Skattar og gjöld. Vextir og verðbætur af ofgreiddu skattfé.

(Mál nr. 174/1989)

A kvartaði yfir því, að fjármálaráðuneytið hefði ekki fallist á ósk hans um greiðslu vaxta og verðbóta af inneign, er myndast hafði á gjaldareikningi hans hjá Gjaldheimtunni í Reykjavík. Fram að álagningu í júlí 1988 og í júlí 1989 var A gert að greiða fyrirfram hluta af væntanlegum sköttum sínum utan staðgreiðslu og af því tilefni krafðist Gjaldheimtan þess, að Launaskrifstofa ríkisins héldi eftir af launum A, auk þess sem greiðslur bárust frá honum. Af hálfu Gjaldheimtunnar var gerð grein fyrir því, af hvaða fjárhæð A hefðu verið reiknaðir inneignarvextir og hvernig sú fjárhæð væri ákvörðuð. Taldi stofnunin framkvæmd sína vera í samræmi við lög, sbr. m.a. 2. mgr. 112. gr. laga nr. 75/1981. Fjármálaráðuneytið gerði grein fyrir leiðbeiningarreglum, er m.a. vörðuðu greiðslu vaxta. Fram kom af hálfu fjármálaráðuneytis, að tilkynningar til gjaldenda, þar sem inneignir kæmu fram í samræmi við stöðuyfirlit, væru sendar tvisvar á ári, í janúar og júlí. Ekki væri tekið fram í tilkynningunni, hvernig færi um inneignir eða getið möguleika til að fá þær greiddar, en lagt væri til grundvallar, að gjaldendum væri ljóst, að þeir gætu vitjað fjárins. Vextir væru greiddir fyrir það tímabil, sem inneignarfé væri í vörslum ríkissjóðs og gjaldendum ekki tilkynnt um inneignina en ekki fyrir þann tíma, sem féð lægi í vörslum ríkissjóðs með vitund gjaldenda, þ.e. eftir að þeim hefði verið tilkynnt um inneign. Ráðuneytið upplýsti, að inneignartékkar væru ekki sendir út í janúar heldur einungis við álagningarlok. Fjármálaráðuneytið gerði grein fyrir mismunandi reglum um vexti og verðbætur af ofgreiddum sköttum eftir því, hvort um væri að ræða staðgreiðsluskatta eða skatta utan staðgreiðslu, en A hafði haldið því fram, að lög gerðu ekki mun á þessu.
Af hálfu fjármálaráðuneytisins kom fram, að framvegis yrðu ákvæði 2. mgr. 112. gr. laga nr. 75/1981, sbr. 17. gr. laga nr. 49/1987, skýrð þannig, að vextir yrðu greiddir allan þann tíma sem inneignarfé væri í vörslu ríkissjóðs, enda væri fyrri skýring ráðuneytisins umdeilanleg, og jafnframt yrði farið að senda hlutaðeigendum inneignartékka í janúar og hefði ríkisbókhaldi verið falin sú framkvæmd. Jafnframt kom fram, að ríkisbókhaldi hefði verið falið að greiða A vexti af inneign sinni á grundvelli breyttrar afstöðu ráðuneytisins. A tjáði umboðsmanni síðar, að honum hefði verið tilkynnt að honum hefðu verið reiknaðir nefndir inneignarvextir og liti hann því svo á, að hann hefði fengið leiðréttingu á máli sínu. Þar sem A höfðu verið reiknaðir inneignarvextir fyrir þann tíma, er inneign hans var í vörslum ríkissjóðs, og hann talið sig hafa fengið úrlausn máls síns, sá umboðsmaður ekki ástæðu til sérstakra athugasemda út af þessu kvörtunarefni A. Í niðurstöðum sínum tók umboðsmaður fram, að hann tæki ekki afstöðu til þess, hvernig útreikningi á inneignarvöxtum til A hefði verið hagað. Þá tók umboðsmaður fram, að sú afstaða fjármálaráðuneytisins að greiða A ekki verðbætur af inneign hans hefði verið í samræmi við lög. Umboðsmaður tók undir breytta skýringu fjármálaráðuneytisins á fyrirmælum 2. mgr. 112. gr. laga nr. 75/1981, sbr. 17. gr. laga nr. 49/1987, um það að greiða skuli vexti "...allan þann tíma sem inneignarfé er í vörslu ríkissjóðs". Beindi umboðsmaður þeim tilmælum til fjármálaráðuneytisins að það sæi til þess, að fylgt yrði eftir breyttri skýringu ráðuneytisins á framangreindum lagareglum við innheimtu þeirra skatta, er þær tækju til.

I. Kvörtun.

Hinn 6. september 1989 leitaði A til mín og kvartaði yfir því, að fjármálaráðuneytið hefði ekki fallist á ósk hans um greiðslu vaxta og verðbóta af inneign, er myndast hafði á gjaldareikningi hans hjá Gjaldheimtunni í Reykjavík.

II. Málavextir.

Málavextir voru þeir, að á árunum 1988 og 1989 fékk A greidd laun frá Launaskrifstofu ríkisins, auk þess sem hann hafði tekjur af eigin atvinnurekstri. Fram að álagningu í júlí 1988 og í júlí 1989 var A gert að greiða fyrirfram hluta af væntanlegum sköttum sínum. Af því tilefni óskaði Gjaldheimtan í Reykjavík eftir því, að Launaskrifstofa ríkisins héldi eftir af launum A, auk þess sem greiðslur bárust einnig frá A. Í janúar 1989 sendi Gjaldheimtan A gjaldheimtuseðil 1 vegna gjalda hans utan staðgreiðslu. Kom þar fram, að 23. janúar 1989 hefði A átt inni hjá Gjaldheimtunni kr. 234.370,-. Á seðlinum kom ennfremur fram, hvaða greiðslur A skyldi inna af hendi fram að álagningu 1989. Eftir að A barst nefndur gjaldheimtuseðill, kvaðst hann hafa snúið sér til Gjaldheimtunnar í Reykjavík með ósk um að fá inneign sína greidda ásamt vöxtum og verðbótum. Gjaldheimtan í Reykjavík svaraði málaleitun A með svohljóðandi bréfi, dags. 14. júní 1989:

"Að beiðni yðar skal hér með staðfest, að inneign yðar hjá Gjaldheimtunni nemur kr. 376.054,- pr. 14. júní 1989 og er að sjálfsögðu til útborgunar þegar þér óskið.

Um greiðslu vaxta af inneign sem myndast á gjaldareikningi utan staðgreiðslu gilda ákvæði 2. mgr. 112. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 2. mgr. [41.] gr. laga nr. 73/1980 um tekjustofna sveitarfélaga. Með hliðsjón af því hvernig inneign á gjaldareikningi yðar er til orðin verður ekki séð að þessar reglur eigi við og er ljóst að Gjaldheimtan telur sér ekki heimilt að greiða vexti eða verðbætur af inneigninni.

..."

Vegna framangreindra svara Gjaldheimtunnar leitaði A til fjármálaráðuneytisins og óskaði eftir því, að sér yrðu greiddar verðbætur og vextir af inneign sinni. Í svarbréfi fjármálaráðuneytis frá 28. ágúst 1989 sagði svo:

"Ráðuneytið leitaði nánari upplýsinga og umsagnar Gjaldheimtunnar í Reykjavík um málefni yðar, með bréfi dags. 3. ágúst 1989.

Ekki verður annað séð af fyrirliggjandi gögnum en að Gjaldheimtan hafi greitt þá vexti af inneign yðar sem heimilt er að greiða samkvæmt 2. mgr. 112. gr. laga nr. 75/1981, sbr. 2. mgr. [41.] gr. laga nr. 73/1980. Engin heimild er í lögum til þess að greiða vexti eða verðbætur af inneignum sem verða til utan staðgreiðslu, umfram það sem kveðið er á um í nefndum lagagreinum.

Ráðuneytið tekur því undir þá niðurstöðu sem fram kemur í hjálagðri umsögn Gjaldheimtunnar í Reykjavík, frá 16. ágúst 1989."

Tilvitnuð umsögn Gjaldheimtunnar frá 16. ágúst 1989 er svohljóðandi:

"Gjaldheimtunni hefur borist bréf ráðuneytisins, dags. 03.08.1989, þar sem óskað er nánari upplýsinga um bréf til [A], dags. 14.06.1989 og þá einkum það, hvað við sé átt með orðunum "með hliðsjón af því hvernig inneign á gjaldareikningi yðar er til orðin".

Af þessu tilefni skal eftirfarandi tekið fram:

Gjaldandi er á launaskrá hjá ríkissjóði og hafa launaskrifstofu ríkisins verið sendar kröfur um afdrátt af launum eins og álagning og ákvörðun um fyrirframgreiðslu hefur sagt til um á hverjum tíma.

Fyrirframgreiðsla gjaldanda var ákvörðuð kr. 63.500.- 1988 og átti að greiða þá fjárhæð með kr. 12.700.- pr. mánuð febr.-júní 1988. Greiddar voru kr. 88.900.- eða kr. 12.700.- umfram tilskylda fjárhæð. Frá launaskrifstofu bárust á þessu tímabili kr. 104.855.- en 11.02.1988 voru gjaldanda endurgreiddar kr. 28.655.- sem ofteknar voru 04.01.1988. Umframgreiðslan kr. 12.700.- barst hingað í gíró 07.03.1988, þ.e. frá gjaldanda sjálfum. Álagning 1988 nam kr. 1.156.325.- og þegar frá hafði verið dregin fyrirframgreiðsla kr. 88.900.- námu eftirstöðvar kr. 1.067.425.- og var sú krafa send launaskrifstofu 16.07.1988, [...]. Mánaðargreiðsla frá ágúst-des. átti samkvæmt þessu að vera kr. 213.485.- Frá launaskrifstofu bárust á þessu tímabili kr. 234.370.- Frá gjaldanda bárust í gíró frá álagningu og fram til 09.01.1989 kr. 1.067.425.- þ.e. sú fjárhæð sem eftir stóð af álagningu pr. 16.07.1988.

Þegar gjaldheimtuseðill 1 1989 var sendur út í janúar var gjaldanda tilkynnt um inneign kr. 234.370.- Fyrirframgreiðsla 1989 var ákvörðuð kr. 120.400.- [...] eða kr. 24.080.- mánuðina feb-júní. Frá launaskrifstofu bárust á þessu tímabili kr. 165.764.- eða kr. 45.364.- umfram tilskylda greiðslu og hafa þarna átt sér stað einhver mistök sem undirritaður kann ekki skil á. Auk þessa greiddi gjaldandi sjálfur á þessu tímabili kr 96.320.- en kr. 59.140.- fékk hann endurgreiddar 12.07.1989 [...]. Fyrirframgreiðsla 1989 nam því kr. 202.944.- og að viðbættum áðurgreindum kr. 234.370.- var heildargreiðslan upp í gjöld utan staðgreiðslu 1989 kr. 437.314.- pr. 10.07 1989 þegar álagning var skuldfærð. Álagning utan staðgreiðslu nam kr. 375.025.- og hafði gjaldandi þá greitt kr. 62.289.- umfram endanlega álagða skatta. Af þeirri fjárhæð voru reiknaðir inneignarvextir kr. 4.938.- í samræmi við ákvæði 2. mgr. 112. gr. laga nr. 75/1981, sbr. 2. mgr. [41.] gr. laga nr. 73/1980, og sendir gjaldanda með tékka pr. 01.08 1989.

Eins og fram kemur í bréfi Gjaldheimtunnar til [A], dags. 14.06 1989, telur hún sér ekki heimilt að greiða vexti eða verðbætur af inneignum sem verða til á reikningum utan staðgreiðslu, umfram það sem kveðið er á um í áðurnefndum lagagreinum. Rétt er að minna á, að Gjaldheimtan gerði á engu stigi málsins kröfu, hvorki til gjaldanda sjálfs né heldur launagreiðanda, um greiðslur umfram það sem álagning og e.a.ákvörðun um fyrirframgreiðslu sagði til um. Gjaldanda mátti vera ljós greiðslustaða sín á hverjum tíma bæði af kvittunum og tilkynningu á gjaldheimtuseðli í janúar 1989 og er ekki ljóst hvaða ástæður lágu til þess að inneignar var ekki vitjað þá.

Þess er vænst að ljóst sé af því sem hér hefur verið rakið, hvað átt er við með tilvitnuðum orðum í bréfi dags. 14.06 1989."

Kvörtun sína studdi A þeim rökum, að skattaðili ætti rétt á vöxtum og verðbótum af inneign sinni hjá ríkinu á sama hátt og yfirvöld innheimtu dráttarvexti af gjaldföllnum sköttum. A féllst ekki á, að skv. 112. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, væri gerður munur á inneign, sem yrði til í staðgreiðslu og utan hennar. Lögin gerðu ekki mun á því, hvernig inneign hefði myndast á gjaldareikningi einstaklings. Þá taldi A, að gjaldheimtan hefði átt að leiðbeina sér, þegar ljóst hefði orðið, að um inneign væri að ræða og að greitt hefði verið inn á gjaldareikning A þrátt fyrir inneign þar. Taldi A, að þá hefði gjaldheimtan átt að gefa út ávísun fyrir umframgreiðslunni og senda honum hana líkt og gert væri, þegar um uppgjör staðgreiðslu væri að ræða, ef ofgreitt hefði verið á staðgreiðsluári.

III. Samskipti umboðsmanns Alþingis við stjórnvöld.

Með bréfi 13. desember 1989 óskaði ég eftir því, sbr. 7. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis, að fjármálaráðuneytið léti mér í té eftirfarandi upplýsingar:

"1. Ljósrit af kröfubréfum, sem Gjaldheimtan í Reykjavík sendi Launaskrifstofu ríkisins og [A] á tímabilinu 1. janúar 1988 til 1. september 1989 vegna fyrirframgreiðslu og innheimtu álagðra gjalda utan staðgreiðslu.

2. Hvenær og með hvaða hætti tilkynnir Gjaldheimtan í Reykjavík gjaldendum um inneignir, sem hafa myndast á gjaldareikningi þeirra? Jafnframt er óskað upplýsinga um með hvaða hætti Gjaldheimtan geri gjaldendum grein fyrir möguleikum á að fá slíkar inneignir endurgreiddar.

3. Í framhaldi af spurningu nr. 2 er óskað eftir upplýsingum um, hvort ráðuneytið hafi sett einhverjar reglur um tilkynningar og skil Gjaldheimtunnar í Reykjavík og annarra innheimtumanna ríkissjóðs á fé, sem gjaldendur hafa greitt umfram umkrafin gjöld á hverjum tíma.

4. Hefur ráðuneytið sett einhverjar reglur eða gefið út leiðbeiningar til innheimtumanna um framkvæmd á 2. mgr. 112. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 17. gr. laga nr. 49/1987?

5. Eins og fram kemur í umsögn Gjaldheimtunnar í Reykjavík, dags. 16. ágúst s.l., sem vísað er til í bréfi ráðuneytisins, dags. 28. ágúst s.l., hafði [A] greitt kr. 62.289,- umfram endanlega álagða skatta hinn 10. júlí 1989. Fram kemur að inneignarvextir kr. 4.938,- hafi verið reiknaðir af áðurnefndri fjárhæð. Þess er óskað að umboðsmanni Alþingis verði látið í té afrit af umræddum vaxtareikningi, þar sem m.a. komi fram frá hvaða tíma vextirnir voru reiknaðir og af hvaða fjárhæð."

Í svarbréfi fjármálaráðuneytisins frá 6. mars 1990 sagði á þessa leið:

"Fyrirspurnin var í fimm tölusettum liðum, Gjaldheimtan í Reykjavík tók saman svör við þeim liðum sem hana varða, þ.e. liðum 1, 2 og 5 og fylgja þau hjálagt. Varðandi liði 3 og 4 skal eftirfarandi tekið fram:

3. Þær reglur sem í gildi eru um tilkynningar og skil innheimtumanna ríkissjóðs á ofgreiddum sköttum eru settar af fjármálaráðuneytinu. Tilkynningar eru sendar tvisvar á ári til gjaldenda um greiðslustöðu þeirra við innheimtumann. Þessar tilkynningar eru sendar út í janúar og júlí. Í janúar er jafnframt tilkynnt um ákvarðaða fyrirframgreiðsluskyldu og í júlí um endanlega álagningu.

Í sérstökum reit á báðum tilkynningunum kemur fram ef um inneign gjaldanda er að ræða. Eigi gjaldandi inneign eftir álagningu er hún send honum ásamt vöxtum með ávísun í pósti í lok júlí, sbr. og svar Gjaldheimtunnar við lið 2.

4. Í kjölfar lagabreytinga á árinu 1980 var gerð samantekt, sem meðal annars fól í sér leiðbeiningar um greiðslu vaxta skv. 2. mgr. 112. gr. laga nr. 40/1978, sbr. 49. gr. laga nr. 7/1980. Leiðbeiningarreglurnar hljóðuðu svo:

Um greiðslu creditvaxta.

Með 2. mgr. 112. gr. l. nr. 40/1978 eins og henni var breytt með 49. gr. l. nr. 7/1980 er lögð sér skylda á ríkissjóð að endurgreiða ofgreidda skatta ásamt vöxtum fyrir það tímabil sem féð var í vörslu ríkissjóðs. Skulu vextir vera jafnháir vöxtum sem greiddir eru af almennum sparisjóðsinnistæðum. Í sambandi við framkvæmd þessa ákvæðis vakna fjölmargar spurningar þegar í upphafi. Auk þess má fullvíst telja að þegar á ákvæðin fer að reyna komi vafaatriði í ljós.

1. Fyrsta spurningin er hvernig fara skuli með gildistöku ákvæðisins. Koma hér nokkrir túlkunarkostir til greina. Ráðuneytið hefur ákveðið að láta vaxtagreiðslur ná til allra skatta sem í ljós kemur eftir gildistöku laganna að hafi verið ofgreiddir og greiða þá vexti fyrir allan þann tíma sem féð var í vörslu ríkissjóðs. Hins vegar verði vaxtagreiðslum neitað vegna ofgreiddra skatta í þeim tilvikum sem ofgreiðslan hafði verið endurgreidd fyrir gildistöku laganna eða einungis er aðgerðarleysi gjaldanda um að kenna að ofgreidd fjárhæð hefur ekki verið sótt. Hafi þannig gjaldandi greitt álagningu ársins 1978 en kært álagninguna ber að greiða honum vexti af ofborguðu fé ef álagningin er lækkuð eftir 26. febrúar 1980 en hafi álagning verið lækkuð fyrir það tímamark ber að neita vaxtagreiðslu hvort sem gjaldandinn hafði vitjað endurgreiðslunnar fyrir gildistökudag laganna eða ekki.

2. Þar sem mjög er óæskilegt að farið verði að nota innheimtumenn sem geymsluaðila fyrir fé gegn greiðslu vaxta hefur ráðuneytið ákveðið að vextir verði aldrei reiknaðir af ofgreiddum sköttum nema til þess tíma er gjaldandi hefði mátt sækja ofgreidda skatta til innheimtumanna.

3. Allnokkrir möguleikar eru til mismunandi skilnings á upphafsdegi vaxta. Þ.e. hvenær fé telst ofgreitt. Sem dæmi má nefna að gjaldandi fær álagðar 100 þús. kr. og greiðir 20 þús. kr. á hverjum gjalddaga. Ári síðar eru skattarnir lækkaðir niður í 50 þús. kr. Hefði rétt álagning legið fyrir í upphafi hefði gjaldandi einungis átt að greiða 10 þús. kr. í hverjum mánuði. Við hvað á að miða vaxtagreiðsluna? Hér er bæði hugsanlegt að telja 10 þús. kr. á mánuði til og með desember eða að telja ofgreiðslu fyrst eiga sé stað í október þegar aðili hefur borgað alla endanlega álagningu. Ráðuneytið hefur ákveðið að síðari leiðin skuli valin.

4. Ofálagðir skattar á einu ári geta hæglega valdið of hárri fyrirframgreiðslu á því næsta fáist þeir ekki leiðréttir innan ársins. Á að endurgreiða gjaldendum vexti af fyrirframgreiðslu sem af þessum orsökum hefur orðið hærri en orðið hefði ef álagning hefði verið rétt í upphafi? Hér má benda á tvö atriði er mæla gegn vaxtagreiðslu í þessu tilviki. Í fyrsta lagi eiga menn sjálfstæðan möguleika á að fá fyrirframgreiðslu sína lækkaða óháðan álögðum sköttum fyrra árs. Menn sem telja sig greiða meira en eðlilegt er í fyrirframgreiðslu geta snúið sér til skattstjóra og fengið fyrirframgreiðsluna ákveðna á grundvelli væntanlegrar álagningar. Í öðru lagi eiga menn auðvitað rétt á endurgreiðslu ásamt vöxtum ef fyrirframgreiðslan er í heild hærri en álagðir skattar. Hér mæla ýmis rök með því að greiða aldrei vexti af fyrirframgreiðslu nema í því tilviki sem hún reynist hærri en álagðir skattar og hefur ráðuneytið ákveðið að svo verði gert.

Ekki hafa verið teknar saman slíkar reglur síðan 1980."

Um liði 1, 2 og 5 í fyrrgreindu bréfi mínu sagði svo í bréfi Gjaldheimtunnar frá 27. desember 1989:

"Liður 1.

Bréfi þessu fylgja ljósrit af kröfubréfum Gjaldheimtunnar til launadeildar fjármálaráðuneytisins, dags. 28.01.1988, 16.07.1988, 23.01.1989 og 17.07.1989, þar sem m.a. er að finna kröfu vegna þessa gjaldanda.

Liður 2.

Gjaldendur fá sendar sérstakar tilkynningar um greiðslustöðu í byrjun hvers árs, samtímis því sem tilkynnt er um fyrirframgreiðslu. Sé um inneign að ræða er það skráð í sérstakan reit á seðlinum. Eftir álagningu sem að jafnaði á sér stað í júlímánuði, er sendur út "gjaldheimtu og álagningarseðill" með sundurliðun gjalda og greiðslustöðu, þar sem inneign er einnig skráð í sérstakan reit. Inneign gjaldanda ásamt vöxtum er send gjaldanda með tékka. Við hverja innborgun sem gjaldandi innir af hendi í Gjaldheimtunni fær hann kvittun sem sýnir nýja greiðslustöðu. Ekki verður sagt, að Gjaldheimtan geri gjaldendum sérstaka grein fyrir möguleikum á að fá inneign endurgreidda umfram það sem fram kemur í því sem hér áður var sagt, en ætla verður að gjaldendum sé almennt ljóst af þessu, hver greiðslustaða þeirra er og að fé er laust til útborgunar þegar þeir kjósa.

Liður 5.

Bréfi þessu fylgir tölvuútskrift af vaxtareikningi pr.10.07.1989, með athugasemd um breytingu á vaxtaprósentu. Miðað er við inneignarvexti hjá Landsbanka Íslands. Vextir eru reiknaðir í samræmi við forrit sem gert er hjá SKÝRR, en ríkisbókhald lætur í té upplýsingar um vaxtaprósentu á hverjum tíma og hefur samráð við fjármálaráðuneytið um allar reglur sem að þessu lúta."

IV.

Með bréfi, dags. 28. desember 1990, tilkynnti ég fjármálaráðuneytinu, að ég hefði ákveðið, sbr. 9. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis, að óska eftir því, að ráðuneytið skýrði viðhorf sitt til kvörtunar A. Síðan sagði svo í bréfi mínu:

"Í bréfi Gjaldheimtunnar í Reykjavík frá 16. ágúst 1989 kemur fram, að á árinu 1989 bárust Gjaldheimtunni vegna [A] frá Launaskrifstofu ríkisins kr. 45.364,- umfram tilskylda greiðslu samkvæmt kröfubréfum, og segir gjaldheimtustjóri að þarna hafi orðið "einhver mistök sem" hann "kann ekki skil á". Af því tilefni óska ég sérstaklega eftir nánari skýringum fjármálaráðuneytisins, á ástæðum umræddra "mistaka".

Samkvæmt bréfi fjármálaráðuneytisins, dags. 6. mars 1990, eru þær reglur, sem í gildi eru um tilkynningar og skil innheimtumanna ríkissjóðs á ofgreiddum sköttum settar af fjármálaráðuneytinu. Ég óska eftir að fjármálaráðuneytið láti mér í té eintak af þeim reglum. Með kvörtun [A] fylgdi gjaldheimtuseðill 1, og kemur þar fram, að 23. janúar 1989 átti [A] inneign upp á kr. 234.370,-. Á umræddum gjaldheimtuseðli er ekki að finna nánari upplýsingar um, hvernig fari um þessa inneign eða möguleika gjaldanda til að fá hana greidda. Af þessu tilefni óska ég eftir upplýsingum um, hvort settar hafi verið einhverjar reglur eða gefin fyrirmæli um, að á slíkum tilkynningum komi fram nánari upplýsingar um meðferð inneignar. Jafnframt óska ég eftir skýringum ráðuneytisins á því, hvort unnt sé að senda gjaldanda slíka inneign með ávísun í pósti við áramót eða á öðrum tíma, þegar slík inneign kemur í ljós, með sama hætti og gert er nú eftir álagningu í lok júlí, og ef svo er, hvers vegna það er ekki gert.

Með hliðsjón af ákvæðum 2. mgr. 112. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 17. gr. laga nr. 49/1987, óska ég eftir að ráðuneyti yðar skýri sérstaklega, hvernig þær reglur, sem fram koma í 2., 3. og 4. tl. leiðbeiningarreglna "Um greiðslu creditvaxta", er teknar voru upp í bréfi ráðuneytisins fá 6. mars 1990, samrýmist því orðalagi nefnds lagaákvæðis að vextir skuli greiddir "fyrir það tímabil sem féð var í vörslu ríkissjóðs".

Samkvæmt gildandi lögum er mismunur á reglum um vexti og verðbætur vegna ofgreiddra skatta utan staðgreiðslu, sbr. 2. mgr. 112. gr. laga nr. 75/1981, og ofgreiddrar staðgreiðslu, sbr. 2. mgr. 34. gr. laga nr. 45/1987, og 3. mgr. 121. gr. laga nr. 75/1981, sbr. 19. gr. laga nr. 49/1987. Af þessu tilefni óska ég eftir upplýsingum fjármálaráðuneytisins, hvort fram hafi komið af hálfu þess eða annarra stjórnvalda tillögur um að samræma þessar reglur."

Umbeðnar skýringar og upplýsingar bárust mér með bréfi fjármálaráðuneytisins, dags. 19. júní 1991. Þar segir:

"Í bréfi yðar er sérstaklega óskað eftir nánari skýringum, á tilteknu orðalagi í bréfi Gjaldheimtunnar í Reykjavík, dags. 16. ágúst 1989. En í téðu bréfi kemur fram, að á árinu 1989 bárust Gjaldheimtunni í Reykjavík frá Launaskrifstofu ríkisins, vegna [A], kr. 45.364,- umfram tilskylda greiðslu samkvæmt kröfubréfum, og segir gjaldheimtustjóri að þarna hafi orðið "einhver mistök sem" hann "kann ekki skil á". Er sérstaklega óskað eftir skýringum ráðuneytisins á ástæðum umræddra "mistaka". Ráðuneytið hefur af þessu tilefni aflað upplýsinga hjá starfsmannaskrifstofu fjármálaráðuneytisins varðandi mistök þessi. Bárust þær með bréfi starfsmannaskrifstofu fjármálaráðuneytisins, dags. 4. júní sl., og fylgir afrit af bréfi þessu hjálagt. Kemur þar fram í hverju umrædd mistök fólust. Um þau segir í bréfi þessu: Þessi fjárhæð var dregin af launum [A] 1. febrúar 1989. Við athugun kemur í ljós, að um mistök starfsmannaskrifstofunnar var að ræða. Í skattaafdráttarfærslur launakerfisins er settur tiltekinn lokadagur, í þessu tilviki 311288, sem stýrir því, hversu lengi kröfunnar eiga að haldast inni í kerfinu. Til þess að fella þær niður þarf sérstaka aðgerð, svokallaða framfærslu mánaðarfrádráttar. Þessa aðgerð láðist að gera, og voru því eftirstöðvar af skattakröfum ársins 1988 enn virkar við afgreiðslu launa 1. febrúar 1989. Álagningarkrafa gjaldheimtunnar á hendur [A] 1988 nam 1.067.425 kr. og höfðu innheimst 224.725 kr. upp í þá kröfu, eftirstöðvar um áramót töldust 842.700 kr.

Þá er í bréfi yðar vísað til bréfs fjármálaráðuneytisins, dags. 6. mars 1990, þar sem talað er um að þær reglur sem í gildi eru um tilkynningar og skil innheimtumanna ríkissjóðs á ofgreiddum sköttum séu settar af fjármálaráðuneytinu. Er óskað eftir að ráðuneytið láti yður í té eintak af reglum þessum.

Það skal tekið fram að þær reglur sem hér er talað um hafa ekki verið settar með formlegum hætti, heldur er um að ræða vinnureglur sem komið hefur verið á í framhaldi af viðræðum ráðuneytisins og Ríkisbókhalds. Til grundvallar hefur í framkvæmd verið lögð greinargerð um dráttarvexti o.fl., sem [...] fyrrverandi skrifstofustjóri í fjármálaráðuneytinu tók saman og send var öllum innheimtumönnum á árinu 1980. Í V. kafla þeirra greinargerðar er fjallað um inneignarvexti. Þessi kafli var tekinn upp í bréf ráðuneytisins til yðar, dags. 6. mars 1990, sem vísað er til hér að framan.

Tilkynningar til gjaldenda um inneignir eru sendar tvisvar á ári, þ.e. í janúar og í júlí, eins og fram kom í tilvitnuðu bréfi ráðuneytisins, dags. 6. mars 1990. Á tilkynningum þessum koma ekki fram nánari upplýsingar um það, hvernig fari um inneign eða möguleika gjaldanda til að fá hana greidda. Í framkvæmd hefur það ávallt verið lagt til grundvallar að gjaldendum megi vera ljóst að innheimtumenn ríkissjóðs eigi ekki að þjóna hlutverki bankastofnunar, sem vörslumenn fjár gegn greiðslu vaxta. Þannig hefur verið gert ráð fyrir því að þegar fram kæmi inneign á téðum tilkynningum mætti gjaldendum vera ljóst að þeir gætu vitjað peninganna. Ef gjaldandi á síðan inneign eftir álagningu, þá hefur hún verið send honum ásamt vöxtum með tékka í lok júlí, sbr. bréf ráðuneytisins dags. 6. mars 1990.

Í bréfi yðar óskið þér eftir upplýsingum ráðuneytisins um það, hvort unnt sé að senda gjaldanda inneign með ávísun í pósti við áramót eða á öðrum tíma, þegar slík inneign kemur í ljós, með sama hætti og gert er nú eftir álagningu í lok júlí, og ef svo er, hvers vegna það er ekki gert. Eins og fram kom í bréfi ráðuneytisins, dags. 6. mars 1990, er gert stöðuyfirlit fyrir einstaka gjaldendur í janúar hvert ár, áður en fyrirframskyldan er ákvörðuð. Samkvæmt upplýsingum frá Ríkisbókhaldi er ekkert því til fyrirstöðu að senda gjaldendum inneignir sem þeir eiga á því tímamarki. Hefur ráðuneytið af því tilefni farið þess á leit við Ríkisbókhald, að gjaldendum verði sendir tékkar vegna þeirra inneigna sem þeir kunna að eiga á því tímamarki. Sendist yður hjálagt afrit af bréfi ráðuneytisins varðandi það efni. Á hinn bóginn mun það vera vissum örðugleikum háð að gera þetta á öðrum tímum. En það verður þó að telja verulega úrbót fólgna í því að endurgreiða inneignir einnig um áramót.

Þá er óskað eftir að ráðuneytið skýri sérstaklega með hliðsjón af ákvæðum 2. mgr. 112. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 17. gr. laga nr. 49/1987, hvernig þær reglur sem koma fram í 2., 3. og 4. tl. leiðbeiningarreglna "Um greiðslu creditvaxta", samrýmist því orðalagi nefnds lagaákvæðis að vextir skuli greiddir "fyrir það tímabil sem féð var í vörslu ríkissjóðs".

Í umræddum leiðbeiningarreglum er gengið út frá því sem forsendu svo sem fram kom hér að framan, að innheimtumenn ríkissjóðs eigi ekki að gegna hlutverki bankastofnana, sem vörslumenn fjár gegn greiðslu vaxta. Ráðuneytið hefur litið svo á hingað til að skýra verði orðalag 2. mgr. 112. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 17. gr. laga nr. 49/1987, með hliðsjón af hlutverki innheimtumanna ríkissjóðs samkvæmt lögum. Samkvæmt 109. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt sbr. 15. gr. laga nr. 49/1987, sjá innheimtumenn ríkissjóðs um innheimtu skatta sem lagðir eru á samkvæmt lögunum og skulu þeir gera skil á innheimtufé til ríkissjóðs sbr. 15. gr. reglugerðar nr. 530/1975, um reikningsskil innheimtumanna ríkissjóðs. Fé sem ofgreitt hefur verið skal bera vexti á meðan það er í vörslu ríkissjóðs með vísan til 2. mgr. 112. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 17. gr. laga nr. 49/1987. Ráðuneytið hefur talið að þegar gjaldanda hefur verið sent stöðuyfirlit, þar sem fram komi inneign, beri gjaldanda að vitja þeirrar inneignar hið fyrsta, þar sem innheimtumenn ríkissjóðs eigi ekki að gegna hlutverki innlánsstofnana. Um leið og tilkynnt hefur verið um stöðu, þar sem fram komi inneign, beri þeim gjaldendum að vitja þeirra inneignar. Þannig hefur nefnt orðalag 2. mgr. 112. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 17. gr. laga nr. 49/1987, verið skilið á þann veg, í samræmi við það hlutverk sem innheimtumönnum er markað í lögum, að greiða beri vexti fyrir það tímabil sem inneignarfé er í vörslu ríkissjóðs og gjaldendum ekki tilkynnt um inneignina. Um leið og gjaldendum hefur verið tilkynnt um inneignina megi þeim vera ljóst hver fjárhæð inneignar er og að þeir geti vitjað hennar. Eftir þann tíma geti menn ekki búist við því að ríkissjóður geymi féð á vöxtum.

Þessi skýring ráðuneytisins á ákvæði 2. mgr. 112. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 17. gr. laga nr. 49/1987, er umdeilanleg. Sérstaklega í ljósi þess að gjaldendum er ekki tilkynnt sérstaklega um að þeir geti vitjað inneignar né heldur tilkynnt um að inneign beri ekki vexti eftir að tilkynning um inneign hefur verið sent. Ráðuneytið hefur því ákveðið, að framvegis verði ákvæði 2. mgr. 112. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 17. gr. laga nr. 49/1987, skýrt samkvæmt orðanna hljóðan. Þannig verði greiddir vextir allan þann tíma sem inneignarfé er í vörslu ríkissjóðs. En til að koma í veg fyrir að innheimtumenn ríkissjóðs liggi lengi inni með inneignarfé sem ekki er vitjað, verður eins og að framan greinir, einnig farið að senda út inneignartékka í janúar. Hefur Ríkisbókhaldi af þessu tilefni verið ritað bréf þar sem þessi ákvörðun er tilkynnt, og þess farið á leit að framkvæmdinni verði framvegis hagað í samræmi við þessa ákvörðun. Fylgir afrit af þessu bréfi ráðuneytisins. Jafnframt var Ríkisbókhaldi falið að greiða [A] vexti á grundvelli þessarar breyttu afstöðu og með vísan til 2. mgr. 112. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 17. gr. laga nr. 49/1987.

Að lokum bendið þér í bréfi yðar réttilega á, að mismunur er á reglum um vexti og verðbætur vegna ofgreiddra skatta utan staðgreiðslu, sbr. 2. mgr. 112. gr. laga nr. 75/1981, sbr. 17. gr. laga nr. 49/1987, og ofgreiddrar staðgreiðslu, sbr. 2. mgr. 34. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, og 3. mgr. 121. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 19. gr. laga nr. 49/1987. Af því tilefni óskið þér eftir upplýsingum ráðuneytisins, varðandi það hvort fram hafi komið af hálfu þess eða annarra stjórnvalda tillögur um að samræma þessar reglur.

Af því tilefni vill ráðuneytið taka fram að engum slíkum tillögum hefur verið beint til ráðuneytisins með formlegum hætti. Það hefur hins vegar verið rætt meðal starfsmanna skattadeildar Tekju- og lagaskrifstofu ráðuneytisins hvort rétt sé að ráðuneytið beiti sér fyrir því, að reglum hér að lútandi verði breytt. Niðurstaðan varð sú að rök standi ekki til að hlutast til um slíka lagabreytingu, enda verða rök þau sem búa að baki verðbótareglum varðandi staðgreiðslu ekki heimfærðar á aðra skatta.

Að lokum biðst ráðuneytið velvirðingar á þeim drætti sem orðið hefur á afgreiðslu þessa máls."

V.

Með bréfi 20. júní 1991 gaf ég A kost á að senda mér athugasemdir sínar í tilefni af bréfi fjármálaráðuneytisins frá 19. júní 1991. Hinn 10. og 15. október 1991 greindi A mér frá því, að hann hefði ekki fengið leiðréttingu þá sem vísað væri til í bréfi fjármálaráðuneytisins. Af því tilefni ritaði ég fjármálaráðuneytinu bréf 28. október 1991 og óskaði upplýsinga um, hvað liði uppgjöri Ríkisbókhalds á greiðslu umræddra inneignarvaxta. Í svarbréfi fjármálaráðuneytisins frá 3. mars 1992 kom fram:

"Ráðuneytið vísar til bréfs yðar, dags. 7. febrúar sl., þar sem ítrekuð var fyrri ósk embættis Umboðsmanns Alþingis, sbr. bréf dags. 28. október 1991, um upplýsingar í tilefni af kvörtun [A], varðandi inneignarvexti.

Með bréfi ráðuneytisins, dags. 19. júní sl., fól ráðuneytið Ríkisbókhaldi að annast greiðslu á inneignarvöxtum til [A], sbr. bréf ráðuneytisins til yðar, dags. sama dag.

Fyrir misskilning dróst afgreiðsla á þessari útborgun hjá Ríkisbókhaldi. Ráðuneytið óskaði með bréfi, dags. 16. janúar sl., eftir staðfestingu Ríkisbókhalds á því að umrædd vaxtagreiðsla hefði verið innt af hendi. Með bréfi Ríkisbókhalds, dags. í dag, kemur fram að Gjaldheimtan í Reykjavík, hefur reiknað [A] vexti í samræmi við ákvörðun ráðuneytisins, dags. 19. júní 1991.

Meðfylgjandi er afrit af bréfi Ríkisbókhald, dags. 3. mars 1992, ásamt fylgiskjölum."

Í tilvitnuðu bréfi ríkisbókhalds frá 3. mars 1992 sagði svo:

"Með vísan í bréf ráðuneytisins dags. 16. janúar s.l. skal eftirfarandi upplýst:

1. Inneignir gjaldenda í opinberum gjöldum um áramót voru sendar þeim í ávísun um miðjan janúar skv. stöðulista tveimur dögum áður.

Framvegis verða inneignir gjaldenda í opinberum gjöldum greiddar út tvisvar á ári, þ.e. í janúar áður en fyrirframgreiðsluseðlar eru sendir út og eftir álagningu í júlí.

2. Gjaldheimtan í Reykjavík hefur reiknað [A] inneignarvexti í samræmi við ákvörðun ráðuneytisins í bréfi, dags. 19. júní 1991.

Meðfylgjandi er ljósrit af tilkynningu Gjaldheimtunnar í Reykjavík til [A], dags. 6. janúar 1992."

Hinn 10. mars 1992 tjáði A mér, að honum hefði verið tilkynnt, að honum hefði verið reiknaðir nefndir inneignarvextir og liti hann því svo á, að hann hefði fengið leiðréttingu á máli því, er kvörtun hans laut að.

VI. Niðurstaða.

Niðurstaða álits míns, dags. 4. ágúst 1992, var svohljóðandi:

1. "Af bréfi Gjaldheimtunnar í Reykjavík frá 16. ágúst 1989, sem rakið er í II. hér að framan, verður ráðið, að á árunum 1988 og 1989 hafi A greitt Gjaldheimtunni fjárhæðir, er fóru fram úr álögðum sköttum hans. Verður ekki annað séð en að það hafi verið vegna tekna hans af eigin atvinnurekstri. Í bréfi Gjaldheimtunnar er nánar lýst, hvernig inneign A hafi orðið til. Á hinn bóginn er ekki að öllu leyti ljóst, hvernig stóð á umframgreiðslunni. Skýringa virðist þó að nokkru leyti vera að rekja til mistaka hjá Launaskrifstofu ríkisins, sbr. bréf fjármálaráðuneytisins frá 19. júní 1991, sem rakið er í IV. kafla hér að framan. Ég tel ekki ástæðu til þess að fjalla frekar um ástæður umræddrar ofgreiðslu, þar sem kvörtun A lýtur að því, hvernig fara skyldi með fé það, sem hann ofgreiddi og verið hafði í vörslu ríkissjóðs, sbr. ákvæði 2. mgr. 112. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 17. gr. laga nr. 49/1987, er fjallar um greiðslu vaxta, þegar ofgreitt hefur verið vegna annarra skatta en tekjuskatts.

Eins og fram kemur í V. hér að framan, hafa A verið reiknaðir vextir fyrir þann tíma, sem inneign hans var í vörslu ríkissjóðs. Þá hefur A ennfremur tjáð mér, að hann líti svo á, að hann hafi fengið leiðréttingu á máli sínu. Þegar þetta er virt, er það skoðun mín, að mál það, er kvörtun A lýtur að, gefi ekki tilefni til frekari athugasemda af minni hálfu. Ég vil þó taka fram, að niðurstaða þessi felur ekki í sér, að ég hafi tekið afstöðu til þess, hvernig útreikningi á inneignarvöxtum til A hefur verið hagað.

Að því er varðar þann þátt kvörtunar A, er lýtur að kröfu hans um greiðslu verðbóta vegna umræddrar inneignar, er það skoðun mín, að afstaða fjármálaráðuneytisins til þeirrar kröfu A hafi verið í samræmi við lög og gefi því ekki tilefni til frekari athugasemda af minni hálfu.

2.

Í bréfi fjármálaráðuneytisins frá 19. júní 1991 segir, að ráðuneytið hafi ákveðið:

"... að framvegis verði ákvæði 2. mgr. 112. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 17. gr. laga nr. 49/1987, skýrt samkvæmt orðanna hljóðan. Þannig verði greiddir vextir allan þann tíma sem inneignarfé er í vörslu ríkissjóðs. En til að koma í veg fyrir að innheimtumenn ríkissjóðs liggi lengi inni með inneignarfé sem ekki er vitjað, verður eins og að framan greinir, einnig farið að senda út inneignartékka í janúar. Hefur Ríkisbókhaldi af þessu tilefni verið ritað bréf það sem þessi ákvörðun er tilkynnt, og þess farið á leit að framkvæmdinni verði framvegis hagað í samræmi við þessa ákvörðun. Fylgir afrit af þessu bréfi ráðuneytisins. Jafnframt var Ríkisbókhaldi falið að greiða [A] vexti á grundvelli þessarar breyttu afstöðu og með vísan til 2. mgr. 112. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 17. gr. laga nr. 49/1987."

Ég tek undir það, sem fram kemur hér í ofangreindu bréfi fjármálaráðuneytisins, að skýra skuli fyrirmæli 2. mgr. 112. gr. laga nr. 75/1981, sbr. 17. gr. laga nr. 49/1987, þannig, að greiða skuli vexti "... allan þann tíma sem inneignarfé er í vörslu ríkissjóðs." Ég beini því til fjármálaráðuneytisins, að það sjái til þess, að fylgt verði eftir breyttri skýringu ráðuneytisins á ákvæðum 2. mgr. 112. gr. laga nr. 75/1981, sbr. 17. gr. laga nr. 49/1989, við innheimtu þeirra skatta, er ákvæðið tekur til.

3.

Samkvæmt framansögðu er niðurstaða mín sú, að kvörtun A gefi ekki tilefni til þess, að ég fjalli frekar um mál það, er kvörtun A lýtur að, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis. Ég beini samt þeim tilmælum mínum til fjármálaráðuneytisins, að það sjái til þess, að fylgt verði eftir breyttri skýringu ráðuneytisins á fyrirmælum 2. mgr. 112. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 17. gr. laga nr. 49/1987."