Byggingar- og skipulagsmál. Ógilding byggingarleyfis.

(Mál nr. 446/1991)

Máli lokið með bréfi, dags. 29. júlí 1991.

A kvartaði yfir veitingu leyfis til byggingar sólskýlis ofan á 3. hæð hússins X. Í bréfi mínu til A, dags. 29. júlí 1991, tjáði ég A að ég hefði kannað gögn málsins og gæti fallist á þá gagnrýni, sem fram kæmi í bréfi umhverfisráðuneytisins til A á meðferð málsins af hálfu byggingaryfirvalda í Reykjavík. Skoðun mín væri hins vegar sú, að samkvæmt almennum reglum um stjórnarathafnir varði gallar á málsmeðferð við veitingu byggingarleyfis ekki fortakslaust ógildingu byggingarleyfis. Aðeins verulegir ágallar að þessu leyti gætu leitt til þeirrar niðurstöðu, en slíkt væri ávallt nokkurt matsatriði. Með hliðsjón af þessum reglum stjórnsýsluréttar taldi ég þá ákvörðun umhverfisráðuneytisins, að synja um ógildingu umrædds byggingarleyfi, eigi hafa verið ólögmæta eða farið í bága við vandaða stjórnsýsluhætti. Taldi ég því ekki ástæðu til frekari umfjöllunar um málið.