Stjórnun fiskveiða. Ákvörðun aflahlutdeildar fiskibáta. Meðferð persónubundinnar aflareynslu.

(Mál nr. 375/1990 og 391/1991)

Máli lokið með áliti, dags. 29. ágúst 1991.

Tveir smábátaeigendur, A og B, báru fram kvartanir við mig út af synjunum sjávarútvegsráðuneytisins að taka tillit til einstaklingsbundinnar aflareynslu þeirra árin 1985-1987 við úthlutanir aflaheimilda fyrir árið 1990.

Svo stóð á í tilviki A, að í eigu hans voru tveir bátar, T, er var 3,54 brl., og M, sem var 2,14 brl. Síðarnefndi báturinn hafði verið í eigu A frá því á árinu 1986. Vél þess báts varð ónýt á árinu 1988, en ný vél sett í hann á árinu 1990. A sótti um leyfi til netaveiða til sjávarútvegsráðuneytisins fyrir bátinn T í mars 1990 og var leyfið veitt 6. mars 1990. Var um að ræða fast aflahámark, þar sem það reyndist hærra en aflahámark á grundvelli persónubundinnar aflareynslu í þessu tilfelli. Með sama hætti sótti A um veiðileyfi fyrir bát sinn M og fór jafnframt fram á, að veiðiheimild fyrir bátinn færi eftir veiðireynslu hans af T á árunum 1985-1987. Sjávarútvegsráðuneytið taldi ekki heimilt að verða við þessari beiðni, en samþykkti fyrir bátinn M sams konar leyfi til netaveiða og veitt hafði verið fyrir T, gegn andmælum og fyrirvörum A, sem áréttaði, að hann ætti ekki rétt á slíku leyfi, þar sem bátnum M hefði aldrei verið haldið til netaveiða.

Í tilviki B stóð svo á, að hann hafði gert út bátinn H árin 1985-1987. Bát þennan seldi B 1. nóvember 1987 og hætti útgerð. Í nóvember 1990 keypti B bátinn F, er var 2,17 brl. að stærð. Hann hafði áður eða í júlí 1990 snúið sér til sjávarútvegsráðuneytisins og óskað eftir staðfestingu þess á því, að hann gæti fengið úthlutað aflaheimild fyrir árið 1990 á grundvelli aflareynslu af veiðum H árin 1985-1987 og tók fram, að hann hefði í hyggju að festa kaup á F og gera út á netaveiðar, en sá bátur hefði ekki fengið úthlutað aflaheimild á því ári.

Sjávarútvegsráðuneytið byggði synjanir sínar í tilfellum A og B á því, að eftir gildistöku laga frá 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða væri ekki heimilt að flytja einstaklingsbundna aflareynslu milli fiskibáta.

Í álitum mínum, dags. 29. ágúst 1991, í málum þeirra A og B tók ég til úrlausnar þessar forsendur synjana sjávarútvegsráðuneytisins.

Niðurstaða álits míns í máli A var svohljóðandi:

"Umrædd synjun sjávarútvegsráðuneytisins í bréfi þess frá 6. desember 1990 var byggð á því, að eftir gildistöku laga nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða væri "ekki heimilt að flytja einstaklingsbundna aflareynslu milli fiskibáta". Til grundvallar þessari ákvörðun voru þannig lögð lög nr. 38/1990. Af greinargerð ráðuneytisins, sem rakin er í II. kafla hér að framan, verður ráðið, að það telji II. bráðabirgðaákvæði laga nr. 38/1990 hafa átt við um þá úthlutun veiðiheimildar til M, sem um var sótt og síðan hafnað með nefndu bréfi.

Samkvæmt 23. gr. laga nr. 38/1990 taka þau þegar gildi, þ.e. 18. maí 1990, en skyldu koma til framkvæmda 1. janúar 1991. Verður ekki á það fallist, að ákvæði laga nr. 38/1990 hafi gilt um úthlutun heimilda til veiða á árinu 1990. Það er mjög óeðlileg lögskýring, að þessi ákvæði laga nr. 38/1990 hafi átt að gilda um úthlutun veiðiheimilda á tímabilinu frá 18. maí til 31. desember 1990. Ákvæði 3. og 4. mgr. II. bráðabirgðaákvæðis laga nr. 38/1990 mæla og eindregið gegn þeirri lögskýringu. Slík lögskýring gæti ennfremur raskað jafnræði milli aðila, sem veiði stunduðu á sama tíma, þ.e. aðstaða þeirra væri misjöfn eftir því, hvort veiðiheimild hefði verið úthlutað fyrir eða eftir 18. maí 1990. Undir öllum kringumstæðum hefði orðið að taka skýrt fram, ef ætlunin var að II. bráðabirgðaákvæði laga nr. 38/1990 ætti að gilda um leyfisveitingar fyrir annan tíma en meginlögin taka til.

Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða mín, að lög nr. 38/1990 hafi ekki gilt um umsókn þá um veiðiheimildir, sem synjað var með umræddu bréfi sjávarútvegsráðuneytisins frá 6. desember 1990. Bar þar að beita lögum nr. 3/1988 um stjórn fiskveiða 1988-1990 og reglugerðum samkvæmt þeim. Synjun var því reist á röngum lagagrunni og eru það tilmæli mín, að sjávarútvegsráðuneytið taki málið upp til ákvörðunar á ný."

Niðurstaða mín í máli B var sú sama, þ.e. að synjun sjávarútvegsráðuneytisins hefði verið byggð á röngum lagagrunni með sama hætti og í máli A og mæltist ég því til þess, að ráðuneytið tæki einnig mál B upp til ákvörðunar á ný.

Við endurupptöku sjávarútvegsráðuneytisins á málum þeirra A og B komst ráðuneytið að þeirri niðurstöðu, að A og B hefðu ekki átt rétti til þess, að nýta sér einstaklingsbundna veiðireynslu sína á árunum 1985-1987. Að fenginni niðurstöðu sjávarútvegsráðuneytisins leituðu A og B til mín á ný. Athugun minni á kvörtun A og B var ekki lokið um áramótin 1991/1992.