Lögreglurannsókn. Meðferð og rannsókn kvartana á hendur lögreglumönnum.

(Mál nr. 308/1990)

Máli lokið með bréfi, dags. 29. júlí 1991.

A kvartaði yfir afskiptum lögreglunnar í Reykjavík af sér er hún var stödd í Nauthólsvík ásamt öðru fólki. Varðaði kvörtunin einkum framkomu lögreglumanns eins og afdrif myndavélar í eigu A.

Með bréfi, dags. 3. desember 1990, óskaði ég eftir ýmsum upplýsingum frá lögreglustjóranum í Reykjavík um meðferð og rannsókn kvartana á hendur einstökum lögreglumönnum vegna starfa þeirra. Í svarbréfi embættisins 9. desember 1990 sagði svo:

"Þegar fram eru bornar kærur eða kvartanir á starfsmenn lögreglunnar í Reykjavík, skal fjallað um þær skv. reglum lögreglustjóra frá 15. júlí 1988, en reglur þessar koma fram á bls. 27 í handbók lögreglumanna sem fylgir hjálagt.

Umkvartanir sem berast til yfirlögregluþjóns eru færðar í sérstaka bók, þar sem fram kemur dagsetning hvenær kvörtun kemur fram, númer lögregluskýrslu, nafn kæranda, fastanúmer lögreglumanns, eða lögreglumanna sem umkvörtunarefnið beinist að, kvörtunarefnið og afgreiðsla. Það sem af er þessu ári hafa borist 26 umkvörtunarefni. Í flestum tilvikum fer fram rannsókn, með ekki ósvipuðum hætti og við aðrar rannsóknir, svo sem með könnun eða yfirheyrslum, gagnaöflun og fleiru sem lýtur að því að reyna að upplýsa málavexti.

Um afgreiðslu slíkra kvörtunarefna er farið eftir 2. mgr. 7. gr. laga nr. 38/1954 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins."

Í bréfi mínu til lögreglustjórans í Reykjavík, dags. 29. júlí 1991, sagði m.a. svo:

"Ég hef ekki að svo stöddu athugasemdir fram að færa við ofangreindar reglur, miðað við núgildandi lög. Af þeim gögnum, sem fyrir mig hafa verið lögð, verður hins vegar ekki séð, að með mál [A] hafi verið farið til hlítar eftir þessum reglum. Í upphafi mun ekki hafa verið á hreinu, hvort ætlun [A] væri að bera fram kvörtun af umræddu tilefni. Að fengnu bréfi hennar til embættis yðar frá 23. júlí 1990, tel ég hins vegar að svo hafi verið. Tel ég að réttara hefði verið í framhaldi af því, að fylgja áðurnefndum reglum um meðferð og rannsókn kvartana á hendur lögreglumönnum.

Ég tek að lokum fram, að ég tel ekki vera grundvöll fyrir frekari athugun þessa máls af minni hálfu og hef ég í dag tilkynnt [A] það bréflega."