Ákvörðun aflahlutdeildar á grundvelli aflahámarks miðað við eigin veiðireynslu.

(Mál nr. 452/1991)

Máli lokið með bréfi, dags. 4. október 1991.

Sjávarútvegsráðuneytið synjaði A um að aflaheimildir bátsins X, tímabilið 1. janúar til 31. ágúst 1991, færu eftir eigin veiðireynslu hans. Í bréfi til A tók ég m.a. eftirfarandi fram:

"Að því er tekur til báta, sem á árinu 1990 stunda veiðar með aflahámarki, er byggir á eigin veiðireynslu í samræmi við reglugerð nr. 587/1989, um veiðar smábáta 1990, skal samkvæmt 3. mgr. II. bráðabirgðaákvæðis laga nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða miða við forsendur þess aflamarks við úthlutun aflahlutdeildar. Ákvæði 6. gr. reglugerðar nr. 587/1989 heimiluðu mönnum að sækja um veiðileyfi með aflahámarki, sem byggðist á eigin reynslu. Aflahámark skyldi þá ákveðið sem 80% af meðaltalsafla tveggja bestu áranna af árunum 1985, 1986 og 1987 eða sem 65% af afla ársins 1987, eftir því hvort hærra reyndist, en skyldi þó aldrei vera hærra en 170 lestir af óslægðum fiski."

Í gögnum málsins kom fram, að A hafði í upphafi ársins 1989 óskað eftir því, að aflareynsla af veiðum X yrði flutt yfir til báts síns Y. Heimilaði sjávarútvegsráðuneytið að flytja með þessum hætti 7 tonn af afla X. Ég greindi A frá því, að af þessum flutningi aflaheimilda leiddi, að X hefði verið haldið til veiða árið 1990 á grundvelli fasts aflahámarks báta í þeim stærðarflokki, sem X tilheyrði, sbr. C- og D-lið 10. gr. laga nr. 3/1988 og 5. gr. reglugerðar nr. 587/1989. Hefði A af þessum ástæðum ekki fullnægt skilyrðum 3. mgr. II. bráðabirgðaákvæðis laga nr. 38/1990 fyrir því að miða skyldi aflaheimild X við eigin aflareynslu hans af þeim báti. Taldi ég því, að ákvörðun sjávarútvegsráðuneytisins hefði verið í samræmi við lög, en þar væru aflaheimildir ákveðnar á grundvelli 4. mgr. II. bráðabirgðaákvæðis laga nr. 38/1990. Þá sagði svo í áðurgreindu bréfi mínu til A:

"Ég tel samkvæmt framansögðu, að úthlutun sjávarútvegsráðuneytisins á veiðiheimildum til [X] hafi verið í samræmi við lög nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða, sbr. og reglugerð nr. 465/1990 um veiðar í atvinnuskyni. Umboðsmanni Alþingis er ætlað að fjalla um stjórnsýslu ríkisins. Það er almennt ekki í verkahring hans að fjalla um lög, sem Alþingi hefur sett. Þótt lög nr. 38/1990 hafi reynst yður óhagstæð, tel ég mér ekki fært að fjalla um mál yðar á grundvelli 11. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis.

Niðurstaða mín er því sú, að ekki sé tilefni til frekari afskipta minna af máli því, sem kvörtun yðar lýtur að."