Málsmeðferð stjórnvalda. Úthlutun aflahlutdeildar. Svör við erindum.

(Mál nr. 371/1990)

Máli lokið með bréfi, dags. 29. ágúst 1991.

A bar fram kvörtun hinn 13. desember 1990 um að samstarfsnefnd skv. II. ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða hefði ekki veitt nein svör við bréfi sínu frá 5. júlí 1990, sem síðan hefði verið ítrekað 30. nóvember 1990. Í bréfum þessum var óskað eftir að úthlutun á aflahlutdeild til báts í eigu A yrði tekin til sérstakrar athugunar.

Í bréfi mínu til A, dags. 29. ágúst 1991, sagði m.a. svo:

"II. ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 38/1990 geymir fyrirmæli um úthlutun aflahlutdeildar í tilvikum sem því, er erindi yðar frá 5. júlí 1990 laut að, og um meðferð slíkra mála. Í [...] skýringum samráðsnefndarinnar frá 10. janúar 1991 er meðferð þessara mála lýst, þar á meðal úthlutun til umrædds báts yðar. Ég tel ekki ástæðu til athugasemda við málsmeðferð nefndarinnar en tek þó fram, að ég tel að réttara hefði verið, að nefndin hefði strax svarað bréfi yðar frá 5. júlí 1990 og þar vísað til þess, hvernig meðferð máls yðar yrði hagað. Af yðar hálfu hafa ekki komið fram athugasemdir við úthlutun aflahlutdeildar til m.b. [X] sem slíka."

Ég tjáði því A að samkvæmt því, er að framan greinir, teldi ég ekki ástæðu til frekari afskipta af málinu.