Lífeyrismál. Útreikningur á lífeyri sjóðsfélaga, er gegnt hafði stöðu, sem lögð var niður.

(Mál nr. 231/1990)

Máli lokið með bréfi, dags. 30. desember 1991.

A kvartaði út af þeirri ákvörðun stjórnar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, að synja beiðni hans um að taka til greina við útreikning á lífeyrisgreiðslum til hans hækkun starfsaldurs, eftir að staða hans sem flugumsjónarmanns var lögð niður árið 1962.

Ég ritaði Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins bréf 1. febrúar 1990 og fór þess á leit, að lífeyrissjóðurinn léti mér í té þau gögn, sem hann hefði undir höndum og vörðuðu þetta mál. Erindi þessu var svarað með bréfi sjóðsins 26. febrúar 1991. Þar kom fram sú afstaða sjóðsins, að starfssvið umboðsmanns Alþingis tæki ekki til málefna Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. (Sjá mál nr. 82/1989, bls. 56). Með bréfinu fylgdu engu að síður gögn, sem sjóðurinn hafði um málið, án þess að frekari skýringar fylgdu. Þrátt fyrir þessa afstöðu sjóðsstjórnar ákvað ég að fjalla áfram um málið.

Samkvæmt gögnum málsins réðst A til starfa hjá flugmálastjórn á X-flugvelli 1. september 1951. Á árinu 1955 varð A varðstjóri í flugumsjónardeild hjá stofnuninni og gegndi því starfi til 1. júní 1962, þegar staðan var lögð niður. Neytti A þá réttar síns til að greiða áfram í Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, sbr. 2. mgr. 16. gr. þágildandi laga nr. 64/1955 um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, sbr. nú 2. mgr. 17. gr. laga nr. 29/1963. Við úrlausn málsins var miðað við, að launaflokkur og launaþrep A væru ákvörðuð í samræmi við starfsaldur hans, þegar staðan var lögð niður.

Í bréfi mínu til A, dags. 30. desember 1991, sagði m.a. svo:

"Ég skil kvörtun yðar svo, að þér teljið að við útreikning á lífeyrisrétti eigi ekki einungis að taka tillit til þess starfsaldurs, sem þér höfðuð náð, þegar staðan var lögð niður, heldur einnig til þess hækkaða starfsaldurs, sem þér hefðuð náð, ef þér hefðuð haldið starfinu áfram. Í bréfi Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins til yðar, dags. 22. júní 1989, kemur fram, að erindi yðar þessa efnis hafi verið hafnað á fundi stjórnarinnar 8. sama mánaðar.

Þegar staða yðar var lögð niður, voru í gildi lög nr. 64/1955 um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Í 2. mgr. 16. gr. þeirra laga var að finna sérstaka heimild til handa þeim sjóðfélögum, sem kynnu að verða fyrir því að staða þeirri yrði lögð niður, til að vera áfram í sjóðnum. Þar sagði:

"Sé staða eða starfi sjóðfélaga lagður niður, á hann rétt á að vera áfram í sjóðnum og greiða iðgjöld, sem miðuð séu við laun þau, er hann hafði, er staða hans var lögð niður. Nýtur hann þá sömu réttinda úr sjóðnum sem hann hefði gegnt starfi sínu áfram."

Í núgildandi lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, sbr. lög 29/1963, er hliðstætt ákvæði í 2. mgr. 17. gr. Ákvæðið er sambærilegt við 2. mgr. 16. gr. laga nr. 64/1955 að öðru leyti en því, að í stað orðanna "laun þau, er hann hafði, er staða hans var lögð niður" hafa komið orðin "laun í þeim launaflokki, er staða hans var í, er hún var lögð niður."

Ákvæði þessi geyma ekki sérstakar reglur um það, hvernig upphæð lífeyris skuli reiknuð, þegar menn nýta sér heimild 2. mgr. 17. gr., að öðru leyti en því, að í niðurlagi þeirra segir, að sjóðfélagi skuli njóta sömu réttinda úr sjóðnum "sem hann hefði gegnt starfi sínu áfram". Ég tel að álitaefni þetta velti á skýringu tilvitnaðra orða í niðurlagi 2. mgr. 17. gr. Álitaefnið er nánar það, hvort þetta þýði að lífeyrisgreiðslur yðar eigi að miða við þá launaflokka eða þrep þau, sem þér hefðuð verið í, ef þér hefðuð haldið starfi yðar áfram.

Í 6. mgr. 12. gr. laga nr. 29/1963 er að finna aðalregluna um útreikning ellilífeyris. Þar segir, að upphæð ellilífeyris sé hundraðshluti af þeim föstu launum fyrir dagvinnu og persónuuppbót samkvæmt kjarasamningum, er á hverjum tíma fylgja stöðu þeirri fyrir fullt starf, sem sjóðfélaginn gegndi síðast. Þessi regla gildir fyrst og fremst um þá, sem láta af störfum vegna aldurs eða örorku. Í 2. mgr. 12. gr. er mælt fyrir um það, hvernig hundraðshluti þessi skuli fundinn út. Á hann að reiknast út frá þeim tíma, sem iðgjöld hafa verið greidd. Í 1. mgr. 17. gr., sbr. 7. gr. laga nr. 47/1984, er fjallað um rétt þeirra, sem láta af störfum, er veita aðild að sjóðnum af öðrum ástæðum en elli eða örorku. Þar segir, að ellilífeyrir skuli miðast við þann starfstíma og þau laun, sem sjóðfélagi hafði, er hann lét af stöðu þeirri, sem veitti aðgang að sjóðnum, en hafi viðkomandi verið sjóðfélagi í 3 ár eða lengur miðast lífeyrir þó við launin eins og þau eru, þegar lífeyrisgreiðslur byrja.

Samkvæmt því, sem fram er komið, er við útreikning á lífeyrisrétti fylgt sömu reglum í meginatriðum hvort sem sjóðfélagi hættir störfum vegna aldurs eða örorku, eða af öðrum ástæðum, enda hafi viðkomandi þá verið sjóðfélagi 3 ár eða lengur. Þessar reglur er eðlilegast að skilja svo, að við nánari ákvörðun á því, við hvaða launaflokk eða launaþrep skuli miða lífeyrisgreiðslur við, beri að miða við þann flokk eða þrep, sem viðkomandi var í, þegar hann hætti störfum að teknu tilliti til þeirra breytinga, sem gerðar hafa verið á skipun hlutaðeigandi starfs í launaflokka eða launaþreps. Hins vegar veita þessar reglur ekkert svigrúm til að taka mið af persónubundnum launaflokkahækkunum eða þrepahækkunum, sem menn kynnu að hafa notið, ef þeir hefðu haldið starfinu áfram.

Eins og fyrr segir, er ekki að finna í lögunum neinar sérreglur um útreikning á lífeyri, þegar um er að ræða sjóðfélaga, sem orðið hafa fyrir því að staða þeirra hefur verið lögð niður og neytt hafa réttar samkvæmt 2. mgr. 17. gr. til að greiða áfram í sjóðinn og afla sér frekari réttinda. Ég tel því rétt að leggja tilvitnuð lagaákvæði til grundvallar, þegar ákveða á, við hvaða launaflokk eða launaþrep eigi að miða í slíkum tilfellum. Samkvæmt því tel ég, að við nánari ákvörðun á því, við hvaða launaflokk eða launaþrep beri að miða, sé ekki við annað að styðjast en raunverulegan starfsaldur yðar, og að ekki séu lagarök til þess að miða lífeyrisgreiðslur við þau laun, sem þér hefðuð fengið vegna lengri starfsaldurs, ef þér hefðuð haldið starfinu áfram.

Ekki kemur fram í gögnum málsins, hvernig háttað hefur verið útreikningi iðgjalda yðar til sjóðsins, að öðru leyti en því að viðmiðunin skyldi vera "varðstjóri í flugumferðarstjórn". Þetta er í samræmi við 2. mgr. 17. gr. laga nr. 29/1963, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 64/1955. Ekki liggur fyrir, að iðgjaldagreiðslur þessar hafi breyst til samræmis við þær launaflokka- eða þrepahækkanir, sem þér hefðuð notið, ef þér hefðuð gegnt starfinu áfram. Ég tel að þetta styðji enn frekar framangreinda niðurstöðu."

Ég tilkynnti því A að það væri niðurstaða mín, að ákvörðun stjórnar lífeyrissjóðsins frá 8. júní 1989, sbr. bréf frá 22. júní sama ár, gæfi ekki tilefni til athugasemda af minni hálfu.