Mannanöfn. Mannsnafn ekki talið falla að lögum íslenskrar tungu.

(Mál nr. 458/1991)

Máli lokið með bréfi, dags. 18. nóvember 1991.

A kvartaði yfir ákvörðun sem deildarráð heimspekideildar Háskóla Íslands tók hinn 16. maí 1991 um að sonur hans fengi ekki að bera mannsnafnið "Neptúnus". Í bréfi mínu til A, dags. 18. nóvember 1991, benti ég á að í 4. gr. laga nr. 54/1925 um mannanöfn segði svo:

"Ekki mega menn bera önnur nöfn en þau sem rétt eru að lögum íslenskrar tungu. Prestar skulu hafa eftirlit með, að þessum ákvæðum sé fylgt. Rísi ágreiningur um nafn, sker heimspekideild háskólans úr."

Þá benti ég á, að í niðurstöðu heimspekideildar Háskóla Íslands væri tekið fram, að nafnið félli ekki vel að íslensku máli sem mannsnafn. Einnig segði þar, að nafnið Neptúnus hefði ekki svo vitað væri verið notað sem eiginnafn, enda væru latnesk goðanöfn samkvæmt hefð ekki notuð hér á landi og ekki væri ástæða til þess að innleiða slík nöfn. Þá sagði í bréfi mínu:

"Það er skoðun mín, að ekki verði talin ólögmæt sú niðurstaða heimspekideildar Háskóla Íslands, að nafnið Neptúnus falli ekki að lögum íslenskrar tungu og eigi sér enga hefð í málinu. Skiptir þar ekki máli, þótt nafnið sé ekki með öllu óþekkt hér á landi.

Í kvörtun yðar gagnrýnið þér það sjónarmið, er fram kemur í rökstuðningi heimspekideildar, að hætta sé á "að dreng yrði strítt með þessu fágæta og óvenjulega nafni, t.d. með gælunafninu Nebbi". Fallast má á það, að úrlausn þessa máls hafi ekki samkvæmt þágildandi lögum getað byggst á þessu sjónarmiði, enda var heimspekideild samkvæmt 4. gr. laga nr. 54/1925 um mannanöfn eingöngu ætlað að úrskurða um það hvort nafn var "rétt... að lögum íslenskrar tungu". Þar sem niðurstaða heimspekideildar var hins vegar jafnframt reist á atriði, sem úrslitum skyldi ráða og deildin átti úrlausnarvald um, þá tel ég, að þessi annmarki haggi ekki við gildi umræddrar ákvörðunar heimspekideildar, eins og hér stendur á.

Þá tel ég rétt að taka fram, að samkvæmt 4. gr. laga nr. 54/1925 var heimspekideild Háskóla Íslands falið að úrskurða í ágreiningi, sem kynni að rísa um það, hvort nafn félli að lögum íslenskrar tungu. Með þessu var leitast við að tryggja að ágreiningsmál af því tagi yrðu ekki til lykta leidd, nema að undangenginni umfjöllun sérfræðinga um íslenskt mál. Þetta fyrirkomulag gefur ekki tilefni til athugasemda af minni hálfu."

Ég tjáði því A, að með vísan til ofangreindra reglna væri það niðurstaða mín, að eigi hefði verið brotið gegn íslenskum lögum, er synjað var um að sonur hans fengi að halda nafninu Neptúnus. Teldi ég því ekki vera grundvöll fyrir frekari afskiptum mínum af málinu.