Fangelsismál. Meðferð náðunarbeiðna.

(Mál nr. 480/1991)

Máli lokið með bréfi, dags. 29. júlí 1991.

A kvartaði yfir því, að yfirvöld fangelsismála hefðu ekki lagt fyrir forseta Íslands náðunarbeiðnir, sem A hafði borið fram fyrir hönd tveggja manna. Í bréfi mínu til A, dags. 29. júlí 1991, benti ég á, að samkvæmt 13. gr. stjórnarskrárinnar léti forseti Íslands ráðherra framkvæma vald sitt og samkvæmt 14. gr. bæri ráðherra ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum. Það væri því hlutverk dóms- og kirkjumálaráðherra að ákveða í samræmi við reglugerð nr. 569/1988 um upphaf og lok fangavistar, sbr. 30. gr. laga nr. 48/1988 um fangelsi og fangavist, hvort leggja skyldi til við forseta Íslands að náðun skyldi veitt. Aðeins í því tilviki að náðun væri veitt væri atbeini forseta nauðsynlegur, sbr. 29. gr. stjórnarskrárinnar. Af framangreindu athuguðu væri því ekki ástæða til afskipta af minni hálfu af umræddum málum.