Stjórnun fiskveiða. Tilflutningur á leyfi til línu- og handfæraveiða.

(Mál nr. 370/1990)

Máli lokið með bréfi, dags. 19. mars 1991.

A kvartaði yfir því, að þau fyrirmæli 3. mgr. 8. gr. reglugerðar nr. 465/1990 um veiðar í atvinnuskyni, sem kvæðu á um það að óheimilt væri að flytja til báts, sem hefði fengið úthlutað aflahlutdeild, "...veiðileyfi til veiða línu- og handfæraveiða frá öðrum báti, jafnvel þótt sá bátur hafi verið tekinn úr rekstri og teljist sambærilegur að öðru leyti", væru andstæð 5. mgr. 1. gr. reglugerðarinnar.

Í bréfi mínu til A, dags. 19. mars 1991, sagði m.a. svo:

"Samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða má enginn stunda veiðar í atvinnuskyni við Ísland, nema hann hafi fengið til þess almennt veiðileyfi. Samkvæmt 2. mgr. 7. gr. laga nr. 38/1990 er með aflahlutdeild átt við þann afla, sem skipi er heimilt að veiða af tiltekinni fisktegund, er sætir takmörkunum að því er til heildarafla tekur, og helst hún óbreytt milli ára. Í 6. mgr. ákvæðis II til bráðabirgða í lögum nr. 38/1990 er útgerðum báta undir 6. brl., sem skráðir eru á skipaskrá fyrir tiltekinn tíma, gefinn kostur á að velja á árunum 1991, 1992 og 1993 leyfi með línu og handfæri með dagatakmörkunum í stað aflahlutdeildar. Ákvæðið gerir ráð fyrir því, að slíkt val sé bindandi, sbr. og 1. mgr. 8. gr. reglugerðar nr. 465/1990. Framangreint bráðabirgðaákvæði gerir hins vegar ráð fyrir því, að hlutdeild slíkra báta af heildarbotnfiskafla geti aukist að tilteknu marki, eins og nánar greinir í ákvæðinu.

Í 2. mgr. 5. gr. laga nr. 38/1990 er kveðið á um, að ef skip, sem á kost á veiðileyfi, hverfi varanlega úr rekstri "...má veita nýju eða nýkeyptu sambærilegu skipi veiðileyfi í þess stað, enda hafi veiðiheimildir þess skips, er úr rekstri hvarf, ekki verið sameinaðar varanlega veiðiheimildum annarra skipa eða horfið til Hagræðingarsjóðs sjávarútvegsins." Í upphafi 1. mgr. 11. gr. kemur fram, að sé rekstri skips hætt, skuli úthluta nýju eða nýkeyptu skipi í eigu sama aðila aflahlutdeild hins eldra skips, enda sé um sambærileg skip að ræða."

Ég tjáði A í umræddu bréfi að af því, sem hér að framan hefur verið rakið, mætti í fyrsta lagi ráða, að ekki fengi staðist, að bátur, sem hefði aflahlutdeild, gæti jafnframt fengið veiðileyfi til línu- og handfæraveiða með dagatakmörkunum. Þá yrði í öðru lagi ráðið, að 1. mgr. 11. gr. laga nr. 38/1990 tæki fyrst og fremst til báta, sem hefðu aflahlutdeild. Samkvæmt 13. gr. laga nr. 38/1990 gæti ráðherra sett nánari reglur um framkvæmd laganna. Þá kæmi fram í 8. mgr. II. ákvæðis til bráðabirgða, að ráðherra setti nánari reglur um úthlutun aflahlutdeildar báta, sem væru minni en 10 brl.

Niðurstaða athugana minna á kvörtun A var því sú, að fyrirmæli 3. mgr. 8. gr. reglugerðar nr. 465/1990 um bann við flutningi veiðileyfis til línu- og handfæraveiða væru í samræmi við fyrirmæli laga nr. 38/1990 og hefðu fullnægjandi stoð í þeim lögum.