Skattar og gjöld. Skylda stjórnvalds til þess að senda áfram erindi, sem ranglega hefur verið beint til þess.

(Mál nr. 464/1991)

Máli lokið með áliti, dags. 29. desember 1992.

A kvartaði yfir því, að skattyfirvöld hefðu synjað honum um sjómannaafslátt. Jafnframt kvartaði A yfir því, hvernig skattyfirvöld hefðu tekið á máli hans. Skattstjóri hafði tekið skattframtal A til endurálagningar. Í stað þess að kæra endurákvörðunina til skattstjóra skaut A máli sínu til ríkisskattstjóra, sem synjaði A um endurupptöku. Kærði A þá ákvörðun til ríkisskattanefndar, sem vísaði kærunni frá, þar sem engin ákvörðun hefði verið tekin í málinu, sem kæranleg væri. Þar sem ekki lá fyrir úrskurður æðra stjórnvalds í málinu, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis, takmarkaðist rannsókn umboðsmanns við málsmeðferð ríkisskattstjóra varðandi það álitaefni, hvort því embætti hefði borið að framsenda málið til hlutaðeigandi skattstjóra, þar sem því hefði ranglega verið beint til ríkisskattstjóra. Umboðsmaður tók fram, að það væri grundvallarregla stjórnsýsluréttar að stjórnvaldi bæri að veita þeim, er til þess leituðu, nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar við mál, er snertu starfssvið þess. Yrði því að telja, að stjórnvaldi bæri að koma skriflegu erindi í hendur réttra aðila, ef erindinu hefði ranglega verið beint til þess. A hefði hins vegar ekki borið mál sitt undir ríkisskattstjóra, fyrr en að liðnum kærufresti til skattstjóra án þess að sýnt hefði verið, að afsakanlegar ástæður lægju þar að baki. Umboðsmaður taldi því ekki ástæðu til þess að gera athugasemdir við þá ákvörðun ríkisskattstjóra að líta á erindi A sem beiðni um breytingu á áður álögðum opinberum gjöldum samkvæmt 3. mgr. 101. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

I. Kvörtun og málavextir.

Hinn 20. júní 1991 leitaði A til mín, og kvartaði yfir því, að skattyfirvöld hefðu synjað honum um sjómannaafslátt við ákvörðun tekjuskatts 1989 vegna starfa hans á dýpkunarskipinu X. Þá kvartaði A einnig yfir því, hvernig skattyfirvöld hefðu tekið á máli hans. Skattstjóri Norðurlandsumdæmis vestra ritaði A bréf 29. janúar 1990 og tilkynnti honum um fyrirhugaðar breytingar á skattframtali hans fyrir árið 1989, að því er tók til sjómannaafsláttar. A svaraði bréfi skattstjórans með bréfi, dags. 14. febrúar 1990, og skýrði viðhorf sín til málsins. Með bréfi, dags. 12. mars 1990, tilkynnti skattstjóri Norðurlandsumdæmis vestra, að skattframtal A fyrir árið 1989 væri tekið til endurálagningar skv. 96. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt, þar sem litið væri svo á, að sjómannaafsláttur væri ekki leyfilegur vegna starfa á dýpkunarpramma.

Með bréfi, dags. 10. apríl 1990, kærði A endurálagninguna til ríkisskattstjóra. A barst svar við erindinu frá ríkisskattstjóra með bréfi, dags. 22. október 1990, þar sem erindinu var synjað.

Með bréfi, dags. 25. október 1990, kærði A endurálagninguna til ríkisskattanefndar. Hinn 10. júní 1991 kvað ríkisskattanefnd upp úrskurð í málinu og segir meðal annars í forsendum og niðurstöðu hans:

"Með bréfi, dags. 22. október 1990, synjaði ríkisskattstjóri endurupptökubeiðni kæranda. Því hefur engin sú ákvörðun verið tekin, er kæranleg sé til ríkisskattanefndar. Verður því að vísa kærunni frá.

ÚRSKURÐARORÐ:

Kærunni er vísað frá ríkisskattanefnd."

II. Athugun umboðsmanns Alþingis.

Í tilefni af kvörtun A ritaði ég ríkisskattstjóra bréf, dags. 30. september 1991, þar sem ég mæltist til þess meðal annars, að embætti ríkisskattstjóra gerði grein fyrir því, hvort ekki væru tök á því að A fengi efnisúrskurð í máli sínu hjá skattstjóra, sbr. 99. gr. laga nr. 75/1981, eða ríkisskattstjóra samkvæmt 3. mgr. 101. gr. sömu laga.

Ríkisskattstjóri svaraði með bréfi, dags. 2. apríl 1992, og sagði þar meðal annars:

"Umrætt bréf, dags. 10. apríl 1990, til ríkisskattstjóra er póststimplað á [S] 17. apríl 1990 og móttekið þann 20. apríl 1990 á skrifstofu embættisins.

Þær starfsreglur gilda hjá embættinu að berist bréf frá gjaldendum sem auðsjáanlega hafa verið send af misskilningi eða misgáningi til embættis ríkisskattstjóra í stað skattstjóra, ríkisskattanefndar eða annars aðila, eru þau bréf framsend til viðkomandi stofnunar með sérstöku bréfi þar sem fram koma ástæður framsendingar.

Umrætt bréf [A] var greinilega skráð til ríkisskattstjóra og póststimpill bréfsins bar það með sér að það hafði verið póstlagt nokkrum dögum eftir að kærufrestur til skattstjóra rann út. Athygli er vakin á því að bréfið er sent frá [S] sem bæði er heimilissveit [A] og aðsetur skattstjóra Norðurlandsumdæmis vestra.

Það hefur því verið mat þess starfsmanns embættisins sem fjallaði um framhaldsmeðferð máls [A] að hann óskaði eftir því við ríkisskattstjóra að hann nýtti heimild 3. mgr. 101. gr. laga nr. 75/1981 til upptöku máls [A], enda bréfið póststimplað fimm dögum eftir að kærufrestur til skattstjóra rann út. Slíkur háttur á afgreiðslu mála sem þessara er almennt viðhafður, enda því miður algengt að gjaldendur tapi af kærufrestum til annarra úrskurðaraðila og geta legið til þess ýmsar ástæður. Mál þetta fékk því að mati ríkisskattstjóra eðlilega meðferð hjá embættinu.

[...]

Hvað varðar tilmæli þau er fram koma í síðasta málslið bréfs Umboðsmanns Alþingis um hvort ekki séu tök á að [A] geti fengið efnislegan úrskurð í máli sínu vísast til þeirra atriða sem þegar hafa verið reifuð hér að framan varðandi afstöðu ríkisskattstjóra í samræmi við ákvæði 3. mgr. 101. gr. laga nr. 75/1981 þar sem heimild til ákvörðunar sjómannaafsláttar til handa [A] er ekki fyrir hendi.

Eins og fram kemur í synjunarúrskurði ríkisskattstjóra frá 22. október 1990 nýtti [A] sér ekki kæruheimild til skattstjóra, sbr. úrskurð skattstjóra, dags. 12. mars 1990.

Þar sem kærufrestur var ekki nýttur til skattstjóra, en kæran send til annars aðila, og hvorki kemur fram um að kæran væri ætluð skattstjóra né að fyrir hendi séu afsakanlegar ástæður fyrir seinkun á sendingu kærunnar til skattstjóra, verður ekki betur séð en hlutverki skattstjóra í þessu máli hafi endanlega lokið þann 12. apríl 1990. Þessum staðreyndum getur ríkisskattstjóri ekki breytt."

III. Niðurstaða.

Í niðurstöðu álits míns, dags. 29. desember 1992, í máli A sagði svo:

"1. Skilyrði til meðferðar málsins

Hvorki skattstjóri né ríkisskattstjóri höfðu kveðið upp úrskurð í umræddu máli. Voru þess vegna ekki fyrir hendi skilyrði til þess að ríkisskattanefnd tæki mál A til umfjöllunar að efni til, eins og fram kemur í úrskurði ríkisskattanefndar, dags. 10. júní 1991.

Meðal skilyrða fyrir því, að umboðsmaður Alþingis geti fjallað um kvörtun, er það skilyrði skv. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis, að máli hafi verið skotið til æðra stjórnvalds, áður en það er borið undir umboðsmann Alþingis. Þar sem þessu skilyrði er ekki fullnægt, brestur lagaskilyrði til þess að ég geti fjallað frekar um lögmæti þeirrar ákvörðunar skattstjóra Norðurlandsumdæmis vestra, að endurskoða álagningu skatta A fyrir árið 1989. Sama gildir um niðurstöðu ríkisskattstjóra í málinu. Hins vegar er það ekki því til fyrirstöðu, að ég fjalli um málsmeðferð ríkisskattstjóra.

2. Málsmeðferð ríkisskattstjóra

Það er grundvallarregla stjórnsýsluréttar, að stjórnvaldi beri að veita þeim, sem til þess leita, nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar við mál, er snerta starfssvið þess. Samkvæmt því verður að telja, að stjórnvaldi beri að koma skriflegu erindi í hendur réttra aðila, ef erindinu hefur ranglega verið beint til þess.

Með bréfi, dags. 12. mars 1990, var A tilkynnt um nefnda endurálagningu skatta. Hafði A þá 30 daga frest frá og með þeim degi, er tilkynning um endurákvörðunina var póstlögð, til að bera málið undir skattstjóra til úrskurðar, sbr. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt. A kærði endurákvörðunina með bréfi, dags. 10. apríl 1990. Af póststimpli að dæma var kæran hins vegar ekki send í pósti fyrr en 17. apríl, en þá var 30 daga fresturinn liðinn. Þar sem frestur til að bera málið undir skattstjóra var liðinn, er A beindi kæru sinni til ríkisskattstjóra, án þess að sýnt hafi verið að afsakanlegar ástæður lægju þar til grundvallar, tel ég ekki ástæðu til athugasemda við þá niðurstöðu ríkisskattstjóra, að líta á erindi A sem ósk um að ríkisskattstjóri tæki málið til meðferðar á grundvelli 3. mgr. 101. gr. laga nr. 75/1981.

3. Niðurstaða

Samkvæmt því, sem rakið hefur verið hér að framan, tel ég ekki ástæðu til athugasemda við þá niðurstöðu ríkisskattstjóra, að líta á erindi A sem ósk um að ríkisskattstjóri tæki málið til meðferðar á grundvelli 3. mgr. 101. gr. laga nr. 75/1981."