Lífeyrismál. Launaviðmiðun við útreikning lífeyrisgreiðslna úr Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins.

(Mál nr. 348/1990)

Máli lokið með bréfi, 25. nóvember 1991.

A kvartaði yfir því, að lífeyrisgreiðslur til hans úr Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins væru miðaðar við laun fulltrúa héraðsdómara, en ekki laun héraðsdómara. Ég ritaði stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins bréf 30. nóvember 1990 og mæltist til þess, að stjórnin skýrði afstöðu sína til kvörtunar A og léti mér í té þau gögn, sem hana snertu. Erindi þessu var svarað með bréfi, dags. 26. febrúar 1991. Þar kom fram sú afstaða stjórnar sjóðsins, að starfssvið umboðsmanns tæki ekki til málefna Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. (Sjá einnig mál nr. 82/1989, bls. 56). Með bréfinu fylgdu engu að síður þau gögn, sem sjóðurinn hafði um málið, án þess að frekari skýringar fylgdu. Þrátt fyrir þessa afstöðu sjóðsstjórnar ákvað ég að fjalla áfram um málið.

A hafði verið sakadómari í 8 ár og 3 mánuði. Hann hafði gegnt setudómarastörfum í tilteknum málum, áður en hann varð dómari, og var þá dómarafulltrúi. Taldi A, að með setudómarastörfunum hefði hann fullnægt þeirri kröfu laga að hafa gegnt hinu hærra launaða starfi í a.m.k. 10 ár. Í bréfi sjóðsins til A, dags. 19. júní 1990, kom fram, að kröfu A um að fá greiddan lífeyri, sem miðaður væri við laun héraðsdómara, hefði verið hafnað, þar eð A teldist ekki uppfylla skilyrði 7. mgr. 12. gr. laga um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins nr. 29/1963 um að sjóðfélagi verði að hafa gegnt hinu hærra launaða starfi í a.m.k. 10 ár, enda fullnægðu setudómarastörf hans fyrir þann tíma ekki þeim skilyrðum, sem sett væru varðandi aðild að sjóðnum, sbr. 3. gr. laganna.

Í bréfi mínu til A, dags. 25. nóvember 1991, sagði m.a. svo:

"Ég skil kvörtun yðar svo, að þér teljið 10 ára regluna í 7. mgr. 12. gr. laga nr. 29/1963 eiga við yður, þar sem þér hafið í reynd gegnt störfum sakadómara lengur en þann tíma, sem þér voruð skipaðir í embætti. Byggist þessi afstaða yðar á því, að telja beri setudómarastörfin til þess tíma, sem þér gegnduð embætti sakadómara.

Ég tel, að tvö skilyrði verði að vera uppfyllt, til þess að fullnægt verði ákvæði 7. mgr. 12. gr. um 10 ára samanlagðan starfstíma. Í fyrsta lagi þarf að liggja fyrir, að umræddum setudómarastörfum hafi verið gegnt nægilega lengi til þess að þau, að viðbættum þeim tíma, sem þér voruð skipaðir í embætti sakadómara í Reykjavík, verði samanlagt a.m.k. 10 ár. Í öðru lagi er það skilyrði, að um hafi verið að ræða störf, sem uppfylla skilyrði 3. gr. laga nr. 29/1963 um aðild.

Í kvörtun yðar kemur fram, að þér voruð skipaðir setudómari í tveimur málum á árunum 1962 og 1963, en ekki liggur nánar fyrir hvenær þetta var gert og hversu langan tíma um var að ræða. Þá kemur fram, að með umboðsskrám, dags. 14. janúar og 24. febrúar 1964 voruð þér skipaðir sérstakur dómari til að rannsaka og dæma mál vegna meints misferlis í starfrækslu pósthússins [X]. Setudómarastarfi þessu lauk með dómi 29. janúar 1966. Hinn 1. ágúst 1964, þegar liðnir voru u.þ.b. sex mánuðir frá skipun yðar samkvæmt fyrrnefndum umboðsskrám, voruð þér skipaðir sakadómari í Reykjavík. Ég tel því samkvæmt framansögðu alls ekki ótvírætt, að þér hafið gegnt setudómarastörfum nægilega lengi til þess að þau, að viðbættum þeim tíma, sem þér voruð skipaðir sakadómari, nái samanlagt 10 árum, jafnvel þótt þau teldust uppfylla aðildarskilyrði 3. gr. laga nr. 29/1963.

Að því er síðara skilyrðið varðar, tel ég eðlilegt að skýra orðið "störfum" í 7. mgr. 12. gr. laga nr. 29/1963 svo, að átt sé við störf, sem uppfylla skilyrði 3. gr. laganna um aðild. Setudómarastörf þau, sem þér gegnduð, áður en þér voruð skipaðir sakadómari í Reykjavík, verða því að uppfylla skilyrði 3. gr. um aðild að sjóðnum. Samkvæmt 3. gr. laga nr. 29/1963, sbr. a-lið I. hluta, eru sjóðfélagar þessir:

"Allir þeir sem skipaðir eru, settir eða ráðnir í þjónustu ríkisins, ríkisstofnana eða atvinnufyrirtækja ríkisins með föstum launum, til ekki skemmri tíma en eins árs eða með minnst þriggja mánaða uppsagnarfresti, enda sé það starf þeirra aðalstarf og hlutaðeigandi taki ekki minna en hálf þau laun, er slíku starfi fylgja fyrir fullan vinnutíma."

Samkvæmt tilvitnuðu lagaákvæði verða störf þau, sem veita aðild að sjóðnum, að fullnægja ýmsum skilyrðum. Meðal skilyrða er að starfsmaður þiggi föst laun fyrir starfann, að ekki sé skipað, sett eða ráðið í starf til skemmri tíma en eins árs í senn eða með minnst þriggja mánaða uppsagnarfresti, og að um aðalstarf sé að ræða. Rétt er að fram komi, að þegar þér gegnduð setudómarastörfum á árunum 1962 og 1963 voru í gildi lög nr. 64/1955 um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Skilyrði þeirra laga um aðild að sjóðnum voru sambærileg við 3. gr. núgildandi laga og breyta engu um réttarstöðu yðar.

Skipunarbréf vegna setudómarastarfa á árunum 1962 og 1963 liggja ekki fyrir í málinu. Af kvörtuninni má þó ráða, að um hafi verið að ræða skipun í setudómarastörf til að rannsaka og dæma tiltekin mál. Skipun af því tagi rennur sjálfkrafa út, þegar verkefni því, sem um ræðir lýkur. Hið sama gildir um skipun yðar til setudómarastarfa 14. janúar og 24. febrúar 1964, en í bréfi, dags. 24. febrúar, sem fylgdi umboðsskránum, kemur skýrt fram, að þær tóku aðeins til rannsóknar og dómsuppkvaðningar í nánar tilgreindu máli. Þar var því ekki um að ræða skipun til fyrirfram ákveðins tíma né var þar mælt fyrir um sérstakan uppsagnarfrest. Venjan hefur verið og er sú, að fyrir slík störf er greidd þóknun samkvæmt reikningi úrskurðuðum af dómsmálaráðuneytinu. Í fyrrnefndu bréfi dómsmálaráðuneytisins frá 24. febrúar 1964 kemur m.a. skýrt fram, að þóknun fyrir það starf skyldi greidd úr ríkissjóði samkvæmt reikningi úrskurðuðum af ráðuneytinu. Samkvæmt þessu er ljóst, að þér fenguð ekki greidd föst laun fyrir störf yðar sem setudómari. Þá var ekki greitt sérstaklega til sjóðsins af þóknun yðar fyrir þau. Að síðustu skal bent á, að þegar þér gegnduð fyrrnefndum setudómarastörfum, voruð þér að aðalstarfi fulltrúi yfirsakadómara í Reykjavík og greidduð í Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins sem slíkur. Setudómarastörf verða því heldur ekki talin aðalstarf yðar á þessum tíma."

Í bréfi mínu til A tjáði ég honum, að þegar það væri virt, sem að framan væri rakið, teldi ég að setudómarastörf þau, sem hann var skipaður til að gegna, áður en hann var skipaður sakadómari, fullnægðu ekki aðildarskilyrðum 3. gr. laga nr. 29/1963. Í samræmi við það væri það niðurstaða mín, að ákvörðun stjórnar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins frá 15. júní 1990 um að miða lífeyrisgreiðslur til hans við laun dómarafulltrúa, gæfi ekki tilefni til athugasemda af minni hálfu.