Skattar og gjöld. Tollar. Tollflokkun. Andmælaréttur. Málshraði.

(Mál nr. 7817/2013)

A ehf. leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir úrskurði ríkistollanefndar þar sem staðfestur var úrskurður tollstjóra um tollflokkun vendivarmadælu sem félagið hafði flutt inn til landsins. Í kvörtunininni voru m.a. gerðar athugasemdir við sérfræðiálit um virkni varmadælunnar sem ríkistollanefnd aflaði við meðferð málsins. Þá voru einnig gerðar athugasemdir við þann tíma sem afgreiðsla málsins tók hjá tollstjóra og ríkistollanefnd.

Umboðsmaður ákvað að afmarka athugun sína við það álitaefni hvort málsmeðferð ríkistollanefndar hefði verið í samræmi við fyrirmæli 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá beindist athugun umboðsmanns einnig að töfum við meðferð málsins hjá ríkistollanefnd.

Fyrir lá að sérfræðiálitið var ekki kynnt A ehf. áður en ríkistollanefnd kvað upp úrskurð sinn. Umboðsmaður taldi að um nýjar upplýsingar hefði verið að ræða sem bæst hefðu við í málinu án þess að félaginu hefði verið tilkynnt þar um. Af úrskurði nefndarinnar yrði ráðið að álitið hefði lotið að staðreyndum sem deilt var um í málinu og höfðu verulega þýðingu fyrir úrlausn þess. Þá hefði því ekki verið haldið fram að þær upplýsingar sem fram komu í álitinu hefðu verið A ehf. hagstæðar. Það var því niðurstaða umboðsmanns að málsmeðferð ríkistollanefndar hefði ekki verið í samræmi við 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Umboðsmaður tók einnig fram að sex mánuðir hefðu liðið frá því að ríkistollanefnd bárust andsvör A ehf. við kröfugerð tollstjóra þar til nefndin ákvað að óska eftir sérfræðiálitinu. Umboðsmaður taldi að sá dráttur hefði verið umfram það sem eðlilegt gæti talist og að málsmeðferð ríkistollanefndar hefði því ekki verið í samræmi við málshraðareglu 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Umboðsmaður beindi þeim tilmælum til ríkistollanefndar að nefndin tæki mál A ehf. til meðferðar á ný, kæmi fram beiðni þess efnis frá félaginu, og hagaði þá meðferð málsins í samræmi við þau sjónarmið sem fram kæmu í álitinu. Þá beindi umboðsmaður þeim almennu tilmælum til nefndarinnar að hún tæki í störfum sínum framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem rakin væru í álitinu.

I. Kvörtun.

Hinn 31. desember 2013 leitaði B til umboðsmanns Alþingis og kvartaði fyrir hönd A ehf. yfir úrskurði ríkistollanefndar frá 25. febrúar 2013. Með úrskurðinum var staðfest niðurstaða tollstjóra um tollflokkun vendivarmadælu sem félagið flutti til landsins 13. apríl 2011.

Í kvörtun A ehf. eru gerðar athugasemdir við niðurstöðu ríkistollanefndar um tollflokkun vörunnar. Í því sambandi eru m.a. gerðar athugasemdir við umfjöllun í sérfræðiáliti sem ríkistollanefnd aflaði við meðferð málsins. Þá eru einnig gerðar athugasemdir við þann tíma sem afgreiðsla málsins tók hjá tollstjóra og ríkistollanefnd.

Ég lauk máli þessu með áliti, dags. 29. júlí 2014.

II. Málavextir.

Samkvæmt gögnum málsins eru helstu málavextir þeir að hinn 13. apríl 2011 fluttu A ehf. inn vendivarmadælu af gerðinni Panasonic SuperScroll frá Svíþjóð. Í aðflutningsskýrslu var varan færð í tollflokk 8415.8100 og hlaut hún SMT-tollafgreiðslu samdægurs. Hinn 21. júní 2011 gerði tollstjóri athugasemd við tollflokkun vörunnar og var varan í kjölfarið ákvörðuð í tollflokk 8418.6101. A ehf. kærðu framangreinda tollflokkun vörunnar með bréfi til tollstjóra, dags. 21. júlí 2011. Kvað tollstjóri upp úrskurð í málinu 30. janúar 2012 þar sem flokkun vörunnar í tollflokk 8418.6101 var staðfest.

Með kæru, dags. 30. mars 2012, skutu A ehf. úrskurði tollstjóra til ríkistollanefndar. Í kærunni var þess krafist að úrskurður tollstjóra yrði felldur úr gildi og varan flokkuð í tollflokk 8415.8100. Í tilefni af kærunni óskaði ríkistollanefnd eftir umsögn tollstjóra sem barst nefndinni með bréfi embættisins, dags. 14. maí 2012. Í umsögninni kom fram að ágreiningur málsins lyti að því hvort Panasonic SuperScroll breytti rakastigi jafnt sem hitastigi. Hefði kærandi haldið því fram að tækið breytti rakastigi. Tollstjóri teldi aftur á móti að svo væri ekki. Tók tollstjóri fram að niðurstaða hins kærða úrskurðar byggðist fyrst og fremst á þeirri staðreynd að Panasonic SuperScroll breytti ekki rakastigi og gæti því ekki fallið undir vöruflokk 8415 í tollskrá eins og kærandi hefði krafist. Af vörulýsingu yrði ekki annað séð en að varan félli best að lýsingu skýringarrita Alþjóðatollstofnunarinnar fyrir vörulið 8418. Athugasemdir A ehf. við framangreinda umsögn tollstjóra bárust ríkistollanefnd með bréfi, dags. 6. júní 2012. Þar var ítrekuð sú afstaða félagsins að flokka bæri vöruna í tollflokk 8415.

Með bréfi til X, dags. 8. janúar 2013, óskaði ríkistollanefnd eftir sérfræðiáliti hans á „virkni [varmadælu af gerðinni Panasonic Superscroll] með það fyrir augum að hægt [yrði] með afgerandi hætti að úrskurða um tollflokk tækisins“. Umbeðið álit barst nefndinni með bréfi X, dags. 18. janúar 2013. Ríkistollanefnd kvað upp úrskurð sinn í málinu 25. febrúar 2013. Með úrskurðinum var úrskurður tollstjóra, dags. 30. janúar 2012, staðfestur. Í úrskurði ríkistollanefndar var rakið að með vísan til heimildar í 7. mgr. 118. gr. tollalaga nr. 88/2005 hefði nefndin leitað eftir aðstoð sérfræðings. Var meginefni sérfræðiálits X tekið orðrétt upp í úrskurðinum. Þá sagði eftirfarandi í úrskurði nefndarinnar:

„Í máli þessu er deilt um tollflokkun á varmadælu af gerðinni Panasonic SuperScroll en í úrskurði sínum nr. 3/2012 komst Tollstjóri að þeirri niðurstöðu að vara þessi skuli tollflokkuð í tnr. 8418.6101. Kærandi gerir kröfu um að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og krefst þess að varan verði ákvörðuð í tnr. 8415.8100. Til vara að hún verði felld undir annan tollflokk þannig að það leiði til sömu gjaldaniðurstöðu.

Svo sem fram kemur í áliti sérfræðings þess, sem nefndin leitaði til við úrlausn þessa máls, er ljóst að umsnúanlegar varmadælur (eða vendivarmadælur) vegna húshitunar og/eða kælingar starfa einungis til þess að hita upp eða kæla loft án þess að rakamagn loftsins breytist. Á hinn bóginn breytist rakastigið hvort sem er við upphitun og kælingu. Rakamagnið er á hinn bóginn að jafnaði óbreytt ef um er að ræða hýbýli eða vinnustaði.

Í máli því, sem hér er til úrlausnar er deilt um tollflokkun varmadælu. Fyrir liggur að tæki þetta er ekki hannað til þess að breyta og stjórna bæði hitastigi, rakastigi eða rakamagni. Þó svo að rakastig breytist eðli málsins samkvæmt við hefðbundna notkun slíkrar varmadælu felur notkun umræddrar varmadælu ekki í sér rakastýringu, þ.e.a.s. stjórnun á rakamagni í lofti. Með hliðsjón af skýringum í skýringarriti Alþjóðatollstofnunarinnar á vörulið 8415 verður því að fallast á það með Tollstjóra að umrædd vara geti ekki fallið undir vörulið 8415. Með vísan til þess sem nú hefur verið rakið er aðalkröfu kæranda því hafnað.“

III. Samskipti umboðsmanns Alþingis og stjórnvalda.

Gögn málsins bárust mér frá ríkistollanefnd 27. janúar 2014 samkvæmt beiðni þar um. Með bréfi til ríkistollanefndar, dags. 22. apríl 2014, var óskað eftir nánari upplýsingum og skýringum vegna málsins. Í bréfinu var rakið að samkvæmt gögnum málsins hefði nefndin óskað eftir sérfræðiáliti í málinu frá X. Af gögnum málsins yrði hins vegar ekki ráðið að A ehf. hefði gefist kostur á að gera athugasemdir við sérfræðiálitið. Var þess óskað að ríkistollanefnd upplýsti hvort A ehf. hefðu fengið tækifæri til að koma að athugasemdum vegna framangreinds sérfræðiálits áður en nefndin kvað upp úrskurð sinn í málinu. Hefði félagið ekki fengið slíkt tækifæri var jafnframt óskað eftir afstöðu nefndarinnar til þess hvort það hefði samrýmst 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Svör ríkistollanefndar við framangreindum fyrirspurnum bárust mér með bréfi, dags. 14. maí 2014. Í bréfinu var rakið að við vinnslu málsins hjá nefndinni hefði frá upphafi verið gætt andmælaréttar. Var tekið fram að kæra A ehf. hefði verið send tollstjóra til umsagnar. Umsögn tollstjóra ásamt gögnum hefði í framhaldinu verið send A ehf. til umsagnar og andsvara. Hefði þannig verið tryggt að öll gögn og sjónarmið beggja aðila væru til staðar áður en úrskurður var kveðinn upp. Var tekið fram í bréfinu að ekki þyrfti að deila um að rökstudd afstaða beggja aðila hefði legið fyrir í málinu áður en úrskurður nefndarinnar var kveðin upp.

Hvað varðar sérfræðiálit X kom fram í bréfi nefndarinnar að til að upplýsa málið frekar hafi nefndin talið ástæðu til að leita sjálf eftir sérfræðiáliti frá hlutlausum aðila. Sérfræðiálitið hafi hvorki verið kynnt fyrir kæranda né tollstjóra, en tilgangurinn með því að afla sérfræðiálitsins hafi fyrst og fremst verið sá að fá óháð mat sérfræðings um virkni þess tækis sem deilt var um tollflokkun á til frekari staðfestingar á tollflokkun vörunnar. Að mati ríkistollanefndar feli sérfræðiálitið í sér staðreyndir og verði því ekki séð að það hefði þjónað nokkrum tilgangi að senda álitið sem slíkt málsaðilum til umsagnar. Að lokum var tekið fram í bréfi nefndarinnar að sérfræðiálitið hafi ekki ráðið úrslitum um niðurstöðu nefndarinnar í málinu heldur hafi það miklu fremur stutt við niðurstöðu nefndarinnar sem þegar hafi verið að mótast á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Með bréfi til A ehf., dags. 14. maí 2014, var félaginu gefinn kostur á að gera athugasemdir við framangreind svör ríkistollanefndar og bárust mér athugasemdir félagsins með bréfi, dags. 27. maí 2014.

IV. Álit umboðsmanns Alþingis.

1. Afmörkun athugunar.

Eins og fram kemur í kafla I hér að framan lúta athugasemdir í kvörtun A ehf. m.a. að sérfræðiáliti sem ríkistollanefnd aflaði við meðferð málsins, en ljóst er af skýringum nefndarinnar að félaginu var ekki kynnt umrætt álit áður en nefndin kvað upp úrskurð sinn í málinu. Með hliðsjón af framangreindu hef ég ákveðið að afmarka athugun mína við það álitaefni hvort málsmeðferð ríkistollanefndar hafi verið í samræmi við fyrirmæli 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá hefur athugun mín einnig beinst að töfum við meðferð málsins hjá ríkistollanefnd. Áður en vikið verður að þessum álitaefnum í kafla IV.3 og IV.4 hér á eftir tel ég þó rétt að gera grein fyrir lagagrundvelli málsins í kafla IV.2.

2. Lagagrundvöllur málsins.

Samkvæmt 3. gr. tollalaga nr. 88/2005 hvílir tollskylda á hverjum þeim sem flytur vöru til landsins til endursölu, afhendingar án endurgjalds eða eigin nota, eða verður ábyrgur fyrir greiðslu tolla samkvæmt ákvæðum laganna, og skal hann greiða toll af hinni innfluttu vöru, nema annað sé tekið fram í tollskrá. Samkvæmt 5. gr. skal greiða toll af vörum sem fluttar eru inn á tollsvæði ríkisins eins og mælt er fyrir í tollskrá í viðauka I með lögunum. Skal tollur lagður á sem verðtollur á tollverð vöru eða sendingar eins og það er ákveðið samkvæmt ákvæðum 14.–16. gr. laganna og sem magntollur á vörumagn eftir því sem greinir í tollskrá samkvæmt viðauka I.

Í 117. gr. laganna er fjallað um kærur til tollstjóra. Þar kemur fram að telji tollskyldur aðili ákvörðun tollstjóra um gjaldskyldu, fjárhæð aðflutningsgjalda eða atriði sem liggja til grundvallar ákvörðun aðflutningsgjalda, svo sem tollverð og tollflokkun, eigi rétta geti hann sent skriflega rökstudda kæru, studda nauðsynlegum gögnum til tollstjóra. Ef ágreiningur er um tollmeðferð vöru sem hefur þegar verið tollafgreidd skal kæra send tollstjóra innan 60 daga frá tollafgreiðsludegi. Telji tollstjóri óljóst á hvaða rökum kæra er reist eða að fylgiskjöl séu ófullnægjandi skal hann gefa kæranda kost á að bæta úr því innan hæfilegs tíma. Ef þess er eigi gætt varðar vanreifun frávísun kæru. Úrskurða skal svo fjótt sem verða má og eigi síðar en innan 30 daga frá því að gagnaöflun er lokið. Úrskurður tollstjóra skal rökstuddur og tollskyldum aðila skal bent á heimild til þess að kæra úrskurðinn til ríkistollanefndar, sbr. 118. gr. Úrskurður skal sendur innflytjanda með sannanlegum hætti.

Í 44. gr. laganna er fjallað um ríkistollanefnd. Þar kemur fram að ríkistollanefnd skuli vera óháður úrskurðaraðili í ágreiningsmálum sem til hennar er skotið um ákvörðun tolla og annarra skatta og gjalda sem greiða ber við tollafgreiðslu, tollverð, tollflokkun og annað sem lögin mæla fyrir um. Um kærur til ríkistollanefndar er fjallað í 118. gr. laganna. Þar kemur fram að tollskyldur aðili geti skotið úrskurði tollstjóra um endurákvörðun samkvæmt 111.–113. gr., sbr. 114. gr., úrskurði tollstjóra um leiðréttingu samkvæmt 116. gr., kæruúrskurði samkvæmt 117. gr. og ákvörðun tollstjóra samkvæmt 21. gr. og 2. mgr. 145. gr. til ríkistollanefndar innan 60 daga frá póstlagningardegi úrskurðar eða ákvörðunar.

Í 3.-11. mgr. 118. gr. er að finna ítarleg ákvæði um málsmeðferð ríkistollanefndar. Samkvæmt 5. mgr. 118. gr. skal ríkistollanefnd tafarlaust senda tollstjóra kæru ásamt endurriti af þeim gögnum sem kunna að fylgja kæru. Skal nefndin gefa tollstjóra hæfilegan frest til að leggja fyrir nefndina kröfugerð sína í málinu og nauðsynleg gögn. Ríkistollanefnd skal gefa kæranda kost á andsvörum vegna kröfugerðar tollstjóra innan hæfilegs frests. Samkvæmt 7. mgr. 118. gr. er nefndinni heimilt að kveðja sérfróða menn sér til aðstoðar við úrlausn ágreiningsmála og krefjast upplýsinga samkvæmt ákvæðum laganna. Í 9. mgr. 118. gr. er tekið fram að nefndin skuli úrskurða um kærur eins fljótt og auðið er og eigi síðar en 60 dögum eftir að gagnaöflun er lokið. Sé munnlegur málflutningur viðhafður skuli úrskurður kveðinn upp innan 60 daga frá lokum málflutnings.

3. Andmælaréttur.

Úrskurðir ríkistollanefndar samkvæmt 118. gr. tollalaga nr. 88/2005 eru ákvarðanir um rétt eða skyldu manna í merkingu 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Við meðferð mála hjá nefndinni gilda því ákvæði stjórnsýslulaga samhliða þeim sérstöku málsmeðferðarreglum sem kveðið er á um í tollalögum. Í 5. mgr. 118. gr. laga nr. 88/2005 er mælt fyrir um það að ríkistollanefnd skuli m.a. gefa kæranda kost á andsvörum vegna kröfugerðar tollstjóra innan hæfilegs frests. Með framangreindu ákvæði er lögbundið að ríkistollanefnd ber að kynna kæranda kröfugerð tollstjóra og gefa honum kost á að tjá sig um hana. Ákvæðið felur hins vegar ekki í sér frávik frá þeim andmælarétti sem aðila máls er tryggður samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga. Ákvæði 13. gr. stjórnsýslulaga gilda því eftir sem áður um málsmeðferð ríkistollanefndar að því leyti sem þau kunna að gera ríkari kröfur en leiðir m.a. af ákvæðum 5. mgr. 118. gr. laga nr. 88/2005.

Samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga skal aðili máls eiga þess kost að tjá sig um efni máls áður en stjórnvald tekur ákvörðun í því, enda liggi ekki fyrir í gögnum málsins afstaða hans og rök fyrir henni eða slíkt sé augljóslega óþarft. Það leiðir af fyrirmælum 13. gr. stjórnsýslulaga að hafi nýjar upplýsingar bæst við í máli án þess að aðila sé kunnugt um það ber stjórnvaldi að hafa frumkvæði að því að kynna aðila slíkar upplýsingar og gefa honum kost á að tjá sig um þær, ef um er að ræða upplýsingar sem eru aðila í óhag og ætla má að muni hafa verulega þýðingu fyrir úrlausn málsins.

Samkvæmt niðurlagi 13. gr. stjórnsýslulaga er ekki skylt að gefa aðila kost á að tjá sig ef afstaða hans og rök fyrir henni liggja fyrir í gögnum málsins eða slíkt sé augljóslega óþarft. Framangreindar undantekningar frá andmælarétti ber almennt að skýra þröngt. Dæmi um tilvik sem kunna að falla undir síðastnefnda undantekningu eru m.a. þegar upplýsingar lúta að ótvíræðum atvikum sem ekki er deilt um, svo sem upplýsingar um aldur málsaðila eða kyn hans, eða þegar um er að ræða upplýsingar sem fyrirsjáanlegt er að ekki muni hafa verulega þýðingu fyrir niðurstöðu máls. Þá kann einnig að vera óþarft að veita aðila tækifæri til að tjá sig um upplýsingar ef ljóst er að þær eru honum að öllu leyti í hag. Sé aðila kunnugt um að nýjar upplýsingar hafi bæst við í máli og ætla má að hann þekki þegar innihald þeirra er stjórnvaldi almennt ekki skylt að hafa frumkvæði að því að gefa honum kost á að tjá sig um þær.

Fyrir liggur að A ehf. var ekki kynnt sérfræðiálit X og gefinn kostur á að tjá sig um það áður en ríkistollanefnd kvað upp úrskurð sinn í málinu. Þá hefur því ekki verið haldið fram í málinu að þær upplýsingar sem fram komu í sérfræðiálitinu hafi legið fyrir í öðrum gögnum málsins sem A ehf. hafi gefist kostur á að tjá sig um. Var því ótvírætt um að ræða nýjar upplýsingar sem bæst höfðu við í málinu án þess að A ehf. hefði verið tilkynnt þar um. Með vísan til framangreinds get ég ekki fallist á það viðhorf ríkistollanefndar sem fram kemur í skýringum nefndarinnar að rökstudd afstaða A ehf. hafi legið fyrir í málinu, hvað varðar þær upplýsingar sem fram komu í sérfræðiálitinu, enda óumdeilt að félaginu gafst ekki kostur á að taka afstöðu til álitsins áður en ríkistollanefnd kvað upp úrskurð sinn.

Í skýringum ríkistollanefndar til mín er jafnframt byggt á því að sérfræðiálitið hafi falið í sér staðreyndir og því verði ekki séð að það hefði þjónað tilgangi að senda það málsaðilum til umsagnar. Þá er jafnframt byggt á því að álitið hafi ekki ráðið úrslitum um niðurstöðu málsins heldur fremur stutt við niðurstöðu sem þegar hafi verið að mótast á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Ég legg þann skilning í skýringar nefndarinnar að nefndin hafi litið svo á að óþarft hafi verið af framangreindum ástæðum að kynna A ehf. sérfræðiálitið og gefa félaginu kost á að tjá sig um það.

Eins og fram kom í umsögn tollstjóra til ríkisskattanefndar sem rakin er í kafla II hér að framan laut ágreiningur málsins m.a. að því hvort hin umdeilda vendivarmadæla breytti rakastigi jafnt sem hitastigi eða hvort hún breytti einungis hitastigi. Í úrskurði ríkistollanefndar var lagt til grundvallar að vendivarmadælur störfuðu einungis til þess að hita upp eða kæla loft án þess að rakamagn loftsins breyttist. Var framangreind forsenda rökstudd í úrskurði nefndarinnar með vísan til þess sem fram kæmi í sérfræðiáliti X og m.a. lögð til grundvallar niðurstöðu nefndarinnar um tollflokkun varmadælunnar.

Samkvæmt framansögðu verður ekki annað ályktað af úrskurði ríkistollanefndar en að sérfræðiálitið hafi lotið að staðreyndum sem deilt var um í málinu og höfðu verulega þýðingu fyrir úrlausn þess. Þá verður rökstuðningur í úrskurðinum ekki skilinn öðruvísi en svo að niðurstaða nefndarinnar hafi að talsverðu leyti stuðst við þær upplýsingar og forsendur sem fram komu í framangreindu sérfræðiáliti. Ég legg áherslu á að af úrskurði nefndarinnar verður ekki annað séð en að sérfræðiálitið hafi haft þýðingu fyrir mat á eiginleikum varmadælunnar sem réðu úrslitum um tollflokkun hennar. Ég get því ekki fallist á þá afstöðu ríkistollanefndar að það hefði ekki þjónað tilgangi að gefa A ehf. kost á að tjá sig um þær upplýsingar sem fram komu í álitinu. Ég tek einnig fram, vegna þess sem fram kemur í skýringum nefndarinnar að álitið hafi einungis stutt við niðurstöðu sem þegar hafi verið að mótast á grundvelli fyrirliggjandi málsgagna, að nefndin hefur ekki haldið því fram í skýringum sínum að hún hafi aflað annarra sérfræðilegra gagna um virkni varmadælunnar en framangreinds sérfræðiálits X. Þá hefur því ekki verið haldið fram í málinu að þær upplýsingar sem fram komu í sérfræðiálitinu hafi verið A ehf. hagstæðar þannig að óþarft væri að gefa því kost á að tjá sig um þær. Ég minni á í þessu sambandi að niðurstaða ríkistollanefndar, sem m.a. var reist á framangreindu sérfræðiáliti, var sú að hafna kröfum A ehf. og staðfesta hinn kærða úrskurð tollstjóra.

Með vísan til framangreinds get ég ekki fallist á þá afstöðu ríkistollanefndar að ekki hafi verið þörf á því að kynna A ehf. þá sérfræðilegu álitsgerð sem nefndin aflaði frá X áður en hún kvað upp úrskurð sinn í máli félagsins. Það er því álit mitt að málsmeðferð nefndarinnar hafi ekki verið í samræmi við 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

4. Tafir við málsmeðferð ríkistollanefndar.

Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skulu ákvarðanir í málum teknar svo fljótt sem unnt er. Í 9. mgr. 118. gr. tollalaga nr. 88/2005 kemur fram að ríkistollanefnd skuli úrskurða um kærur eins fljótt og auðið er og eigi síðar en 60 dögum eftir að gagnaöflun er lokið. Sé munnlegur málflutningur viðhafður skuli úrskurður kveðinn upp innan 60 daga frá lokum málflutnings.

Úrskurður ríkistollanefndar var kveðinn upp 25. febrúar 2013 en af úrskurðinum verður ráðið að kæra A ehf. hafi borist nefndinni 12. apríl 2012. Liðu því nærri tíu mánuðir frá því að kæran barst nefndinni þar til úrskurður var kveðinn upp. Samkvæmt því sem fram kemur í úrskurðinum var kæran send tollstjóra til umsagnar 12. apríl 2012 og barst svar tollstjóra 14. maí sama ár. Athugasemdir A ehf. í tilefni af umsögn tollstjóra eru dagsettar 6. júní 2012. Af úrskurði nefndarinnar verður ekki séð að aflað hafi verið frekari gagna í málinu fyrr en með bréfi nefndarinnar til X, dags. 8. janúar 2013, þar sem óskað var eftir sérfræðiáliti hans. Sérfræðiálitið var sent nefndinni með bréfi, dags. 18. janúar 2013, en eins og áður segir kvað nefndin upp úrskurð sinn 25. febrúar 2013.

Samkvæmt framansögðu verður ekki séð að ríkistollanefnd hafi aðhafst frekar í málinu frá því að nefndinni bárust athugasemdir A ehf., dags. 6. júní 2012, þar til nefndin óskaði eftir sérfræðiáliti X með bréfi, dags. 8. janúar 2013. Liðu þannig sex mánuðir frá því að nefndinni bárust andsvör kæranda við kröfugerð tollstjóra, sbr. 5. mgr. 118. gr. laga nr. 88/2005, þar til nefndin ákvað að óska eftir sérfræðiáliti samkvæmt 7. mgr. 118. gr. laganna.

Þótt úrskurður nefndarinnar hafi samkvæmt framangreindu verið kveðinn upp innan 60 daga frá því að nefndinni barst sérfræðiálit X, sbr. 9. mgr. 118. gr. laga nr. 88/2005, tel ég að sá dráttur sem varð á því að óskað væri eftir álitinu hafi verið umfram það sem eðlilegt getur talist í málum af þessu tagi. Hef ég þá m.a. í huga að sá 60 daga frestur sem kveðið er á um í 9. mgr. 118. gr. laga nr. 88/2005 gæti vart þjónað tilgangi ef ekki væri jafnframt gengið út frá því að nefndinni beri að ljúka gagnaöflun sinni innan hæfilegs tíma. Það er því álit mitt að málsmeðferð nefndarinnar hafi ekki verið í samræmi við 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

V. Niðurstaða.

Með vísan til þess sem að framan er rakið er það niðurstaða mín að málsmeðferð ríkistollanefndar í máli A ehf. hafi ekki verið í samræmi við 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Jafnframt er það niðurstaða mín að málsmeðferð nefndarinnar hafi ekki verið í samræmi við 1. mgr. 9. gr. sömu laga.

Ég beini þeim tilmælum til nefndarinnar að hún taki mál A ehf. til meðferðar á ný, komi fram beiðni þess efnis frá félaginu, og hagi þá meðferð málsins í samræmi við þau sjónarmið sem fram koma í álitinu. Þá beini ég þeim almennu tilmælum til nefndarinnar að hún taki í störfum sínum framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem rakin eru í álitinu.

VI. Viðbrögð stjórnvalda

Í svarbréfi yfirskattanefndar, sem nú hefur tekið við verkefnum ríkistollanefndar, í tilefni af fyrirspurn minni um málið kemur fram að greinargerð A ehf. vegna endurupptökubeiðni félagsins hafi borist ríkistollanefnd 30. nóvember 2014. Með bréfi til tollstjóra, dags. 2. desember 2014, hafi ríkistollanefnd sent embættinu greinargerð A ehf. til umsagnar. Málinu hafi verið ólokið í árslok 2014 og því meðal þeirra ágreiningsmála sem yfirskattanefnd fékk til meðferðar eftir að verkefni ríkistollanefndar færðust til hennar. Yfirskattanefnd hafi borist umsögn tollstjóra 12. janúar 2015 vegna endurupptökubeiðni A ehf. Umsögnin hafi verið send A ehf. með bréfi yfirskattanefndar, dags. 19. janúar 2015, og félaginu gefinn kostur á að tjá sig af því tilefni og leggja fram gögn til skýringar. Málinu sé ekki lokið en leitast verði við að hraða meðferð þessa máls eftir því sem frekast er unnt svo sem A ehf. hafi verið gefið vilyrði um með bréfi ríkistollanefndar 17. nóvember 2014. Þá tekur yfirskattanefnd fram að farið hafi verið yfir þau sjónarmið sem fram komi í álitinu og muni nefndin hafa þau í huga í störfum sínum. Samkvæmt upplýsingum frá yfirskattanefnd var málið enn til meðferðar 7. júlí 2015.