Stjórnun fiskveiða. Ákvörðun aflahlutdeildar til fiskibáts. Meðferð persónubundinnar aflareynslu.

(Mál nr. 444/1991)

Máli lokið með bréfi, dags. 4. nóvember 1991.

A kvartaði yfir ákvörðun sjávarútvegsráðuneytisins á aflahlutdeild fiskiskips síns M. Kvörtun A var m.a. reist á því, að sjávarútvegsráðuneytið hefði bundið útgáfu veiðileyfis fyrir M því skilyrði, að sambærilegur bátur hyrfi varanlega úr rekstri í hans stað og því, að ráðuneytið hefði ekki fallist á það, að aflareynsla A frá árunum 1985-1987 yrði flutt af fiskiskipinu H yfir á M. Málavextir voru þeir, að í febrúar 1990 eignaðist A bátinn H, sem hann seldi síðan B í júní 1990. Í kaupsamningi var tekið fram, að fiskveiðiréttindi bátsins fylgdu, að því marki, sem þau væru framseljanleg, en að eigin aflareynsla A fylgdi ekki sölunni. Í júlí 1990 keypti A síðan bátinn M.

Í bréfi, sem ég ritaði A 4. nóvember 1991, tók ég fram, að við úthlutun veiðileyfa á árinu 1990 hefðu gilt fyrirmæli laga nr. 3/1988 um stjórn fiskveiða og reglugerð nr. 587/1989 um veiðar smábáta 1990. Var það niðurstaða mín, að ekki yrði á grundvelli nefndra lagaheimilda gerðar athugasemdir við það skilyrði fyrir úthlutun veiðiheimilda til M, að annar sambærilegur bátur hyrfi úr rekstri, sbr. 4. gr. og G-lið 10. gr. laga nr. 3/1988. Þá sagði svo í bréfi mínu:

"Við ákvörðun aflahlutdeildar á árinu 1991 giltu ákvæði laga nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða og fyrirmæli reglugerðar nr. 465/1990 um veiðar í atvinnuskyni. Fallast ber á það með sjávarútvegsráðuneytinu, að eins og atvikum málsins er háttað, hefði átt að reikna aflahlutdeild [M] út frá aflareynslu þeirra báta, sem úreltir voru, sbr. 3. ml. 3. tl. 7. gr. reglugerðar nr. 465/1990. Eins og fram kemur í bréfum sjávarútvegsráðuneytisins frá 1. júlí s.l. og 27. september s.l., var [M] úthlutað afla til jafns við báta á stærðarbilinu 5 til 6 brl., þ.e. miðað við þá aflahlutdeild, sem báturinn hefði fengið, ef hann hefði verið innan við 6 brl. og fengið haffærisskírteini fyrir 18. ágúst 1990. Þegar til þess er litið, að veiðileyfi [M] fyrir árið 1991 varð ekki byggt á veiðireynslu frá árunum 1987-1989, er það niðurstaða mín, að ákvörðun sjávarútvegsráðuneytisins um aflahlutdeild bátsins hafi ekki verið óhagstæðari en lög nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða sögðu til um, sbr. og reglugerð nr. 465/1990 um veiðar í atvinnuskyni.

...

Á þeim tíma, er þér selduð [B] nú [H], voru í gildi lög nr. 3/1988 um stjórn fiskveiða 1988-1990. Samkvæmt E-lið 10. gr. laganna var í gildistíð laganna óheimilt að framselja eigin aflareynslu. Samkvæmt 23. gr. laga nr. 38/1990 komu þau lög ekki til framkvæmda fyrr en 1. janúar 1991. Þar sem [H] hafði þegar fengið leyfi með aflamarki byggðu á persónubundinni aflareynslu yðar, varð því ekki breytt á því ári. Þér áttuð ekki kröfu á breytingu leyfisins á grundvelli sölusamningsins. Þér voruð þá heldur ekki búnir að fá yður annan bát og þér fenguð leyfið fyrir [M] í lok ársins á grundvelli úreldingar annarra báta.

Ég skil bréf sjávarútvegsráðuneytisins frá 1. júlí s.l. og 27. september s.l. svo, að ráðuneytið sé reiðubúið að taka til athugunar að flytja aflaheimildir [H], sem byggja á veiðireynslu yðar 1987-1989, yfir á [M], ef samkomulag liggur fyrir milli yðar og eiganda [H] um ráðstöfun umræddrar aflareynslu eða dómur liggur fyrir um rétt yðar til þessarar aflareynslu. Samkvæmt gögnum málsins og þeim upplýsingum, sem þér hafið látið starfsmanni mínum í té, er ágreiningur milli yðar og eiganda [H] um skýringu nefnds kaupsamnings að þessu leyti. Þar sem ekki hefur verið leyst úr nefndum ágreiningi, tel ég ekki ástæðu til að fjalla nánar um það atriði."

Niðurstaða athugana minna á kvörtun A varð því sú, að ég taldi að úthlutun sjávarútvegsráðuneytisins á veiðiheimildum M á árinu 1991 hefði ekki verið lakari en lög nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða stæðu til, sbr. reglugerð nr. 465/1990 um veiðar í atvinnuskyni. Þá tók ég fram, að umboðsmanni Alþingis væri ætlað að fjalla um stjórnsýslu ríkisins. Væri það almennt ekki í verkahring hans að fjalla um lög, sem Alþingi hefði sett. Þótt lög nr. 38/1990 hefðu reynst A óhagstæð, taldi ég mér ekki fært að fjalla um mál A á grundvelli 11. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis.