Atvinnuréttindi. Réttur til að starfa og nota starfsheitið heilbrigðisfulltrúi.

(Mál nr. 438/1991)

Máli lokið með bréfi, dags. 25. nóvember 1991.

A kvartaði yfir því, að heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið hefði synjað honum um leyfi til að starfa sem heilbrigðisfulltrúi og til að nota það starfsheiti. A hafði sveinspróf í kjötiðn og hafði sótt ýmis námskeið á sviði matvælaiðnaðar. Þá hafði hann lokið prófi frá "Slagteriskolen" í [H í Danmörku]. Fyrir lá umsögn menntamálaráðuneytisins um að skóli þessi teldist ekki háskóli. Þar sem A hafði þannig ekki tilskilda háskólamenntun, var hann ekki talinn uppfylla hæfisskilyrði a- eða b-liðar 3. gr. reglugerðar nr. 150/1983. Féllst umboðsmaður á þá niðurstöðu. Þá taldi umboðsmaður heldur ekki ástæðu til þess að gera athugasemdir við mat heilbrigðisráðuneytis og Hollustuverndar ríkisins á því, að nám A við hinn danska skóla teldist ekki "sambærileg menntun" í skilningi c-liðar 3. gr. reglugerðarinnar. Umboðsmaður féllst og á það, að A hefði ekki uppfyllt ákvæði til bráðabirgða í reglugerðinni, sem tók til þeirra, er starfað höfðu sem heilbrigðisfulltrúar fyrir gildistöku laga nr. 50/1981.