Samningar við önnur ríki. Ákvörðun launakjara íslenskra starfsmanna varnarliðsins. Kaupskrárnefnd.

(Mál nr. 293/1990)

Máli lokið með bréfi, dags. 6. maí 1991.
Bifreiðastjórafélagið A kvartaði yfir þeirri ákvörðun Kaupskrárnefndar að synja beiðni félagsins um endurskoðun þeirrar viðmiðunar, sem nefndin hafði lagt til grundvallar ákvörðun á launakjörum til félagsmanna í A og því, að Kaupskrárnefnd hefði synjað félaginu um túlkun á samningsrétti félagsins og rétti þess til þess að boða til verkfalla og halda uppi verkfallsvörslu. Í bréfi til A taldi umboðsmaður, að ekki væri ástæða til þess að gera athugasemdir við þá skipan, sem styddist við framkvæmd í áratugi, að fela sérstakri nefnd, Kaupskrárnefnd, þá skyldu, er hvíldi á íslenska ríkinu á grundvelli 4. tl. 6. gr. varnarsamnings milli Íslands og Bandaríkjanna, sem veitt var lagagildi með lögum nr. 110/1951, sbr. og hrd. 1966:100, að senda yfirstjórn varnarliðsins fullnægjandi skýrslur um ráðningarkjör þeirra, sem ynnu fyrir íslenska aðila sams konar störf, sem starfsmenn vinna fyrir varnarliðið. Umboðsmaður tók fram, að í raun hefði Kaupskrárnefnd í störfum sínum úrskurðað um launakjör starfsmanna varnarliðsins. Í bréfi sínu til A tók umboðsmaður ennfremur fram, að ekki hefði annað komið fram, en að undirbúningur nefndarinnar að ákvörðun sinni hafi verið viðhlítandi. Athugun sín hefði heldur ekki leitt í ljós, að nefndin hefði byggt ákvörðun sína á röngum eða ófullnægjandi upplýsingum eða þar lagt til grundvallar ólögmætar ályktanir af þeim gögnum, sem fyrir lágu. Loks tók umboðsmaður fram í bréfi sínu, að launakjör félagsmanna í A tækju mið af kjörum manna, sem sambærileg störf ynnu, og að ekki yrði ráðið, að við ákvörðun nefndarinnar skipti máli, hvort um verkfallsrétt félagsmanna A væri að ræða eða ekki. Í tilefni af athugun umboðsmanns á kvörtun A ritaði hann utanríkisráðuneytinu bréf, þar sem hann lýsti þeirri skoðun sinni, að ástæða væri til að taka til athugunar, hvort ekki væri rétt að setja reglur um Kaupskrárnefnd, starfssvið hennar og starfshætti, þ. á m. um meðferð gagna fyrir nefndinni og aðgang aðila að þeim.

Hinn 2. maí 1990, barst mér kvörtun frá Bifreiðastjórafélaginu A. Málavextir voru þeir, að með bréfi, dags. 5. maí 1988, fór Bifreiðastjórafélagið A þess á leit, að Kaupskrárnefnd endurskoðaði þær forsendur, sem byggt hefði verið á til þess tíma við ákvörðun launa félagsmanna og að miðað yrði við launakjör bifreiðastjóra hjá Sérleyfisbifreiðum Keflavíkur í stað launakjara bifreiðastjóra hjá Strætisvögnum Reykjavíkur. Ástæða fyrir beiðni félagsins var sú, að það taldi, að ekki væri lengur með öruggum hætti hægt að miða launakjör félagsmanna í A við kjör bifreiðastjóra hjá Strætisvögnum Reykjavíkur. Í bréfi Kaupskrárnefndar frá 16. september 1988 til varnarmálanefndar sagði vegna máls þessa m.a.:

"Kaupskrárnefnd hefur á fundi sínum í dag fjallað um kjaramál framangreindra bifreiðastjóra. Kaupskrárnefnd telur, með hliðsjón af bráðabirgðalögum nr. 14, frá 20. maí sl., að óheimilt sé að breyta grundvallarviðmiðunum starfskjara frá því sem nú er. Nefndinni er því aðeins heimilt að endurskoða launakjör með tilliti til breytinga sem orðið hafa á kjörum viðmiðunarstéttarinnar, sem í þessu tilviki eru vagnstjórar hjá Strætisvögnum Reykjavíkur.

Nefndin hefur orðið þess áskynja að vagnstjórar hjá Strætisvögnum Reykjavíkur hafa frá því 1. janúar 1986 fengið greidda 12 tíma, sem hver um sig svarar til 1% af mánaðarlaunum, til viðbótar greiðslu fyrir unninn tíma.

Nefndin telur að umræddir bifreiðastjórar, sem eru allir innan Bifreiðastjórafélagsins [A], hefðu átt að njóta þessara kjara frá sama tíma og beri því að leiðrétta kjör þeirra með tilliti til þess.

Kaupskrárnefnd væntir þess að Varnarmálanefnd tilkynni réttum aðilum þessa ákvörðun."

Hinn 30. maí 1989 ítrekaði A fyrri tilmæli sín um breytta viðmiðun. Í svarbréfi Kaupskrárnefndar, dags. 26. september 1989, kom meðal annars fram, að nefndin hefði látið gera ítarlegan samanburð á kjörum og vinnutíma bifreiðastjóra hjá A og hjá Strætisvögnum Reykjavíkur og Sérleyfisbifreiðum Keflavíkur og væri niðurstaða nefndarinnar sú, að ekki væru rök til fyrir því, að verða við beiðni félagsins. A óskaði eftir því á árinu 1990, að Kaupskrárnefnd tæki fyrri ákvörðun sína til endurskoðunar. Í bréfum nefndarinnar til A sagði, að fyrri afstaða hennar frá 26. september 1989 væri enn óbreytt.

Í bréfi, er ég ritaði utanríkisráðuneytinu 23. júlí 1990, óskaði ég eftir því, að ráðuneytið léti mér í té upplýsingar um málið. Sérstaklega óskaði ég upplýsinga um verksvið Kaupskrárnefndar, á hvaða lagagrundvelli hún starfaði og hvort settar hafi verið eða mótaðar reglur um skipan hennar og verksvið. Upplýsingar ráðuneytisins bárust mér með bréfi þess, dags. 26. september 1990, þar sem vísað var til meðfylgjandi gagna, þ. á m. bréfs Kaupskrárnefndar frá 24. september 1990, en ég hafði einnig óskað eftir því við Kaupskrárnefnd, að nefndin léti mér í té gögn málsins. Í bréfi Kaupskrárnefndar kom m.a. fram:

"...Samkomulag varð um það hinn 9. október 1952, milli félagsmálaráðuneytisins og varnarmálanefndar þeirrar, sem þá starfaði, þ.e. árunum 1953-1955, að félagsmálaráðuneytið skyldi í samráði við Alþýðusamband Íslands og Vinnuveitendasamband Íslands, endurskoða þær reglur um kaup og kjör, sem þá var farið eftir á Keflavíkurflugvelli. Ástæðan fyrir því, að félagsmálaráðuneytið hafði forgöngu í þessu máli var einfaldlega sú, að það ráðuneyti hefur frá stofnun þess, á árinu 1946, m.a. farið með málefni er varða stéttarfélög launþega og atvinnurekenda, vinnudeilur og sáttastörf í vinnudeilum.

Í framhaldi af fyrrnefndu samkomulagi félagsmálaráðuneytisins og "gömlu" varnarmálanefndarinnar, ritaði ráðuneytið 11. október 1952 A.S.Í. og V.S.Í. bréf þar sem þess var óskað að samböndin tilnefndu hvort um sig einn mann til þess, ásamt fulltrúa félagsmálaráðuneytisins "að endurskoða þær reglur um kaup og kjör, sem þá var farið eftir hjá varnarliðinu og erlendum verktökum á þess vegum á Keflavíkurflugvelli og færa þær til samræmis við kaup og kjör við sambærileg störf í Reykjavík".

Er ráðuneytinu hafði borist tilnefningar A.S.Í. og V.S.Í. var framkvæmd ofangreinds verkefnis falin þriggja manna nefnd, sem fékk nafnið Kaupskrárnefnd.

Kaupskrárnefnd þessi hefur starfað óslitið frá því í októbermánuði 1952 til þessa dags, að undanskildu tímabilinu október 1988 til maíloka 1989, sem var af ástæðum, sem ekki verða raktar hér.

Til frekari upplýsinga um tilurð og starfssvið Kaupskrárnefndar skal eftirfarandi tekið fram:

Í 4. tölulið 6. gr. viðbætis um réttarstöðu liðs Bandaríkjanna og eignir þeirra, sem hefur lagagildi, sbr. 1. gr. laga nr. 110 19. desember 1951, segir svo:

"Bandaríkin æskja þess að ráða hæfa íslenzka borgara, eftir því sem föng eru á til starfa í sambandi við samning þennan. Að svo miklu leyti sem Ísland kann að samþykkja ráðningu íslenzkra borgara til starfa hjá liði Bandaríkjanna, skal slík starfsráðning framkvæmd með aðstoð og um hendur þess eða þeirra fyrirsvarsmanna, sem af Íslands hálfu eru til þess kvaddir. Ráðningarkjör og vinnuskilyrði, einkum vinnulaun, launauppbætur og öryggisráðstafanir við vinnu, skulu fara að íslenzkum lögum og venjum."

Til þess að koma upplýsingum um "ráðningarkjör og vinnuskilyrði, einkum vinnulaun, launauppbætur og öryggisráðstafanir við vinnu" sem "skulu fara að íslenzkum lögum og venjum" eins og segir í niðurlagi ofangreinds 4. tl. 6. gr. viðbætis um réttarstöðu liðs Bandaríkjanna og eignir þeirra, var Kaupskrárnefnd skipuð í október 1952 og var það gert eins og áður segir að eindregnum tilmælum varnarliðsins og í samráði við utanríkis- og félagsmálaráðuneytin. Allt frá stofndegi Kaupskrárnefndar hafa átt í henni sæti fulltrúar tilnefndir af Alþýðusambandi Íslands og Vinnuveitendasambandi Íslands, auk formanns, sem skipaður er af ráðherra og hefur verið hinn sami frá stofndegi.

Lengst af hafa forseti Alþýðusambands Íslands og framkvæmdastjóri Vinnuveitendasambands Íslands átt sæti í nefndinni, enda hafa bæði samböndin frá upphafi talið störf nefndarinnar mjög nauðsynleg og mikilvæg.

Eins og segir í 2. lið í þeim kafla handbókar utanríkisráðuneytisins, sem fjallar um nefndir, skipaðar af utanríkisráðherra, er Kaupskrárnefnd skipuð af ráðherra "til að skrá gildandi kaupgjald í landinu á hverjum tíma, og sjá um, að erlendir vinnuveitendur á Keflavíkurflugvelli fái vitneskju um það".

Það gefur að skilja að ástæðan fyrir stofnun og starfsemi Kaupskrárnefndar, er ákvæði það í niðurlagi 4. tl. 6. gr. viðbætis við Varnarsamninginn frá 1951, sem um er fjallað hér að framan.

Kaupskrárnefnd er sá aðili, sem í 38 ár hefur séð um og borið ábyrgð á, að Íslendingar, sem vinna hjá varnarliðinu eða öðrum erlendum aðilum á Keflavíkurflugvelli, fái og hafi fengið kaup og kjör og notið þess öryggis á vinnustað, sem venjur, íslensk lög og kjarasamningar hafa mælt fyrir um á hverjum tíma.

Þess má að lokum geta, að varnarliðið hefur ekki gert kjarasamninga við stéttarfélög starfsmanna sinna. Sú staðreynd er ein af meginástæðum fyrir stofnun Kaupskrárnefndar á árinu 1952. Kaupskrárnefnd var skipuð af félagsmálaráðherra og heyrði undir félagsmálaráðuneytið frá því í október 1952 þar til lög nr. 106, 17. desember 1954 um yfirstjórn mála á varnarsvæðum o.fl. gengu í gildi, en frá þeim tíma hefur hún verið skipuð af utanríkisráðherra og starfað á vegum utanríkisráðuneytisins.

Í úrskurði sínum hefur Kaupskrárnefnd alla tíð leitast við að tryggja að starfsmenn varnarliðsins nytu hliðstæðra kjara og almennt gerist í sömu eða hliðstæðum störfum utan vallarsvæðisins.

Oftast miðast samanburðurinn við fleiri en einn hóp með mismunandi launakerfi og réttindi. Sjaldan getur verið um beina og ótvíræða tilvísun að ræða. Sú regla hefur gilt að kjörum er því aðeins breytt að allir nefndarmenn séu því sammála.

Varðandi mál [A] sérstaklega var árin 1988 og 1989 gerður ítarlegur samanburður við kjör strætisvagnabílstjóra í Reykjavík og hjá Sérleyfisbifreiðum Keflavíkur. Á árinu 1988 ákvað nefndin að bifreiðastjórar í [A] skyldu fá 12 klukkustunda yfirvinnu á mánuði frá 1. janúar 1986 til samræmis við vagnstjóra SVR.

Í bréfi nefndarinnar frá 26. september 1989 segir að nefndin telji, að vel athuguðu máli, að engin efni standi til að gera breytingar á viðmiðunarstarfshópi umræddra bifreiðastjóra frá því sem nú er. Ennfremur var niðurstaða nefndarinnar að ekki væru rök fyrir þeirri sérstöku hækkun launa sem [A] gerði kröfu um.

Vegna tveggja bréfa frá [A] á þessu ári fór nefndin enn yfir málið allt og eins og bréf hennar 14. febrúar og 13. júlí bera með sér var afstaða hennar óbreytt.

Kaupskrárnefnd hefur ekki haft tilefni til þess að taka afstöðu til verkfallsréttar starfsmanna varnarliðsins. Fulltrúi ASÍ vill taka fram að hann telji ótvírætt að starfsmenn varnarliðsins hafi verkfallsrétt."

Hinn 25. febrúar 1991 tilkynnti ég A, að ég hefði ákveðið að afla frekari upplýsinga um störf Kaupskrárnefndar, meðal annars um niðurstöðu í bréfum nefndarinnar til A, dags. 26. september 1989 og 14. febrúar 1990. Af því tilefni boðaði ég Kaupskrárnefnd á fund á skrifstofu minni 12. mars 1991. Í framhaldi af þeim fundi ritaði nefndin mér bréf, dags. 25. mars 1991, þar sem fram kom, að í ágústmánuði 1989 hefði á vegum nefndarinnar verið unnið að samanburði á kjörum og vinnutíma bifreiðastjóra hjá A og hjá bifreiðastjórum Strætisvagna Reykjavíkur og Sérleyfisbifreiða Keflavíkur. Með bréfi nefndarinnar fylgdu niðurstöður samanburðarins, sem kynntur var Kaupskrárnefnd í september 1989.

Í niðurstöðum bréfs míns til A, dags. 6. maí 1991, sagði svo:

"Samkvæmt 4. tl. 6. gr. viðbætis við varnarsamning milli Íslands og Bandaríkjanna, sem veitt var lagagildi með lögum nr. 110/1951, fer ráðning íslenskra ríkisborgara til starfa hjá varnarliðinu "með aðstoð og um hendur þess eða þeirra fyrirsvarsmanna, sem af Íslands hálfu eru til þess kvaddir. Ráðningarkjör og vinnuskilyrði einkum vinnulaun, launauppbætur og öryggisráðstafanir við vinnu, skulu fara að íslenskum lögum og venjum". Í dómi Hæstaréttar frá 17. febrúar 1966 (hrd. 1966:100) kemur fram, að af framangreindu ákvæði varnarsamningsins og úrlendisrétti varnarliðsins leiði, að íslenska ríkið beri ábyrgð á því, að yfirstjórn varnarliðsins berist fullnægjandi skýrslur um ráðningarkjör þeirra manna, sem vinna fyrir íslenska aðila sams konar störf sem starfsmenn vinna fyrir varnarliðið. Kaupskrárnefnd hefur verið falið að rækja þessa skyldu íslenska ríkisins. Í raun hefur Kaupskrárnefnd úrskurðað um launakjör íslenskra starfsmanna varnarliðsins. Sú skipan, sem nú styðst við framkvæmd í áratugi, að fela sérstakri nefnd, Kaupskrárnefnd, að rækja umræddan þátt í skyldum íslenska ríkisins samkvæmt varnarsamningnum, gefur ekki tilefni til athugasemda af minni hálfu. Ég tel þó, eins og kemur fram í bréfi mínu til utanríkisráðuneytis, sem ég sendi ráðuneytinu í dag og hér fylgir í ljósriti, að ástæða sé til að taka til athugunar, hvort ekki sé rétt að setja reglur um Kaupskrárnefnd, starfssvið hennar og starfshætti, þar á meðal um meðferð gagna fyrir nefndinni og aðgang aðila að þeim.

Ég tel, að samkvæmt ofangreindu ákvæði í viðbæti við varnarsamninginn sé Kaupskrárnefnd ekki fortakslaust skylt að taka mið af einum tilteknum kjarasamningi, ef fleiri slíkum samningum sambærilegra starfsmanna er til að dreifa. Vegna umræddra óska A aflaði Kaupskrárnefnd gagna og aflaði útreikninga, er sýndu samanburð á launakjörum vagnstjóra hjá Strætisvögnum Reykjavíkur og bifreiðastjóra hjá Sérleyfisbifreiðum Keflavíkur. Er ekki annað komið fram en að undirbúningur nefndarinnar að ákvörðun sinni hafi að þessu leyti verið viðhlítandi. Athugun mín hefur heldur ekki leitt í ljós, að nefndin hafi byggt ákvörðun sína á röngum eða ófullnægjandi upplýsingum eða þar lagt til grundvallar ólögmætar ályktanir af gögnum þeim, sem fyrir lágu. Umrædd ákvörðun um launakjör tekur mið af kjörum manna, sem sambærileg störf vinna, og er það álit mitt, að ekki verði ráðið af gögnum málsins, að við þá ákvörðun skipti máli, hvort um verkfallsrétt félaga í A er að ræða eða ekki. Verður Kaupskrárnefnd því hvorki af þeirri eða öðrum ástæðum krafin um úrlausn um það atriði.

Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða mín, að ekki sé tilefni til þess að ég hafi frekari afskipti af máli þessu."

Með bréfum, dags. 6. maí 1991, tilkynnti ég Kaupskrárnefnd og utanríkisráðherra framangreinda niðurstöðu mína. Ég taldi þó, að utanríkisráðuneytið ætti að taka til athugunar, hvort ekki væri rétt að setja reglur um Kaupskárnefnd, starfssvið hennar og starfshætti, þ. á m. um meðferð gagna fyrir nefndinni og aðgang aðila að þeim. Kom ég þessum tilmælum á framfæri í samræmi við 11. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis.