Ákvörðun aflahlutdeildar á grundvelli aflahámarks miðast við veiðireynslu.

(Mál nr. 449/1991)

Máli lokið með bréfi, dags. 4. október 1991.

A kvartaði yfir úthlutun sjávarútvegsráðuneytisins á veiðiheimildum fyrir bát sinn X fyrir tímabilið 1. janúar til 31. ágúst 1991. Bátinn eignaðist A í janúar 1988. Taldi A, að svo hefði um samist við fyrri eiganda bátsins, að aflareynsla hans skyldi fylgja bátnum. Í bréfi sjávarútvegsráðuneytisins til mín 1. ágúst 1991 kom fram að A hefði ekki framvísað til ráðuneytisins yfirlýsingu eða sönnun um að fyrri eigandi bátsins hefði heimilað A að nýta sér aflareynslu hans. Þá sagði svo í bréfi ráðuneytisins:

"Ráðuneytið vill taka fram að veiðiheimildir báta undir 10. brl. voru með öllu óframseljanlegar fyrir gildistöku laga nr. 38/1990. Tók það bæði til aflamarks sem byggðist á eigin aflareynslu og til almennra aflahámarka innan stærðarflokka báta. Liggi fyrir samningur milli kaupanda og seljanda um ráðstöfun aflareynslu er ráðuneytið reiðubúið að flytja aflaheimildir bátsins enda sé ákvörðun laga og reglugerða fylgt."

Í bréfi, er ég ritaði A 4. október 1991, gerði ég honum grein fyrir niðurstöðum athugana minna á kvörtun hans með eftirfarandi hætti:

"Að því er tekur til báta, sem á árinu 1990 stunda veiðar með aflahámarki, er byggir á eigin veiðireynslu í samræmi við reglugerð nr. 587/1989, um veiðar smábáta 1990, skal samkvæmt 3. mgr. II. bráðabirgðaákvæðis laga nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða miða við forsendur þess aflamarks við úthlutun aflahlutdeildar. Ákvæði 6. gr. reglugerðar nr. 587/1989 heimiluðu mönnum að sækja um veiðileyfi með aflahámarki, sem byggðist á eigin reynslu. Aflahámark skyldi þá ákveðið sem 80% af meðaltalsafla tveggja bestu áranna 1985, 1986 og 1987 eða sem 65% afla ársins 1987, eftir því hvort hærra reyndist, en skyldi þó aldrei vera hærra en 170 lestir af óslægðum fiski.

Þér eignuðust [bátinn] í byrjun árs 1988 og höfðuð þannig ekki eigin veiðireynslu af veiðum þess báts árin 1985 til 1987. Þér gátuð heldur ekki byggt rétt á eigin veiðireynslu fyrri eiganda bátsins á þeim árum, þar sem slík aflaheimild var óframseljanleg, sbr. E-lið 10. gr. laga nr. 3/1988 um stjórn fiskveiða 1988-1990 og 7. gr. reglugerðar nr. 587/1989. Af þessum ástæðum fullnægið þér eigi skilyrðum 3. mgr. II. bráðabirgðaákvæðis laga nr. 38/1990 fyrir því, að miða skuli aflaheimild [bátsins] við afla bátsins árin 1985-87. Tel ég, að ákvörðun sjávarútvegsráðuneytisins í því efni frá 19. febrúar 1991 sé í samræmi við lög.

Ég skil fyrrgreint bréf sjávarútvegsráðuneytisins frá 1. ágúst 1991 svo, að ráðuneytið sé reiðubúið að taka til athugunar að flytja aflaheimildir [bátsins], ef samningur liggur fyrir milli kaupanda og seljanda um ráðstöfun aflareynslu. Þar sem enginn slíkur samningur hefur verið lagður fyrir ráðuneytið samkvæmt gögnum málsins, tel ég ekki ástæðu til að fjalla nánar um það atriði."

Niðurstaða mín varð því sú, að ég taldi, að kvörtun A gæfi ekki tilefni til frekari afskipta af minni hálfu.