt um breytinguna, sbr. t.d. bréf frá 18. mars 1992. [A] átti því enga kröfu á ríkissjóð vegna vangoldinna eftirlauna og þ.a.l. ekki kröfu um greiðslu lögfræðikostnaðar. Engin fordæmi eru fyrir því að greiða lögfræðikostnað í slíkum tilvikum enda væri slíkt í hæsta máta óeðlilegt." Með bréfi, dags. 21. júlí 1997, bauð ég A að gera athugasemdir við svör fjármálaráðuneytis. Athugasemdir A bárust mér með bréfi, dags. 24. júlí 1997. Þar segir meðal annars: "Það er ekki í samræmi við vitneskju mína að forstöðumönnum ríkisstofnana hafi á árinu 1978 verið ákvörðuð föst yfirvinna í stað tímamældrar. "Föst yfirvinna" var þá ný nafngift (ómæld yfirvinna), sem ég held fram að sé vafasöm stjórnsýsluákvörðun til þess ætluð að spara ríkissjóði launakostnað annarsvegar, en hinsvegar til að dylja eðlilegt launaskrið." IV. Í áliti mínu, dags. 16. október 1997, sagði svo: "1. Viðmiðun við útreikning lífeyris. Í 6. mgr. 12. gr. laga nr. 29/1963, sbr. 4. gr. laga nr. 47/1984, sem í gildi var, þegar A hóf töku lífeyris, var kveðið svo á, að upphæð ellilífeyris skyldi vera hundraðshluti af þeim föstu launum fyrir dagvinnu og persónuuppbót samkvæmt kjarasamningum, sem á hverjum tíma fylgdu stöðu þeirri fyrir fullt starf, er sjóðfélagi gegndi síðast. Hélst þetta óbreytt, er nefndri 12. gr. var breytt með 3. gr. laga nr. 7/1990, að því við bættu, að upphæð ellilífeyris skyldi jafnframt taka mið af orlofsuppbót samkvæmt kjarasamningum, sem á hverjum tíma fylgdi stöðu þeirri, sem sjóðfélaginn gegndi síðast. Áður en þessi regla, þ.e. hin svokallaða eftirmannsregla, var tekin í lög, hafði greiðsla lífeyris verið miðuð við meðaltal af launum sjóðfélaga síðustu 10 starfsár hans, sbr. 12. gr. laga nr. 101/1943, sbr. síðar lög nr. 64/1955. Um ástæður þess að viðmiðun eftirlauna var breytt með 12. gr. laga nr. 29/1963 sagði í athugasemdum við frumvarp það, sem varð að þeim lögum, að þróun launamála hafi verið ríkisstarfsmönnum óhagstæð og þess vegna hafi "fjölmargir tekið þann kost að auka tekjur sínar með aukavinnu. En slíkar tekjur hafa ekki áhrif á lífeyri úr lífeyrissjóðnum, enda væri nær ógerlegt að innheimta iðgjald af þeim." (Alþt. 1962-1963, A-deild, bls. 1429). Í skýringum við 12. gr. sérstaklega segir jafnframt, að gert sé ráð fyrir, "að ellilífeyrir breytist á tilsvarandi hátt og laun" (Alþt. 1962-1963, A-deild, bls. 1432). Síðari breytingar auka persónuuppbót við stofn iðgjalda og viðmiðun eftirlauna árið 1984 og orlofsuppbót árið 1990. Með I. kafla laga nr. 141/1996, um lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins, voru gerðar umtalsverðar breytingar á efni og skipan laga nr. 29/1963, með síðari breytingum. Voru þau síðar endurútgefin sem lög nr. 1/1997. Þar hefur framangreint ákvæði verið fært í 2. mgr. 24. gr. og því breytt þannig, að það tekur nú aðeins til útreiknings á lífeyri sjóðfélaga við starfslok, en samkvæmt nýju ákvæði 3. mgr. 24. gr. skulu breytingar á lífeyrisgreiðslum, eftir að taka lífeyris hefst, miðaðar við meðalbreytingar á föstum launum opinberra starfsmanna fyrir dagvinnu, sbr. 2. mgr., eins og Hagstofa Íslands reiknar þær út mánaðarlega, í stað hinnar einstaklingsbundnu viðmiðunar áður. Samkvæmt 35. gr. laga nr. 1/1997 eiga þó þeir sjóðfélagar, sem hafið hafa töku eftirlauna við gildistöku laga nr. 141/1996 hinn 1. janúar 1997, val um hvorri viðmiðuninni útreikningur lífeyrisgreiðslna til þeirra skuli fylgja samkvæmt nánari ákvæðum í samþykktum stjórnar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Í 72. gr. þessara samþykkta frá 14. janúar 1997 er þessi réttur áréttaður og hlutaðeigandi sjóðfélögum gert að ákveða fyrir 1. desember 1997, á hvorn veginn þeir kjósi að útreikningi breytinga á lífeyri þeirra sé hagað, sbr. 73. gr. samþykktanna. Sjóðfélagi, sem kýs að halda sig við eftirmannsregluna óbreytta, getur þó valið hinn kostinn síðar skv. 75. gr. samþykktanna, en val um það er bindandi upp frá því. Báðir þessir kostir miðast við hlutfall af föstum launum fyrir dagvinnu, annar við upphaf lífeyrisútreiknings, en hinn með viðvarandi hætti. Beiting þeirra er valkvæð gagnvart áunnum réttindum þeirra sjóðfélaga, sem hafið höfðu töku eftirlauna fyrir gildistöku laga nr. 141/1996. Þeir eiga val um, hvorn kostinn þeir velja, allt eftir því, sem hver og einn telur vera sér hagfelldara. Í ljósi þess að kvörtun A snýr að framkvæmd eftirmannsreglunnar og nánar tiltekið ákvörðun þeirrar viðmiðunar, sem framangreindir kostir byggjast báðir á, hvor með sínum hætti, á hann eftir sem áður lögvarða hagsmuni af að fá úrlausn um þann hluta málsins. 2. Ákvörðun launa og réttindi því tengd. Samkvæmt gögnum málsins tók eftirmaður A laun samkvæmt samningi Stéttarfélags verkfræðinga þangað til í apríl 1992. Samkvæmt skýringum fjármálaráðuneytisins í bréfi til mín, dags. 8. júlí 1997, varð þá sú breyting, að eftirmaðurinn "... fór á ráðherraröðun og tók þá laun samkvæmt samningi nr. 501 í launakerfinu ...". Fjármálaráðuneytið skýrir ekki frekar hvað í slíkum samningi hafi falist, en í skýringum Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, dags. 8. janúar 1997, kemur fram, að starfi forstjórans hafi verið "... raðað í launaflokk 165 samkvæmt samningi nr. 501 í launakerfi ríkisins, en undir þessu samningsnúmeri voru þeir sem fengu laun samkvæmt ákvörðun Kjaradóms, og þeir sem fengu laun samkvæmt ákvörðun ráðherra og miðuð voru við sömu launaflokka". Með lögum nr. 120/1992, um Kjaradóm og kjaranefnd, var nýjum aðila, kjaranefnd, falið að ákvarða laun og önnur starfskjör forstöðumanna stofnana og fyrirtækja ríkisins og annarra embættismanna, sem áður höfðu ýmist verið ákveðin af Kjaradómi eða fjármálaráðherra án samninga. Þar á meðal var forstjóri X, sbr. 9. gr. laga nr. 120/1992, sbr. nú 2. mgr. 8. gr. s.l., eins og þeim var breytt með 56. gr. laga nr. 70/1996. Í almennum athugasemdum við frumvarp það, er varð að lögum nr. 120/1992, kemur fram, að samsetning launa þeirra manna, sem Kjaradómur hafði fram til þessa ákvarðað laun annars vegar, og annarra starfsmanna hins vegar, hafi ekki verið með öllu sambærileg. Þannig segir um laun síðarnefnda hópsins: "Um laun fyrir yfirvinnu starfsmanna gildir sú meginregla að hana beri að staðfesta af yfirmönnum viðkomandi stofnana. Forstöðumönnum stofnana hafa verið ákveðin yfirvinnulaun af fjármálaráðuneytinu, fastur tímafjöldi á mánuði. Ákvörðun þessi hefur annaðhvort verið tekin fyrir hvert einstakt starf fyrir sig eða með því að settar hafa verið reglur sem gilda fyrir hópa manna [...]. Nokkuð er um að forstöðumenn, sem undir slíka ákvörðun heyra, fái til viðbótar yfirvinnu samkvæmt reikningi sem þá hefur verið staðfestur af viðkomandi ráðherra eða ráðuneyti." (Alþt. 1992-1993, A-deild, bls. 869.) Síðan er gerð grein fyrir því, að Kjaradómur hafi á hinn bóginn tekið þá afstöðu, að ákveða heildarlaun hvers starfa, þannig að ekki kæmu til fastar aukagreiðslur fyrir venjubundin störf, þó að utan dagvinnutíma væri, og um það vitnað til úrskurða hans frá 5. janúar 1985 annars vegar og 26. júní 1992 hins vegar (Alþt. 1992-1993, A-deild, bls. 869). Í síðarnefnda úrskurðinum komi fram, að þrátt fyrir þessa afstöðu Kjaradóms hafi "ýmsir þeirra [sem undir úrskurð hans eru settir,...] fengið aukagreiðslur umfram úrskurð Kjaradóms" (Alþt. 1992-1993, A-deild, bls. 870). Síðan segir, að athuganir hafi leitt í ljós, að í vaxandi mæli hafi komið til greiðslu á yfirvinnu, ýmist mældrar eða ómældrar (fastrar), og í sumum tilvikum á hvoru tveggja, til þeirra, sem Kjaradómur ákvarðar laun. Greiðslur þessar séu hins vegar mjög mismunandi eftir einstökum embættum og geti numið frá 20 stundum á mánuði og allt að 100 stundum. Þetta hafi haft í för með sér, að verulegt ósamræmi sé orðið milli heildarlauna og þeirra launa, sem Kjaradómur ákveði. Einstakir hópar njóti ekki slíkra greiðslna. Nú sé svo komið, að oft ákveði launagreiðandi allt að 50 af hundraði af þeim launum, sem Kjaradómi sé ætlað að ákvarða, og sé framkvæmd launagreiðslna að því leyti farin úr böndum. Síðan er leitað skýringa á þessari þróun og bent á tvö atriði, sem hafi án vafa stuðlað að henni: "Hið fyrra er sú staðreynd að Kjaradómur hefur yfirleitt ekki tekið tillit til annarra launabreytinga en almennra taxtahækkana. [...] Hefur það leitt til þess að aðrar launabreytingar, launaskrið, samningsákveðið eða ekki, breytingar á röðun í sérsamningum o.fl. hafa ekki reglulega haft áhrif til hækkunar á laun þeirra sem Kjaradómur ákveður. Á vissum tímabilum hefur töluverður hluti launahækkana í þjóðfélaginu komið til með þessum hætti og eru aukagreiðslur til þeirra sem Kjaradómur ákveður laun tilraun til að viðhalda samræmi í launagreiðslum. Síðara atriðið er það að heildarlaun eins og Kjaradómur ákveður taka ekki tillit til þess að vinnuframlag starfsmanna í sambærilegum störfum getur verið mjög mismunandi." (Alþt. 1992-1993, A-deild, bls. 870-871.) Um ástæður þeirrar nýskipunar, sem komið var á með lögum um Kjaradóm og kjaranefnd, sagði meðal annars í almennum athugasemdum við frumvarp það, er varð að lögum nr. 120/1992: "[...] nauðsynlegt [hefur þótt] að hafa möguleika á að ákvarða einstökum embættismönnum aukagreiðslur vegna mismunandi starfa þeirra, ábyrgðar og vinnuframlags og til að tryggja að æðri embætti séu skipuð hæfum mönnum. Engu að síður [verði] að gera þá kröfu að við ákvarðanir um laun til slíkra embættismanna sýni ríkið aðhaldssemi og mismuni ekki starfsmönnum sínum með handahófskenndum launaákvörðunum. Því [sé] nauðsynlegt að launaákvarðanir séu gerðar af aðilum sem hafa yfirsýn yfir laun starfsmanna og starfshópa hjá ríkinu og öðrum aðilum í atvinnulífinu. Núverandi fyrirkomulag launaákvarðana til æðstu embættismanna [hafi] ekki reynst þess umkomið að skapa nauðsynlegt samræmi í þessum efnum og viðhalda því. Þrátt fyrir leiðréttingar, sem gerðar [hafi] verið þegar í óefni hefur verið komið, hefur misgengi í launaþróun fljótlega komið í ljós bæði innan þess hóps sem undir Kjaradóm heyrir og milli þeirra launa sem dómurinn ákveður og launa annars staðar í þjóðfélaginu. Ástæða þess er m.a.... óljós viðmiðun sem dómurinn hefur haft og launakerfi sem ekki býr yfir nægjanlegum sveigjanleika til að mæta breytilegum störfum og mismunandi vinnuframlagi." (Alþt. 1992-1993, A-deild, bls. 872.) Um ákvarðanir kjaranefndar sagði svo í 12. gr. laga nr. 120/1992: "Nefndin skal í ákvörðun sinni greina á milli fastra launa fyrir dagvinnu og launa fyrir annað sem starfinu fylgir. Hún skal og kveða á um hvernig greitt skal fyrir sérstök tilfallandi störf sem starfinu geta fylgt og kveða á um önnur starfskjör. Kjaranefnd skal í ákvörðunum sínum taka tillit til venjubundins vinnuframlags og starfsskyldna umfram dagvinnu. Hún úrskurðar hvaða aukastörf tilheyri aðalstarfi og hver beri að launa sérstaklega. Kjaranefndin skal og taka tillit til kvaða sem störfunum kunna að fylgja, svo og hlunninda og réttinda sem þeim fylgja, svo sem lífeyrisréttinda og ráðningarkjara." Ákvæði þetta var samhljóða því, sem var í 11. gr. frumvarps þess, er varð að lögum nr. 120/1992. Í athugasemdum við einstakar greinar frumvarpsins var til skýringar á þeirri grein vísað til sömu athugasemda og um 6. gr. frumvarpsins (Alþt. 1992-1993, A-deild, bls. 876). Sú grein fjallaði um ákvarðanir Kjaradóms og var í öllu verulegu hliðstæð 11. gr. Um hana sagði í athugasemdum: "Aðilum þeim, sem Kjaradómur ákveður laun, verður ekki ákveðin sérstök greiðsla á sama hátt og þeim sem starfa samkvæmt kjarasamningum fyrir þá vinnu sem þeir kunna að láta í té umfram 40 klst. dagvinnutíma. Því er gert ráð fyrir að Kjaradómur meti laun fyrir þá vinnu sem látin er í té utan hins daglega vinnutíma og talin er þáttur í venjubundnu starfi viðkomandi aðila. Í því sambandi ber dómnum einnig að meta hvaða störf teljist aukastörf sem launa beri aukalega og hvaða störf tilheyri aðalstarfi. Þá ber Kjaradómi við samanburð við launakjör annarra að taka tillit til sérstakra kjara og hlunninda er starfinu fylgja, þar með talinna skattfríðinda, lífeyrisréttar, veikindaréttar o.s.frv. Á móti ber að taka tillit til kvaða sem á embættinu kunna að hvíla. Samkvæmt 1. mgr. greinarinnar er Kjaradómi gert að skipta heildarlaunum í laun fyrir venjulega dagvinnu og önnur laun. Ástæða þess er skýrð í athugasemdum við 2. gr." (Alþt. 1992, A-deild, bls. 875.) Síðastgreindar ástæður eru skýrðar svo í tilvitnuðum athugasemdum við 2. gr. frumvarpsins: "Töluverð ásókn hefur verið frá einstökum embættismönnum og starfshópum í að falla undir úrskurðarvald Kjaradóms. Stafar það ekki síst af því að lífeyrisréttindi þeirra hafa miðast við heildarlaun þau er dómurinn hefur úrskurðað en lífeyrisréttindi þeirra, sem hafa haft launakjör samkvæmt kjarasamningum eða ákvörðun fjármálaráðherra (undanskildir eru þeir embættismenn sem hlotið hafa röðun af hálfu ráðherra með hliðsjón af ákvörðunum Kjaradóms), hafa miðast við dagvinnulaun þeirra, auk persónuuppbótar og orlofsuppbótar, sbr. 10. gr. laga nr. 29/1963, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Gert er ráð fyrir að misræmi þetta verði nú leiðrétt, sbr. 6. gr. frumvarpsins, þannig að lífeyrisréttindi verði í öllum tilvikum miðuð við laun fyrir dagvinnu eins og þau eru skilgreind í lífeyrissjóðslögunum nema samningar eða lög mæli fyrir um annað." (Alþt. 1992-1993, A-deild, bls. 874.) Þegar fjármálaráðherra mælti fyrir frumvarpi þessu á Alþingi, skýrði hann tilgang lögfestingar á samsetningu launa þeirra, sem Kjaradómur ákvarðar laun skv. 6. gr., sem að breyttu breytanda á jafnframt við um launaákvarðanir kjaranefndar, sbr. framangreinda athugasemd við 11. gr. frumvarpsins, með svofelldum hætti: "Í 6. gr. er gerð veruleg breyting sem ég vek athygli á en það er að gera mun annars vegar á föstum launum fyrir venjulega dagvinnu og síðan önnur laun. Það sjónarmið sem kemur fram í þessari grein á rætur að rekja til kjaradómsúrskurðanna en Kjaradómur hefur skýrt tekið fram að hann hafi hingað til verið að ákvarða heildarlaun en jafnframt sagt að til heildarlauna teljist önnur laun en þau sem unnin eru í venjulegri dagvinnu og þar með gefið í skyn að heildarlaunin séu umfram dagvinnulaunin. Þetta er mjög mikilvægt atriði vegna þess að hjá hinu opinbera hagar þannig til að almennir ríkisstarfsmenn njóta ekki eftirlaunaréttar nema einungis á grundvelli daglauna sinna en ekki yfirvinnu og aukaþóknana. Til þess að skapa ekki bil á milli þeirra, sem Kjaradómur fjallar um og reyndar kjaranefndin líka, þarf að gera mun á því hvað séu föst laun fyrir venjulega dagvinnu og hins vegar önnur laun sem starfinu fylgja. Ég get sagt það að eftir að hafa skoðað til að mynda fyrri ákvörðun Kjaradóms frá 26. júní er alveg ljóst að sú hækkun heildarlauna sem þar kom fram hefði haft gífurleg áhrif á eftirlaunaréttinn og ef ég man rétt held ég að hækkun eftirlauna þeirra sem Kjaradómur fjallaði um þá hafi verið u.þ.b. sama upphæð og meðaltal eftirlauna opinberra starfsmanna er, eða eitthvað um 42.000-43.000 kr. Með því að skilja á milli dagvinnu og annarra launa skapast hins vegar ekki þetta bil á milli þeirra sem kjaranefnd og Kjaradómur fjalla um og hinna sem taka laun samkvæmt kjarasamningum og ég tel að þetta sé mikilvægt atriði út frá þessum sjónarhóli þó ég vissulega skilji þau rök sem reyndar hafa komið fram á hinu háa Alþingi að hér sé verið að taka tillit til þeirrar aðferðar sem notuð er í dag við ákvörðun um laun og kjör og það er vissulega hægt að færa rök fyrir því að slík aðferð leiði til mismunar á milli launa, til að mynda karla og kvenna eins og svo margoft hefur komið fram í umræðunni. Ég vil þó taka fram að þetta er að sjálfsögðu ekki sett inn í lagafrumvarpið til að undirstrika að svo eigi að vera heldur einungis til að benda á að það þarf að vera samræmi milli eftirlaunanna fyrst og fremst og þess vegna er afar slæmt ef Kjaradómur ákveður heildarlaun sem mynda grunn fyrir eftirlaunaréttinn." (Alþt. 1992-1993, B-deild, dálk. 724.) Í meðferð Alþingis var svohljóðandi ákvæði bætt við ákvæði til bráðabirgða samkvæmt tillögu meirihluta efnahags- og viðskiptanefndar: "Leiði úrskurður samkvæmt lögum þessum vegna ákvæða 1. mgr. 6. gr. eða 1. mgr. 12. gr. [nú 11. gr. sbr. 56. gr. laga nr. 70/1996] til þess að þegar áunninn eftirlaunaréttur einstaklings í starfi, eða þess sem tekur eftirlaun sem miðast við slíkt starf, breytist til lækkunar skal viðkomandi halda þeim rétti sem hann hefur þegar áunnið sér. Lífeyrir, eins og hann er samkvæmt þeim rétti, skal taka breytingum í hlutfalli við breytingar á meðaldagvinnulaunum sem ákveðin eru samkvæmt lögum þessum frá fyrsta úrskurði samkvæmt þeim." Í ræðu framsögumanns meirihluta efnahags- og viðskiptanefndar sagði til skýringar á þessu ákvæði: "Meginatriðið í [...] málsgreininni er að lífeyrisréttur sem þegar er áunninn helst að raungildi sínu. Það er því ekki verið að koma aftan að einum né neinum með þessum hætti en lífeyrisréttur sem áunninn er í framtíðinni fer eftir þeim reglum sem um það gilda." (Alþt. 1992, B-deild, dálk. 5181.) Með nýjum lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, lögum nr. 70/1996, var ákvæðum laga nr. 120/1992, um Kjaradóm og kjaranefnd, breytt í nokkrum atriðum. Samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 120/1992, eins og henni var breytt með 2. tölul. síðari tölul. 56. gr. laga nr. 70/1996, ákveður kjaranefnd laun embættismanna, annarra en þeirra, sem taldir eru upp í 2. gr. laganna, lögreglumanna, tollvarða og fangavarða, sbr. ákvæði laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Embætti eru þar skilgreind í 3. mgr. 1. gr. laga nr. 70/1996 og tæmandi talin í 1. mgr. 22. gr. sömu laga, eins og henni var breytt með 9. gr. laga nr. 150/1996, um breytingar á sérákvæðum í nokkrum lögum, er varða réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Samkvæmt 13. tölul. 1. mgr. 22. gr. laga nr. 70/1996, sbr. e-lið 9. gr. laga nr. 150/1996, teljast forstöðumenn ríkisstofnana til embættismanna. Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga nr. 70/1996 eiga þeir rétt á launum fyrir störf sín samkvæmt ákvörðun Kjaradóms eða kjaranefndar, sbr. 39. gr. laga nr. 70/1996. Í síðastnefndu ákvæði segir, að laun og önnur launakjör embættismanna skuli ákveðin af Kjaradómi og kjaranefnd samkvæmt þeim lögum, sem um þá úrskurðaraðila gilda. Í lögum nr. 120/1992 segir nú um ákvarðanir kjaranefndar í 11. gr. laganna, sbr. 4. tölul. síðari tölul. 56. gr. laga nr. 70/1996: "Kjaranefnd skal ákvarða föst laun fyrir dagvinnu og kveða á um önnur starfskjör. Hún úrskurðar hvaða aukastörf tilheyra aðalstarfi og hver beri að launa sérstaklega. Við ákvarðanir sínar getur nefndin tekið tillit til sérstakrar hæfni er nýtist í starfi og sérstaks álags sem starfinu fylgir. Kjaranefndin skal og taka tillit til kvaða sem störfunum fylgja, svo og hlunninda og réttinda sem þeim fylgja, svo sem lífeyrisréttinda og ráðningarkjara."" V. Í forsendum og niðurstöðu álits míns frá 16. október 1997 sagði svo: "A hefur greint svo frá, að mánaðarlaun hans hafi á þeim tíma, er hann greiddi af þeim iðgjöld til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og ávann sér rétt til greiðslu lífeyris úr sjóðnum, verið greidd í einu lagi og þannig myndað heildarlaun hvers mánaðar. Hefur þessari staðhæfingu ekki verið mótmælt af fjármálaráðuneyti. Á hann að því leyti samstöðu með þeim, sem tóku laun samkvæmt ákvörðun Kjaradóms, svo og þeim, sem fjármálaráðherra ákvarðaði laun með hliðsjón af ákvörðunum Kjaradóms fyrir gildistöku laga nr. 120/1992, um Kjaradóm og kjaranefnd. Jafnframt ber aðilum saman um, að greiðslur fyrir "fasta" eða "ómælda yfirvinnu" hafi hafist á árinu 1978. Samkvæmt gögnum málsins hafa heildarlaun A og síðar eftirmanns hans fyrir hvern mánuð frá þeim tíma verið saman sett úr mánaðarlaunum annars vegar og mismunandi háum greiðslum fyrir "fasta" eða "ómælda yfirvinnu" hins vegar. Telur A að þessi breyting á tilhögun launagreiðslna hafi raskað svo þeim grundvelli, sem lífeyrisgreiðslur til hans miða við samkvæmt eftirmannsreglunni, að hann fái ekki að fullu notið þeirra réttinda, sem iðgjaldagreiðslur af launum hans hafi áunnið honum hjá sjóðnum. Af þeim sökum hefur A gert þá kröfu, að lífeyrisgreiðslur til hans taki jafnframt mið af yfirvinnugreiðslunum, en því hefur fjármálaráðuneytið hafnað á þeim grundvelli, að útreikningur lífeyris taki aðeins mið af dagvinnulaunum en ekki greiðslum fyrir yfirvinnu. Lífeyrisréttindi þau, sem um er fjallað í þessu máli, hafa þá sérstöðu, þrátt fyrir að þau séu bæði endurgjald fyrir vinnu og tilkomin fyrir fjárframlög sjóðfélaga, að inntak þeirra, þ.e. viðmiðun lífeyrisins, þegar kemur að greiðslu hans, hefur verið lögbundið. Þá hafa lífeyrisréttindi í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins jafnframt þá sérstöðu, að ríkissjóður ábyrgist greiðslu þeirra skuldbindinga, sem leiðir af greiðslu á hinum lögmælta lífeyri, án tillits til þess, að hvaða marki fjárframlög og ávöxtun þeirra duga til að standa undir lífeyrisgreiðslum. Þannig hefur ekki að lögum verið samhengi á milli iðgjaldagreiðslna til sjóðsins annars vegar og þeirra skuldbindinga sem honum er ætlað að standa undir hins vegar. Samkvæmt því, sem rakið er í IV. kafla 1, hefur A átt kröfu til þess frá því hann hóf töku eftirlauna, að upphæð ellilífeyris hans miðaðist við ákveðinn hundraðshluta "af þeim föstu launum fyrir dagvinnu", sem á hverjum tíma hafa fylgt stöðu þeirri fyrir fullt starf, er A gegndi síðast, þ.e. forstjóra X. Af gögnum þeim, sem fyrir mig hafa verið lögð um ákvarðanir launa til handa forstjóra X eftir að A lét af því starfi, verður ráðið, að fyrirkomulag og heiti á launum, sem greidd hafa verið til viðbótar því, sem nefnt hefur verið föst laun fyrir dagvinnu, hafi verið mismunandi. Þannig hafa slíkar greiðslur t.d. verið felldar undir heitin "ómæld yfirvinna", "föst yfirvinna" eða eins og segir í ákvörðun kjaranefndar frá 28. desember 1995 "30 klukkustundir á mánuði fyrir alla yfirvinnu og álag er starfinu fylgir". Í ákvörðun nefndarinnar frá 16. júní sl. er skírskotað til síðastnefndrar greiðslu sem fastrar yfirvinnu og ákveðið að í stað hennar skuli greiddur ákveðinn fjöldi "eininga". Ég tel rétt að vekja athygli á því, að samkvæmt tölulið 1.2 í reglum, sem kjaranefnd setti hinn 16. júní sl., og í báðum framangreindum launaákvörðunum hennar eru mánaðarlegar greiðslur fyrir alla yfirvinnu og álag, sem starfi fylgir, felldar saman í eina greiðslu. Af þeim sökum liggur hvorki ljóst fyrir, hvort einhver hluti er greiddur fyrir hvort þessara tilefna um sig né hversu stór hluti álagsgreiðslunnar tilheyrir föstum kjörum fyrir dagvinnu, en eðli máls samkvæmt verður svokallað álag í starfi vart alltaf bundið við yfirvinnu sérstaklega. Af þessu leiðir síðan, að sá hluti greiðslunnar sem tilheyrir föstum kjörum fyrir dagvinnu, myndar ekki stofn til útreiknings lífeyris. Sé raunin sú, að laun þess, sem lífeyrisgreiðslur eru miðaðar við, þ.e. eftirmanns lífeyrisþega, séu greidd fyrir eitthvað annað en dagvinnu, t.d. yfirvinnu í skilningi 2. mgr. 17. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, sbr. áður 31. gr. samnefndra laga nr. 38/1954, er ljóst, að lífeyrisþeginn á ekki kröfu til að ellilífeyrir hans miðist við þann hluta launa eftirmannsins. Skal í því efni vakin athygli á dómi Hæstaréttar frá 1. febrúar 1990 í málinu nr. 330/1988 (Hrd. 1990:75). Þar reyndi á skýringu 6. mgr. 12. gr. laga nr. 29/1963, sbr. 6. gr. laga nr. 98/1980 og 4. gr. laga nr. 47/1984, gagnvart þeim málsástæðum og kröfum áfrýjanda, að sá launagrunnur, sem eftirlaun hans væru reiknuð af, væri bæði rangur og ósanngjarn vegna þess að aukagreiðslur fyrir "fasta" eða "ómælda yfirvinnu" hafi leitt til lækkunar fastra launa, þ.e. þeirra launa, sem lífeyrisgreiðslur væru miðaðar við. Í héraðsdómi sagði um þessa málsástæðu: "Þótt fallast megi á, að sanngirnisrök mæli með sjálfstæðu mati á eftirlaunarétti í tilviki, þar sem launagrunni hefur verið raskað verulega frá fyrri tíð, svo sem telja verður upplýst, að orðið hafi í tilviki stefnanda með því að brjóta tekjur niður í föst laun fyrir dagvinnu og reglulegar greiðslur fyrir aukavinnu með þeim afleiðingum, að viðmiðunargrunnur eftirlauna lækkar, þá verður hér ekki vikist undan skýru ákvæði laganna." Var dómkröfum stefnanda á þessum grundvelli síðan hafnað. Í Hæstarétti var dómur héraðsdóms staðfestur með vísan til forsendna hans og þess, að skýr og afdráttarlaus fyrirmæli framangreindra lagaákvæða stæðu því í vegi, "að kröfur og málsástæður áfrýjanda að öðru leyti næðu fram að ganga". Þess verður hins vegar að gæta, eins og áður sagði, að réttindi þau, sem hér um ræðir, lífeyrisréttindi, eru bæði endurgjald fyrir vinnu og tilkomin fyrir fjárframlög sjóðfélaga. Þau eru og þess eðlis, að við ákveðin skilyrði byggja einstaklingar afkomu sína í ríkum mæli á slíkum réttindum. Er almennt viðurkennt, að slík réttindi teljist eign í stjórnskipulegri merkingu og njóti sem slík verndar eignarnámsákvæðis 72. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 10. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, sem og annarra ákvæða er við kunna að eiga, svo sem jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 3. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995. Þessi aðstaða og sú vernd, sem framangreind stjórnarskrárákvæði veita áunnum lífeyrisréttindum A, setja skorður við því að löggjafinn og þau stjórnvöld, sem falið er að fara með launaákvarðanir á hverjum tíma, geti með því einu að nefna launagreiðslur annað en föst laun fyrir dagvinnu, þegar engu að síður er verið að greiða fyrir vinnu unna í dagvinnu, raskað hinni lögmæltu viðmiðun ellilífeyris A. Vegna þeirra stjórnarskrárvernduðu réttinda, sem lýst hefur verið hér að framan, og fyrirmæla laga um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins hefur ennfremur hvílt sú skylda á þeim stjórnvöldum, sem farið hafa með áðurnefndar launaákvarðanir, að gæta þess við töku þeirra ákvarðana og túlkun þeirra lagaheimilda, sem þær byggjast á, að föst laun eftirmanns A fyrir dagvinnu væru svo skýrt afmörkuð, að unnt væri að miða ellilífeyri A við þau. Er það ákvæði 3. mgr. fyrra ákvæðis til bráðabirgða við lög nr. 120/1992, að menn haldi þegar áunnum lífeyrisrétti, eins og nánar greinir í því ákvæði, í góðu samræmi við þessa stjórnskipulegu vernd. Í ljósi þeirrar niðurstöðu, sem hér fer á eftir, tel ég þó ekki ástæðu til að fjalla nánar um þýðingu þessa lagaákvæðis fyrir lífeyrisréttindi A. Fyrirliggjandi upplýsingar um ákvarðanir um laun eftirmanns A og ellilífeyrisgreiðslur til hans eru ekki með þeim hætti, að ég geti á grundvelli þeirra leyst úr því, hvort eftirmaður A hafi í einhverjum mæli notið launagreiðslna fyrir dagvinnu umfram þær greiðslur, sem á hverjum tíma hafa verið skilgreindar sem föst laun fyrir dagvinnu. Áður er fram komið, að fyrirkomulag launagreiðslna til eftirmannsins hefur verið mismunandi og ýmist ráðist af samningum, sem gerðir hafa verið fyrir milligöngu fjármálaráðuneytisins, eða einhliða ákvörðunum stjórnvalda, eftir að lögum var breytt í því skyni. Til að skorið verði úr því, fyrir hvaða vinnu hefur verið greitt með hinum einstöku aukagreiðslum umfram það, sem nefnt hefur verið föst laun fyrir dagvinnu á hverjum tíma, þarf meðal annars að taka skýrslur af þeim, sem að launaákvörðunum hafa staðið hverju sinni, og afla annarra sönnunargagna um málið. Telja verður eðlilegra, að úr ágreiningi sem þessum sé skorið af dómstólum, sbr. c-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, ef A telur rétt að fylgja málinu frekar eftir. Með hliðsjón af því mun ég ekki fjalla að öðru leyti en að framan greinir um þennan lið í kvörtun A. Ég mun hins vegar taka til athugunar, í ljósi þess að úrlausn dómstóla um þennan ágreining getur haft almennt gildi fyrir þá, sem svipað er ástatt um, hvort ekki sé rétt að leggja til við dóms- og kirkjumálaráðherra, að A verði veitt gjafsókn í slíku máli, ef hann kýs að fara þá leið. A kvartar einnig yfir þeirri ákvörðun fjármálaráðuneytisins, að synja honum um greiðslu kostnaðar af lögmannsaðstoð, sem hann hafi aflað sér við rekstur málsins. Eins og lýst hefur verið hér að framan, verður á þessu stigi ekki ráðið, hvort A eigi kröfu til frekari lífeyrisgreiðslna úr Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins en hann hefur notið og þá hvort þar sé um að kenna ákvörðunum fjármálaráðuneytisins eða annars aðila, sem ríkið ber ábyrgð á. Við þessar aðstæður verður ekki séð að efni séu til að gera athugasemd við þá afgreiðslu fjármálaráðuneytisins að synja um greiðslu á umræddum kostnaði við lögmannsaðstoð A." VI. Í framhaldi af áliti mínu í framangreindu máli, ritaði ég dóms- og kirkjumálaráðherra eftirfarandi bréf, dags. 17. febrúar 1998. "Til mín hefur leitað [A] og kvartað yfir þeirri ákvörðun fjármálaráðuneytisins, að skipta launum hans og síðar eftirmanns hans, sem forstjóra [ríkisstofnunarinnar X], í "mánaðarlaun" og ""fasta" eða "ómælda yfirvinnu". Telur hann þessa ákvörðun skerða réttindi þau, sem hann hafi áunnið sér samkvæmt lögum nr. 101/1943, sbr. lög nr. 29/1963, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Í áliti mínu frá 16. október 1997 fjallaði ég um þær réttarreglur og lagasjónarmið, sem meðal annars reynir á í þessu máli. Þær upplýsingar, sem liggja fyrir um ákvarðanir á launum eftirmanns [A] og ellilífeyrisgreiðslum til hans, eru ekki með þeim hætti, að ég geti á grundvelli þeirra leyst úr því, hvort eftirmaður [A] hafi í einhverjum mæli notið launagreiðslna fyrir dagvinnu umfram þær greiðslur, sem á hverjum tíma hafa verið skilgreindar sem föst laun fyrir dagvinnu. Eins og nánar er gerð grein fyrir í fyrrnefndu áliti mínu, liggur það fyrir, að fyrirkomulag launagreiðslna til eftirmannsins hefur verið mismunandi og ýmist ráðist af samningum, sem gerðir hafa verið fyrir milligöngu fjármálaráðuneytisins, eða einhliða ákvörðunum stjórnvalda, eftir að lögum var breytt í því skyni. Til að skorið verði úr því, fyrir hvaða vinnu hefur verið greitt með hinum einstöku aukagreiðslum umfram það, sem nefnt hefur verið föst laun fyrir dagvinnu á hverjum tíma, þarf meðal annars að taka skýrslur af þeim, sem að launaákvörðunum hafa staðið hverju sinni, og afla annarra sönnunargagna um málið. Varði kvörtun réttarágreining, sem á undir dómstóla og eðlilegt er að þeir leysi úr, getur umboðsmaður lokið máli með ábendingu um það skv. c-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Með hliðsjón af því, sem hér að framan er sagt, svo og því, hvernig ágreiningsefni þetta er vaxið, tel ég eðlilegra að úr því verði skorið af dómstólum. Samkvæmt d-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, og 3. tölul. 10. gr. reglna nr. 82/1988, um störf og starfshætti umboðsmanns Alþingis, getur umboðsmaður lagt til við dómsmálaráðherra, að veitt verði gjafsókn í máli, sem heyrir undir starfssvið umboðsmanns og hann telur rétt að lagt verði fyrir dómstóla til úrlausnar. Þar sem mál þetta snertir úrlausnarefni, er varðar marga sjóðsfélaga lífeyrissjóðsins og dómstólar hafa ekki tekið afstöðu til, hef ég ákveðið að mæla með því við yður, að [A] veitt gjafsókn til þess að bera mál þetta undir dómstóla, ef hann sækir um gjafsókn í því skyni. Álit mitt í máli þessu frá 16. október 1997 fylgir hér með." Hinn 8. apríl 1998 ritaði ég dóms- og kirkjumálaráðherra bréf, og óskaði eftir upplýsingum um hvort A hefði sótt um gjafsókn og hvort einhverjar ákvarðanir hefðu verið teknar í framhaldi af því. Mér barst svar dóms- og kirkjumálaráðuneytisins 20. apríl 1998. Þar kom fram að A hefði sótt um gjafsókn með bréfi, dags. 4. mars 1998. Hafi umsókn hans ásamt umfjöllun minni og bréfum verið send gjafsóknarnefnd til afgreiðslu. Gjafsóknarnefnd hefði enn ekki afgreitt umsóknina en ráðuneytið myndi tilkynna mér niðurstöðu gjafsóknarnefndar þegar hún bærist. Ekki höfðu borist upplýsingar um að A hefði verið veitt gjafsókn þegar skýrslan fór til prentunar.