Félagslegar íbúðir. Uppgjör við lok sameiginlegs viðhalds húsa í byggingarfélagi verkamanna.

(Mál nr. 234/1990)

Máli lokið með bréfi, dags. 27. júní 1991.

A kvartaði yfir uppgjöri, er fram fór, þegar eigendur íbúða í X-byggingarflokki Byggingarfélags verkamanna í Reykjavík ákváðu að stofna sérstök húsfélög, er tækju sameiginlegt viðhald byggingarflokksins í sínar hendur. Voru "jöfnunargreiðslur" lagðar á íbúðareigendur í þeim húsum í byggingarflokknum, sem fengið höfðu meira viðhald en önnur. Ekki var tekið tillit til þess, ef einstakar íbúðir í þeim húsum í byggingarflokknum, sem féllu undir greiðslur þessar, höfðu fengið mismikið viðhald. A lýsti kvörtun sinni nánar þannig, að sér hefði verið gert að leggja fram fé til umrædds uppgjörs vegna viðhalds, sem unnið var á gluggum annarra íbúða í húsinu. Eftir að hafa aflað upplýsinga og skýringa félagsmálaráðuneytisins á einstökum atriðum, gerði ég A grein fyrir niðurstöðum athugana minna með bréfi, dags. 27. júní 1991, en þar kom m.a. fram:

"Samkvæmt 83. gr. laga nr. 86/1988 um Húsnæðisstofnun ríkisins er félagsmönnum í byggingarfélögum verkamanna, sem annast sameiginlegt viðhald á íbúðum félagsmanna, heimilt að stofna húsfélög í samræmi við ákvæði laga nr. 59/1976 um fjölbýlishús, þannig að húsfélögin taki sameiginlegt viðhald í sínar hendur. Félagsmálaráðherra er falið að setja nánari ákvæði í reglugerð um framkvæmd þessarar greinar. Um framkvæmd þessa ákvæðis gilti 25. gr. reglugerðar nr. 180/1987, sem sett var með stoð í lögum nr. 60/1984 um Húsnæðisstofnun ríkisins, en í 66. gr. þeirra laga var að finna sams konar heimild og nú er að finna í 83. gr. laga nr. 86/1988. 25. gr. reglugerðar nr. 180/1987 var síðar breytt með 1. gr. reglugerðar nr. 30/1989.

Í 25. gr. reglugerðarinnar, eins og hún var áður en henni var breytt með reglugerð nr. 30/1989, sagði:

"Ef meirihluti íbúðareigenda í byggingarfélögum verkamanna í hverjum byggingarflokki samkvæmt 66. gr. laga nr. 60/1984 samþykkir að stofna húsfélög í samræmi við ákvæði laga nr. 59/1976, skulu þau húsfélög taka sameiginlegt viðhald fasteignanna í sínar hendur.

Innan 5 mánaða frá stofnun slíkra húsfélaga skal liggja fyrir uppgjör á greiðslum, viðhaldskostnaði og eignum viðkomandi byggingarflokks. Félagsmálaráðherra skal skipa þriggja manna starfshóp til þess að hafa umsjón með og sjá um framkvæmd þessa uppgjörs. Laun nefndarmanna skulu ákvörðuð af félagsmálaráðuneytinu.

Heimilt er að mynda húsfélag í hverju húsi fyrir sig vegna sameiginlegs viðhalds, sbr. 1. mgr."

Hinn 31. október 1987 barst félagsmálaráðuneytinu skjal með undirritun 30 félagsmanna í [X-byggingarflokki] Byggingarfélags verkamanna, þar sem þeir lýstu því yfir að þeir ætluðu að stofna húsfélag í samræmi við framangreint lagaákvæði. Skipaður var starfshópur þriggja manna vegna uppgjörs í samræmi við ákvæði 25. gr. reglugerðar nr. 180/1987. Starfshópurinn skilaði af sér uppgjöri í september 1988. Vegna ágreinings í starfshópnum skipaði félagsmálaráðherra 27. september 1988 sérstaka nefnd til þess að leggja mat á uppgjör byggingarflokks nr. 2 og skilaði sú nefnd af sér 1. nóvember 1988.

Niðurstaða starfshópsins og nefndarinnar var sú, að rétt væri að stofna til svokallaðra "jöfnunargreiðslna". Með því var íbúðareigendum í einstökum húsum í byggingarflokknum, sem höfðu fengið meira viðhald en önnur, gert að greiða í svokallaðan jöfnunarsjóð, sem notaður var til að greiða til þeirra, sem minna viðhald höfðu fengið. Taldi nefndin þetta heimilt samkvæmt 83. gr. laga nr. 86/1988 og 25. gr. reglugerðar nr. 180/1987, eins og hún var áður en henni var breytt með reglugerð nr. 30/1989, en auk þess væri það bæði sanngjarnt og eðlilegt að jafna með þessum hætti á milli húsa með peningagreiðslum. Samkvæmt uppgjörinu var eigendum hússins [nr....] gert að greiða sameiginlega í jöfnunarsjóðinn samtals kr. 62.468.- vegna viðhalds, sem húsið hafði fengið. Í hlut [A] sem eiganda einnar íbúðar í húsinu komu kr. 15.617.-

Kvörtun yðar beinist að því, að greiðslur í jöfnunarsjóðinn skuli hafa verið reiknaðar fyrir hvert hús, en með því hafi einstökum íbúðareigendum í húsi verið gert að greiða jafn mikið, þótt þeir hafi notið mismikils viðhalds. Er í sérstakri greinargerð, sem fylgdi kvörtuninni, bent á, að þessu sé helst til að dreifa, þar sem skipt hafi verið um glugga í sumum íbúðum hússins en öðrum ekki.

Eins og áður segir, er félagsmönnum í byggingarfélögum verkamanna, sem annast sameiginlegt viðhald á íbúðum félagsmanna, heimilt samkvæmt 83. gr. laga 86/1988 að stofna húsfélög í samræmi við ákvæði laga nr. 59/1976 um fjölbýlishús, þannig að húsfélögin taki sameiginlegt viðhald í sínar hendur. Starfshópur sá, sem félagsmálaráðuneytið skipaði samkvæmt 2. mgr. 25. gr. reglugerðar nr. 180/1987, eins og hún var áður en henni var breytt, taldi að rétt væri og eðlilegt að standa að uppgjöri viðhaldssjóðs [X- byggingarflokks] Byggingarfélags verkamanna með jöfnunargreiðslum. Sérstök nefnd, sem skipuð var til að meta störf starfshópsins, komst að sömu niðurstöðu, þó ekki vildi hún ganga jafn langt og starfshópurinn. Um var að ræða uppgjör á greiðslum vegna sameiginlegs viðhalds í skilningi félagssamþykkta Byggingarfélags verkamanna og laga nr. 59/1976 um fjölbýlishús.

Ég fellst á það með yður, að ofangreindir uppgjörshættir geti falið í sér, einir út af fyrir sig, að eigendum einstakra íbúða sé mismunað, svo sem í tilviki yðar. Ég tel hins vegar, að þá mismunun geti og eigi húsfélög þau, sem stofnuð voru, að leiðrétta. Er það niðurstaða mín, að ekki verði að lögum að því fundið, þótt af hálfu stjórnvalda hafi verið látið við það sitja að miða uppgjör, sem þau stóðu að, við einstök hús.

Samkvæmt framansögðu tel ég ekki ástæðu til athugasemda af minni hálfu í tilefni af kvörtun yðar og er afskiptum mínum af henni því lokið í samræmi við a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis."