Stjórnun fiskveiða. Ákvörðun aflamarks.

(Mál nr. 398/1991)

Máli lokið með bréfi, dags. 4. október 1991.

A kvartaði yfir ákvörðun aflamarks fiskiskips síns, X, fyrir botnfisk fiskveiðitímabilið 1. janúar til 31. ágúst 1991. A hafði fest kaup á bátnum, sem var 11,77 brl., í september 1989, eftir að hafa kannað veiðiheimildir bátsins í sjávarútvegsráðuneytinu. Þar kvaðst A hafa fengið þær upplýsingar, að báturinn gæti farið á sóknarkvóta, sem væri 110 tonn fyrir þessa stærð báta. Fyrir árið 1991, þ.e. til 1. september, hafi úthlutun hins vegar aðeins numið 20.974 kg. af þorski, 3.187 kg. af ýsu og 3.056 kg. af ufsa eða samtals 27.217 kg. Taldi A að með þessu hefðu atvinnuréttindi sín og atvinnutæki verið að engu gerð.

Í bréfi mínu til A, dags. 4. október 1991, sagði m.a. svo:

"Eins og kunnugt er, var á árinu 1984 tekin upp sú aðferð við stjórnun fiskveiða hér við land, að öllum veiðiskipum 10 brl. og stærri var úthlutað aflamarki á grundvelli veiði hlutaðeigandi skips á tímabilinu 1. nóvember 1980 til 31. október 1983. Þar sem [X] hafði ekki fengið neinn afla á ofangreindu viðmiðunartímabili, var bátnum ekki úthlutað neinu aflamarki fyrir árið 1984.

Á árunum 1985 til 1990 var öllum fiskiskipum stærri en 10 brl. gefinn kostur á að velja á milli veiðileyfis með aflamarki og veiðileyfis með sóknarmarki. Ef skip valdi veiðileyfi með sóknarmarki, gilti sú regla sum árin, að veiðar þess það ár höfðu áhrif á úthlutun aflamarks til þess árið eftir, sbr. 7. gr. laga nr. 97/1985 um stjórn fiskveiða 1986-1987 og 8. gr. laga nr. 3/1988 um stjórn fiskveiða 1988-1990. Þannig gátu skip, sem í ársbyrjun 1984 höfðu lágt aflamark, aukið aflamark sitt frá þeim tíma.

Eins og áður greinir, hafði [X] ekki aflamark í upphafi árs 1984. Á árunum 1984-1989 var bátnum ýmist valið veiðileyfi með aflamarki eða veiðileyfi með sóknarmarki, en það leiddi í raun ekki til neinnar breytingar á aflamarki hans, þar sem ekki var veiddur neinn botnfiskur á bátinn öll þessi ár, ef undan eru skilin rúm 2 tonn árið 1986. Í upphafi ársins 1990 hafði báturinn því ekki neitt aflamark og var það ár valið veiðileyfi með sóknarmarki fyrir bátinn. Þetta ár kom nokkur afli á bátinn eða rétt um 75 lestir af þorski og 34 lestir af ýsu, en óverulegur afli af öðrum tegundum.

Lög nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða komu til framkvæmda í upphafi árs 1991. Með lögum þessum var heimild til að velja veiðileyfi með sóknarmarki felld niður. Í I. bráðabirgðaákvæði laganna eru reglur um, hvernig aflahlutdeild einstakra skipa, 10 brl. og stærri, skuli ákveðin eftir að lögin koma til framkvæmda.

Meginreglan er sú, að úthlutun aflamarks á árinu 1990 samkvæmt ákvæðum reglugerðar nr. 585/1989, um stjórn botnfiskveiða 1990, skuli lögð til grundvallar. Fyrir skip, sem hafa aflamark á árinu 1990 ofan við meðaltal síns sóknarmarksflokks, er aflamarkið 1990 eitt ráðandi um aflahlutdeildina. Skip, sem eru undir þessu meðaltali, eiga hins vegar skv. 3. mgr. bráðabirgðaákvæðisins að fá reiknaðar uppbætur á aflamarkið 1990 og fyrir þessi skip er það samtala aflamarksins 1990 og uppbótanna, sem ákvarðar aflahlutdeildina. Uppbætur eru 40% af þeim mun, sem er milli meðaltalsaflamarks viðkomandi sóknarmarksflokks og aflamarks skipsins, eins og nánar er ákveðið í 3. mgr. bráðabirgðaákvæðisins. Þar sem [báturinn X] hafði ekki aflamark í upphafi árs 1990 ákvað sjávarútvegsráðuneytið bátnum aflamark og aflahlutdeild árið 1991 á grundvelli uppbótar samkvæmt fyrrgreindum ákvæðum 3. mgr. I. ákvæðis til bráðabirgða í lögum nr. 38/1990."

Í bréfi mínu til A greindi ég honum frá því, að ég teldi, að ákvörðun sjávarútvegsráðuneytisins frá 29. desember 1990 um veiðiheimildir bátsins X hefði verið í samræmi við lög nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða, sbr. og reglugerð nr. 465/1990 um veiðar í atvinnuskyni. Þá hefðu þær upplýsingar, sem A hefði fengið í sjávarútvegsráðuneytinu í ágúst 1989 um veiðiheimildir skipsins, verið í samræmi við þágildandi lög nr. 3/1988 um stjórn fiskveiða 1988-1990, sem giltu eftir eigin ákvæðum aðeins til ársloka 1990. Yrði ekki séð, að ráðuneytið hefði gefið nein fyrirheit um aflaheimildir bátsins eftir þann tíma, enda ekki í þess valdi.

Loks greindi ég A frá því, að umboðsmanni Alþingis væri ætlað að fjalla um stjórnsýslu ríkisins og sveitarfélaga. Það væri almennt ekki í verkahring hans að fjalla um lög, sem Alþingi hefði sett. Þótt lög nr. 38/1990 hefðu verið A óhagstæð, teldi ég mér ekki fært að fjalla um mál A á grundvelli 11. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis. Niðurstaða mín væri því sú, að ekki væri tilefni til frekari afskipta minna af málinu.