Atvinnuréttindi. Skilyrði fyrir veitingu meistararéttinda í netagerð.

(Mál nr. 459/1991)

Máli lokið með bréfi, dags. 19. desember 1991.

A, sem lokið hafði sveinsprófi í netagerð 12. desember 1989, kvartaði út af afgreiðslu menntamálaráðuneytisins á beiðni hans um undanþágu frá því að þurfa að stunda nám í meistaraskóla til þess að hljóta meistararéttindi. Í bréfi mínu til A, dags. 19. desember 1991, sagði m.a. svo:

"Með lögum nr. 105/1936 var lögum nr. 18/1927 um iðju og iðnað breytt og ráðherra heimilað í 18. gr. laganna að ákveða, að enginn fengi meistarabréf nema að afloknu meistaraprófi, enda væri þá jafnframt ákveðið, hverjar kröfur skyldu gerðar til meistaraprófs. Við setningu iðnaðarlaga nr. 42/1978 var þessu ákvæði breytt á þá lund, að gert var að skilyrði að maður hefði lokið meistaraprófi í iðn frá meistaraskóla til þess að geta leyst til sín meistarabréf, sbr. 10. gr. l. 42/1978. Í greininni kom hins vegar fram sú undantekningarregla, að meðan ekki væri til meistaraskóli í viðkomandi iðn, gæti hver maður leyst til sín meistarabréf, hefði hann unnið undir stjórn meistara í iðngreininni eða nátengdri iðngrein ekki skemur en tvö ár að loknu sveinsprófi. Með setningu laga um framhaldsskóla nr. 57/1988 var menntamálaráðuneytinu hins vegar gert skylt að halda uppi framhaldsnámi fyrir iðnsveina til meistaraprófs, sbr. 25. gr. laganna. Samkvæmt 5. gr. reglugerðar nr. 98/1988 um meistaranám og útgáfu meistarabréfa skyldu þeir, sem lokið hefðu sveinsprófi fyrir 1. janúar 1989, ekki þurfa að stunda nám við meistaraskóla til þess að fá útgefið meistarabréf. Þeir, sem lykju hins vegar sveinsprófi 1. janúar 1989 eða síðar, skyldu stunda nám við meistaraskóla með fullnægjandi árangri til þess að fá útgefið meistarabréf. 44. gr. reglugerðar nr. 102/1990, um löggiltar iðngreinar, námssamninga, sveinspróf og meistararéttindi, sem sett er með stoð í lögum um framhaldsskóla nr. 57/1988, er nær samhljóða þessu ákvæði. Í 43. gr. síðastnefndrar reglugerðar segir, að sá, sem lokið hafi fullgildu sveinsprófi og hafi unnið undir stjórn meistara í a.m.k. eitt ár, geti hafið nám í meistaraskóla til þess að hljóta rétt til meistarabréfs, sbr. 10. gr. iðnaðarlaga nr. 42/1978.

Að framansögðu er ljóst, að allt frá gildistöku iðnaðarlaga nr. 42/1978 hefur það verið lagaskilyrði, að maður hafi lokið meistaraprófi í iðn frá meistaraskóla, til þess að geta leyst til sín meistarabréf, sbr. 10. gr. laganna. Undantekning sú, er fram kemur í greininni um að maður geti leyst til sín meistarabréf, hafi hann unnið undir stjórn meistara, átti aðeins við á meðan ekki var til að dreifa meistaraskóla í viðkomandi iðn. Þar sem farið var að bjóða upp á framhaldsnám í netagerð til meistaraprófs, eftir gildistöku laga 57/1988 um framhaldsskóla, gat umrædd undanþága 10. gr. laga nr. 42/1978 ekki átt við. Þar sem 44. gr. reglugerðar nr. 102/1990 um löggiltar iðngreinar, námssamninga, sveinspróf og meistararéttindi, er bæði sett með stoð í lögum og er í samræmi við lög, er skoðun mín sú, að þeir, sem lokið hafa sveinsprófi eftir 1. janúar 1989, þurfi að stunda framhaldsnám með fullnægjandi árangri til þess að fá útgefið meistarabréf."

Ég tjáði A, að það væri niðurstaða mín, að ekki væri ástæða til að gera athugasemdir við ákvarðanir menntamálaráðuneytisins í máli þessu, þar sem þær væru í samræmi við fyrrnefnd lög. Benti ég á, að umboðsmanni Alþingis væri ætlað að fjalla um stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga, en almennt ekki um lög, sem Alþingi hefði sett. Samkvæmt þessu teldi ég mig ekki geta haft frekari afskipti af málinu.