Fangelsismál. Reynslulausn. Agaviðurlög.

(Mál nr. 344/1990)

Máli lokið með bréfi, dags. 19. mars 1991.

A kvartaði í fyrsta lagi yfir afgreiðslu Fullnustumatsnefndar og Fangelsismálastofnunar ríkisins á beiðni sinni um reynslulausn. Í öðru lagi kvartaði A yfir refsingu, sem honum hefði verið gerð vegna agabrots og verið fólgin í flutningi úr fangelsi í Kópavogi í Hegningarhúsið við Skólavörðustíg.

Í bréfi mínu til A, dags. 19. mars 1991, sagði m.a. svo um fyrri lið kvörtunar hans:

"Samkvæmt 40. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 16/1976 og nr. 42/1985, um breytingu á þeim lögum, er heimilt að veita reynslulausn, þegar fangi hefur tekið út 2/3 hluta refsitímans, en þó er einnig heimilt að láta fanga lausan til reynslu, þegar helmingur refsitímans hefur verið afplánaður, ef sérstaklega stendur á. Við athugun mína hefur komið fram, að það er engan veginn föst regla, að reynslulausn sé veitt, þegar helmingur dæmdrar refsivistar hefur verið afplánaður. Könnun mín hefur heldur ekki leitt í ljós, að ólögmæt sjónarmið að öðru leyti hafi legið til grundvallar umræddri synjun um reynslulausn."

Varðandi síðari lið kvörtunarinnar sagði svo í bréfi mínu til A:

"Ég hef fengið greinargerð Fangelsismálastofnunar ríkisins um þetta mál með bréfi dómsmálaráðuneytisins 8. þ.m. og fylgir niðurlag greinargerðarinnar hér með í ljósriti. Ég er þeirrar skoðunar, að umræddur flutningur yðar milli fangelsa geti ekki flokkast undir viðurlög vegna agabrota, sbr. IV. kafla laga nr. 48/1988, þótt hann sé að rekja til slíkrar háttsemi. Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 48/1988 ákveður Fangelsismálastofnun, í hvaða fangelsi afplánun fer fram, og samkvæmt 1. mgr. 14. gr. sömu laga ákveður forstöðumaður fangelsis í samráði við Fangelsismálastofnun, hvernig gæslu skuli hagað, þegar fanga er heimilað að stunda nám. Samkvæmt þessu og þeim gögnum, sem fyrir liggja, hefur athugun mín ekki leitt í ljós, að ákvörðun um flutning yðar úr fangelsi í Kópavogi í Hegningarhúsið við Skólavörðustíg hafi verið reist á ólögmætum sjónarmiðum eða á annan hátt farið í bága við vandaða stjórnsýsluhætti."

Af þeim ástæðum, er að framan greinir, tjáði ég A að niðurstaða mín væri sú, að ég gæti ekki haft frekari afskipti af þeim málum, sem kvörtun hans lyti að.